Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 258

Sjávarútvegsstefna: byggðakvóti verði boðinn upp

Svndís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Matvælaráðherra hefur birt í samráðsgátt drög að frumvarpi til laga um sjávarútveg. Þar segir að helstu nýmæli frumvarpsins byggi á tillögum starfshópa Auðlindarinnar okkar, en þar er lögð áhersla á umhverfisþátt sjálfbærar þróunar og að nýting nytjastofna taki mið af vistkerfis- og varúðarnálgun. Þá er kveðið á um verndarsvæði í hafi og að stýring veiðiálags miðist við veiðarfæri og umhverfisáhrif þeirra í stað stærðar báta. Einnig er lögð áhersla á að auka gagnsæi, er varða eigna- og stjórnunartengsl útgerða, skýra hugtök og auka aðgengi að gögnum og birtingu upplýsinga. 

Meðal þess sem lagt er til er að byggðakvóti, línuívilnun og skel- og rækjubætur verði aflagðar. Tekinn verði upp svokallaður innviðastuðningur með sölu aflaheimilda á uppboði.

Á hverju fiskveiðiári verði ráðherra heimilt að ráðstafa hlutfalli af heildarafla í óslægðum botnfiski til innviðastuðnings og skal það boðið upp til eins árs í senn. Fiskistofa skal sjá um markað fyrir uppboð aflamarksins og auglýsir eftir tilboðum. Ráðherra skuli með reglugerð kveða nánar fyrir um markað, tilboðsfresti, skilmála og framkvæmd.

Tekjur af leigu aflamarksins skulu renna í ríkissjóð til að mæta stuðningi við sjávarbyggðir. Ráðherra úthluti svo tímabundnum framlögum til innviðastuðnings í sjávarbyggðum þar sem verulega hefur dregið úr sjávarútvegi og þörf er fyrir aðra atvinnusköpun.

Ráðherra skuli með reglugerð kveða nánar á um þau skilyrði sem sjávarbyggðir þurfa að uppfylla til að fá innviðastuðning, úthlutun innviðastuðnings og hvernig stuðningurinn skiptist á milli sjávarbyggða, eftirlit og eftirfylgni.

Lagt er til að aflaheimildum sem úthlutað hefur verið árlega til núgildandi almenns byggðakvóta skv. ákvæðum laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, verði af hálfu stjórnvalda boðnar upp.

Þær tekjur sem þar skapast muni renna í ríkissjóð. Þá verði ráðherra veitt heimild til að ákveða fjárheimild í fjárlögum til að ákvarða fjárveitingu til innviðastuðnings sjávarbyggða.

Lagt er til að sjávarbyggð samkvæmt frumvarpinu sé byggðalag við sjávarsíðuna, þar sem fiskveiðar og/eða fiskvinnsla eru eða hafa verið stundaðar á síðustu 30 árum.

Ísafjarðarbær: Botnsvirkjun í Dýrafirði þarf ekki í umhverfismat

Skipulagsstofnun hefur sent til umsagnar áform landeigenda jarðanna Botns og Dranga í Dýrafirði um 5 MW rennslisvirkjun sem nýtir hluta af rennsli Botnsár og Drangár. Markmið landeigenda Botns og Dranga er að auka orkuvinnslu á Vestfjörðum á hagkvæman og umhverfisvænan máta.

Áætlað er að inntaksmannvirki og aðveituskurðir verði staðsett í allt að 450 m h.y.s. í fjarðarbotninum og þaðan liggi niðurgrafin þrýstipípa sunnan árinnar í landi Dranga um 3,5 km leið að stöðvarhúsi sem staðsett verði í um 20 m h.y.s. Stærð stöðvarhúss er áætluð allt að 150 m². Tenging virkjunarinnar yrði með jarðstreng að munna Dýrafjarðarganga.

