Mánudagur 2. september 2024
Síða 27

Arctic Fish og Sjótækni gera fjögurra ára samning

John Gunnar Grindskar og Sif Huld Albertsdóttir.

Sjótækni ehf. og laxeldisfyrirtækið Arctic Fish ehf. hafa gert langtímasamning um áframhaldandi þjónustu Sjótækni við fiskeldi Arctic Fish á Vestfjörðum. Samningurinn er til fjögurra ára með framlengingarákvæðum.

Sjótækni mun veita Arctic Fish þjónustu er snýr að þrifum á eldisbúnaði, köfun og reglubundnum skoðunum. Jafnframt er hefur Arctic Fish aðgang að vinnubátum Sjótækni í ýmis verkefni og þá mun Sjótækni hafa til staðar viðbragðsteymi kafara sem hægt er að kalla út með skömmum fyrirvara.

„Það er ánægjulegt fyrir félagið að geta keypt þessa þjónustu í heimabyggð. Við viljum taka þátt í því að byggja upp öfluga og metnaðarfulla þjónustuaðila í nærsamfélaginu. Með því verður til nauðsynleg þekking á svæðinu til að þjónusta eldið okkar og annarra á framúrskarandi hátt með öryggi starfsmanna og góðri umgengni um búnað og fiskinn okkar að leiðarljósi. Sjótækni hefur sýnt metnað í að fjárfesta í búnaði til að þjónusta okkur og í fyrirtækinu er að finna mikla þekkingu á þörfum okkar þegar kemur að smitvörnum sem og þjónustunni sem félagið veitir. Auk þess eru gæði þjónustunnar orðin samkeppnishæf við það sem best gerist, það skiptir miklu máli “ segir John Gunnar Grindskar, framkvæmdastjóri eldis hjá Arctic Fish.

„Við erum stolt af því að gera langtímasamning við Arctic Fish. Það er metnaður okkar í Sjótækni að vaxa með þeim fyrirtækjum sem starfa í greininni. Við höfum til fjölda ára veitt fyrirtækinu ýmsa þjónustu og það er gott að finna fyrir ánægju og trausti með þjónustu okkar. Samhliða þessum samningi munum við fjárfesta í vinnubát með öflugum tækjabúnaði sem mun sjá um þvott á búnaði og skoðun.“ Þá mun þessi samningur styrkja félagið til frekari vaxtar og framþróunar á Íslandi, segir Kjartan J. Hauksson, framkvæmdastjóri og annar af tveimur eigendum Sjótækni.

Sjótækni gerir út báta, vinnuskip, pramma og þjónustubíla og hefur yfir að ráða mikið af sérhæfðum tækjum og búnaði fyrir fiskeldið. Höfuðstöðvar Sjótækni eru á Tálknafirði og útibú á Ísafirði og í Reykjavík. Hjá fyrirtækinu vinna yfir 40 manns.

Vinnubáturinn Valur.

Ísafjarðarbær: bæjarráð í sumarfrí

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. mynd: isafjordur.is

Rólegt er yfir störfum kjörinna fulltrúa í Ísafjarðarbæ þessar vikurnar. Bæjarstjórn samþykkti 20. júní sumarfrí í júlí og ágúst og mun ekki koma saman að nýju fyrr en5. september. Fól bæjarstjórnin bæjarráði heimild til þess að taka fullnaðarákvörðun í málum á meðan. Síðan hefur bæjarráðið, sem heldur fundi vikulega, haldið þrjá fundi og fellt niður þrjá. Síðasti fundur var 15. júlí sl.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs, segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að líklega verði ekki næsti fundur fyrr en 19. ágúst, en gæti þó orðið 12. ágúst, það fari eftir eðli og fjölda mála. Það munu því líða 4 – 5 vikur milli funda í bæjarráði á þeim tíma sem það fer með hlutverk bæjarstjórnar og yfir aðalframkvæmdatímann.

Í Bolungavík er bæjarstjórnin einnig í sumarfríi í júlí og ágúst og í Vesturbyggð er sumarfrí bæjarstjórnar fra 20. júní til 20. ágúst. Í báðum sveitarfélögum hefur bæjarráð haldið reglubundna fundi áfram.

