Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 26

Metsumar í komum skemmtiferðaskipa – hugleiðing hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar

Hilmar Lyngmó hafnarstjóri.

Nú hefur síðasta skemmtiferðaskipið kvatt okkur að sinni og að baki er enn eitt metsumarið í skipakomum til Ísafjarðarbæjar.  Alls fengum við 186  slíkar heimsóknir í ár, þar af þrjár til Þingeyrar.  Raunar má segja að heimsóknirnar hafi verið 192 ef við teljum með þau skip sem komu í örstutt stopp vegna tollamála eða annarra smáerinda, en hleyptu ekki farþegum í land. Tíu sinnum þurftu skip að hætta við komu til okkar, oftast vegna þess að slæmt veður setti strik í reikninginn.  

Farþegafjöldinn sem skemmtiferðaskipin báru hingað til okkar var tæplega 235 þúsund manns og tekjur hafnarsjóðs af þessari starfsemi námu um það bil 756 milljónum króna. Tekjur samfélagsins í heild voru auðvitað mun hærri.

Mikill mannfjöldi, gott skipulag

Í upphafi sumars bar talsvert á áhyggjum af því að mannfjöldinn á götum Ísafjarðar gæti orðið yfirþyrmandi á fjölmennustu skipadögunum, enda stefndi í að farþegar yrðu yfir níu þúsund á stærsta deginum. Það má hins vegar segja að veðrið, sem fæstir höfðu ástæðu til að dásama í sumar, hafi gengið í lið með okkur því nokkur skip þurftu að breyta áætlunum sínum vegna brælu. Stóri níu þúsund manna dagurinn endaði af þeim sökum í um það bil fjögur þúsund gestum, sem telst vel viðráðanlegur fjöldi hér á svæðinu.

Við fengum þó einn dag með rúmlega átta þúsund gestum og einu sinni fór fjöldinn yfir sjö þúsund. Á slíkum dögum reynir verulega á skipulagið og innviðina og það var aðdáunarvert hversu vel tókst til. Fyrirtækin sem taka á móti gestunum á bryggjunni og sjá þeim fyrir afþreyingu stóðu sig með afbrigðum vel og eiga mikið hrós skilið fyrir gott skipulag og mikið framboð. Líklega hefur gestum svæðisins aldrei staðið jafn mikil og fjölbreytt afþreying til boða og einmitt nú í sumar.  Margir farþegar kusu líka að skoða sig um á eigin vegum og mátti sjá að t.d. gamli bærinn og göngustígarnir uppi í hlíð nutu mikilla vinsælda.  Verslanir, söfn og aðrir þjónustuaðilar voru líka alltaf á tánum og það var ánægjulegt að sjá að fleiri staðir en áður voru opnir á sunnudögum.

Fáir skipalausir dagar

Ef við skoðum annasömustu mánuði sumarsins þá voru ekki margir skipalausir dagar hér á Ísafirði þetta árið. Í júní voru þeir sjö talsins, í júlí voru þeir þrír og í ágúst voru þeir fimm. Auðvitað var farþegafjöldinn misjafnlega mikill frá degi til dags, allt frá hundrað manns upp í rúmlega átta þúsund. Og þótt þetta færi miklar tekjur inn í samfélagið þá dylst engum að skipakomum fylgir vitaskuld líka álag og áreiti fyrir marga bæjarbúa. Það er því full ástæða til að þakka íbúum Ísafjarðarbæjar fyrir alla þolinmæðina og vinsemdina. Við fengum reglulega að heyra það frá farþegum skipanna að íbúar hér væru einstaklega vingjarnlegir og góðir heim að sækja.

Vissulega förum við þó ekki í gegnum heilt sumar með 235 þúsund gestum án hnökra.  Stundum var svo mannmargt á götum bæjarins að bílaumferð gekk hægar en venjulega. Stundum var örtröð í verslunum og á veitingastöðum, stundum varð klósettpappír eftir við göngustíga og ugglaust mætti telja fleira upp.  Við erum þó alltaf að bæta okkur og bregðast betur við. Það kom t.d. mjög vel út að breyta svæðinu við Silfurtorg í göngugötu á fjölmennustu skipadögunum. Almenningsklósettum í bænum var fjölgað frá fyrri sumrum og almennt er óhætt að segja að við höfum lært af reynslu undanfarinna ára og staðið okkur betur en áður, þótt auðvitað sé enn svigrúm fyrir framfarir.