Botnsá og Drangá eru dragár sem renna til sjávar í botni Dýrafjarðar og eiga þær upptök sín að mestu í vötnum á Glámuhálendinu.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur tekið erindið fyrir og telu ekki þörf á að fram fari mat á umhverfisáhrifum. Segir nefndin í umsögn sinni að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun eftir því sem við á í skýrslu Verkís. Það er einnig niðurstaða framkvæmdaraðila að uppbygging virkjunar í Dýrafjarðarbotni sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Að fengnum umsögnum frá ýmsum aðilum tekur Skipulagsstofnun ákvörðun um það hvort mat á umhverfisáhrifum skuli fara fram.

Tálknafjörður: sveitarstjóri greiðir 68.804 kr í húsaleigu

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri í Tálknafirði.

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri í Tálknafirði greiðir 68.804 kr. á mánuði í húsaleigu fyrir Túngötu 42a, 105 fermetra raðhúsaíbúð. Húsaleigusamningurinn er gerður í maí 2020 og er húsaleigan bundin breytingum á byggingarvísitölu frá þeim tíma. Miðað við vísitöluna í nóvember 2023 er húsaleigan 84.260 kr./mánuði.

Það er Fasteignafélagið 101 sem er leigusali en það er að öllu leyti í eigu Tálknafjarðarhrepps.

Í júní og júlí í fyrra óskaði Bæjarins besta ítrekað eftir því að fá afrit af húsaleigusamningnum en hvorki Lilja Magnúsdóttir, oddviti né Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri urðu við því.

Laun sveitarstjóra eru 1.550.000 kr. á mánuði og er kveðið á um það í ráðningarsamningnum að hann leigi íbúð við Túngötu í eigu sveitarfélagsins en ekki kemur fram hver leigufjárhæðin er.

Fiskeldisgjald hækkar líklega um 140%

Kvíar í Arnarfirði. Fiskeldið greiðir hærra gjald í ríkissjóð en greitt er af þorski.

Fiskistofa hefur birt tilkynningu á vef sínum um fiskeldisgjald fyrir næsta ár, en það er lagt á fyrirtæki með leyfi til fiskeldis í sjó. Verður gjaldið 30,77 kr. fyrir hvert slægt kg af eldislaxi.

Gjaldið er helmingur þess eða 15,39 kr/kg af regnbogasilungi, ófrjóum laxi eða laxi sem alinn er í sjó með lokuðum eldisbúnaði.

Á þessu ári er fiskeldisgjaldið 18,33 kr. fyrir hvert kg af slægðum laxi. Nemur hækkunin 68% milli ára.

Miðað er við 12 mánaða meðaltal alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi og er gjaldið 3,5% þegar verð er 4,8 evrur á kílógramm eða hærra, 2% þegar verð er 4,3 evrur á kílógramm eða hærra en þó lægra en 4,8 evrur á kílógramm og 0,5% þegar verð er lægra en 4,3 evrur á kílógramm. Gjaldið var lögfest 2019 og var fyrst innheimt fyrir árið 2020. Gjaldið verður innheimt að fullu árið 2026 en innleitt í áföngum fram að því og er á næsta ári 2024 innheimt 5/7 af fullu gjaldi.

Nær allur eldisfiskur fer í hæsta gjaldflokk 3,5%.

Tekjur af fiskeldisgjaldinu gætu orðið um 1,5 milljarður króna á næsta ári miðað við 50 þúsund tonna framleiðslu. Útgefin framleiðsluleyfi eru um 100 þúsund tonn og væru þau fullnýtt mætti ætla að tekjurnar af gjaldinu yrðu um 4,5 milljarðar króna þegar gjaldið er að fullu komið til framkvæmda árið 2026.

Frv um 5% fiskeldisgjald

Fyrir Alþingi liggur frumvarp frá fjármálaráðherra um hækkun fiskeldisgjaldsins úr 3,5% í 5% af markaðsvirði og er gert ráð fyrir að breytingin taki gildi um áramótin.

Verði frumvarpið samþykkt má ætla að fiskeldisgjaldið verði 43,96 kr./kg á næsta ári og hafi þá hækkað um 140% frá gjaldinu á þessu ári.