Reykhólahreppur: áhyggjur af umferðaröryggi

Jóhanna Ösp Einarsdóttir er oddviti í Reykhólahreppi.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps ályktaði fyrr í sumar um samgöngur í sveitarfélaginu og lýsti yfir áhyggjum af umferðaröryggi á vegum frá Bjarkalundi að Gilsfjarðarbrú og óskaði eftir fundi með Vegagerðinni til þess að ræða lausnir til úrbóta.

Í ályktuninni segir að „Vestfjarðavegur 60 er þjóðvegur Vestfirðinga og mun verða aðalvegur vestur á firði á næstu árum og stysta leið til annarra landshluta. Vegurinn hefur farið mjög illa vegna þungaflutninga í leysingum vorið 2024 og er slitlag víða ónýtt eða búið að breyta þeim aftur í malarvegi. Þrátt fyrir að framkvæmd um nýtt slitlag sé á áætlun nú í sumar mun sú framkvæmd hafa þau áhrif að aðrir vegir innan sveitarfélagsins sitja á hakanum.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur áhyggjur af þjónustu og viðhaldi á vegum í sveitarfélaginu. Mikilvægt er að þjónusta malarvegi og sinna vetrarþjónustu svo fólk geti tilheyrt því samfélagi sem þau búa í.“

Jóhanna Ösp Einarsdóttir, oddviti Reykhólahrepps segir að ekki hafi enn orðið af fundi en hann verði þegar nær dregur haustinu.

Þá stefnir í að nýtt sitlag á malarkaflana, sem gerðir voru í vor á þjóðvegi 60, verði ekki lagt fyrr en í september.

Kerfill

Kerfill er fjölær planta og fer að stinga upp kollinum strax og snjóa leysir og frost að linast. En hægt fer hann, og oft er löng bið eftir að fyrstu blöðin náist inn eftir að fyrst fer að örla á þeim. Það er svolítið lakkrísbragð af kerfli og blöðin fíngerð. Nafnið kemur úr frönsku og þar hefur hann verið notaður frá fornu fari.

Hann er góður sem salatjurt, meðan blöðin eru ný . Bragðið er milt og þó er plantan nokkuð stórvaxin. Það er því hægt að nota kerfilinn í miklum mæli einmitt í maímánuði meðan beðið er eftir að salatið spretti. Í Grasnytjum Björns er ekki minnst á kerfil en Eggert hefur hann í miklu uppáhaldi og vill nota saman við salat og til bragðbætis í „soð“súpur, stöppur og kálgrauta.

Kerfillinn blómstrar um mánaðamótin maí–júní hvítum blómklösum, sem ilma skemmtilega. Hann er vorjurt og eftir blómstrun er hann minna áberandi, enda hafa þá aðrar jurtir tekið við sem matplöntur, en það má slá hann, eins og önnur villt grös, til að fá ný blöð yfir sumarið. Fyrir utan að nota kerfilinn hráan og í heita rétti má nota hann í te. Blómin má djúpsteikja. Það er auðvelt og fljótlegt að þurrka hann en bragðið er ekki sterkt. Hann er talinn hafa bætandi áhrif á meltingu og losa slím úr lungum.

Úr Ætigarðinum – handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur af vefsíðunni nature.is

Nýtt útlit á Vísindavef HÍ

©Kristinn Ingvarsson

Nýtt útlit var tekið í notkun á Vísindavef HÍ þann 8. júlí 2024.

Útlitið er hannað af fyrirtækinu Jökulá sem sér um hönnun á vefjum Háskóla Íslands. Útlitsbreytingin er liður í að samræma betur ýmsa vefi HÍ og gefa þeim notendavænan heildarsvip. Geirlaugur Kristjánsson viðmótshönnuður sá um að útfæra væntanlegt útlit aðalvefs HÍ að Vísindavefnum og Julian Ehrenstrasser hafði umsjón með allri þeirri forritunarvinnu sem tengist útliti.

Ýmsar breytingar sem nú eru gerðar á Vísindavefnum eiga að tryggja enn frekar aðgengi sem flestra að því efni sem þar er að finna um vísindi og fræði.

Í því sambandi má nefna að vefurinn styðst nú við leturgerðina Atkinson Hyperlegible, en hún er sérhönnuð af Braille-stofnuninni í Bandaríkjunum í því augnamiði að gagnast sjónskertum vel.

