Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 269

Meðalhraðaeftirlit í Dýrafjarðargöngum verður tekið í notkun á morgun, þann 23. nóvember 2023.

Dýrafjarðargöng. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sjálfvirkt hraðaeftirlit er ein af megin áherslum í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda segir í tilkynningu frá vegagerðinni. Hraðamyndavélar eru fyrst og fremst settar upp á köflum þar sem slys eru mörg, en einnig er lögð áhersla á að setja slíkan búnað upp í jarðgöngum til að draga úr líkum á að slys verði.

Sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit byggir á því að meðalhraði ökutækis sem fer tiltekna vegalengd er reiknaður út með því að deila í vegalengdina með tíma.  Þá vinna tvær myndavélar saman fyrir hvora akstursstefnu, þar sem önnur er staðsett í byrjun kaflans en hin í enda kaflans. Teknar eru myndir af öllum ökutækjum og búnaðurinn greinir hversu lengi ökumaður var að aka á milli myndavélanna og reiknar þannig út meðalhraða ökutækisins á kaflanum. Ef útreiknaður hraði er meiri en leyfilegt er telst viðkomandi ökumaður brotlegur og eftir það sér lögregla um frekari úrvinnslu og sektarboð. Öll gögn eru dulkóðuð og myndir af þeim sem ekki eru brotlegir eyðast sjálfkrafa í myndavélunum. Skilti sem gefa eftirlitið til kynna hafa verið sett upp beggja vegna ganganna.

Vegagerðin ber ábyrgð á tæknilegri framkvæmd eftirlitsins, en Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á úrvinnslu og innheimtu sekta.

Muggur saga af strák

Kómedíuleikhúsið hefur endurútgefið hina vinsælu barnabók, Muggur saga af strák. Bókin kom fyrst út árið 2017 og hefur verið ófánleg í mörg ár enda löngu uppseld. Muggur saga af strák er söguleg saga um listamanninn Guðmund Thorsteinsson sem kallaður var Muggur. Höfundar bókarinnar eru listahjónin Elfar Logi Hannesson frá Bíldudal og Marsibil G. Kristjánsdóttir frá Þingeyri. Muggur saga af strák fæst hjá Kómedíuleikhúsinu og í bókaverslunum um land allt.

Muggur saga af strák er söguleg saga um æsku listamannsins á Bíldudal. Þar ólst hann upp einsog blóm í eggi eða kannski frekar einsog í konungsríki. Það var nefnilega þannig að faðir Muggs hann Pétur átti þorpið Bíldudal á þessum tíma og því var hann oft kallaður konungur. Sonur hans glókollurinn Muggur var því stundum kallaður prins. Sagan gjörist fyrir langa löngu svo löngu að það voru engir símar og engar tölvur. Hvað gerðu krakkar þá? Af því kemstu með því að lesa bókina, Muggur saga af strák.

Hægt er að panta bókina beint hjá Kómedíuleikhúsinu í síma 891 7025.

Patreksfjörður: minningarstund um fórnarlönb umferðarslysa

Á sunnudaginn var haldin á Patreksfirði minningarstund um fórnarlömb umferðarslysa. Athöfnin fór fram í Patreksfjarðarkirkju og val vel sótt.

Alls stóðu sjö aðilar að minningarstundinni Björgunarsveitin Blakkur, Slysavarnardeildin Unnur, Lögreglan á Vestfjörðum, Slökkvilið Vesturbyggðar, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Sjúkraflutningar HVEST og Rauði krossinn í Barðastrandarsýslu.

Viðbragðsaðilar komu saman ásamt íbúum. Að lokinni athöfn buðu viðbragðsaðilar upp á kaffi og meðlæti.

Við Patreksfjarðarkirkju að lokinni athöfn.

Myndir: Kristín Pálsdóttir.

Svæðisskipulag Vestfjarða – 120 m.kr.

Frá fjórðungsþinginu í Bolungavík í haust. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjórðungssamband Vestfirðinga vinnur að því að hrinda af stað vinnu við svæðisskipulag Vestfjarða. Í áætlun sem send hefur verið út til sveitarfélaga er gert ráð fyrir að bjóða út fljótlega sérfræðivinnu og síðan að verktími verði 2 ár og ljúki með staðfestri skipulagstillögu í apríl 2026.

