Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 268

Vísindaport: frá munaðarvöru yfir í þarfa þing

Í Vísindaporti föstudaginn 24. nóvember mun Arnheiður Steinþórsdóttir sagnfræðingur halda erindi sem nefnist: Frá munaðarvöru yfir í þarfa þing, saumavélar á Íslandi 1865 til 1920.

Fyrstu saumavélarnar bárust til Íslands upp úr miðri 19. öld. Í kjölfarið átti sér stað athyglisverð þróun þegar saumavélum fjölgaði ört hér á landi. Í erindinu verður fjallað um hvernig saumavélar fóru úr því að vera munaðarvara yfir í þarfaþing sem finna mátti á nær hverju heimili. Saumavélunum fylgdu allskyns breytingar, ekki síst þegar kom að störfum kvenna innan og utan heimilis. Þær boðuðu ný tækifæri, vinnusparnað og jafnvel frelsi, þó sú hafi ekki alltaf verið raunin. Sagt verður frá þessari þróun og m.a. leitað svara við eftirfarandi spurningu: er með sanni hægt að kalla saumavélina táknmynd nútíma og frelsis í íslensku samhengi?

Arnheiður er með meistaragráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands en erindið segir frá meistararitgerðinni sem hún lauk við í byrjun árs. Hún er nýflutt aftur heim til Ísafjarðar ásamt unnusta sínum og syni eftir að hafa numið sagnfræði síðustu ár. Áherslur hennar innan sagnfræðinnar eru kvenna- og kynjasaga auk sögu efnismenningar.

Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna slóðina hér:https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Vesturbyggð: eldisfiskur 80% af lönduðum fiski í október

Þjónustubátur siglir inn í Bíldudalshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Landað var í októbermánuði 2.608 tonnum af eldisfiski í Bíldudalshöfn. Elfar Steinn Karlsson, hafnarstjóri segir að þessi mánuður hafi ekki verið óvenjustór, en þó í stærra lagi. Stærsti mánuðurinn á þessu ári er um 3.000 tonn.

Ekki var landað öðrum fiski í Bíldudalshöfn í mánuðinum. Í Patreksfjarðarhöfn komu 636 tonn að landi í október. Samtals var því landað 3.244 tonn í höfnum Vesturbyggðar í síðasta mánuði. Eldisfiskur var þar af 80%, en annar afli 20%.

Togarinn Vestri BA var á botnvörpu og landaði 176 tonnum eftir 3 veiðiferðir. Tveir bátar voru á línuveiðum. Patreksur BA var með 216 tonn og Agnar BA 48 tonn.

Tveir bátar voru á dragnótaveiðum. Patreksur BA landaði 88 tonnum og Esjar SH 99 tonnum.

Loks voru tveir bátar á handfærum. Sindri BA og Orion BA og voru samtals með 9 tonn.

HVEST: vandræði vegna veikinda

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði.

Í gær reyndist erfitt að fá bókaðan tíma á Ísafirði hjá lækni við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta fengust þau svör að ekki væri hægt að fá bókaðan tíma en boðið var upp á viðtal við hjúkrunarfræðing.

Hildur Elísabet Pétursdóttir, starfandi forstjóri stofnunarinnar staðfesti að vegna skyndilegra veikinda læknis hafi þurft að loka fyrir tímabókanir meðan verið væri að finna lækna í hans stað. Hún segir að það hafi nú verið gert og vandamálið því sem betur fer úr sögunni.

Teigskógur: umferð hleypt á 1. desember

Nýi vegurinn um Teigskóg. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Stefnt er að því að hleypa umferð á veginn um Teigskóg 1. desember næstkomandi og þá verður hægt að aka um Þorskafjörð og inn Djúpafjörð framhjá Hjallahálsi. Sigurþór Guðmundsson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni segir að komið sé bundið slitlag, en þó ekki tvöfalt alla leiðina. Vegrið eru ekki öll komin en verið er að klára að setja þau upp.

Þá er stefnt að því að undirrita samninga í næstu viku um fyllingar í Gufufirði og Djúpfirði sem boðnar voru út nýlega. Verktaki verður Borgarverk ehf, en tilboð þeirra var um 70% af kostnaðaráætlun.

Á Dynjandisheiði er búið að opna 4 km kafla frá Nordalsá að Vatnahvilft fyrir umferð og fyrra slitlag er komið á hann. Í desember er ætunin að opna annan nýjan vegarkafla með malarslitlagi frá Vatnahvilft og niður fyrir Botnshestinn. Verktaki þar er Suðurverk.

