Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 266

Framkvæmdir við Langeyri í Súðavík

Í síðustu viku byrjaði Tígur ehf. á efnisöflun og yfirlögn kjarna og efnis yfir landfyllinguna við Langeyri.

Tekið verður efni af Súðavíkurhlíð og ætti það að vera gleðiefni að hún í það minnsta minnkar að einhverju leyti.

Áætlað er að flytja um 13600 m3 af efni sem flokkast sem kjarni og efni. Sprengja þarf efni á Súðavíkurhlíð, en annað er fleygað og grafið. Því verða yfirstandandi efnisflutningar frá Súðavíkurhlíð að Langeyri næstu dagana. 

Stálþil er í útboðsferli og verður hafist handa við að reka það niður árið 2024.

Tímasetning liggur ekki fyrir, en farið verður í verkefnið svo fljótt sem unnt er.

Þá er áælað að steypa þekju fyrir nýja höfn vorið 2025 og um sama leyti mun Ískalk hefja vinnu við að reisa sér húsnæði á landfyllingunni. Áætlaður verktími uppbyggingar verksmiðju er 9-24 mánuðir. Flest af þessari tímalínu er með fyrirvara um allt sem kann að koma upp á og mun án efa gera það. Hins vegar er tímalínan vel rúm þannig að ekki er ólíklegt að hún standist í grófum dráttum. 

Aflagjald í Sjókvíeldi

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Fyrir nokkrum dögum féll dómur í Héraðsdómi Vestfjarða, þar sem Arnarlax var sýknað af kröfu Vesturbyggðar um greiðslu á hækkuðu aflagjaldi fyrir löndun á eldislaxi í höfnum sveitarfélagsins.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að eldisfiskur væri ekki sjávarafli og félli ekki undir ákvæði 17. greinar laga um hafnarlög og þar með ekki lagastoð fyrir aflagjöldum á eldisfisk úr sjókvíeldi.

Sveitarfélög þurfa vissu

Þetta setur sveitarfélög sem hýsa sjókvíeldi í verulega vonda stöðu. Sveitarfélögin hafa byggt upp innviði til að mæta nýrri og stækkandi atvinnugrein og hafa verið tilbúin að gera sitt við að móta þá umgjörð sem þarf til þess að vaxa með. Hér er um að ræða uppbyggingu við hafnarsvæði og einnig uppbyggingu vegna fjölgunar íbúa og styrkingar grunnþjónustukjarna, svo sem grunn- og leikskóla.

Í mörg ár hafa sveitarfélögin kallað eftir meiri skýrleika í lögum og reglum og að stjórnvöld fari í að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi.

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um þetta efni í nokkur þing í röð. Sú tillaga felur einfaldlega í sér að fela innviðaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og matvælaráðherra að skipa starfshóp til þess að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi. Sú vinna hefur þegar farið af stað, þar skal nefna að nú hafa stjórnvöld viðkennt að núverandi skipting fiskeldissjóðsins sé ekki til þess að fallin mæta þörf sveitarfélaga fyrir þeirri uppbyggingu sem þau þurfa að ráðast í, auk þess sem lítil vissa er hjá sveitarfélögum um hve mikilla tekna er að vænta þar sem sveitarfélögin sækja hvert fyrir sig í sjóðinn og örðugt að áætla tekjur fram í tímann.

Því hafa komið fram nýjar tillögur um skiptingu fiskeldisgjaldsins, hvort þær eru fullnægjandi verður tíminn að leiða í ljós en alla vega einnar messu virði að máta þær við.

Leikreglur verða að vera skýrar

Það er erfitt að byggja upp traust þegar leikreglur eru ekki skýrar, bæði fyrir sveitarfélögin og fyrirtækin. Það er þó vilji beggja aðila og því verða stjórnvöld að haska sér við verkið.

Á vorþingi 2021 kom innviðaráðherra fram með frumvarp um breytingu á hafnarlögum. Þar voru tillögur sem byggja undir að sveitarfélög gætu sett inn í sína gjaldskrá aflagjöld af eldisfiski. Það náði ekki fram að ganga. Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er boðað að hafnarlögin verði aftur á dagskrá á næstu vikum og er það vel þar sem þetta verður ávarpað. Vonandi verður unnið með þau hratt og vel í gengum þingið.

Höfundur er þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Sjávarútvegsstefna í samráðsgátt

Sjávarútvegsráðherra hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að sjávarútvegsstefnu ásamt drögum að frumvarpi til laga um sjávarútveg.