Hlutur sveitarfélaganna í kostnaði er áætlaður 21 m.kr. sem skiptist milli þeirra skv. íbúafjölda og munu þau reiða framlag sitt fram á þriggja ára tímabili 2024-26. Hlutur Ísafjarðarbæjar er stærstur og verður 11 m.kr. Skipulagssjóður mun greiða stóran hluta kostnaðarins, auk þess sem Sóknaráætlun fyrir Vestfirði muni legga fram fé.

Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðamála hjá Fjórðunssambandinu segir að verkefnið hafi verið í undirbúningi í nokkurn tíma og lagt hafi verið til hliðar fé þannig að Fjórðungssambandið eigi þegar eitthvað upp í kostnaðinn. Sveitarfélögin hafi skipað sína fulltrúa í svæðisskipulagsnefndina og framundan sé útboðið á sérfræðivinnunni.

Stefna í ferðaþjónustu: unnið gegn skemmtiferðaskipum

Viking Sky. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Cruise Iceland, samtök hafna á Íslandi sem taka á móti erlendum skemmtiferðaskipum hafa gert alvarlegar athugasemdir við drög að stefnumörkun í ferðaþjónustu. Sjö starfshópar vinna að stefnumörkuninni og eiga þeir að vinna tillögur að aðgerðum í aðgerðaáætlun fyrir ferðaþjónustustefnu til 2030. Hóparnir eiga að skila lokadrögum til stýrihóps fyrir 15. desember n.k. Stýrihópurin samræmir svo tillögunar í heildstæða aðgerðaáætlun og sendir til ráðherra ferðamála Lilju Alfreðsdóttur.

Einn hópurinn tekur fyrir skemmtiferðaskip og í drögum sem send hafa verið út eru ýmsar staðhæfingar og tillögur sem Cruise Iceland gerir athugasemdir við. Segir að ekki hafi verið hugað að aðkomu Cruise Iceland í þessari vinnu og að í drögunum séu fjölda staðhæfinga sem eru efnislega rangar og auðvelt hefði verið að leiðrétta ef samtökin hefðu setið við borðið með starfshópnum.

unnið gegn landsbyggðinni

Stefnan sem birtist í drögunum er sögð vinna að hagsmunum suðvesturhornsins á kostnað landsbyggðarinnar og staðhæft að það sé andstætt hagsmunum fólksins á landinu að þrengja sérstaklega að ferðaþjónustu skemmtiferðaskipa.

Cruise Iceland geldur varhug við hugmyndum um álagsstýringarkerfi sem beinist gegn farþegum með skemmtiferðaskipum og mótmælir því harðlega „að koma þurfi á álagsstýringu af hálfu hins opinbera á komur skemmtiferðaskipa sérstaklega til að hámarka upplifun gesta í heild sinni, eins og talað er um í drögunum.“ Því er enn fremur hafnað að nokkur fótur sé fyrir þeirri staðhæfingu að farþegar á skemmtiferðaskipum skapi álagstoppa. Samtökin benda á að álagið hljóti frekar að stafa af þeim u.þ.b. 86% ferðamanna sem koma landsins með flugi fremur en þeim 14% sem koma með skemmtiferðaskipi í skipulagðar ferðir.

Cruise Iceland eru ekki á móti álagsstýringarkerfi, segir í umsögn þeirra, svo lengi sem það er almenns eðlis og taki til allra ferðamanna, alls landsins, alls ársins og allra þátta ferðaþjónustunnar en sé ekki sérstaklega beint gegn hagsmunum félaga innan samtakanna.

