Þriðjudagur 3. september 2024
Síða 28

Ísafjarðarbær: hafnar að fjórhjól fari eftir gamla Seljalandsveginum

Seljaland í Skutulsfirði.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tók fyrir á síðasta fundi sínum erindi frá eigendum Engjavegar ehf./ATV-Ísafjörður þar sem farið var fram á heimild til þess að fara á fjórhjólum gamla Seljalandsveginn frá Skíðaveginum og niður að gamla Brúarnesti (það er, þar sem sá vegur lá í gamla daga
og er nú merktur vegslóði).

Fyrirtæki hefur síðustu 8 ár boðið upp á ferðir á fjórhjólum í kringum 4 mánuði á ári. Einkum er það þjónusta við skemmtiferðaskip og erlenda ferðamenn og eru seld mest 5 hjól í hverja ferð og með leiðsögumanni.

Ferðirnar hefjast í Æðartanga og þaðan er farið inn í fjörð og þaðan uppá Breiðadalsheiði, með viðkomu í Tunguskógi. Gestir fá að upplifa mikla náttúrufegurð og útsýni. Áætlanir fyrir sumarið gera ráð fyrir hátt í 1000 farþega segir í erindinu.

Ísafjarðarbær hefur tilkynnt fyrirtækinu að þessa leið megi ekki fara lengur og er búið að setja upp skilti sem bannar umferð vélknúinna ökutækja. Er bent á að fara hraðbrautina á fjórhjólunum.

Bréfritarar telja það öryggismál og að lágmarki beri akstur á þjóðveginum. Auk þess sé í ýmsum sveitarfélögum dæmi um samnýtingu slóða, þar sem slóði getur hentað fyrir hestamenn, göngufólk, hjólreiðafólk og vélknúnin ökutæki , allt í senn og þarf ekki eitt að útiloka annað.

Var því farið fram á leyfi til þess að samnýta þennan slóða með öðrum vegfarendum. Jafnframt var farið fram á fund með nefndinni til þess að fara yfir erindið.

Í afgreiðslu nefndarinnar segir að erindinu sé hafnað, um er að ræða göngustíg skv. Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020, umferð vélknúinna ökutækja er bönnuð skv. umferðarlögum.

Tálknafjörður: brúin í Smælingjadal kássufúin

Horft yfir Sveinseyri í Tálknafirði og áfram yfir fjörðinn til Lambeyrar.

Landeigendur jarðanna Lambadal og Suðureyri við vestanverðan Tálknafjörð hafa ritað bréf til bæjarráðs Vesturbyggðar og hafa lýst yfir miklum áhyggju af ástandi brúarinnar yfir ána í Smælingjadal.

Segjast þeir óttast að með aukinni umferð ár frá ári auk eigin umferðar landeigenda muni trébrú yfir ána í dalnum Smælingjadal (sem skilur jarðirnar að) gefa sig á næstunni. „Brú þessi var byggð á árunum 1960-70 úr tré og hefur tíminn nagað hressilega í hana, brúin er orðin kássufúin og eru nokkur ár síðan að dekkið í henni fékk svo litla lagfæringu en nú er svo komið að göt eru komin í þá lagfæringu og spýtur orðnar lausar og ganga til þegar ekið er yfir brúna.“

Ökumenn stærri bíla fari á vaði yfir ána en það gangi aðeins þegar vatnsbúskapur sé lítill.

„Við höfum af þessu stórar áhyggjur þar sem vitað er um mikla umferð þarna út eftir vegna ættarmóts þarna útfrá í júlí og þar sem þetta fellur undir flokkinn „styrkvegur“ þá er það sveitafélagið sem er bótaskylt hljótist tjón af brúnni.“

Sviðstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs Vesturbyggðar var falið að sækja um styrkvegafé til Vegagerðarinnar þegar opnað verður fyrir umsóknir.

Kort sem sýnir Tálknafjörð og Smælingjadal og utar Suðureyri.

 Rösklega einum kílómetra utan við Lambeyri er Smælingjadalur. Um dalinn fellur Smælingjdalsá og skiptir hún löndum milli Suðureyrar og Lambeyrar. Um Smælingjdal lá gönguleiðin frá Suðureyri á Patreksfjörð, yfir Lambeyrarháls og niður í Litladal sem gengur upp frá Geirseyri. 

Úr árbók Ferðafélags Íslands 1959 og Örnefnaskrár Suðureyrar og Lambeyrar.

Drangavík : Hvalárvirkjun undirrót landakröfunnar

Svona var niðurstaða Landsréttar um mörk jarðanna.