Arnarlax styrkir HSÍ

Handknattleikssamband Íslands, HSÍ og Arnarlax hafa undirritað samkomulag þess efnis að Arnarlax verði einn af bakhjörlum HSÍ. Frá og með HM kvenna sem hefst í næstu viku í Noregi, Svíþjóð og Danmörku mun Arnarlax hafa sitt vörumerki á baki allra keppnistreyja landsliða Íslands í handbolta.

Það eru stór verkefni framundan hjá HSÍ. A landslið kvenna heldur af landi brott á morgun og tekur liðið þátt í Posten Cup í undirbúningi liðsins fyrir þátttöku sína á HM. Stelpurnar halda svo til Stavanger á þriðjudaginn þar sem Ísland leikur sinn fyrsta leik á stórmóti frá 2012 30. nóvember nk. gegn Slóveníu. HM kvenna mun standa yfir frá 29. nóvember – 17. desember og verður mótið í beinni útsendingu á RÚV.

Karlarnir halda svo í byrjun janúar til Austurríkis þar sem undirbúningur þeirra fyrir EM hefst með tveimur vináttulandsleikjum gegn heimamönnum. Síðan verður haldið til Munchen þar sem Ísland leikur í C-riðli gegn Ungverjalandi, Serbum og Svartfjallalandi.

„Það er mikið fagnaðarefni fyrir HSÍ þegar við skrifum undir samstarfssamninga við nýja bakhjarla. Flestir bakhjarlar HSÍ í dag hafa verið í bakvarðasveit okkar í yfir áratugi, það er von okkar hjá HSÍ að samstarfið við Arnarlax verði farsælt og ánægjulegt“ segir Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.

„Við vitum að handbolti er stór hluti af íslensku íþróttalífi og við gætum ekki verið stoltari en að fá að taka þátt í þeirri vegferð sem HSÍ er á. Áfram Ísland!“ segir Björn Hembre, forstjóri Arnarlax.

Alltaf borið nafnið Fjóla

Á vefsíðunni skipamyndir.com er að finna mikið af myndum af skipum meðal annars þessa sem hér fylgir af Fjólu BA 150 sem var smíðuð árið 1971 hjá Trésmiðju Austurlands hf. á Fáskrúðsfirði.

Báturinn er 28 brl. að stærð og átti í fyrstu heimahöfn á Bíldudal.

Aðrar upplýsingar um bátinn eru af vefsíðunni aba.is

Báturinn var smíðaður fyrir Hólmaröst hf. Bíldudal og Erlend Magnússon, Reykjavík sem áttu hann í tvö ár.
Að sögn kunnugra var báturinn að mestu notaður, þessi tvö ár sem hann var á Bíldudal, til að flytja Bíldudals grænar baunir til höfuðborgarinnar.

Báturinn hefur alltaf borið nafnið Fjóla en með mismunandi einkennisstöfum þó.

Frá árinu 1973 hét báturinn Fjóla ÞH-182, Þórshöfn.

Frá árinu 1974 hét hann Fjóla BA-150, Bíldudal.

Frá árinu 1980 hét hann Fjóla BA-150, Patreksfirði.

Frá árinu 2005 hét hann Fjóla SH-808, Stykkishólmi.

Frá árinu 2008 hét hann Fjóla SH-55, Grundarfirði.

Frá árinu 2009 hét báturinn Fjóla BA-150, Reykhólum og var í eigu Styrju ehf. sem notaði hann til þjónustu við þangskurðarmenn á Breiðafirði.

Í ágúst 2015 eignaðist Selló hf. Akureyri bátinn en forsvarsmaður fyrirtækisins er Lárus H. List, myndlistamaður og áhugamaður um varðveislu eikarbáta.

Lárus sigldi bátnum frá Breiðafirði til Akureyrar þar sem einkennisstafirnir EA-35 komu á hann.

Báturinn heitir frá þessum tíma Fjóla EA-35 Akureyri og heitir svo enn árið 2023.

Sú kvöð eða öllu heldur beiðni fylgdi bátnum er hann sigldi frá Reykhólum til Akureyrar að nafnið Fjóla fylgdi honum um ókomin ár.

Í júní 2023 keypti Bjarmi Arnfjörð Sigurgarðarsson, Akureyri bátinn af Lárusi List og  er ekki annað vitað en að bátnum verði gert eitthvað til góða og hann notaður sem skemmtibátur.

Fundur fyrir fólk með áhuga á málefnum innflytjena

Vilt þú hafa áhrif á mótun stefnu í málefnum innflytjenda?

