Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 270

Sund sem menningararfur?

Blábankinn á Þingeyri.

Í þessari viku verða haldnir þrír fyrirlestrar sem fjalla um sund.

Sigurlaug Dagsdóttir þjóðfræðingur flytur erindin en hún er jafnframt verkefnastýra vefsins Lifandi hefðir hjá  Stofnun Árna Magnússonar. Í erindum sínum mun Sigurlaug segja frá skráningu sundlaugamenningar inná vefinn og lýsa þeim undirbúningi sem nú  er í gangi varðandi tilnefningu sundlaugamenningarinnar til UNESCO.
 Unnendum sundsins og öðrum áhugasömum er einnig boðið að taka þátt í umræðum lokinni kynningunni og ræða sína eigin sýn á sundlaugamenningu Íslendinga.

Sigurlaug mun flytja erindin í Háskólasetri Vestfjarða miðvikudaginn 22. nóvember og á Bryggjukaffi á Flateyri sama kvöld. Fimmtudaginn 23. nóvember stígur Sigurlaug á stokk í Blábankanum á Þingeyri og öll eru hjartanlega velkomin.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að skráningu á sundlaugamenningu á Íslandi inná vefinn Lifandi hefðir. Þann 28. október á alþjóðlegum degi sundsins var sú skráning sett á vefinn, hana má sjá hér: https://lifandihefdir.is/lifandi-hefdir/sundlaugamenning-a-islandi-hefdin-ad-fara-i-sund/

Vefurinn Lifandi hefðir er yfirlitsskrá á Íslandi yfir óáþreifanlegan menningararf vegna aðildar að samningi UNESCO frá 2003 um varðveislu menningarerfða. Samningurinn öðlaðist gildi hér á landi 2006.  Vefnum er ætlað að vera vettvangur samfélaga og hópa til að miðla lifandi hefðum sem það hefur þekkingu á. 

Sundlaugamenning á Íslandi er dæmi um hversdagsmenningu sem einnig er útbreidd hefð, sem margir á Íslandi stunda með einhverjum hætti í gegnum lífið en oft ólíkt eftir ævitímabilum eða aðstæðum. Sundlaugahefðin gegnir misjöfnu hlutverki í lífi fólks og er ekki síst heillandi vegna þess hve fjölbreytt hún er en um leið einstaklingsbundin. 

Tilgangur þess að skrá sundlaugamenningu á Íslandi inná vefinn Lifandi hefðir er ekki síst að miðla upplýsingum um hefðina, skapa umræður og auka þekkingu á henni. Einnig er þetta fyrsta skrefið í undirbúningi að mögulegri tilnefningu hefðarinnar til UNESCO, á lista yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns en nú fer fram undirbúningur að slíkri tilnefningu. 

Ísafjarðarbær: hafnar niðurfellingu gatnagerðargjalda á Suðureyri

Suðureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Útgerðarfélagið Vonin ehf á Suðureyri hefur fengið úthlutað lóðunum Stefnisgötu 8 og Stefnisgötu 10 og er ætlunin að reisa iðnaðarhús á lóðunum undir bátasmiðju með áherslu á trefjaplast- smíði og viðgerðir. Álögð gatnagerðargjöld m.v. vísitölu í nóvember 2023 eru kr. 4.186.797 kr.

Fyrirtækið hefur óskað eftir niðurfellingu gatnagerðargjalda fyrir lóðirnar og vísar til þess að Ísafjarðarbær auglýsti tímabundna niðurfellingu gatnagerðagjalda ýmissa lóða í sveitarfélaginu og að sú auglýsing sé enn í gildi.

Í auglýsingu Ísafjarðarbæjar komi fram að þetta eigi við um þegar byggðar götur. Stefnisgata er einmitt ein slík gata, segir í erindi útgerðarfélagsins, auk þess sem það sem eftir stendur af fyrri byggingu muni valda húsbyggjenda mikinn kostnað. Þ.e. að fjarlægja leyfar gamla Ísvers. Plata þess húss, sökklar o.fl. standi einmitt enn á lóðinni þó húsið hafi verið rifið fyrir löngu síðan.

