Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 262

Íslandsmet í samsöng og 1. desember

Á morgun þann 1.desember fagna Íslendingar fullveldi sínu sem þeir hlutu árið 1918.

Einnig er svokallaður opinn dagur í Grunnskólanum á Ísafirði en þá er foreldrum og öðrum velunnurum sérstaklega boðið í heimsókn til að kíkja á nemendur í leik og starfi.

Þennan dag er einnig Dagur íslenskrar tónlistar með hátíðardagskrá í Hörpu í Reykjavík.

Gerð verður atlaga að Íslandsmeti í samsöng, þar sem nemendur leik- og grunnskóla um allt land ætla að syngja saman eitt lag á sama tíma.

Allir nemendur og starfsmenn G.Í. ætla að taka þátt í þeim viðburði og mæta út á Silfurtorg og taka lagið kl. 10:05. Gestir eru að sjálfsögðu velkomnir.

Lagið sem sungið verður er ,,Það vantar spýtur“ eftir Ólaf Hauk Símonarson, sem Olga Guðrún Árnadóttir flutti á sínum tíma, en hún fagnaði 70 ára afmæli sínu í ár.

Celebs frá Suðureyri | Bæjarins Besta

Undirleikur verður í gegnum netið, en systkinin í hljómsveitinni Celebs frá Suðureyri sjá um hann af sinni alkunnu snilld.

Ísafjörður: Ístækni ehf kaupir af Skaganum 3X

Ístækni ehf hefur gert samkomulag um kaup á tækjum og öðrum framleiðslubúnaði Skagans 3X á Ísafirði. Ístækni mun hefja starfsemi þann 1. desember n.k. að Sindragötu 7 á Ísafirði.

Um næstu áramót mun Vélsmiðjan Þristur ehf á Ísafirði sameinast Ístækni. Sameinað fyrirtæki mun sérhæfa sig í hönnun og framleiðslu á búnaði og tækjum fyrir sjávarútveg, laxeldi og annan matvælaiðnað. Auk nýsmíði mun fyrirtækið bjóða upp á viðgerðar- og viðhaldsþjónustu.

Í byrjun munu starfsmenn Ístækni verða 12, en mun fjölga í rúmlega 20 í byrjun næsta árs. Framkvæmdastjóri Ístækni ehf er Jóhann Bæring Gunnarsson véliðnfræðingur.

Listasafn Ísafjarðar: sýning á verkum barna og unglinga

01.12 – 30.12 2023.

Listasafn Ísafjarðar býður gesti velkomna á opnun sýningar á verkum barna og unglinga sem tóku þátt á listasmiðjunum SAMANSAFN. Listasmiðjurnar voru í tenglsum við haustsýningu safnsins DREGIN LÍNA.

Opnun verður 1. desember nk. kl.16.00 á gangi Safnahúsins við Eyrartún. Þátttakendur eru hvattir til að koma á opnunina til að ræða verkin sín, boðið verður upp á léttar veitingar.

Aðgangur ókeypis

Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði og Orkubúi Vestfjarða

Listasafn Ísafjarðar hlýtur einnig stuðning Ísafjarðarbæjar.

Ísafjörður: samið um björgunarskipið Gísla Jóns sem varalóðsbát

Ísafjarðarhöfn. Þangað hjólar skíðafólkið.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að gerður verði samningur til þriggja ára um notkun á björgunarskipinu Gísla Jóns sem lóðsbát til vara fyrir Sturlu Halldórsson. Hilmar Lyngmó hafnarstjóri segir að Sturla Halldórsson sé farinn að eldast og farinn að bila og í sumar þurfti að fá Gísla Jóns til afleysinga í 20 daga. Hann segir það hafa gefist vel, björgunarbátasjóður SVFÍ lagði til bátinn og skipstjóra en höfnin aðra í áhöfn.

Miðað er við að greiða björgunarbátasjóðnum 2,5 m.kr. á ári næstu þrjú ár fyrir afnotin.

Þá samþykkti hafnarstjórn á fundi sínum í vikunni að fella niður hafnargjöld af nýjum björgunarbát björgunarsveitarinnar Sæbjörgu, sem ber nafnið Stella. Bókaði hafnarstjórnin að hún fagnaði komu bátsins til Flateyrar, fyrir aukið öryggi íbúa og sjófarenda á svæðinu.

