Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 267

Sælundur og Sjónarhóll fá vegtengingu

Sótt hefur verið um framkvæmdaleyfi fyrir aðkomuvegi að frístundalóðunum að Sælulundi og Sjónarhól á Barðaströnd.

Skipulags- og umhverfisráðs lagði til við bæjarstjórn Vesturbyggðar að samþykkt verði að veita framkvæmdaleyfi fyrir aðkomuveginum sbr. umsókn.

Skipulags- og umhverfisráð mat sem svo að framkvæmdin væri þess eðlis að heimilt væri að falla frá grenndarkynningu þar sem framkvæmdin varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda enda liggi fyrir samþykki landeigenda og Vegagerðarinnar.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti því frakkvæmdarleyfið og fól skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyf.

Vegir á Vestfjörðum : 1,5 milljarður kr. á ári í rekstur og viðhald

Dýrafjarðargöng. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni varð kostnaður við rekstur og viðhald vega og jarðganga á Vestfjörðum síðustu sex ár nærri 9 milljarðar króna. Meðaltalið er 1.486 m.kr. á ári.

Kostnaðurinn skiptist nokkuð jafn milli reksturs og viðhalds. Reksturinn 2018-2023 er samtals 4.501 m.kr. og viðhaldið 4.415 m.kr. Heildarkostnaðurinn á tímabilinu er 8.916 m.kr. Meðaltalskostnaðurinn á ári við reksturinn á þesus árabili er 750 m.kr. og 736 m.kr. við viðhald.

Ár201820192020202120222023
Rekstur684613871708938687
Viðhald761484713692982783

Tölur fyrir 2023 munu væntanlega hækka eitthvað þar sem árið er ekki liðið. Kostnaðurinn 2018 – 2021 reynist vera tiltölulega jafn milli ára en greinilegt er að árið 2022 verður töluverð hækkun eða um 30% sem gæti verið einnig á þessu ári.

Kostnaður við rekstur ferjunnar Baldur er ekki í þessum tölum. Samkvæmt nýbirtum samningi milli Vegagerðarinnar og Sæferða greiðir Vegagerðin 611.751.900 kr. á ársgrundvelli. Í samningnum er gert ráð fyrir 305 ferðum milli Stykkishólms og Brjánslækjar og 114 í Flatey árlega.

Listaverkaalmanak Þroskahjálpar 2024

Landssamtökin Þroskahjálp berjast fyrir réttindum og hagsmunum fatlaðs fólks.

Á hverju ári er almanakshappdrætti ein af stærstu fjáröflunum Þroskahjálpar.

Í ár er almanakið með listaverkum eftir fjóra fatlaða listamenn.

Þessir listamenn hafa vakið athygli og verk þeirra hafa verið sýnd víða, bæði á einkasýningum sem og samsýningum hér á landi og erlendis.

Fyrir mörg þeirra hefur List án landamæra verið mikilvægur stökkpallur.

Hátíðin brýtur múrinn á milli hins svokallaða almenna listheims og jaðarlistheimsins sem fatlaðir listamenn tilheyra. Innan jaðarlistheimsins hafa fatlaðir listamenn skapað kraftmikla og fjölbreytta list, en sýnileikinn er í takt við fábreytt tækifæri til þátttöku og listmenntunar.

Á meðal vinninga eru gjafabréf á upplifanir, hótelgisting, auk fjöldi listaverka, bæði frummyndir og eftirprentanir, eftir marga ástsælustu listamenn þjóðarinnar, þar á meðal þá frábæru listamenn sem eiga verk í almanaki ársins.

Almanökin er hægt að panta á https://www.throskahjalp

Sterkar Strandir framlengt um ár

Byggðaþróunarverkefnið Sterkar Strandir hófst á árinu 2020 og hefur því staðið yfir í á fjórða ár. Samkvæmt samningi var gert ráð fyrir því að verkefnið stæði yfir til loka árs 2023 þegar Byggðastofnun drægi sig í hlé úr verkefninu.

Sveitarstjórn Strandabyggðar óskaði eftir framlengingu á verkefninu og samþykkti stjórn Byggðastofnunar á fundi sínum 1. nóvember 2023 að framlengja verkefnið um eitt ár, til loka árs 2024.

Íbúar Strandabyggðar urðu fyrir miklu áfalli í sumar þegar í ljós kom að Snæfell, dótturfélag Samherja og eigandi rækjuvinnslunnar Hólmadrangs, ákvað að hætta starfsemi sinni á Hólmavík.

