Búseti, baráttusaga 1983-2023 er bók um Húsnæðissamvinnufélagið Búseta sem var stofnað 26. nóvember 1983 og er því 40 ára á útgáfuári þessarar bókar; 2023.
Hugmyndin að stofnun félagsins var ekki tengd kjarasamningum, lausnum kokkuðum af ríkisvaldinu eða að frumkvæði einhvers að ofan eins og oft er þegar nýjar lausnir í húsnæðismálum líta dagsins ljós.
Félagið var stofnað af áhuga og frumkvæði fjölda fólks sem lét sig varða stöðu húsnæðismála, sérstaklega ungs fólks. Stofnun Búseta og fyrstu starfsárin gengu ekki þrautalaust fyrir sig, en það var oft gaman! Í þessari bók er stiklað á stóru í 40 ára baráttusögu Búseta.
Erfitt er segja hverjar væntingar forsvarsmanna voru við stofnun Búseta, en 5 árum síðar var risið fyrsta húsið, Búsetablokkin, eins og hún var kölluð. 46 íbúðir í níu hæða húsi við Frostafold.
Nú, eftir 40 ára starf, á og rekur félagið um 1300 íbúðir og félagsmenn eru um 5300.
Hvatningarverðlaun fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar fyrir framúrskarandi skólastarf voru afhent þann 23. nóvember síðastliðinn.
Að þessu sinni féllu verðlaunin í skaut Guðlaugar Jónsdóttur, Diddu, fyrir heimilisfræðival við Grunnskólann á Ísafirði.
Í umsögn nefndarinnar kemur meðal annars fram að Didda hafi einstakt lag á að vekja áhuga nemenda á íslensku hráefni og matargerð, enda er íslensk og vestfirsk matarmenning í hávegum höfð hjá henni. Þá hefur Didda farið óhefðbundnar leiðir í kennslu, meðal annars hefur hún haldið súpusamkeppnir á unglingastigi þar sem nemendur þróa sínar eigin súpur og lærðir kokkar eru fengnir til að sitja í dómnefnd.
Heimilisfræðival Diddu er dæmi um einstaklega vel heppnaða valgrein, sem náð hefur að vaxa og dafna með einstakri nálgun kennara á námsefni og jákvæðu viðhorfi til nemenda.
Allt frá því að Guðlaug hóf störf við GÍ hafa valgreinar hennar í heimilisfræði verið mjög vinsælar, bæði á mið- og unglingastigi, og komast færri að en vilja.
Þetta er í þriðja sinn sem fræðslunefnd veitir hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi skólastarf í Ísafjarðarbæ
Fögnum saman „Svona tala ég“ nýjustu barnabók eftir Helen Cova með útgáfuhófi á Bókasafninu Ísafirði 2 desember kl. 14:00-16:00.
Börnin geta litað, leikið sér og hlustað á höfundinn lesa úr bókinni. Það verða léttar veitingar í boði og bókin á útgáfutilboði.
Um bókina: Þessi bók kennir ekki aðeins börnum um fegurð íslenskrar tungu, heldur ber hún líka sterk skilaboð um umburðarlyndi og skilning fyrir þau sem eru að læra hana. Með sögu Simonu læra íslensk börn hvað tungumál okkar er mikilvægt, fallegt, sérstakt og hve flókið það getur verið. Börnin læra líka að meta og virða námsferli innflytjenda og auka samúð og þátttöku í samfélaginu okkar.
Nýir Íslendingar sem eru að flytja til Íslands og eru að læra tunguna munu sjá sjálfa sig og fá félaga í sögunni um Simonu, finna innblástur og huggun í þeirra ferli. Með töfrandi myndum og innblásandi sögu, eflir „Svona tala ég“ menningarlega fjölbreytni, eykur ástina á íslenskunni og sýnir hvernig samskipti og tengingar geta rofið hindranir og sameinað fólk.
Þessi bók er ómissandi fyrir þá sem vilja stuðla að samþættingu og virðingu fyrir öllum börnum, sama hvaða uppruna þau hafa eða hvaða hreim þau tala íslensku með. „Svona tala ég“ minnir okkur á að hver rödd er einstök og hvað við erum öll heppin að geta talað íslensku.