Í gögnum sem lögð voru fyrir bæjarráð kemur fram að í nóvember 2021 hafi bæjarstjórn samþykkt 2 m.kr. afslátt af gatnagerðargjöldum vegna byggingar atvinnuhúsnæðis á Hafnarstræti 21 á Þingeyri með þeim rökum að Þingeyri telst vera kalt svæði, tekur þátt í verkefninu Brothættar byggðir og að lítið hafi verið byggt af atvinnuhúsnæði í þorpinu.

Bæjarráð ákvað að synja erindinu og segir í bókun að „Ekki eru fordæmi fyrir niðurfellingu eða afslætti af gatnagerðargjöldum á Suðureyri vegna iðnaðar- og atvinnuhúsnæðis, og telur bæjarráð ekki forsendur fyrir niðurfellingu eins og gert var á Þingeyri, en þá hafði Þingeyri stöðu sem Brothætt byggð.“

Útrýmum riðuveikinni hjá sauðfé á Íslandi

Eftir að ritstjóri Bændablaðsins, sem Guðrún mun heita, fór að brjóta stjórnarskrá með að setja mig í ritbann hjá blaðinu á liðnu vori verð ég að leita liðsinnis landsmálablaða með að koma ráðleggingum mínum til bænda sem víðast um land.

   Eftir að genið sem veitir nánast algert ónæmi sauðfjár gagnvart riðu fannst í fé á Þernunesi á síðasta ári opnaðist skyndilega möguleiki til útrýmingar riðu hjá sauðfé hér á landi.

   Ráðherra kallað eftir tillögum fjárbænda, vísidamanna, dýralækna og fleiri og faldi tillögugerð sína, yfirdýralækni,  þrátt fyrir að hún til þessa á árinu hafði fyrst og fremst klúðrað mörgu í framkvæmd riðuniðurskurðar eins og landsmenn þekkja úr fréttum á árinu. Ég reyndi að koma mínum sjónarmiðum á framfæri við ráðherra og yfirdýralækni og fékk góða áheyrn hjá fagráði í sauðfjárrækt. Virðist mér sem árangur þess hafi verið líkt og að stökkva vatni á gæs. Tel mig samt hafa 60 ára reynslu af þessari baráttu og hafa lesið heilmikið um riðu hjá sauðfé og hafa verið í forystu þess ræktunarstarfs sem unnið hafði verið á þessu sviði hér á landi í nær tvo áratugi. Árangur þess ræktunarstarfs samt enginn í samanburði við það sem nú blasir við. Áhugi minn á málinu er því skiljanlegur.

   Árangur af starfi vinnuliðs ráðherra liggur nú fyrir í ömurlegri skýrslu þar sem höfundar nánast letja bændur í stað þess sem ég hélt að hefði verið hlutverk þeirra að hvetja bændur og leggja fram tillögur um árangursríka framkvæmd til útrýmingar veikinni. Á þetta var bætt með því að haldnir voru það sem kallaðir voru kynningarfundir, sem alls ekki veittu þessa forystu og villtu um fyrir bændum með löngu hjali um breytileika í riðugeninu sem aldrei munu skipta nokkru máli í þessu starfi verði það unnið með skjótan árangur að leiðarljósi og á sem hagkvæmastan hátt. Ég er sannfærður um að það er þannig sem allir sauðfjárbændur vilja að unnið sé.°                                                              

   Ráð mitt til bænda þegar forystan bregst algerlega er einfalt. Í vetur sæðið þið sem sauðfé eigið það mikið með úrvalshrútunum sem bera ARR genið nú í desember og arfgerðagreinið öll hrútlömb sem fæðast úr þessum sæðingum næsta vor og setjið á næsta haust eingöngu hrútlömb sem bera genið en til viðbótar hrútunum úr sæðinu eigið þið um 7000 slík hrútlömb sem afrakstur ásetnings ARR fjár um allt land haustið 2023. Þetta endurtakið þið 2025 og 2026. Þá setjið þið mest á arfhreina ARR hrúta og eingöngu slíka haustið 2026. Þá eru þið nánast komnir í mark með að útrýma riðunni.

   Þetta gerið þið vegna þess að Eyþór Einarsson hefur valið frábæra þannig hrúta fyrir stöðvarnar og þeir verða áreiðanlega enn glæsilegri hópur 2025 og 2026. Kollóttu Þernuneshrútarnir tveir voru í haust að skila til skoðunar glæsilegri lambahópum en aðrir stöðvahrútar. Það hefði ég einhvern tíman kallað happafeng. Ég lagði til að ríkið styddi sæðingarnar að einhverju marki en það hefur lofað styrk til arfgerðagreininganna. Ég treysti forsvarsmönnum stöðvanna fyrir því að bændur mun ekki vanta sæði úr ARR hrútum í vetur. Auðvita veljið þið ykkar bestu ær til þessarar ræktunar.

