Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 29

Stóru bankarnir hækka vexti á sama tíma um nánast sömu tölur

Þegar stóru bankarnir þrír hækka allir vexti um nánast sömu tölur á sama tíma, vekur það upp áleitnar spurningar um starfsemi þeirra. Vitandi að þjóðin stendur frammi fyrir afarkostum og hefur ekkert annað að leita.

Mörgum var brugðið þegar Arion banki tilkynnti að eigendur bankans hefðu ákveðið að hækka ávöxtunarkröfu sína og því yrði bankinn að hækka vexti íbúðalána, þrátt fyrir óbreytta stýrivexti. Með öðrum orðum, sækja meira fé í vasa viðskiptavina sinna. Sama gerði Íslandsbanki og nú Landsbankinn sem er í eigu þjóðarinnar.

Methagnaður stóru bankanna

Í fyrra skiluðu stóru bankarnir þrír 83,5 milljarða hagnaði, þeim mesta frá hruni sem voru að uppistöðu vaxtatekjur. Hagnaður Arion banka á árinu 2023 nam 25,7 milljörðum króna og var eigendum greiddur um þrettán milljarða króna arður. Í júní var hagnaður bankans vegna fyrri hluta ársins kominn í 9,9 milljarða.

Þjóð í greipum fákeppni á bankamarkaði

Á sama tíma berst þorri viðskiptavina bankans, sem hefur þar húsnæðislán, í bökkum vegna verðbólgu og hárra vaxta. Hjá mörgum losna samningar um óverðtryggð húsnæðislán um næstu mánaðarmót sem mun valda stökkbreytingu á afborgunum með tilheyrandi forsendubresti og greiðsluerfiðleikum. Margir til viðbótar munu verða neyddir í verðtryggð lán á afarkostum til að halda niðri greiðslubyrði og komast af. Þetta eru gríðarlega miklar hækkanir á skömmum tíma án réttlætingar. Á þjóð í greipum fákeppni á bankamarkaði. Nú væri gott að við ættum ennþá fleiri og öflugri sparisjóði, en stóru viðskiptabankarnir komust upp með að drepa þá flesta af sér og yfirtaka.

Banki í eigu þjóðarinnar

Arion banki steig fyrstur fram gegn viðskiptavinum sínum, næst kom Íslandsbanki sem enn er að hluta í eigu allra landsmanna. Að endingu kom að Landsbankanum, sem er í sameiginlegri eigu þjóðarinnar. Slóst þjóðin þannig í hóp þeirra eigenda bankanna sem hækka arðsemiskröfu sína og vexti til að hafa meira fé af fólki sem ekki getur leitað annað og sætir sameiginlegum afarkostum stóru bankanna. Þeir sem fara með hlut þjóðarinnar bera hér ábyrgð.

Þingnefnd rannsaki stóru viðskiptabankana

Þessar vaxtahækkanir hjá stóru bönkunum með litlu millibili vekja upp ýmsar spurningar og tímabært að þingið láti sig þetta varða. Hér þarf samkeppniseftirlitið einnig að stíga inn og efnahags- og viðskiptaráðherra. Þá þurfa stjórnvöld að hysja upp um sig við innleiðingu EES tilskipana um neytendavernd og fjármálaþjónustu, en á engu sviði er frammistaðan verri en þar.

Lokaorð

Þjóðin stendur frammi fyrir afarkostum og hefur ekkert annað að leita, þegar stóru bankarnir þrír, þar á meðal þeirra eigin banki, Landsbankinn, hækka vexti útlána á sama tíma um svipaðar tölur án þess að aðstæður hafi breyst aðrar en að bankarnir vilji taka meira til sín og skila enn meiri hagnaði til eigenda sinna. Á sama tíma berst stór hluti lántakenda sem aldrei fyrr í bökkum að láta enda ná saman vegna stökkbreyttra hækkana afborgana húsnæðislána. Þessi framganga nú er ekki bara vafasöm heldur vart siðleg. Það er svo sérstaklega gagnrýnivert að banka í eigu þjóðarinnar skuli vera beitt með þessum hætti gegn eigendum sínu.

Bjarni Jónsson

Höfundur er alþingismaður og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Nauteyri: skapandi fréttaskrif RUV

Ríkisútvarpið fór út fyrir sanndindarammann í gær í fréttaflutningi sínum um strok seiða úr landeldisstöð Háafells á Nauteyri. Í frétt RUV segir að „Allt að 150 laxaseiði fóru í sjóinn þegar óhapp varð við dælingu milli húsa Háafells að Nauteyri við Ísafjarðardjúp.“

Þetta rímar ekki við fréttatilkynningu Matvælastofnunar af atburðinum. Þar segir að „er ekki hægt að útiloka að um 150 seiði muni hafa komist í sjó“.