Um höfundinn: Helen Cova er rithöfundur og núverandi forseti Ós Pressunnar. Fyrsta barnabók hennar, „Snúlla finnst gott að vera einn“, kom út árið 2019 á íslensku, ensku og spænsku. Önnur bók hennar, smásagnasafn fyrir fullorðna „Sjálfsát: Að éta sjálfan sig“, kom út árið 2020 á íslensku og ensku. Þriðju bókinni sinni (aðra barnabók) kom út af Karíba útgáfan í Október 2022 og heitir „Snúlla finnst erfitt að segja nei“. Einnig er hún að gefa út nú fyrir jól ljóðabókina „Ljóð fyrir klofið hjarta“
Byggðastofnun hefur að beiðni innviðaráðuneytis unnið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu ásamt greinargerð, ætlað stjórnvöldum, bæði ríki og sveitarfélögum, til leiðbeiningar við stefnumótun og framkvæmd stefna.
Þessi drög hafa verið sett í samráðsgátt stjórnvalda og verða opin til umsagna og ábendinga til 7. febrúar 2024.
Til að skoða nánar grunnþjónustuna er sett fram hugmynd að stigskiptingu hennar, út frá því hversu nálægt þjónustan er íbúanum og miðað við stærð þéttbýlis, hvort um er að ræða þorp, bæ, landshlutakjarna eða borg.
Fyrsta stig þjónustu miðast við þorp. Íbúum sé tryggt aðgengi að lágmarksþjónustu sem allir eiga rétt á og þarf að vera veitt í nærumhverfi.
Annað stig þjónustu miðast við minni bæi og þar fjölgar almennum þjónustuþáttum opinberrar grunnþjónustu.
Á þriðja stigi þjónustu eykst þjónustuframboð og við bætist jafnvel sérhæfð eða sértæk þjónusta sem aðeins er veitt í stærri bæjum eða borg.
Á fjórða stigi þjónustu, í borg/svæðisborg, er að finna alla þætti opinberrar grunnþjónustu og sú sérhæfða og sértæka þjónusta sem í boði er.
Það er áskorun að skilgreina opinbera grunnþjónustu og aðgengi og rétt íbúa að henni. Mikilvægt er að sameiginlegur skilningur ríki á viðfangsefninu. Opinber grunnþjónusta á vegum ríkis og sveitarfélaga á að vera aðgengileg fyrir alla íbúa landsins. Til þess að byggð haldist á öllu landinu þá þarf nauðsynleg þjónusta að vera til staðar fyrir þá sem þar búa.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest tillögu Ísafjarðarbæjar og gert Skutulsfjarðareyri og Neðstakaupstað að verndarsvæði í byggð. Tillaga fór til Minjastofnunar til umsagnar sem mælti með staðfestingunni. Ákvörðunin hefur verið birt í B deild Stjórnartíðinda og hefur tekið gildi.
Í auglýsingunni segir:
Neðstikaupstaður samanstendur af elstu húsaþyrpingu landsins sem enn stendur, og fjöru sem liggur vestan við hana. Svæðið afmarkast af sjólínu til vesturs og Suðurtanga til austurs. Svæðið afmarkast að norðan af þeim stað sem sandfjara sunnan Ásgeirsbakka endar, og liggja mörkin þaðan að Tjöruhúsinu, og snúa mörk svo til norðurs umhverfis húsaþyrpinguna frá 18. öld og ná síðan í skálínu niður að Suðurtanga til austurs. Syðri mörk liggja sunnan við gömlu bryggjuna, þaðan í skálínu sunnan við Suðurtanga 2 og ná til Suðurtanga.
Skutulsfjarðareyri skiptist í Miðkaupstað og Hæstakaupstað og er samfelld og þétt byggð húsa á efra svæðinu á Eyrinni. Svæðið afmarkast af Fjarðarstræti til norðurs og Sundstræti til austurs, og Skipagötu að suðurenda Brunngötu til suðurs. Þaðan sveigjast syðri útmörkin í skálínu til suðurs og ná utan um þau hús sem tilheyra Aðalstræti beggja megin þess hluta götunnar sem liggur sunnan Skipagötu. Syðsti hluti verndarsvæðisins miðast þannig við syðstu húsin í Aðalstræti og ná mörkin umhverfis þetta svæði sem kennt er við Miðkaupstað. Austurmörk svæðisins halda áfram austan með syðstu húsunum við Aðalstræti í norðurátt, en sveigja lítillega til austurs og áfram í norðurátt frá gatnamótum Aðalstrætis og Skipagötu. Markast þau þar af miðju Aðalstrætis og taka mið af upphaflegri legu götunnar í beina línu í átt að Faktorshúsi í Hæstakaupstað. Mörkin sveigja síðan til vesturs meðfram Austurvegi, sunnan Austurvallar, og þaðan til norðurs meðfram Norðurvegi þar til Fjarðarstræti er náð.
