Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 28

Júlíus Geirmundsson ÍS: Landsréttur sýknaði skipstjórann og útgerðina

Júlíus Geirmundsson ÍS í Ísafjarðarhöfn í janúar 2024. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í gær féll dómur Landsréttar í máli sem skipverji á Júlíusi Geirmundssyni ÍS höfðaði á hendur skipstjóranum og framkvæmdastjóra og útgerðastjóra Hraðfrystihússins Gunnvör hf. Krafist var þess að skipstjórinn greiddi 2 m.kr. í miskabætur og hinir 1,5 m.kr. hvor.

Málshöfðandinn eða stefnandi var háseti um borð í veiðiferð sem hófst aðfaranótt 27. september 2020. Upp komu veikindi meðal skipverja og reyndist um að ræða covid19. Stefndu vou sakaðir um að sýna af sér stórfellt gáleysi með þeirri háttsemi sem þeir viðhöfðu meðan á umræddri veiðiferð stóð og með því valdið stefnanda bæði líkamlegu og andlegu heilsutjóni.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði 9. október 2023 framkvæmdastjórann og útgerðarstjórann en dæmdi skipstjórann til að greiða 400 þús. kr. í miskabætur og 1,8 m.kr. í málskostnað.

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms varðandi framkvæmdastjórann og útgerðarstjórann en sneri við dómi skipstjórans og sýknaði hann. Málskostnaður milli aðila var felldur niður á báðum dómsstigum.

Landsréttur kemst að þeirri niðurstöðu að ekki liggur ekki fyrir að skipstjórinn hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með viðbrögðum sínum við veikindum skipverja, sem sé forsenda þess að um sekt gæti verið að ræða.

Skipverjinn hafi í upphafi sagt að hann væri með flensu og leið nokkur tími áður en grunur um covid19 vaknaði. Þá geti sú töf ekki valdið smiti skipverja, sem kom smitaður af kórónuveirunni um borð í togarann, sem og smiti þeirra sem smituðust þar áður en ástæða var til að gruna að skipverjar væru smitaðir af veirunni.

Þá skiptir það máli í rökstuðningi Landsréttar að ekki kom fram sönnun um að skipstjórinn hafi virt að vettugi tilmæli umdæmislæknis sóttvarna um að sigla til Ísafjarðar og koma með skipverjann í sýnatöku, og að ekki liggi ekki fyrir að skipstjórinn hafi fengið slík tilmæli.

Þá liggur fyrir að skipstjórinn „hringdi í heilsugæsluna á Ísafirði 14. október vegna veikindanna og athugaði í framhaldinu hversu margir skipverjar hefðu fundið fyrir einkennum og skráði þær upplýsingar. Kom þá í ljós að mun fleiri skipverjar höfðu fundið til einkenna en tilkynnt höfðu aðaláfrýjanda um veikindi. Af framlögðum gögnum verður ráðið að þá hafi verið búið að ákveða, í samráði við umdæmislækni sóttvarna, að skipið kæmi til hafnar 18. október og að skipverjar færu í sýnatöku.“

Fundur um byggðakvóta Ísafjarðarbæjar

Föstudaginn 14. febrúar býður bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar til opins fundar og umræðu um væntanlega afgreiðslu Ísafjarðarbæjar á tillögum vegna sérstakra skilyrða (sérreglna) um byggðarkvóta á fiskveiðiárinu 2024/2025.

Fundurinn fer fram í fundarsal bæjarstjórnar, 2. hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði, og hefst klukkan 12.

Hagsmunaaðilar eru hvattir til að mæta og ræða sjónarmið sín.

List fyrir alla auglýsir eftir umsóknum á sviði barnamenningar

List fyrir alla auglýsir eftir umsóknum um listviðburði eða verkefni á sviði barnamenningar fyrir grunnskólabörn. Umsóknarfrestur fyrir skólaárið 2025 – 2026 er 16. mars 2025.

List fyrir alla er barnamenningarverkefni á vegum menningar – og viðskiptaráðuneytis, sem ætlað er að miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Til barnamenningar teljast verkefni á sviði lista og menningar sem unnin eru fyrir börn og/eða með virkri þátttöku barna.

Leitast er við að gera allar listgreinar sýnilegar innan verkefnisins eins og kostur er.

Listverkefnin skulu í öllum tilfellum vera unnir af fagfólki og af metnaði.

Hjólastólakörfuknattleikur

Kynning verður á verkefninu „Allir með” í Kringlunni laugardaginn 15. febrúar á milli klukkan 14:00 – 15:00.

Sérstök áhersla verður á kynningu á hjólastólakörfubolta sem er að fara af stað fyrir börn með sérþarfir. Settur verður upp körfuboltavöllur og leikið 2 á 2.