Þá er staðhæft í drögum starfshópsins að skemmtiferðaskip séu í samkeppni við innlenda ferðaþjónustu og að þau greiði enga skatta til ríkisins ferðaþjónustu. Cruise Iceland mótmælir þessum staðhæfingum. Um helmingur farþega skemmtiferðaskipa séu skiptifarþegar sem komi fljúgandi til landsins og fari með flugi. Þeir kaupi gistingu og aðra þjónustu í landi og er áætlað að gistinætur þeirra á hótelum séu 200 – 230 þúsund á þeim fjórum mánuðum sem siglingarnar standa yfir. Skipin greiða um hálfan milljarða króna til ríkisins í vitagjald. Hins vegar heyri áhafnir erlendra skemmtiferðaskipa að sjálfsögðu ekkert frekar undir íslenska vinnulöggjöf eða kjarasamninga frekar en áhafnir erlendra flugfélaga.

55 milljarða kr tekjur og 60% á landsbyggðinni

Cruise Iceland bendir á að farþegar skemmtiferðaskipanna og viðskiptin þeim tengdum dreifist meira um landið en af annarri ferðaþjónustu. Alls hafi 31 höfn tekið á móti skemmtiferðaskipum síðastliðið sumar og fæstar þeirra eru á suðvesturhorninu. Tekjur af skemmtiferðaskipunum séu stór hluti tekna hafnarsjóðanna sem efli getu þeirra til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Tekjurnar í ár af skipakomunum eru áætlaðar um 4 milljarðar króna.

Beinar tekjur landsbyggðarinnar af komum skemmtiferðaskipa eru verulegar. Í umsögn Cruise Iceland segir að áætlað er að tekjur Akureyrar og nágrennis af komu skemmtiferðaskipa í sumar séu um 10 milljarðar í allt. Heildartekjur samfélagsins eru áætlaðar allt að 55 milljarðar í ár sem dreifast 60% á landsbyggðina og 40% á höfuðborgarsvæðið.

Tífalt meiri eftirspurn en framboð af greiðslumarki í sauðfé

Innlausnarmarkaður þessa árs með greiðslumark í sauðfé var haldinn 15. nóvember síðastliðinn.

Matvælaráðuneytinu bárust 136 umsóknir um kaup á greiðslumarki og 29 umsóknir um sölu.

Innlausnarverð ársins jafngildir beingreiðslum næstu tveggja ára og er 10.531 krónur á ærgildi. Sama verð gildir fyrir kaup og sölu. Alls var óskað eftir 35.638 ærgildum til kaups.

Til ráðstöfunar voru 3.557 ærgildi eða 10% af kaupóskum. Úthlutað var samkvæmt forgangsreglum reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt nr 144/2022. Af 136 umsækjendum alls töldust 106 til forgangshóps og 30 til almenns hóps. Allt það greiðslumark sem var til ráðstöfunar rann til forgangshóps.

Kolaport Kvenfélagsins Hvatar í Hnífsdal

Hið árlega og stórglæsilega Kolaport og basar kvenfélgsins Hvatar verður laugardag og sunnudag 25.-26. nóvember frá kl. 14 -17 báða dagana í Félagsheimilinu Hnífsdal.

Allt mögulegt til sölu notað og nýtt, ásamt miklu magni af hnallþórum, síld og rúgbrauði.

Heitt súkkulaði og vöfflur selt á staðnum.

Og það ætti ekki að þurfa að taka það fram að ágóðinn rennur til góðra málefna.

Tekið verður á móti varningi í kvöld þriðjudag á milli 20 og 21 í Félagsheimilinu í Hnífsdal.
Við biðjum fólk að koma ekki með ónýta hluti, túbusjónvörp eða stór húsgögn.

Við tökum á móti fötum, húsbúnaði, bókum og ýmsu nytsamlegu sem gæti fengið framhaldslíf á öðru heimili 

Ungmennaþing Strandabyggðar

Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ungmennaþing Strandabyggðar var haldið laugardaginn 4. nóvember síðastliðinn. 

Ungmennaþing er lýðræðislegur vettvangur þar sem öllum ungmennum í sveitafélaginu á aldrinum 14-25 ára, býðst að koma saman og ræða ýmis málefni sem brenna á ungu fólki hverju sinni og eru því umfjöllunarefni þinga ákveðin af ungmennum.

Á þessu þingi var umfjöllunarefnið kosning nýs ungmennaráðs.

Ungmenaráð eru fulltrúar á aldrinum 13-25 ára sem eru kjörnir af ungmennaþingi til tveggja ára í senn, kosið er á hverju ári og er þá annað árið kosnir þrír fullrúar og tveir það næsta.

