Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 255

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar: sjálfstæðismenn vilja lækka fasteignaskatt meira

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. mynd: isafjordur.is

Í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar fyrir 2024 , sem Dagný Finnbjörnsdóttir lagði fram segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokks telji að nú hefði verið tilefni til að lækka fasteignaskatt enn meira en gert er ráð fyrir eða í a.m.k. 0,52% eins og þeir lögðu til við fyrri umræðu. „Tekjur sveitarfélagsins eru að aukast verulega milli ára og því hefðu íbúar átt að njóta þess með meira móti, sérstaklega þar sem verið er að hækka sorpgjöld nokkuð hressilega.“

Fjárhagsáætlunin var samþykkt á bæjarstjórnarfundi á fimmtudaginn með öllum greiddum atkvæðum 9:0.

bjartir tíma framundan

Í bókun Í listans segir að það séu bjartir tímar í Ísafjarðarbæ og að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár endurspegli mikinn viðsnúning þar sem tekjur aukast, skuldir lækka og allar aðrar kennitölur rekstrar eru jákvæðar.
„Margar ástæður eru fyrir þessu; vaxtarkippur í atvinnulífinu, mikilvæg umbótaverkefni í rekstri Ísafjarðarbæjar og aðhaldssöm fjármálastjórn spila öll saman. Undir forystu Örnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra hefur starfsfólk Ísafjarðarbæjar tekið höndum saman um að velta hverjum steini við, setja þjónustu við íbúa í forgang en virða á sama tíma mikilvægi sjálfbærs rekstrar sveitarfélagsins. Á landsvísu eru ytri aðstæður krefjandi; vextir eru háir, verðbólga þrálát og kjarasamningar lausir á næstunni.
Í upphafi kjörtímabilsins settum við okkur metnaðarfull fjárhagsleg markmið sem vera skyldu leiðsögn út úr fjárhagslegum vandræðum sveitarfélagsins. Með þeirri fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram náum við öllum okkar meginmarkmiðum um rekstur, skuldir og efnahag. Ekki nóg með það, heldur náum við öllum stóru markmiðunum sem ætluð voru fyrir 2025, 26 og 27 um rekstrarniðurstöðu, veltufé, skuldahlutföll og fleira. Á sama tíma eru miklar framkvæmdir fyrirhugaðar, og má þar nefna hafnabætur, tvo nýja fótboltavelli og gagngerar endurbætur á safnahúsinu.
Fyrsta skref ábyrgra stjórnmálamanna er að fá reksturinn í sjálfbært horf, en þegar það er komið er hægt að láta bætta fjárhagsstöðu endurspeglast í lægri álögum. Á næsta ári tökum við fyrsta skrefið í þessu með því að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði úr 0,56% í 0,54% með vonum um að fleiri skref verði hægt að stíga á komandi árum. Þá eru gerðar breytingar á veitugjöldum og þau látin endurspegla betur raunkostnað.
Á næstu árum munum við sjá enn meiri tekjur af fiskeldi, enn þróttmeiri ferðaþjónustu, uppbyggingu í tengslum við Kerecis og breytta útreikninga jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem allt mun efla enn frekar samfélagið okkar og rekstur sveitarfélagsins.
Undir stjórn Í-lista hefur orðið alger viðsnúningur í rekstri Ísafjarðarbæjar. Íbúum fjölgar um 100 milli ára. Við lækkum skatthlutföll, bætum þjónustu, framkvæmum hrein reiðinnar býsn og borgum niður skuldir. Árið 2024 verður frábært ár og framtíðin er björt.“

Fasteignir Ísafjarðar: selja sex íbúðir

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Á árinu 2024 er ráðgert að selja sex íbúðir, við Stórholt og Fjarðarstræti á Ísafirði og Dalbraut í Hnífsdal. Söluverð er áætla 124.430.000 kr. Bókfært verð íbúðanna er 22.671.000 kr. og söluhagnaður því 101.759.000 kr. Lán sem hvíla á íbúðunum eru að fjárhæð tæpar 53 m.kr.

Jafnframt á sér stað samtal við óhagnaðardrifin leigufélög um mögulega yfirtöku á hluta eignasafnsins.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri segir að sveitarfélagið hafi átt í samtali við Bríeti sem er óhagnaðardrifið leigufélag í eigu HMS, og Brák íbúðafélag sem eru í eigu 31 sveitarfélags á landsbyggðinni, en það er einnig rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja.

„Við vonumst til að fá niðurstöður í þessar viðræður í upphafi næsta árs, og þá kemur í ljós hversu margar íbúðir þetta verða. Markmið okkar með sölu íbúða er að létta á rekstri Fastís og geta þar með tekið þátt í fleiri húsnæðisverkefnum.“

Heiðrún GK 505

Heiðrún GK 505 ex Heiðrún ÍS 4. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Heiðrún GK 505 lætur hér úr höfn á Húsavík áleiðis á rækjumiðin út af Norðurlandi.

Heiðrún, sem var 294 brl. að stærð, var smíðuð árið 1978 í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar h/f á Ísafirði fyrir Völustein h/f í Bolungarvík. Togarinn var búinn 1450 hestafla Alpha aðalvél.

Njörður h/f í Sandgerði keypti Heiðrúnu ÍS 4 haustið 1997 og fékk hún í framhaldinu einkennisstafina GK og númerið 505.

Það var svo í desember 1999 að Heiðrún GK 505 var, ásamt Þór Péturssyni GK 504, seld til Grundarfjarðar. Í byrjun árs 2000 fékk hún nafnið Ingimundur SH 335. Kaupandinn Guðmundur Runólfsson h/f.

