Mánudagur 2. september 2024
Síða 26

Bíldudalur: dagskrá um verslunarmannahelgina

Bíldudalur

Á Bíldudal verður heilmikið um að vera um komandi helgi. Það eru Skrímslasetrið og Vegamót sem standa að veglegri dagskrá sem hefst á morgun , föstudag. Þá verður safnið melódíur minninganna opið og boðið upp á hvalaskoðun.

Á laugardaginn verða fjölskylduleikar á túninu við Skrímslasetrið og Magnús þór verður með tónleika í Félagsheimilinu Baldurhaga.

Ísafjörður: Sundabakki malar gull

20.júlí sl. voru tvö stór skemmtiferðaskip við Sundabakka og eitt lá við akkeri útar. Við Mávagarð lá laxaflutningskip til marks um gróskuna á Vestfjörðum sem tengjast þessum atvinnugreinum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Júlímánuður var sá stærsti í komum skemmtiferðaskipa á Ísafirði svo vitað sé. Skráðar voru 66 komur og hámarksfjöldi ferðamanna með þeim var um 80 þúsund manns. Ætla má að tekjur hafnarsjóðs af skemmtiferðaskipunum í júlímánuði einum hafi losað 200 m.kr.

Til samanburðar þá birti Ísafjarðarhöfn upplýsingar um fjölda skemmtiferðaskipa fyrr í sumar og áætlaðar tekjur hafnarsjóðs af þeim. Eins og sjá má komu 55 skip til júníloka með um 67 þúsund farþega og áætlaðar tekjur hafnarinnar voru 219 m.kr.

efnahagslegu áhrifin: milljarður króna

Mikil umsvif fylgja skemmtiferðaskipunum önnur en tekjur í hafnarsjóð. Hvað þau eru mikil er reynt að meta í skýrslu Reykjavík Economics sem unnin var fyrir Faxaflóahafnir. Athugaðar eru þrjár kannanir sem gerðar hafa verið um eyðslu farþega. Samkvæmt þeim er meðaleyðslan í tveimur könnunum meiri en 20 þúsund krónur pr. farþega og í einni 4.210 kr.

Ef áætlað er að með skipunum í júlímánuði hafi komið 60 þúsund farþegar sem er um 3/4 hlutar hámarksfjöldans og meðaleyðslan hafi annars vegar verið 20 þúsund krónur og hins vegar 5 þúsund krónur fæst að tekjurnar inn í samfélagið hafi verið 300 m.kr. eða 1,2 milljarðar króna.

Ef við bætum svo við skipakomunum frá því í apríl til júlíloka þá eru efnahagslega innspýtingin annars vegar um 630 m.kr. og hins vegar 2,5 milljarður króna, eftir því við hvora viðmiðunina er miðað. Við þetta bætast svo tekjur Ísafjarðarhafnanna sem eru 400 – 500 m.kr.

Væntanlega munu frekari rannsóknir leiða fram betri upplýsingar um meðaleyðsluna og minnka bilið í matinu, en það er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að efnahagslegu áhrifin á Vestfjörðum af komu skemmtiferðaskipa á heilu sumri eru mjög mikil og talin í milljörðum króna.

Vestfirðingar eru enn að byggja upp nauðsynlega innviði, svo sem Sundabakka, sem nota bene er að mala gull fyrir sveitarfélagið. Og þeir eru enn að móta þjónustuna, auka hana og bæta og eiga alla möguleika á að auka tekjur sínar á næstu árum. Má nefna marga eftirsótta útsýnisstaði sem ferðarmennirnir erlendu sækja sér til ánægju. Kláfur upp á Gleiðarhjalla yrði vafalaust mjög vinsæll og drægi marga að Ísafirði svo dæmi sé nefnt. Annað dæmi sem huga má að er menningartengd ferðaþjónusta. Þar er styrkur Ísafjarðar mikill og möguleikar á að sækja fram landi og þjóð til vegsauka og ávinnings.

-k

Þjóðskrá: fækkar á Vestfjörðum í júní

Í Ísafjarðarbæ eru skráðir 3.997 íbúar , þar af eru 895 erlendir ríkisborgarar eða 22,3%.

