Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 259

Ísafjarðarbær: bæjarráð vill sameina tvær nefndir

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar vill sameina fræðaslunefnd og íþrótta- og tómstundanefnd  undir heitinu skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd og að nefndin verði skipuð fimm aðalfulltrúum og fimm til vara. Ný nefnd taki til starfa 1. janúar 2024. 

Málið fór til umsagnar í fræðslunefnd sem tók vel í hugmyndina. Íþrótta- og tómstundanefnd setti sig ekki upp á móti tillögunni en bókaði ag hún hefði verulegar áhyggjur af vægi íþrótta- og tómstundamála innan sameinaðar nefndar. Fulltrúar Í-listans í nefndinni lögðu til að nefndarmönnum verði fjölgað í sameinaðri nefnd til að tryggja að málaflokkurinn fái sína fulltrúa.

Það var hins vegar ekki niðurstaða bæjarráðs, sem leggur til að nýja nefndin verði skipuð fimm fulltrúum eins og þær nefndir sem lagðar verða niður. Bæjarráðið leggur þó til við bæjarstjórn að hafa í huga sjónarmið íþrótta- og tómstundanefndar um að málaflokkurinn fái vægi við skipan nýrra nefndarmanna.

Málið fer til bæjarstjórnar sem tekur það fyrir til afgreiðslu.

Ísfirðingur með myndlistarsýningu í Helsinki

Hulda Leifsdóttir,myndlistarmaður.

Ísfirðingurinn Hulda Leifsdóttir, sem býr í Rauma í Finnlandi opnaði um helgina myndlistarsýninguna Eldur og ís í Galleria Käytävä sem er í sendiráði Íslands í Helsinki í Finnlandi. Sýningin verður opin til 7. janúar á næsta ári. Um er að ræða sölusýningu. Þau sem vilja koma og sjá sýninguna geta hringt í sendiherrabústaðinum og samið um tíma til að koma á staðinn.

Við sama tækifæri var Tapio Koivukari, sem margir Vestfirðingar þekkja , með ljóðalestur og kynnti ljóðabók sína „Innifirði“.

Loks var sama dag haldið jólaball hjá Íslendingafélaginu ogsungið og dansað í kringum jólatréð. Sendiherra Íslands er Harald Aspelund sem á ættir sínar til Ísafjarðar.

Hjónin Hulda Leifsdóttir og Tapio Koivukari.

Ísfirðingurinn Hulda Leifsdóttir og Bolvíkingurinn Rögnvaldur K. Kristinsson.

Hulda ásamt sendiherrahjónunum Harald Aspelund og Ásthildi Björg Jónsdóttur.

Dansað var í kringum jólatréð í viðeigandi klæðnaði.

Fimm Vestfirðingar fá listamannalaun

Eiríkur Örn Norðdahl.

Tilkynnt var í gær um úthlutun listamannalauna fyrir næsta ár. Til úthlutunar úr launasjóðnum eru 1600 mánaðarlaun úr sex launasjóðum: hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda, sviðslistafólks, tónlistarflytjenda og tónskálda. Fjöldi umsækjenda var 1.032, þar af 924 einstaklingar og 108 sviðslistahópar. Úthlutun fær 241 listamaður.

Mánaðarleg upphæð starfslauna listamannalauna árið 2024 verður tilkynnt eftir að fjárlög ársins hafa verið samþykkt á Alþingi. Starfslaun listamanna árið 2023 voru 507.500 kr. Um verktakagreiðslur er að ræða.

Úr launasjóði rithöfunda var úthlutað 555 mánaðalaunum. Þar fengu tveir Vestfirðingar úthlutun. Eiríkur Örn Norðdahl, Ísafirði fékk 12 mánaða laun og Dýrfirðingurinn Vilborg Davíðsdóttir fékk 9 mánaða laun.

Vilborg Davíðsdóttir.

Elfar Logi Hannesson frá Bíldudal fékk þriggja mánaða laun úr launasjóði sviðslistafólks.

Úr launasjóði tónlistarflytjenda fékk Ísfirðingurinn Herdís Anna Jónasdóttir þriggja mánaða laun.

Uppfært kl 12:00: Ísfirðingurinn Rannveig Jónsdóttir fékk 6 mánaða laun úr launasjóði myndlistarmanna. Hefur fyrirsögn fréttarinnar verið breytt til samræmis.

VARAÐ VIÐ HÁGÆÐA KÍSILHREINSI

Umhverfisstofnun vekur athygli á innköllun á vörunni Hágæða kísilhreinsi (Bio-Clean Hard Water Stain Remover). Innflytjandi vörunnar er Marpól ehf.

