Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 27

Byggðastofnun eykur verulega fjárframlög til brothættra byggða

Stjórn Byggðastofnunar samþykkti á fundi sínum þann 26. september sl. að veita 135 m.kr. viðbótarfjárframlagi inn í verkefnið Brothættar byggðir til að auka viðspyrnu í byggðarlögum sem eru í vörn. Framlagið skiptist á þrjú ár, 2025-2027. Viðbótin verður nýtt til þess að fjölga þátttökubyggðarlögum, lengja gildistíma nýrra samninga og auka þannig stuðning við frumkvæðisverkefni.  Þá verður nú tveimur fyrrum þátttökubyggðarlögum, sem áfram eru í varnarbaráttu, boðið til samstarfs í tilrauna-/átaksverkefni til að fylgja eftir árangri í þeim byggðarlögum.

Verkefnið hófst á árinu 2012 og hefur verið í gangi í rúman áratug.  Undanfarið ár hefur verkefnið verið til skoðunar hjá stofnuninni og m.a. var samið við KPMG um að meta áhrif og verklag verkefnisins og möguleg sóknarfæri.  Töluverð eftirspurn er eftir þátttöku  verkefninu og það hefur víða stuðlað að jákvæðum byggðaáhrifum.

Á næstu vikum verður unnið að nánari útfærslu verkefna í samstarfi við hlutaðeigandi aðila.

Hljómar kunnuglega ekki satt?

Mjög langur vegur er frá því að helztu lögspekingar landsins séu einróma í þeirri afstöðu að rétt sé að frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem kennt hefur verið við bókun 35 við EES-samninginn, verði að lögum þrátt fyrir fullyrðingar stjórnvalda um annað. Frumvarpið felur sem kunnugt er í sér að bundið verði í lög að regluverk frá Evrópusambandinu sem innleitt er hér á landi í gegnum samninginn hafi forgang gagnvart innlendri lagasetningu.

Við Íslendingar fengum síðast að heyra fullyrðingar um meinta einróma afstöðu hérlendra lögspekinga þegar þáverandi vinstristjórn reyndi ásamt stjórnvöldum í Hollandi og Bretlandi auk ráðamanna Evrópusambandsins að koma Icesave-skuldaklafa Landsbanka Íslands á herðar okkar. Þá var málflutningur stjórnvalda sá að við yrðum að sætta okkur við það, við hefðum ekkert val, ekki væri hættandi á það að fara dómstólaleiðina og að um þjóðréttarlega skuldbindingu væri að ræða. Hljómar kunnuglega ekki satt?

Málið varðandi frumvarp Þórdísar er fyrir vikið í raun miklu stærra en til að mynda bæði Icesave-málið og þriðji orkupakki Evrópusambandsins hér um árið. Frumvarpið nær þannig ekki einungis til tilskipunar sambandsins um innistæðutryggingar eins og í Icesave-málinu eða þeirra lagagerða sem tilheyra þriðja orkupakkanum heldur allra lagagerða tengdum bæði fjármálageiranum sem komið hafa og munu koma í gegnum EES-samninginn, allra lagagerða að sama skapi varðandi orkumálin og alls annars í gegnum hann.

Óútskýrður viðsnúningur

Verði frumvarp Þórdísar að lögum verður til ný forgangsregla í íslenzkum rétti. Ólíkt þeim forgangsreglum sem þegar gilda um almenna lagasetningu, þar sem yngri lög ganga fyrir eldri og sértækari fyrir almennari, mun nýja reglan miðast við það eitt að um sé að ræða innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Ástæðan er einkum sú að löggjöf sambandsins nýtur forgangs gagnvart löggjöf ríkja þess og krafa gerð um að hið sama gildi um Ísland vegna aðildar landsins að samningnum.

Málið hófst árið 2012 þegar Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) óskaði eftir upplýsingum um það hvernig bókun 35 hefði verið innleidd hér á landi. Tæpum tuttugu árum eftir að EES-samningurinn tók gildi. Fram að því höfðu engar athugasemdir verið gerðar í þeim efnum. Mikil samskipti áttu sér stað við ESA í rúman áratug þar sem stjórnvöld vörðu þá leið sem farin var og höfnuðu kröfu stofnunarinnar. Frumvarp Þórdísar var síðan lagt fram í marz 2023 þvert á fyrri málflutning stjórnvalda. Viðsnúningur sem enn er óútskýrður.