Viðburðasjóðurinn

Ein nýlundan sem tekin var upp í sumar í tengslum við komur skemmtiferðaskipa er Sumarviðburðasjóður hafnarinnar, en þar gat listafólk sótt um styrki til að halda alls kyns viðburði og uppákomur. Alls var úthlutað fimm milljónum króna til tólf verkefna og er óhætt að segja að þetta hafi sett skemmtilegan svip á bæjarlífið í sumar og glatt bæði heimafólk og gesti. Stefnt er að því að endurtaka leikinn næsta sumar.

Áframhaldandi uppbygging

Framkvæmdum við uppbyggingu aðstöðunnar á hafnarsvæðinu á Ísafirði er hvergi nærri lokið, en væntanlega mun taka 2-3 ár í viðbót að klára þau verkefni sem þegar er búið að skipuleggja. Vonandi tekst að klára dýpkunina við Sundabakka að fullu fyrir næsta sumar og þá munum við líka taka í gagnið  nýtt rútustæði á höfninni, sem klárað var að malbika nú fyrir skemmstu. Út fá því verða gerðar nýjar gönguleiðir frá hafnarsvæðinu sem munu færa stóran hluta gangandi umferðar fjær vinnusvæði flutningabíla, lyftara og annarra vinnuvéla.   

Nýtt landamærahús fyrir hafnarsvæðið er nú í hönnun og vonandi hefjast framkvæmdir við það strax á næsta ári. Þá eru einnig uppi áform um að smíða ný salernishús sem myndu leysa af hólmi þau gámahús sem notuð hafa verið í sumar.

Enn á eftir að bæta úr aðstöðunni við „tenderbryggjuna“ svokölluðu, en þar koma í land þeir farþegar sem ferjaðir eru með léttabátum úr skipum sem leggjast við akkeri. Gæsla á því svæði var aukin í sumar frá því sem áður hefur verið og allt skipulag var betra, en þó þarf að gera betur. Í bígerð er að smíða göngustíg úr timbri við hliðina á veginum, sem myndi auka öryggi á svæðinu umtalsvert.

Horfurnar góðar en margt getur breyst

Komum skemmtiferðaskipa til Ísafjarðarbæjar hefur fjölgað ævintýralega síðustu árin. Ef við lítum bara aftur til ársins 2011 þá komu 35 skip hingað það sumar. Árið 2018 voru þau orðin 64 og síðasta sumarið áður en öllu var skellt í lás vegna Covid-19 voru þau orðin 131 talsins. Eftir að aftur losnaði um þær ferðahömlur sem faraldurinn olli hefur þróunin svo bara verið enn hraðari. Nú bendir hins vegar ýmislegt til þess að vöxturinn sé um það bil að ná hámarki og að skipakomum muni ekki fjölga verulega frá því sem nú er, heldur haldast í svipuðu horfi næstu árin. Margt getur þó spilað þar inní, t.d. staðan í heimspólitíkinni og má í því samhengi nefna að stríðið í Úkraínu hefur haft mikil áhrif á ferðir skemmtiferðaskipa um ákveðin hafsvæði.