Áhorfendur geta fylgst með af tveimur hæðum.Gestir fá að prófa hjólastólana og taka þátt í keppni. 

Hjólastólakörfubolti er ein af fimm greinum sem verða í boði á Íslandsleikunum á Selfossi helgina 29. – 30. mars 2025. Leikarnir eru fyrir þá sem finna sig ekki í hefðbundnu íþróttastarfi og/eða eru með stuðningsþarfir.

„Allir með” er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og Íþróttasambands fatlaðra. Verkefnið gengur út á að fjölga tækifærum fyrir fötluð börn innan íþróttahreyfingarinnar.

Breyting á deiliskipulagi vegna kláfs upp á Eyrarfjall

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum þann 6. febrúar 2025, að kynna skipulagslýsingu vegna vinnu við nýtt deiliskipulag fyrirhugaðs kláfs upp á Eyrarafjall á Ísafirði.

Skipulagssvæðið er staðsett í Eyrarfjalli sem er 700 metra hátt beint fyrir ofan Ísafjarðarbæ. Það afmarkast af byrjunarstöð kláfsins við hlíðarfót Eyrarfjalls, upp að Gleiðarhjalla þar sem reistur verður millistaur fyrir kláfinn og svo áfram á topp Eyrarfjalls þar sem endastöð kláfsins er staðsett. Við framkvæmdina verður sett upp vinnulyfta sem mun flytja allt byggingarefni og lyftustaura upp á Gleiðarhjalla og Eyrarfjall. Ekki þarf því að leggja vegslóða upp fjallshlíðina.

Framkvæmdin, sem verður í höndum Eyrarkláfs ehf., felst í að útbúa bílastæði fyrir farþega kláfsins, upphafsstöð kláfsins í hlíð Eyrarfjalls og endastöð á toppi fjallsins með einum millistaur á Gleiðarhjalla. Á toppi Eyrarfjalls verður gert ráð fyrir þjónustubyggingu og hóteli á seinni stigum.

Hverjum þeim sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemd við tillöguna á kynningartíma sem er frá 12. febrúar 2025 til og með 12. mars 2025.

Vísindaportið: Innleiðing gervigreindar í skólasamfélagið- kostir og takmarkanir

Í vísindaporti vikunnar ætlar Helena Sigurðardóttir kennsluráðgjafi við háskólann á Akureyri að halda erindi um innleiðingu gervigreindar í skólasamfélaginu. Erindið fjallar um meginkosti og takmarkanir notkunar gervigreindar í skólasamfélaginu, bæði fyrir nemendur og kennara. Megið þema erindisins kemur úr bókakafla höfundar sem gefinn var út í lok árs 2024 á vegum bókaútgáfunnar Libri. Töluverðar umræður hafa átt sér stað í samfélaginu um notkun gervigreindar, ýmsar siðferðilegar áskoranir og heiðarleika í vinnu, námi, rannsóknum og kennslu. Með tilkomu nýrrar tækni er mikilvægt að skoða hvaða hlutverk og hvaða möguleika notkun gervigreindar getur fært okkur.

Frétt um bókina á vef Háskólans á Akureyri  https://www.unak.is/is/samfelagid/frettasafn/frettir/gervigreindin-og-haskolar-utgafa-bokar

Helena Sigurðardóttir frá Ísafirði er Kennsluráðgjafi við Kennslu – og upplýsingatæknimiðstöð Háskólans á Akureyri. Með yfir tuttugu ára kennslureynslu sérhæfir hún sig í rafrænum kennsluháttum og innleiðingu á stafrænni hæfni. Undanfarna áratugi hefur hún leitt og tekið þátt í fjölmörgum alþjóðlegum og innlendum verkefnum, flest með áherslu á eflingu stafrænnar hæfni og innleiðingu tækni í skólastarfi. Með auknum aðgangi almennings að notkun gervigreindar hefur Helena beint sjónum sínum að kostum og takmörkunum við innleiðingu og notkun gervigreindar í skólasamfélaginu.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða á morgun föstudag og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Erindið fer fram á íslensku

Björgunarsveitin Dýri verður 50 ára á árinu -safna fyrir nýjum bíl

Afmælismerki björgunarsveitarinnar Dýra.

Björgunarsveitin Dýri í Dýrafirði verður 50 ára á þessu ári. Af því tilefni hefur Monika Janina hannað séstakt afmælismerki fyrir sveitina.

Formaður Dýra er Brynjar Þorbjörnsson.