Þetta er fjarri því að vera það sama. Mast segir að mögulega hafi komist seiði í sjó en RUV fullyrðir að seiði hafi farið í sjó. Matvælastofnunin er eftirlitsstofnunin og hefur fengið upplýsingar um óhappið frá eldisfyrirtækinu og rannsakað málið. Það hefur RUV ekki gert. En það er meira krassandi að halda því fram að seiðin allt að 150 hafi farið í sjóinn. En vandi RUV er að það er ekki sannleikanum samkvæmt, með öðrum orðum skapandi fréttaskrif hjá fréttamanninum Rebekku Líf Ingadóttur, sem hún hefur ekki leiðrétt.

Við dælingu á seiðum milli húsa á Nauteyri var krani á drenlögn ekki að fullu lokaður. Fiskur komst út um opinn kranann og ofan í fjöru.

Fyrirtækið virkjaði strax viðbragðsáætlun vegna stroks og setti út net. Starfsfólk Háafells náði að tína upp seiði sem voru eftir í drenlögninni og seiði sem sprikluðu í fjöruborðinu. Um 50 seiði náðust að auki í net. Alls náði starfsfólk Háafells 2.560 seiðum.

Síðan er borið saman við seiðabókhaldið þar sem skráð eru fjöldi seiða inn og út. Niðurstaðan er að ekki er hægt að útiloka að um 150 seiði muni hafa komist í sjó fram samkvæmt lífmassabókhaldi fyrirtækisins. 

Það þýðir að ekki fundust nein seiði í sjó, né sást að nein seiði hefðu farið í sjó. Munurinn 150 seiði gæti verið vegna þess að seiði hafi komist í sjó, en skýringin gæti líka verið að seiðin hafi tapast fyrr í ferlinu, jafnvel að þau hafi aldrei verið sett í landstöðina. Það er einfaldlega ekki vitað.

Fullyrðing RUV þess efnis að seiðin hafi farið í sjó er ekki byggð á staðreyndum. Ríkisútvarpið er að setja fram fullyrðingu sem það hefur ekki fært rök fyrir.

Síðan hefði farið vel á því að RUV upplýsti um mögulegan skaða ef svo hafi farið. Það var ekki gert. Það er til dæmis hægt að fræðast um það með því að lesa greinargerð Hafrannsóknarstofnunar um áhættumat af erfðablöndun villts lax og eldislax. Þar kemur skýrt fram að lífslíkur síðbúinna strokufiska, eins og þessi smáu seiði eru, eru afar litlar, mætti jafnvel segja hverfandi. Svo má lesa líka að blöndun milli villts lax og eldislax þurfi að vera í miklum mæli og í langan tíma í árum talið til þess að hafa áhrif á samsetningu hrygningarstofns á villtum laxi – og ennfremur að þegar tekur fyrir blöndunina þá gangi blöndunin til baka og villti stofninn haldi örugglega velli.

150 lítil seiði er einn atburður og hefur engin áhrif, jafnvel þótt seiðin hafi komist í sjó – sem ekki er vitað.

En álit vísindamanna um nánast skaðleysi af atburðinum er líklega ekki jafn spennandi frétt.

-k

Reykhólar: 2 raðhús með 8 íbúðir í byggingu

Grunnur að raðhúsi Bríetar. Myndir: Kjartan Þór Ragnarsson.

Íbúðaleigufélögin Brák og Bríet eru hvor um sig að byggja fjögurra íbúða raðhús á Reykhólum og eru byggingaframkvæmdir hafnar. Auk þeirra er Tekta ehf að byggja raðhús með fjórum íbúðum fyrir Reykhólahrepp. Samtals eru því 12 íbúðir í byggingu þessa dagana á Reykhólum.

Til viðbótar mun sveitarfélagð innrétta í vetur tvær leiguíbúðir í Barmahlíð efri hæð fyrir eldri íbúða.

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri.

Íbúðir Bríets eru almennar leiguíbúðir en Brák byggir 4 íbúða raðhús skv. lögum um 52/2016 með stofnframlagi frá ríki og sveitarfélaga. ca. 20 millj. frá Reykhólahreppi að sögn Ingibjargar Birnu Erlingsdóttur.

