Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 256

Veiðileysuháls: seinkun nýs vegar mótmælt

Fjórðungssamband Vestfirðinga gerir kröfu um það í bréfi til Alþingis að gerð nýs vegar um Veiðileysuháls verði ekki frestað. Umhverfismati sé nær lokið og kostnaðaráætlun liggi fyrir. Fjórðungssambandið segir að landfræðilegar aðstæður og tenging Árneshrepp við aðra hluta landsins séu um margt líkar samgöngum við Grímsey, Vestmannaeyjar og Mjóafjörð. „Til þessara staða eru tryggðir í dag flutningar árið um kring með þungavörur og almennan farþegaflutning.Slíkt tryggir búsetufrelsi íbúa þessara staða, eins ætti að vera með Árneshrepp.“

Í samgönguáætlun í samgönguáætlun 2020-2034 sem samþykkt var á Alþingi í júní 2020 var gert ráð fyrir 300 m.kr. á 1. tÍmabili 2020-2024 og 450 m.kr. 2025-2029 við uppbyggingu nýs 12 km Strandavegar um Veiðileysuháls. Vegagerðin segir í umsögn sinni að með uppbyggingu 12 km vegar um Veiðileysuhóls verði mögulegt að halda Strandavegi opnum að Djúpuvík allt árið um kring, sé ferðaveður. Áætlaður kostnaður við byggingu 7 m breiðs vegar með bundnu slitlagi um Veiðileysuhóls er um 3.400 – 3.700 m.kr.

Í tillögu Innviðaráðherra að þingsályktun um samgönguáætlun 2024-2038 sem lögð var fram á Alþingi í október 2023 er verkefninu seinkað.

Verkefnisstjórin Áfram Árneshreppur segir í erindi sínu til Alþingis að „Sú fimm ára frestun sem boðuð er í drögum að nýrri samgönguáætlun er algjört reiðarslag fyrir samfélagið í Árneshreppi, sérstaklega þar sem áform og væntingar heimamanna hafa byggst á áformum um vegabætur í núgildandi vegaáætlun og enn fremur að allir íbúar eru fullkomlega meðvitaðir um að allri undirbúningsvinnu er lokið og ekkert skortir nema ákvörðunina um að setja verkefnið af stað.“

Leggur verkefnisstjórnin til að haldið verði við núgildandi samgönguáætlun og farið verði í útboð á lagningu heilsársvegar yfir Veiðileysuháls strax núna um áramótin.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: framlög lækka til Vestfjarða

Horft eftir Hafnarstræti. Stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við Ísafjarðarbæ mun aukast. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sveitarfélaga á Vestfjörðum munu lækka um 80 m.kr. á ári samkvæmt tillögum að nýju úthlutunarkerfi Jöfnunarsjóðs sem lagt er til að verði tekið upp. Liggur frumvarp Innviðaráðherra fyrir Alþingi þar að lútandi.

Millistór fjölkjarna sveitarfélag munu fá aukið fé úr sjóðnum. Gagnast það Ísafjarðarbæ og munu framlög til þess hækka úr 833 m.kr. á ári í 1.004 m.kr. eða um 171 m.kr. sem er 20,6% hækkun. Bolungavíkurkaupstaður mun einnig fá hærri framlög og verða þau 248 m.kr. í stað 216 m.kr.sem er 14,9% hækkun. Hins vegar munu sjö sveitarfélög á Vestfjörðum fá lægri framlög en nú er og lækka framlögum um 283 m.kr. samtals hjá þeim á hverju ári.

Þetta kemur fram í yfirliti um breytinguna sem birt er í skýrslu starfshóps frá mars 2023 um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Er frumvarpið byggt á tillögum sem þar eru.

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur hafa ákveðið að sameinaast á næsta ári og breytir það myndinni hvað þau varðar. Í stað þess að framlögin myndu lækka um 21 m.kr. á ári munu þau hækka um 32 m.kr. samkvæmt því sem fram kemur í stöðugreiningu sveitarfélaganna sem lögð var fram fyrir sameiningarkosningarnar í haust. Þá fá sveitarfélögin samtals 761 m.kr. í framlög vegna sameiningarinnar.

