Tónlistarskóli Bolungarvíkur fagnar nú 60 ára afmæli. Skólinn hóf starfsemi 1. október 1964. Á heimasíðu skólans má finna ýmsar upplýsingar um sögu skólans og starfsemi hans gegnum árin.
Tónlistarskólinn er mikill happafengur fyrir Bolungarvík. Án hans værum við menningarlega fátækari og þeir sem komu að stofnun og rekstri skólans eiga þakkir skildar. Oft gleymist að erfiðar er að vera gefandi en þiggjandi hvað varðar menningu og listir.
Undirritaður var nemandi í fyrsta árgangi skólans og við þessi tímamót rifjast fjölmargt upp. Fyrstu árin starfaði skólinn á heimili foreldra minna að Traðarstíg 7 og Vitastíg 20. Fyrir nokkru sýndi faðir minn mér möppu með margvíslegum gögnum um stofnun og rekstur skólans þann tíma sem hann var skólastjóri. Fannst mér þetta áhugavert og ákvað að taka saman nokkra punkta svo þetta falli ekki í gleymsku.
Andrés Önd
Til gamans má geta þess að við Davíð bróðir vorum áskrifendur af Andrésar Andarblöðunum margfrægu. Á þeim árum voru svokölluð hasarblöð og Andrés í miklu uppáhaldi á Íslandi og fleiri löndum. Svíar elska enn Andrés Önd og horfa út í eitt á gamlar Andrésmyndir yfir jól og áramót. Andrésaræðið náði jú hápunkti fyrir komu sjónvarpsins og teiknimynda. Andrésarblöðin voru voru sett í þar til gerðar brúnar möppur og árum saman lúslesin af þeim nemendum skólans þeir biðu eftir næsta kennslutíma. Voru þetta líklega mest lesnu Andrésblöð landsins. Eflaust muna margir eldri nemendur enn eftir þessum Andrésarmöppum sem þarna voru einskonar hluti skólans. Enginn veit reyndar hvað varð um möppurnar en þeim smá fækkaði og hafa líklega verði „fengnar að láni“ en ekki skilað. Til fróðleiks fyrir þá sem yngri eru var kaldastríðspólitíkin á þessum árum svo hörð að Andrés var hreinlega bannfærður í Austur Evrópa en elskaður í vestrinu. Jóakim frændi var að mati þeirra fyrir austan allt of ríkur pjakkur.
Við sem spiluðum á fyrstu vortónleikunum 9. Maí 1965 munum væntanlega flest hversu stressuð við vorum að mæta og spila einleika á sviði fyrir framan foreldra og fjölmarga bæjarbúa.
Benedikt, Jónatan og Ólafur helstu hvatamenn að stofnun skólans
Rifja má upp að Benedikt, Jónatan og Óli málari vor helstu hvatamann að stofnun skólans. Ólafur var á árunum 1957 til 1964 búsettur í Reykjavík á vetrum, starfaði þar við málningarvinnu og að spila Jazz á Keflavíkurflugvelli fyrir herinn. Þá var Óli við nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og farinn að undirbúa sig undir fjölbreytta kennslu og rekstur tónlistarskóla.
Mikill áhugi var fyrir því að stofna tónlistarskóla í Bolungarvík og helstu hvatamenn stofnunar skólans voru þeir Benedikt Bjarnason, Jónatan Einarasson og Ólafur Kristjánsson. Ætla má að umræðan hafi byrjað þegar Óli var að mál ný hús þeirra beggja við Völusteinsstræti. Stofnun Tónlistarfélags Bolungarvíkur var formlega 10. Júní 1964 og Ólafur í framhaldinu ráðinn skólastjóri. Meðfylgjandi er fróðleg fundargerð Benedikts Bjarnasonar er lýsir vel aðdraganda að stofnun skólans.
Nefna má að þar á undan hafði Sigríður Norðquist verið með einkakennslu á píanó. Tónlistarfélagið var síðan starfandi allt til ársins 1989 er Bolungarvíkurkaupstaður tók yfir rekstur skólans og launagreiðslur.
Til þess að tengja stofnun skólans við eftirminnilegar tímasetningar í Bolungarvík má minna á að haustið 1966 var nýi” barnaskólinn“ vígður. Sundlaugin var vígð 1977 og íþróttahúsið 1984.
Á svipuðum tíma voru einungis fimm tónlistarskólar starfandi á landinu utan Reykjavíkur. Bolungarvík var þannig framarlega í röðinni á landsvísu. Tónlistarskólinn á Ísafirði var eldri eða frá árinu 1948 og Tónlistarskólinn á Akureyri frá 1946. Barnamúsikskólinn í Reykjavíkur var formlega stofnaður 1952.
Í upphafi og fyrsta veturinn voru 30 nemendur í skólanum. Skólinn átti fjögur hljóðfæri þ.e. trompett, klarinett, þverflautu og básúnu. Skólastjórinn lagði sjálfur til pianó og nokkur minni blásturshljóðfæri. Fyrsta skólaárið 22 nemendur á pianó, 1 á harmonium, 3 á blásturshljóðfæri og 4 á harmonikku. Einnig var kennd var tónfræði. Til eru gamlar efnisskrár frá fyrstu árunum og hægt er að fletta upp hvernig spiluðu og hvað þeir spiluðu.
