Þriðjudagur 18. mars 2025
Síða 27

Vegagerðin: býður upp á aukaferðir með Baldri

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Vegagerðin hefu ákveðið að bjóða flutningaðilum aukaferðir með ferjunni Baldri vegna vetrarblæðingaástandsins á Vestjarðavegi. Ástæðan er sú að ásþungatakmökunin við 7 tonn sem tekur gildi í hádeginu verður til þess að flutningabíla, t.d. með fisk að vestan verða að aka yfir Þröskulda, suður Strandir og yfir Holtavörðuheiði, sem lengir ferðatímann verulega.

Það þarf að hafa samband tímanlega við Sæfara og óska eftir aukaferðum segi í tilkynningunni.

Búist er við að þetta ástand vari næstu daga.

Vikuviðtalið: Halla Signý Kristjánsdóttir

Hver er ég?

Ég heiti Halla Signý og er dóttir hjónana Árilíu Jóhannesdóttur og Kristjáns Guðmundssonar og er frá Brekku á Ingjaldssandi. Ég er 11. í röðinni af 12 börnum og yngst 10 barna þeirra hjóna sem komumst upp. Fædd 1964 þann 1. maí, veturinn hafði verið mildur og mamma og pabbi tíndu fjallagrös á Sandsheiðinni þegar mamma skutlaðist yfir á Flateyri í lok apríl til að eiga mig.

Líklega hef ég ekki verið á dagskrá, til var ritgerð heima sem pabbi skrifaði á unglingsárunum þar sem hann viðraði framtíðarsýnina. Hann ætlaði auðvitað að verða bóndi á Brekku, eiga tvö börn strák og stelpu og lifa á landsins gæðum í fallegum dal. Hann stóð við það en eignaðist sex stelpur og sex stráka með mömmu sem ætlaði að verða söngkona. Stelpuskottið sem fæddist í torfbæ á Bessa í Dýrafirði ólst upp frá sjö ára á Flateyri og fór í vist í henni stóru Reykjavík hjá henni frú Sigurðsson sem var skosk söngkona og kenndi söng. Hún heyrði að stúlkan að vestan hafði fögur hljóð þegar hún söng við uppvaskið og tók hana í kennslu. En eins og frú Árilía sagði „mamma hringdi og vildi að ég kæmi vestur til að mjólka beljuna því hún var ein með börnin, pabbi á sjó og amma lögst í rúmið, en svo elskaði ég bara hann pabba þinn svo mikið að ég kaus að fara vestur aftur“.
Þannig var það og saman voru þau sátt við barnahópinn sinn og húsmæðraskólagengna mamma söng og bakaði tólf sortir fyrir jólin og  og pabbi ræktaði sauðfé og gekk um fallegu fjöllin sem umlukti okkur á þrjá vegu á Sandi. Þau elsku hvort annað, okkur barnahópinn, lífið og tilveruna.

Ég gekk í barnaskóla á Ingjaldssandi fram til 13 ára aldurs og þá lá leiðin í héraðsskólann að Núpi, það þýddi ekkert að gráta heimþrána í koddann, maður var jú orðin fullorðin og varð að standa sig enda bauð Sandsheiðin ekki upp á hægt væri að sækja framhaldsmenntun frá Sandi.

