Þriðjudagur 18. mars 2025
Síða 28

Björgunarsveitin Dýri verður 50 ára á árinu -safna fyrir nýjum bíl

Afmælismerki björgunarsveitarinnar Dýra.

Björgunarsveitin Dýri í Dýrafirði verður 50 ára á þessu ári. Af því tilefni hefur Monika Janina hannað séstakt afmælismerki fyrir sveitina.

Formaður Dýra er Brynjar Þorbjörnsson.

Á þessum tímamótum hefur verið ákveðið að endurnýja jeppa sveitarinnar. Núverandi jeppi er orðinn 25 ára og þörf á nýjum til að tryggja áframhaldandi öryggi og skjót viðbrögð. En það er stór og mikil fjárfesting sem sveitin þarf hjálp til að geta látið verða að veruleika.

Þeir sem vilja leggja Dýra lið og styðja við þessa nauðsynlegu endurnýjun eru hvattir til þess og víst er að hvert framlag skiptir máli. Björgunarsveitin Dýri er á almannaheillaskrá, sem þýðir að styrkur gefur rétt á skattaafslætti.

📢 Hægt er að styrkja Dýra með því að leggja inn á reikninginn sveitarinnar:

Reikningsnúmer: 0154-26-000180 | Kt: 600783-0929

🎉 Að sjálfsögðu verður haldin glæsileg afmælisveislu til að fagna þessum tímamótum, og verður hún auglýst hana þegar nær dregur!

Bolungavík: Reykjavík ber ábyrgð sem höfuðborg

Reykjavíkurflugvöllur séð til suðurs, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í bakgrúnni. / Reykjavik Mynd: Mats Wibe Lund.

Bæjarstjórn Bolungavíkur ályktaði um málefni Reykjavíkurflugvallar á fundi sínum á þriðjudaginn.

Þar segir að Reykjavík beri ábyrgð sem höfuðborg og miðstöð stjórnsýslu, flutninga, heilbrigðisstarfsemi og svo mætti lengi telja.

„Það er frumskylda hennar að tryggja gott aðgengi í lofti sem á landi. Bæjarstjórn Bolungarvíkur skorar á og krefur alla hlutaðeigandi að tryggja flugumferð um Reykjavíkurflugvöll, hvort sem það er með fellingu trjáa sem um ræðir eða með öðrum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til þess að halda út starfsemi flugvallarins.“

Ályktunin var samþykkt í einu hljóði með stuðningi alla sjö bæjarfulltrúanna.

Fiskeldi: janúar næststærsti útflutningsmánuður frá upphafi

Fiskeldi heldur áfram að sækja í sig veðrið og skiluðu eldisafurðir rúmlega 8 milljörðum króna í útflutningstekjur í janúar. Mánuðurinn er því sá næststærsti í útfluttum eldisafurðum frá upphafi. Miðað við janúar í fyrra er aukningin um 22% í krónum talið en rúm 24% á föstu gengi. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum um vöruskipti í janúar sem Hagstofan birti í síðustu viku. 

Þetta kemu fram í radarnum, fréttabéfi SFS sem kom út í gær.

Vægi eldisafurða í útflutningi eykst

Verðmæti vöruútflutnings í heild jókst einnig nokkuð myndarlega á milli ára í janúar, eða sem nemur um 21% á föstu gengi. Hlutdeild fiskeldis í verðmæti vöruútflutnings fór því  úr 8,3% í 8,6% milli ára í janúar, enda er aukning fiskeldis umfram aðra liði vöruútflutnings. Útflutningsverðmæti sjávarafurða var svo til óbreytt á milli ára í janúar. Vægi eldisafurða í útflutningsverðmæti sjávarafurða nam því tæplega 28% en það hefur aldrei verið hærra í einum mánuði.

Strandabyggð: byggðakvóta úthlutað skv. veiðireynslu og vinnsluskylda verður

Hólmavíkurhöfn í sumar. 130 tonna byggðakvóti er til Hólmavíkur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar gerði þá breytingu á úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins fá reglum fyrra árs að honum verður að öllu leyti úthlutað í samæmi við veiðireynslu hvers báts. Að sögn Þorgeirs Pálssonar, sveitarstjóra var á síðasta ári sú sérregla að 75% byggðakvótans var úthlutað samkvæmt veiðireynslu og 25% var skipt jafnt á kvótaþega. Þorgeir segir að þar sem nú sé starfandi fiskvinnsla í sveitarfélaginu sé ekki þörf á undanþágu frá vinnsluskyldu og rétt sé að fara eftir ákvæðum reglugerðar um úthlutun byggðakvóta.

Var það samþykkt með þemur atkvæðum meirihlutans, T lista. Tillaga frá Guðfinnu Hávarðardóttur, A lista, um að hafa sömu reglur og á síðasta ári var felld með þremur atkvæðum gegn tveimur.