Það er ekki bara heimspólitíkin sem hefur áhrif á komur skemmtiferðaskipanna því innanlandspólitíkin getur auðvitað gert það líka.  Þetta á til dæmis við um þau skip sem hafa boðið upp á hringsiglingar um Ísland, en all mörg af hinum smærri skipum eru með fasta viðveru við Íslandsstrendur mestallt sumarið, sigla hring eftir hring og heimsækja fjölmargar hafnir landsins. Þau skip sem hafa þennan háttinn á hafa notið ákveðins tollfrelsis, en nú stendur til að afnema það um næstu áramót.  Hætt er við því að útgerðarfélög þessara skipa muni endurskoða stöðu sína ef af þessu verður, en ljóst er að það yrði umtalsvert högg ef slíkar hringsiglingar legðust af. Nú í sumar voru 53 skipakomur til Ísafjarðar í tengslum við hringsiglingar, farþegafjöldinn var tæplega 16 þúsund manns og tekjur hafnarinnar af þessum skipum námu um 75 milljónum króna. Þetta yrði líka umtalsverður tekjumissir fyrir mörg þjónustufyrirtæki í sveitarfélaginu, en langflestir farþeganna í þessum skipum fara í skipulagðar skoðunarferðir og kannanir benda til þess að meðaleyðsla hvers farþega á þessari tegund skipa sé talsvert meiri en farþega stærri skipanna.

Mikill áhugi á Ísafirði

Nú í haust hafa Hafnir Ísafjarðarbæjar átt fundi með útgerðarfélögum margra skemmtiferðaskipa og það er ljóst að áhugi þeirra á Íslandi og Ísafirði er enn mikill.  Mörg þessara fyrirtækja hafa fylgst náið með framkvæmdunum við höfnina okkar og fagna því að nú skuli vera hægt að bjóða farþegunum upp á betri aðstöðu en áður við komuna til bæjarins.  Annars virðast farþegar undantekningalítið vera ánægðir með heimsóknir sínar til Ísafjarðar og á meðan svo er munu skipafélögin halda áfram að bjóða upp á Ísafjarðarbæ sem einn af sínum viðkomustöðum.

Að lokum er rétt að ítreka þakkir til íbúa Ísafjarðarbæjar fyrir þolinmæði og jafnaðargeð á annasömum skipadögum. Ég vona að haustið og veturinn verði okkur öllum farsælt og að með hækkandi sól getum við svo mætt nýju sumri og nýjum skipagestum með brosi á vör.

Hilmar Kristjánsson Lyngmo
Hafnarstjóri í Ísafjarðarbæ

Jón Jónsson: staðfestir að ásakanir voru ósannar

Jón Jónsson.

„Ég er afar ánægður með hvað niðurstaðan í skýrslunni er í raun afgerandi. Með þessari úttekt KPMG er staðfest að ásakanir oddvitahjónanna, Þorgeirs Pálssonar og Hrafnhildar Skúladóttur, um sjálftöku mína á fjármunum úr sveitarsjóði eru beinlínis ósannar. Ásakanir úr þessari átt hljóta auðvitað að vekja athygli, þau eru lykilstarfsfólk Strandabyggðar, sveitarstjóri og íþrótta- og Tómstundafulltrúi. Það er gott að fá þetta á hreint. Eins kemur skýrt fram að ég hef ekki gerst brotlegur við sveitarstjórnarlög, samþykktir og siðareglur, í störfum mínum í sveitarstjórn, eins og ítrekað hefur verið dylgjað um.“

Þetta segir Jón Jónsson á Kirkjubóli í Tungusveit og fyrrverandi sveitarstjórnarmaður í Strandabyggð sem var ásakaður um að hafa misnotað aðstöðu sína til þess að fá fé úr sveitarsjóði.

Sveitarstjórnin fékk KPMG til þess að gera úttekt á málinu og er niðurstaðan sú að „Ekki er annað að sjá en greiðslur til Jóns Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirætkja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetur, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e á árunum 2010-2014 og 2019-2022 hafi verið í samræmi við samninga og samþykktir sveitarstjórnar.

Einnig er ekki annað að sjá en Jón hafi gætt þess sem fulltrúi í sveitarstjórn að víkja sæti þegar framangreindir samningar voru til umfjöllunar.“

„Ég hef satt best að segja verið dálítið dapur yfir því hvað rógburðurinn hefur átt greiða leið að fólki, hvað slúðursögurnar hafa farið á mikið flug í samfélaginu. Ég vona að breytingar verði á þessu í framtíðinni, að Strandafólk verði kannski ekki alveg jafn opið fyrir svona lygaþvælu.“  

Jón segir að sveitarstjórnin taki skýrsluna til umfjöllunar á fundi sínum á þriðjudaginn í næstu viku og segir það verða fróðlegt að sjá viðbrögðin.

