Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 261

Vofandi…Drjúpandi…Hlustandi…

Laugardaginn 2. desember kl. 16 verður opnuð sýning á verkum Diana Chester og Gary Markle í Úthverfu á Ísafirði.

Sýningin ber heitið Vofandi…Drjúpandi…Hlustandi… og stendur til sunnudagsins 24. desember. Listafólkið sem dvelur um þessar mundir í gestavinnustofum ArtsIceland verður viðstatt opnun sýningarinnar.

Listamennirnir Diana Chester og Gary Markle snúa nú aftur til Íslands til að vinna saman að innsetningu sem byggir á og útvíkkar listrannsóknir þeirra sem hófust á mánaðarlangri listamannadvöl hjá ArtsIceland á Ísafirði sumarið 2022.

Diana Chester er bandarískur hljóðlistamaður og kennari með aðsetur í Ástralíu; Gary Markle er kanadískur listamaður og kennari sem býr í Eistlandi og vinnur á sviði ,,þróaðrar“ tísku (expanded fashion).

Sameiginlegir snertifletir vinnu þeirra hafa þróast í framhaldi af því að þau dvöldu samtímis við rannsóknir á Vestfjörðum sumarið 2022. Sérstaklega reyndist strandsvæðið, þar sem land og sjór mætast, vera frjósamt rými ímyndunarafls sem snerti þau bæði djúpt. Upphaflegar rannsóknir frá veru þeirra á Íslandi og frekari hugleiðingar sem byggja á reynslunni sem þau urðu fyrir, hafa nú skilað þessu samstarfsverkefni í Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space.

Í innsetningunni eru flóknar landslagsupptökur geymdar í grófum handprjónuðum strúktúr sem búinn er til úr garni úr iðnaðarplasti. Þetta framkallar e.k. neðanjarðar-fjöruborð sem blandast saman við frumstætt gufubaðslegt umhverfi sem býður gesti velkomna til að taka þátt, hlusta, finna og dvelja innan þess. Rýmið er til að ígrunda tengsl milli landamæra, takmarkana, heima sem bæði er hægt og ekki hægt að sjá og heyra.

Edinborgarhúsið: hátíðartónleikar á morgun, laugardag

Söngvarinn Valdimar Guðmundsson syngur hugljúf jólalög í nýjum útsetningum með hljómsveit sinni, LÓN í Edinborgarhúsinu laugardaginn 2. desember. Sérstakur gestur er söngkonan Rakel Sigurðardóttir.

Jólaplatan „5 mínutur í jól“ kom út í desember í fyrra og vann sig heldur betur í hjörtu hlustenda. Nú gefst fólki tækifæri til að heyra plötuna flutta á svið í Edinborgarhúsinu.

Húsið opnar klukkan 20:00 og tónleikarnir hefjast klukkan 20:30.

Tryggið ykkur miða hér!

Ísafjarðarbær: varar við afnámi tollfrelsis minni skemmtiferðaskipa

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar geldur varhug við því og hefur verulegar áhyggjur af afleiðingum þess að afnema nú tollfrelsi til handa skemmtiferðaskipum sem skráð eru erlendis en eru notuð í siglingum innan íslenska tollsvæðisins í allt að fjóra mánuði á hverju tólf mánaða tímabili. Einkum er um að ræða minni skemmtiferðaskip sem taka frá 13 upp í 500 farþega.

Umsögn Ísafjarðarbæjar var send í gær til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem hefur frumvarp fjármálaráðherra til umfjöllunar og Bæjarins besta hefur fengið afrit af umsögninni.

Bæjarráðið segir í umsögninni um þetta atriði: „Það vekur undrun að þessi grein skuli birtast í frumvarpinu þar sem ekki var minnst á þessa breytingu í áformum um lagasetningu sem kynnt voru í lok september. Þannig má leiða líkum að því að áhrif af slíkri lagasetningu séu ekki nægjanlega vel grunduð.