Einnig er nú tekin í notkun svonefnd brauðmolaslóð á Vísindavefnum sem gefur notendum kost á að hafa betri yfirsýn yfir staðsetningu sína á vefnum og einfalda fyrir þeim að rekja sig eftir fróðleiknum sem í boði er.

Kobbi Láka til aðstoðar skútu norður af Straumnesi

Í morgun barst Landhelgisgæslunni boð frá skútu með 12 manns um borð sem þá var stödd um 5 kílómetra norður af Straumnesi á Hornströndum. Gír hafði brotnað og skipstjóri óskaði eftir aðstoð.

Björgunarbáturinn Kobbi Láka frá Bolungavík hélt til móts við skútuna og var kominn að henni eftir um klukkustundar siglingu frá Bolungavík rétt upp úr klukkan ellefu í morgun. Taug var komið á milli skipanna og Kobbi Láka tók svo skútuna í tog. Stefnan er sett á höfn á Ísafirði, þar sem áhöfn Kobba Láka áætlaði að vera um klukkan 14:30.

Mynd: Landsbjörg.

Nábrókin – Hátíð í Trékyllisvík

Smáhátíðin Nábrókin hefst eins og endranær á tónleikum Melasystra í fjárhúsunum á Melum 1.

Hér eru systurnar á heimavelli og þar verður boðið upp á sannkallað hlaðborð af allskonar tónlist, gleði og ekta sveitastemmingu. Að vanda verða frábærir tónlistarmenn með í för, Þorvaldur Örn verður á hljómborðinu, Ragnar Torfason á bassanum og Tryggvi Þór Skarphéðinsson sér um slagverksleik.

Sveitaball verður á laugardag kl. 22:30 þar sem hljómsveitin Blek og byttur spila fyrir dansi en þá má í raun kalla þá heimamenn í Árneshreppi enda órjúfanlegur hluti af hátíðinni.

Mýrarboltinn er órjúfanleg hefð á Verslunarmannahelgi í Árneshreppi. Það er fátt meira hressandi og skemmtilegt en að „hlaupa“ um í drullunni eltandi rennblautan bolta og koma honum í netið. Stórkostlegt að horfa á og gaman að spreyta sig!

Magir viðburðir aðrir eru á dagskrá sem fræðast má um á facebooksíðu hátíðarinnar.

Mestar verðhækkanir í verslunum Samkaupa

Samkvæmt mælingum verðlagseftirlits ASÍ hefur verðlag á matvöru nú hækkað hratt, eða um 0,65% milli mánaða.

Þetta gerir 9,2% á ársgrundvelli. Hækkanirnar eru mestar í þremur verslunareiningum Samkaupa; Kjörbúðinni, Nettó og Krambúðinni.

Verðlag lækkar í Heimkaupum, einni verslana. Aðrar verslanir eru á svipuðu róli og í fyrri mánuðum.

Hækkanir mánaðarins ná yfir marga vöruflokka og sem dæmu um hækkanir nefnir verðlagseftirlit ASÍ að:

  • Bonduelle grænar baunir hafa hækkað um 30% í Nettó, úr 299 í 389kr. Þær hækka um 20% í Krónunni. Bonduelle smágulrætur hækka um 29% og belgbaunir um 20% í Nettó.
  • Ora grænar baunir hækka um 12% í Nettó en um 2,6% í Bónus og Krónunni. Frá maí hafa Ora sneiddir sveppir í dós hækkað um 12% í Nettó, 14% í Krambúðinni og 20% í Kjörbúðinni.
  • Pottagaldra karrý hækkar um 5,7% í Nettó og um 4,2% í Bónus og Krónunni. Pottagaldra kúmín hækkar um 12% í Krónunni, 10% í Hagkaup og 6,4% í Nettó.
  • Sellerí hækkar um 54% í Krónunni, 23% í Hagkaup og 9,1% í Nettó.
  • Bökunarkartöflur hækka um 20% í Krónunni.
  • Pfanner ACE safi hækkar um 33-5% í Kjörbúðinni, Krambúðinni og Nettó, 4,2% í Bónus og 3,6% í Hagkaup.
  • G-mjólk, lítil ferna, hækkar um 9,6% í Kjörbúðinni og 5,9% í Nettó en stendur í stað í Heimkaupum, Hagkaup, Bónus og Krónunni.
  • MS Nýmjólk hækkar um 1% í Kjörbúðinni og Nettó en stendur í stað í Heimkaupum, Hagkaup, Bónus og Krónunni.