Ungmennaráð hefur þann tilgang að gefa ungu fólki í sveitarfélaginu vettvang til aukinnar lýðræðislegrar þátttöku í samfélaginu. Ungmennaráð fundar reglulega og senda inn erindi og ályktanir til sveitarstjórnar. Þá hafa ungmennaráð seinustu ár staðið fyrir ýmsum viðburðum og verkefnum og tekið þátt í ýmsum fundum og ráðstefnum.

Fulltrúar ungmennaráðs eru þá áheyrnarfulltrúar í nefndum sveitarfélagsins að velferðarnefnd undanskilinni.


Nýkjörið ungmennaráð er skipað eftirfarandi fulltrúum:
Unnur Erna Viðarsdóttir – Formaður
Jóhanna Rannveig Jánsdóttir – Áheyrnarfulltrúi fræðslunefndar
Þorsteinn Óli Viðarsson – Áheyrnarfulltrúi tómstunda-, íþrótta-, og menningarnefndar
Valdimar Kolka Eiríksson – Áheyrnarfulltrúi atvinnu-, dreyfbýlis-, og hafnarnefdar.
Elías Guðjónsson Krysiak – Áheyranrfulltrúi umhverfis- og skipulagsnefndar.

Varamenn:
Ólöf Katrín Reynisdóttir
Guðmundur Björgvin Þórólfsson
Kristbjörg Lilja Grettisdóttir

ÁGÚST ER ALGENGASTI FÆÐINGARMÁNUÐUR ÍSLENDINGA

Sé horft aftur til ársins 1853 hafa flestar fæðingar á Íslandi átt sér stað í ágústmánuði eða 52.499 talsins.

Næstu mánuðir í röðinni eru júlí með 51.861 fæðingar og september með 51.756 fæðingar.

Fæstar fæðingar hafa átt sér stað í febrúar, 40.255, enda eru færri dagar í þeim mánuði en öðrum.

Þetta kemur fram í upplýsingum sem Hagstofan hefur tekið saman

Skuld heimildamynd: sýnd í kvöld í Ísafjarðarbíó

Þriðjudaginn 21. nóvember kl 20:00 verður heimildamyndin „Skuld“ sýnd í Ísafjarðarbíó í samstarfi við 66°Norður og Háskólasetur Vestfjarða.

Viðburðurinn er í tilefni þess að 21. nóvember ár hvert er Alþjóðlegur dagur sjávarútvegs (World Fisheries Day) haldinn hátíðlegur, þar sem dugnaði fólks sem starfar við sjávarútveg
um allan heim er fagnað.

Aðgangur er ókeypis

Að lokinni sýningu verður opið samtal í formi “spurt og svarað” með leikstjórunum, þeim Rut og Kristjáni Torfa Einarssyni.

Linkur á facebook-viðburð: https://www.facebook.com/events/992156545219943/

Skuld er heimildamynd um strandveiðivertíð á trillunni Skuld, sem Rut og Kristján gera út frá Rifi á Snæfellsnesi. Myndin hefur fengið mjög góðar viðtökur og hlaut m.a. hvatningarverðlaun dómnefndar á Skjaldborg heimildamyndahátíð fyrr á árinu.

„Hvatningarverðlaun Skjaldborgar 2023 hlýtur mynd sem dómnefndarmeðlimum þótti sérstaklega hlý, fyndin og falleg. Mynd sem opnar glugga inn í heim smábátaeigenda og handfæraveiða á persónulegan og heillandi máta. Höfundur beitir sterkri sjónrænni nálgun og fer einstaklega vel með hlutverk sitt allt í kring um myndavélina svo úr verður allsherjar
óður til ástarinnar, framtaksseminnar – og strandveiða“

Skuld trailer: https://www.youtube.com/watch?v=gPC62ECoSLE
Þorskbæn – Kristján Torfi & Trillukallakór: https://www.youtube.com/watch?v=wqhjmh01pHA
Skuld á facebook: https://www.facebook.com/skulddocumentary

Nýjustu fréttir