Mikil hætta er á að skemmtiferðaskip hætti svokölluðum hringsiglingum við Ísland ef þetta verður að veruleika, sem gætti leitt til þess að viðkomuhöfnum skipa fækkar. Þetta gæti fyrst og fremst haft áhrif á leiðangursskip sem hafa haft viðkomu í minni höfnum landsins. Þessu til stuðnings er vísað til umsagnar frá AECO, samtökum minni leiðangursskipa á norðurslóðum um sama mál.“

Þá segir að slíkar breytingar ætti ekki að gera nema að undangenginni skoðun á efnahag og samfélagi. Er rakið í umsögninni hverjar tekjur hafna sveitarfélagsins eru sem og ferðaþjónustuaðila:

„Tekjur hafna Ísafjarðarbæjar af móttöku skemmtiferðaskipa eru umtalsverðar og eru tekjurnar í ár t.a.m. 450 m.kr., og skipta verulegu máli. Farþegar skemmtiferðaskipa skipta einnig miklu máli fyrir samfélag og ferðaþjónustuaðila á Vestfjörðum. Könnun sem gerð var árið 2018 um eyðslu ferðamanna sem komu til Ísafjarðarhafnar með skemmtiferðaskipum leiddi í ljós að hver farþegi eyddi að meðaltali 16 þ.kr. í ferðir og rúmum 11 þ.kr. í aðra neyslu í landi. Eyðsla áhafnarmeðlima var tæp 9. þ.kr. Ljóst er að um umtalsverðar fjárhæðir er að ræða, og þær þarf að taka inn í reikninginn þegar svona umfangsmikil breyting er gerð sem getur breytt ferðatilhögun skemmtiferðaskipa og farþega þeirra.“

Ísafjarðarbær víkur í umsögn sinni einnig að annarri áformaðri lagabreytingu sem er að setja gistináttaskatt á skemmtiferðaskipin. Er þeirri breytingu ekki andmælt en Ísafjarðarbær leggur áherslu á að gistináttaskatturinn renni til sveitarfélaga eins og boðað er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Með þeirri ráðstöfun væri hægt að byggja upp sterkari innviði á ferðamannastöðum.  

Sjóða skal neysluvatni á Þingeyri 

Við könnun Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða á neysluvatni á Þingeyri sem framkvæmd var þann 28. nóvember fundust saurgerlar (E.coli) í vatninu. Sem varúðarráðstöfun er fólki ráðlagt að sjóða drykkjarvatnið.

Sýnataka var endurtekin þann 30. nóvember og var niðurstaðan sú að vatnið stenst ekki kröfur samkvæmt neysluvatnsreglugerð.

Þegar heilbrigðiseftirlitið tekur sýni af neysluvatni er það skoðað með tilliti til svonefndra vísibaktería.

Þannig er leitað að saurbakteríum, kólígerlum og saurkólígerlum en þetta eru allt bakteríur sem hafa uppruna sinn í þörmum dýra með heitt blóð. Tilvist þeirra segir því til um ferska eða nýlega saurmengun.

Ef örverur greinast í neysluvatni, umfram viðmið um neysluvatn, skulu viðbrögð taka mið af 14. gr. reglugerðarinnar.

Grípa skal til nauðsynlegra aðgerða til úrbóta til að endurheimta vatnsgæði (ábyrgð vatnsveitna ef örsök örverumengunar er í dreifikerfi eða vatnsbóli en húseigenda ef örsökin er í lögnum húss).

Virkja skal viðbragðsáætlun um auknar sýnatökur og fjölgun sýnatökustaða, á vatnstökustað og í dreifikerfinu, í þeim tilgangi að greina orsök mengunar og síðar í þeim tilgangi að staðfesta að dreifikerfið sé orðið hreint.

Mjósund: Olíudreifing skilar lóðum og meðhöndlar mengaðan jarðveg

Í síðustu viku fór fram sýnataka við Mjósund á Ísafirði til að athuga niðurbrot olíumengunar á fyrrum olíubirgðastöð Olíudreifingar. Grafin var ein hola og fljótlega fannst megn bensínlykt og reyndist ekki þörf á frekari sýnatöku í minnisblaði verkefnisstjóra á umhverfis- og eignasviði.


Þar kemur fram að Olíudreifing muni leggja til að lóðunum verði skilað til Ísafjarðarbæjar með þeirri kvöð að við uppgröft vegna mögulegra bygginga á reitunum taki Olíudreifing mengaðan jarðveg til meðhöndlunar á Mávagarði líkt og getið er um Áætlun um meðhöndlun jarðvegs frá 2012.
Vegna væntra húsbygginga á svæðinu leggur Olíudreifing til að meðfram undir botnplötu og meðfram sökklum verði sett öndunarrör til að hafa möguleika á útsogi, reynist þess þörf.
Kostnaður við lagnir er sáralítill og aðferðin vel þekkt og skilar árangri að sögn starfsmanna Olíudreifingar.