Samkvæmt tölum þjóðskrár um lögheimilisflutninga í júní mánuði fluttu 60 manns af Vestfjörðum í aðra landshluta og 16 manns fluttu til Vestfjarða. Flutningsjöfnuður þann mánuð var því neikvæður um 44 manns.

Þjóðskrá hefur ekki birt tölu um íbúafjölda í sveitarfélögum 1. júlí og ber því við að sameining sveitarfélaga tefji birtingu talna. Það liggur því ekki fyrir hvort íbúafækkun hafi orðið í samræmi við þessar flutningstölur en telja verður líklega að um einhverja fækkun hafi verið að ræða í mánuðinum.

Hins vegar sýnir samantekt af tölum fyrir janúar til apríl 2024 að í þremur mánuðum af fjórum fluttu fleiri til Vestfjarða en frá og samtals fjölgaði lögheimilisskráningum á Vestfjörðum um 32 þessa fjóra mánuði.

Í síðustu birtu íbúatölum Þjóðskrár, sem eru miðaðar við 1. júní voru íbúar 7.531 og hafði fjölgað um 54 á 6 mánaða tímabili frá 1. dese,ber 2023.

Í júnímánuði voru samtals 5.742 lögheimilisskráningar. Þar af voru 128 frá Vestfjörðum. Af þeim fjölda voru 68 að flytja sig til innan Vestfjarða, svo út af svæðinu voru 60 tilkynningar, mest til höfuðborgarsvæðisins eða 38. Frá höfuðborgarsvæðinu fluttu 5 til Vestfjarða.

Dúabíll á minjasafni Austurlands

Dúabíll, leikfangabíll sem framleiddur var hjá leikfangagerðinni Öldu á Þingeyri sem stofnuð var árið 1985 er einn af safnmununum á Minjasafni Austurlands.

„Bíllinn er með fjögur gul hjól, rautt hús, bláan pall og grænan undirvagn. Málningin er nokkuð máð. Á hlið hússins er hvítt merki með áletruninni Dúi. Grænn spotti er festur í bílinn til að draga hann.

Kristleifur Björnsson keypti bílinn handa sonum sínum þegar þeir voru litlir en bíllinn endaði hjá Stefáni Þórarinssyni sem afhendi hann á safnið.“ segir í lýsingu á bílnum.

Almenningur boðinn velkominn á Austurvöll vegna embættistöku forseta Íslands

Athöfn vegna embættistöku forseta Íslands fer fram í Dómkirkjunni og Alþingishúsinu á fimmtudaginn og hefst dagskrá kl. 15.30.

Ríkisútvarpið verður nú með beina sjónvarpsútsendingu frá athöfninni í kirkju og þinghúsi.

Almenningur er boðinn velkominn á Austurvöll til að fylgjast með athöfninni og fagna nýjum forseta. Þar verða settir upp skjáir svo þeir sem þar eru staddir geti fylgst með því sem fram fer.

Að loknu drengskaparheiti minnist forseti Íslands fósturjarðarinnar af svölum þinghússins.

Þá verður Smiðjan, nýtt skrifstofuhúsnæði Alþingis, í fyrsta sinn nýtt að lokinni embættistöku forseta Íslands fyrir gesti athafnarinnar. Smiðjan var tekin í notkun um síðustu áramót, en við fyrri embættistökur hefur móttakan farið fram í Alþingishúsinu.

Hvar verða landsmót UMFÍ árið 2026?

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið í Borgarnesi um komandi helgi og er skráningu lokið.

Þátttakan er góð enda telst mótið vera ein fjölmennasta samkoma landsins og hefur átt sér stað um Verslunarmannahelgina allar götur síðan árið 1992.

Nú gefst sambandsaðilum UMFÍ og sveitarfélögum tækifæri til að setjast yfir plön til næstu tveggja ára og skoða hvort þau vilji og geti haldið bæði Unglingalandsmót UMFÍ og Landsmót UMFÍ 50+ árið 2026. 

Framkvæmd mótanna verður í höndum UMFÍ, þeirra sambandsaðila sem taka mótin að sér og viðkomandi sveitafélaga.

Athygli er vakin á því að stuðningur viðkomandi sveitarfélags þarf að fylgja umsókninni. 

Lífsbarátta fuglanna í Látrabjargi

Látrabjarg.

Landvörður í friðlandinu Látrabjargi býður áhugasömum í stutta fræðslugöngu á Bjargtöngum laugardaginn 3. ágúst kl. 13:00. Þar verður fjallað um fuglana sem hreiðra um sig í bjarginu á sumrin og lifnaðarhætti þeirra.

Látrabjarg er gjarnan talið stærsta fuglabjarg í Evrópu.

Gangan hefst við vitann á Bjargtöngum en þaðan verður gengið áleiðs upp eftir brún bjargsins og þátttakendum gefst færi á að hlýða á landvörð og spyrja hann spurninga.

Nausynlegt er að búa sig eftir veðri og vera sæmilega skóaður, ekki er verra að taka með sér kíki og landvörður verður með handbækur í för sem dregnar verða fram ef veður hangir þurrt.

Áætlað er að ganga taki rúma klukkustund og hún er tiltölulega auðveld og flestum fær þó bjargið sé aðeins á fótinn.

Gefum íslensku sjéns: tveir viðburðir í Háskólasetrinu

Í kvöld kl 18:15 verður Kómedíuleikhúsið með viðburð í Háskólasetri Vestfjarða, Ísafirði sem er liður í átakinu Gefum íslensku sjéns. Segir i kynningu að Kómedíuleikhúsið bregði á leik.

Á morgun 1. ágúst verður Eiríkur Örn Norðdahl í Háskólasetrinu og byrjar kl 14:45 í sama átaki.

Eiríkur Örn Norðdahl.

Norska Hafró: eldislax dreifir ekki sjúkdómum í villta laxinn

Laxeldi Arctic Fish í Arnarfirði.

Nýleg skýrsla sem unnin var á norski Hafrannsóknarstofnuninni og birt í vor styrkir fyrri niðurstöðu þess efnis að sjúkdómar dreifast ekki frá eldislaxi í villtan lax. Er það niðurstaða vísindamannanna að það sé lítil hætta á að eldislaxinn smiti villtan lax.

Í rannsókninni, sem gerð er árlega, var athugað hvort væri að finna fimm tegundir af bakteríum og vírusum sem eru í eldislaxi í seiðum af villtum laxi og sjóbirtingi.

Tekin voru seiði á nokkrum stöðum í Noregi, m.a. í Harðangursfirði og Boknafirði, en umfangsmikið laxeldi er í þeim fjörðum. Ef villtur fiskur smitaðist af eldislaxinum þá ættu það að sjást í villtum fiski á þessum svæðum. Mjög fá seiði reyndust hafa þrjá vírusana og telst það vera mjög lágt hlutfall.

Segir í skýrslunni að niðurstaðan styrki fyrri ályktun stofnunarinnar þess efnis að litlar líkur séu á því að smit berist frá eldisfiskinum í villtan laxfisk.

Skýrslugerðin er hluti af árlegu eftirliti norski Matvælastofnunarinnar með áhrifum af laxeldi í sjó.

Knattspyrna: Hörður mætir Stokkseyri í kvöld

Hörður Ísafirði mætir á Kerecisvöllinn á Torfnesi kl. 18 í kvöld þar sem þeir taka á móti Stokkseyri.

Hörður leikur í 5. deild B riðli. Þar eru 9 lið og komast tvö efstu áfram í umspil um sæti í 4. deild.

Baráttan um umspilssæti er í fullum gangi og dugir ekkert annað en sigur. Strákarnir eru ósigraðir í síðustu 6 leikjum. Eftir 12 umferðir er Hörður í 4. sæti með 25 stig og er aðeins 4 stigum á eftir liðinu í 2. sæti.

Stokkseyri er í 7. sæti með 10 stig.

Nýjustu fréttir