Til viðbótar eiga tvær áfangahækkanir eftir að koma til framkvæmda á næstu tveimur árum. Gangi þær eftir og framleiðsluleyfin verði fullnýtt gæti tekjur ríkisins af fiskeldisgjaldinu orðið rúmlega 6 milljarðar króna á ári.

Eldislaxinn tvöfalt verðmeiri skattstofn

Til samanburðar þá er veiðigjaldið sem greitt er ríkinu af veiðum á þorski 19,17 kr./kg , óslægt. Ætla má að veiðigjaldið af þorski verði um 3,8 milljarðar króna á yfirstandandi fiskveiðiári af um 200 þúsund tonna afla.

Ljóst er að eldslaxinn er þegar orðinn mun verðmeiri en þorskurinn þegar horft er til gjaldtöku ríkisins á hvert kg og stefnir í að greitt verði rúmlega tvöfalt meira af eldislaxi en þorski í ríkissjóð af hverju kg.

-k

Heiðrún ÍS 4 við síldarlöndun á Siglufirði

Heiðrún ÍS 4 er hér á mynd Hannesar Baldvinssonar að landa síld á Siglufirði.

Báturinn hét upphaflega Hafborg MB 76, hann var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA og sjósettur 6. maí árið 1944.

Hafborg MB 76 var skráð 92 brl. að stærð búið 240 hestafla Lister aðalvél. Eigandi hennar var Hf. Grímur í Borgarnesi frá 30. maí 1944. Hafborg var endurmæld 1947 og mældist þá 101 brl. að stærð.

Hún var seld í desember 1952 Rún hf. í Bolungarvík sem gaf henni nafnið Heiðrún ÍS 4. 

Árið 1956 var Listernum skipt út fyrir nýja 360 hestafla vél sömu gerðar. 

Í júní 1968 fær báturinn nafnið Vestri BA 3 þegar það er selt Jóni Magnússyni á Patreksfirði og Hjalta Gíslasyni í Reykjavík. Þeir selja síðan bátinn snemma árs 1972 og eru kaupendurnir þeir Árni Sigurðsson og Reynir Ölversson í Keflavík. Þeir nefndu bátinn, sem talinn var ónýtur og tekinn af skrá 18. desember 1973, Sólfell GK 62.
                                                           

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Vilja kvótasetja grásleppu

Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis hefur lagt fram frumvarp um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu).

Frumvarpið er byggt á áður fluttu frumvarpi matvælaráðherra frá 153. löggjafarþingi.

Í frumvarpinu segir að Fiskistofa skuli fyrir 1. mars 2024 úthluta fiskiskipum aflahlutdeild í grásleppu.

Aflahlutdeild einstakra skipa skal ákveðin með tilliti til veiðireynslu sem fengin hefur verið á grundvelli réttar til grásleppuveiða og leyfis frá Fiskistofu sem skráð er á viðkomandi skip og nýtt innan viðmiðunartímabilsins.

Við mat á veiðireynslu skal miða við þrjú bestu veiðitímabil leyfisins sem skráð er á skipið frá og með árinu 2014 til og með árinu 2022 að undanskildu árinu 2020.

Skrifað undir verksamning um gerð vegfyllinga yfir Djúpafjörð og Gufufjörð

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og Atli Þór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Borgarverks skrifuðu undir verksamning fimmtudaginn 30. nóvember vegna verksins; Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Hallsteinsnes – Skálanes, fyllingar. Verkið er fyrsti áfangi í þverun fjarðanna tveggja en brúargerðin verður boðin út síðar.

Tilboð í verkið voru opnuð 12. október. Borgarverk var með lægsta boð upp á 838 milljónir króna, eða 74 prósent af áætluðum kostnaði. Borgarverk er vel kunnugt staðháttum enda var verktakinn að ljúka við framkvæmdir við veg um Teigsskóg sem opnaður var fyrir umferð 1. desember.