Viðsnúningurinn er raunar enn undarlegri í ljósi minnisblaðs utanríkisráðuneytisins til utanríkismálanefndar Alþingis árið 2020 þar sem reifuð voru í átta liðum helztu mótrök Íslands gegn kröfu ESA eins og fjallað var um í Morgunblaðinu 26. apríl 2023. Þar var meðal annars bent á tómlæti ESA í áratugi og að lagabreyting, líkt og frumvarp Þórdísar kveður á um, væri tæplega möguleg án veigamikillar stjórnarskrárbreytingar sem óvíst væri að þjóðin yrði reiðubúin að sætta sig við. Ófáir lögspekingar eru sama sinnis.

„Framtíð lýðræðis á Íslandi“

Tveir fyrrverandi hæstaréttardómarar hafa til að mynda lýst þeirri afstöðu sinni að bókun 35 samrýmist ekki stjórnarskrá lýðveldisins, þeir Markús Sigurbjörnsson og Jón Steinar Gunnlaugsson. Alvarleg varnaðarorð hafa eins verið viðruð af Stefáni Má Stefánssyni, lagaprófessor og helzta sérfræðingi landsins í Evrópurétti, sem sat í upphaflegri nefnd stjórnvalda sem taldi EES-samninginn standast stjórnarskrána. Hins vegar var það mat byggt á afgreiðslu bókunar 35 á þann hátt sem gert var og ætlunin er nú að breyta.

Fram kom enn fremur í umsögn um frumvarp Þórdísar sem Stefán Már sendi til utanríkisráðuneytisins í byrjun marz 2023 ásamt Arnaldi Hjartarsyni, aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, að sú breyting á lögum um Evrópska efnahagssvæðið sem frumvarpið myndi hafa í för með sér vekti ekki aðeins upp áleitin stjórnskipuleg álitamál „heldur einnig almennar spurningar um hlutverk Alþingis og framtíð lýðræðis á Íslandi.“ Færa þeir þar haldbær rök fyrir því að efni frumvarpsins standist í reynd ekki lögfræðilega skoðun.

Fullyrða má þannig svo gott sem að Ísland hefði ekki orðið aðili að EES-samningnum fyrir 30 árum ef litið hefði verið svo á að innleiða þyrfti bókun 35 við samninginn eins og reynt hefur verið af hálfu stjórnvalda og enn á að reyna. Bæði sé horft til umræðna á vettvangi stjórnmálanna á þeim tíma og í röðum lögspekinga. Hvernig staðið var að málum í upphafi var í raun ein helzta forsenda þess að af aðildinni varð. Krafan um forgang regluverks Evrópusambandsins felur því í raun í sér algeran forsendubrest í þeim efnum.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Bolungavík: Náttúrustofuþing á morgun

Samtök náttúrustofa á Íslandi standa fyrir sérstöku náttúrustofuþingi í Félagsheimilinu í Bolungavík á morgun, 2. október. Hefst þingið kl 13 og stendur til 17.

Náttúrustofurnar eru átta talsins og verður flutt erindi frá hverri þeirra auk erindis nýskipaðs forstjóra Náttúrustofu Íslands.

Hulda Birna Albertsdóttir flytur erindi fyrir Náttúrustofu Vestfjarða sem nefnist endurheimt staðargróðurs eftir framkvæmdir – vegagerð um Teigskóg.

Fundarstjóri verður Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík.

Þingið er opið og allir eru velkomnir.

Ísafjarðarbær: skrefagjaldið innleitt í dag

Mynd: Ísafjarðarbær.

Í dag tekur gildi svonefnt skrefagjald við sorphirðu í Ísafjarðarbæ. Það er lagt á ef draga þarf sorpílát lengra en 10 metra að lóðarmörkum til losunar í hirðubíl. Þessar breytingar voru samþykktar í bæjarstjórn í september 2023 en ákveðið að fresta innleiðingu ákvæðisins til að gefa íbúum sumarið í sumar til að bregðast við ef breytingarnar kalla á verklegar framkvæmdir.

Tilgangur þessarar breytingar er fyrst og fremst að bæta vinnuaðstæður sorphirðufólks og stytta þann tíma sem tekur að losa heimilissorp segir í kynningu frá sveitarfélaginu.