Hilmar Lyngmó sagðist telja að fjárhæðin væri lág, sem felld verður niður, kannski 10.000 kr. á mánuði.

Bubbi: eitt gildir fyrir hann og annað fyrir HSÍ

Í síðustu viku var tilkynnt um styrktarsamning Arnarlax við Handknattleikssamband Íslands, HSÍ. Eins og hendi væri veifað brast á mikill stormur á samfélagsmiðlum og einna fyrstur á vettvang með háværa gagnrýni var tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens. Hann skrifaði á visir.is grein og sagði samninginn reginhneyksli. HSÍ ætti ekki að þiggja fé frá Arnarlax. Sjókvíaeldi væri „hörmulegur og mengandi iðnaður sem mun ganga af íslenskum náttúrulegum laxastofni dauðum“ og fyrirtækið væri með peningunum að hvítþvo ímynd sína. Fleira segir Bubbi í greininni en látum þetta duga að sinni.

HSÍ er samband fólks sem vill vinna að framgangi íþróttarinnar, einkum í sjálfboðavinnu, og leggur sig fram um að gera íþróttafólki kleift að keppa fyrir hönd þjóðarinnar í ýmsum aldursflokkum karla og kvenna. Núna í dag eru stúlkurnar að hefja leik á heimsmeistaramóti kvenna og eru eðlilega spenntar fyrir þessu einstaka tækifæri.

Fjáröflun er lífsnauðsynleg til þes að HSÍ geti sinnt þessu og þrátt fyrir marga styrktaraðila er kannski sambandið samt rekið af nokkrum vanefnum og gæti gert betur. Stuðningur Arnarlax hjálpar örugglega til og verður til góðs.

En Bubbi er ekki sammála þessu. Hann vill að landsliðin verði af þessum tekjum af því að hann er á móti sjókvíaeldi. Sjálfsagt mun hann síðar gera frekari grein fyrir því hvaða önnur fyrirtæki í landinu á að útiloka frá því að styðja HSÍ eða aðra íþróttastarfsemi. Það verður fróðlegt að sjá þann lista af fyrirtækjum og rökstuðninginn fyrir því að þiggja ekki styrki frá þeim.

En Bubbi hefur sjálfur verið í þessari klemmu. Hann hefur um langt árabil hamast gegn sjókvíaeldinu og þar með talið fyrirtækinu Arnarlax. En fyrir sex árum, í júní 2017, bar svo við að Bubbi samdi við Arnarlax og spilaði á Bíldudal á hátíð gegn greiðslu frá Arnarlax. Frá þessu var auðvitað sagt á bb.is í frétt með fyrirsögninni: Bubbi og Arnarlax slíðra sverðin. Á facebook síðu hátíðarinnar lét Bubbi hafa eftir sér að skárra væri það nú ef menn gæti ekki tekið tónlistinni hans fagnandi þótt þeir væri ekki sammála skoðunum hans.

en Bubbi tekur ekki fagnandi skoðunum annarra

Þarna kemur fram alvarlegur tvískinningur hjá tónlistarmanninum. Honum finnst það allt í lagi að hann sjálfur fái greitt frá Arnarlax en reginhneyksli að HSÍ fái greitt frá Arnarlax. Þegar hann fær greitt er það fáránlegt bull að gagnrýna það en þegar HSÍ fær greitt er formaður HSÍ sakaður um dómgreindarbrest og ætti að segja af sér. Það er ekki svo að formaður HSÍ sé að fá peningana í eigin vasa, þeir fara í að kosta starfið, en það á við um Bubba, peningarnir fór beint í hans vasa.

Karlalandsliðið fær þá einkunn hjá tónlistarmanninum að þeir séu nú ekki lengur strákarnir okkar, þ.e. þjóðarinnar heldur strákarnir þeirra, þ.e. Arnarlax. Bubbi afneitar landsliðinu af þeirri einu ástæðu að hann er á móti Arnarlax. En með þessu bendir hann á sjálfan sig fyrir sex árum og segir að hann hafi verið strákurinn þeirra sem honum fannst á þeim tíma vera ekkert ankannalegt.

