Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 260

Ísafjörður: Lionsskatan tilbúin

Lionsklúbburinn á Ísafirði hefur verkað skötu í áratugi.

Eins og mörg undandarin ár stendur Lionsklúbburinn á Ísafirði fyrir skötusölu sem félagar í klúbbnum verka.

Í kringum jólaleytið er skötuát tengt Þorláksmessunni, en í bókinni Íslenskir þjóðhættir segir svo frá að upphaflega hafi einnig verið Þorláksmessa um sumar. Voru báðir hátíðisdagar tengdir Þorláki Þórhallssyni, fyrrum Skálholtsbiskups, sem var útnefndur heilagur maður árið 1198. 

Mikið tilstand var og er vegna jólanna og þótti við hæfi að borða sem lélegastan mat daginn fyrir jólin til þess að hafa viðbrigðin sem mest er að jólamatnum kæmi. Var skatan með sinn rýra kost því tilvalin, en einnig hafa verið nefnd mörbjúgu eða soðinn harðfiskur sem dæmi – og vildu margir hella örlitlu hangiketsfloti yfir, til bragðbætis.

Fjöldi fólks er í árlegri áskrift að Lionsskötunni frá Ísafirði og er selt um land allt.

Þeir sem vilja panta skötu er bent á að hafa samband við Kristján Pálsson í síma 8957171.

Skrapvirði sannleikans

Þorgeir Pálsson er oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð.

Það á að segja satt.  Ein af fimm fyrstu uppeldisreglum hvers manns, hugsa ég.  Og í seinni tíð, þegar aldur og reynsla bættust við þennan grunn, var líka sagt, að það borgar sig alltaf að segja satt, því það er svo erfitt að halda sig við lýgina.  Sumum gengur það þó betur en öðrum.

En þetta ristir dýpra.  Sannleikurinn er nefnilega hvoru tveggja í senn, staðfesting á raunveruleikanum og gjaldmiðill í samskiptum. Og sem slíkur, hefur hann virði.  Samskipti sem byggja á því sem er raunverulegt og/eða gerðist sannarlega, eru líklegri til að skila árangri, en samskipti þar sem búið er að afbaka, skrumskæla og umbreyta sannleikanum í eitthvað allt annað.  Slík samskipti eru líklegri til að enda sem einhliða áróður, fremur en tvíhliða samvinna að gagnkvæmum ávinningi. 

Það þarf því að bera virðingu fyrir sannleikanum. Við sem eigum í samskiptum, verðum að geta treyst því að við og mótaðilar okkar, séum að ræða um sömu atvik, séum með sama skilning á staðreyndum.  Kosturinn við staðreyndir er jú sá, að þær er erfitt að véfengja.  Dagsetningar, tölvupóstar, tilvitnanir og tilvísanir í orð sem sögð hafa verið og setningar sem hafa sannarlega verið skrifaðar, eru staðreyndir.  Og í raun hefur enginn leyfi til að skrumskæla eða umbreyta slíkum staðreyndum.  Slíkt athæfi breytir ekki bara gangi viðræðna eða samskipta, heldur setur annan aðilann í þá óumbeðnu stöðu, að þurfa að leiðrétta sín eigin orð og setningar.  Leiðrétta afbökur og útúrsnúninga. Takist það, að manni finnst, er hins vegar næsta víst að það komi strax önnur afbaka og síðan enn önnur.  Sannleikurinn er þar með verðminni og verður á endanum verðlaus, eða í versta falli skrapvirðið eitt. 

Allt frá því undirritaður hóf þátttöku í sveitarstjórnarmálum, hefur sannleikurinn og það að segja rétt frá, verið leiðarljós.  Það er allt í lagi að takast á, „berjast“ málefnalega á ritvellinum eða beint yfir borðið.  En þegar „baráttan“ snýst um að leiðrétta sinn eigin sannleika sem aðrir hafa leyft sér að afbaka, þá er það orðið allt annað en heiðarleg „barátta“.  Slíka deilu vinnur enginn.  Allir tapa, sérstaklega þeir sem lesa eða hlusta og láta blekkjast.  Þeir eru sviknir um sannleikann.  Þeir eru plataðir, meðvitað.

Ég hef á undanförnum mánuðum í mínu starfi sem oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð, þurft að horfast í augu við slíka „baráttu“, þar sem mín orð eru endurskrifuð í allt öðrum tilgangi en ég lagði upp með.  Mín orð, sem ég setti fram í þeim tilgangi sem ég mótaði og ákvað.  Tilgangi og innihaldi sem ég vildi koma til skila til fjölda fólks, vina, ættingja og fjölskyldu.  Ég tjáði mig af ástæðu.  Þetta hefur verið skemmt og skrumskælt fyrir mér.  Mín orð eru ekki lengur mín.  Minn tilgangur ekki minn. Innihadið allt annað, ekki mitt. 