Guðmundur M. Kristjánsson, fyrrverandi hafnarstjóri er síður en svo sestur í helgan stein þótt hann sé hættur sem hafnarstjóri og hefur nú sótt um lóð við Hlíðarveg 50, óstofnuð lóð, vegna áforma um byggingu á lágreistu einbýlishúsi ásamt bílskúr, samtals um 130 fm.
Skipulags- og mannvikrjanefnd Ísafjarðarbæjar segir að samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé þetta í samræmi við áform um þéttingu byggðar í efri bæ Ísafjarðar. Leggur nefndin til við bæjarstjórn að heimila stofnun lóðar við Hlíðarveg 50 á Ísafirði undir einbýlishús.
Hyggst hann hefjast handa sem fyrst og áætlar að geta flutt í fyrirhugað hús á haustmánuðum 2024.
Nú er afstaðin leikjatörn sem þar sem 12. flokkur karla og 12. flokkur kvenna voru að keppa. Auk þess sem meistaraflokkur félagsins keppti í 2. deild. Það voru því leikir föstudag, laugardag og sunnudag. 12. flokkur karla spilaði 2 leiki við sameiginlegt lið Hamars/Þórs og 12. flokkur spilaði við sameiginlegt lið Skallagríms/Snæfells. Síðasti leikur helgarinnar var á móti B liði ÍR hjá meistaraflokki karla.
Meistaraflokkur – efstir eftir 6 umferðir
Meistaraflokkur karla spilaði við ÍR B, vel var mætt og rúmlega 150 áhorfendur í húsinu. Leikurinn fór ágætlega af stað en jafnræði var með liðunum. Sem fyrr var Pétur þjálfari duglegur að skipta ungu strákunum inn á. Fremstur meðal jafningja var Jonathan Braeger sem var út um allan völl, þjófóttur í vörn og stal boltum trekk í trekk. Einnig var hann brögðóttur á sóknarenda vallarins og áttu varnarmenn ÍR b fá svör við kappanum. Einnig mikilvægur fyrir liðið var Sigurður Þorsteinsson, og réðu ÍR-ingar lítið við hann undir körfunni og vann hann sínar frákastabaráttu. Þá var ekki minna vesen fyrir ÍR b þegar aldursforsetinn Birgir kom inn á til að gefa Sigga smá hvíld. Birgir gaf ekki tommu eftir, enda ekki þekktur fyrir slíkt og er Birgir satt best að segja í fanta formi og mikilvægur fyrir liðið og liðsheildina. Hittni Vestra manna var afleit framan af, þótt að Jonathan hafi sett nokkrar þriggja stiga körfur þá var of mikið af opnum skotum sem fóru í súginn. Leikurinn var því nokkuð jafn en rétt fyrir hálfleik var varnaleikur Vestra öflugur og skilaði auðveldum körfum og smá forskoti inn í hálfleikinn. Með öflugri vörn og góðu samspili náðu Vestra menn að yfirspila ÍR b, hraðaupphlaup og opin skot fóru að detta. Elmar Baldursson var drjúgur undir lokin og setti niður sín skot og stýrði leiknum vel á meðan Jonathan fékk verðskuldaða hvíld. Jonathan, Sigurður og Elmar fóru fyrir okkar mönnum, yngri leikmenn búnir að skila sínu í fyrri leikjum helgarinnar en voru sprækir þegar þeir komu inná. Stigaskor leiksins dreifðist með eftirfarandi hætti; Jonathan 40, Sigurður Þorsteinsson 14, Elmar 12, James 3, Hjálmar 3, Haukur 3, Sigurður 3, Blessed 3, Jón Gunnar 2 og Frosti 2. Maður leiksins var að öðrum ólöstuðum Jonathan Braeger, hann hefur verið sannkallaður happafengur fyrir liðið og í dag var hann frábær í vörn og sókn. Það eru þó litlu atriðin sem skipta máli, varnarleikurinn sem skilar stolnum boltum og hraðaupphlaupum, fiskaðir ruðningar, auka sendingin, leikmenn að fleygja sér á lausa bolta og síðast en ekki síst liðsheildin og stemmingin sem er að myndast í kringum þetta skemmtilega lið. Lið Vestra trónir á toppi deildarinnar, taplausir eftir 6 leiki.