Staðreyndavillur og innihaldslaus stóryrði

Í grein Bubba er margt sagt sem er einfaldlega rangt. Að sjókvíaeldi muni ganga af laxastofnum landsins dauðum er enginn fótur fyrir. Hvergi hefur það gerst annars staðar í veröldinni að eldislax hafi útrýmt náttúrulegum stofni. Erfðablöndun hér á landi er óveruleg, aðeins eitt tilvik hefur orðið á rúmum áratug þar sem kynþroska eldislax hefur gengið upp í ár í einhverjum mæli og það var núna í haust. Það eru einnig staðlausir stafir að eldið leggi lífríkið í fjörðum landsins í rúst. Öðru nær það er vel fylgst með því og þess gætt að lífríkið skaðist ekki , enda er það hagur sjókvíaeldisins að unnt verði nýta kvíasvæðin að nýju að lokinni eldislotu.

Bubbi bendir á að Arnarlax hafi verið sektað um 120 m.kr. fyrir aðgæsluleysi þar sem það geti ekki gert grein fyrir afdrifum um 80 þúsund laxa úr einni kví á tímabilinu okt 2020 til okt 2022. Svo merkilegt sem það er þá hefur ekkert ennþá orðið vart við þá laxa í laxveiðiám landsins. Allt bendir því til þess að laxarnir hafi drepist í sjó. Jafnvel þótt einhverjir komi til með að ganga upp í ár síðar er ljóst að þeir verða fáir og mun ekki valda neinum skaða. Svona mikil sleppning er einsdæmi, sem betur fer og virðist hafa farið betur en á gæti hafa horfst. Skaðinn er fyrst og fremst hjá fyrirtækinu sem tapar um 440 tonnum af fullvöxnum eldislaxi sé miðað við 5,5 kg fisk í sláturstærð. Verðmæti þess er um 440 milljónir króna. Hafa ber í huga að Arnarlax hefur áfrýjað sekt Mast til dómstóla sem munu útkljá þetta mál í fyllingu tímans.

hver skrifaði greinina?

Athygli vekur að daginn áður en Bubbi skrifaði sína grein á visir.is birtist færsla á facebook frá Guðmundi Þ. Guðmundssyni, fyrrverandi landsliðsþjálfara karlalandsliðsins í handknattleik. Þar kvað við sama tón og í grein Bubba. Þegar þessi skrif eru borin saman vekur athygli að um er að ræða að stofni til sama textann með sömu skilaboðunum.

Báðir skrifa: „Þessi samningur milli HSÍ og Arnarlax er reginhneyksli og sýnir stórkostlegan dómgreindarskort af hálfu formanns HSÍ, Guðmundar B. Ólafssonar.“

Og þetta er líka í báðum textunum: „Þetta sjókvíaeldi er hörmulegur og mengandi iðnaður sem mun ganga af íslenskum náttúrulegum laxastofni dauðum.“

Bubbi skrifar: „Að þiggja peninga frá þessu fyrirtæki sem vill nýta sér íslenska landsliðið til að hvítþvo dapurlega ímynd sína er ömurlegt“ og landsliðsþjálfarinn fyrrverandi skrifar: „Að þiggja peninga frá þessu fyrirtæki sem vill nýta sér íslenska landsliðið til að lappa upp á dapurlega ímynd sína er óskiljanlegt“

Bubbi skrifar: „Arnarlax var sektað ekki alls fyrir löngu af Matvælastofnun að upphæð 120 miljón króna fyrir að hafa brotið gegn skyldu um að tilkynna um strok á laxi úr kvíum sínum.“ Og Guðmundur : „Arnarlax var meðal annars fyrir nokkru síðan sektað af Matvælastofnun að upphæð 120 milljónir króna fyrir að hafa brotið gegn skyldu um að tilkynna um strok á fiski“.

Spurningin sem vaknar er hver skrifaði þennan texta. Líklegt er að hvorki Bubbi né Guðmundur hafi samið textann heldur hafi þeir fengið hann sendan og þeir samþykkt að skrifa sig fyrir honum. Með öðrum orðum að einhver áróðursmeistari andstæðinga sjókvíaeldisins hafi lagt til efnið og skipulagt birtinguna. Sé það rétt til getið hafa þeir báðir vísvitandi samþykkt að nota nafn sitt í áróðursstríðinu gegn laxeldinu á Vestfjörðum.