Rafmagnsleysið: Vesturlína sló út

Kort Rarik af áhrifum rafmagnsleysisins.

Vestfirðir sluppu ekki við áhrifin af rafmagnsleysinu í dag sem varð vegna einhvers sem kom upp á hjá Norðuráli. Vesturlína fékk ekki rafmagn til þess að flytja vestur en SteinunnÞorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets segir að varaaflið fyrir vestan hafi strax tekið við. Olíuframleitt rafmagn tók því við nema á sunnanverðum Vestfjörðum en það svæði nýtur nálægðarinnar við Mjólkárvirkjun sem var í fullum rekstri.

Landbúnaðarháskólinn: losun hláturgass frá framræstu votlendi er meiri en miðað hefur verið við

Nýlega kom út grein í tímaritinu „Agriculture, Ecosystem & Environment“ um mælingar á losun á hláturgasi (N2O) frá framræstum mýrum hér á landi, en hláturgas er öflug gróðurhúslofttegund og ein þriggja sem losnar frá framræstum mýrum utan koldíoxíðs (CO2) og metans (CH4). Titill greinarinnar er „Lítil losun hláturgass úr steinefnaríkum mýrarjarðvegi á Íslandi“ (e: Low nitrous oxide fluxes from mineral affected peatland soils in Iceland).  Höfundar greinarinnar eru þau: Jón Guðmundsson, Hlynur Óskarsson (Landbúnaðarháskóla Íslands), Elisabeth Jansen (Háskólanum á Hólum), Stefán Þór Kristinsson, Alexandra Kjeld og Eldar Máni Gíslason (EFLU). Um er að ræða niðurstöður umfangsmikilla rannsókna, stýrðum af sérfræðingum Landbúnaðarháskóla Íslands, sem fram fóru á um 4 ára tímabili á bæði óframræstum og framræstum mýrum í Borgarfirði.

Meginniðurstaða mælinganna er sú að frá framræstu landi á mælisvæðunum er losun hláturgass umtalsvert minni en ráðgjafanefnd loftslagssamningsins (IPCC) mælir með að nota ef ekki liggja fyrir mælingar sem sýna annað. Að mati höfunda getur skýring á lítilli losun – miðað við sambærilegt land á okkar breiddargráðum – einkum legið í uppsöfnuðu áfoki og eldfjallaösku sem breytir eiginleikum jarðvegsins. Þessi steinefnaviðbót fyllir upp í stærri holrými jarðvegsins og sveiflur í vatnsinnihaldi jarðvegsins verða hægari, en vatnsinnihald og sér í lagi sveiflur á því getur ráðið miklu um myndun hláturgass í jarðvegi. Gosefni sem berast í jarðveginn hafa einnig þau áhrif að fosfór, sem er til staðar í jarðvegi, verður ekki eins aðgengilegur þeim örverum sem taka þátt í þeim fjölmörgu ferlum sem mynda hláturgasið. Hér eru því mögulega önnur ferli ríkjandi í framleiðslu á hláturgasi en annarstaðar, þetta á þó eftir að rannsaka betur. Í þriðja lagi má nefna að í þó nokkrum tilvikum mældist upptaka á hláturgasi úr andrúmsloftinu. Það kann líka að stafa af breyttu vægi einstakra örveruferla. Sú upptaka vegur á móti losuninni þannig að heildarlosun verður minni.

Greinin er mikilvægur liður í að koma á framfæri niðurstöðum rannsókna á losun gróðurhúsalofttegunda frá votlendi á Íslandi til þess að hægt verði að bæta mat á losun frá framræstum mýrum sem og árangur endurheimtar.

Greinina í heild má nálgast hér

Taka skal fram að rannsóknin var staðbundin mæling á losun á hláturgasi. Það er síðan ákvörðun viðkomandi stofnana (Land og Skógur og UST) hvort niðurstöður rannsóknarinnar séu teknar inn í losunarbókhald fyrir allt landið.