Drög frumvarpsins taka mið af þremur stoðum sjálfbærrar þróunar, umhverfi, efnahag og samfélagi.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um sjávarútveg þar sem sameinaðir eru núgildandi lagabálkar á sviði fiskveiðistjórnunar, til að tryggja betri yfirsýn um þær reglur sem gilda um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar.

Frumvarpið byggir að miklu leyti á núgildandi lögum en þó er í frumvarpinu að finna nýmæli úr tillögum starfshópa Auðlindarinnar okkar sem kynntar voru 29. ágúst 2023 í skýrslunni Sjálfbær sjávarútvegur. Í frumvarpinu er lögð áhersla á umhverfisþátt sjálfbærrar þróunar.

Lagt er til að nýting nytjastofna taki mið af vistkerfis- og varúðarnálgun. Þá er kveðið á um verndarsvæði í hafi og stýring veiðiálags miðist við veiðarfæri og umhverfisáhrif þeirra. Einnig er lögð áhersla á að auka gagnsæi, m.a. er varðar eignar- og stjórnunartengsl útgerða, aðgengi að gögnum og birtingu upplýsinga.


Helstu nýmæli frumvarps til laga um sjávarútveg eru:

  • Vistkerfis- og varúðarnálgun verði beitt með skýrari hætti en mælt er fyrir um í núgildandi ákvæðum laga.
  • Verndarsvæði í hafi. Ráðherra verði veitt heimild til að kveða á um vernd svæða þar sem nýting nytjastofna er takmörkuð eða bönnuð.
  • Fiskveiðiárið verði almanaksárið í stað 1. september til 31. ágúst.
  • Tegundum veiðarfæra verði beitt sem stjórntæki til að stýra veiðiálagi í stað þess að stærð skipa sé beitt sem stjórntæki. Áfram er þó í frumvarpinu mælt fyrir um stærð krókaaflamarksbáta.
  • Mörk hámarksaflahlutdeildar verði rýmkuð hjá félögum sem skráð eru á markað,
    hækki um fjórðung og verði 15% og þannig hvatt til dreifðara eignarhalds og aukins gagnsæis um eignar- og stjórnunartengsl.
  • Hugtakið yfirráð verði skilgreint með sama hætti og yfirráð skv. 17. gr. samkeppnislaga.
  • Hugtakið tengdir aðilar nái til fjölskyldutengsla og taki til maka, sambúðarfólks, skyldmenna í beinan legg og fyrsta legg til hliðar, til samræmis við ákvæði um minnihlutavernd í lögum um hlutafélög.
  • Sérregla um hlutdeildartengsl. Lagt er til að aflahlutdeild félags teljist að hluta til hjá eiganda að 20% eða meira í réttu hlutfalli við atkvæðisrétt hans í félagi.
  • Aðlögunarfrestur. Útgerðir hafi þrjú ár til að aðlaga sig að breyttum reglum, ef þær fara yfir mörk hámarksaflahlutdeildar skv. frumvarpinu.
  • Upplýsingaskylda lögð á stærri útgerðir. Þeim beri með reglubundnum hætti að veita Fiskistofu upplýsingar um eignarhald og eignartengsl.
  • Eftirlit Fiskistofu og öflun gagna. Lögð er til viðvarandi eftirlitsskylda með eignarhaldi og eignatengslum og stofnuninni fengnar skýrari heimildir til að afla gagna til að sinna eftirliti sínu.
  • Opinber birting á upplýsingum, m.a. um skiptingu aflahlutdeilda, eignarhald, eignartengsl og viðurlagaákvarðanir.
  • Markmið og mælikvarðar byggðakerfa, strandveiða, aflamarks Byggðastofnunar og innviðastuðnings, verði lögfest.
  • Innviðastuðningur til sjávarbyggða komi í stað almenns byggðakvóta. Í samráði eru lagðar til tvær útfærslur á innviðastuðningi.
  • Veiðigjald á uppsjávarfiski hækki úr 33% í 45% og samhliða verði fellt niður 10% álag á uppsjávarfisk. Þá er lagt til að felld verði brott ákvæði um að veiðigjald sé rekstrarkostnaður sem heimilt sé að draga frá tekjum.
  • Viðurlagaheimildir Fiskistofu skýrðar og henni veitt heimild til að fara fram á úrbætur, heimild til beitingu stjórnvaldssekta og heimild til að ljúka málum með sátt.
  • Skel- og rækjubætur verði skertar um 25% á ári á 4 ára tímabili og úthlutun bóta verði hætt 31. desember 2028.
  • Línuívilnun verði skert um 25% á ári á 4 ára tímabili og línuívilnun verði felld niður 31. desember 2028.

Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 22. desember 2023.

Handbolti á Torfnesi

Hörður mætir Haukum U á morgun laugardag kl 17.00 í Grill 66 deild karla.

Frítt inn og allir velkomnir!

Sjoppan verður opin með veitingum og það verður hægt að panta treyjur með nafni og númeri 

Sund

Sund er ný bók eftir þjóðfræðingana Katrínu Snorradóttur og Valdimar Tr. Hafstein í kynningu á bókinni segir:

„Sundlaugarnar eru helsti samkomustaður heillar þjóðar sem sækir þangað næði eða samveru, hreinsun og heilsubót sálar og líkama. Sundið er lífsnauðsyn fyrir eyjarskeggja, undursamlegur leikvöllur hinna ungu og nærandi þeim sem eldri eru. Í sundi birtist samfélagið sjálfu sér … á sundfötunum.

Sund segir ylvolga sögu af íslensku nútímasamfélagi í mótun, með léttri klórangan og hveralykt, gufuslæðu og skvampi. Sundið er skoðað frá ýmsum hliðum og öllum hornum landsins. Sundlaugagestir sjálfir fá orðið og lýsa upplifun sinni í bland við ótal ljósmyndir, gamlar og nýjar, sem sýna landsmenn léttklædda að læra, leika og njóta í sundi.

Höfundar eru þjóðfræðingar og auk þeirra leggja hönnuðir hönd á plóg. Útkoman er einstaklega falleg, fróðleg og aðgengileg bók um uppáhaldsiðju flestra Íslendinga.

Tvær stjörnur eftir listakonuna Katrínu Björk

Um hálsmenið tvær stjörnur segir Katrín Björk að það séu um sjö ár síðan hún fékk hugmyndina að þessu hálsmeni:

„Úr meninu má sjá tvær stjörnur, eða verur, sem styðja hvor við aðra. Þegar hugmyndinni að hálsmeninu laust niður í kollinn á mér þá langaði mig að tjá svo margt með tveimur stjörnum. Menið stendur fyrir kærleika, von, samvinnu og ekki síst vináttu. Vináttan felur svo margt í sér sem ég sé í tveimur stjörnum. Þetta er gleði eins og dansandi manneskjur eða vinur að styðja vin og svo mætti lengi telja. Það getur hver og einn fundið sína merkingu í hálsmeninu.“

Eftir að hafa rissað upp hönnunina tók Haraldur gullsmíðameistari, við og smíðaði gripinn.

Hálsmenið er úr silfri og á 45 cm silfurkeðju, – gullfallegt.

Það var svo fyrir tveimur árum að það fékkst styrkur úr Þróunarsjóði Flateyrar til að fullvinna menið og hefja framleiðslu á því og þá gat verkefnið farið af stað fyrir alvöru.

Tvær stjörnur er hálsmen sem hannað var af Katrínu Björk Guðjónsdóttir og er nú selt til styrktar Stöndum saman Vestfirðir, sem er að safna fyrir endurhæfingartækjum á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða bæði á Patreksfirði og Ísafirði.

Jólamarkaður í Hveravík

Jólamarkaður verður í Söngsteini við Hveravík í Kaldrananeshreppi á morgun, laugardaginn 25. nóvember frá klukkan 13 – 17.

Fjöldi söluborða verður á staðnum svo að ekki þarf að leita lengra til að kaupa í jólamatinn, bæði kjöt, fisk og kökur.

Einnig verður hægt að kaupa fallegar handunnar jólagjafir af ýmsu tagi, unnar úr lopa af íslensku sauðfé, fiðu af íslenskum geitum og allskonar gjafir heklaðar og prjónaðar.

Svo er tilvalið að setjast niður með kaffi og vöfflu sem kvenfélagið Snót sér um og hlusta á ýmis tónlistaratriði, sem bæði börn og fullorðnir flytja.

Ísafjarðarbær – Sameining fræðslunefndar og íþrótta- og tómstundanefndar

Ísafjörður séð frá Nausthvílft. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á fundi Bæjarráðs Ísafjarðarbæjar var á dögunm lagt fram minnisblað Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, og Hafdísar Gunnarsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, dags. 17. nóvember 2023 þar sem lagt er til að sameina fræðslunefnd og íþrótta- og tómstundanefnd.

Jafnframt er gerð tillaga um að sameinuð nefnd muni heita skóla- og tómstundanefnd.