Hluti landeigenda jarðarinnar Drangavíkur hefur farið fram á það við Hæstarétt að hann heimili áfrýjun á dómi Landsréttar frá júní 2024 þar sem landakröfum þeirra var hafnað en samþykkt krafa eiganda jarðarinnar Engjaness um landamörk jarðanna.

Árið 2020 höfðuðu allmargir eigendur jarðarinnar Drangavík, handhafar 74,5% hluta jarðarinnar, mál á hendur eigendum nærliggjandi jarða Engjaness, Ófeigsfjarðar og Laugalands við Ísafjarðardjúp og sameigendum sínum að Drangavík, sem fara með 25,5% hlut, og kröfðust þess að fallist yrði á að jörðin væri allmiklu stærri en viðurkennt var.

Héraðsdómur Reykjavík hafnaði kröfunum í júlí 2022 og féllst jafnframt á gagnkröfur eiganda Engjaness um landamörkin og dæmdi stefnendur til þess að greiða allháar fjárhæðir í málskostnað.

Dómnum var áfrýjað til Landsréttar en þrír af landeigendum Drangavíkur ákváðu að una dómnum og stóðu ekki að áfrýjuninni. Voru það því eigendur að 61% hlut jarðarinnar sem áfrýjuðu.

Landsréttur kvað upp sinn dóm í síðasta mánuði og staðfesti að öllu leyti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Féll nú málskostnaðurinn á færri stefnendur og varð því hlutur hvers og eins hærri en í héraðsdómi.

Í erindi sínu til Hæstaréttar vekja stefnendurnir athygli á fyrirhugaðri Hvalárvirkjun:

„Í þessu sambandi er sérstaklega vísað til að undirrót máls þessa er fyrirhuguð Hvalárvirkjun. Eru áfrýjendur andstæðingar þeirra virkjunaráforma en aðrir meðeigendur þeirra hlynntir þeim.“

Stefnendur andvígir Hvalárvirkjun

Í fréttatikynningu frá apríl 2020 segja stefneindur í málinu að þeir telji að fyrirhuguð Hvalárvirkjun nái langt inn á eignarland sitt í Drangavík. „Nýting vatnasviðs Eyvindarfjarðarvatns er ein af forsendum Hvalárvirkjunar en vatnið telja eigendur Drangavíkur vera í sínu landi. Þeir hafa lýst sig andvíga virkjuninni og ætla ekki að heimila nýtingu vatnsréttinda jarðarinnar í þágu hennar.“

Fer ekki á milli mála að landakröfurnar og málshöfðunin er beinlínis í þeim tilgangi gerð að koma í veg fyrir Hvalárvirkjun. Liðin eru rúmlega fjögur ár frá upphafi þessarar vegferðar. Tvö dómsstig hafa hafnað með öllu landakröfunum og jafnframt staðfest landamörk eiganda Engjaness og Ófeigsfjarðar, en þeir fara með vatnsréttindi og hafa samið við Vesturverk um nýtingu vatnsins til virkjunar.

Hæstiréttur gefur aðilum máls frest til 12. ágúst til þess að bregðast við erindinu um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og mun að þeim tíma liðnum taka afstöðu til þess. Verði áfrýjun hafnað er málinu loks lokið, annars tekur við málsmeðferð fyrir Hæstarétti.

Fyrir Óbyggðanefnd stendur ríkið fyrir endurteknum málarekstri og krefst þess nú að verulegur hluti landsins sunnan og austan Drangajökuls verði lýst þjóðlenda og þar með verði eignarhaldið á landinu og vatnsréttindunum úr höndum landeigenda. Beinist krafan einkum að sömu jörðum Ófeigsfirði og Engjanesi. Verði krafan samþykkt verða virkjunaráformin að nýju í uppnámi. Landeigendur gætu borið málið fyrir dómstóla en það tæki væntanlega nokkur ár.

Ríkið gæti hugsanlega lýst því yfir að það myndi láta gerða samninga um nýtingu vatnsréttindanna standa og þannig greitt fyrir virkjunaráformum þótt málaferli stæðu yfir. En ekkert er vitað um afstöðu fjármálaráðherra eða forsætisráðherra sem fara með málin fyrir hönd ríkisins.

Hjá Óbyggðanefnd fengust þau svör að stefnt sé að uppkvaðningu úrskurðar í haust.

Í besta falli verða þessi deilumál úr sögunni á næstu mánuðum. Það gerist ef Hæstiréttur hafnar áfrýjun og ef Óbyggðanefnd hafnar þjóðlendukröfum ríkisins og ríkið ákveði að una þeim dómi. Það fyrra gæti legið fyrir í ágúst/september og það síðara um svipað leyti eða aðeins síðar.