Á þessum tímamótum hefur verið ákveðið að endurnýja jeppa sveitarinnar. Núverandi jeppi er orðinn 25 ára og þörf á nýjum til að tryggja áframhaldandi öryggi og skjót viðbrögð. En það er stór og mikil fjárfesting sem sveitin þarf hjálp til að geta látið verða að veruleika.

Þeir sem vilja leggja Dýra lið og styðja við þessa nauðsynlegu endurnýjun eru hvattir til þess og víst er að hvert framlag skiptir máli. Björgunarsveitin Dýri er á almannaheillaskrá, sem þýðir að styrkur gefur rétt á skattaafslætti.

📢 Hægt er að styrkja Dýra með því að leggja inn á reikninginn sveitarinnar:

Reikningsnúmer: 0154-26-000180 | Kt: 600783-0929

🎉 Að sjálfsögðu verður haldin glæsileg afmælisveislu til að fagna þessum tímamótum, og verður hún auglýst hana þegar nær dregur!

Bolungavík: Reykjavík ber ábyrgð sem höfuðborg

Reykjavíkurflugvöllur séð til suðurs, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í bakgrúnni. / Reykjavik Mynd: Mats Wibe Lund.

Bæjarstjórn Bolungavíkur ályktaði um málefni Reykjavíkurflugvallar á fundi sínum á þriðjudaginn.

Þar segir að Reykjavík beri ábyrgð sem höfuðborg og miðstöð stjórnsýslu, flutninga, heilbrigðisstarfsemi og svo mætti lengi telja.

„Það er frumskylda hennar að tryggja gott aðgengi í lofti sem á landi. Bæjarstjórn Bolungarvíkur skorar á og krefur alla hlutaðeigandi að tryggja flugumferð um Reykjavíkurflugvöll, hvort sem það er með fellingu trjáa sem um ræðir eða með öðrum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til þess að halda út starfsemi flugvallarins.“

Ályktunin var samþykkt í einu hljóði með stuðningi alla sjö bæjarfulltrúanna.

Fiskeldi: janúar næststærsti útflutningsmánuður frá upphafi

Fiskeldi heldur áfram að sækja í sig veðrið og skiluðu eldisafurðir rúmlega 8 milljörðum króna í útflutningstekjur í janúar. Mánuðurinn er því sá næststærsti í útfluttum eldisafurðum frá upphafi. Miðað við janúar í fyrra er aukningin um 22% í krónum talið en rúm 24% á föstu gengi. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum um vöruskipti í janúar sem Hagstofan birti í síðustu viku. 

Þetta kemu fram í radarnum, fréttabéfi SFS sem kom út í gær.

Vægi eldisafurða í útflutningi eykst

Verðmæti vöruútflutnings í heild jókst einnig nokkuð myndarlega á milli ára í janúar, eða sem nemur um 21% á föstu gengi. Hlutdeild fiskeldis í verðmæti vöruútflutnings fór því  úr 8,3% í 8,6% milli ára í janúar, enda er aukning fiskeldis umfram aðra liði vöruútflutnings. Útflutningsverðmæti sjávarafurða var svo til óbreytt á milli ára í janúar. Vægi eldisafurða í útflutningsverðmæti sjávarafurða nam því tæplega 28% en það hefur aldrei verið hærra í einum mánuði.

Strandabyggð: byggðakvóta úthlutað skv. veiðireynslu og vinnsluskylda verður

Hólmavíkurhöfn í sumar. 130 tonna byggðakvóti er til Hólmavíkur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar gerði þá breytingu á úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins fá reglum fyrra árs að honum verður að öllu leyti úthlutað í samæmi við veiðireynslu hvers báts. Að sögn Þorgeirs Pálssonar, sveitarstjóra var á síðasta ári sú sérregla að 75% byggðakvótans var úthlutað samkvæmt veiðireynslu og 25% var skipt jafnt á kvótaþega. Þorgeir segir að þar sem nú sé starfandi fiskvinnsla í sveitarfélaginu sé ekki þörf á undanþágu frá vinnsluskyldu og rétt sé að fara eftir ákvæðum reglugerðar um úthlutun byggðakvóta.

Var það samþykkt með þemur atkvæðum meirihlutans, T lista. Tillaga frá Guðfinnu Hávarðardóttur, A lista, um að hafa sömu reglur og á síðasta ári var felld með þremur atkvæðum gegn tveimur.

Þrír sveitarstjórnarmenn af fimm vou vanhæfir við umræður og afgreiðslu á byggðakvótanum og viku sæti. Í þeirra stað tóku varamenn sæti undir þessum dagskrárlið.

Það voru Júlíana Ágústsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir  sem viku af fundi og í þeirra stað komu Marta Sigvaldadóttir, Ragnheiður Ingimundardóttir og Guðfinna Lára Hávarðardóttir.

Nýjustu fréttir