Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 28

Tónlistarskólinn í Bolungarvík 60 ára

Tónlistarskóli Bolungarvíkur fagnar nú 60 ára afmæli. Skólinn hóf starfsemi 1. október 1964. Á heimasíðu skólans má finna ýmsar upplýsingar um sögu skólans og starfsemi hans gegnum árin.

Tónlistarskólinn er mikill happafengur fyrir Bolungarvík. Án hans værum við menningarlega fátækari og þeir sem komu að stofnun og rekstri skólans eiga þakkir skildar. Oft gleymist að erfiðar er að vera gefandi en þiggjandi hvað varðar menningu og listir.

Undirritaður var nemandi í fyrsta árgangi skólans og við þessi tímamót rifjast fjölmargt upp. Fyrstu árin starfaði skólinn á heimili foreldra minna að Traðarstíg 7 og Vitastíg 20. Fyrir nokkru sýndi faðir minn mér möppu með margvíslegum gögnum um stofnun og rekstur skólans þann tíma sem hann var skólastjóri. Fannst mér þetta áhugavert og ákvað að taka saman nokkra punkta svo þetta falli ekki í gleymsku.

Andrés Önd

Til gamans má geta þess að við Davíð bróðir vorum áskrifendur af Andrésar Andarblöðunum margfrægu. Á þeim árum voru svokölluð hasarblöð og Andrés í miklu uppáhaldi á Íslandi og fleiri löndum. Svíar elska enn Andrés Önd og horfa út í eitt á gamlar Andrésmyndir yfir jól og áramót. Andrésaræðið náði jú hápunkti fyrir komu sjónvarpsins og teiknimynda. Andrésarblöðin voru voru sett í þar til gerðar brúnar möppur og árum saman lúslesin af þeim nemendum skólans þeir biðu eftir næsta kennslutíma. Voru þetta líklega mest lesnu Andrésblöð landsins. Eflaust muna margir eldri nemendur enn eftir þessum Andrésarmöppum sem þarna voru einskonar hluti skólans. Enginn veit reyndar hvað varð um möppurnar en þeim smá fækkaði og hafa líklega verði „fengnar að láni“ en ekki skilað. Til fróðleiks fyrir þá sem yngri eru var kaldastríðspólitíkin á þessum árum svo hörð að Andrés var hreinlega bannfærður í Austur Evrópa en elskaður í vestrinu. Jóakim frændi var að mati þeirra fyrir austan allt of ríkur pjakkur.  

Við sem spiluðum á fyrstu vortónleikunum 9. Maí 1965 munum væntanlega flest hversu stressuð við vorum að mæta og spila einleika á sviði fyrir framan foreldra og fjölmarga bæjarbúa.

Benedikt, Jónatan og Ólafur helstu hvatamenn að stofnun skólans

Rifja má upp að Benedikt, Jónatan og Óli málari vor helstu hvatamann að stofnun skólans. Ólafur var á árunum 1957 til 1964 búsettur í Reykjavík á vetrum, starfaði þar við málningarvinnu og að spila Jazz á Keflavíkurflugvelli fyrir herinn. Þá var Óli við nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og farinn að undirbúa sig undir fjölbreytta kennslu og rekstur tónlistarskóla.

Mikill áhugi var fyrir því að stofna tónlistarskóla í Bolungarvík og helstu hvatamenn stofnunar skólans voru þeir Benedikt Bjarnason, Jónatan Einarasson og Ólafur Kristjánsson. Ætla má að umræðan hafi byrjað þegar Óli var að mál ný hús þeirra beggja við Völusteinsstræti. Stofnun Tónlistarfélags Bolungarvíkur var formlega 10. Júní 1964 og Ólafur í framhaldinu ráðinn skólastjóri. Meðfylgjandi er fróðleg fundargerð Benedikts Bjarnasonar er lýsir vel aðdraganda að stofnun skólans.

Nefna má að þar á undan hafði Sigríður Norðquist verið með einkakennslu á píanó. Tónlistarfélagið var síðan starfandi allt til ársins 1989 er Bolungarvíkurkaupstaður tók yfir rekstur skólans og launagreiðslur.

