Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 263

Hafís um 20 sjómílur frá landi

Haf­ís­inn norður af land­inu hef­ur þokast aðeins nær og var í morgun (29.11.2023 kl. 07:50) í 23 sjómílna fjarlægð norður af Hælavíkurbjargi.

Gervitunglamyndin, sem kortið byggir á, náði aðeins yfir austasta hluta svæðisins og því er ísbreiðan, eins og hún var þann 27.11. s.l. höfð með á kortinu en í öðrum lit.

Næstu daga verða norðaustanáttir ríkjandi á svæðinu og því ólíklegt að ísinn verði til vandræða nær landi.

Einnig hefur mátti sjá nokkra borgarísjaka, bæði innan og utan ísbreiðunnar.

Andlát: Guðni Geir Jóhannesson

Guðni Geir Jóhannesson.

Guðni Geir Jóhannesson, fyrrv. bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ lést á föstudaginn á Höfða á Akranesi. Hann var fæddur 1947 á Ísafirði. Guðni Geir sat i bæjarstjórn fyrir Framsóknarflokkinn frá 1998 til 2007 er hann flutti til Selfoss. Guðni Geir var formaður bæjarráðs um árabil, formaður hafnarstjórnar og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga 2002-2006.

Hann var einnig umsvifamikill í atvinnulífi Ísfirðinga um tíma í gegnum eignarhaldshlutafélagið G7 og átt m.a. meirihluta í rækjuverksmiðjunni Miðfell.

Eftirlifandi eigankona Guðna Geirs er Margrét Jónsdóttir frá Ísafirði, áttu þau tvö börn saman og sex börn samtals.

Skiptir máli að segja satt?

Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Nýlega bárust svör frá Innviðaráðuneyti um stjórnsýslu meirihluta Strandabandalagsins og oddvita sveitarfélagsins Strandabyggðar. Lengi hafði verið beðið eftir þessum svörum og enn er ósvarað fleiri fyrirspurnum sem ráðuneytinu hafa borist frá ýmsum aðilum. Ráðuneytið tók þá ákvörðun í þessu máli að setja fjögur erindi sem því höfðu borist saman í eitt álit.

Eitt af þessum erindum sendu undirrituð, fulltrúar sem sátu í síðustu sveitarstjórn Strandabyggðar þar til í maí 2022. Hin þrjú komu frá minnihluta sveitarstjórnar sem var ósáttur við að oddvitinn hafði með stuðningi síns fólks í meirihlutanum ítrekað brotið sveitarstjórnarlög við undirbúning og framkvæmd sveitarstjórnarfunda og tekið bæði málfrelsið og tillöguréttinn af minnihlutanum.

Niðurstaða ráðuneytisins

Að okkar mati er álitið sjálft skýrt og skorinort. Varðandi beiðni okkar um aðstoð ráðuneytisins til að knýja fram svör frá oddvitanum og sveitarstjórninni, er sagt hreint út að sveitarfélaginu beri sem stjórnvaldi skylda til að svara skriflegum erindum.

Varðandi kvartanir minnihlutans er farið vandlega yfir með hvaða hætti sveitarstjórnarlög hafa verið brotin hverju sinni og hvaða lagagreinar og sagt að “vanræksla sveitarfélagsins við að gæta að umræddum grundvallarréttindum sveitarstjórnarfulltrúa sé verulega ámælisverð”. Þessi grundvallarréttindi sem vísað er til eru málfrelsið og rétturinn til að koma málefnum á dagskrá, hvort tveggja grundvallaratriði lýðræðislegra stjórnarhátta.