Í dag er í bókhaldinu stuðst við innlendar bráðabirgðaniðurstöður, sem sýna minni losun en kemur fram í þessari grein. Verði niðurstöður þessarar rannsóknar ekki teknar upp í landsbókhaldið má búast við því að styðjast þurfi í bókhaldinu við stuðla IPCC, sem eru verulega hærri en núverandi viðmið og niðurstöður þessarar rannsóknar.

Vonbrigði með tillögur Strandanefndar

Drangsnes. Mynd: Sturla Páll Sturluson.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps lýsir yfir vonbrigðum með tillögur Strandanefndar og telur að ekki hafi verið unnið áfram með fjölda hugmynda sem komu fram í upphafi en einblínt hafi verið á verkefni sem þegar eru komin í farveg.

Tillögurnar hafa ekki verið birtar.

Tildrögin eru að í byrjun nóvember 2023 sendu sveitarstjórnir á Ströndum erindi til forsætisráðherra og
óskaði eftir því að ríkisstjórn skipi landshlutanefnd um aðgerðir á Ströndum sem lúti að fjárfestingum, verkefnum stofnana og búsetuskilyrði á Ströndum.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps segir að tillögur nefndar forsætisráðherra um málefni Stranda liggi nú fyrir og þar séu útlistaðar fjórar aðgerðir sem nefndin leggur til að gripið verði strax í.

Bókun sveitarstjórnarinnar er eftirfarandi:

„Sveitarstjórn þakkar Forsætisráðuneytinu fyrir frumkvæði að þessari vinnu með það að leiðarljósi að styrkja samfélögin á Ströndum sem mikil þörf er á.
Sveitarstjórn lýsir yfir vonbrigðum með skýrsluna og telur að ekki hafi verið unnið áfram með fjölda hugmynda sem komu fram í upphafi en einblínt var á verkefni sem þegar eru komin í farveg.
Þrátt fyrir góða punkta í skýrslunni telur sveitarstjórn að niðurstaðan hafi verið sú að ekki voru nýtt þau tækifæri sem til staðar eru.“

Vilja aðflugsljós á Bíldudalsflugvöll

Bíldudalsflugvöllur.

Heimastjórn Arnarfjarðar hefur sent bæjarráði Vesturbyggðar bókun sína um aðflugsljós á Bíldudal og nauðsyn þess að þau verði sett upp sem fyrst.

Þar segir að heimastjórn Arnarfjarðar leggi mikla áherslu á að aðflugsljós við Bíldudalsflugvöll verði í forgangi við vinnu við samgönguáætlun vegna mikilvægis flugvallarins sem sjúkraflugvallar og sem samgönguleiðar inn á sunnanverða Vestfirði.
„Heimastjórn Arnarfjarðar hvetur bæjarstjórn Vesturbyggðar til að leggja áherslu á að aðflugsljós við flugvöllinn á Bíldudal verði sett upp sem allra fyrst til að auka öryggi í aðflugi að flugvellinum og tryggja að hægt sé að lenda á flugvellinum allan sólarhringinn. Sjúkraflug á Bíldudal jafngildir sjúkrabíl til að koma sjúklingum sem fyrst undir læknishendur í Reykjavík.
Brýnt er að koma uppsetningu aðflugsljósa inn í fyrsta hluta samgönguáætlunar og í forgangsröðun í
framkvæmdaáætlun Isavia sem ber ábyrgð á innanlandsflugi. Jafnframt verði að tryggja að stöðugar endurbætur á flugleiðsögn og tækninýjungar þar að lútandi skili sér í uppbyggingu og viðhaldi á aðstöðunni á Bíldudalsflugvelli til að tryggja öryggi sjúkraflugs og farþegaflugs.“


Heimastjórnin segir í ályktun sinni að Bíldudalsflugvöllur sé skilgreindur sem flugvöllur í grunnneti samgangna og gegni veigamiklu hlutverki í samgöngum á Vestfjörðum. Fjórðungsþing Vestfirðinga hafi ítrekað ályktað um nauðsyn þess að flugöryggi sé tryggt á Vestfjörðum með sérstakri áherslu á flugleiðsögn og gervihnattarflugleiðsögn á vestari hluta landsins og að þeirri uppbyggingu beri að flýta sem mest.