Til þess að tengja stofnun skólans við eftirminnilegar tímasetningar í Bolungarvík má minna á að haustið 1966 var nýi” barnaskólinn“ vígður. Sundlaugin var vígð 1977 og íþróttahúsið 1984.

Á svipuðum tíma voru einungis fimm tónlistarskólar starfandi á landinu utan Reykjavíkur. Bolungarvík var þannig framarlega í röðinni á landsvísu. Tónlistarskólinn á Ísafirði var eldri eða frá árinu 1948 og Tónlistarskólinn á Akureyri frá 1946. Barnamúsikskólinn í Reykjavíkur var formlega stofnaður 1952.  

Í upphafi og fyrsta veturinn voru 30 nemendur í skólanum. Skólinn átti fjögur hljóðfæri þ.e. trompett, klarinett, þverflautu og básúnu. Skólastjórinn lagði sjálfur til pianó og nokkur minni blásturshljóðfæri. Fyrsta skólaárið 22 nemendur á pianó, 1 á harmonium, 3 á  blásturshljóðfæri og 4 á harmonikku. Einnig var kennd var tónfræði. Til eru gamlar efnisskrár frá fyrstu árunum og hægt er að fletta upp hvernig spiluðu og hvað þeir spiluðu.

Lúðrasveitin, Ísafjörður og karlakórinn

Kringum 1970 var í nokkur ár starfandi öflug lúðrasveit skólans. Töluvert var að gera hjá lúðrasveitinni. Dagarnir 17. Júní og Sjómannadagurinn voru t.d. fastir liðir í starfi lúðrasveitarinnar. Að öðrum ónefndum má nefna að Davíð var á fyrsta trompet, Muggi á básúnu, Pálmi Gests á saxafón, Kristján Ólafs á klarinett og Júlli Kitt á Súsafón. Það þurfti einn stóran og sterkan á Súsafóninn. Líklega átti skólinn ekki trommur því enginn var trommarinn.

Engin lúðrasveit var á Ísafirði á þessum árum og fórum við margsinnis, með rútunni, á Ísafjörð að spila. Strákarnir á Ísafirði voru ekkert allt of ánægðir með þessa spilandi Bolvíkinga og létu okkur stundum heyra það. Alla vega man ég er við spiluðum á Alþýðuhúsströppunum, líklega 1. maí,  að við fengum nokkur slæm “hrepparígskomment”. Man sem betur fer ekki hverjir stóðu að þeim kommentum.

Til viðbótar við skólann og lúðrasveitina má nefna öflugan kirkjukór og Karlakórinn Erni í Bolungarvík. Óli var stjórnandi karlakórsins og sá almennt um allan undirleik í Bolungarvíkinni og þótti það sjálfsagt að skólastjórinn hefði þær skyldur. Árið 1983 sameinast karlakórar Bolungarvíkur, Þingeyrar og Ísafjarðar, fyrst með tvo stjórnendur Ólaf Kristjánsson og Kjartan Sigurjónsson. Starf kóranna féll niður í nokkur ár en það var svo árið 2002 að blásið var nýju lífi í kórinn. Tónlistarskólinn, Kirkjukórinn og Kalakórinn fá þannig stuðning hver af öðrum.

Nýr 25 milljóna flygill

Á 20 ára afmæli skólans 1984 var vígður nýr Steinway flygill í Félagsheimilinu. Velunnarar skólans höfðu lagt áherslu á að fá gott hljóðfæri í bæinn er gæti verið hvatning fyrir tónlistarlífið og að fá fleiri til þess að flytja tónlist í Bolungarvík. Flygillinn var þá eitt af bestu hljóðfærum landsins. Áætlað er að nýr sambærilegur Steinway kosti nú um 25 milljónir. Það koma í hlut Ólafs Kristjánssonar, Hálfdáns Einarssonar og Einars Jónatanssonar að standa fyrir söfnun til kaupanna. Talið er að þeir þrír hafi greitt stóran hluta kaupverðsins úr eigin vasa en það hefur jú reyndar aldrei komið fram. En nú má vissulega færa þeim bestu þakkir þótt liðin séu 40 ár frá kaupunum.