góð frammistaða yngri flokka
12. flokkur karla vann báða sína leiki, fyrri leikurinn var í bikarkeppni og seinni leikurinn var í deildakeppni. Leikirnir voru nokkuð jafnir, en Vestra strákarnir voru alltaf skrefi á undan. Góð liðsheild einkennir hópinn og í honum er sá yngsti 13 ára og elsti 18 ára. Þrátt fyrir þetta breiða aldursbil þá spilar liðið flottan og skemmtilegan liðsbolta. Elstu leikmenn liðsins eru einnig leikmenn meistaraflokks karla og er leiktíðin skipulögð með það að leiðarljósi að þeir geti tekið virkan þátt í leikjum meistaraflokks karla. Þjálfari liðsins er Jonathan Braeger og tók hann við góðu búi frá fyrri leiktíð þar sem Birgir Örn Birgisson hefur verið með þennan hóp með góðum árangri. Stigaskorið dreifðist tiltölulega jafnt meðal leikmanna liðsins
12. flokkur kvenna lagði land undir fót og fór á Borgarnes þar sem þær mættu sameiginlegu liði Skallagríms og Snæfells. Vestri byrjaði leikinn vel og eftir 5 mínútur var staðan orðin 9-5 okkur í vil en tók þá við kafli sem þar sem illa gekk að skora á sama tíma og Vestri varð verulega undir í frákastabaráttunni. Staðan í hálfleik 33-16 fyrir Skallagrím/Snæfell.
Í upphafi þriðja leikhluta urðu Vestrastúlkur full gjafmildar og töpuðu boltanum ítrekað sem urðu undantekningalaust að auðveldum körfum fyrir heimaliðið og staðan orðin 46-18. Á þeim tímapunkti náðu Vestrastúlkur loks yfirhöndinni í frákastabaráttunni, urðu ákveðnar með boltann og tóku stjórn á leiknum. Vestri vann síðustu 15 mínúturnar 26-8 og sýndu stórkostlega spilamennsku og baráttu en því miður var það ekki nóg til að vinna upp muninn sem hafði myndist. Lokatölur 54-44 fyrir Skallagrím/Snæfell.
Á föstudaginn sneri Landsréttur við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. júní 2022 og dæmdi ríkið til þess að greiða fyrrverandi skrifstofustjóra í Atvinnuvegaráðuneytinu Jóhanni Guðmundssyni 23,6 m.kr. að viðbættum vöxtum, auk 2,5 m.kr. í málskostnað. Féllst Landsréttur á bótakröfu áfrýjandans eins og hún var sett fram fyrir Landsrétti.
Landsréttur hafnaði málatilbúnaði ríkisins, sem hélt því fram að niðurlagning starfs skrifstofustjórans hefði einvörðungu tengst skipulagsbreytingum í ráðuneytinu og segir í dómnum að ekki verði um villst „að ráðherra og ráðuneytisstjóri töldu að afskipti áfrýjanda af birtingu laga nr. 101/2019, og eftir atvikum aðrar athafnir í embætti, hafi verið ósamrýmanleg stöðu hans sem skrifstofustjóra í ráðuneytinu.“
beiðni um frestun á gildistöku laga ástæðan
Þarna var um að ræða breytingu á lögum um fiskeldi sem samþykkt voru á Alþingi í júní 2019 og voru undirrituð af forseta Íslands 1. júlí. Lögin nýju breyttu m.a. ákvæðum laganna um úthlutun leyfa til fiskeldis. Skrifstofustjórinn hafði beðið um frestun á birtingu laganna um nokkra daga. Þá var fyrirhugað að birting laganna yrði 14. júlí en hún varð 18. júlí. Tæpu ári síðar, samkvæmt því sem fram kemur í dómi Landsréttar, hafi ráðuneytið fengið vitneskju um frestunina og ráðherra Kristján Þór Júlíusson sendi skrifstofustjórann í leyfi með þeim orðum að „ákveðin fiskeldisfyrirtæki kynnu að hafa haft verulega hagsmuni af því að gildistöku laga nr. 101/2019 yrði frestað“ og í framhaldinu lagði hann niður starfið.