Árneshreppur missir allt framlag Jöfnunarsjóðsins

Fimm sveitarfélög munu verða fyrir verulegri skerðingu á framlagi úr Jöfnunarsjóðnum. Árneshreppur mun missa allt núverandi framlag og fá ekkert. Kaldrananeshreppur missir nærri 80% af framlögunum og lækkar úr 25 m.kr. í 5 mkr. Súðavíkurhreppur fær 66 m.kr. minna eftir breytinguna og Reykhólahreppur lækkar um 92 m.kr. Í báðum tilvikum dregur Jöfnunarsjóðurinn úr framlögum sínum um meira en 50%. Loks lækka framlögin til Strandabyggðar um 37% eða um 73 m.kr.

Í heildina verða framlögun til jöfnunar á Vestfjörðum lægri eftir breytingu en þau eru nú. Eldri framlög nema 1,952 m.kr. en ný framlög verða 1.872 m.kr.

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2024: Undraverður árangur

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Það eru bjartir tímar í Ísafjarðarbæ. Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár endurspeglar mikinn viðsnúning þar sem tekjur aukast, skuldir lækka og allar kennitölur rekstrar eru jákvæðar.

Margar ástæður eru fyrir þessu; vaxtarkippur í atvinnulífinu, mikilvæg umbótaverkefni í rekstri Ísafjarðarbæjar og aðhaldssöm fjármálastjórn spila öll saman. Undir röggsamri forystu Örnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra hefur starfsfólk Ísafjarðarbæjar tekið höndum saman um að velta hverjum steini við, setja þjónustu við íbúa í forgang en virða á sama tíma mikilvægi sjálfbærs fjárhags.

Bæjarstjórnin er einhuga í nær öllum málum og er vert að þakka sérstaklega fyrir gott samstarf við bæjarfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Náum markmiðunum—langt undan áætlun

Í upphafi kjörtímabilsins settum við okkur metnaðarfull fjárhagsleg markmið sem vera skyldu leiðsögn út úr fjárhagslegum vandræðum sveitarfélagsins. Við notuðum þau til að gera fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár og svo hertust markmiðin eftir því sem líður á kjörtímabilið í takti við umbætur.

Skemmst er frá því að segja að með samþykktri fjárhagsáætlun 2024 náum við öllum okkar markmiðum um rekstur, skuldir og efnahag. Eina markmiðið sem næst ekki, að frátöldum þremur B-hluta stofnunum sem of langt mál er að rekja hér, er markmið um afborganir lána, en við því er lítið hægt að gera. Þá gerum við ráð fyrir að fjárfesta meira heldur en markmiðin gerðu ráð fyrir, og helgast það af gríðarlegri innviðaskuld og því svigrúmi sem öguð fjármálastjórn veitir. Ekki er heldur hægt að líta fram hjá því að ytri aðstæður eru krefjandi; vextir eru háir, verðbólga þrálát og kjarasamningar lausir fljótlega.

Ekki nóg með það, heldur náum við öllum stóru markmiðunum sem ætluð voru fyrir 2025, 26 og 27 um rekstrarniðurstöðu, veltufé, skuldahlutföll og fleira. Þessar tölur er hægt að skoða á bls. 60 í greinargerð með fjárhagsáætlun.

Á sama tíma eru miklar framkvæmdir fyrirhugaðar, og má þar nefna hafnabætur, tveir nýir fótboltavellir og gagngerar endurbætur á safnahúsinu.

Lægri skatthlutföll og réttlátari veitugjöld

Fyrsta skref ábyrgra stjórnmálamanna er að fá reksturinn í sjálfbært horf, en þegar það er komið er hægt að láta bætta fjárhagsstöðu endurspeglast í lægri álögum. Á næsta ári tökum við fyrsta skrefið í þessu með því að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði úr 0,56% í 0,54% með vonum um að fleiri skref verði hægt að stíga á komandi árum. Þetta kemur að nokkru leyti til móts við þá hækkun fasteignamats sem orðið hefur upp á síðkastið í bænum og endurspeglar aukna trú á framtíð svæðisins.