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið vinnur nú í fyrsta sinn að slíkri framtíðarsýn og býður því til samtals hringinn í kringum landið og verða starfsmenn ráðuneytisins á Ísafirði miðvikudaginn 29. nóvember.

Fundurinn verður í Edinborgarhúsinu og hefst hann klukkan 17.

Túlkað verður á ensku og pólsku.

Stefnt er að því að innflytjendur hafi aukin tækifæri til inngildingar (e. inclusion) og virkrar þátttöku í samfélaginu og eru þeir því sérstaklega hvattir til að mæta og ræða þau sem mál sem þessu tengjast og liggja þeim á hjarta.

Hafís getur nálgast landið

Hafískortið er byggt á ratsjármyndum frá Sentinel1 gervitunglinu frá því á mánudag.

Hafísinn var þá um 60 sjómílna fjarlægð NV af Straumnesi.

Útlit er fyrir suðvestanátt á svæðinu næstu daga og því líkur á því að hafísinn reki nær landi.

Í lok vikunnar verða hins vegar fremur hægar breytilegar áttir og þá ætti lítið að breytast.

Vesturbyggð: lækka vatns- og fráveitugjald

Smábátar að landa í Patrekshöfn. Mynd: Patrekshöfn.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hyggst lækka vatnsgjald á íbúðarhúsnæði á næsta ári úr 0,38% í 0,28% og vatnsgjald á annað húsnæði úr 0,5% í 0,4%. Þá er lagt til að lækka fráveitugjald á íbúðarhúsnæði og verður það 0,28% í stað 0,38% af fasteignamati. Önnur fasteignagjöld verða óbreytt samkvæmt tillögunni. Fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði verður 0,55%, af fasteignum í B flokki 1,32%og af C flokki 1,65%.

Lækkunin á fráveitu- og vatnsgjaldinu af íbúðarhúsnæði er um 26%.

Tillögurnar hafa verið ræddar í bæjarstjórn og var þeim vísað til síðari umræðu sem verður væntanlega á næsta bæjarstjórnarfundi.

Bæjarstjórn samþykkti að útsvarshlutfall fyrir 2024 haldist óbreytt frá fyrra ári og verður það 14,74%.

Tónlistarskóli Ísafjarðar: Heimilistónar 2023

Í tilefni 75 ára afmælis Tónlistarskóla Ísafjarðar verður efnt til Heimilistóna laugardaginn 25. nóvember. Heimilistónar verða bæði á Suðureyri frá kl. 12 til 13 og á Ísafirði frá kl. 14 til 16.
Heimilistónar voru fyrst haldnir á Tónlistardeginum mikla í tilefni af 60 ára afmæli Tónlistarskóla Ísafjarðar árið 2008 og vakti mikla athygli og ánægju meðal bæjarbúa. Í frétt sem birtist í Bæjarins Besta kemur fram að hugmyndin sé fengin frá Fiskideginum mikla sem haldin var á Dalvík þar sem fólk býður upp á súpu á heimilum sínum en af því að það er svo mikil tónlist hér í bæ þá þótti tilvalið að fólk opnaði heimili sín og byði upp á lifandi tónlist. Tíu árum seinna þegar skólinn fagnaði 70 ára afmæli sínu var leikurinn endurtekinn og fólk opnaði heimili sín svo bæjarbúar gætu notið tónlistar frá nemendum og kennurum.

Og nú fimm árum seinna verður blásið aftur til hátíðar vegna 75 ára afmæli skólans og fólk bæði hér á Ísafirði og Suðureyri ætla að opna heimili sín og bjóða upp á notalega stemningu í skammdeginu með tónlist og veitingum.

 Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á léttar veitingar á hverju heimili.

Á Ísafirði verður hægt að heimsækja eftirfarandi heimili frá kl.14 til 16.

Tangagata 17 – Tinna og Gylfi

Smiðjugata 2 – Judy og Omar

Fjarðarstræti 39 – Harpa Henrýsdóttir

Fjarðarstræti 38 – Gummi Hjalta og Matta

Silfurgata 6 – Bjarney Ingibjörg og Rúnar

Á Suðureyri verður hægt að heimsækja eftirfarandi heimili frá kl.12 til 13.

Hlíðarvegur 10 – Monika og Norbert

Sætún 2 – Malgorzata og Pawel

Hér má sjá meira um Heimilistóna og hvaða heimili taka þátt:
https://tonis.is/frettir/heimilistonar-25-november-dagskrain/




Nýjustu fréttir