Skrefagjaldið er samkvæmt gjaldskrá 50% álag á hvert ílát sem þýðir að hefðbundið 240 lítra ílát fyrir almennan úrgang með innra hólfi fyrir lífrænan úrgang hækkar úr 25.700 kr. á ári í 38.550 kr. á ári.

Þá hafa verið sett ákvæði varðandi staðsetningu íláta  sem kveða á um að óheimilt sé að staðsetja ílát undir úrgang sem eru þyngri en 40 kg þannig að fara þurfi með þau um tröppur eða mikinn hæðarmun á lóð. Þar sem fara þarf með ílát upp tröppur skulu vera á þeim fastar sliskjur, eða rampur eða skrábraut fyrir hjól, sem draga má ílátin eftir.

Landsbjörg: Björg nýtt björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar komið til landsins

Upp úr hádegi í gær var Björg, nýtt björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar hífð frá borði Brúarfoss, skipi Eimskipafélagsins í Sundahöfn.

Björg er fjórða skipið í nýsmíðaverkefni Slysavarnafélags Landsbjargar og mun leysa af hólmi skip með sama nafni á Rifi á Snæfellsnesi. Það skip var smíðað árið 1988 og er því orðið 36 ára gamalt.

Meðal aldur þeirra björgunarskipa sem eftir á að endurnýja er 38 ár.

Elsta skipið er Hannes Þ. Hafstein í Sandgerði, sem var smíðað árið 1978 er því orðið 46 ára gamalt. Það yngsta af þeim sem stendur til að endurnýja er Gísli Jóns á Ísafirði, smíðaður árið 1995 og er því 29 ára.

Næstu daga fara fram skoðanir á Björg, í aðdraganda útgáfu haffæris skírteinis, ásamt því að settur verður í hana ýmis tækjabúnaður eins og Tetra talstöðvar.

Björg verður til sýnis á ráðstefnunni Björgun 24 í Hörpu, dagana 11-13. október næst komandi ásamt Jóhannesi Briem, þriðja skipinu í nýsmíðaverkefninu.

Landsbjörg á og rekur 13 björgunarskip á landinu og hafa fjögur þeirra verið endurnýjuð. Þau eru í Vestmannaeyjum, á Siglufirði, í Reykjavík og á Rifi.

Tvö skipa Landsbjargar eru á Vestfjörðum, Patreksfirði og á Ísafirði. Auk þeirra rekur Björgunarsveitin Ernir í Bolungavík eigið skip, Kobba Láka.

Kostnaður við hvert skip hingað komið er tæplega þrjú hundruð milljónir króna. Heildarkostnaður við að endurnýja öll 13 skip Slysavarnafélagsins Landsbjargar slagar því hátt í 4 milljarða segir á vef Landsbjargar.

Íslenska ríkið tekur þátt í verkefninu og leggur til helming af kostnaði við fyrstu 10 skipin, upphæð sem samsvarar um 1,4 milljarði. Það er því talsvert í land ennþá, því samtals vantar rúma tvo milljarða til að fullfjármagna verkefnið. Framhald endurnýjunarinnar er í óvissu vegna þessa.

Endurnýjunaráætlun Landsbjargar.

Vesturbyggð ber að afgreiða án tafar kæru vegna sorphirðugjalda

Tálknafjörður

Ábúendur á Eysteinseyri í Tálknafirði gerðu athugasemdir við sorphirðugjöld á lögbýlinu Eysteinseyri fyrir árin 2022 og 2023. Telja þeir að sveitarfélagið hafi oftekið sorphirðugjöld og krejast endurgreiðslu. Sendu þeir þrjú bréf til sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps, dags 6. nóvember, 15. desember 2023 og 26. janúar 2024. Var með erindunum óskað upplýsinga um innheimtu sorphirðugjalda.

Bréfunum var ekki svarað og sneru ábúendur sér þá til Innviðaráðuneytisins sem framsendi erindið í maí til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, ÚUA.

Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð hafa nú sameinast í einu sveitarfélagi, Vesturbyggð, sem tekið hefur með því við fyrirsvari málsins. Öðlaðist sameiningin gildi 19. maí 2024.

Vesturbyggð vísaði fyrir nefndinni í greinargerð Tálknafjarðarhrepps, dags. 20. apríl 2024, þar sem sjónarmið og rökstuðningur sveitarfélagsins vegna ákvörðunar sorphirðugjalds eru rakin en ekki er fjallað um svör við erindum kærenda, þ.e. hvort eða hvenær þeim hafi verið svarað.