Þá eru gerðar breytingar á veitugjöldum. Þau gjöld hafa hingað til miðast við fasteignamat. Þar sem fasteignamat er mjög mismunandi milli byggðakjarna hafa íbúar Skutulsfjarðar greitt talsvert meira fyrir vatn og fráveitu en íbúar annarra kjarna þó þjónustan sé sú sama. Þessu er nú breytt án þess að heildartekjur sveitarfélagsins breytist.

Framtíðin er björt

Íbúum Ísafjarðarbæjar hefur fjölgað um 90 það sem af er ári. Sveitarfélagið er nú með fjölmörg skipulagsmál til vinnslu sem við klárum í vetur. Sérstaklega skipta skipulagsbreytingar á Suðurtanga og miðbæ miklu máli fyrir framtíðarþróun í Skutulsfirði. Fjölmörg önnur umbótamál eru til umfjöllunar í bæjarfélaginu, og fjölmörgum lóðum hefur verið úthlutað í öllum byggðakjörnum sveitarfélagsins síðustu mánuði.

Þá er sveitarfélagið að taka yfir rekstur málefna fatlaðra með færslu úr byggðasamlagi sem lagt verður niður samhliða. Þessi tilfærsla styttir allar boðleiðir og gerir þjónustuna bæði ódýrari og betri. Ísafjarðarbær mun með breytingunni sinna málaflokknum fyrir hönd annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum og fá greitt fyrir í réttum hlutföllum. Umbótaverkefni af þessu tagi eru nauðsynleg til að gera reksturinn sjálfbæran á útgjaldahliðinni.

Á tekjuhliðinni er framtíðin einnig björt. Fyrirhugaðar breytingar á jöfnunarsjóði sveitarfélaga munu styrkja verulega sveitarfélög eins og Ísafjarðarbæ sem eru fjölkjarna og nógu stór til að bera ábyrgð með sóma á öllum málaflokkum sveitarstjórnarstigsins.

Þá hyggjast stjórnvöld leggja af fiskeldissjóð í núverandi mynd og greiða sveitarfélögum í hlutfalli við starfsmannafjölda í fiskeldi. Fiskeldi mun halda áfram að vaxa fiskur um hrygg hér fyrir vestan, og verður mesti vöxturinn við Ísafjarðardjúp á næstu árum.

Kerecis er að undirbúa byggingu stórhýsis á Skutulsfjarðareyri. Salan á þessu ísfirska fyrirtæki inn í Coloplast í sumar voru stærstu einstöku fréttir viðskiptalífsins á Íslandi, og eru líklegar til að hafa einstök áhrif á atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum. Fleiri fyrirtæki eru í startholunum að byrja uppbyggingu þegar skipulagsbreytingar hafa tekið gildi.

Ísafjarðarbær, sem stærsti ferðaþjónustuaðili á Vestfjörðum, tók á móti metfjölda skemmtiferðaskipa í sumar. Umfangsmiklar framkvæmdir við hafnarkant og dýpkun héldu áfram á árinu. Næstu áfangar þess mikla verkefnis setur mark sitt á framkvæmdaáætlun næsta árs, en þessari þjónustu sést einnig skýrt merki í tekjum hafnarsjóðs sem skilar myndarlegum afgangi.

Allt styrkir þetta Ísafjarðarbæ sem hjarta sjálfbærs vaxtar á Vestfjörðum. Undir stjórn Í-lista og Örnu hefur orðið alger viðsnúningur í rekstri Ísafjarðarbæjar. Við lækkum skatthlutföll, bætum þjónustu, framkvæmum hrein reiðinnar býsn og borgum niður skuldir. Árið 2024 verður frábært ár og framtíðin er björt.

Gylfi Ólafsson

formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og oddviti Í-listans.