Þar með misstu um 20 íbúar vinnuna enda Hólmadrangur einn stærsti vinnustaður Strandabyggðar. Miklar áskoranir blasa því við í byggðarlaginu við að treysta atvinnulíf og þar með búsetuskilyrði. Vonir standa til að verkefnið Sterkar Strandir geti þar lagt lóð á vogarskálarnar.

Árlegur íbúafundur var haldinn undir merkjum Sterkra Stranda miðvikudaginn 15. nóvember sl.

Dagskráin samanstóð af nokkrum erindum auk þess sem fundargestum gafst tækifæri til að taka þátt í umræðum um stöðu starfsmarkmiða í verkefnisáætlun og greina hvaða áherslur skynsamlegt væri að vinna sérstaklega með, á viðbótarári verkefnisins í þeim tilgangi að ná sem mestum árangri.

Þjófnaður í Bolungarvík – GPS höttum stolið

Bolungavík.

Lögreglan á Vestfjörðum rannsakar þjófnað í Bolungarvík sem átti sér stað um liðna helgi.

Þýfið eru svokallaðir GPS hattar sem voru teknir voru af vinnuvélum.

Að sögn lög­regl­unn­ar hleyp­ur and­virði þess sem var stolið á mörg­um millj­ón­um króna.

Lög­regl­an gaf í gær út til­kynn­ingu þar sem óskað var eft­ir upp­lýs­ing­um um grun­sam­leg­ar manna­ferðir í Bol­ung­ar­vík frá eft­ir­miðdegi föstu­dags­ins 17. nóv­em­ber til klukk­an 21.30 að kvöldi laug­ar­dags­ins 18. nóv­em­ber.

Auk þessa hef­ur lög­regla óskað eft­ir upp­lýs­ing­um um það hvort fyr­ir­tæki staðsett í Bol­ung­ar­vík og við leiðina frá Bol­ung­ar­vík út af norðan­verðum Vest­fjörðum búi yfir mynd­efni úr ör­ygg­is­mynda­véla­kerf­um sem nýst gætu við rann­sókn máls­ins.

Bók um Svein Benediktsson

Um bókina Sveinn Benediktsson segir útgefandinn

„Um hálfrar aldar skeið var Sveinn Benediktsson einn áhrifamesti maður í sjávarútvegi Íslendinga.

Hann var stjórnarformaður Síldarverksmiðja ríkisins, forystumaður í Bæjarútgerð Reykjavíkur, stjórnarmaður í helstu hagsmunasamtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og lét mjög að sér kveða á opinberum vettvangi um allt sem laut að sjávarútvegsmálum, auk þess sem hann rak umfangsmikla síldarvinnslu á Raufarhöfn og Seyðisfirði.

Stundum var haft á orði að hann og bræður hans Bjarni forsætisráðherra og Pétur bankastjóri réðu fyrir landinu, svo mikil voru áhrif þeirra um skeið.


Það gustaði stundum hressilega um Svein Benediktsson. Hann var maður skapfastur og gekk vasklega fram í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Pólitíkin var hatrömm á þeim árum og Sveinn mætti oft harðri mótspyrnu. En framsýni hans, viljastyrkur og ráðvendni varð oftar en ekki til þess að það var hann sem stóð með pálmann í höndunum þegar upp var staðið.


Í frítíma sínum safnaði Sveinn bókum af ástríðu, hafði yndi af silungsveiði, las fornsögurnar og ljóð Einars Benediktssonar, auk þess sem hann var einn af forvígismönnum Ísaksskóla.


Öllum þessum þáttum og fleirum í ævi Sveins er gerð skil í þessari fróðlegu og skemmtilegu bók um einstakan atorkumann sem markaði djúp spor í atvinnusögu Íslendinga á tuttugustu öld.“

Ísafjarðarbær : Akstursstyrkir vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna 

Ísafjarðarbær greiðir akstursstyrki vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna árið 2023.

Sótt er um styrkinn á heimasíðu Ísafjarðarbæjar.

Styrkirnir eru til handa foreldrum barna og unglinga á grunnskólaaldri sem eiga lögheimili í Dýrafirði, Súgandafirði og Önundarfirði og taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi í Ísafjarðarbæ.

Aðeins er veittur einn styrkur á hvert heimili á ári, óháð fjölda barna.