Óli lumar á nokkrum skemmtilegum sögum

Trúnaður nemenda og kennara er mikilvægur í öllu skólastarfi. En hér koma nokkrar skemmtilegar sögur sem ekki brjóta neinn trúnað.

  • Ónefnd stúlka var feimin og kom ávallt í tíma með kanínuna sína í fanginu í tíma. Fékk frá henni andlegan styrk og stuðning. Samskiptin þróuðust þannig að Óla gekk best að ná sambandi við stúlkuna gegnum kanínuna sem flutti nemandanum öll skilaboð kennarans.
  • Eitt sinn kom ungur efnilegur piltur frekar illa fyrir kallaður í tíma og trúði Óla fyrir því að ástæðan væri rifrildi foreldraranna. Málið var að pabbinn ætlaði að kjósa Kristinn Gunnarsson en mamman Óla og um það var hart á tekist.
  • Hrólfur Vagnsson kom oft í tíma með harmonikuna á snjóþotu, þá nýbúinn að beita nokkra bala fyrir pabba sinn. Eitt sinn kom Hróflur óvænt illa æfður í tíma og sett var út á það. Hrólfur rauk út, sagðist hættur og mætti ekki í næsta tíma.  Óli hringdi í Hrólf og sendi honum í framhaldinu vinsamlegt trúnaðarbréf. Enn er haldinn trúnaður um innihald bréfsins en Hrólfur geymir víst enn bréfið. Og Hrólfur hélt áfram náminu frá Bolungavík til Þýskalands og hefur gert garðinn frægann.
  • Ein stúlkan upplýsti eftir fyrstu spilatímana, og það í smáatriðum, hvernig hún ætlaði að vera klædd á jólatónleikunum. „Kjóllinn átti að vera síður, blár og með hvítum blúndum á ermum og að neðan“. Og nákvæm lýsing var einnig á því hvernig skórnir ættu að vera á litinn.
  • Skólinn átti sér ýmsa velunnara. Þegar skólinn var 10 ára gaf t.d. þáverandi rafveitustjóri, Benedikt Þ, andvirði eins skólagjalds til þess nemanda er mestri framför tæki á skólaárinu.

Gegnum árin hefur það verið mikill fengur að fá vestur fjölda hæfileikafólks í tónlist til starfa og kennslu við tónlistarskólana í Bolungarvík og á Ísafirði.

Hér látum við staðar numið en margt fleira mætti tína til um stofnun og starfsemi tónlistarskólans í Bolungarvík.

Að lokum vil ég óska skólanum, kennurum og nemendum sem og Bolungarvíkingum öllum velfarnaðar á komandi árum. Hvernig væri annars lífið án tónlistar?

Kristján B. Ólafsson, nemandi úr fyrsta árgangi skólans

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða: Ísafjarðarbær samþykkir fjárhagsáætlun 2025

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða er í Bolungavík.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar gerði athugasemdir við fjárhagsáætlun HEVF 2025 í síðustu viku og fól bæjarstjóra að kalla eftir skýringum og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs. Þær voru lagðar fyrir bæjarráð í gær og að þem fengnum samþykkti bæjarráðið fjárhagsáætlunina.

Rekstrarkostnaður eftirlitsins er áætlaður verða 71 m.kr. á næsta ári og hækkar um 5 m.kr. Launakostnaður er áætlaður 57 m.kr. og hækkar um 2 m.kr. Þrír starfsmenn eru nú í fullu starfi.

Ferðakostnaður hækkar um 1,2 m.kr. og verður 4,5 m.kr. er það einkum vegna reksturs bifreiðar. Heilbrigðiseftirlitið gerir út tvo bíla Tesla rafmagnsbíl og 10 ára gamlan Skoda Octavia.

Þá hækkar tölvuþjónusta milli ára um 1 m.kr.