Jóhanna Ösp Einarsdóttir, oddviti Reykhólahrepps segir mikla þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu, bæði hjá Reykhólahreppi og fyrirtækjum.

Grunnur að raðhúsi Brákar.

Hvað segir það um málstaðinn?

„Ég á enn eftir að hitta þann aðila í viðskiptalífinu sem vildi frekar 29 tvíhliða viðskiptasamninga í stað eins,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á málþingi í tilefni af 30 ára afmæli EES-samningsins fyrr á árinu þar sem hún beindi spjótum sínum að þeim sem bent hafa á mikla og vaxandi ókosti aðildar Íslands að samningnum. Hins vegar er vandséð hvað ráðherrann átti við enda virtist hann hafa verið að halda því fram að heyrði EES-samningurinn sögunni til þýddi það meðal annars endalok Evrópusambandsins.

Með orðum sínum var ráðherrann að vísa til þeirra 29 ríkja fyrir utan Ísland sem aðild eiga að EES-samningnum; 27 ríkja Evrópusambandsins auk Noregs og Liechtenstein sem eru líkt og Ísland í EFTA. Kæmi til þess að Ísland skipti EES-samningnum út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning, líkt og gert var í tilfelli Bretlands, annars stærsta viðskiptalands okkar, án þess að nokkuð færi á hliðina, væri hins vegar einungis um einn samning að ræða við ríki sambandsins enda hafa þau framselt vald sitt til að semja um slíka samninga til stofnana þess.

Hvað hin EFTA-ríkin varðar gildir vitanlega EFTA-sáttmálinn á milli þeirra og Íslands. Þannig yrði í mesta lagi um tvo viðskiptasamninga að ræða. Annars vegar við Evrópusambandið og hins vegar hin EFTA-ríkin. Kæmi til þess að EFTA-ríkin semdu saman við sambandið um fríverzlunarsamning yrði þó einungis um einn samning að ræða á milli Íslands og umræddra 29 Evrópuríkja. Fyrir vikið gæti sú mynd sem ráðherrann kaus að draga upp vart orðið að veruleika nema ekki einungis Evrópusambandið heldur einnig EFTA myndu líða undir lok.

Hengd á klafa hnignandi markaðar

Með fríverzlunarsamningnum við Bretland voru viðskiptahagsmunir Íslands tryggðir með óbreyttum hætti miðað við EES-samninginn. Ekki aðeins að mati utanríkisráðuneytisins heldur einnig hagsmunaaðila. Meira að segja formaður Viðreisnar gat ekki annað en viðurkennt það. Einungis var gagnrýnt að ekki hefðu náðst enn betri kjör. Á hinn bóginn felur samningurinn hvorki í sér framsal á valdi til viðsemjandans né upptöku á regluverki hans og kröfu um að það sé æðra innlendri lagasetningu (bókun 35) eins og í tilfelli EES-samningsins.

Mjög langur vegur er frá því að ríki standi í biðröð eftir því að fá aðild að EES-samningnum eða að gera samninga í anda hans við Evrópusambandið. Þvert á móti hafa þau kosið víðtæka fríverzlunarsamninga. Þá hafa til dæmis stjórnvöld bæði í Bretlandi og Sviss ítrekað afþakkað EES-samninginn og hliðstæða samninga. Yfirlýst markmið Evrópusambandsins í viðræðunum um útgöngu Breta úr röðum þess var að fá þá til þess að gangast undir sem mest af regluverki sambandsins til þess að tryggja að þeir yrðu ekki samkeppnishæfari en ríki þess.

Með aðildinni að EES-samningnum höfum við hengt okkur á klafa hnignandi markaðar miðað við aðra helztu markaði heimsins eins og er til dæmis áréttað í tveimur skýrslum sem birtar hafa verið á árinu og unnar fyrir Evrópusambandið, annars vegar af Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóra þess, og hins vegar Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, þar sem dregin er upp afar dökk mynd af stöðu sambandsins og hvernig það hafi dregizt aftur úr öðrum mörkuðum. Ekki sízt þegar kemur að samkeppnishæfni fyrirtækja.

Hver er efnahagslegi ávinningurinn?

Vaxandi framsal valds til stofnana Evrópusambandsins, með bæði óbeinum en í vaxandi mæli beinum hætti, í gegnum aðildina að EES-samninginn hefur iðulega verið réttlætt með fullyrðingum um að hún skipti landsmenn gríðarlegu máli efnahagslega eins ásættanlegt og það getur talizt að gera slíkt vald að verslunarvöru. Fullyrt hefur verið að ávinningurinn væri bæði ótvíræður og óumdeildur og jafnvel gengið svo langt að halda því fram að án hans myndi landið einangrast. Talsvert minna hefur þó farið fyrir haldbærum rökum í þeim efnum.