Lúðrasveitin, Ísafjörður og karlakórinn
Kringum 1970 var í nokkur ár starfandi öflug lúðrasveit skólans. Töluvert var að gera hjá lúðrasveitinni. Dagarnir 17. Júní og Sjómannadagurinn voru t.d. fastir liðir í starfi lúðrasveitarinnar. Að öðrum ónefndum má nefna að Davíð var á fyrsta trompet, Muggi á básúnu, Pálmi Gests á saxafón, Kristján Ólafs á klarinett og Júlli Kitt á Súsafón. Það þurfti einn stóran og sterkan á Súsafóninn. Líklega átti skólinn ekki trommur því enginn var trommarinn.
Engin lúðrasveit var á Ísafirði á þessum árum og fórum við margsinnis, með rútunni, á Ísafjörð að spila. Strákarnir á Ísafirði voru ekkert allt of ánægðir með þessa spilandi Bolvíkinga og létu okkur stundum heyra það. Alla vega man ég er við spiluðum á Alþýðuhúsströppunum, líklega 1. maí, að við fengum nokkur slæm “hrepparígskomment”. Man sem betur fer ekki hverjir stóðu að þeim kommentum.
Til viðbótar við skólann og lúðrasveitina má nefna öflugan kirkjukór og Karlakórinn Erni í Bolungarvík. Óli var stjórnandi karlakórsins og sá almennt um allan undirleik í Bolungarvíkinni og þótti það sjálfsagt að skólastjórinn hefði þær skyldur. Árið 1983 sameinast karlakórar Bolungarvíkur, Þingeyrar og Ísafjarðar, fyrst með tvo stjórnendur Ólaf Kristjánsson og Kjartan Sigurjónsson. Starf kóranna féll niður í nokkur ár en það var svo árið 2002 að blásið var nýju lífi í kórinn. Tónlistarskólinn, Kirkjukórinn og Kalakórinn fá þannig stuðning hver af öðrum.
Nýr 25 milljóna flygill
Á 20 ára afmæli skólans 1984 var vígður nýr Steinway flygill í Félagsheimilinu. Velunnarar skólans höfðu lagt áherslu á að fá gott hljóðfæri í bæinn er gæti verið hvatning fyrir tónlistarlífið og að fá fleiri til þess að flytja tónlist í Bolungarvík. Flygillinn var þá eitt af bestu hljóðfærum landsins. Áætlað er að nýr sambærilegur Steinway kosti nú um 25 milljónir. Það koma í hlut Ólafs Kristjánssonar, Hálfdáns Einarssonar og Einars Jónatanssonar að standa fyrir söfnun til kaupanna. Talið er að þeir þrír hafi greitt stóran hluta kaupverðsins úr eigin vasa en það hefur jú reyndar aldrei komið fram. En nú má vissulega færa þeim bestu þakkir þótt liðin séu 40 ár frá kaupunum.
Óli lumar á nokkrum skemmtilegum sögum
Trúnaður nemenda og kennara er mikilvægur í öllu skólastarfi. En hér koma nokkrar skemmtilegar sögur sem ekki brjóta neinn trúnað.
- Ónefnd stúlka var feimin og kom ávallt í tíma með kanínuna sína í fanginu í tíma. Fékk frá henni andlegan styrk og stuðning. Samskiptin þróuðust þannig að Óla gekk best að ná sambandi við stúlkuna gegnum kanínuna sem flutti nemandanum öll skilaboð kennarans.
- Eitt sinn kom ungur efnilegur piltur frekar illa fyrir kallaður í tíma og trúði Óla fyrir því að ástæðan væri rifrildi foreldraranna. Málið var að pabbinn ætlaði að kjósa Kristinn Gunnarsson en mamman Óla og um það var hart á tekist.
- Hrólfur Vagnsson kom oft í tíma með harmonikuna á snjóþotu, þá nýbúinn að beita nokkra bala fyrir pabba sinn. Eitt sinn kom Hróflur óvænt illa æfður í tíma og sett var út á það. Hrólfur rauk út, sagðist hættur og mætti ekki í næsta tíma. Óli hringdi í Hrólf og sendi honum í framhaldinu vinsamlegt trúnaðarbréf. Enn er haldinn trúnaður um innihald bréfsins en Hrólfur geymir víst enn bréfið. Og Hrólfur hélt áfram náminu frá Bolungavík til Þýskalands og hefur gert garðinn frægann.
- Ein stúlkan upplýsti eftir fyrstu spilatímana, og það í smáatriðum, hvernig hún ætlaði að vera klædd á jólatónleikunum. „Kjóllinn átti að vera síður, blár og með hvítum blúndum á ermum og að neðan“. Og nákvæm lýsing var einnig á því hvernig skórnir ættu að vera á litinn.
- Skólinn átti sér ýmsa velunnara. Þegar skólinn var 10 ára gaf t.d. þáverandi rafveitustjóri, Benedikt Þ, andvirði eins skólagjalds til þess nemanda er mestri framför tæki á skólaárinu.
Gegnum árin hefur það verið mikill fengur að fá vestur fjölda hæfileikafólks í tónlist til starfa og kennslu við tónlistarskólana í Bolungarvík og á Ísafirði.
Hér látum við staðar numið en margt fleira mætti tína til um stofnun og starfsemi tónlistarskólans í Bolungarvík.
Að lokum vil ég óska skólanum, kennurum og nemendum sem og Bolungarvíkingum öllum velfarnaðar á komandi árum. Hvernig væri annars lífið án tónlistar?
Kristján B. Ólafsson, nemandi úr fyrsta árgangi skólans