Landsréttur segir að þessi beiðni um frestun á gildistöku laganna sé raunverulega ástæðan fyrir niðurlagnings starfsins og snýr því við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Við þessar aðstæður beri ráðherra að fara að ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og láta rannsaka embættisfærslur starfsmannsins. Það að leggja niður starfið hafi verið leið til þess að fara framhjá lögbundnu ferli og ekki málefnaleg og því ólögmæt ákvörðun sem bakaði ríkinu skaðabótaskyldu.
ekki liggur fyrir að hann hafi brotið af sér í starfi
Landsréttur minnir á að ráðherra vísaði embættisfærslum skrifstofustjórans til lögreglu til rannsóknar. Í bréfi héraðssaksóknara til Jóhanns, tæpum tveimur árum seinna, segir að rannsókn hafi verið hætt. Ekki fáist séð að athafnir hans hafi hallað réttindum einstakra manna eða lögaðila eða hins opinbera. „Frekari rannsókn er að mati embættis héraðssaksóknara ekki líkleg eða til þess fallin að sýna fram á sekt yðar, eða upplýsa um málið frekar“. Landsréttur segir í dómnum að ekki verði „slegið föstu í ljósi þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu og þeirra annmarka sem voru á ákvörðun um starfslok áfrýjanda að hann hafi brotið af sér í starfi.“ og að „Telja verður að ráðherra hafi mátt vera ljóst þegar hann tók ákvörðun um starfslok áfrýjanda að ákvörðunin væri til þess fallin að vera meiðandi fyrir áfrýjanda“.
íþyngjandi lagasetning ástæðan frestunar
Fram hefur komið í frétt á Bæjarins besta um rannsókn Héraðssaksóknara að skýringar Jóhanns Guðmundssonar hafi verið þær að um íþyngjandi lagasetningu hafi verið að ræða fyrir fyrirtæki sem voru í umsóknarferli um leyfi til fiskeldis og hann hafi viljað koma í veg fyrir að lagasetningin skapaði skaðabótaskyldu ríkisins gagnvart þeim fyrirtækjum og að seinkunin hafi verið 3 – 4 dagar. Héraðssaksóknari féllst á þessar skýringar og sagði í bréfi sínu að ekki hafa verið sýnt framá að hann hafi misnotað stöðu sína öðrum eða honum sjálfum til ávinnings. „Þá fæst ekki séð að athafnir yðar hafi hallað réttindum einstakra manna eða lögaðila né hins opinbera, sbr. m.a. framangreint minnisblað.“
Ríkisendurskoðandi gagnrýndi frestunina
Í byrjun ársins blandaði Ríkisendurskoðandi sér inn í þetta mál í skýrslu embættisins um sjókvíaeldi. Þá hafði héraðsdómur fallið í málinu og hafði sýknað ríkið. Ríkið hélt því fram, eins og fyrr greinir, að niðurlagning starfsins hafi verið ótengd ákvörðun um frestun á gildistöku laganna um fiskeldi. Ríkisendurskoðandi gerði frestunina að gagnrýnisratriði og segir hana alvarlega sem sé „til þess fallinn að grafa undan tiltrú almennings og annarra hagsmunaaðila á að jafnræðis og gagnsæis væri gætt af hálfu stjórnvalda. Ásýndin er sú að þau fyrirtæki sem skiluðu frummatsskýrslum milli samþykktar og gildistöku laganna hafi notið góðs af frestun birtingarinnar og fengið óeðlilegt svigrúm til að uppfylla bráðabirgðaákvæði laganna.“
Þetta segir Ríkisendurskoðandi þrátt fyrir að málið hafi verið rannsakað og að ótvíræð niðurstaða hafi legið fyrir þegar hann skrifaði sína skýrslu, sem segir að embættismaðurinn hafi gætt að hagsmunum ríkisins og ekki hallað réttindum neins aðila í málinu. Það má spyrja sig hvaða tilgangi þessi afskipti Ríkisendurskoðanda þjónaði. Hann er greinilega að grafa undan tiltrú á framkvæmd laga um fiskeldi.