Umhverfisstofnun barst ábending um að varan væri líklega ekki merkt í samræmi við þá hættu sem gæti stafað af innihaldsefnum hennar.

Eftirlit stofnunarinnar leiddi í ljós að merkingar á umbúðum vörunnar eru ekki í samræmi við ákvæði efnalaga nr. 61/2013, reglugerðar nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna og upplýsingar sem fyrirtækið afhenti varðandi hættuflokkun hennar.

Að auki eru merkingar á vörunni sem gefa til kynna skaðleysi hennar en slíkt er óheimilt.

Í ljósi framangreinds stöðvar Umhverfisstofnun markaðssetningu vörunnar tímabundið og gerir kröfu um innköllun.

Þeir sem keypt hafa vöruna er bent á að skila henni til Marpól sem er staðsett að Dalbrekku 15, 200 Kópavogi, þar sem nauðsynlegar hættumerkingar vantar.

Orð ársins í Reykhólahreppi

Það er ýmislegt sem hefur gerst á árinu sem er að líða, því er íbúum Reykhólahrepps boðið að kíkja í baksýnisspegilinn og tilnefna orð sem hefur verið mikið notað, orð sem hefur haft áhrif í samfélaginu eða orð sem átti að hafa áhrif en gerði það ekki.

Orð sem allir þekkja eða orð sem er bara notað í vinahópnum.

Orð með sterkum íslenskum grunni eða slangur.

Á vef Reykhólahrepps segir að þetta sé mest til gamans gert og þar má finna upplýsingar um það hvernig á að koma orði ársins á framfær.

Fjórðungssamband Vestfirðinga með útboð á þjónustu skipulagsráðgjafa

Ríkiskaup, fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga kt. 700573-0799 óska eftir tilboðum í þjónustu skipulagsráðgjafa við undirbúning og gerð svæðisskipulags Vestfjarða.

Svæðisskipulagið marki meginstefnu og langtímaframtíðarsýn í umhverfis- og byggðamálum Vestfjarða, þar sem hagsmunir sveitarfélaganna fari saman til að stuðla að uppbyggingu Vestfjarða sem landfræðilegri, hagræni og félagslegri heild sem styrkir byggðaþróun á Vestfjörðum til framtíðar.

Allar nánari upplýsingar er að finna í rafrænu útboðskerfi Ríkiskaupa.

Eftirlit Fiskistofu með ómönnuðum loftförum í desember

Eftirlitsmenn Fiskistofu munu  í desember eins og alla aðra mánuði fljúga ómönnuðum loftförum til eftirlits og vilja minna á að allar upptökur eru skoðaðar vel og fiskur sem fer fyrir borð er tegundargreindur.

Fiskistofa vil því biðja sjómenn og útgerðaraðila að kynna sér vel reglur og lög um stjórn fiskveiða.

Atriði sem þarf að hafa í huga eru meðal annars þessi:

  • Óhætt er að sleppa hlýra og ef hann er lífvænlegur.
  • Skylt er sleppa beinhákarli, háfi og hámeri, ef lífvænleg.
  • Heimilt er að sleppa lífvænlegri tindaskötu.
  • Sleppa á grásleppu sem fæst í  þorskfiskanet.
  • Heimilt er að sleppa lífvænlegum rauðmaga við hrognkelsaveiðar.
  • Komi lúða um borð í veiðiskip sem meðafli á umsvifalaust að sleppa lífvænlegri lúðu.
  • Við línuveiðar skal sleppa allri lúðu með því að skera á taum línunnar.
  • Við handfæra- og sjóstangaveiðar á að losa lúðu varfærnislega af krókum eða skera á lykkju slóðans áður en lúða kemur um borð.

Alþingi: 10 m.kr. til Vatneyrarbúðar á Patreksfirði

Aðalstræti 1 Patreksfirði, Vatneyrarbúð var reist 1916 og er ytra borð hússins friðlýst.

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til að Matvælaráðuneytið fái á næsta ári 10 m.kr. hækkun á rekstrartilfærslufé.

Í skýringum með tillögunni segir að lagt sé til að Vesturbyggð fái 10 m.kr. tímabundið framlag til uppbyggingar Vatneyrarbúðar að Aðalstræti 1, Patreksfirði. Fram kemur að unnið er að stofnun þekkingarseturs í húsnæðinu sem m.a. á að hýsa rannsóknar- og þróunarsetur fiskeldis og skapa vettvang í nærumhverfi fiskeldis fyrir einstaklinga og stofnanir sem vinna að rannsóknum og eftirliti í fiskeldi og tengdum greinum.