-k

Svona voru landakröfur hluta eigenda Drangavík samkvæmt korti Sigurgeirs Skúlasonar landfræðings.

Sigurbjörg ÁR 67 komin til landsins

3018. Sigurbjörg ÁR 67. Ljósmynd Jón Steinar Sæmundsson 2024.

Nýtt skip Ísfélagsins hf í Vestmannaeyjum Sigurbjörg ÁR 67 kom til Hafnarfjarðar rétt fyrir hádegi í gær.

Skipið er að koma frá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Istanbul í Tyrklandi hvar það var smíðað. Siglingin heim tók um 15 daga, en lagt var af stað heim til Íslands 12. júlí síðastliðinn.

Skipið er ísfisktogari og er mesta lengd skipsins 48,1 metrar og breidd þess er 14 metrar.

Skipið er búið fjórum togvindum og með möguleika á þriggja trolla veiðum. Aðalvélin er 1.795 kW.

Skipið er hannað af íslenska skipahönnunarfyrirtækinu Nautic. Sama skrokklag er á skipinu og HB Granda skipunum sem Nautic hannaði upp úr 2015 með svokölluðu Enduro Bow stefni.

Sigurbjörg er styttra og breiðara skip en Akurey og Viðey.

Af skipamyndir.com

Félags- og samstöðuhagkerfið til umræðu í Háskólasetri

Dagana 12-13 september 2024 verður haldin ráðstefna í Háskólasetri Vestfjarða um félags- og samstöðuhagkerfið.

Social and Solidarity Economy (SSE), eða „Félags- og samstöðuhagkerfið“, eins og við höfum kosið að nefna það, eru regnhlífarsamtök fjölbreyttra samtaka, frjálsra félaga (NGOs), hjálparstofnanna, hagnaðar- og óhagnaðardrifinna fyrirtækja, samvinnufélaga, sjálfboðaliða hópa og annarra samtaka
og fyrirtækja sem hafa félags- og umhverfismarkmið að leiðarljósi í verslun og framleiðslu á ýmiskonar vöru og þjónustu er byggir á samvinnu, samstöðu, siðfræði og lýðræðislegri stjórnun.

Eins og mörg þessara hugmyndakerfa fjallar Félags- og samstöðuhagkerfið um nærsamfélagið, þar með talin fámenn bæjarfélög og þorp í dreifbýli. Það er því alveg ljóst að þær breytingar sem eru yfirvovandi eiga eftir að hafa mikil áhrif á sveitarfélög og hin ýmsu byggðarlög á landsbyggðinni.

Ráðstefnan, sem hér um ræðir, mun beina sjónum sínum sérstaklega að þeim möguleikum og tækifærum sem „Félags- og samstöðuhagkerfið“ hefur að bjóða þorpum og bæjum í hinum dreifðu byggðum landsins.

Hægt er að lesa meira um ráðstefnuna á vefsíðu Háskólaseturs

Selatalningin mikla í 15. sinn

Sjálfboðaliðar fengu þjálfun fyrir talninguna. Mynd: FB/Selasetur Íslands

Í Húnahorninu sem er vefmiðill í Húnavatnssýslu er sagt frá því að selatalningin mikla hafi farið fram í gær og að þetta sé í 15. sinn sem hún fari fram.

Alls tóku 48 sjálfboðaliðar þátt í talningunni í ár. Selir voru taldir á Vatnsnesi og Heggstaðanesi á svæði sem samsvarar um 107 kílómetra langri strandlengju.

Í laugardag fór fram afhending gagna, kynning og þjálfun á Selasetrinu og talningin sjálf hófst svo klukkan átta í gær og stóð fram til hádegis.

Niðurstöðu verða svo birtar seinna.

Viltu hjálpa fólki að tala íslensku? Hraðíslenska á Dokkunni.

Gefum íslensku séns óskar eftir almannkennurum 7. ágúst á Dokkunni klukkan 18:15.

Ertu áhugasöm eða áhugasamur um að hjálpa til við máltileinkun fólks? Viltu hjálpa fólki að æfa sig, verða betra í íslensku? Ef já, þá skaltu endilega melda þig í gegnum islenska@uw.is og skrá þig til leiks. Þetta er mjög skemmtilegt og gefandi.

Sjá líka hér.

Og hérna aðeins lengri texti:

Til móðurmálshafa og þeirra sem kunna málið mjög vel:

Það er trú okkar að langflestir sem búa á Íslandi vilji læra íslensku. En umhverfið er ekki alltaf íslenskuvænt. Oft skortir hvata, oft skortir tækifæri til að læra og æfa málið. Við viljum gera umhverfið íslenskuvænt, við viljum skapa tækifæri, við viljum skapa hvata.