Nokkur tímamót hafa því orðið undanfarið við framkvæmdir Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Brúin yfir Þorskafjörð var opnuð í síðasta mánuði sem stytti veginn um tæpa tíu kílómetra. Nú getur fólk einnig ekið um Teigsskóg og inn austanverðan Djúpafjörð í stað þess að aka yfir Hjallaháls sem er 336 m hár.

Vegfarendur þurfa áfram að aka um Ódrjúgsháls, eða þar til framkvæmdum við þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar lýkur.

Borgarverk mun hefja framkvæmdir við fyllingar yfir firðina við fyrsta tækifæri. Verkið felst í nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 3,6 km kafla en innifalið í verkinu er bygging um 119 m langrar bráðabirgðabrúar yfir Gufufjörð. Verklok þessa verks eru áætluð 30. september 2025.

Ekki liggur fyrir hvenær næsti áfangi verður boðinn út en vonast til að það verði á nýju ári.

Jólatónleikar karlakórsins Ernis

Karlakórinn Ernir á tónleikum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Nú í lok vikunnar heldur Karlakórinn Ernir sína árlegu aðventutónleika í þremur byggðakjörnum hér á norðanverðum Vestfjörðum. Fyrstu tónleikarnir verða í Félagsheimilinu á Þingeyri fimmtudaginn 7. desember kl. 20:00. Sunnudaginn 10. desember verða tvennir tónleikar, fyrst í Félagsheimilinu í Bolungarvík kl. 13:00 og svo í Ísafjarðarkirkju kl. 17:00.

Efnisskráin er að vanda fjölbreytt og jólaleg og ætti að kalla fram hátíðarandann í flestum. Stjórnandi er Jóngunnar Biering Margeirsson og meðleikari er Judy Tobin.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis í boði allmargra fyrirtækja á svæðinu.

Hjálpið Rauða krossinum að hjálpa fyrir jólin

Sjálfboðaliðar Rauða krossins um allt land leggia sig fram um að vinna mannúðarstörf þar sem sjónum er einkum beint að þeim sem minna mega sín og eru berskjaldaðir.
Sjálfboðaliðar vinna störf sín af alúð og trúmennsku og eru markmið félagsins sem grundvallast á mannúð höfð að leiðarljósi.
Þó Ísland sé skilgreint sem ein af ríkustu þjóðum heims þá eru alltaf einhverjir sem eiga erfitt með að ná endum saman. Fólk getur lent i tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, atvinnumissis e6a annars vanda og á þá rétt á lágmarks framfrærslu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Oftast dugir sú aðstoð í tímabundnum erfiðleikum, en jól og aðrir hátíðisdagar geta reynst fólki erfiðir, einkum barnafjölskyldum. Mikilvægt er að fólk geti gert sér dagamun á hátíðisdögum, farið i betri fötin sín, borðað góðan mat og gefið hvert öðru gjafir.

Þeir sem vilja við bakið á Rauða krossinum fyrir jólin geta lagt inn á reikning 556-26-1600 kt: 620780-0579 og þeir sem leita aðstoðar geta sent upplýsingar á netfangið formadur.isafjordur@redcross.is eða hringt i síma 661 5341 milli kI. 10:00 og 14:00 til föstudags 15 des.
Nafn, heimilisfang og fjölskyldustærð þarf að fylgja.


Stjóm Rauða krossins á Ísafirði

Minning: Ólafur Þ. Jónsson

F. 14. júní 1934 – D. 23. nóv. 2023.

Jarðsunginn frá Glerárkirkju 4. desember 2023.

               Hinn 24. febrúar árið 1945 fórst Es Dettifoss, skip Eimskipafélags Íslands, í hafi.  Það var að koma frá New York í Bandaríkjunum á leið til heimahafnar.  Var skipið á siglingu skammt norður af Írlandi í lítilli lest frá Belfast til Skotlands þar sem ætlunin var að taka saman við stærri flota er sigla skyldi heim til Íslands. Kafbátur mun hafa skotið á skipið og var Dettifoss sokkinn á sjö mínútum. Um borð voru 14 farþegar og 31 skipverji.  30 manns björguðust en 15 fórust.