Búseta og störf

Þó heima sé alltaf Brekka á Ingjaldssandi hef ég átt mörg góð „heima“.  Þegar ég var búin að prufa að fara í framhaldsskóla í Reykjavík, vinna í sláturhúsinu og frystihúsinu fór ég til Bolungarvíkur, vann í sparisjóðnum hjá Sólberg og kynntist manninum mínum honum Sigga Gumma, sem er Bolvíkingur af líf og sál. Þar eignaðuðumt við okkar fyrsta heimili, fluttum síðan á Kirkjubóli í Bjarnardal og hófum búskap vorum þar með hléum til ársins 2001 er við fórum í Borgarnes þar sem ég fór í nám að Bifröst og Siggi Gummi í lögguna í Borgarnesi. Það var gott að búa í fallega Borgarfirðinum en Vestfirðingarnir söknuðu heimahagana og heim héldum við með reynsluna og ég með viðskiptaprófið frá Bifröst. Ég tók við fjáramála- og skrifstofustjórastarfi árið 2005 hjá Bolungarvíkurkaupstað. Þar fékk ég að starfa við það sem ég hafði áhuga á.  Ég hef alltaf haft áhuga á félags- og samfélagsmálum og þegar maður starfar að sveitastjórnarmálum er manni fátt óviðkomandi, hvort sem það er að koma að uppbyggingu varnargarða eða redda peru í félagsheimilið. Vinna að málefnum íbúa allt frá leikskóla að málefnum eldri borgara er gefandi og krefjandi. Mér þótti gott að búa í Bolungarvík, samfélagið sterkt og landslagið fallegt með Þuríði í Óshyrnunni sem vakir enn yfir og mun vonandi standa sína plikt áfram. Bolvíkingar standa fast á sínu, mesta ógn margra var að „helvítis bæjastjórinn væri nú að fara inneftir til að sameinast þeim sem sjá ekki sólina nema rétt yfir hádegið“ Sjálfstæðir og sjálfbjarga það kemur þeim langt og standa saman þegar á reynir.

Svo rann upp árið 2017 og það komu kosningar til Alþingis, ég ákvað að láta reyna á eftirspurnina. Það fór svo að ég var kosin inn og þar var ég í sjö ár eða tvö kjörtímabil. Það var skemmtilegur og krefjandi tími. Að reka sveitarfélag er eins og reka stórt heimili, allir íbúar koma manni við og líkt og í heimilisrekstri er engin undanskilinn. Heildin er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn. Sama má segja um ríkið nema mengið er stærra.

Ég er þakklát fyrir þennan tíma. Á þingi sitja skemmtilegar einstaklingar sem gaman er að kynnist,  auðvitað allskonar fólk en allir brenna fyrir sínu og þá er alltaf fjör. Ég verð alltaf þakklát að fá að starfa fyrir okkar kjördæmi og fá að kynnast fólki og aðstæðum, þar býr mikill kraftur. Sérstaklega var ánægulegt að verða vitni að þeirri uppbyggingu og vexti sem hefur verið hér á Vestfjörðum síðastliðinn áratug.

Staðan í dag

Ó fjörður okkar fóstursveit, við finnum yndi hér, sagði Guðmundur Ingi í fallegu ljóði um Önundarfjörð. Við Siggi Gummi erum sammála um það. Nú búum við í Holti  í Önundarfirði ég orðin verkefnastjóri hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða yfir verkefninu Gefum Íslensku séns, sem er spennadi verkefni sem við ætlum að útfæra og útbreiða með því að byggja betur undir þátttöku erlendra íbúa í samfélaginu. Með fjölbreytileikan að vopni stöndum við sterkari saman.

Fjölskyldan

Þegar mamma gekk með sitt áttunda barn eignaðist hún rafmagnsþvottavél og varð að orði „nú get ég eignast átta börn í viðbót“ en hún stóð ekki við það, þegar ég gekk með mitt fjórða barn eignaðist ég þurrkara þá sagði ég „ nú get ég eignast fjögur börn í viðbót“ en ég stóð ekki við það. Svo alsæl með mín fjögur og þau hafa gefið mér níu barnabörn sem fylla líf okkar Sigga Gumma sannarlega gleði og verkefnum. Fjölskyldan er stór og líka á ég ítök í krökkum sem komu til okkar í sveit og hafa svo sem ekkert farið langt frá okkur síðan.  Svoleiðis vil ég sjá lífið, með mitt milli vestfirskra fjalla.

Ég þakka áheyrnina, góðar stundir.