Fullkominn skortur á skilningi

Þrátt fyrir þetta skilur oddvitinn og meirihlutinn ýmislegt í þessu áliti frá ráðuneytinu með allt öðru móti. Eða hvernig á öðruvísi að skilja, af hverju reynt er að koma á framfæri öldungis fráleitum túlkunum á álitinu? Eins er gripið til aðferðar sem hefur áður gefist vel gagnvart fylgismönnum Strandabandalagsins. Að ljúga því sama aftur og aftur. Rangtúlkanir meirihlutans hafa nefnilega birst víða, t.d. á vef sveitarfélagsins, í fréttamiðlinum bb.is og á fésbókarsíðu Strandabandalagsins.

Álit ráðuneytisins er dagsett 10. nóv. og var tekið fyrir á sveitarstjórnarfundi Strandabyggðar 14. nóv. síðastliðinn. Þar leggja báðir listar fram bókanir um málið. Í langri bókun meirihluta Strandabandalagsins í fundargerðinni er að finna  ýmis ósannindi og rangfærslur, sem við ætlum að taka til skoðunar í þessari grein.

Rangfærslur Strandabandalagsins

•             Það eru ýkjur að um sé að ræða álit um “fjölda kvörtunarbréfa frá fyrrverandi sveitarstjórn og A lista”. Samtals eru erindin sem svarað er að þessu sinni bara fjögur og aðeins eitt af þeim er frá fyrrum sveitarstjórn. Það er jafnframt eina erindið sem við höfum tekið okkur saman um að senda ráðuneytinu til úrlausnar, hingað til.

•             Það er rangt í bókun Strandabandalagsins að í áliti ráðuneytisins sé fjallað “almennt um meinta ólögmæta stjórnsýslu” Strandabyggðar. Það fer ekkert á milli mála að þar er fjallað nákvæmlega um einstök tilvik um ólögmæta stjórnsýslu og tiltekin margvísleg og ítrekuð brot meirihluta sveitarstjórnar á sveitarstjórnarlögum. Umfjöllunin er því ekki almenn og brotin ekki “meint”.

•             Túlkun Strandabandalagsins á þeirri niðurstöðu í álitinu að ráðuneytið sjái ekki ástæðu til að fjalla formlega um eldri mál í stjórnsýslu sveitarfélagsins er útúrsnúningur og rangtúlkun. Þarna er ekki verið að leysa meirihlutann undan þeirri skyldu að svara þeim spurningum og erindum sem að honum er beint. Þvert á móti kemur skýrt fram að sveitarfélaginu ber einmitt að svara þeim erindum frá fyrrverandi sveitarstjórnarfólki sem hafa verið hunsuð. Það er óháð því að ráðuneytið sjálft sjái ekki ástæðu til að rannsaka einstök mál, enda eru allar ásakanir um lögbrot okkar settar fram sem ónákvæmur rógburður, en tilgreina ekki einstök tilvik og því er erfitt fyrir ráðuneytið að bregðast við.

•             Það eru hrein ósannindi að kenna fyrri sveitarstjórnum Strandabyggðar um þau lögbrot núverandi oddvita og meirihluta sem felast í því að banna umræðu um mál sem lögð eru fram til kynningar á fundum og flokka síðan málin eftir því hvort meirihlutinn vill að það sé talað um þau eða ekki. Slík brot á málfrelsi og aðför að lýðræðislegri umræðu eru algjör nýlunda. Þessa aðferð tók núverandi oddviti hjá Strandabyggð upp, með stuðningi meirihluta sveitarstjórnar, en slík vinnubrögð hafa aldrei áður verið viðhöfð hjá sveitarfélaginu. Þessi breyting á framkvæmd funda virðist hafa verið kynnt með tilskipun á sveitarstjórnarfundi 13. desember 2022.

•             Það er hvort tveggja ósatt í bókuninni að ráðuneytið telji “ekki grundvöll til að aðhafast neitt frekar í málinu” og að málinu sé “lokið af hálfu ráðuneytisins”. Það kemur einmitt fram í álitinu að ráðuneytið fer fram á að sveitarfélagið upplýsi innan fjögurra vikna hvort og hvernig sveitarfélagið hyggst bæta úr þeim ágöllum á framkvæmd sveitarstjórnarfunda sem rakin eru í álitinu. Eftir atvikum ætlar ráðuneytið þá að taka til skoðunar hvort að ástæða sé til að líta til annarra úrræða sveitarstjórnarlaga, til að mynda útgáfu fyrirmæla.