Frá því er skemmst að segja að ekkert er í raun hægt að fullyrða um ætlaðan efnahagslegan ávinning af aðildinni að EES-samningnum þar sem „hvorki almenn né sértæk hagfræðileg úttekt“ hefur verið gerð í þeim efnum svo vitnað sé til svars forsætisráðuneytisins við fyrispurn Kristins H. Gunnarssonar, þáverandi alþingismanns, í apríl 2009. Tiltekin var sú efnahagsþróun sem átt hefði sér stað frá gildistöku samningsins en tekið fram að erfitt væri að greina hvað mætti rekja til hans og hvað almennrar þróunar efnahagsmála hér heima og erlendis.

Frá þeim tíma hefur aðeins ein slíkt rannsókn verið gerð. Af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir ráðuneyti utanríkisráðherra sem skilað var 2018 en ekki birt af ráðuneytinu. Skýrslan skilaði þó í raun engum afgerandi niðurstöðum en þó var þess meðal annars getið að ekki væri að sjá að EES-samningurinn hefði leitt til aukinnar erlendrar fjárfestingar hér á landi. Skýrsla starfshóps undir forystu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, fyrir ráðuneytið haustið 2019 bætti í raun engu þar við frekar en í varla nokkrum öðrum efnum.

Höfum aldrei notið fulls tollfrelsis

Farin hefur einmitt gjarnan verið sú leið að eigna EES-samningnum nokkurn veginn alla jákvæða efnahagslega þróun bæði eftir og einnig fyrir gildistöku hans. Til dæmis tollfrelsi í viðskiptum með iðnaðarvörur við ríki Evrópusambandsins en komið var tollfrelsi á hérlendar iðnaðarvörur mörgum árum áður en EES-samningurinn kom til sögunnar með fríverzlunarsamningi Íslands við forvera sambandsins frá 1972 sem enn er í fullu gildi. Þá felur sá samningur í sér hagstæðari tollakjör en EES-samningurinn varðandi ýmsar sjávarafurðir.

Færa má raunar haldbær rök fyrir því, byggt á gögnum frá utanríkisráðuneytinu, að sjávarútvegshagsmunum þjóðarinnar væri mun betur borgið með víðtækum fríverzlunarsamningi en EES-samningnum. Einkum þar sem við höfum aldrei notið fulls tollfrelsis í þeim efnum í gegnum aðildina að honum og tollar hafa aðallega verið á unnum og þar með verðmætari afurðum. Á sama tíma hefur Evrópusambandið á liðnum árum samið um fullt tollfrelsi með sjávarafurðir í fríverzlunarsamningnum við ríki á borð við Kanada, Japan og Bretland.

Hægt væri að byggja víðtækan fríverzlunarsamning við Evrópusambandið á samningnum frá 1972 en sambandið hefur á liðnum árum verið að uppfæra eldri fríverzlunarsamninga sína með þeim hætti. Til þess að semja um slíkan samning þyrfti ekki að segja EES-samningnum fyrst upp. Það segir annars sitt um málstaðinn og trúna á hann að talin sé ekki aðeins þörf á því að skreyta samninginn óspart með stolnum fjöðrum heldur einnig að halda því fram að hér færi nánast allt á hliðina ef hans nyti ekki við. Þvert á staðreyndir málsins.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Ísafjarðarbær semur við Snerpu um ljósleiðaravæðingu

Snerpa á Ísafirði

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að taka tilboði frá Snerpu á Ísafirði um ljósleiðarauppbyggingu í Ísafjarðarbæ, sem er styrkt af Fjarskiptasjóði. Verkefnið er hluti af áætlun um að ljúka ljósleiðaravæðingu styrkhæfra svæða innan sveitarfélagsins. Styrkurinn nemur allt að 80.000 kr. á hvert tengt staðfang.

Fjarskiptasjóður veitir Ísafjarðarbæ 8 m.kr. styrk vegna verkefnisins og verða 101 staðfang í sveitarfélaginu styrkt. Styrkurinn mun duga fyrir kostnaði samkvæmt tilboði Snerpu og því sveitarfélaginu að kostnaðarlausu. verkið verður unnið á næstu tveimur árum, 40 – 50 staðföng verða tengd á þessu ári, 30 – 40 á næsta ári og verkinu lýkur 2026.