Enn lækka ásþunginn vegna bikblæðinga

Vegna aukinnar hættu á slitlagsskemmdum og slysahættu sem getur skapast af bikblæðingum, verður ásþungi takmarkaður við 7 tonn á Vestfjarðavegi 60 frá Hringvegi 1 við Dalsmynni (Bröttubrekku) að Djúpvegi 61 við Þröskulda, frá kl. 12:00 föstudaginn 14. febrúar 2025.

Á mánudaginn var tilkynnt um 10 tonna ásþunga á þessum vegarkafla og á miðvikudaginn var að auki varað við bikblæðingum og lýst yfir hættustigi.

uppfært kl 11:20. Vegagerðin segir í tilkynningu að þetta ástand muni að öllum líkindum vara a.m.k fram yfir helgi.  Leiðin um Heydal og Skógarströnd er með 10 tonna ásþunga til Búðardals.

Þeir flutningsaðilar sem óska eftir aukaferðum með ferjunni Baldri vegna vetrarblæðingaástandsins á Vestjarðavegi, þurfa að hafa samband tímanlega við Sæferðir og óska eftir aukaferðum.

MÍ í 2. sæti meðalstórra stofnana í Stofnun ársins 2024

Frá afhendingu viðurkenningarinnar. Mynd: M.Í.

Menntaskólinn á Ísafirði hlaut í gær viðurkenningu í þriðja sinn í könnun Sameykis um Stofnun ársins. Skólinn varð þá annað árið í röð í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnana (40-89 starfsmenn) árið 2024. Skólinn hlýtur þar með sæmdarheitið fyrirmyndarstofnun. Skólinn hefur nú hlotið viðurkenningu í Stofnun ársins í þrjú ár í röð. Árið 2022 var skólinn hástökkvari ársins og var þá sú ríkisstofnun sem bætti starfskjör starfsmanna best það árið og 2023 var skólinn í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnana eins og nú.

Frá þessu er greint á vefsíðu Menntaskólans á Ísafirði.

Skólinn hækkaði í heildareinkunn frá því í fyrra og fékk hæstu einkunn allra meðal- og stórra ríkisstofnana hvað varðar stjórnun.

„Við í MÍ erum stolt af viðurkenningunni og árangrinum. Við erum í sama sæti og í fyrra en bætum árangurinn því við hækkum í heildareinkunn milli ára. Við erum þakklát fyrir okkar frábæra starfsfólk og það góða starf sem það leggur af mörkum.  Nú er bara að halda áfram að byggja upp gott vinnuumhverfi innan skólans með fagmennsku og samvinnu að leiðarljósi. Efst í mínum huga er þakklæti til starfsfólks skólans fyrir þeirra góða framlag. Saman gerum við góðan skóla enn betri“ segir Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari.

Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Á hverju ári tekur allt starfsfólk skólans, óháð félagsaðild, þátt í könnuninni. Mælingin nær yfir níu ólíka þætti og þannig fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi stofnana. Tilgangur með vali á stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri í mannauðsstjórnun. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi og á að efla starfsumhverfi félagsfólks og starfsfólks í almannaþjónustu. Niðurstöður könnunarinnar veita afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.

Hér má sjá niðurstöður allra stofnana sem tóku þátt í könnuninni.

Júlíus Geirmundsson ÍS: Landsréttur sýknaði skipstjórann og útgerðina

Júlíus Geirmundsson ÍS í Ísafjarðarhöfn í janúar 2024. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í gær féll dómur Landsréttar í máli sem skipverji á Júlíusi Geirmundssyni ÍS höfðaði á hendur skipstjóranum og framkvæmdastjóra og útgerðastjóra Hraðfrystihússins Gunnvör hf. Krafist var þess að skipstjórinn greiddi 2 m.kr. í miskabætur og hinir 1,5 m.kr. hvor.