Gert er ráð fyrir að sértekjur verði 3,5 m.kr. og verði óbreyttar milli ára. Eftirlitsgjöld skili um 38 m.kr. líkt og í ár. Eftir standa þá 29 m.kr. sem verða framlög sveitarfélaganna sem standa að eftirlitinu og hækka um 4 m.kr.

Brugðist var við athugasemdum á síðasta ári með því að hækka eftirlitsgjöldin og segir í skýringum Heilbrigðiseftirlitsins að það sé aftur gert núna. Miðað er við að eftirlitsgjöld standi undir 70% af kostnaði við rekstur heilbrigðiseftirlits en algengt sé það hjá heilbrigðiseftirliti annars staðar að það standi undir 50%.

Breikkun Súgandafjarðarleggs Vestfjarðaganga ekki áherslumál Fjórðungssambands Vestfirðinga

Við jarðgöngin í Súgandafirði.

Þegar Alþingi afgreiddi núverandi samgönguáætlun í júnímánuði 2020 sendi meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar frá sér ítarlegt álit. Þar var sett fram það álit að unnin verði heildstæð greining á jarðgangakostum á Íslandi. „Valkostir á einstaka leiðum verði þar metnir með tilliti til fýsileika, kostnaðar og félagshagfræðilegs ábata. Á grunni þeirrar greiningar verði jarðgangakostum forgangsraðað til lengri tíma.“

Meirihlutinn benti sérstaklega á 10 kosti og af þeim voru 5 á Vestfjörðum. Ein þeirra var breikkun Vestfjarðaganga.

Í framhaldinu fór af stað vinna við ofangreinda heildstæða greiningu. Fjórðungssamband Vestfirðinga hafði snemma árs fengið Hrein Haraldsson, fyrrverandi Vegamálastjóra til aðstoðar við gerð samgöngu- og jarðgangaáætlunar fyrir Vestfirði og skilaði hann af sér skýrslu í apríl 2021.

Hreinn talar aðeins um breikkun á Breiðadalslegg ganga undir Breiðadals- og Botnsheiði og segir hana muni verða aðkallandi þegar umferð hefur náð tilteknum mörkum, sem búast megi við að verði á næstu tveim áratugum eða svo. „Segja má að þessi aðgerð sé eingöngu öryggisráðstöfun sem líta ætti á eins og endurbyggingu almennra vega og breikkun brúa sem ná tilteknum mörkum í umferð, og hún ætti því tæplega að fara inn í hefðbundna forgangsröðun nýrra jarðganga.“

Þetta er ekki uppörvandi mat og spurning hvort öryggisþátturinn sé virtur eins og skyldi sérstaklega eftir eldsvoðann í Tungudal nýlega.

Í janúar 2022 lætur Fjórðungssamband Vestfirðinga KPMG vinna samfélagsgreiningufyrir jarðgöng á Vestfjörðum. Þar er aðeins metnir tveir kostir, annars vegar göng um Hálfdán og Mikladal á sunnanverðum Vestfjörðum og hins vegar á milli Ísafjarðar og Súðavíkur (Súðavíkurhlíð) á norðanverðum
Vestfjörðum. KPMG segir þó: „Aðrir jarðgangakostir eru þó vissulega til staðar á svæðinu s.s. undir Klettsháls, tvöföldun Breiðadalsleggs Vestfjarðaganga og fl.“

Það er athyglisvert að KPMG nefnir aðeins breikkun Breiðadalslegg ganganna en ekki breikkun á Súgandafjarðarleggnum. En einnig er sláandi að breikkun einbreiðra jarðganga er greinilega sett til hliðar.

Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri er fengið til þess að gera mat á arðsemi, umferðaröryggi, tengingu svæða og byggðaþróun fyrir jarðgöng á áætlun. Því er skilað í maí 2023 og þar er aðeins breikkun á Breiðaldalslegg Vestfjarðaganga tekin til skoðunar. Breikkun á einbreiðum hluta Vestfjarðaganga til Súgandafjarðar er ekki lengur til athugunar. Vegagerðin skilaði svo forgangsröðun í framhaldinu í júní 2023 og þar er sama upp á tengingnum.