Við þessar aðstæður hef ég kosið að trúa því, að svo lengi sem ég og mínir nánustu ættingar, vinir og samstarfsmenn, vita hvað ég hef sagt og gert og af hverju, þá sé minn sannleikur ennþá heill og í gildi.  Ég mun ekki eltast við að leiðrétta skrapvirði sannleikans. Skrapvirði sem aðrir bera ábyrgð á.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð

Ísafjörður: stúdentagarðar teknir í notkun

Halldór Halldórsson flytur ávarp sitt.

Á föstudaginn var haldin sérstök opnunarhátíð á Ísafirði í tilefni af því að lokið er framkvæmdum við seinna hús stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða, en í því eru 20 íbúðir. Fyrra húsið hefur þegar verið tekið í notkun og eru íbúðirnar20 í því leigðar út til nemenda við Háskólasetrið.

Fjölmargir komu og skoðuðu húsakynnin. Ávörp fluttu Halldór Halldórsson, formaður  stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar Stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða, Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Henry Eneste frá byggingarverktakanum Seve , Kjartan Árnason arkitekt og Peter Weiss, forstöðumaður Háskólasetursins.

Heildarkostnaður við bæði húsin verður um 1170 m.kr. Stofnframlög fengust frá ríkinu sem eru 18% af kostnaði og frá Ísafjarðarbæ 12% auk þess sem sérstakt byggðaframlag 189 m.kr. var veitt. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun lánar það sem upp á vantar til langs tíma og gert er ráð fyrir að húsleiga standi undir láninu og rekstri húsanna.

Húsið sem nú var að klárast verður leigt nemendur við Háskólasetrið frá og með næsta hausti, en fram að því verða íbúðirnar leigðar til skammtímaleigu.

Myndir:seve/Sigríður Ó. Kristjánsdóttir.

Teigskógur: nýr vegur opnaður fyrir umferð í gær

Kort af vegagerðinni. Mynd: reykholar.is

Vegagerðin opnaði í gær nýja veginn um Teigskóg, út Þorskafjörð og inn Djúpafjörð eins og áður hafði verið grein frá á vef Bæjarins besta. Er komið bundið slitlag á allan veginn. Er nú ekið framhjá Hjallahálsi og því einum fjallveginum færra. Hefur Hjallahálsi verið lokað. Er nú aðeins kaflinn yfir Ódrjúpgsháls eftir með malarslitlagi á leiðinni Reykjavík til Patreksfjarðar, líklega um 9 km kafli.

Búið er að undirritað samninga um fyllingar að brúm yfir Gufufjörð og Djúpafjörð og að þremur árum liðnum er áformað að hægt verði að aka nýjan veg frá Melanesi að Hallsteinsnesi.

Hafnir Ísafjarðarbæjar: áhyggjur af litlu samráði við hagsmunaaðila

Hilmar Lyngmó hafnarstjóri.

Hilmar Lyngmó, hafnarstjóri segir að hafnir Ísafjarðar hafi áhyggjur af af litlu samráði við hagsmunaaðila og að auknar álögur hafi áhrif á áframhaldandi skipakomur og áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu. Er þar vísað til tillagna frá ríkisstjórninni um afnám tollfrelsis minni skemmtiferðaskipa. Er óttast að það leiði til þess að þessi skip stytti hverja ferð til landsins sem muni leiða til þess að einhverjum landshlutum verði sleppt úr hringferð skipsins, helst Vestfjörðum eða Austurlandi.

Hilmar segir í umsögn sinni að hafnir Ísafjarðar sé stærsti aðilinn á Vestfjörðum sem þjónustar skemmtiferðaskip. Tekjurnar af skemmtiferðaskipum séu um það bil 60% af tekjum hafnarinnar og hafi verið 446.303.469 kr. árið 2023. Árið 2020 þegar ekkert skemmtiferðaskip kom til Ísafjarðar var höfnin rekin með um það bil 45.000.000 kr. halla.
Þegar skip eru bókuð núna er reynt að dreifa skipunum á hafnir Ísafjarðarbæjar þannig að minni skipin fari frekar á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri.
„Þannig að það skiptir miklu fyrir höfnina að allt sem gert er í sambandi við skattlagningu á skipin sé skoðað vel frá öllum hliðum og kannað hvaða afleiðingar þær breytingar hafa í för með sér. Afnám tollfrelsis hefur mest áhrif á minni skipin sem fara frekar á minni staðina, t.d. Vigur, Djúpuvík, Reykjafjörð og Patreksfjörð.“

Stöðugildi á ársgrundvelli sem tengjast komum skemmtiferðaskipa eru um 86 í hinum ýmsu fyrirtækjum í Ísafjarðarbæ og nágrenni að sögn Hilmars.
Á fundi sem hann var á með hagaðilum kom fram þeirra álit, að þeir farþegar sem koma til Vestfjarða með skipum kæmu annars ekki hingað.