Áróðursstríðið hefur geisað af miklum krafti allt þetta ár eins og sést hefur á fjölmiðlum landsins og stormurinn nú var bersýnilega til þess að koma í veg fyrir að stuðningur Arnarlax við handknattleiksíþróttina fengi jákvæða umfjöllun. Það er öllu til kostað til þess að koma laxeldinu á kné. Bubbi og Guðmundi Þ. eiga það báðir sameiginlegt að gefa ekkert fyrir hagsmuni Vestfirðinga og krefjast þess að þeir færi fórnir og fái ekkert í staðinn.

Höfum það i huga.

-k

Ísafjarðarbær: 15% hækkun sorphirðu

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í byrjun október nýja gjaldskrá fyrir sorphirðu sem gilda á á næsta ári. Samþykktin hefur ekki enn verið birt. Í minnisblaði fjármálastjóra segir að 50 % af kostnaði við sorphirðu sé rukkaður í gegnum fastan kostnað „rekstur grenndar- og söfnunarstöðva“. Hin 50% eru rukkuð með ílátagjöldum. Sorphirða skuli rekin á núlli.

Samþykkt var 15% hækkun á gjaldskrá sorphirðu til að mæta auknum kostnaði vegna vísitöluhækkana og viðbótar útgjalda. Gjöld á viðmiðunareign, íbúðarhús með tvær tvískiptar tunnur er 68.750 kr. fyrir árið 2023 og hækkar í 79.000 kr. fyrir árið 2024. Hækkunin á íbúa viðmiðunareignar nemur 10.250 kr.

Í minnisblaðinu segir að innheimta eigi skrefagjald frá 1.10.2023 út frá staðsetningum íláta meira en 15 metra frá sorphirðubíl. Engin úttekt hafi verið gerð á því um hvaða staðföng er að ræða og því fyrirséð að ekki verði hægt að leggja gjaldið á, á þessu ári.

Skrefagjaldið miðar við 50% álag per tunnu og væri þá á árinu 2024 m.v. 20% verðhækkun, álag upp á 22.350 kr. Með þessu gjaldi væri verið að hvetja íbúa til að færa tunnur nær sorphirðubílnum til að flýta fyrir losun og auka skilvikni sem leiðir til lækkunar á kostnaði segir í minnisblaðinu.

Nú er til meðferðar í bæjarráði og umhverfis- og framkvæmdanefnd endurskoðun á gjaldskránni og hefur nefndin samþykkt breytingarnar og vísað þeim til bæjarráðs. Meðal breytinga er að alls staðar verða 10 metra viðmið vegna losunar sorps frá lóðamörkum, í stað 15 metra og að gjaldskrá verði tvöfölduð – „þ.e. annars vegar gjald miðað við að tunnur séu staðsettar á söfnunartíma hirðubíls í meira eða minna en 10 metra frá lóðamörkum.“ eins og segir í minnisblaði sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs.

Bæjarráðið leggur til við bæjarstjórn að samþykkja breytingarnar þó þannig að  ekki verði innheimt skv. 10 metra reglu fyrr en 1. september 2024, þannig að íbúum gefist kostur á að nýta vor og sumar 2024 til að bæta aðstöðu fyrir sorpílát.

Ekki kemur fram hver heildarhækkunin verður á sorphirðugjöldum að teknu tilliti til framlagðra breytinga en bæjarráð bókaði að ekki verði um hækkun að ræða.

Austurríkismaður sem þjónustar Vestfirðinga

Markús Klinger sjóntækjafræðingur er Austurríkismaður sem kom fyrst til Íslands árið 1988 og fluttist alfarið til landsins árið 1998. Hann hefur rekið gleraugnaverslunina SJÓN frá árinu1999, fyrst lengi á Laugavegi, en svo opnaði í Glæsibæ í stærra og betra húsnæði.