Ísafjörður: misjafn undirbúningur 17. júní hátíðahalda

Fram kemur í minnisblaði upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar um gang hátíðahalda á 17. júní 2024 á Ísafirði að skipulag hafi gengið nokkuð vel en að undirbúningi var að sumi leyti áfátt.

Annað árið í röð var boðið upp á barnaskemmtun Kómedíuleikhússins og andlitsmálun á Eyri áður en hátíðahöldin hófust á sjúkrahústúninu. Ánægja virðist vera með þetta fyrirkomulag og lagt er til að því verði haldið áfram. Hins vegar týndist andlitsmálningin enn einu sinni og fannst fyrir tilviljun inni í íþróttahúsi.

Hestar voru í boði fyrir börn á hátíðahöldunum eftir nokkurt hlé og var mikil ánægja með það.

Fánaberar hafa oftast komið úr röðum skátafélagsins sem nú er ekki lengur starfandi. Síðustu ár hefur verið leitað til nýstúdenta og björgunarsveitarfólks til að bera fána en illa gekk að finna fánabera í ár. Úr varð að þjóðbúningaklæddar kvenfélagskonur úr Hvöt tóku að sér að bera fánana að þessu sinni en því var reddað samdægurs. Best væri að finna einhvern félagsskap sem væri til í að taka þetta að sér til frambúðar segir í minnisblaðinu.

Tjöldin voru í slæmu ástandi. Beiðni um flutning á tjöldum kom of seint til áhaldahússins, daginn fyrir 17. júní, sem var sunnudagur.

Rafmagn á túninu var í einhverju ólagi og tók það körfuna nokkurn tíma að koma því í lag á 17. júní, sem tafði undirbúning sölu.

Nauðsynlegt er að tryggja að salernisaðstaða sé á hátíðarsvæði. Einfaldast er að hafa opið inn í Safnahús en þá þarf að óska eftir því með góðum fyrirvara og setja upp merkingar um að það sé opið að aftan á meðan formleg dagskrá fer fram framan við húsið.

Lagt er til að flagga á fánastöngum við Stjórnsýsluhúsið, Silfurtorgsmegin til að auka á hátíðleikann.

Reynt var að endurvekja kassabílarallí en engin þátttaka var í keppninni.

Cruise Iceland: vilja fresta afnámi á tollfrelsi skemmtiferðaskipa

Hafnarstarfsmenn við síðasta skipið í sumar. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Cruise Iceland og aðildarfyrirtæki hafa lýst yfir verulegum áhyggjum af ákvörðun
stjórnvalda um að afnema tollfrelsi skemmtiferðaskipa á hringsiglingum sem taka á gildi 1. janúar nk. Ákvörðuninni hafði verið frestað um eitt ár vegna viðvarana frá Cruise Iceland og annarra hagaðila.

Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis var því beint til stjórnvalda að taka málið aftur til skoðunar í samráði við hagsmunaaðila og að brýnt væri að meta fjárhagslegar afleiðingar afnáms tollfrelsisins.
Þetta hefur enn ekki verið gert og nú eru aðeins þrír mánuðir þangað til tollfrelsið verður afnumið með ómældum skaða fyrir íslenska ferðaþjónustu og tengda hagaðila segir í tilkynningu frá samtökunum.

Það er varlegt mat Cruise Iceland að áætlaðar tekjur af hringsiglingum um landið skemmtiferðskipa sem breytingin beinist að beinar tekjur af hafnargjöldum, áætlaðri eyðslu ferðamanna, opinberum gjöldum, olíusölu, flugfargjöldum og þjónustu séu um 10.7 milljarðar króna.