Málshöfðandinn eða stefnandi var háseti um borð í veiðiferð sem hófst aðfaranótt 27. september 2020. Upp komu veikindi meðal skipverja og reyndist um að ræða covid19. Stefndu vou sakaðir um að sýna af sér stórfellt gáleysi með þeirri háttsemi sem þeir viðhöfðu meðan á umræddri veiðiferð stóð og með því valdið stefnanda bæði líkamlegu og andlegu heilsutjóni.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði 9. október 2023 framkvæmdastjórann og útgerðarstjórann en dæmdi skipstjórann til að greiða 400 þús. kr. í miskabætur og 1,8 m.kr. í málskostnað.

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms varðandi framkvæmdastjórann og útgerðarstjórann en sneri við dómi skipstjórans og sýknaði hann. Málskostnaður milli aðila var felldur niður á báðum dómsstigum.

Landsréttur kemst að þeirri niðurstöðu að ekki liggur ekki fyrir að skipstjórinn hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með viðbrögðum sínum við veikindum skipverja, sem sé forsenda þess að um sekt gæti verið að ræða.

Skipverjinn hafi í upphafi sagt að hann væri með flensu og leið nokkur tími áður en grunur um covid19 vaknaði. Þá geti sú töf ekki valdið smiti skipverja, sem kom smitaður af kórónuveirunni um borð í togarann, sem og smiti þeirra sem smituðust þar áður en ástæða var til að gruna að skipverjar væru smitaðir af veirunni.

Þá skiptir það máli í rökstuðningi Landsréttar að ekki kom fram sönnun um að skipstjórinn hafi virt að vettugi tilmæli umdæmislæknis sóttvarna um að sigla til Ísafjarðar og koma með skipverjann í sýnatöku, og að ekki liggi ekki fyrir að skipstjórinn hafi fengið slík tilmæli.

Þá liggur fyrir að skipstjórinn „hringdi í heilsugæsluna á Ísafirði 14. október vegna veikindanna og athugaði í framhaldinu hversu margir skipverjar hefðu fundið fyrir einkennum og skráði þær upplýsingar. Kom þá í ljós að mun fleiri skipverjar höfðu fundið til einkenna en tilkynnt höfðu aðaláfrýjanda um veikindi. Af framlögðum gögnum verður ráðið að þá hafi verið búið að ákveða, í samráði við umdæmislækni sóttvarna, að skipið kæmi til hafnar 18. október og að skipverjar færu í sýnatöku.“

Fundur um byggðakvóta Ísafjarðarbæjar

Föstudaginn 14. febrúar býður bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar til opins fundar og umræðu um væntanlega afgreiðslu Ísafjarðarbæjar á tillögum vegna sérstakra skilyrða (sérreglna) um byggðarkvóta á fiskveiðiárinu 2024/2025.

Fundurinn fer fram í fundarsal bæjarstjórnar, 2. hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði, og hefst klukkan 12.

Hagsmunaaðilar eru hvattir til að mæta og ræða sjónarmið sín.

List fyrir alla auglýsir eftir umsóknum á sviði barnamenningar

List fyrir alla auglýsir eftir umsóknum um listviðburði eða verkefni á sviði barnamenningar fyrir grunnskólabörn. Umsóknarfrestur fyrir skólaárið 2025 – 2026 er 16. mars 2025.

List fyrir alla er barnamenningarverkefni á vegum menningar – og viðskiptaráðuneytis, sem ætlað er að miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Til barnamenningar teljast verkefni á sviði lista og menningar sem unnin eru fyrir börn og/eða með virkri þátttöku barna.

Leitast er við að gera allar listgreinar sýnilegar innan verkefnisins eins og kostur er.

Listverkefnin skulu í öllum tilfellum vera unnir af fagfólki og af metnaði.

Hjólastólakörfuknattleikur

Kynning verður á verkefninu „Allir með” í Kringlunni laugardaginn 15. febrúar á milli klukkan 14:00 – 15:00.

Sérstök áhersla verður á kynningu á hjólastólakörfubolta sem er að fara af stað fyrir börn með sérþarfir. Settur verður upp körfuboltavöllur og leikið 2 á 2.

Áhorfendur geta fylgst með af tveimur hæðum.Gestir fá að prófa hjólastólana og taka þátt í keppni. 