Suðurtangi: unnið að breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að hefja vinnu við breytingar á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 vegna breyttrar landnotkunar á Suðurtanga. Þegar er hafin endurskoðun deiliskipulaga á tanganum. Unnið er að heildarendurskoðun Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008-2020 en í ljós hefur komið að ekki er svigrúm til að bíða eftir gildistöku þess og því er farið í þessa aðalskipulagsbreytingu segir í fundargerð nefndarinnar.

Í skipulagslýsingu segir að hvati skipulagsbreytinga á Suðurtanga sé aukin eftirspurn atvinnulóða á Ísafirði síðustu misseri. Í núgildandi aðalskipulagi og fyrrnefndum deiliskipulögum er ekki gert ráð fyrir þeim umsvifum sem nú eru á svæðinu og eru fyrirséð, einkum í tengslum við ferðaþjónustu og fiskeldi. Skapa þarf rými fyrir þessar og aðrar atvinnugreinar og samræma sífellt fjölbreyttari starfsemi hafnarinnar á Ísafirði. Ísafjarðarhöfn hefur þróast úr því að vera fyrst og fremst fiskihöfn yfir í það að þjóna fjölbreyttri flóru báta og skipa í takt við stefnu bæjarins og hafnarinnar.

Fjölga á atvinnulóðum á Suðurtanga og styrkja höfnina og starfsemi í tengslum við hana.

Skipulagssvæðið tekur til Suðurtanga, sunnan Ásgeirsgötu, sem er neðsti hluti Eyrarinnar. Skipulagssvæðið er um 23 ha að stærð. Í gildandi aðalskipulagi er Sundabakki skilgreindur sem hafnarsvæði og innan við hann er iðnaðarsvæði fyrir fjölbreyttan iðnað. Einnig er gert ráð fyrir íbúðarsvæði eftir endilöngum tanganum. Næst sjó á vestanverðum tanganum er svæði fyrir þjónustustofnanir og nyrst er svæði sem tilheyrir miðsvæði. Syðst á tanganum er grænt svæði í gildandi aðalskipulagi.

Í aðalskipulagsbreytingunni verður gert ráð fyrir að íbúðarbyggð á Suðurtanganum leggist af en í staðinn komi athafnasvæði. Gamli slippurinn og svæðið sunnan gömlu fjörunnar breytast úr svæði fyrir þjónustustofnanir í athafnasvæði. Gert er ráð fyrir gámasvæði á syðsta hluta tangans og því mun hafnarsvæðið ná til þess hluta.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: framlag til Reykjavíkurborgar vegna sérstakra áskorana

Frá Reykjavík.

Í nýju frumvarpi Innviðaráðherra um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er lagt til að umbylta stuðningi ríkisins til jöfnunar á getu sveitarfélaga til þess að sinna hlutverki sínu. Um er að ræða um 30 milljarða króna úr ríkissjóði. Meðal nýmæla er að vegna sérstakra áskorana verði tekið upp höfuðstaðarálag , sem skulu nema allt að 2,5% af þessum tekjum sjóðsins.

Næsta ár verði þó aðeins 1% af tekjum sjóðsins til höfuðstaðaálagsins, 1,75% árið 2025 og fullt framlag 2,5% árið 2026.

Framlögum vegna höfuðstaðarálags skal úthlutað til Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar og skiptist framlagið eftir fjölda íbúa þeirra 1. janúar ár hvert. Reykjavíkurborg myndi fá 237 m.kr. á næsta ári og Akureyrarbær 34 m.kr.

Þegar ákvæðið verður komið að fullu til framkvæmda árið 2026 færi 766 m.kr. af tekjum Jöfnunarsjóðs frá ríkissjóði til höfuðstaðaálagsins og um 88% þess rynni til Reykjavíkurborgar eða 674 m.kr.

Í skýringum í frumvarpinu segir að framlaginu sé ætlað að mæta þeim áskorunum sem ekki verða jafnaðar í nýju líkani sjóðsins. Þá segir: „Höfuðstaðir sinna þjónustu sem önnur sveitarfélög sinna í minna mæli, eða sinna ekki. Slík þjónusta er til að mynda flókin og margþætt félagsleg þjónusta og þjónusta við heimilislausa. Í skýrslu starfshópsins er bent á að slíkt álag eigi helst við um sveitarfélögin Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ, þar sem íbúar nærliggjandi sveitarfélaga sækja ákveðna tegund þjónustu til þeirra.“

Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg

Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg er nafn á nýrri bók sem Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir hefur skrifað um Guðrúnu Jónsdóttur.