Í samkomulagi Ísafjarðarbæjar og Olíudreifingar frá 2012 er þess getið að Olíudreifing skili lóðunum svo þær verði hæfar sem iðnaðarlóðir, en áformað er að skipuleggja svæðið undir íbúðabyggð. Gerðar eru meiri kröfur vegna mengunar jarðvegs á íbúðarsvæðum.
Næsta skref er að Olíudreifing skilar inn aðgerðaráætlun til Ísafjarðarbæjar.

Vísindaportið: Anna Lind Ragnarsdóttir – barátta við krabbamein

Í Vísindaporti á morgun 1. desember kl. 12:10 mun Anna Lind Ragnarsdóttir Skólastjóri Grunnskólans í Súðavík halda erindi í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða um hvernig hún tókst á við illkynja krabbamein og hóf að ganga á fjöll.

Anna Lind Ragnarsdóttir er 59 ára Skólastjóri Grunnskólans í Súðavík, fædd og alin upp í Súðavík. Æskan hennar var yndisleg, mikið frelsi til þess að nota ímyndunaraflið til leiks og skemmtunar.

Eftir grunnskóla og eitt ár í framhaldsskóla, hætti hún námi og fór að vinna. Ferðaðist um heiminn og ákvað að koma heim og settist að í Súðavík.

Fór að kenna 1990 og tók við skólastjórastöðu grunnskólans 1998. Súðavíkurskóli var sameinaður í einn skóla með leik- , grunn- og tónlistarskóla með einum stjórnanda 2009 og tók hún við þeirri stöðu og er enn að.

Það er oftar en ekki að maður horfir yfir líf sitt þegar eitthvað bjátar á hjá manni. Anna Lind man eftir þegar snjóflóðið í Súðavík féll 16. janúar 1995 þá var hún þrítug og varð 31 árs tveimur dögum síðar eða 18.janúar það kvöld fór þá einmitt aðeins yfir líf sitt.

Árið 2009 fer hún aftur yfir stöðuna þar sem hún greinist með illkynja krabbamein í brjósti.

Anna Lind var ótrúlega heppin því allt gekk upp hjá henni, en að sama skapi verður maður viðkvæmur og meyr því hún hefur horft á eftir svo mörgum sem töpuðu sinni baráttu við krabbamein.

Þetta var vakning hvað varðar lífið. Hún ákvað að hún skyldi reyna að gera allt sem í hennar valdi stæði til að verða betri manneskja, ekki bara fyrir sig og sín heldur líka fyrir samfélagið og aðra.

.

Anna Lind las mikið um sjúkdóminn og hvað væri ráðlegt að gera í framhaldinu og eitt af því var hreyfing.

Hún tók þetta allt inn og byrjaði að fara í fjallgöngur og það hefur að hennar mati breytt öllu hennar lífi til batnaðar.

Hlekkur á erindið:

https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Ísafjarðarbær: 36.200 kr fast árgjald fyrir sorphirðu

Sorpgjald heimils fyrir rekstur grenndar- og söfnunarstöðva og annan fastan kostnað verður frá áramótum 36.200 kr á hvert heimili samkvæmt gjaldskrá sem tekur þá gildi. Fyrir sumarhús og hús með takmarkaðri íveru verður árgjaldið helmingur þess eða 18.100 kr.

Breytilegu gjöldin verða eins og sjá má á gjaldskránni. Aukagjald verður innheimt frá 1. september 2024 ef ílát eru í meira en 10 metra fjarlægð frá hirðubíl.

Skemmtiferðaskip: afnám tollfrelsis getur bitnað á Vestfjörðum

Í frumvarpi fjármálaráðherra, sem er til umfjöllunar á Alþingi er m.a. lagt til að afnema tollfrelsi til handa skemmtiferðaskipum sem skráð eru erlendis en eru notuð í siglingum innan íslenska tollsvæðisins í allt að fjóra mánuði á hverju tólf mánaða tímabili. Tillagan er rökstudd með því að vísa til samkeppnis- og jafnræðissjónarmiða milli aðila,“ til að mynda gististaða og veitingahúsa, auk þess sem hér kann að vera um að ræða fjárhagslega hagsmuni fyrir ríkissjóð.“ Rekstraraðilum skipanna beri því eftir lagabreytinguna að greiða aðflutningsgjöld af vistum og öðrum nauðsynjum sem koma með skipunum til landsins. Enn fremur beri þeim að greiða aðflutningsgjöld af þeim vörum sem keypt eru fyrir skipin til nota fyrir farþega og áhöfn á meðan dvalið er hér við land.