Margir verslunar og fyrirtækjaeigendur þar á meðal „Dokkan brugghús“ og rútufyrirtæki halda því fram að komur skemmtiferðaskipa farþega sé forsenda þess að þeirra fyrirtæki séu í rekstri allt árið eða stödd þar sem þau eru í dag.

Skógræktarfélag Ísafjarðar er með jólaskóg laugardaginn 9. desember kl. 13-15

Skógræktarfélag Ísafjarðar verður með jólatrjásölu næsta laugardag , þann 9. desember milli kl 13 og 15.

Skógræktarfélag Íslands minnir á starf félaganna sem m.a. felst í því að gefa fjölskyldum kost á að sækja sér jólatré í ræktunarstarf félaganna. Íslensk jólatré eru ilmandi fersk, vistvæn í ræktun, með lægra kolefnisspor og með því að kaupa íslenskt jólatré er stutt við skógræktarstarf í landinu, því fyrir hvert selt jólatré er hægt að gróðursetja tugi trjáa. Það þarf því ekki að hafa samviskubit yfir því að fella tréð!

Skógræktarfélag Ísafjarðar var stofnað á nýársdag 1945 og verður 79 ára gamalt næsta nýársdag.   Það var byrjað að planta innan við Stórurðina og inni í Tungudal. Alltaf hefur  verið haldið áfram að planta en með mismiklum krafti eins og gengur.  Nú er svo komið að það er næstum hægt að segja að það sé að vaxa upp samfelldur skógur í hlíðinni frá Stórurð inn í Tungudal og þaðan að Dagverðardal. Meira að segja er lundur utan við Stórurð,  það er ofan við Hlíðarveg og á hinum endanum er líka lundur í Kubbanum.

Í frétt um almennan fund í skógræktarfélaginu fyrir tveimur árum segir að frumkvöðlarnir hafi haldið að þeir væru að rækta nytjaskóg og fyrstu afurðirnar yrðu kannski girðingarstaurar og eldiviður, en að lokum smíðatimbur.  Viðhorfin hafi breyst á löngum tíma nú er litið á þetta fyrst og fremst sem útivistarskóg, stundum líka kallað yndisskógur. 

Þrettán þúsund milljónir

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Þetta haust hefur farið sérstaklega blíðum höndum um okkur Vestfirðinga þegar horft er til veðurs og færðar. Við erum farin að sjá töluverð merki um aukin samskipti og samstarf milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða nú þegar nýr vegur á Dynjandisheiðinni lengist meir og meir. Um síðustu helgi voru vel sóttir jólamarkaðir bæði í Dokkunni á Ísafirði og í Félagsheimilinu á Patreksfirði þar sem fyrirtæki bæði frá norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum voru að selja afurðir sínar á báðum stöðum.  

Á þessu hausti hefur við lauslega talningu verið hægt að sjá og njóta afraksturs 13 milljarða fjárfestinga á Vestfjörðum.  Þarna er um að ræða samgönguframkvæmdir eins og brúna yfir Þorskafjörð, opnun vegarins um Teigsskóg og inn Djúpafjörð og nýja kafla á Dynjandisheiðinni. Síðan er stórframkvæmd Arctic Fish, laxasláturhús í Bolungarvík sem kostaði 5 milljarða og um næstu helgi verða Stúdentagarðar Háskólaseturs Vestfjarða opnaðir.  

Mikið hefur verið um mannamót, fundi, ráðstefnur og menningarviðburði í nóvember. Nefna má viðburði sem við hér á Vestfjarðastofu höfum tekið þátt í  eins og málþing um atvinnuuppbyggingu og þróun íbúðamarkaðar og spjall um græna styrki. Einnig staðfund Sóknarhóps Vestfjarðastofu um hvernig efla má ímynd Vestfjarða. 