Stjórn Cruise Iceland hefur því samþykkt eftirfarandi ályktun:


„Það er á forræði stjórnvalda að leggja mat á íþyngjandi efnahagsleg áhrif fyrir íslenskt atvinnulíf og ábyrgð kjörinna fulltrúa er mikil ef ákvörðunin leiðir til höggs á íslenska ferðaþjónustu og ekki síst ef brothættar byggðir verða verst úti eins og útlit er fyrir en þær njóta heimsókna skipafélaga á hringsiglingu sérstaklega.
Þar sem stjórnvöld hafa ekki enn lagt mat á tjónið af aðgerðinni hvetur Cruise Iceland til þess að afnámi tollfrelsisins verði frestað um tvö ár á meðan lagt er fullt mat á hagræn áhrif þess.“

Cruise Iceland eru samtök 25 hafna og 11 þjónustufyrirtækja. Meðal þeirra eru Ísafjarðarhafnir, Vesturbyggð og Vesturferðir.

Byggðastofnun eykur verulega fjárframlög til brothættra byggða

Stjórn Byggðastofnunar samþykkti á fundi sínum þann 26. september sl. að veita 135 m.kr. viðbótarfjárframlagi inn í verkefnið Brothættar byggðir til að auka viðspyrnu í byggðarlögum sem eru í vörn. Framlagið skiptist á þrjú ár, 2025-2027. Viðbótin verður nýtt til þess að fjölga þátttökubyggðarlögum, lengja gildistíma nýrra samninga og auka þannig stuðning við frumkvæðisverkefni.  Þá verður nú tveimur fyrrum þátttökubyggðarlögum, sem áfram eru í varnarbaráttu, boðið til samstarfs í tilrauna-/átaksverkefni til að fylgja eftir árangri í þeim byggðarlögum.

Verkefnið hófst á árinu 2012 og hefur verið í gangi í rúman áratug.  Undanfarið ár hefur verkefnið verið til skoðunar hjá stofnuninni og m.a. var samið við KPMG um að meta áhrif og verklag verkefnisins og möguleg sóknarfæri.  Töluverð eftirspurn er eftir þátttöku  verkefninu og það hefur víða stuðlað að jákvæðum byggðaáhrifum.

Á næstu vikum verður unnið að nánari útfærslu verkefna í samstarfi við hlutaðeigandi aðila.

Hljómar kunnuglega ekki satt?

Mjög langur vegur er frá því að helztu lögspekingar landsins séu einróma í þeirri afstöðu að rétt sé að frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem kennt hefur verið við bókun 35 við EES-samninginn, verði að lögum þrátt fyrir fullyrðingar stjórnvalda um annað. Frumvarpið felur sem kunnugt er í sér að bundið verði í lög að regluverk frá Evrópusambandinu sem innleitt er hér á landi í gegnum samninginn hafi forgang gagnvart innlendri lagasetningu.

Við Íslendingar fengum síðast að heyra fullyrðingar um meinta einróma afstöðu hérlendra lögspekinga þegar þáverandi vinstristjórn reyndi ásamt stjórnvöldum í Hollandi og Bretlandi auk ráðamanna Evrópusambandsins að koma Icesave-skuldaklafa Landsbanka Íslands á herðar okkar. Þá var málflutningur stjórnvalda sá að við yrðum að sætta okkur við það, við hefðum ekkert val, ekki væri hættandi á það að fara dómstólaleiðina og að um þjóðréttarlega skuldbindingu væri að ræða. Hljómar kunnuglega ekki satt?

Málið varðandi frumvarp Þórdísar er fyrir vikið í raun miklu stærra en til að mynda bæði Icesave-málið og þriðji orkupakki Evrópusambandsins hér um árið. Frumvarpið nær þannig ekki einungis til tilskipunar sambandsins um innistæðutryggingar eins og í Icesave-málinu eða þeirra lagagerða sem tilheyra þriðja orkupakkanum heldur allra lagagerða tengdum bæði fjármálageiranum sem komið hafa og munu koma í gegnum EES-samninginn, allra lagagerða að sama skapi varðandi orkumálin og alls annars í gegnum hann.