Vörur frá Freyju hafa einnig hækkað milli mánaða, og fylgja þar í spor annarra súkkulaðiframleiðenda. Eins og verðagseftirlitið greindi frá í lok mars höfðu Nói Síríus og Góa-Linda þá hækkað verð sín en Freyja ekki. Nú hafa vörur Freyju hækkað líka, til dæmis hækkar verð súkkulaðiplötu með Djúpum um 16% í Nettó, 14% í Krónunni og 11% í Hagkaup. Stór Freyju Rís hækkar um 22% í Bónus, 21% í Krónunni, 20% í Nettó og 11% í Hagkaup.

Verðlag í matvöruverslunum hefur hækkað um 1,45% frá undirritun kjarasamninga, sem jafngildir 4,0% á ársgrundvelli. Um helmingur hækkunarinnar hefur orðið á undanförnum vikum og skorðast kippurinn að miklu leyti við verslanir Samkaupa.

Þegar stærstu fjórar verslanir landsins eru skoðaðar sést að hækkunartaktur verðlags í Bónus, Krónunni og Hagkaup hefur verið á bilinu 0-0,6% á mánuði, og sama gilti um Nettó þar til nú.

Bolungavík: Ístækni bauð 75 m.kr. í vatnstankinn

Það er Þotan ehf sem byggir vatnstankinn. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Tvö tilboð bárust í lagnir og búnað vegna vatnstanks í Bolungavík. Ístækni bauð 75 m.kr. og Rörás 95 m.kr. Kostnaðaráætlun var 66 m.kr.

Bæjarráð samþykkti að ganga til samninga við lægstbjóðanda.

Stefnt er að því að nýja vatnsveitan verði tekin í notkun í haust og verður allt vatn borholuvatn í og leysir af hólmi vatnsveitu með yfirborðsvatni. Nýi vatnstankurinn rúmar 2,7 milljón lítra.

Þegar hafa verið boraðar nokkrar holur og fengist gott vatn, en ekki nægilegt magn og verða fleiri holur boraðar síðar í sumar.

Heildarkostnaður við vatnsveituna er áætlaður um 300 m.kr.

Strandabyggð: samið við Litla Klett vegna leikskólalóðar

Hólmavík.

Á aukafundi sveitarstjórnar Strandabyggðar 12. júlí var til afgreiðslu samningur við verktakafyrirtækið Litla Klett um leikskólalóð á Hólmavík. Sveitarstjórn ákvað í september 2023 að fá Litla Klett til verksins og síðan hefur verið unnið að endurhönnun lóðarinnar.

Fram kom að minnihluti sveitarstjórnar var gagnrýninn á framvindu málsins og lagði oddviti A lista fram fyrirspurninr í 15 liðum um verkið. Oddviti svaraði spurningunum og benti á að endurhanna hafi þurft lóðina og afgreiða stjórnsýslukæru sem hefði hvort tveggja tafið málið.

Í bókun A lista sem lögð var fram segir að innkaupareglur Strandabyggðar hafi verið brotnar, breytingar á verki væri það miklar að í raun ætti að gera nýja verðfyrirspurn, forkastanlegt væri að gera ráð fyrir að það sé verið að vinna á leikskólalóð á meðan leikskóli er í gangi án öryggisgirðinga og að sveitarstjórnarmönnum A-lista finnist samningurinn sem er til afgreiðslu vera ófullnægjandi.

Í bókun oddvita segir að fyrir liggi fyrir að samþykkt var af meirihluta sveitarstjórnar í september 2023 að fá Litla Klett í þetta verkefni. „Enginn annar aðili sýndi þessu verki áhuga né gerði tilboð. Frekari verðfyrirspurn er því ekki á dagskrá. Umræða um samningsdrögin er góð og hefur útskýrt margt og leiðrétt margt og mun auðvelda frágang á endanlegum samningi. Bókun A-lista talar fyrir sig en óhjákvæmilega spyr maður sig hvort A-listinn vilji raunverulega sjá þessa framkvæmd raungerast.”

Samþykkt var með þremur atkvæðum meirihluta að verk geti hafist og samningurinn staðfestur með fyrirvara um þau atriði sem leiðrétt verða og endanlegur samningur lagður fram á fundi sveitarstjórnar þann 13. ágúst nk.

Nýjustu fréttir