Snerpa mun ekki innheimta tengigjald á endanotanda og verður því verkið bæði sveitarfélaginu og notanda að kostnaðarlausu.

Skrá yfir staðföng.

Tónlistarskóli Bolungavíkur 60 ára

Tónlistarskóli Bolungarvíkur tók til starfa með formlegum hætti haustið 1964 og er því 60 ára um þessar mundir. Við skólann stunda nám liðlega 30 nemendur og 3 kennarar eru starfandi. Kenndar eru 11 greinar tónlistarinnar.

Stofnandi skólans var Ólafur Kristjánsson og gegndi hann starfi skólastjóra þar til hann tók við sem bæjarstjóri í Bolungavík. Það var mikil lyftistöng fyrir mannlíf og menningarlíf í bæjarfélaginu þegar skólinn tók til starfa.

Núverandi skólastjóri er Selvadore Rähni klarínettleikari.

Á morgun verður af þessu tilefni sérstök afmælishátíð í Félagsheimili Bolungavíkur með tónlist frá klassí til rokks.

Frítt verður á tónleikana í boði bæjarfélagsins, Arctic Fish og Orkubús Vestfjarða.

Ólafur Kristjánsson ungur að árum við píanóið.

Vestri: mikilvægur leikur á sunnudaginn

Hafin er keppnin í Bestu deildinni um það hvaða tvö lið falla úr deildinni. Sex lið sem enduðu í neðri hluta deildarinnar keppa innbyrðis um áframhaldandi sæti í deildinni. Fjögur lið munu forðast fall en tvö neðstu liðin munu leika í lengjudeildinni á næsta ári.

Einni umferð er lokið og næsta umferð verður um helgina. Þá kemur HK frá Kópavogi í heimsókn á sunnudaginn á Kerecis völlinn á Torfnesi á Ísafirði og leikur við Vestra.

Um er að ræða mjög mikilvægan leik fyrir Vestra. Liðið er í 11. sæti deildarinnar og kemst upp úr fallsæti ef Vestri vinnur HK.

Neðsta liðið er Fylkir og Vestri fær Fylkismenn í heimsókn vestur í síðasta leiknum á heimavelli þann 26. október. Í millitíðinni verða tveir leikir Vestra á útivelli, annars vegar gegn Fram og hins vegar KA frá Akureyri.

Strandabyggð : mótmælir harðlega 90% skerðingu lottótekna

Árný Helga Birkisdóttur, íþróttamaður HSS, og Jökll Ingimundur Hlynsson, efnilegasti íþróttamaður HSS

Sveitarstjórn Strandabyggðar ræddi á síðasta fundi sínum erindi frá Hérðssambandi Strandamanna, HSS, þar sem greint er frá breytingu á fyrirkomulagi á skiptingu lottótekna milli íþróttafélaga. með breytingunum verður grundvelli kippt undan starfsemi Héraðssambands Strandamanna. Niðurskurðurinn er úr 5 milljónum kr. í um 500 þúsund kr. að því er fram kemur í fundargerð.  Slík skerðing er rothögg við alla starfsemi HSS og verður þess valdandi að ekki verður hægt að halda úti stöðu framkvæmdastjóra segir þar ennfremur.

Bókað var að „Sveitarstjórn Strandabyggðar mótmælir harðlega þeirri aðför sem hér er gerð að íþróttastarfi í Strandabyggð og um land allt og varar við afleiðingum þess á forvarnarstarf, lýðheilsu og andlega heilsu ungmenna og allra þeirra sem stunda íþróttir og eiga mikið undir öflugu starfi félaga og samtaka.“

Sveitarstjóra Strandabyggðar var falið að óska eftir fundi með fulltrúum ÍSÍ og UMFÍ og koma þar mótmælum sveitarstjórnarinnar á framfæri og auk þess að senda bókunina á viðeigandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Nauteyri: mögulega strok seiða

Nauteyri.

Matvæastofnun greinr frá því nú í morgun að ekki sé hægt að útiloka að um 150 seiði hafi komist í sjó frá seiðaelidisstöð Háafells á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi þann 3. september sl.

Þann dag varð óhapp við dælingu seiða á milli húsa Háafells á Nauteyri við Ísafjarðardjúp . Dæling seiða hófst kl. 11:45 en var stöðvuð um 5 mínútum síðar þegar í ljós kom að krani á drenlögn var ekki að fullu lokaður. Fiskur hafði farið um opinn kranann og niður í fjöru.