Meistaraflokkur karla í körfuknattleik – enn ósigraðir

Leikur KKD Vestra og KFG í Garðabænum var nokkuð líflegur. Eitthvað var um meiðsli hjá liðinu og voru Birgir Örn, Magnús og Jón Gunnar ekki með í leiknum vegna meiðsla. Mikilvægt fyrir aðra leikmenn að stíga upp. En eins og Pétur hefur spilað með mannskapinn þá hafa allir liðsmenn fengið tækifæri í öllum leikjum og það er mikilvægt þegar svona aðstæður koma upp. Leikurinn var heilt yfir nokkuð jafn, en Vestri var þó alltaf með nokkurra stiga forskot sem þeir gáfu í raun aldrei eftir. Í liði KFG eru m.a. ungir og sprækir liðsmenn Stjörnunnar sem eru á venslasamningi við KFG. Undir lok leiksins þá voru það Vestra strákarnir sem voru sterkari og leikurinn endaði 85-70 fyrir Vestra.

Sem fyrr eru það lykilleikmenn liðsins Jonathan Braeger og Sigurður Þorsteinsson sem mynda hryggjarstykkið í liðinu. Þá hefur Elmar Baldursson líka vaxið sem leikmaður og er hann nú kominn í æfingahóp U20, sem er góður árangur fyrir kappann og Vestra. Þá eru einnig í meistaraflokkshópnum strákar sem hafa verið tekið þátt í yngri landsliðsæfingum en Haukur Fjölnisson er í æfingahóp U16 drengja.

Stigaskor liðsins dreifðist með eftirfarandi hætti: Jonathan 37, Sigurður Þ 19, Elmar 1, James 9, Haukur 3, Hjálmar 3, Frosti 3.

8. flokkur stúlkna lagði land undir fót og spiluðu 4 leiki í Fjölnishöllin, þar töpuðust allir leikirnir, en stelpurnar lögðu sig allar fram og baráttan til fyrirmyndar.

Þá var 8. flokkur drengja Vestra að keppa á Ísafirði um helgina hér á Ísafirði í fjölliðamóti, 4 leikir spilaðir bæði í Bolungarvík og á Ísafirði. Auk þess voru lið Hamars, Þórs Akureyri, Tindastóls og Vals að keppa í fjölliðamótinu sem tókst vel. 8. Flokkurinn spilaði vel, tapaði 2 leikjum en vann 2 leiki. Sigurleikirnir voru naglíbítar sem unnust á síðustu sekúndum leiksins.

12 flokkur drengja, héldu áfram á sigurbraut og sigruðu leik sinn við ÍR B.

Þá er afar ánægjulegt að geta sagt frá því að 10 leikmenn yngri flokka Vestra eru í æfingahópum yngri landsliða í körfuknattleik.

Ísafjarðarbær tekur yfir stöðu framkvæmdastjóra HSV

Fyrir liggja drög að nýjum samningi milli Ísafjarðarbæjar og HSV, Héraðssambands Vestfirðinga, en núgildandi samningur rennur út um næstkomandi áramót. Lagðar eru til nokkrar breytingar frá gildandi samningi.

Helstu breytingar á samningnum eru:

  • Staða framkvæmdastjóra HSV mun færast til Ísafjarðarbæjar og rekstrarstyrkur Ísafjarðarbæjar til HSV minnkar sem samsvarar launagreiðslum og rekstri skrifstofu HSV.
    Starfið verður auglýst skv. reglum Ísafjarðarbæjar og mun starfsmaðurinn sinna mörgum verkefnum sem HSV var með áður skv. samningi við Ísafjarðarbæ.
  • Íþróttaskóli HSV færist yfir til Ísafjarðarbæjar ásamt stöðu yfirþjálfara. Nýr starfsmaður á skóla- og tómstundasviði mun hafa umsjón með skólanum ásamt yfirþjálfara.
  • Ísafjarðarbær hefur lagt til íbúðarstyrk í formi afnota af fimm íbúðum Fasteigna Ísafjarðarbæjar. Þær eru nú aðeins úthlutaðar til 1. september 2024 þar sem Ísafjarðarbær hyggst selja íbúðirnar. Þetta ákvæði verður endurskoðað ef seinkunn verður á sölu íbúðanna.

Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs að stjórn HSV,ásamt formönnum íþróttafélaga séu samþykkir samningsdrögunum.

Íþrótta- og tómstundanefnd vísaði samningsdrögunum til bæjarstjórnar til samþykktar.

Nýjustu fréttir