Fram kemur í þingmálinu að alls ellefu skemmtiferðaskip, sem skráð eru erlendis, hafi stundað siglingar hringinn í kringum Ísland síðastliðið sumar 2023 án þess að eiga viðkomu í erlendri höfn í hverri ferð. Ferðirnar um landið voru tæplega 60 á tímabilinu og var heildarfjöldi gesta um 16.600.

Frumvarpið snertir því lítinn hluta þeirra erlendu ferðamanna sem hingað koma og ferðast með skemmtiferðaskipum en áhrifin kunna engu að síður verða umtalsverð á Vestfjörðum. AECO eru alþjóðleg samtök skipafélaga leiðangursskipa á norðurslóðum og telja þau að farþegar með skipunum hafi verið um 29.900 og 665 komur skipanna hafi verið til 28 hafna og 8 landeiganda. Einkum eru þetta minni skip sem taka frá 13 upp í 500 farþega og hafa þau komið við á nokkrum stöðum á Vestfjörðum.

AECO telur að afnám tollfrelsisins um næstu áramót hafi alvarlegar afleiðingar. Ferðirnar frá 2024 til 2026 hafi þegar verið seldar og því ekki mögulegt að bæta aukakostnaði inn í miðaverð. Skipafélögin þurfi því að bregðast við og hafnarkoma í erlendri höfn, sem hluti af Íslandsáætlun til að tryggja tollfrelsi, gæti áfram verið möguleiki. Það myndi stytta hverja ferð á Íslandi um 2 -3 daga og því yrði væntanlega mætt með því hætta að sigla til Vestfjarða eða Austurlands.

Viking Cruises – 83 m.kr. í hafnargjöld á Ísafirði

Fyrirtækið Viking Cruises á nokkur skip í þessum hópi skipa og segir það í umsögn sinni til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að hafi skip þess siglt með nærri 25 þúsund farþega um landið í sumar og nemi viðskipti fyrirtækisins um 3,5 milljarði króna við innlenda aðila og eru þá ótalin viðskipti farþega í landi. Meðal annars þá greiddu þau um 83 milljónum króna í hafnargjöld á Ísafirði. Segir í umsögninni að ef lagabreytingin verði staðfest verði fyrirtækið að bregðast við með því að draga úr viðveru skipanna á Íslandi til þess að mæta hækkandi kostnaði sem leiðir af breytingunni. Það muni svo minnka tekjur heimamanna á hverjum stað af siglingunum.

Cruise Iceland, samtök hafna á Íslandi sem taka á móti skemmtiferðaskipum, vara einnig við þessari lagabreytingu og segja í umsögn sinni að afnám tollfrelsis geti haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér á borð við flutning viðskipta til Færeyja, til dæmis vegna olíukaupa eða vegna farþegaskipta. Þá myndi það orka tvímælis ef ferðamenn og áhafnir gætu ekki verslað tollfrjálst vörur eins og aðrir ferðamenn sem koma til Íslands.

Skagfirðingar og Austfirðingar óttast áhrifin

Byggðaráð Skagafjarðar segir í umsögn um frumvarpið að afnám tollfrelsisins vinni gegn því að dreifa ferðamönnum um landið og þar með tekjum af þeim. Minni hafnir landsins og Norðurland vestra muni verða af mikilvægum tekjum. Svipaður tónn er í umsögn Hafna Múlaþings á Austurlandi sem telja að breytingin muni grafa undan áralangri uppbyggingu á þjónustu við ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum. Óttast Múlaþing að siglt verði framhjá höfnum Múlaþings.

Engin umsögn er frá sveitarfélögum á Vestfjörðum.

Uppfært kl 12:09: Ísafjarðarbær hefur skilað inn umsögn og er henni gerð skil í sérstakri frétt í dag.