Hjólastólakörfubolti er ein af fimm greinum sem verða í boði á Íslandsleikunum á Selfossi helgina 29. – 30. mars 2025. Leikarnir eru fyrir þá sem finna sig ekki í hefðbundnu íþróttastarfi og/eða eru með stuðningsþarfir.

„Allir með” er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og Íþróttasambands fatlaðra. Verkefnið gengur út á að fjölga tækifærum fyrir fötluð börn innan íþróttahreyfingarinnar.

Breyting á deiliskipulagi vegna kláfs upp á Eyrarfjall

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum þann 6. febrúar 2025, að kynna skipulagslýsingu vegna vinnu við nýtt deiliskipulag fyrirhugaðs kláfs upp á Eyrarafjall á Ísafirði.

Skipulagssvæðið er staðsett í Eyrarfjalli sem er 700 metra hátt beint fyrir ofan Ísafjarðarbæ. Það afmarkast af byrjunarstöð kláfsins við hlíðarfót Eyrarfjalls, upp að Gleiðarhjalla þar sem reistur verður millistaur fyrir kláfinn og svo áfram á topp Eyrarfjalls þar sem endastöð kláfsins er staðsett. Við framkvæmdina verður sett upp vinnulyfta sem mun flytja allt byggingarefni og lyftustaura upp á Gleiðarhjalla og Eyrarfjall. Ekki þarf því að leggja vegslóða upp fjallshlíðina.

Framkvæmdin, sem verður í höndum Eyrarkláfs ehf., felst í að útbúa bílastæði fyrir farþega kláfsins, upphafsstöð kláfsins í hlíð Eyrarfjalls og endastöð á toppi fjallsins með einum millistaur á Gleiðarhjalla. Á toppi Eyrarfjalls verður gert ráð fyrir þjónustubyggingu og hóteli á seinni stigum.

Hverjum þeim sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemd við tillöguna á kynningartíma sem er frá 12. febrúar 2025 til og með 12. mars 2025.

Vísindaportið: Innleiðing gervigreindar í skólasamfélagið- kostir og takmarkanir

Í vísindaporti vikunnar ætlar Helena Sigurðardóttir kennsluráðgjafi við háskólann á Akureyri að halda erindi um innleiðingu gervigreindar í skólasamfélaginu. Erindið fjallar um meginkosti og takmarkanir notkunar gervigreindar í skólasamfélaginu, bæði fyrir nemendur og kennara. Megið þema erindisins kemur úr bókakafla höfundar sem gefinn var út í lok árs 2024 á vegum bókaútgáfunnar Libri. Töluverðar umræður hafa átt sér stað í samfélaginu um notkun gervigreindar, ýmsar siðferðilegar áskoranir og heiðarleika í vinnu, námi, rannsóknum og kennslu. Með tilkomu nýrrar tækni er mikilvægt að skoða hvaða hlutverk og hvaða möguleika notkun gervigreindar getur fært okkur.

Frétt um bókina á vef Háskólans á Akureyri  https://www.unak.is/is/samfelagid/frettasafn/frettir/gervigreindin-og-haskolar-utgafa-bokar

Helena Sigurðardóttir frá Ísafirði er Kennsluráðgjafi við Kennslu – og upplýsingatæknimiðstöð Háskólans á Akureyri. Með yfir tuttugu ára kennslureynslu sérhæfir hún sig í rafrænum kennsluháttum og innleiðingu á stafrænni hæfni. Undanfarna áratugi hefur hún leitt og tekið þátt í fjölmörgum alþjóðlegum og innlendum verkefnum, flest með áherslu á eflingu stafrænnar hæfni og innleiðingu tækni í skólastarfi. Með auknum aðgangi almennings að notkun gervigreindar hefur Helena beint sjónum sínum að kostum og takmörkunum við innleiðingu og notkun gervigreindar í skólasamfélaginu.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða á morgun föstudag og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Erindið fer fram á íslensku

Nýjustu fréttir