Úrskurðarnefndin sendi Vesturbyggð fyrirspurn með tölvupósti 26. september 2024 þar sem óskað var upplýsinga um hvort fyrirspurnum þeim sem kærumál þetta varðar hafi verið svarað. Með tölvupósti 27. s.m. upplýsti sveitarfélagið að ekki hafi verið brugðist við erindum með neinum hætti eftir að sameining sveitarfélaganna tók gildi.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í gær er að  Vesturbyggð hafi ekki svarað þeim erindum er kærendur beindu til sveitarfélagsins og kæran varðar og af svörum sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar megi ráða að ekki sé að vænta svara. „Að því virtu verður að álíta að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð erindis kærenda.“

Úrskurðarorðin eru: Vesturbyggð skal taka fyrirliggjandi erindi kærenda er varða gjaldtöku vegna sorphirðugjalda til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

Strandabyggð: greiðslur í samræmi við samninga og samþykktir

Jón Jónsson er hreinsaður af öllum ásökunum í úttekt KPMG.

KPMG hefur lokið úttekt þeirri sem sveitarstjórn Strandabyggðar ákvað 9.7. 2024 að gerð yrði á öllum greiðslum til Jóns Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e. á árunum 2010 – 2014 og 2019 – 2022.

Deilt hafði verið þátt Jóns og krafðist hann þess þá að fá upplýsingar um þau tilvik sem ætlað var að hann hefði misnotað aðstöðu sína. Varð niðurstaðan í sumar að láta gera ofangreinda úttekt.

Við fyrrgreinda úttekt skyldi KPMG leggja mat á hvort fullnægjandi samþykktir eða samningar hafi staðið að baki þeim ákvörðunum af hálfu sveitarfélagsins sem lágu til grundvallar umræddum greiðslum/fjárveitingum og hvort þær hafi að öllu leyti verið teknar í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, samþykkta og siðareglna Strandabyggðar.

í samræmi við samninga og samþykktir


Endurskoðunarfyrirtæki KPMG hefur nú unnið úttektina og skilað minnisblaði sem má finna hér, niðurstöður úttektarinnar eru sem hér segir:

„Ekki er annað að sjá en greiðslur til Jóns Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetur, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e á árunum 2010-2014 og 2019-2022 hafi verið í samræmi við samninga og samþykktir sveitarstjórnar.

Einnig er ekki annað að sjá en Jón hafi gætt þess sem fulltrúi í sveitarstjórn að víkja sæti þegar framangreindir samningar voru til umfjöllunar.“ Vísað er í samninga Strandabyggðar við Strandagaldur ses og Sauðfjársetur ses.

Fram kemur einnig í úttektinni að Jón Jónsson hafi setið í stjórn Strandagaldurs ses frá nóvember 2018 til maí 2024 en hafði áður verið í stjórn til ársins 2007. Strandagaldur ses er sjálfseignarstofnun og því er ekki um eiginlega eigendur að ræða að félaginu. Samningar milli Strandagaldurs ses og Strandabyggðar eru styrktar- og samstarfssamningar. Í samningum er fjallað meðal annars um markmið og tilgang hans, árlegt fjárframlag og skuldbindingar vegna fjárframlags. Á tímabilinu 2010 til 2020 tóku samningarnir vegna reksturs Upplýsingamiðstöðvar á Hólmavík.

Sömuleiðis kemur fram að Sauðfjársetur á Ströndum ses var stofnað árið 2009 og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var Jón Jónsson aldrei í stjórn þess. Sauðfjársetur á Ströndum ses er sjálfseignastofnun og því ekki um eiginlega eigendur að ræða. Sammningar milli Sauðfjárseturs á Ströndum ses og Strandabyggðar eru styrktar- og samstarfssamningar og í þeim fjallað um markmið og tilgang, árlegt fjárframlag og skuldbindingar vegna fjárframlags. 

Stjórnvöld efli stuðning við barnafjölskyldur

Aðalfundur Sambands austfirskra kvenna SAK, haldinn á Eiðum 28.september 2024, skorar á stjórnvöld að efla ráðgjöf og stuðning við barnafjölskyldur í landinu.