   Á fundum og skrifum ráðgjafa ráðherra hefur verið haldið á lofti stafrófskveri margskonar breytileika í príongeninu. Þetta skiptir nákvæmlega engu máli. Þessa hrúta er ástæðulaust að nota til sæðinga nema þið sjáið hjá þeim afgerandi kosti í öðrum eiginleikum. Á áðurnefndum fundum var franskur vísindamaður sem vinnur með tilraunaglös og ég spurði um hvort einhversstaðar í Evrópu þar sem víða hefur verið valið fyrir ARR geninu í 20 ár væri farið að nota aðra breytileika í ræktuninni. Hann staðfesti að svo væri ekki, eins og ég vissi, auk þess sem hann varaði við að sínar niðurstöður væru aðeins úr tilraunaglösum. Varla ætlum við að viðhalda riðu hér á landi til að staðfesta þær? Engi teikn hef ég séð að stjórnvöld EBE séu á leiðinni að breyta reglugerðum sínum í þessum málum. Það eru samt þær ákvarðanir sem mestu skiptir íslenska sauðfjárrækt og –framleiðslu á næstu áratugum.

    Ég er eins og þessir fyrrum starfsbræður mínir það grunnhygginn að skilja ekki íslensku vísindin. Þeir eins og ég hafa ekki en skilið hvaða máli skiptir að gera kind frekar ónæma fyrir riðu þegar hún er búin að fá það sem flestir telja nánast fullkomið ónæmi. Tala ekki um þegar þetta frekara ónæmi er frekar illa sannað. Vísindi á þessu plani eru aðeins til hjá ráðgjöfum matvælaráðherra.

   Ráðgjafarnir hafa aðeins flaggað hættu af skyldleikarækt og tapi á erfðabreytileika og farið í mikla tölvuleiki vegna þessa. Þetta get ég fullyrt við ykkur bændur að eru algerlega óþarfar áhyggjur. Ræktun eins og þessi verður ekki hermd með tölvulíkönum sem auðveldast er að sannreyna með þeirra niðurstöðum fyrir árið 2026 sem þeir birta í sínum útreikningum og þess árangurs sem þið ætlið þá að hafa náð þá að hafa alla ásetningshrútana arfhreina. Önnur leið sem þið öll getið notað er að bera saman skyldleikarækt út frá ættartöflum í FJARVIS á annars vegar ARR hrútunum á stöðvunum og hinum án gensins, Raunveruleikinn mun verða að skyldleikarækt mun verða minni en í hinni hefðbundnu ræktun. Það val sem gert er með miklum fjölda hrúta, stuttum notkunartíma og vali hrútanna með lágmörkum á skyldlekarækt mun að sjálfsögðu  tryggja slíka þróun. Má bæta við að erfitt hefur reynst að finna neikvæða áhrif skyldleikaræktar hjá sauðfé hér á landi. Þau koma aðeins fram við nána skyldleikarækt og hún kemur ekki fram í hinni fyrirhuguðu ræktun.

   Ég tel mikilvægast að útrýma riðunni eins fljótt og mögulegt er en jafnframt að gera það á sem ódýrastan hátt. Um bæði þessi atriði hljóta allir að vera sammála. Hvernig ná á fyrra markmiðinu hef ég þegar rætt.

    Nú er verið að leggja í verulegan umframkostnað vegna greininga á ARR geninu. Engin þörf er að greina nema ARR genið og það aðeins hjá afkvæmum Þernunesættaðs fjár, nema genið finnist mögulega víðar. Þetta mun spara yfir milljarð í greiningakostnaði og hvort sem það er ríkissjóður eða bændur sjálfir hlýtur það hvorum sem er að vera velþegið fé. Báðum er tamara að eyða um of.

   Auðljóst er að með að ljúka ARR ræktuninni á þrem árum og snúa sér síða alfarið að öðrum eiginleikum sem mestu skipta. Þannig næst miklu meiri árangur en samkvæmt tillögum ráðgjafanna í ræktunarstarfinu almennt.