Guðrún er með mikilvægustu brautryðjendum kvennabaráttunnar á síðustu öld og fram á þessa.

Hún var í hópi þeirra kvenna sem brutu glerþak stjórnmálanna með Kvennaframboðinu og síðar átti hún stóran þátt í því að rjúfa þagnarmúrinn kringum kynferðisofbeldi.

Þetta er saga um mikla baráttukonu sem aldrei lét beygja sig.

Sylvía Lind með tónleika í Hömrum

Sylvía Lind Jónsdóttir er fædd og uppalin á Flateyri. Hún hefur stundað söngnám frá unglingsaldri við Tónlistarskóla Ísafjarðar og heldur núna kveðjutónleika þar sem hún heldur á vit nýrra ævintýra eftir áramótin.

Sylvía Lind hefur tekið þátt í undankeppnum Samfés, verið fulltrúi Menntaskólans á Ísafirði í söngvakeppni framhaldsskólanna ásamt því að taka þátt í Idol.

Hún lék í tveimur sýningum á Sólrisuleikritum MÍ, Ekki um ykkur og Rocky Horror Picture Show.
Sylvía Lind hefur verið syngjandi allt frá barnæsku og komið fram við ýmiss konar tækifæri.

Á þessum kveðjutónleikum sem fram fara í Hömrum laugardaginn 9. desember kl. 20 flytur hún nokkur af sínum uppáhaldslögum og fær til sín góða gesti sem taka lagið með henni.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis.

Ísafjarðarbær: Aðventudagskrá í Turnhúsinu og á bókasafni

Byggðasafn Vestfjarða og Bókasafnið Ísafirði bjóða upp á jólalega viðburði á aðventunni. Þar má nefna heimsókn jólasveina sögustund fyrir börnin og Furoshiki innpökkun. Einnig er boðið upp á jólasýningar, jólabúð, föndur, smákökur og súkkulaði.

Byggðasafnið:

Helgin 8.-9. desember kl. 13-17
Jólasýning, jólabúð, föndur, smákökur og súkkulaði.
Fimmtudagurinn 14. desember kl. 16-18
Jólasýning og jólabúð
Föstudagurinn 15. desember kl. 15-18
Jólasýning, jólabúð og jólaglögg
Helgin 16.-17. desember kl. 13-17
Jólasýning, jólabúð, föndur, smákökur og súkkulaði.
Fimmtudagurinn 21. desember kl. 16-18
Jólasýning, jólabúð og jólaglögg.

Bókasafnið

Bókasafnið Ísafirði býður upp á sögustund fyrir börn alla fimmtudaga í desember kl. 16:15. Einnig verða skemmtilegir viðburðir hjá safninu fram að jólum.

Föstudagurinn 15. desember kl. 16
Lærum Furoshiki innpökkun
Laugardagurinn 16. desember kl. 14
Jólasveinn í heimsókn
Fimmtudagurinn 21. desember kl. 16:15
Jólasveinn í heimsókn… aftur!

Á bóksafninu er einnig hægt að senda sérstakan jólapóst til vina og ættingja.

Leiksýning í Edinborgarhúsinu

Sýndar verður sex sýningar af fjölskyldusöngleiknum Annie í Edinborgarhúsinu. Verður sú fyrsta í dag kl 16 og önnur kl 19. Síðan verða fjórar sýningar um helgina. Á laugardaginn verða tvær sýningar kl 13 og kl 16 og svo aftur á sunnudag á sama tíma.

Það er leiklistarhópur Halldóru sem stendur fyrir sýningunum.

Miðapantanir á doruleiklist.com/panta-mida.

Sýningin er styrkt af Ísafjarðarbæ og Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Nýtt frumvarp um lagareldi kynnt í samráðsgátt

Lagt hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp matvælaráðherra um lagareldi.

Frumvarpið er afrakstur umfangsmikillar stefnumótunarvinnu sem hófst í byrjun árs 2022.

Markmið frumvarpsins er að skapa lagareldi á Íslandi skilyrði til verðmætasköpunar innan ramma sjálfbærrar nýtingar og með vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Lagt er til að innleiddar verði þær aðgerðir sem fram koma í drögum að stefnu fyrir lagareldi sem hafa m.a. það að markmiði að lagareldi verði stjórnað á grundvelli skilgreindra mælikvarða sem stuðla þar með að því að greinin hafi sem minnst áhrif á umhverfi sitt, vistkerfi eða villta stofna, og sem tryggja að dýravelferð og sjúkdómar séu með besta hætti á heimsvísu

Meginþættir frumvarpsins eru eðli máls samkvæmt þeir kaflar er lúta að sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi.

1) Sjókvíaeldi

Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar frá núgildandi lögum um fiskeldi. Meginefnisbreytingar eða nýmæli frumvarpsins frá gildandi lögum um fiskeldi eru eftirfarandi:

– Áhættumat erfðablöndunar gefið út í fjölda fiska

– Skýrara hlutverk Hafrannsóknastofnunar

– Lögfesting núgildandi friðunarsvæða og friðun Eyjafjarðar og Öxarfjarðar

– Áhættustýrt skipulag með innleiðingu smitvarnarsvæða

– Breytt fyrirkomulag úthlutunar

– Breytt fyrirkomulag á útfærslu og framkvæmd áhættumats erfðablöndunar

– Aukið eftirlit Matvælastofnunar

– Lækkun laxahlutar vegna stroks

– Breytingar á leyfilegum lífmassa vegna affalla og lúsasmits

– Hertar reglur um kynþroska fisks

– Breyttar úthlutunarreglur og álagning vegna Umhverfissjóðs sjókvíaeldis

– Breytt álagning framleiðslugjalds

– Breytt fyrirkomulag Fiskeldissjóðs

– Skýrara hlutverk Fisksjúkdómanefndar

– Samræmd hugtakanotkun

2) Landeldi

Með þessu frumvarpi er í fyrsta sinn fjallað sérstaklega um landeldi og er það gert í þriðja þætti frumvarpsins sem skiptist í fjóra kafla. Viðamesti hluti umfjöllunarinnar varðar smitvarnir og dýraheilbrigði og er að finna í XV. kafla eða alls 10 greinar en að öðru leyti gilda áfram ákvæði laga um varnir gegn fisksjúkdómum nr. 60/2006 og ákvæði laga um velferð dýra nr. 50/2013. Um starfrækslu og eftirlit landeldisstöðva er fjallað í XVII. kafla. Um útgáfu rekstrarleyfis til landeldis og afturköllun þess er síðan fjallað um í köflum XVI og XVIII. Með frumvarpinu er reynt að draga fram þau sérkenni sem skilja að landeldi frá sjókvíaeldi sem helgast af ólíku eldisumhverfi og ólíkum áskorunum, jafnt fyrir rekstraraðila og Matvælastofnun sem annast eftirlit með starfseminni.

3) Hafeldi

Í fjórða þætti frumvarpsins er fjallað um hafeldi sem skiptist í tvo kafla; XIX. kafli (Almennt um hafeldi) og XX. kafli (Rannsóknir vegna hafeldis). Hafeldi er grein sem ekki er hafin á Íslandi en aukinn áhugi hefur verið á starfseminni síðastliðin ár. Til að komast að því hvort og hvar hafeldi sé vænlegt í íslenskri lögsögu þarf að ráðast í fjölmargar og ítarlegar rannsóknir. Sníða þarf ramma utan um þær rannsóknir. Þá verður einnig að skapa ramma utan um leyfisveitingaferlið en miklu máli skiptir að fyrirsjáanleiki og skýr löggjöf sé fyrir hendi til að styðja við fyrstu skref greinarinnar.

Frumvarpið má sjá hér á samráðsgátt, hægt er að skila inn athugasemdum til og með 3. janúar 2024.

Nýjustu fréttir