Samfélagi nútímans fylgir mikið áreiti sem getur gert uppalendum erfitt fyrir. Það þarf því meira en ,,eitt þorp“ til að ala upp barn!

Frá aðalfundinum. Myndir: aðsendar.

Tónlistarskólinn í Bolungarvík 60 ára

Tónlistarskóli Bolungarvíkur fagnar nú 60 ára afmæli. Skólinn hóf starfsemi 1. október 1964. Á heimasíðu skólans má finna ýmsar upplýsingar um sögu skólans og starfsemi hans gegnum árin.

Tónlistarskólinn er mikill happafengur fyrir Bolungarvík. Án hans værum við menningarlega fátækari og þeir sem komu að stofnun og rekstri skólans eiga þakkir skildar. Oft gleymist að erfiðar er að vera gefandi en þiggjandi hvað varðar menningu og listir.

Undirritaður var nemandi í fyrsta árgangi skólans og við þessi tímamót rifjast fjölmargt upp. Fyrstu árin starfaði skólinn á heimili foreldra minna að Traðarstíg 7 og Vitastíg 20. Fyrir nokkru sýndi faðir minn mér möppu með margvíslegum gögnum um stofnun og rekstur skólans þann tíma sem hann var skólastjóri. Fannst mér þetta áhugavert og ákvað að taka saman nokkra punkta svo þetta falli ekki í gleymsku.

Andrés Önd

Til gamans má geta þess að við Davíð bróðir vorum áskrifendur af Andrésar Andarblöðunum margfrægu. Á þeim árum voru svokölluð hasarblöð og Andrés í miklu uppáhaldi á Íslandi og fleiri löndum. Svíar elska enn Andrés Önd og horfa út í eitt á gamlar Andrésmyndir yfir jól og áramót. Andrésaræðið náði jú hápunkti fyrir komu sjónvarpsins og teiknimynda. Andrésarblöðin voru voru sett í þar til gerðar brúnar möppur og árum saman lúslesin af þeim nemendum skólans þeir biðu eftir næsta kennslutíma. Voru þetta líklega mest lesnu Andrésblöð landsins. Eflaust muna margir eldri nemendur enn eftir þessum Andrésarmöppum sem þarna voru einskonar hluti skólans. Enginn veit reyndar hvað varð um möppurnar en þeim smá fækkaði og hafa líklega verði „fengnar að láni“ en ekki skilað. Til fróðleiks fyrir þá sem yngri eru var kaldastríðspólitíkin á þessum árum svo hörð að Andrés var hreinlega bannfærður í Austur Evrópa en elskaður í vestrinu. Jóakim frændi var að mati þeirra fyrir austan allt of ríkur pjakkur.  

Við sem spiluðum á fyrstu vortónleikunum 9. Maí 1965 munum væntanlega flest hversu stressuð við vorum að mæta og spila einleika á sviði fyrir framan foreldra og fjölmarga bæjarbúa.

Benedikt, Jónatan og Ólafur helstu hvatamenn að stofnun skólans

Rifja má upp að Benedikt, Jónatan og Óli málari vor helstu hvatamann að stofnun skólans. Ólafur var á árunum 1957 til 1964 búsettur í Reykjavík á vetrum, starfaði þar við málningarvinnu og að spila Jazz á Keflavíkurflugvelli fyrir herinn. Þá var Óli við nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og farinn að undirbúa sig undir fjölbreytta kennslu og rekstur tónlistarskóla.

Mikill áhugi var fyrir því að stofna tónlistarskóla í Bolungarvík og helstu hvatamenn stofnunar skólans voru þeir Benedikt Bjarnason, Jónatan Einarasson og Ólafur Kristjánsson. Ætla má að umræðan hafi byrjað þegar Óli var að mál ný hús þeirra beggja við Völusteinsstræti. Stofnun Tónlistarfélags Bolungarvíkur var formlega 10. Júní 1964 og Ólafur í framhaldinu ráðinn skólastjóri. Meðfylgjandi er fróðleg fundargerð Benedikts Bjarnasonar er lýsir vel aðdraganda að stofnun skólans.

Nefna má að þar á undan hafði Sigríður Norðquist verið með einkakennslu á píanó. Tónlistarfélagið var síðan starfandi allt til ársins 1989 er Bolungarvíkurkaupstaður tók yfir rekstur skólans og launagreiðslur.