Það er ekki annað að sjá en að það hafi verið Vestfirðingar sjálfir sem hafi dregið úr kröfunum um breikkun Vestfjarðaganga og afmarkað breikkunina við Breiðadalslegginn og þannig fallist á það mat Hreins Haraldssonar að breikkunin eigi að miðast við ákveðinn umferðarþunga og eigi tæplega að fara inn í forgangsröðun nýrra jaröganga.

Þetta mat hlýtur Fjórðungssambandið að endurskoða eftir eldsvoðann í rútu í Tungudal fyrr í mánuðinum. Öryggismál vegfarenda í jarðgöngum verða að vera ofar á blaði og það hefur komið skýrt fram í máli lögreglu, slökkviliðsstjóra og Vegagerðar að í einbreiðum göngum er mun meiri hætta á ferðum.

Það er ekkert um það að ræða eftir þennan atburð að vísa í umferðartölur. Vegagerðin sjálf segir fullum fetum að ekki verði byggð einbreið göng og það hafi ekki verið gert mörg undanfarin ár einmitt af öryggisástæðum. Þær sömu öryggisástæður eiga við um einbreið göng til Súgandafjarðar.

-k

Bolvíkingafélagið: messukaffi á sunnudaginn

Kaffinefndin á undirbúningsfundi nýlega.

Bolvíkingamessa og kaffi Bolvíkingafélagsins 2024 verður sunnudaginn 6. október og hefst með messu kl 13.00 í Bústaðarkirkju.

Eftir messu verður kaffisamsæti Bolvíkingafélagsins í safnaðarheimili kirkjunnar.

Eru Bolvíkingar og ættmenni þeirra hvattir til að fjölmenna.

Innheimt verður kaffigjald kr 2.000 til að standa undir kostnaði. Hægt verður að borga með peningum og einnig verður stjórn félagsins með posa fyrir kortagreiðslu.

„Hlökkum til að sjá ykkur og hvetjum jafnframt til að deila þessari tilkynningu til Bolvíkinga“ segir í tilkynningu frá stjórninni.

Stjórn Bolvíkingafélagsins mun kynna hugmynd að jólahlaðborði sem stefnt er að hafa í Skíðaskálnum í Hverdölum.

Þriggja fasa rafmagn og ljósleiðari til Breiðavíkur

Örlygshöfn. Hafnarmúlinn blasir við. Mynd: Finnur Malmquist.

Orkubú Vestfjarða hefur sótt er um framkvæmdaleyfi vegna lagningar þriggja fasa jarðstrengs ásamt ljósleiðara milli Geitagils í Örlygshöfn í Patreksfirði og Breiðavíkur. Erindinu fylgir samþykki viðkomandi landeigenda sem og uppdrættir er sýna áformaða lagnaleiðina.

Um er að ræða samstarfsverkefni með Vesturbyggð sem unnið hefur verið að síðustu ár.

Verkið er unnið í góða samstarfi við landeiganda auk þess sem fornminjar hafa verið skráðar og lagnaleið verður hnikað til, gerist þess þörf, í samstarfi við fornleifafræðing.

Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar leggur til við heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og fyrrum Rauðasandhrepps að erindið verði samþykkt og að skipulagsfulltrúa verði heimilt að veita framkvæmdaleyfi þegar jákvæð umsögn Minjastofnunar liggur fyrir.

Vestri vann: upp úr fallsæti

Andri Rúnar Bjarnason skoraði sigurmarkið. Mynd: fotbolti.net.

Karlalið Vestra í Bestudeildinni vann gríðarlega mikilvægan sigur á HK á Kerecis vellinum á Ísafirði í gær. Með sigrinum komst Vestri upp úr fallsæti og setti HK í það í staðinn.

Leikurinn bar þess merki að liðin áttu mikið undir úrslitunum. Jafnt var í hálfleik og markalaust. HK tók forystuna í upphafi seinni hálfleiks en Vestramenn tókst að setja meiri kraft í sin leik. Jeppe Pedersen jafnaði leikinn með miklu glæsimarki og skömmu fyrir leikslok skoraði markahrókurinn Andri Rúnar Bjarnason sigurmark leiksins.