   Nenni ekki að elta ólar við meira af villunum í skýrslu ráðgjafanna. Hún ber aðeins vott um litla kunnáttu og/eða skilning á meginatriðum málsins.

   Bændur! Notið ráð mín, notið ARR hrútana mikið bæði þá sem þið eigið sjálfir eða eru á sæðingastöðvunum, greinið hrútlömbum og farið strax næsta haust að setja á sem flesta arfhreina ARR hrúta og enga án gensins. Á þann hátt útrýmið þið riðunni á Íslandi endanlega á næstu þrem árum. Það er langþráð markmið.

Jón Viðar Jómnundsson

áður ráðunautur BÍ í sauðfjárrækt í áratugi

Bolungavík: stærsta innviðauppbygging í 40 ár

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að vel gangi við byggingu nýju vatnsveitunnar í Hlíðardal í Bolungavík. Lokið er steypu á botnplötum og hafin uppsláttur fyrir veggi vatnstanksins.

Kostnaðaráætlun fyrir veituna er nærri 300 m.kr. og hefur kaupstaðurinn fengið tvo styrki úr Fiskeldissjóði samtals um 60 m.kr. til framkvæmdanna. Jón Páll segir að sótt verði áfram um styrk úr sjóðnum enda er nýtt laxasláturhús á Brjótnum og vatnsþörf þess stór ástæða framkvæmdanna.

Vatns­veit­an nýja á að leysa af hólmi nú­ver­andi vatns­veitu sem bygg­ir á hreinsuðu og geisluðu yf­ir­borðsvatni. Verður geislatækið fært að nýju vatnsveitunni sem fær stóran hluta af vatni sínu úr borholum þannig að bylting verður í vatnsmálu Bolvíkinga.

Auk laxasláturhússins eru í Bolungavík mjólkurvinnsla Örnu og frystihús Jakobs Valgeirs ehf og á næsta ári hefst uppbygging á nýju íbúðarhverfi í bænum.

Jón Páll Hreinsson segir að um sé að ræða stærstu innviðaframkvæmd í bænum í 40 ár. Hann vonast til þess að uppsteypu ljúki fyrir áramót og að hægt verði að taka nýju vatnsveituna í notkun á næsta ári.

Nýi tankurinn mun taka um 2,7 milljónir lítra af vatni eða 2.675 rúmmetra sem á að anna núverandi þörf og geta bætt við 30-35%.

Frá Hlíðardal. Framkvæmdir við nýja vatnstankinn. Myndir: aðsendar.

default

OV: áframhaldandi jarðhitaleit á næsta ári

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri segir að ÍSOR vinni að mati á þeim upplýsingum sem fást með borunum á Patreksfirði og Ísafirði í 1. áfanga jarðhitaleitar jafn óðum og þær koma inn frá mælingum á staðnum og mun staðsetning á frekari rannsóknarholum ráðast af þeim niðurstöðum.  Það er ætlunin að halda eitthvað áfram með boranir, líklega til áramóta segir Elías.

Orkusjóður veitt fyrir helgina Orkubúi Vestfjarða 91,3 m.kr. styrk til 1. áfanga verkefnisins á Patreksfirði og Ísafirði. Hann segir að boranirnar sem hafa verið í gangi í Tungudal og á Patreksfirði tilheyri 1. áfanga og er kostnaðurinn kominn nálægt úthlutuðum styrk í þann áfanga.

Orkusjóður veitti tvo styrki til 2. áfanga annan á Patreksfirði kr 51,3 m.kr. og hinn til frekari borunar á Ísafirði kr 45,3 m.kr.

Elias segir að unnið verði að 2. áfanga með áframhaldandi jarðhitaleit fyrir Ísafjörð og Patreksfjörð á næsta ári.

Völvur á Íslandi

Út er komin bókin Völvur á Íslandi eftir Sigurð Ægisson prest á Siglufirði og áður í Bolungarvík.

Frá elstu tímum eru til sagnir um konur, sem vissu lengra nefi sínu. Þekktastar eru tvímælalaust völvurnar.

Þær nutu mikillar virðingar, stundum reyndar óttablandinnar, enda voru þær á mörkum tveggja heima og höfðu vitneskju um það, sem flestum ððrum var hulið.

Sumum þeirra fylgja magnaðar sögur og þær finnur þú í þessari einstöku bók.