Til þess að tengja stofnun skólans við eftirminnilegar tímasetningar í Bolungarvík má minna á að haustið 1966 var nýi” barnaskólinn“ vígður. Sundlaugin var vígð 1977 og íþróttahúsið 1984.

Á svipuðum tíma voru einungis fimm tónlistarskólar starfandi á landinu utan Reykjavíkur. Bolungarvík var þannig framarlega í röðinni á landsvísu. Tónlistarskólinn á Ísafirði var eldri eða frá árinu 1948 og Tónlistarskólinn á Akureyri frá 1946. Barnamúsikskólinn í Reykjavíkur var formlega stofnaður 1952.  

Í upphafi og fyrsta veturinn voru 30 nemendur í skólanum. Skólinn átti fjögur hljóðfæri þ.e. trompett, klarinett, þverflautu og básúnu. Skólastjórinn lagði sjálfur til pianó og nokkur minni blásturshljóðfæri. Fyrsta skólaárið 22 nemendur á pianó, 1 á harmonium, 3 á  blásturshljóðfæri og 4 á harmonikku. Einnig var kennd var tónfræði. Til eru gamlar efnisskrár frá fyrstu árunum og hægt er að fletta upp hvernig spiluðu og hvað þeir spiluðu.

Lúðrasveitin, Ísafjörður og karlakórinn

Kringum 1970 var í nokkur ár starfandi öflug lúðrasveit skólans. Töluvert var að gera hjá lúðrasveitinni. Dagarnir 17. Júní og Sjómannadagurinn voru t.d. fastir liðir í starfi lúðrasveitarinnar. Að öðrum ónefndum má nefna að Davíð var á fyrsta trompet, Muggi á básúnu, Pálmi Gests á saxafón, Kristján Ólafs á klarinett og Júlli Kitt á Súsafón. Það þurfti einn stóran og sterkan á Súsafóninn. Líklega átti skólinn ekki trommur því enginn var trommarinn.

Engin lúðrasveit var á Ísafirði á þessum árum og fórum við margsinnis, með rútunni, á Ísafjörð að spila. Strákarnir á Ísafirði voru ekkert allt of ánægðir með þessa spilandi Bolvíkinga og létu okkur stundum heyra það. Alla vega man ég er við spiluðum á Alþýðuhúsströppunum, líklega 1. maí,  að við fengum nokkur slæm “hrepparígskomment”. Man sem betur fer ekki hverjir stóðu að þeim kommentum.

Til viðbótar við skólann og lúðrasveitina má nefna öflugan kirkjukór og Karlakórinn Erni í Bolungarvík. Óli var stjórnandi karlakórsins og sá almennt um allan undirleik í Bolungarvíkinni og þótti það sjálfsagt að skólastjórinn hefði þær skyldur. Árið 1983 sameinast karlakórar Bolungarvíkur, Þingeyrar og Ísafjarðar, fyrst með tvo stjórnendur Ólaf Kristjánsson og Kjartan Sigurjónsson. Starf kóranna féll niður í nokkur ár en það var svo árið 2002 að blásið var nýju lífi í kórinn. Tónlistarskólinn, Kirkjukórinn og Kalakórinn fá þannig stuðning hver af öðrum.

Nýr 25 milljóna flygill

Á 20 ára afmæli skólans 1984 var vígður nýr Steinway flygill í Félagsheimilinu. Velunnarar skólans höfðu lagt áherslu á að fá gott hljóðfæri í bæinn er gæti verið hvatning fyrir tónlistarlífið og að fá fleiri til þess að flytja tónlist í Bolungarvík. Flygillinn var þá eitt af bestu hljóðfærum landsins. Áætlað er að nýr sambærilegur Steinway kosti nú um 25 milljónir. Það koma í hlut Ólafs Kristjánssonar, Hálfdáns Einarssonar og Einars Jónatanssonar að standa fyrir söfnun til kaupanna. Talið er að þeir þrír hafi greitt stóran hluta kaupverðsins úr eigin vasa en það hefur jú reyndar aldrei komið fram. En nú má vissulega færa þeim bestu þakkir þótt liðin séu 40 ár frá kaupunum.

Óli lumar á nokkrum skemmtilegum sögum

Trúnaður nemenda og kennara er mikilvægur í öllu skólastarfi. En hér koma nokkrar skemmtilegar sögur sem ekki brjóta neinn trúnað.