Fræðslunefnd tók tillöguna fyrir a fundi sínum í gær og tekur vel í sameiningu nefnda og leggur til að íþróttir komi inn í nafn nýrrar nefndar.

Að sögn Hafdísar Gunnarsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs liggja ekki enn fyrir tillögur um það hvað nefndarmenn yrðu margir.

BOTNSVIRKJUN Í DÝRAFIRÐI

Landeigendur Botns og Dranga áforma byggingu og rekstur allt að 5 MW rennslisvirkjunar með mögulegri dægurmiðlun, sem nýtir hluta rennslis Botnsár og Drangár.

Skipulagsstofnun leitar nú umsagna umsagnaraðila vegna tilkynninga til ákvörðunar um matsskyldu á grundvelli 20. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Umsagnaraðilar sem leitað er álits hjá eru að jafnaði leyfisveitendur og stofnanir sem ýmist hafa lögbundnu hlutverki að gegna á sviði sem varðar fyrirhugaða framkvæmd eða búa yfir sérfræðiþekkingu á sviði sem varðar fyrirhugaða framkvæmd. Misjafnt er hvaða aðrir aðilar eru umsagnaraðilar og fer það eftir eðli og staðsetningu framkvæmdar hverju sinni.


Áætlað er að inntaksmannvirki og aðveituskurðir verði staðsett í allt að 450 m h.y.s. í dalbotninum og þaðan liggi niðurgrafin þrýstipípa sunnan árinnar í landi Dranga um 3,5 km leið að stöðvarhúsi sem staðsett verði í um 20 m h.y.s., neðan við núverandi skógræktarsvæði. Stærð stöðvarhúss er áætlað allt að 150 m².

Tenging virkjunarinnar yrði með jarðstreng að munna Dýrafjarðarganga. Markmið landeigenda Botns og Dranga er að auka orkuvinnslu á Vestfjörðum á hagkvæman og umhverfisvænan máta.

Framkvæmdaaðilar hafa falið Verkís verkfræðistofu að annast skipulagsmál og matsskyldufyrirspurn vegna virkjunarinnar en ekki er ákveðið hver mun sjá um hönnun mannvirkja og búnaðar.

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

,,Þekktu rauðu ljósin – Soroptimistar hafna ofbeldi” er slagorð íslenskra Soroptimista í 16 daga átakinu að þessu sinni. Átakið sem leitt er af Sameinuðu þjóðunum og er alþjóðlegt hefst 25. nóvember og því lýkur 10. desember.
Um allan heim sameinast hin ýmsu samtök í því að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi með ýmsum hætti en roðagylltur litur er einkenni átaksins en hann á að tákna bjartari framtíð.

25.nóvember er dagurinn sem Sameinuðu þjóðirnar völdu til að varpa ljósi á að ofbeldi gegn konum er alþjóðlegt vandamál sem kemur upp í öllum samfélögum og menningarheimum. Ofbeldi gegn konum er aldrei einkamál heldur samfélagslegt vandamál sem hefur áhrif á milljónir kvenna. Vitundarvakningin stendur yfir í 16 daga, fram að mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna þann 10. desember.

Soroptimistar um allan heim leggja lóð á vogarskálarnar til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi, helst með því að fræða konur um alvarleika og birtingarmyndir kynbundins ofbeldis en einnig að vekja samfélög til meðvitundar um þetta vandamál með því að roðagylla heiminn.

Markmið 16 daga átaksins að þessu sinni er að beina athyglinni að forvörnum og fræðslu og hafa Soroptimistar útbúið fræðsluefni um hinar ýmsu myndir ofbeldis sem flokka má í sex flokka: andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi og eltihrellir. Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því að um ofbeldi sé að ræða í samböndum fólks en það getur átt sér stað óháð kyni, aldri og kynhneigð.

Samkvæmt rannsóknum hafa 15% til 20% íslenskra kvenna og 5% til 10% íslenska karla verið beitt ofbeldi af maka sínum eða þeim sem þau voru í ástarsambandi við og líklega búa um 2% íslenskra kvenna við ofbeldi hverju sinni. Íslenskir Soroptimistar, sem eru nú um 600 í 19 klúbbum, hvetja alla til að kynna sér málefnið, fræðast og leggja sitt af mörkum til að stöðva ofbeldi. Soroptimistasystur munu þessa 16 daga vekja athygli meðal annars með því að klæðast roðagylltum fatnaði, selja ýmsan varning, birta greinar og fræðsluefni.

Roðagyllti liturinn verður áberandi á byggingum víða um land og einnig á sendiráðum Íslands víða um heim.

Nýjustu fréttir