Það á að segja satt. Ein af fimm fyrstu uppeldisreglum hvers manns, hugsa ég. Og í seinni tíð, þegar aldur og reynsla bættust við þennan grunn, var líka sagt, að það borgar sig alltaf að segja satt, því það er svo erfitt að halda sig við lýgina. Sumum gengur það þó betur en öðrum.
En þetta ristir dýpra. Sannleikurinn er nefnilega hvoru tveggja í senn, staðfesting á raunveruleikanum og gjaldmiðill í samskiptum. Og sem slíkur, hefur hann virði. Samskipti sem byggja á því sem er raunverulegt og/eða gerðist sannarlega, eru líklegri til að skila árangri, en samskipti þar sem búið er að afbaka, skrumskæla og umbreyta sannleikanum í eitthvað allt annað. Slík samskipti eru líklegri til að enda sem einhliða áróður, fremur en tvíhliða samvinna að gagnkvæmum ávinningi.
Það þarf því að bera virðingu fyrir sannleikanum. Við sem eigum í samskiptum, verðum að geta treyst því að við og mótaðilar okkar, séum að ræða um sömu atvik, séum með sama skilning á staðreyndum. Kosturinn við staðreyndir er jú sá, að þær er erfitt að véfengja. Dagsetningar, tölvupóstar, tilvitnanir og tilvísanir í orð sem sögð hafa verið og setningar sem hafa sannarlega verið skrifaðar, eru staðreyndir. Og í raun hefur enginn leyfi til að skrumskæla eða umbreyta slíkum staðreyndum. Slíkt athæfi breytir ekki bara gangi viðræðna eða samskipta, heldur setur annan aðilann í þá óumbeðnu stöðu, að þurfa að leiðrétta sín eigin orð og setningar. Leiðrétta afbökur og útúrsnúninga. Takist það, að manni finnst, er hins vegar næsta víst að það komi strax önnur afbaka og síðan enn önnur. Sannleikurinn er þar með verðminni og verður á endanum verðlaus, eða í versta falli skrapvirðið eitt.
Allt frá því undirritaður hóf þátttöku í sveitarstjórnarmálum, hefur sannleikurinn og það að segja rétt frá, verið leiðarljós. Það er allt í lagi að takast á, „berjast“ málefnalega á ritvellinum eða beint yfir borðið. En þegar „baráttan“ snýst um að leiðrétta sinn eigin sannleika sem aðrir hafa leyft sér að afbaka, þá er það orðið allt annað en heiðarleg „barátta“. Slíka deilu vinnur enginn. Allir tapa, sérstaklega þeir sem lesa eða hlusta og láta blekkjast. Þeir eru sviknir um sannleikann. Þeir eru plataðir, meðvitað.
Ég hef á undanförnum mánuðum í mínu starfi sem oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð, þurft að horfast í augu við slíka „baráttu“, þar sem mín orð eru endurskrifuð í allt öðrum tilgangi en ég lagði upp með. Mín orð, sem ég setti fram í þeim tilgangi sem ég mótaði og ákvað. Tilgangi og innihaldi sem ég vildi koma til skila til fjölda fólks, vina, ættingja og fjölskyldu. Ég tjáði mig af ástæðu. Þetta hefur verið skemmt og skrumskælt fyrir mér. Mín orð eru ekki lengur mín. Minn tilgangur ekki minn. Innihadið allt annað, ekki mitt.
Við þessar aðstæður hef ég kosið að trúa því, að svo lengi sem ég og mínir nánustu ættingar, vinir og samstarfsmenn, vita hvað ég hef sagt og gert og af hverju, þá sé minn sannleikur ennþá heill og í gildi. Ég mun ekki eltast við að leiðrétta skrapvirði sannleikans. Skrapvirði sem aðrir bera ábyrgð á.
Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð