Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 257

Patreksfjörður: Slysavarnardeildin Unnur með námskeið í fyrstu hjálp

Félagskonur í Slysavarnardeildinni Unni á Patreksfirði eru ekki þekktar fyrir að sitja auðum höndum en nú á dögunum bauð deildin upp á námskeið í fyrstu hjálp. Það voru 14 vaskar félagskonur sem sátu 12 tíma námskeið í fyrstu hjálp. Á námskeiðinu var lögð áhersla á hvað ber að hafa í huga þegar komið er að slysi, skoðun og mat á slösuðum eða veikum einstakling og hvaða skyndihjálp sé rétt að beita þar til frekari aðstoð berst.

Vísindaportið: Eiríkur Örn Norðdahl

Að yrkja úr myndum: heimildir og skáldskapur í Náttúrulögmálunum

Föstudaginn 8. desember kl 12:10 í húsnæði Háskólaseturs Vestfjarða Ísafirði.

Rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl segir frá notkun sinni á heimildum – ljósmyndum, bæjarblöðum og sagnfræðiritum – við skrif skáldsögunnar Náttúrulögmálin. Náttúrulögmálin er söguleg skáldsaga þar sem brugðið er á leik með heimildir og staðreyndir svo úr verður karnivalísk og bráðskemmtileg frásögn af kaupstaðarlífi Ísafjarðar á miklum umbreytingartímum í sögu þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar.

Snemmsumars árið 1925 kallar yngsti, fegursti og jafnframt óviljugasti biskup Íslands, séra Jón Hallvarðsson, til prestastefnu á Ísafirði. Megintilgangurinn virðist vera að storka þjóðtrú landans og sýna mátt kristindómsins frammi fyrir hindurvitnum, spíritisma og náttúruöflum. En með uppátæki sínu hleypir biskup af stað ófyrirsjáanlegri sjö daga atburðarás þar sem náttúra staðarins kallast á við náttúru mannsins.

 Eiríkur Örn Norðdahl (1978)er rithöfundur, þýðandi og tilraunaljóðskáld. Hann hefur gefið út níu skáldsögur, nú síðast Náttúrulögmálin (2023). Hann hefur þrívegis verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut þau fyrir skáldsöguna Illsku, en fyrir hana fékk hann líka Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, frönsku Transfuge-verðlaunin (sem hann hlaut aftur fyrir Heimsku) og var bókin auk þess tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Medici-verðlaunanna og Prix Meilleur Livre Étranger. Eiríkur hefur einnig gefið út átta ljóðabækur, eina jólabarnahryllingsbók, ritstýrt tveimur bókum um ljóðlist, gefið út safn ritgerða um ljóðlist á ensku og skrifað stutta bók um bókaþjófnað og höfundarrétt. Þess utan hefur hann þýtt fjölda bóka, þar á meðal valin ljóð eftir Allen Ginsberg, safn erlendra framúrstefnuljóða og skáldsöguna Móðurlaus Brooklyn eftir Jonathan Lethem, en fyrir þá síðastnefndu hlaut hann íslensku þýðingarverðlaunin 2008. Nýjasta þýðing hans er Hvítsvíta eftir Athenu Farrokhzad, sem kom út árið 2017 hjá Máli og menningu.

Eiríkur hefur verið staðarskáld í Vatnasafninu á Stykkishólmi, í boði Stykkishólmsbæjar og listasjóðsins Art Angel, sem og í Villa Martinson í Jonsered í Svíþjóð (2015) og í AIR Krems í Austurríki (2018). Árið 2010 hlaut Eiríkur viðurkenningu úr Fjölíssjóði. Eiríkur var Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2014-2015. Hann hefur hlotið aukaverðlaun Ljóðstafs Jóns úr Vör, Menningarverðlaun DV 2017 fyrir ljóðabókina Óratorrek, sérstaka viðurkenningu á kvikljóðahátíðinni Zebra Poetry Film Festival í Berlín, Sparibollann fyrir fegurstu ástarjátninguna og Rauðu fjöðrina, erótísk stílverðlaun lestrarfélagsins Krumma.

Ísafjarðarbær: 1.324 m.kr. í framkvæmdir á næsta ári

Sundahöfn. Dýpkunarskipið siglir framhjá skemmtiferðaskipi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur afgreitt frá sér tillögu að fjárfestingum næsta árs og verður hún afgreidd á bæjarstjórnarfundi seinna í dag. Samkvæmt tillögunni verða heildarframkvæmdir 1.324 m.kr. og hlutur sveitarfélagsins í þeim verður 895 m.kr.

Hafnarsjóður mun framkvæma fyrir 441,3 m.kr. Endurgreiðslur ríkisins verða 101,3 m.kr. og ber hafnarsjóður því 340 m.kr. af kostnaðinum. Langstærsta framkvæmdin er í Sundahöfn á Ísafirði er áformað er að ljúka framkvæmdum þar næsta sumar. Ein milljón er sett í framkvæmdir í Þingeyrarhöfn.

Framkvæmdir við ofanflóðamannvirki verða 300 m.kr. og greiðir ríkið 270 m.kr. af þeim kostnaði. Um er að ræða mannvirki á Flateyri. Til íþróttamannvirkja verður varið 120 m.kr., 67 m.kr. til gatnaframkvæmda, 69 m.kr. til húsnæðis og 27 m.kr. til skólahúsnæðis. Til opinna svæða eru áætlaðar 33 m.kr. og 35 m.kr. til bifreiða, véla og tækja.

Tekjur af gatnagerðargjöldum eru áætlaðar 30 m.kr.

Til framkvæmda við fráveitur eru settar 143 m.kr. og gert ráð fyrir að fá í tekjur 28 m.kr. Vatnsveituframkvæmdir verða 65 m.kr., til Funa er varið 15 m.kr. og 10 m.kr. til þjónustuíbúða.

Rafmagnshópferðabíll til Ísafjarðar

Trausti Ágútsson og Helga Héðinsdóttir við nýju bifreiðina.

Í gær afhenti bílaumboðið Askja fyrsta rafmagnshópferðabílinn til Vestfjarða. Um er að ræða 19 manna rútu sem Vestfirskar ævintýraferðir hafa fest kaup á. Fer rútan í rekstur á mánudaginn og verður í áætlunarferðum milli Ísafjarðar og Bolungavíkur.

Mikil eftirspurn er eftir þessum bifreiðum og sagði fulltrúi Öskju að bíða þyrfti á annað ár eftir fleiri rútum af þesssari gerð.

Bifreiðin er að stofni til Mercedes Benz, en er breytt í Litháen og telst hún eftir þær vera af Altas gerð. Verðið á rafmagnsbílum af þessari gerð er um tvöfalt hærra en sambærilegir dísel bílar en að teknu tilliti til fenginna styrkja, segir Trausti Ágústsson, eigandi Vestfirskra ævintýraferða, er verðið um þriðjungi hærra. Eftir því sem næst verður komist kostar venjuleg rúta knúin af díselvél af þessari gerð um 17-18 m.kr.

Hins vegar verður rekstrarkostnaður rafmagnsrútunnar umtalsvert lægri en díselknúinnar bifreiðar.

Vestfirskar ævintýraferðir eru umsvifamiklar í þjónustu við erlenda ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum til Ísafjarðar og eru með 25 rútur á sínum snærum auk þess að vera með frístundarútu og áætlunarferðir á norðanverðum Vestfjörðum.

Eigendur og starfsmenn ásamt fulltrúum Öskju og Bláma.

Fyrsti rafmagnsbíllinn af hópferðabílagerð á Vestfjörðum.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Fiskeldi: leyfi verði ótímabundin, framseljanleg og veðsetjanleg

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra flytur ávarp á ráðstefnu fiskeldisfyrirtækja.

Matvælaráðherra birti í gær í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um lagareldi. Umsagnarfrestur er til 3. janúar 2024. Um er að ræða nýja heildarlöggjöf um fiskeldi bæði í sjó og á landi. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. september 2024 og þá falli úr gildi lög um fiskeldi frá 2008 og lög frá 2019 um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð.

Lögð er til sú breyting að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis verði framvegis ótímabundin en í dag eru leyfi veitt til 16 ára. Öll rekstrarleyfi skv. lögum nr. 71/2008 um fiskeldi sem eru í gildi við gildistöku laganna skulu breytast í ótímabundin leyfi.

Laxahlutur framseljanlegur

Skilgreindur verður svonefndur laxahlutur hvers rekstrarleyfis og er lagt til að leyfilegur lífmassi í núverandi rekstrarleyfum til eldis á frjóum laxi verði umreiknaður, hvað hlutfall varðar, í fjölda laxa.

Með öðrum orðum, ef að tiltekinn rekstrarleyfishafi hefur í dag heimild sem næmi 20.000 tonnum, eða 18,78% af núgildandi 106.500 tonna hámarkslífmassa, þá myndi sami rekstrarleyfishafi öðlast rétt til eldis á 18,78% af þeim heildarfjölda laxa sem fram kæmi í reglugerð um heildarlaxafjölda og væri sú tala laxahlutur viðkomandi rekstrarleyfishafa samkvæmt lögunum.

Margfeldi laxahlutar við heildarlaxafjölda gefur svo laxafjölda viðkomandi rekstrarleyfishafa sem er sá fjöldi laxa sem rekstrarleyfishafi getur haft í sjó á hverjum tíma.

Úthlutun og skráning laxahlutar samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildum til eldis á frjóum laxi segir í 38. grein frumvarpsdraganna.

Heimilt að framselja milli svæða

Heimilt verður að framselja laxahlut til annarra rekstrarleyfishafa milli smitvarnarsvæða, sem í dag nefnast sjókvíaeldissvæði, að fenginni staðfestingu Matvælastofnunar og skal í tilkynningu greint frá kaupverði eða leiguverði laxahlutar. Heimilt verður að veðsetja rekstrarleyfi ásamt laxahlut.

Í skýringum segir að gert sé ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð skilgreint tiltekna landshluta með
þeim hætti að flutningur heimilda frá viðkomandi landshluta sé óheimill þótt að flutningur laxahlutar innan landshlutans sé frjáls.

Því má bæta við skýringuna að ráðherra getur þá líka ákveðið að framsal heimilda milli landshluta sé heimill og banda má á að að ef ráðherrann ákveður ekkert þá er framsalið heimilt milli landshluta skv. frumvarpsgreininni og hægt að flytja framleiðsluheimildir frá Vestfjörðum.

Þau takmörk eru sett á leiguframsal á laxahlut til annarra rekstrarleyfishafa að ekki verður heimilt að leigja til eldis meira en tveggja kynslóða í senn sem aldar eru óslitið af leigutaka að teknu tilliti til hvíldartíma. Að því loknu skal leigusala skylt að selja viðkomandi laxahlut eða nýta hana til eigin eldis.

-k

Pétur Ernir með hádegistónleika í Hömrum

Hádegistónleikar í Hömrum, 14. desember klukkan 12

Á þessum stuttu hádegistónleikum ætlar Pétur Ernir að flytja mjúkar ballöður ýmist úr söngleikjaheiminum eða heimi jassins. Á dagskrá verða lög á borð við When I Fall In Love og As If We Never Said Goodbye. Pétur lofar ljúfum tónum og lágstemmdri stund .

Pétur útskrifaðist frá Royal Academy of Music með fyrstu einkunn í vor.

Hann býr nú í London þar sem hann vinnur í 66° Norður á milli þess sem hann sækir prufur á stóra sviðinu og býður þess að fá stóra tækifærið.

Meðleikari á tónleikunum er Beata Joó.

Viltu verða landvörður?

Umhverfisstofnun auglýsir landvarðanámskeið 2024. Þátttaka í námskeiðinu veitir réttindi til að starfa sem landvörður. Menntaðir landverðir ganga alla jafna fyrir við ráðningar í störf.

Námskeiðið hefst 1. febrúar og lýkur 3. mars. Kennt er um helgar milli klukkan 9 og 14 og á fimmtudags- og föstudagskvöldum frá kl. 17. Námskeiðið er 110 klst.

Gert er ráð fyrir töluverðri heimavinnu til viðbótar við mætingarskyldu á fyrirlestra og umræðufundi.

Fyrirlestrar verða teknir upp en nemendur sem missa af umræðum vinna verkefni í stað umræðnanna.

Námskeiðið er fjarkennt þrjár helgar en ein staðlota verður í náminu og stendur hún frá miðvikudegi og fram á sunnudag. Sú lota er vettvangsferð haldin úti á landi og er skyldumæting í hana. Val verður um tvær helgar í febrúar fyrir staðlotu, þeir sem eru ekki í lotu eru þá í fríi á meðan.

Námskeiðið er kennt á íslensku og þurfa nemendur að vera færir að taka þátt í verkefnum á íslensku, bæði í ræðu og riti.

Örnám í háskólum eykur sveigjanleika og fjölbreytni

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur kynnt fyrirhugaðar breytingar á lögum um háskóla fyrir ríkisstjórn.

Breytingarfrumvarpið snýr annars vegar að örnámi (e. micro-credentials), sem ekki hefur verið sérstaklega tekið fyrir í lögum um háskóla fram að þessu, og hins vegar að prófgráðum úr diplóma- og viðbótarnámi. 

Um 70% þeirra sem útskrifast úr háskólum landsins eru konur og lágt hlutfall karla er áhyggjuefni.

Ein leið til að ná til fjölbreyttari hóps og m.a. auka hlut karla í háskólanámi er að ná til þeirra sem eru þegar komin á vinnumarkað og skapa tækifæri fyrir þau til að stunda nám er er stutt, sveigjanlegt og byggt upp á einingum, samhliða vinnu.

Með því að veita háskólum tæki til að hreyfa við námsframboði og auka sveigjanleika standa vonir til þess að fjölbreyttur hópur nemenda skrái sig til náms.

Þannig geti háskólarnir mætt samfélagslegu hlutverki sínu enn betur, t.a.m. gagnvart fólki af erlendum uppruna og fólki með fötlun eða aðrar sérþarfir.

Framboð á styttra námi á háskólastigi er mikilvægur þáttur í að styðja við of efla starfstengt nám ásamt því að auka sveigjanleika og fjölbreytni í námsframboði á háskólastigi. Í dag bjóða íslenskir háskólar upp á stuttar námsbrautir sem leiða til 30 eininga diplóma- eða viðbótargráða á meistarastigi. Þróunin innan samevrópska háskólasvæðisins (EHEA) hefur aftur á móti verið sú að diplóma- og viðbótargráður af þessum toga jafngilda almennt 60-90 einingum. Því til viðbótar er svo boðið upp á styttra nám, þ.e. örnám. 

Vest­ur­byggð og Tálkna­fjarða­hreppur hljóta tilnefn­ingu til Skör­ungsins

Vest­ur­byggð og Tálkna­fjarð­ar­hreppur hlutu tilnefn­ingu til Skörungsins sem eru ungmennaverðlaun á vegum Landssambands ungmennafélaga.

Sveit­ar­fé­lögin fengu viður­kenn­ingu í flokki fram­taks í þágu ungs fólks, fyrir að hafa heim­ilað 16 og 17 ára ungmennum að taka þátt í bind­andi íbúa­kosn­ingum um samein­ingu sveit­ar­fé­lag­anna

 

Verðlaunin eru veitt einstaklingum, hópum, félögum, stofnunum eða fyrirtækjum fyrir eftirtektarvert framtak í þágu hagsmuna og réttinda ungs fólks á árinu.

Verðlaunaafhendingin fór fram með hátíðlegum hætti í Mannréttindahúsinu í Reykjavík í gær 5. desember.

Móttöku verðlaunanna veittu Sólrún Elsa Steinarsdóttir og Rakel Sara Sveinsdóttir Berg sem báðar urðu 16 ára á árinu og nýttu kosningarétt sinn í íbúakosningunum um sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps.