Óútskýrður viðsnúningur

Verði frumvarp Þórdísar að lögum verður til ný forgangsregla í íslenzkum rétti. Ólíkt þeim forgangsreglum sem þegar gilda um almenna lagasetningu, þar sem yngri lög ganga fyrir eldri og sértækari fyrir almennari, mun nýja reglan miðast við það eitt að um sé að ræða innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Ástæðan er einkum sú að löggjöf sambandsins nýtur forgangs gagnvart löggjöf ríkja þess og krafa gerð um að hið sama gildi um Ísland vegna aðildar landsins að samningnum.

Málið hófst árið 2012 þegar Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) óskaði eftir upplýsingum um það hvernig bókun 35 hefði verið innleidd hér á landi. Tæpum tuttugu árum eftir að EES-samningurinn tók gildi. Fram að því höfðu engar athugasemdir verið gerðar í þeim efnum. Mikil samskipti áttu sér stað við ESA í rúman áratug þar sem stjórnvöld vörðu þá leið sem farin var og höfnuðu kröfu stofnunarinnar. Frumvarp Þórdísar var síðan lagt fram í marz 2023 þvert á fyrri málflutning stjórnvalda. Viðsnúningur sem enn er óútskýrður.

Viðsnúningurinn er raunar enn undarlegri í ljósi minnisblaðs utanríkisráðuneytisins til utanríkismálanefndar Alþingis árið 2020 þar sem reifuð voru í átta liðum helztu mótrök Íslands gegn kröfu ESA eins og fjallað var um í Morgunblaðinu 26. apríl 2023. Þar var meðal annars bent á tómlæti ESA í áratugi og að lagabreyting, líkt og frumvarp Þórdísar kveður á um, væri tæplega möguleg án veigamikillar stjórnarskrárbreytingar sem óvíst væri að þjóðin yrði reiðubúin að sætta sig við. Ófáir lögspekingar eru sama sinnis.

„Framtíð lýðræðis á Íslandi“

Tveir fyrrverandi hæstaréttardómarar hafa til að mynda lýst þeirri afstöðu sinni að bókun 35 samrýmist ekki stjórnarskrá lýðveldisins, þeir Markús Sigurbjörnsson og Jón Steinar Gunnlaugsson. Alvarleg varnaðarorð hafa eins verið viðruð af Stefáni Má Stefánssyni, lagaprófessor og helzta sérfræðingi landsins í Evrópurétti, sem sat í upphaflegri nefnd stjórnvalda sem taldi EES-samninginn standast stjórnarskrána. Hins vegar var það mat byggt á afgreiðslu bókunar 35 á þann hátt sem gert var og ætlunin er nú að breyta.

Fram kom enn fremur í umsögn um frumvarp Þórdísar sem Stefán Már sendi til utanríkisráðuneytisins í byrjun marz 2023 ásamt Arnaldi Hjartarsyni, aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, að sú breyting á lögum um Evrópska efnahagssvæðið sem frumvarpið myndi hafa í för með sér vekti ekki aðeins upp áleitin stjórnskipuleg álitamál „heldur einnig almennar spurningar um hlutverk Alþingis og framtíð lýðræðis á Íslandi.“ Færa þeir þar haldbær rök fyrir því að efni frumvarpsins standist í reynd ekki lögfræðilega skoðun.

Fullyrða má þannig svo gott sem að Ísland hefði ekki orðið aðili að EES-samningnum fyrir 30 árum ef litið hefði verið svo á að innleiða þyrfti bókun 35 við samninginn eins og reynt hefur verið af hálfu stjórnvalda og enn á að reyna. Bæði sé horft til umræðna á vettvangi stjórnmálanna á þeim tíma og í röðum lögspekinga. Hvernig staðið var að málum í upphafi var í raun ein helzta forsenda þess að af aðildinni varð. Krafan um forgang regluverks Evrópusambandsins felur því í raun í sér algeran forsendubrest í þeim efnum.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Nýjustu fréttir