Þrír sveitarstjórnarmenn af fimm vou vanhæfir við umræður og afgreiðslu á byggðakvótanum og viku sæti. Í þeirra stað tóku varamenn sæti undir þessum dagskrárlið.

Það voru Júlíana Ágústsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir  sem viku af fundi og í þeirra stað komu Marta Sigvaldadóttir, Ragnheiður Ingimundardóttir og Guðfinna Lára Hávarðardóttir.

Guðrún Hafsteinsdóttir hittir sjálfstæðismenn á Vestfjörðum

Frá fundinum á Isafirði.

„Ég finn að samfélagið hérna fyrir vestan er komið í sókn, eftir varnarbaráttu til áratuga,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir í samtali við Bæjarins besta. Guðrún er nú á ferðalagi um landið að hitta sjálfstæðismenn í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins þar sem nýr formaður flokksins verður kjörin. Guðrún lýsti yfir framboði á fjölmennum fundi í Kópavogi síðastliðna helgi. 

Guðrún hélt í gær og í dag fundi með sjálfstæðismönnum á Bolungarvík, Ísafirði, Bíldudal og nú síðast á Patreksfirði. Vel var mætt á fundina og segir Guðrún hana hafa náð góðu samtali við fólkið, en að samtalinu sé hvergi nærri lokið. 

Aðspurð segir hún að samgöngumál, áframhaldandi þróun atvinnuvega og uppbygging innviða hafi helst brunnið á viðstöddum. „Hér hafa mörg spennandi störf orðið til, ekki bara í fiskeldinu með beinum hætti heldur einnig í þjónustu í kringum þessa vaxandi atvinnugrein og það er gaman að sjá þetta kraftmikla uppbyggingarstarf,“ segir Guðrún. 

Guðrún segir mikilvægt að samgöngur verði bættar og efldar samhliða þessari uppbyggingu. Hún segist jafnframt sem þingmaður hins víðfeðma Suðurkjördæmis oft hafa talað fyrir því að uppbygging samgöngumannvirkja taki mið af þörfum íbúa og öryggi þeirra, sem og þörfum atvinnulífsins – og á Vestfjörðum er þörfin brýn. „Það á ekki að gerast að atvinnutækifæri renni okkur úr greipum vegna þess að vegir og brýr duga ekki til.“ 

Guðrún segir það líka vera ábyrgðarhluti að hámarka nýtingu dýrra samgöngumannvirkja. „Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði þarf að hugsa sem eitt, því göngin nýtast ekki til fulls ef heiðinni er ekki haldið opinni til jafns við aðrar helstu stofnbrautir landsins.“

Frá fundinum í Bolungavík.

Guðrún Hafsteinsdóttir á Bíldudal.

Fjórði fundurinn í fundaöðinni var á Patreksfirði í gær.

Myndir: aðsendar.

Hnjótur – Minjasafn Egils Ólafssonar

Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti Örlygshöfn varðveitir einstætt safn gamalla muna frá sunnanverðum Vestfjörðum sem veita innsýn í sögu sjósóknar, landbúnaðar og daglegs lífs.

Þar er einnig að finna sýningu um björgunarafrekið við Látrabjarg árið 1947 og hattinn hans Gísla á Uppsölum.

Egill Ólafsson var fæddur og uppalinn á Hnjóti og byrjaði ungur að safna munum. Með áhuga sínum og framsýni varð til þetta merka minjasafn sem Egill og kona hans Ragnheiður Magnúsdóttir byggðu upp og gáfu sveitafélögunum í Vestur-Barðastrandarsýslu.

Í safninu er kaffitería, minjagripaverslun og svæðisupplýsingamiðstöð.

Safnið er opið frá kl. 10-18 frá 1. maí- 30. september. Hægt er að hafa samband ef áhugi er að heimsækja safnið utan fasts opnunartíma (museum@hnjotur.is eða síma 456-1511).

COVID-19: Fimm árum síðar

Fyrir rúmum fimm árum var tilkynnt um fyrstu tilfelli lungnabólgu af óþekktum orsökum í Wuhan í Kína. Þetta markaði upphaf heimsfaraldurs sem átti eftir að hafa djúpstæð áhrif á heilsufar, efnahag og velferð í heiminum.

Í lok janúar og í febrúar 2020 barst veiran til Evrópu og fyrstu tilfelli voru staðfest á Ítalíu, í Frakklandi og Þýskalandi. Fyrsta staðfesta tilfellið í Bandaríkjunum var greint í Washington fylki.