Fyrirtækið virkjaði strax viðbragðsáætlun vegna stroks og setti út net. Starfsfólk Háafells náði að tína upp seiði sem voru eftir í drenlögninni og seiði sem sprikluðu í fjöruborðinu. Um 50 seiði náðust að auki í net. Alls náði starfsfólk Háafells 2.560 seiðum.

Seiðin voru um 120g að stærð og sjógönguhæf.

 

Vikuviðtalið: Hafdís Gunnarsdóttir

Ég heiti Hafdís Gunnarsdóttir, er Vestfirðingur í allar áttir. Titla mig stolt sem Hnífsdælingur og Ísfirðingur enda aldist ég upp á báðum þessum stöðum. Hnífsdalur var dásamlegur staður til að búa á sem barn enda léku allir saman á aldrinum 6-16 ára og þar var ég frægust fyrir að vera lamin óvart með hafnaboltakylfu í andlitið. Þá var ég í fyrsta skiptið að taka þátt í hringbolta og stóð víst full nálægt kylfumanninum, sem sveiflaði svo fast að hann sló mig óvart í andlitið. Ég græddi nefbrot, tvo rosaleg glóðuraugu og góða sögu til að segja á mannamótum út ævina. Á æskuárunum bjó ég líka á Nýfundnalandi í Kanada og í Guymas, Mexíkó sem gerði mér ótrúlega gott enda öllum hollt að fara út fyrir heimahagana.

Í dag vinn ég sem sviðsstjóri skóla- og tómstundssviðs Ísafjarðarbæjar sem er í senn krefjandi og virkilega áhugavert starf. Svo er ég varamaður í stjórn Landsnets. Mínu sviði tilheyra leik- og grunnskólar, íþróttahús, sundlaugar, skíðasvæðið, Dægradvöl, félagsmiðstöðvar og vinnuskóli. Ég er menntaður grunnskólakennari, vann sem slíkur í 9 ár í Grunnskólanum á Ísafirði og fannst það eitt skemmtilegast starf sem ég hef unnið. Mæli hiklaust með því að verða kennari. Þaðan fór ég yfir á velferðarsvið og vann nokkur ár sem ráðgjafi í barnavernd og svo sem forstöðumaður stoðþjónustu. Var svo bæjarfulltrúi, varaþingmaður og formaður fjórðungssambandsins í nokkur ár. Ég held samt að þau störf sem hafi mótað mig hvað mest séu sumarstörfin í Íshúsfélaginu og  sem héraðslögreglumaður. Starfið í Íshúsinu kenndi mér þrautseigju enda ekkert grin að standa tímunum saman og hreinsa fisk án þess að hlusta á útvarp eða tala við sessunaut. Lögreglustarfið kenndi mér svo auðmýkt, virðingu og mikilvægi svarts húmors til að komast í gegnum erfið verkefni.

Ég er gift Shirani Þórissyni og eigum við saman þrjá stráka Jón Gunnar, Guðmund og Þórð. Okkar sameiginlegu áhugamál eru íþróttir og ferðalög. Svo mikill er áhugi Shirans á golfíþróttinni að hann flytur lögheimilið sitt á golfvöllinn í Tungudal á sumrin og er alltaf mikil gleði á heimilinu þegar hann snýr aftur til byggða á haustin. Ég reyndi að stunda golfið með honum en þarf að ná aðeins betri tökum á innbyggða Fljótavíkur-drekanum sem gerir mig hvatvísa og örlítið ergilega þegar illa gengur. Ég hef meiri áhuga á skíðum en golfi og reyndi einu sinni að draga Shiran yfir í það sport en það endaði með sjúkrahúsdvöl hjá honum í 2 löndum og var bara vesen. Ég æfði svigsskíði sem krakki en síðastliðin ár hef ég meira stundað skíðagöngu enda frábær hreyfing og fátt sem toppar aðstæður á Seljalandsdalnum á góðum sólardegi.

Mér finnst frábært að búa á Ísafirði og ala hér upp börn. Það tekur okkur Shiran og tvo yngri strákana 1 mínútu að ganga í vinnu og skóla. Stutt að fara upp í íþróttahús þar sem strákarnir æfa sínar íþróttir og sækja nú nýja útikörfuboltavöllinn. Það besta við að búa á Ísafirði er að ég get farið úr vinnunni og 15 mínútum seinna verið komin á skíði í kyrrðinni upp á dal, sem eru þvílík lífsgæði.

Nýjustu fréttir