•             Það eru ítrekuð ósannindi frá oddvita sem enn á ný birtast í þessari bókun, að óánægja okkar stafi af úrslitum síðustu kosninga. Fæst okkar voru þar í framboði og frá okkar sjónarhorni snýst málið ekki að neinu leyti um kosningar, heldur þær ásakanir og lygar sem fyrri sveitarstjórn hefur þurft að sitja undir allt frá því að núverandi oddviti var rekinn úr starfi sveitarstjóra í apríl 2021. Við höfum aldrei gert athugasemdir við úrslit eða framkvæmd kosninganna, íbúar kusu sér einfaldlega þá sveitarstjórn sem þeir vildu, úr þeim hópi sem stóð til boða.

•             Það er sömuleiðis dæmalaus og ítrekuð lygi að “undirritaður” (sem birtist þarna allt í einu eins og skrattinn úr sauðaleggnum í bókun Strandabandalagsins sem allur meirihlutinn stendur á bak við) hafi þrisvar sinnum boðið fyrrverandi sveitarstjórn á fund núverandi sveitarstjórnar til að ræða um ágreining og deilur. Fyrrverandi sveitarstjórnarfólk hefur ekki fengið nein slík boð frá sveitarfélaginu eða oddvita. Rétt er að geta þess að nú höfum við óskað eftir nánari upplýsingum frá sveitarfélaginu um þessi dularfullu fundarboð, sem hafa ekki komist til skila.

  • Loks ber að nefna að konurnar tvær í núverandi sveitarstjórn boðuðu fyrrverandi sveitarstjórnarfólk nýlega á sáttafund og öll sem voru á svæðinu það kvöld mættu þar. Í bókun Strandabandalagsins er túlkun á niðurstöðu þess fundar sem við furðum okkur á og könnumst ekki við.

Vinnufriður í sveitarfélaginu

Nú virðist ljóst, af kvörtunum oddvita um skort á vinnufriði, að of stór hluti af vinnutíma hans fer í að finna leiðir til að komast hjá því að svara fyrirspurnum og erindum. Á þessum endalausa flótta undan því að svara skilmerkilega, virðist oddvitinn bera lögfræðing á bakinu og gerir mikið úr því hversu erfitt það sé. Það er undrunarefni að ekki sé hægt að svara spurningum án slíkrar aðstoðar.

Við höfum lausnina. Við vitum hver forsenda sáttar í samfélaginu er. Oddvitinn og meirihluti sveitarstjórnar í Strandabyggð þurfa einfaldlega að svara undanbragðalaust þeim erindum sem borist hafa og þeim spurningum sem lagðar hafa verið fram. Og það þarf engan lögfræðing til aðstoðar, bara að ákveða að segja satt og rétt frá.

Það er heldur ekki eins og við séum að óska eftir lista um lögbrot og mistök meirihlutans. Við viljum þvert á móti fá nákvæmt yfirlit um okkar eigin glæpi, sundurliðað eftir tilvikum og aðild þeirra einstaklinga sem sátu síðasta árið í síðustu sveitarstjórn. Vilja íbúar í Strandabyggð ekki einmitt fá hreinskilin svör og yfirlit um öll þessi lögbrot sem hefur nú verið dylgjað um í meira en tvö ár? Eins og við höfum líka verið að biðja um.