Eftir faraldur í Lombardy og Veneto varð Ítalía miðpunktur faraldursins í Evrópu. Veiran dreifðist hratt um álfuna vegna ferðalaga og töfum á að gripið var til aðgerða.
Fyrsta tilfellið á Íslandi var greint 28. febrúar 2020 hjá íslenskum karlmanni á miðjum aldri sem kom frá skíðasvæði í Norður-Ítalíu. Hann var með væg einkenni en var settur í einangrun á sjúkrahúsi til öryggis. Fyrsta innanlandssmitið var svo greint 6. mars 2020.
Veikindi af COVID-19 voru alvarleg og sum ríki Evrópu gripu til ýmissa aðgerða í mars 2020 til að sporna við dreifingu smita, m.a. lokana og ferðatakmarkana. Stórir faraldrar brutust á sama tíma út í mörgum stórborgum Bandaríkjanna.

Þegar mest var árið 2021 bárust Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) tilkynningar um 100,000 COVID-19 tengd dauðsföll í hverri viku. Fjöldi tilkynntra tilfella á viku náði hins vegar hámarki rúmlega 20 milljónum snemma árs 2022 með tilkomu Omicron afbrigðis. Frá árinu 2020 hafa að minnsta kosti 7 milljón COVID-19 andlát verið tilkynnt til WHO, þó að raunverulegur fjöldi dauðsfalla sé að minnsta kosti þrisvar sinnum hærri að því er kemur fram í samantekt Sóttvarnalæknis.

Enn eiga öll áhrif heimsfaraldursins eftir að koma í ljós. Hins vegar er mikilvægt að draga lærdóm af þessari reynslu og tryggja að við séum betur undirbúin fyrir heimsfaraldra í framtíðinni.

Verðlag hækkar og sælgæti mest

Verð á dagvöru fer hækkandi og hefur dagvöruvísitala verðlagseftirlitsins hækkað um 0,22% milli mánaða. Sú vísitala skoðar verðlagshækkun miðað við meðalverð hvers mánaðar.

Hækkun dagvöruverði í Krónunni og Bónus skýrist af verðhækkun á um 7% af vöruúrvalinu. Í janúar nam hlutfall hækkana 8% en að jafnaði hækkaði verð á í kringum 5% af vöruúrvali í mánuði hverjum á fyrri helmingi síðasta árs.

Auk tilbúinna rétta og kjúklings hækkar verðlag í einum veigamiklum flokki til viðbótar; sælgæti.

Þar er vagninn dreginn af Kólus, en Þrista-stubbar hækka um 17% í Krónunni og Bónus og Þrista-kúlur um 14% bæði í Bónus og Krónunni. Kúlu-súkk hækkar um tæp 16% í Bónus og Krónunni.

Freyju rískubbar hækka í annað skipti á árinu í Krónunni og hafa hækkað um rúman fjórðung í verði frá áramótum. Ýmsar vörur frá Góu-Lindu hækka í Bónus og Krónunni um 4-11%.

Þyrlusveit kölluð út vegna veikinda norður af Hornströndum

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna veikinda um borð í íslensku skipi sem statt var um 60 sjómílur norður af Hornströndum í gærmorgun. 

Áhöfnin á TF-GRO tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli á níunda tímanum en þegar farið er í útköll sem þessi er önnur þyrluáhöfn sett í viðbragðsstöðu í Reykjavík, til að gæta fyllsta öryggis. Laust fyrir klukkan tíu var þyrla Landhelgisgæslunnar komin að hlið skipsins. 

Áhöfn þyrlunnar byrjaði á að slaka tengilínu niður til áhafnar skipsins og sigmaður seig því næst um borð svo unnt væri að undirbúa sjúklinginn undir að vera hífður um borð í þyrluna.

Hífingin gekk vel og skipverjinn var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá Gæsl­unni. 

Vesturbyggð: vill aukna vetrarþjónustu á Dynjandisheiði

Nýr vegur á Dynjandisheiði. Mynd: Björn Davíðsson.

Bæjarráð Vesturbyggðar ræddi í gær um vetrarþjónustu á Dynjandisheiðinni. Í bókun þess segir að bæjaráð Vesturbyggðar „hvetur stjórnvöld til þess að taka til endurskoðunar reglur um vetrarþjónustu á vegum en margt hefur breyst á Vestfjörðum á síðustu árum en þjónustan ekki í takt við það. Gríðarlega mikilvægt er að vetrarþjónusta verði bætt til muna þannig að hún verði í takt við það sem gerist í öðrum landshlutum.“

Bæjarráð Ísafjaðarbæja ályktað um málið fyrir skömmu og vildi aukna vetrarþjónustu og tekur bæjarráð Vesturbyggðar undir bókun þess og bætir því við að leiðin um Dynjandisheiði er mikilvæg fyrir íbúa og fyrirtæki í Vesturbyggð og brýnt að bætt sé úr þjónustu á veginum þannig að nýr vegur um Dynjandisheiði nýtist sem skyldi.

Nýjustu fréttir