Desemberuppbót 2023 samkvæmt upplýsingum Starfsgreinasambandsins

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum að greiða starfsfólki sínu desemberuppbót í byrjun desember ár hvert. Uppbótin er háð ákveðnum skilyrðum sem varða t.a.m. starfstíma og starfshlutfall á yfirstandandi ári. Desemberuppbót skal greiða í einu lagi og ofan á hana reiknast ekki orlof. Um er að ræða fasta krónutölu sem tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Áunnar uppbætur skal gera upp samhliða starfslokum.

Almennur vinnumarkaður
Desemberuppbót er 103.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist eigi síðar en 15. desember. Þeir sem eru í starfi fyrstu vikuna í desember eða hafa verið samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eiga rétt á uppbót. Fullt ársstarf miðast við 45 vikur eða 1.800 klst. á tímabilinu 1. janúar til 31. desember.

Ríki
Desemberuppbót (persónuuppbót) er 103.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. desember. Þeir sem eru við störf fyrstu viku nóvember eða hafa starfað í 13 vikur samfellt á árinu skulu fá greidda desemberuppbót. Full uppbót miðast við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október.

Sveitarfélög
Desemberuppbót (persónuuppbót) er 131.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. desember. Greitt skal hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma síðustu 12 mánuði fyrir greiðsludag.

Nemendur Reykhólaskóla gera verkefni um Hringrásarsamfélag

Síðustu sex vikurnar hafa nemendur Reykholaskóla unnið að því að dýpka skilning sinn á hugtökum tengdum hringrás og Hringrásarasamfélagi.

Kjartan Þór Ragnarsson verkefnastjóra Hringrásarsamfélagsins kom í heimsókn og leiðbeindi með verkefnið.

Mið og elsta stig hafa hannað tillögur af nýjum sprotafyrirtækjum og bættri þjónustu í samfélaginu og útfært líkan af hugmyndum sínum.

Þriðjudaginn 21. nóvember kl. 11:00 verða nemendur með kynningu á verkefninu.

Nemendur byrja á því að kynna verkefnin sín og að því loknu er hægt að ganga um og skoða verk nemenda og allir eru velkomnir á kynninguna.

Ísafjarðarbær – Jólaljósin tendruð næstu tvær helgar

Ljósin verða tendruð á jólatrjám í Ísafjarðarbæ helgarnar 25.-26. nóvember og 2.-3. desember.

Dagskráin verður með hefðbundnu sniði á hverjum stað; ljúfir jólatónar, jólasveinar sem gleðja bæði börn og fullorðna og kakósala.

25. nóvember – Þingeyri
Ljósin tendruð á jólatrénu á Þingeyri klukkan 16:00.
Leikskólabörn syngja.
Höfrungur býður upp á kakó og piparkökur.

26. nóvember – Flateyri
Ljósin tendruð á jólatrénu á Flateyri klukkan 16:00.
Börn úr Grunnskóla Önundarfjarðar syngja.
Kakó á Vagninum eftir að dagskrá lýkur.

2. desember – Ísafjörður
15:00: Kakó- og torgsala 10. bekkjar Grunnskólans á Ísafirði.
15:45: Lúðrasveit TÍ leikur fjörug jólalög
16:00: Ljósin tendruð á jólatrénu á Silfurtorgi
Barnakór TÍ syngur.

3. desember – Suðureyri
Ljósin tendruð á jólatrénu á Suðureyri klukkan 16:00.
Nemendur í útibúi TÍ á Suðureyri syngja.
Kvenfélagið Ársól stendur fyrir kakósölu.

Vesturbyggð: tendrun jóla­trjáa 2023

Tendrun jólaljósa á Patreksfirði verður á Friðþjófstorgi þann 27. nóvember og á Bíldudal við Baldurshaga þann 28. nóvember. Dagskrá hefst kl. 16:30.

  • Boðið verður upp á kakó og piparkökur
  • Nemendur tónlistarskólans flytja ljúfa tóna
  • Jólahugvekjur
  • Kveikt á jólaljósunum
  • Dansað í kringum jólatréð

Auk þessa býður Vesturbyggð bæjarbúum í Skjaldborgarbíó á myndina Jólamóðir kl. 17:30 þann 27. nóvember.

Allir bæjarbúar eru velkomnir að vera viðstaddir.

Nýjustu fréttir