Markús segist fara reglulega út um allt land með sjónmælingartæki svo að fólk þurfi ekki að koma til Reykjavíkur til að fá þessa sjálfsögðu þjónustu. „Það er alltaf tekið ótrúlega vel á móti okkur og við gerum okkar besta til að þjónusta alla sem leita til okkar eins vel og hægt er.“

Aðspurður hvort hann muni þjónusta Ísafjörð áfram segir Markús: „við stefnum að því að koma reglulega á Ísafjörð enda alltaf vel á móti okkur. Þetta er auðvitað mikilvæg þjónusta sem við viljum veita og við komum vonandi bara oftar.“  

Næsta heimsókn SJÓN verður í næstu viku. „Við verðum í Edinborgarhúsinu þriðjudaginn 5. desember frá klukkan 10:00-18:00 og miðvikudaginn 6. desember frá 10:00 – 18:00. Fólk þarf að panta tíma í sjónmælingu svo við getum veitt öllum sem besta þjónustu. Það er best að hringja í síma 511-6699 og panta tímanlega til að vera örugg með að fá tíma.“

Að lokum : „Við hjá SJÓN viljum þakka öllum Ísfirðingum fyrir frábærar móttökur þegar við komum í heimsókn og auðvitað eru allir alltaf velkomnir til okkar í Glæsibæ hvenær sem er, en svo má alltaf hringja og við leysum þá málin í sameiningu – enda er góð þjónusta það sem við leggjum hvað mesta áherslu á í okkar starfi. Við verðum auðvitað með allskonar frábær tilboð eins og 35% afslátt fyrir alla yfir 60 ára og öryrkja og allt námsfólk fær 30% afslátt hjá okkur. Það er því bara um að gera að kíkja á okkur.“  

  

Opnað fyrir umsóknir í Flateyrarsjóð

Flateyri.

Nú er komið að úthlutun úr Þróunarsjóði Flateyrar í fimmta og síðasta sinn.

Sjóðurinn styrkir nýsköpunar- og samfélagsverkefni sem efla atvinnu- og mannlíf á Flateyri og Önundarfirði og er gert ráð fyrir 20 milljónum til úthlutunar.

Mat verkefna tekur mið af niðurstöðum íbúaþings á Flateyri og markmiðum Sóknaráætlunar Vestfjarða. Þær umsóknir sem berast í sjóðinn verða metnar af verkefnisstjórn byggðarlagsins sem skipuð er fulltrúum frá Ísafjarðarbæ, Vestfjarðastofu og Hverfisráði Önundarfjarðar.

Auglýst er eftir umsóknum í Þróunarsjóðinn fyrir styrki til nýsköpunar- og samfélagsverkefna á Flateyri og Önundarfirði, sem verkefnisstjórn úthlutar.

Efla á samfélagið í Dalabyggð

Starfshópinn um Dalabyggð skipa þau Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri Dalabyggðar, Halla Steinólfsdóttir, bóndi og Sigurður Rúnar Friðjónsson formaður hópsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem er falið það hlutverk að vinna tillögur til ráðherra um framgang þeirra mála í Dalabyggð, sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins, með það að markmiði að efla samfélagið.

Eiga tillögur starfshópsins m.a. að snúa að jarðhitaleit, aukinni orkuöflun og flutningskerfi raforku. Jafnframt verði hugað að stofnun þjóðgarðs á svæðinu, minjavernd, eflingu hringrásarhagkerfisins og grænni atvinnuuppbyggingu.

Starfshópinn skipa: Sigurður Rúnar Friðjónsson, formaður, Halla Steinólfsdóttir, bóndi, og Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri Dalabyggðar.

Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu mun starfa með hópnum.

Starfshópurinn á að skila tillögu til ráðherra fyrir 15. mars 2024.

Sæðingar niðurgreiddar til að innleiða verndandi arfgerðir gegn riðu

Samkvæmt tillögum sérfræðingahóps sem matvælaráðherra skipaði munu sæðingar árið 2023 á vegum sauðfjársæðingastöðvanna á Suðurlandi og Vesturlandi verða niðurgreiddar ef sætt er með hrútum sem bera verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir gegn riðuveiki skv. útgefinni hrútaskrá 2023-24.

Þeir bændur sem skrá sæðingar í Fjárvís ekki síðar en 8. janúar 2024 munu þannig fá styrk í samræmi við fjölda sæðinga á búin með hrútum sem bera verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir gegn riðuveiki.

Styrkurinn er föst fjárhæð pr. sæðingu og er kr. 1.030 ef um er að ræða hrúta sem bera verndandi arfgerð og kr. 515 pr. sæðingu ef um er að ræða hrúta sem bera mögulega verndandi arfgerði. Sami styrkur er greiddur hvort sem hrúturinn er arfhreinn eða arfblendinn.

Nýjustu fréttir