Tengill á bréf okkar til Innviðaráðuneytis 30. ágúst 2022:
https://galdrastrandir.is/wp-content/uploads/2023/11/Erindi-til-innvidaraduneytis-30agust2022.pdf?fbclid=IwAR1Qy-Kdxt83V9-xFGPh1nA37e8lxOzTBMuKE8LluBQLTXUOwS5skcYKE7o

Tengill á álit Innviðaráðuneytis 10. nóvember 2023:
https://galdrastrandir.is/wp-content/uploads/2023/11/alit-strandabyggd-okt-2023-loka.pdf?fbclid=IwAR1Ew2ApoW9dAjSuDXall5b0VrbjOVOPwhuHDWYspedPOsRchpodO3NjHag

Fyrrum fulltrúar í sveitarstjórn Strandabyggðar,

Jón Gísli Jónsson,
Guðfinna Lára Hávarðardóttir,
Ásta Þórisdóttir,
Pétur Matthíasson,
Jón Jónsson

Bolungavík: vatnið í lagi

Vatnsveitan í Bolungavík verður í Hlíðardal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Niðurstaða úr vatnssýni sem Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða tók á s.l. mánudaginn sýnir að vatnið stenst allar kröfur samkvæmt skv. neysluvatnsreglugerð nr 536/2001.

Varúðarráðstöfun um suðu vatns er ekki lengur þörf.

Þetta kemur fram í frétt um málið á vefsíðu kaupstaðarins.

Þar segir að starfsfólk Bolungarvíkurkaupstaðs hafi yfirfarið kerfi vatnsveitunnar á sl. föstudag og eru allar líkur á að vatnið hafi verið í lagi frá þeim tíma.

„Því miður er staðan þannig í Bolungarvík að vatnsveitan nýtir yfirborðvatn til að veita vatni til íbúa. Vatnið er hreinsað í hreinsistöð við Meiri Hlíð fyrir ofan bæinn og geislað með geislatækjum áður en því er veitt inná kerfið. Þetta kerfi er í eðli sýnu viðkvæmt og fyrir kemur að vatnið stenst ekki kröfur, sérstaklega þegar kerfið er undir miklu álagi vegna rigninga, leysingja eða nauðsynlegra viðgerða, t.d. þegar vatnsrör fara í sundur.“

Ný vatnsveita í byggingu

Sveitarfélagið ákvað fyrir þremur árum að hefja undirbúning fyrir nýja vatnsveitu. Sumarið 2019 og 2020 var borað eftir vatni víðsvegar um Bolungarvík með ágætum árangri. Á þeim grundvelli var farið í að hanna nýja vatnsveitu þar sem gengið er út frá forðatönkum til að safna borholuvatni allan sólahringinn sem hægt væri síðan að nota til að veita vatni til bæjarbúa. Jafnframt er gert ráð fyrir nýrri hreinsistöð sem er áföst forðatönkunum. Bæði til þess að hafa tvöfallt öryggi, en jafnframt til að geta brugðist við ef borholuvatnið dugar ekki og nýta þarf yfirborðsvatn til skemmri tíma til að anna mikilli vatnsþörf.

„Framkvæmdir við nýja vatnsveitu hófust sl. haust og ganga framkvæmdir vel. Búist er við að heildarkostnaður við nýja vatnsveitu verði yfir 300m.kr. sem er gríðarleg fjárfesting fyrir sveitarfélagið og stærsta innviðafjárfesting í áratugi.

Stefnt er að því að taka fyrsta áfangi í notkun um mitt næsta ár.

Þegar nýir forðatankar og ný hreinsistöð verður tilbúin má búast við að halda þurfi áfram að bora eftir köldu vatni til að tryggja að hægt verði að uppfylla vatnsþörf til framtíðar með vatni úr borholum og vandamál í vatnsveitu Bolungarvíkur verði þannig úr sögunni.