  • Ónefnd stúlka var feimin og kom ávallt í tíma með kanínuna sína í fanginu í tíma. Fékk frá henni andlegan styrk og stuðning. Samskiptin þróuðust þannig að Óla gekk best að ná sambandi við stúlkuna gegnum kanínuna sem flutti nemandanum öll skilaboð kennarans.
  • Eitt sinn kom ungur efnilegur piltur frekar illa fyrir kallaður í tíma og trúði Óla fyrir því að ástæðan væri rifrildi foreldraranna. Málið var að pabbinn ætlaði að kjósa Kristinn Gunnarsson en mamman Óla og um það var hart á tekist.
  • Hrólfur Vagnsson kom oft í tíma með harmonikuna á snjóþotu, þá nýbúinn að beita nokkra bala fyrir pabba sinn. Eitt sinn kom Hróflur óvænt illa æfður í tíma og sett var út á það. Hrólfur rauk út, sagðist hættur og mætti ekki í næsta tíma.  Óli hringdi í Hrólf og sendi honum í framhaldinu vinsamlegt trúnaðarbréf. Enn er haldinn trúnaður um innihald bréfsins en Hrólfur geymir víst enn bréfið. Og Hrólfur hélt áfram náminu frá Bolungavík til Þýskalands og hefur gert garðinn frægann.
  • Ein stúlkan upplýsti eftir fyrstu spilatímana, og það í smáatriðum, hvernig hún ætlaði að vera klædd á jólatónleikunum. „Kjóllinn átti að vera síður, blár og með hvítum blúndum á ermum og að neðan“. Og nákvæm lýsing var einnig á því hvernig skórnir ættu að vera á litinn.
  • Skólinn átti sér ýmsa velunnara. Þegar skólinn var 10 ára gaf t.d. þáverandi rafveitustjóri, Benedikt Þ, andvirði eins skólagjalds til þess nemanda er mestri framför tæki á skólaárinu.

Gegnum árin hefur það verið mikill fengur að fá vestur fjölda hæfileikafólks í tónlist til starfa og kennslu við tónlistarskólana í Bolungarvík og á Ísafirði.

Hér látum við staðar numið en margt fleira mætti tína til um stofnun og starfsemi tónlistarskólans í Bolungarvík.

Að lokum vil ég óska skólanum, kennurum og nemendum sem og Bolungarvíkingum öllum velfarnaðar á komandi árum. Hvernig væri annars lífið án tónlistar?

Kristján B. Ólafsson, nemandi úr fyrsta árgangi skólans

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða: Ísafjarðarbær samþykkir fjárhagsáætlun 2025

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða er í Bolungavík.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar gerði athugasemdir við fjárhagsáætlun HEVF 2025 í síðustu viku og fól bæjarstjóra að kalla eftir skýringum og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs. Þær voru lagðar fyrir bæjarráð í gær og að þem fengnum samþykkti bæjarráðið fjárhagsáætlunina.

Rekstrarkostnaður eftirlitsins er áætlaður verða 71 m.kr. á næsta ári og hækkar um 5 m.kr. Launakostnaður er áætlaður 57 m.kr. og hækkar um 2 m.kr. Þrír starfsmenn eru nú í fullu starfi.

Ferðakostnaður hækkar um 1,2 m.kr. og verður 4,5 m.kr. er það einkum vegna reksturs bifreiðar. Heilbrigðiseftirlitið gerir út tvo bíla Tesla rafmagnsbíl og 10 ára gamlan Skoda Octavia.

Þá hækkar tölvuþjónusta milli ára um 1 m.kr.

Gert er ráð fyrir að sértekjur verði 3,5 m.kr. og verði óbreyttar milli ára. Eftirlitsgjöld skili um 38 m.kr. líkt og í ár. Eftir standa þá 29 m.kr. sem verða framlög sveitarfélaganna sem standa að eftirlitinu og hækka um 4 m.kr.

Brugðist var við athugasemdum á síðasta ári með því að hækka eftirlitsgjöldin og segir í skýringum Heilbrigðiseftirlitsins að það sé aftur gert núna. Miðað er við að eftirlitsgjöld standi undir 70% af kostnaði við rekstur heilbrigðiseftirlits en algengt sé það hjá heilbrigðiseftirliti annars staðar að það standi undir 50%.

Nýjustu fréttir