Nú eru eftir 3 leikir í keppni sex liða í neðri hluta Bestudeildarinnar um að forðast fall úr deildinni. Tvö neðstu liðin falla í Lengjudeildina. Staðan er þannig að KA er sloppið við fall eftir sigur á Fylki í gærkvöldi og Fram má segja að sé það líka, þótt fræðilega séð geti liðið enn fallið.

Liðin fjögur sem berjast við falldrauginn eru því KR, Vestri, HK og Fylkir. Framundan eru tveir útileikir hjá Vestra, fyrst við Fram og svo KA og lokaleikurinn verður á Ísafirði gegn Fylki.

Það getur unnið með Vestra að bæði Fram og KA þurfa ekki að hafa áhyggjur af falli úr deildinni og sem dæmi þá steinlá Fram 7:1 gegn KR í gær.

En Vestri er aðeins einu stigi fyrir ofan fallsæti og verður að sína þrjá góða leiki nú í lok mótsins Liðið á góða möguleika á að halda sér uppi í Bestu deildinni.

Staðan eftir leiki gærdagsins. Vestri er í 10. sæti eða 4. sæti neðri hluta deildarinnar eftir 24 umferðir af 27.

Ísafjarðarhöfn: 140 m.kr. af einu skipi

Hafnarstarfsmenn við síðasta skipið í sumar. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Á föstudaginn kom síðasta skemmtiferðaskip ársins til Ísafjarðar. Það var Norwegian Prima og var það með um 3.000 farþega. Þetta er stærsta skipið sem kemur til Ísafjarðar og er 145.535 brúttótonn.

Norwegian Prima kom 14 sinnum til Ísafjarðar í sumar. Tekjur hafnarinnar í hvert sinn eru um 10 m.kr. svo það hefur skilað um 140 m.kr. í kassann til sveitarfélagsins.

Ísafjarðarhöfn hefur tekið saman upplýsingar um skipið. Það er nýlegt, smíðað 2022 á Ítalíu. Farþegum um borð í Norwegian Prima býðst alls kyns afþreying eins og gengur og gerist. Í viðbót við allt það sem telst venjulegt í svona skipum, sundlaugar, sólbaðsgarðar og þess háttar, er t.d. hægt að spila minigolf og pílugast, tölvuleiki í sýndarveruleika og síðast en ekki síst er þarna að finna go-kart kappakstursbraut og rennibrautir á milli hæða. Mikið er lagt upp úr lifandi tónlist um borð og svo er auðvitað mikilvægt að farþegarnir svelti ekki. Í skipinu er að finna mathöll með 11 veitingastöðum, auk þess sem aðra veitingastaði og bari er að finna hér og þar í skipinu.

Norwegian Prima er skip sem ætlað er að höfða til breiðs hóps viðskiptavina. Stærsti hluti farþeganna eru pör og barnafjölskyldur, en skipið nýtur líka vinsælda á meðal einhleypra enda er talsvert um eins manns káetur um borð, nokkuð sem ekki er í boði á öllum skipum. Viðburðir sem sérstaklega eru ætlaðir hinsegin fólki eru líka reglulegur hluti af afþreyingardagskránni.

Ný bók um alla helstu náttúruvá

Nú liggur fyrir bók eftir Ara Trausta Guðmundsson, jarðvísindamann, rihöfund og fyrrum þingmann, um náttúruvá á Íslandi, ógnir, varnir og viðbrögð.

Hún er 190 síður í broti 14×20,5 cm og með fjölda mynda. Fjallar um vá af völdum jarðskjálfta, alls konar eldvirkni, alls konar ofanflóða, sjávarflóða, vatnavaxta, jökulhlaupa, gróðurelda og um vá af völdum veðurlags. Einnig um hættumat, áhættumat, vöktun og skipulagsmál, almannavarnir og neyðarhjálp.

Ensk útgáfa er væntanleg í vetrarbyrjun.