Þangað til verður Bolungarvíkurkaupstaður í miklu og góðu samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða til að tryggja öryggi neysluvatns í Bolungarvík eins og kostur er.“

Ný rannsókn Rorum: fiskeldi hefur ekki áhrif á fugla

Rannsóknarfyrirtækið Rorum hefur birt niðurstöður rannsókna fiskeldis á fuglalíf í Berufirði á Austfjörðum. Rannsóknin var gerð fyrir fiskeldi Austfjarða og fór fram frá apríl 2021 til mars 2022.

Fuglalíf á Berufirði var kannað í samstarfi Rörum og Náttúrustofu Austurlands (NA) vegna fyrirhugaðs flutnings og stækkunar laxeldissvæða í firðinum. Markmið könnunarinnar var í fyrsta lagi að telja og lýsa útbreiðslu fjögurra áherslu tegunda; flórgoða, himbrima, straumanda og dugganda og í öðru lagi að lýsa fuglalífi á svæðinu, einkum að vetri til.

Niðurstöðurnar fyrir þær fjórar tegundir sem áhersla var lögð á sýna allar svipaðar breytingar í fjölda innan ársins þar sem flestir fuglar fundust að vetri.

Í niðurstöðum rannsóknarskýrslunnar segir:

„Fiskeldi hefur verið starfrækt í Berufirði síðan 2002 og fór vaxandi til 2015 en hefur síðan þá verið nokkuð stöðugt. Áhrif eldis á fugla gætu verið breytingar á stofnstærð þeirra, annað hvort til minnkunar eða aukningar. Ef eldið hefði bein áhrif mætti búast við fjölgun eða fækkun í fuglastofni á tímabilinu 2002-2015, en stöðugum stofni eftir það. Engin þeirra fjögurra tegunda sem áhersla var lögð á sýnir slíkar breytingar.“ og ennfremur:

„Í stærra samhengi sýna niðurstöður fuglatalninganna hvergi aukningu í stofnstærð en benda frekar til
þess að fækkun hafi orðið síðustu ár í þremur tegundum af fjórum sem áhersla var lögð á. Aðeins stofn himbrima virðist nokkuð stór. Ekki verður þó séð að niðurstöðurnar um breytingar á fjölda fugla megi rekja til fiskeldis.“

Lokaorð skýrslunnar eru. „Í ljósi þeirra niðurstaðna sem nú liggja fyrir verður þó að telja ólíklegt á fiskeldi hafi áhrif á dreifingu, himbrima, straumandar og duggandar á Berufirði.“

Skýrsluhöfundar eru

Hálfdán H. Helgason
Halldór W. Stefánsson
Kristján Lilliendahl
Þorleifur Eiríksson

Samgöngur á Vestfjörðum: 1.362 milljónir króna í rekstur á ári

Frá Dynjandisheiði.

Kostnaður Vegagerðar ríkisins af rekstri vega og jarðganga á Vestfjörðum var að meðaltali 750 m.kr. á ári síðustu sex ár. Til viðbótar kemur svo kostnaður af rekstri Breiðafjarðarferjunnar Baldurs sem verður samkvæmt nýgerðum samningi 612 m.kr. á ári. Samanlagt er rekstrarkostnaðurinn 1.362 m.kr. á ári. Þar af er kostnaðurinn við Baldur 45%. Gert er ráð fyrir 305 ferðum milli Stykkishólms og Brjánslækjar og 114 í Flatey árlega.

Athuga ber að tölur fyrir 2023 eiga eftir að hækka þar sem árið er ekki liðið.

Upplýsingar um kostnað eru fengnar frá Vegagerðinni.

Rekstrarkostnaður við jarðgöng m.kr.
Ár201820192020202120222023
Rekstur504848717867
Rekstrarkostnaður við vegi m.kr.
Ár201820192020202120222023
Rekstur634565823637860620

Ísafjarðarbær: tæpur milljarður kr. í leikskóla

Leikskólinn Eyrarskjól. Mynd: Isafjordur.is

Samkvæmt tillögu að fjárhagsáætlun næsta árs fyrir Ísafjarðarbær eru útgjöld vegna leikskóla áætluð 950 m.kr. Tekjur eru áætlaðar 79 m.kr. eða um 8% af útgjöldum.