Ímynd svæðisins hefur verið nokkuð til umræðu meðal fólks þetta haust meðal annars vegna háværrar umræðu um laxeldi. Umræðan hefur ekki einvörðungu áhrif á þau fyrirtæki sem starfa í greininni heldur nær hún stundum til þeirra sem starfa innan hennar og jafnvel þarf stundum ekki meira til en vera frá svæðinu til að eiga von á aðdróttunum í einhverri mynd. Þessi tiltölulega unga atvinnugrein er ekki hafin yfir gagnrýni, en það er góður siður fara í málefnið en ekki manninn þegar gagnrýni er annars vegar.

Áhrifa umræðunnar gætir líka í ótta um afkomu og búsetu þegar þess er krafist í fullri alvöru að atvinnugrein sem hefur átt stóran þátt í viðsnúningi í byggðaþróun á svæðinu verði bönnuð. Á Vestfjörðum má gera ráð fyrir að allt að 10% starfandi íbúa vinni við eða tengt fiskeldi og á sunnanverðum Vestfjörðum eingöngu er hlutfall starfsmanna og þeirra sem starfa í atvinnugreinum tengdum fiskeldi umtalsvert hærra. 

Á fyrrnefndum staðfundi Sóknarhóps Vestfjarða kom nokkuð skýrt fram að áhrif umræðunnar á ytri ímynd Vestfjarða væru ekki endilega merkjanlega neikvæð.  Eftir stendur þó að áhrif umræðu haustsins um fiskeldi hefur líklega haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd íbúa.  

Þess vegna er mikilvægt að horfa á jákvæð áhrif uppbyggingar undanfarinna ára og að byggðaþróun er smám saman að færast í jákvæðari átt. Vestfirðingum er að fjölga aftur. Hér eru aftur byggð hús.  

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir

framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

Ísbjörn ÍS 304

Ísbjörn ÍS 304 ex Borgin. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2013.

Rækjufrystitogarinn Ísbjörn ÍS 304 frá Ísafirði kom til hafnar á Húsavík um miðjan janúar 2013 og þá var þessi mynd tekin.

Það voru Rækjuvinnslan Kamp og útgerðarfélagið Birnir sem áttu skipið og gerðu út í nokkur ár.

Ísbjörn, sem er 1103 GT að stærð, var smíðaður í Noregi árið 1984, fyrir grænlenska útgerð og fékk nafnið Vilhelm Egede.

Ljósavík í Þorlákshöfn keypti hann til Íslands haustið 1996 og fékk hann nafnið Gissur ÁR 2. Tæpu ári síðar var nafni hans breytt í Hersir ÁR 2.

Árið 1999 var togaranum flaggað út og fékk hann nafnið Borgin, síðar Fame og aftur Borgin. Undir því nafni hafði togarinn legið í nokkur ár í Reykjavíkurhöfn þegar hann var seldur til Ísafjarð í árslok 2011 og fékk það nafn sem hann ber á myndinni.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Fjölbrautaskóli Snæfellinga með framhaldsdeild á Patreksfirði

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur hafa framlengt samning við Fjölbrautaskóla Snæfellinga um að starfrækja framhaldsdeild á Patreksfirði.

Nemendur sem stunda nám við framhaldsdeildina eru nemendur Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Þeir mæta daglega í framhaldsskóladeildina á Patreksfirði en koma í skólann í Grundafirði tvisvar til þrisvar á hverri önn.

Á meðan nemendur eru í Grundarfirði sækja þeir kennslustundir og verkefnatíma samkvæmt stundatöflu og geta einnig tekið þátt í félagslífi nemenda.

Nemendur geta komið oftar í skólann í Grundarfirði en skipuleggja þær heimsóknir sjálfir.

Nám nemendanna er skipulagt á sama hátt og annarra nemenda skólans og þeir geta tekið þá áfanga sem í boði eru á hverjum tíma, nema þegar aðstæður koma í veg fyrir hægt sé að bjóða upp á áfanga í fjarnámi.

.

Skreyttar ruslatunnur í Vesturbyggð

Íbúum á Patreksfirði gafst síðasta sumar kostur á að skreyta grænar ljósastauraruslatunnur, hver með sínu nefi.

Ímyndunaraflið mátti ráða för, til dæmis mála þær eða hekla, sauma eða prjóna utan um þær.

Nemendur á mið- og unglinga­stigi í Bíldu­dals­skóla tóku sig til á dögunum og skreyttu grænar rusla­tunnur þar í bænum.

Skreyt­ing­arnar eru liður í samfé­lags­verk­efni skólans og glæða bæinn svo sann­ar­lega lífi.

Nýjustu fréttir