Fróðleg og tímabær bók, meðal annars handa almenningi, námsfólki, viðbragðsaðilum og kjörnum fulltrúum.  

Mál og menning – Forlagið gefur bókina út.

Stóru bankarnir hækka vexti á sama tíma um nánast sömu tölur

Þegar stóru bankarnir þrír hækka allir vexti um nánast sömu tölur á sama tíma, vekur það upp áleitnar spurningar um starfsemi þeirra. Vitandi að þjóðin stendur frammi fyrir afarkostum og hefur ekkert annað að leita.

Mörgum var brugðið þegar Arion banki tilkynnti að eigendur bankans hefðu ákveðið að hækka ávöxtunarkröfu sína og því yrði bankinn að hækka vexti íbúðalána, þrátt fyrir óbreytta stýrivexti. Með öðrum orðum, sækja meira fé í vasa viðskiptavina sinna. Sama gerði Íslandsbanki og nú Landsbankinn sem er í eigu þjóðarinnar.

Methagnaður stóru bankanna

Í fyrra skiluðu stóru bankarnir þrír 83,5 milljarða hagnaði, þeim mesta frá hruni sem voru að uppistöðu vaxtatekjur. Hagnaður Arion banka á árinu 2023 nam 25,7 milljörðum króna og var eigendum greiddur um þrettán milljarða króna arður. Í júní var hagnaður bankans vegna fyrri hluta ársins kominn í 9,9 milljarða.

Þjóð í greipum fákeppni á bankamarkaði

Á sama tíma berst þorri viðskiptavina bankans, sem hefur þar húsnæðislán, í bökkum vegna verðbólgu og hárra vaxta. Hjá mörgum losna samningar um óverðtryggð húsnæðislán um næstu mánaðarmót sem mun valda stökkbreytingu á afborgunum með tilheyrandi forsendubresti og greiðsluerfiðleikum. Margir til viðbótar munu verða neyddir í verðtryggð lán á afarkostum til að halda niðri greiðslubyrði og komast af. Þetta eru gríðarlega miklar hækkanir á skömmum tíma án réttlætingar. Á þjóð í greipum fákeppni á bankamarkaði. Nú væri gott að við ættum ennþá fleiri og öflugri sparisjóði, en stóru viðskiptabankarnir komust upp með að drepa þá flesta af sér og yfirtaka.

Banki í eigu þjóðarinnar

Arion banki steig fyrstur fram gegn viðskiptavinum sínum, næst kom Íslandsbanki sem enn er að hluta í eigu allra landsmanna. Að endingu kom að Landsbankanum, sem er í sameiginlegri eigu þjóðarinnar. Slóst þjóðin þannig í hóp þeirra eigenda bankanna sem hækka arðsemiskröfu sína og vexti til að hafa meira fé af fólki sem ekki getur leitað annað og sætir sameiginlegum afarkostum stóru bankanna. Þeir sem fara með hlut þjóðarinnar bera hér ábyrgð.

Þingnefnd rannsaki stóru viðskiptabankana

Þessar vaxtahækkanir hjá stóru bönkunum með litlu millibili vekja upp ýmsar spurningar og tímabært að þingið láti sig þetta varða. Hér þarf samkeppniseftirlitið einnig að stíga inn og efnahags- og viðskiptaráðherra. Þá þurfa stjórnvöld að hysja upp um sig við innleiðingu EES tilskipana um neytendavernd og fjármálaþjónustu, en á engu sviði er frammistaðan verri en þar.

Lokaorð

Þjóðin stendur frammi fyrir afarkostum og hefur ekkert annað að leita, þegar stóru bankarnir þrír, þar á meðal þeirra eigin banki, Landsbankinn, hækka vexti útlána á sama tíma um svipaðar tölur án þess að aðstæður hafi breyst aðrar en að bankarnir vilji taka meira til sín og skila enn meiri hagnaði til eigenda sinna. Á sama tíma berst stór hluti lántakenda sem aldrei fyrr í bökkum að láta enda ná saman vegna stökkbreyttra hækkana afborgana húsnæðislána. Þessi framganga nú er ekki bara vafasöm heldur vart siðleg. Það er svo sérstaklega gagnrýnivert að banka í eigu þjóðarinnar skuli vera beitt með þessum hætti gegn eigendum sínu.