Rekstur Eyrarskjóls á Ísafirði er áætlaður verða 305 m.kr., Sólborg 285 m.kr. og Tangi 114 m.kr. en báir eru einnig á Ísafirði. Rekstrarkostnaður Grænagarðs á Flateyri verður 70 m.kr., Laufás á Þingeyri 78 m.kr. og Tjarnarbær a Suðureyri 91 m.kr.

Engar tekjur eru færðar á Eyrarskjól, en 28 m.kr. á Sólborg og 19 m.kr. á Tanga. Tekjur á Grænagarði eru áætlaðar verða 4 m.kr. og 11 m.kr. á hvorum hinna tveggja, Laufási og Tjarnarbæ.

Heildarútgjöld A hluta sveitarsjóðs á næsta ári eru áætluð 6.976 m.kr.

Bók um Fornahvamm í Norðurárdal

Fornihvammur er sögufrægur áningarstaður á leiðinni yfir Holtavörðuheiði.

Saga þessa merka staðar að fornu og nýju er hér rakin allt til ársins 1977 þegar byggð lagðist af.

Faðir hennar Gunnar Guðmundsson var lengi staðahaldari í Fornahvammi en í bókinni er m.a. viðtal við hann sem Jökull Jakobsson skáld skrifaði á sínum tíma.

Höfundurinn María Björg Gunnarsdóttir sem ólst sjálf upp í Fornahvammi þekkir af eigin raun sögu þessa merka áfangastaðar á ferðlögum landans um fjallveginn á milli norðurs og suðurs.

Bókina skreyta margar myndir og er m.a. sagt frá dýralífinu á heiðinni en María Björg er mikil áhugakona um sportveiðar og ljósmyndun.

Björgunarfélag Ísafjarðar 25 ára

Björgunarfélag Ísafjarðar (BFÍ) var stofnað árið 1998 þegar Einherjar, Hjálparsveit skáta Ísafirði og Björgunarsveitin Skutull á Ísafirði var sameinað.

Fljótlega var fjárfest í Guðmundarbúð og hafa þónokkrir gallharðir félagar lagt gífurlega vinnu í að innrétta húsnæðið eins og það er í dag. 

Í tilefni afmælisins er boðið í afmæliskaffi í Guðmundarbúð á laugardag frá kl. 14:00 – 17:00 og gestum gefst tækifæri til að skoða húsnæðið, tæki og búnað og kynnast starfi félagsins.

Framkvæmdir við Súðavíkurhöfn

Undanfarna mánuði hefur Háafell ehf. fengið fóðurskip að bryggju í Súðavíkurhöfn.

Skipin hafa verið á 2-3 vikna fresti og skipað upp fóðri í fóðurpramma félagsins í Skötufirði og Kofradýpi, en hefur svo lagst að bryggju með fóður sem geymt er í fóðurgeymslu við Njarðarbraut. 

Súðavíkurhreppur sótti um í fiskeldissjóð fyrir verkefni sem varðar lokun á norðurtanga Súðavíkurhafnar. Gengur verkefnið út á það að fá ISPS vottun fyrir höfnina (öryggissvæði fyrir sjófarendur) og fékkst styrkur til verkefnisins. 

Það er fyrirtækið Græjað og gert efh. sem hefur séð um framkvæmdahliðina og voru þeir nú á dögunum að koma fyrir stöplum til uppsetningar á hliðgrind og girðingu sem unnt er að nota til þess að loka af norðurgarðinn.

Unnið hefur verið að því undanfarið að fá inn tekjur fyrir Súðavíkurhöfn þar sem lítil umsvif hafa verið síðastliðin ár.

Að óbreyttu verður því talsvert meira um að vera við höfnina, einkum í tengslum við fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. 

Nýjustu fréttir