Og vilt þú veita okkur liðsinni? Viltu kannski prófa að taka þátt? Allir geta nefnilega rétt hjálparhönd eða hjálparrödd í þessu tilfelli. Engin þörf er á málfræðikunnáttu. Mikilvægt er að búa að þolinmæði og að leitast við að tala hægt og skýrt, endurtaka, umorða, nota látbragð. Það er að segja finna leið til að útskýra á íslensku. Það er nefnilega hægt af því íslenska er ekki það óvinnandi vígi sem margir halda. Nei, íslenska er auðveldari en margir halda.

Málið lærist allavega ekki, nema að mjög, mjög litlum hluta, í gegnum hjálparmál. Íslenska lærist með að nota og heyra íslensku. Íslenska lærist í samfélaginu og af samfélaginu. Svo ef við viljum hjálpa fólki að læra málið, ef við viljum að íslenska sé almennt töluð þá þurfum við að leggja okkar að mörkum. Og það er fremur einfalt. Við þurfum bara að tala íslensku við fólk.

Hvað þetta er:

Það verður unnið með sömu hugmyndafræði og lýtur að harðstefnumóti eða svokölluðu speed-dateing-i nema hvað markmiðið er að æfa sig í íslensku ekki að ná í framtíðarmaka.

Aðalatriðið er auðvitað að þetta sé gaman. Það er líka mikilvægt að það sé gaman að læra íslensku, gaman að verða betri í íslensku.

Okkur vantar bæði móðurmálshafa og nemendur.

Hægt er að skrá sig (sign up) gegnum islenska@uw.is eða boða komu sína hér á FB. Ef þið komist svo ekki látið þá vinsamlega vita. Það er mikilvægt að reyna að hafa sirka jafnt í liðum, álíka marga móðurmálshafa og þá sem læra/æfa málið.

Með íslenskuvænum kveðjum.

Minningarmót í golfi um Birgi Valdimarsson

Þátttakendur og aðstandendur.

Sunnudaginn 28. júlí var haldið minningarmót um Birgi Valdimarsson, fyrrum félaga í Golfklúbbi Ísafjarðar. Met aðsókn var og þurfti að loka fyrir skráningu nokkrum dögum fyrir mótið, þar sem það var orðið fullt.

Leiknar voru 18 holur með Texas fyrirkomulagi, þar sem tveir kylfingar eru í liði og betri bolti talinn miðað við forgjöf. Startað var út á öllum teigum í einu, og þurfti sex í eitt hollið til að koma öllum fyrir. Mótið gekk einstaklega vel fyrir sig og létt yfir leikmönnum, algjörlega í anda Bigga heitins. Flestir höfðu keppt í Íslandsbanka mótinu daginn áður og voru því í góðu formi. Hópur af brott fluttum Ísfirðingum voru mættir til að heiðra minningu Bigga Vald og einstaklega gaman að fá þá í heimsókn. Veðrið var með besta móti, hlýtt og logn, en örlítil súld þegar leið á daginn.

Í fyrsta sæti voru bræðurnir Elmar Breki og Tómas Orri Baldurssynir. Í öðru sæti voru Hanna Mjöll Ólafsdóttir og Jakob Ólafur Tryggvason. Í þriðja sæti voru Kristín Hálfdánsdóttir og Gunnar Þórðarson.

Biggi hefði orðið 90 ára þriðjudaginn 30. júlí n.k. Sjálfur taldi hann að þetta væri ekki alveg rétt talið, þar sem hann hefði komið á götuna 14 ára gamall þegar hann flutti á mölina, en hann ólst upp í Miðvík við Aðalvík á Ströndum.  

Birgir gekk í hjónaband með  Maríu Erlu Eiríksdóttur 1957 og áttu þau einstaklega farsælt líf saman. Þau vöru tíðir gestir á Tungudalsvelli, óku um á golfbíl sem var nokkur nýlunda hjá okkur í Golfklúbbnum.

Hann var alla tíð lífsglaður og einstaklega orðheppinn, eitt af hans síðustu verkum var að keyra um á golfbílnum og hvetja keppendur í árlegu kvennamóti GÍ á Tungudalsvelli, þær sem vildu, þáðu „sveiflujafnara“ hjá Bigga, hann talaði um að mýktin í sveiflunni kæmi með góðum sopa.

Í Texas móti koma allir keppendur saman í hús á sama tíma og óhætt að segja að þröngt hafi verið á þingi í Golfskálanum. Verðlaunin voru einstaklega  vegleg, en veitt voru þrenn verðlaun ásamt verðlaunum fyrir þá sem næstir voru holu á par þrjú brautum og fullt af útdráttarverðlaunum

Það var einmitt Biggi sem tók þátt í að halda minningarmót um annan golf jöfur okkar ísfirðinga, Einar Val Kristjánsson. Þau mót voru árlegur viðburður og voru oftar en ekki tveggja daga mót.  Eitt sinn var Toyota Corolla frá Bílatanga og Toyota umboðinu í verðlaun fyrir þann sem næði holu í höggi á sjöttu braut. Ekki vannst bíllinn í þessu móti, en það mun hafa verið Biggi sem stóð fyrir tiltækinu.

Fjölskylda Birgis var viðstödd mótið og verðlaunaafhendinguna, ekkja hans Erla, börn hans og barnabörn. Golfklúbbur Ísafjarðar vil þakka þeim kærlega fyrir þetta glæsilega minningarmót og vonast til að hægt verði að endurtaka leikinn næsta sumar.   

Sigurliðin.

Í upphafi móts.

Myndir: aðsendar.

HG: 3,2 milljarða króna hagnaður af sölu Kerecis

Fram kemur í ársreikningi Hraðfrystihússins Gunnvör hf í Hnífsdal fyrir 2023 að félagið seldi á árinu alla hluti sína í Kerecis hf. Bókfærður söluhagnaður hlutanna nam 21,5 milj. evra, sem samsvarar 3,2 milljörðum íslenskra króna miðað við núverandi gengi evrunnar.

Í byrjun árs 2024 skrifaði félagið undir samning um smíði á nýju frystiskipi sem er ætlað að leysa Júlíus
Geirmundsson ÍS-270 af hólmi. Áætlaður afhendingartími er á árinu 2026.

Á árinu jók félagið einnig hlutafé sitt í dótturfélaginu sínu Háafelli ehf um 8,6 millj evra eða um 1,3 milljarða króna. Mikill uppbygging hefur átt sér stað hjá Háafelli ehf og gera stjórnendur félagsins ráð fyrir því að félagið skili hagnaði fyrir rekstrarárið 2026.

Rekstrartekjur HG voru í fyrra 7,2 milljarðar króna og að frádregnum kostnaði stóðu eftir um 1,5 milljarður króna. Til viðbótar voru nettótekjur af fjármagni um 2,7 milljarðar króna og skiluðu hlutdeildarfélög um milljarði króna í tekjur. Hagnaður fyrir tekjuskatt varð 5,2 milljarður króna. Tekjuskattur er 205 m.kr. Ákveðið var að greiða um 750 m.kr í arð.

Eignir félagsins eru bókfærðar 25 milljarðar króna, þar af eru veiðiheimildir 7,5 milljarðar króna. Eigið fé um 10 milljarðar króna eða um 40% af eignum.

Stjórn félagsins skipa:

Kristján G. Jóhannsson
Guðrún Aspelund
Gunnar Jóakimsson
Inga S. Ólafsdóttir
Jakob Valgeir Flosason.

Stærstu hluthafar í Hraðfrystihúsinu Gunnvör hf eru Ísfirsk fjárfesting með 29,16% hlutafjár. Þá F84 ehf með 20,20%, Langeyri ehf 11,71% og Einar Valur Kristjánsson með 7,09%.

Bíldudalur: nýtt tjaldsvæði verður við Skrímslasetrið

Skrímslasetrið á Bíldudal.

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur samþykkt tillögu heimastjónar Arnarfjarðar um að nýtt tjaldsvæði á Bíldudal verði við Skrímslasetrið og vísað málinu áfram til skipulags- og framkvæmdaráðs.

Gert er ráð fyrir fjármagni til vinnu við deiliskipulag fyrir nýtt tjaldsvæði á Bíldudal í fjárhagsáætlun 2024.

Nýr leik- og grunnskóli á Bíldudal verður staðsettur þar sem tjaldsvæðið er núna og því þarf að finna því nýja staðsetningu. Kostur við staðsetninguna við Skrímslasetrið er að starfsfólk gæti haft starfs- og kaffiaðstöðu í Muggsstofu.

Heimastjórnin benti á þrjár aðrar staðsetningar sem kæmu til greina, í fyrsta lagi við Völuvöll , á lóðinni Lönguhlíð 22 en búið er að rífa húsið og í þriðja lagi gæti tjaldsvæðið verið á lóð fyrrum Bíldudalsskóla.

Nýjustu fréttir