Bjarni Jónsson

Höfundur er alþingismaður og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Nauteyri: skapandi fréttaskrif RUV

Ríkisútvarpið fór út fyrir sanndindarammann í gær í fréttaflutningi sínum um strok seiða úr landeldisstöð Háafells á Nauteyri. Í frétt RUV segir að „Allt að 150 laxaseiði fóru í sjóinn þegar óhapp varð við dælingu milli húsa Háafells að Nauteyri við Ísafjarðardjúp.“

Þetta rímar ekki við fréttatilkynningu Matvælastofnunar af atburðinum. Þar segir að „er ekki hægt að útiloka að um 150 seiði muni hafa komist í sjó“.

Þetta er fjarri því að vera það sama. Mast segir að mögulega hafi komist seiði í sjó en RUV fullyrðir að seiði hafi farið í sjó. Matvælastofnunin er eftirlitsstofnunin og hefur fengið upplýsingar um óhappið frá eldisfyrirtækinu og rannsakað málið. Það hefur RUV ekki gert. En það er meira krassandi að halda því fram að seiðin allt að 150 hafi farið í sjóinn. En vandi RUV er að það er ekki sannleikanum samkvæmt, með öðrum orðum skapandi fréttaskrif hjá fréttamanninum Rebekku Líf Ingadóttur, sem hún hefur ekki leiðrétt.

Við dælingu á seiðum milli húsa á Nauteyri var krani á drenlögn ekki að fullu lokaður. Fiskur komst út um opinn kranann og ofan í fjöru.

Fyrirtækið virkjaði strax viðbragðsáætlun vegna stroks og setti út net. Starfsfólk Háafells náði að tína upp seiði sem voru eftir í drenlögninni og seiði sem sprikluðu í fjöruborðinu. Um 50 seiði náðust að auki í net. Alls náði starfsfólk Háafells 2.560 seiðum.

Síðan er borið saman við seiðabókhaldið þar sem skráð eru fjöldi seiða inn og út. Niðurstaðan er að ekki er hægt að útiloka að um 150 seiði muni hafa komist í sjó fram samkvæmt lífmassabókhaldi fyrirtækisins. 

Það þýðir að ekki fundust nein seiði í sjó, né sást að nein seiði hefðu farið í sjó. Munurinn 150 seiði gæti verið vegna þess að seiði hafi komist í sjó, en skýringin gæti líka verið að seiðin hafi tapast fyrr í ferlinu, jafnvel að þau hafi aldrei verið sett í landstöðina. Það er einfaldlega ekki vitað.

Fullyrðing RUV þess efnis að seiðin hafi farið í sjó er ekki byggð á staðreyndum. Ríkisútvarpið er að setja fram fullyrðingu sem það hefur ekki fært rök fyrir.

Síðan hefði farið vel á því að RUV upplýsti um mögulegan skaða ef svo hafi farið. Það var ekki gert. Það er til dæmis hægt að fræðast um það með því að lesa greinargerð Hafrannsóknarstofnunar um áhættumat af erfðablöndun villts lax og eldislax. Þar kemur skýrt fram að lífslíkur síðbúinna strokufiska, eins og þessi smáu seiði eru, eru afar litlar, mætti jafnvel segja hverfandi. Svo má lesa líka að blöndun milli villts lax og eldislax þurfi að vera í miklum mæli og í langan tíma í árum talið til þess að hafa áhrif á samsetningu hrygningarstofns á villtum laxi – og ennfremur að þegar tekur fyrir blöndunina þá gangi blöndunin til baka og villti stofninn haldi örugglega velli.

150 lítil seiði er einn atburður og hefur engin áhrif, jafnvel þótt seiðin hafi komist í sjó – sem ekki er vitað.

En álit vísindamanna um nánast skaðleysi af atburðinum er líklega ekki jafn spennandi frétt.

-k

Nýjustu fréttir