Aðgerðir ríkisstjórnar til stuðnings bændum – 1,6 milljarður króna

Í gær voru kynntar tillögur sem þrír ráðherrar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðaherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir , fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, lögðu fyrir ríkisstjórn til stuðnings þeim bændum sem eiga í fjárhagserfiðleikum vegna núverandi efnahagsástands.

Í tillögunum er lögð áhersla á að stuðla að nýliðun og kynslóðaskiptum í greininni með aðstoð við yngri bændur sem eru undirstaða landbúnaðarframleiðslu framtíðarinnar. Jafnframt er lögð áhersla á að stuðningskerfi styðji við atvinnugreinina með skilvirkum hætti í samræmi við áherslur stjórnvalda og gagnist þeim fjölskyldubúum sem eiga í hvað mestum vanda til skemmri tíma litið vegna hækkaðs fjármagnskostnaðar og langvarandi afkomubrests.

Áætlað er að stuðningur verði greiddur til 982 bænda fyrir árslok 2023, alls 1.600 milljónir króna.

Tillögurnar eru eftirtaldar:

  • Ungbændastuðningur. Greitt verði álag á fjárfestingar í samþykktum umsóknum um nýliðunarstuðning á árunum 2017-2023, samtals 600 m.kr.
  • Viðbótarfjárfestingastuðningur. Greitt verði álag á fjárfestingu í samþykktum umsóknum um fjárfestingarstuðning í sauðfjárrækt og nautgriparækt á árunum 2017-2023, samtals 450 m.kr.
  • Viðbótarbýlisstuðningur. Greitt verði sérstakt framlag til þeirra sauðfjárbænda sem stunda sauðfjárrækt að meginatvinnu og eru með 300 vetrarfóðraðar kindur eða fleiri, samtals 450 m.kr.
  • Viðbótargripagreiðslur á holdakýr – Greitt verði sérstakt framlag til þeirra bænda sem fengu greiddar gripagreiðslur á holdakýr árið 2023, samtals 100 m.kr.
  • Áfram verði unnið að aðgerðum sem miða að því að styrkja stöðu landbúnaðar til framtíðar, svo sem varðandi lánakosti Byggðastofnunar, hagtölusöfnun í landbúnaði, afleysingarþjónustu bænda, tækifæri til hagræðingar og samstarfs og kyngreiningu á nautgripasæði.

nýliðunarstuðningur mikilvægur

Í morgun sögðust samtök ungra bænda í yfirlýsingu fagna tillögunum og segja að rekstrarskilyrðin í greininni hafi gerbreyst vegna aukinnar vaxtarbyrði til viðbótar við verulegar verðhækkanir á öllum aðföngum. 

vaxtarbyrði til viðbótar við verulegar verðhækkanir á öllum aðföngum. 

„Fyrir unga bændur skipta tillögur hópsins um nýliðunarstuðning auðvitað miklu máli. Þær eru mikilvæg skref í áttina að því að leiðrétta þá erfiðu stöðu ungra bænda sem hafa hafið búskap á síðustu árum og munu þær tryggja íslenskum sveitum líf til lengri framtíðar. Miklu munar um fjárhagslega stuðninginn sem einnig er almenn viðurkenning á því að þjóðin þurfi á ungu fólki að halda til þess að standa vörð um áframhaldandi fæðuöryggi sitt og framleiðslu fyrsta flokks matvæla við skilyrði sem væntanlega eru hvergi í heiminum betri en einmitt á Íslandi.“

En samtökin benda á að þótt öllum stuðningstillögum verði hrint í framkvæmd sé ljóst að áfram verður til staðar stórt gat í rekstri fjölmargra bænda sem ýmist falla undir þessar stuðningsaðgerðir eða ekki. Bændur muni áfram þurfa að drýgja tekjur sínar til að mynda með aukavinnu utan búrekstursins með tilheyrandi fórnarkostnaði gagnvart fjölskyldulífi sínu og frítíma. „Við slíkar aðstæður er illt að búa“ segir í yfirlýsingunni.

Nýjustu fréttir