HUMAR

Humarinn er rauðgulur eða rauður á lit, oftast þó hvítleitur að neðan. Fullvaxinn er hann 20–25 cm á lengd frá augnkrikum aftur fyrir hala. Kvendýrin eru minni en karldýrin og verða sjaldan meira en 18 cm á lengd. Humarinn verður kynþroska þegar hann hefur náð um 8–9 cm lengd. Humarinn greinist í frambol og hala. Frambolurinn er hulinn einni skel en halinn er liðskiptur með 6 liðum og skel yfir hverjum lið. Fram úr frambolnum, ofan til, gengur tennt trjóna sem sveigir lítið eitt upp á við fremst og er um það bil helmingur af lengd frambols. Augun sitja á stuttum stilkum í krika fremst við rætur trjónunnar. Fram undan trjónunni vaxa fjórir fálmarar. Mynstur er í halaskjöldunum líkt og letrað sé í þá og er íslenska nafnið leturhumar dregið af því. Undir hverjum lið á hala eru tveir sundfætur og aftast á halanum eru 5 breiðar skelblöðkur og er afturrönd þeirra hærð.
Niður undan frambolnum ganga fjögur fótapör og enda fjórir fremstu fæturnir í lítilli gripkló. Fram úr dýrinu ganga tveir sterklegir griparmar sem enda í aflangri kló. Griparmarnir eru nærri jafnlangir og dýrið allt.

Við Ísland lifir humarinn einungis í hlýja sjónum við suðurströndina frá Hornafirði vestur um og inn í Faxaflóa. Norðurmörk útbreiðslunnar hér við land eru við Snæfellsnes og er hann aðallega veiddur á 110 til 270 m dýpi. Einstaka humrar hafa þó fundist norðar allt norður í Ísafjarðardjúp.

Humarinn tekur bráð sína með klónum og brytjar hana smátt áður en hann étur hana. Humarinn étur mest burstaorma, smávaxin krabbadýr, skeljar og ígulker en einnig hefur fundist mikið af smáum frumdýrum í maganum sem hugsanlega fylgja með þegar humarinn étur bráð sína á yfirborði leirsins.

Hér við land æxlast hvert kvendýr aðeins annað hvert ár. Mökun hjá humrinum fer fram á sumrin eftir að kvendýrin hafa haft skelskipti og nýja skelin er enn lin (talað er um að dýrin séu „lin í skel“). Ári eftir mökun, eða í maí og júní, hrygnir kvendýrið. Við hrygningu límast frjóvguðu eggin við sundfæturna undir halanum hjá kvendýrinu. Þar haldast eggin á meðan þau þroskast.

Þroskun lirfa í eggjunum tekur um eitt ár og á þeim tíma étur kvendýrið lítið sem ekkert og heldur sig í holu sinni. Í maí og júní, ári eftir hrygningu klekjast lirfur úr eggjunum. Kvendýrið skríður þá úr holunni, lyftir upp halanum og þeytir örsmáum lirfunum undan honum með því að slá fótunum kröftuglega aftur. Lirfurnar þyrlast út í sjóinn og fljóta upp undir yfirborð. Lirfurnar eru í svifinu í 1-2 mánuði áður en þær setjast aftur á botninn.

Þar sem hörð skel humarsins umlykur líkamann getur dýrið ekki vaxið nema losna við skelina. Á meðan humarinn er í vexti losar hann sig því reglulega við skelina og myndar jafnframt nýja sem er stærri en sú fyrri. Humarinn vex því í stökkum.

Af vefsíðunni hafogvatn.is

Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu verður lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi á næstu dögum. Ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu kynnti á dögunum tillögur sínar að alls 19 aðgerðum sem miða að því að styrkja stöðu tungumálsins til framtíðar.

Nefndin var sett á laggirnar í nóvember 2022, að tillögu forsætisráðherra. Henni er ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast.

Auk forsætisráðherra eiga menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fast sæti í nefndinni.

Yfirlit yfir aðgerðir:

1. Starfstengt íslenskunám fyrir innflytjendur samhliða vinnu
2. Bætt gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
3. Virkjun Samevrópska tungumálarammans.
4. Fjarnám í íslensku á BA-stigi.
5. Sameiginlegt fjarnám í íslensku sem öðru máli.
6. Háskólabrú fyrir innflytjendur.
7. Viðhorf til íslensku.
8. Mikilvægi lista og menningar.
9. Aukin talsetning og textun á íslensku.
10. Íslenskugátt
11. Öflug skólasöfn.
12. Vefgátt fyrir rafræn námsgögn.
13. Samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu.
14. Efling íslenskuhæfni starfsfólks í leik og grunnskólum og frístundastarfi.
15. Samþætting íslensku og erlendra móðurmála á fagtengdum grunnnámskeiðum
16. Framtíð máltækni.
17. Íslenska handa öllum.
18. Íslenska er sjálfsagt mál.
19. Starfsþróun og hæfni þeirra sem kenna íslensku sem annað mál.

Nýjustu fréttir