Ekki er greiddur út styrkur til barna og unglinga sem eiga lögheimili í Skutulsfirði þar sem frístundarúta milli Skutulsfjarðar og Bolungarvíkur þjónar þeim.

Upphæð styrks fyrir heimili er 30.000 kr. á ári. Síðasti dagur til að skila umsókn um styrk fyrir árið 2023 er 6. desember. Styrkir verða greiddir út 8. desember.

Framkvæmdir við Dynjanda

Á næstu dögum hefjast framkvæmdir við náttúruvættið Dynjanda í Arnarfirði vegna uppsetningar þriggja nýrra útsýnispalla. 

Pallarnir munu auka öryggi gesta, aðgengi og upplifun ásamt því að auðvelda stýringu m.t.t. gróðurverndar.     

Framkvæmdum sem þessum fylgir bæði truflun fyrir gesti og jarðrask og fyrirsjáanlegt er að sjá muni á gróðri í nágrenni fossanna að þeim loknum. Árstíminn og tíðin vinnur þó með verktökum og þess mun verða gætt eftir fremsta megni að raski verði haldið í lágmarki og lagfært eins og hægt er.

Aðgengi að göngustígnum sem liggur upp með fossaröðinni verður takmarkað þá daga sem þyrluflutningar fara fram.

Svæðið hefur verið friðlýst frá árinu 1981 en það er einn fjölsóttasti áfangastaður ferðamanna á Vestfjörðum.

Heimilistónar 2023 á laugardag

Í tilefni af 75 ára afmæli Tónlistarskóla Ísafjarðar verður efnt til Heimilistóna laugardaginn 25 nóvember.

Heimilistónar voru fyrst haldnir á Tónlistardeginum mikla í tilefni af 60 ára afmæli Tónlistarskóla Ísafjarðar árið 2008 og vakti mikla athygli og ánægju meðal bæjarbúa.

Í frétt sem birtist í Bæjarins Besta kemur fram að hugmyndin sé fengin frá Fiskideginum mikla sem haldin var á Dalvík þar sem fólk býður upp á súpu á heimilum sínum en af því að það er svo mikil tónlist hér í bæ þá þótti tilvalið að fólk opnaði heimili sín og byði upp á lifandi tónlist.

Tíu árum seinna þegar skólinn fagnaði 70 ára afmæli sínu var leikurinn endurtekinn og fólk opnaði heimili sín svo bæjarbúar gætu notið tónlistar frá nemendum og kennurum.

Og nú fimm árum seinna blásum við aftur til hátíðar vegna 75 ára afmæli skólans og fólk bæði hér á Ísafirði og Suðureyri ætla að opna heimili sín og bjóða upp á notalega stemmingu í skammdeginu með tónlist og veitingum.

Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á léttar veitingar á hverju heimili.

Á Ísafirði verður hægt að heimsækja eftirfarandi heimili frá kl.14 til 16.

Tangagata 17 – Tinna og Gylfi

Smiðjugata 2 – Judy og Omar

Fjarðarstræti 38 – Harpa Henrýsdóttir

Fjarðarstræti 39 – Gummi Hjalta og Matta

Silfurgata 6 – Bjarney Ingibjörg og Rúnar

Á Suðureyri verður hægt að heimsækja eftirfarandi heimili frá kl.12 til 13.

Hlíðarvegur 10 – Monika og Norbert

Sætún 2 – Malgorzata og Pawel

Munið: Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á léttar veitingar á hverju heimili, bæði á Ísafirði og Suðureyri.

Súðavíkurhlíð: 474 m.kr. síðustu 10 ár

Frá Súðavíkurhlíð. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Súðavíkurhlíð hefur verið lokuð frá 36 klst upp í 329 klst. á ári síðustu 10 árin. Lokað hefur verið mest 28 daga að einhverju leyti. Þetta kemur fram í svari innviðaráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar við fyrirspurn frá Teiti Birni Einarssyni,alþm. um Súðavíkurhlíð sem dreift hefur verið á Alþingi.

Teitur Björn spurði einnig um hver hefði verið  kostnaður Vegagerðarinnar vegna viðhalds, viðbóta og moksturs á veginum við Súðavíkurhlíð. Ekki er talinn kostnaður við holuviðgerðir og annað minna viðhald sem er ekki skipt eftir vegarköflum.

Alls hefur kostnaðurinn verið 474 m.kr. á þessu tímabili, mest við snjóflóðavarnir 199 m.kr. Vetrarþjónustan hefur kostað 117 m.kr.

Nýjustu fréttir