Landsréttur hefur nú bætt við sinni niðurstöðu í dómsmálinu og segir að ekki verði slegið föstu miða við gögn málsins að skrifstofustjórinn hafi brotið af sér í starfi.
dylgjur Ríkisendurskoðanda
Hvað gerir Ríkisendurskoðandi nú? Mun hann leiðrétta skýrslu sína um sjókvíaeldið og fella burt dylgjur sínar um óeðlilega stjórnsýslu að þessu leyti. Að öðrum kosti verður hann að koma hann fram með rökstuðning sem heldur vatni. Eftir dóm Landsréttar getur þessi gagnrýni Ríkisendurskoðanda ekki staðið óhögguð.
Fiskeldi er ung atvinnugrein sem vissulega þarf vandaða lagaumgjörð. Ábendingar frá stofnun eins og Ríkisendurskoðun eru mikilvægar, en þá verða þær að vera vandaðar og lausar við dylgjur og órökstuddar ávirðingar.
Á laugardaginn var nýtt laxasláturhús Arctic Fish í Bolungavík vígt að viðstöddu miklu fjölmenni. Að sögn Daníel Jakobssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish komu milli 500 og 600 manns og skoðuðu sláturhúsið og kynntu sér húsakynnin og fullkominn tæknibúnað þess.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík segir verksmiðjuna vera á heimsmælikvarða og og kvaðst ánægður með áhuga Vestfirðinga af öllum fjörðum sem hafi sýnt þessu mikinn áhuga. Jón Páll benti á að um væri að ræða eina allra stærstu fjárfestingu í atvinnulífi á Vestfjörðum og hann sagðist leyfa sér að vera bjartsýnn á að friður skapist um atvinnugreinina. Það væri verkefni stjórnvalda að skapa grundvöll til þess að nýta náttúrulegar aðstæður á Vestfjörðum til framfara fyrir Vestfirðinga og landsmenn alla.
Daníel Jakobsson sagði að kostnaðurinn við laxasláturhúsið Drimlu væri um 5 milljarðar króna. Verksmiðjan væri fullbúin og tankar fyrir slóg sem reistir hafa verið við sláturhúsið verða teknir í noktun í desember. Daníel sagði að aðsóknin á laugardaginn hafi verið mikil og gestirnir hafi verið áhugasamir og spurt um húsið og tæknibúnaðinn og almennt verið jákvæðir.
Helstu verktakar voru Vestfirskir verktakar, Raftækni, Þotan, Hafþór Gunnarsson og auk Baader og Skaginn 3X. Efla sá um hönnun ásamt Perscatekt.
Ávörp fluttu Sten Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish, Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs Bolungavíkur og Daníel Jakobsson. Meðal gesta voru Björn Hembre, Kjartan Ólafsson og Víkingur Gunnarsson frá Arnarlax.
Guðbjartur ÍS 16 var smíðaður í Flekkefjørd í Noregi fyrir Hraðfrystihúsið Norðurtanga hf. á Ísafirði. Var hann þriðja skipið sem smíðað var þar fyrir fyrirtækið.
Hin voru Víkingur III ÍS 280 sem hét upphaflega Guðbjartur Kristján ÍS 280, og Guðbjartur Kristján ÍS 20. Síðar Orri ÍS 20.
Guðbjartur ÍS 16 kom til heimahafnar á Ísafirði í marsmánuði 1973. Hann var einn þeirra skuttogara sem smíðaðir voru í Flekkefjørd fyrir Íslendinga eftir þessari teikningu Bárðar Hafsteinssonar.
Hinir voru Júlíus Geirmundsson ÍS 270, Bessi ÍS 410, Framnes ÍS 708, Björgvin EA 311, Guðbjörg ÍS 46 og Gyllir ÍS 261.
Guðbjartur ÍS 16 var alla tíð í eigu Hraðfrystihússins Norðurtanga hf. á Ísafirði en hann var seldur til Noregs í ársbyrjun 1996.
Í frétt Morgunblaðsins af sölu hans kom m.a fram að togarinn fiskaði alls um 88 þúsund tonn meðan hann var gerður út frá Íslandi.