               Tveir afkomendur Boga bónda og kaupmanns í Búðardal Sigurðssonar frá Sæunnarstöðum í Hallárdal í Vindhælishreppi, voru í skipshöfninni.   Fórst annar þeirra, brytinn á Dettifossi, Jón Sigurður Karl Kristján, sonur Boga og eiginkonu hans, Ragnheiðar Sigurðardóttur Johnsen frá Flatey á Breiðafirði. Jón lærði matreiðslu á Hótel d´Angleterre í Kaupmannahöfn. En meðal þeirra skipsmanna sem björguðust var dóttursonur Boga, Bogi Þorsteinsson loftskeytamaður síðar yfirflugumferðarstjóri á Keflavíkurflugvelli.  Hann var sonur Þorsteins bónda í Ljárskógaseli Gíslasonar og Alvildu Maríu Friðriku Bogadóttur sem Bogi eignaðist fyrir hjónaband.  Móðir Alvildu var Sigríður Guðmundsdóttir frá Kollugerði í Vindhælishreppi síðar húsfreyja á Kornsá í Undirfellssókn í Austur-Húnavatnssýslu. Alvilda átti fyrr Rögnvald Magnússon á Neðri-Brunná í Saurbæ og við honum soninn Magnús Skóg Rögnvaldsson vegaverkstjóra í Búðardal og bóksala.

               Fráafi Boga í Búðardal var Sigurður Þorsteinsson bóndi á Reykjavöllum á Neðribyggð í Skagafirði.  Hann varð úti á Kili ásamt Reynistaðarbræðrum árið 1780.  Langafi Ragnheiðar konu Boga var Bogi stúdent og fræðimaður Benediktsson á Staðarfelli höfundur Sýslumannaæva.  Seinni kona Boga var Ingibjörg Sigurðardóttir kennslukona frá Kjalarlandi í Vindhælishreppi.  Þau Bogi voru systrabörn.

               Faðir Ólafs Þ. Jónssonar var Jón bryti Bogason, móðir hans Anna Sigurrós Levoríusardóttir frá Skálum á Langanesi en  kjörmóðir Ólafs var Þórdís Finnsdóttir skipstjóra á Akureyri fyrri eiginkona Jóns Bogasonar.  Hún lést árið 1939 fertug að aldri.  Gekk Jón  síðar að eiga Friðmeyju Ósk Pétursdóttur sjómanns Sigurðssonar á Vesturgötu 51 í Reykjavík og gekk hún Ólafi í móðurstað.

               Drengur undi Ólafur, sem þá var kallaður Onni, langdvölum hjá föðursystur sinni Ragnheiði Bogadóttur frá Búðardal og eiginmanni hennar Gunnari Ólafssyni húsgagnasmíðameistara og bifreiðarstjóra næturlækna í Reykjavík. Stundum og lengstum á Frakkastíg 6a í Reykjavík en hríðum í sumarbústaðnum góða (Stóra-Klöpp núna) við Hólmsárbrú.

               Til er ljósmynd sem tekin hefur verið undir suðurhlið bústaðarins í sólskini. Á henni sést Onni litli, bráðlaglegur, klæddur dökkum jakka.  Aðrir sem borin verða kennsl á eru hjónin Gunnar og Ragnheiður og tvær dætur þeirra þær Jóhanna og Ingibjörg.

               Ólafur var stórvel gefinn, víðlesinn, róttækur mjög í viðhorfi sínu til þjóðfélagsmála og ritfær í besta lagi.  Ekki var amalegt að hlusta á hann fjalla um Skafta Þóroddsson lögmann í “Nýjustu fréttum af Njálu” sem endurfluttar voru í Ríkisútvarpinu 4. nóvember síðastliðinn í umsjá Einars Karls Haraldssonar. 

               Guð blessi minningu drengsins góða Ólafs Þ. Jónssonar.  Guð verndi, huggi og styrki ástvini hans alla.

               Gunnar Björnsson, pastor emeritus. 

Nýjustu fréttir