Í mars 2004 greinir Morgunblaðið frá því að Guðmundur Svavarsson útgerðarmaður hafi keypt Ingimund SH 335. Togarinn fékk nafnið Skúmir HF 177 og hét því nafni þegar hann var seldur til Rússlands árið 2006. Reyndar hélt hann því nafni í Rússlandi.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Þriðja vaktin – Jafnréttishandbók heimilisins

Heimilishald og uppeldi felur í sér ólaunaða og vanmetna vinnu. Körlum hættir til að ofmeta sitt framlag og gera lítið úr álaginu sem fellur oftast á konur.

Innsýn höfunda fléttast hér saman við aðsendar reynslusögur og alþjóðlegar rannsóknir sem gefur lesendum færi á að sjá hvers vegna réttlát verkaskipting á heimilum er mikilvægt jafnréttismál.

Höfundar bókarinnar hjónin Hulda Tölgyes sálfræðingur og Þorsteinn V. Einarsson kynjafræðingur hafa verið leiðandi í umræðu um þriðju vaktina undanfarin ár og haldið fjölda fyrirlestra á vinnustöðum og námskeið fyrir pör.

Teikningar í bókinni eru eftir Elías Rúna og ritstjóri er Haukur Bragason. Iris Nowenstein sér um prófarkalestur, umbrot er í höndum Árna Torfasonar og Litlaprent sér um prentun. Útgefandi er Mildi og mennska, félag í eigu höfunda.

Vega­gerðin auglýsir á ný eft­ir til­boðum í brýr yfir Fjarðar­hornsá og Skálm­ar­dalsá

Í október bauð Vegagerpin út smíði tveggja stein­steyptra eft­ir­spenntra 34 metra plötu­brúa yfir Fjarðar­hornsá og Skálm­ar­dalsá, ásamt vega­gerð við hvora brú fyr­ir sig, sam­tals um 1,8 kíló­metr­ar. Brýrn­ar eru beggja vegna Kletts­háls.

Þegar tilboð voru opnuð þann 7. nóvember átti Eykt ehf. í Reykja­vík lægsta til­boðið, krón­ur 1.129.936.429. Var það 57% yfir áætluðum verk­taka­kostnaði, sem var krón­ur 718.371.378. Tilboð frá Ístaki og Íslenskum aðalverktökum voru enn hærri.

Vegagerðin hefur nú ákveðið að hafna öllum tilboðunum og er verkið boðið úr aftur með tilboðsfresti til 19. desember. Verkinu á að ljúka fyrir 1. desember 2025.

Aflarinn hættir um áramótin

Fiskistofa vekur athygli á því að samningur Aflarans við Fiskistofu fellur úr gildi 1. janúar 2024 og ekki verður hægt að nota þeirra þjónustu við skil aflaupplýsinga frá og með þeim degi.

Útgerðaraðilar sem eru að nota þjónustu Aflarans við skil aflaupplýsinga verða því að leita til nýs þjónustuaðila.

Frekari upplýsingar um afladagbók er að finna á heimasíðu Fiskistofu, ásamt upplýsingum um þá þjónustuaðila sem hlotið hafa samþykki að uppfylltum kröfum stofnunarinnar um skil aflaupplýsinga í vefþjónustu.

Fiskistofa áréttar fyrir skipstjórnarmönnum að í millitíðinni þurfi að gæta að því að skrá aflaupplýsingar í réttri röð í viðmóti kerfis Aflarinn ehf., svo upplýsingarnar berist með réttum hætti til vefþjónustu Fiskistofu. Ábyrgð á réttum skilum aflaupplýsinga í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli hvílir á skipstjórnarmanni fiskiskips.

Afl­ar­inn tók til starfa í byrj­un árs 2022 og var mark­miðið að bjóða ein­falt viðmót til að skila inn afla­dag­bók­um til Fiski­stofu og hægt var að nota hann í  far­tölv­um, snjallsím­um eða spjald­tölv­um.

Í fyrstu voru af­not af Afl­ar­an­um gjald­frjáls en en kostaði síðan 5.000 kr á mánuði. Í haust kom síðan tilkynning um að Aflarinn mundi hætta starfsemi um áramótin.

Framsókn Ísafjarðarbæ: tækifæri til að lækka fasteignaskatt enn frekar

Kristján Þór Kristjánsson, er oddviti B lista.

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir næsta ár var afgreidd á fundi bæjarstjórnar í gærkvöldi. Í bókun fulltrúa Framsóknarflokksins segir að tekjur sveitarfélagsins hafi aukist verulega undanfarin tvö ár og að mögulegt væri að lækka fasteignaskatt enn frekar en ákveðið var eða í 0,52%.

Bókun Framsóknarflokksins:

„Undanfarin tvö ár hafa tekjur Ísafjarðbæjar verið að aukast verulega.  Hefur það ásamt aðhaldi í rekstri skilað því að fjárhagsáætlun 2023 virðist ætla að standa með hagnaði bæði af A-hluta og samtæðu A og B-hluta.  Fjárhagsleg markmið sem bæjarstjórn setti sér á kjörtímabilinu hafa átt stóran þátt í því að rekstur horfir nú til hins betra eftir erfið ár vegna heimsfaraldurs.  

Við fyrstu umræðu fjárhagsáætlunar 2024 gerðu bæjarfulltrúar Framsóknar athugasemdir við hækkun rekstrarkostnaðar þá sérstaklega launakostnaðar og aukningu í stöðugildum.  Fannst okkur að það aðhald sem verið hefur væri á undanhaldi í ráðningum og launakostnaði.   Hækkun tekna hefur lítið að segja ef útgjöldin aukast úr hófi fram.  Við fyrstu umræðu var gert ráð fyrir 105 milljóna króna hagnaði af A-hluta.  Töldum við að hægt væri að gera betur í rekstri og bókuðum því að með meira aðhaldi í útgjöldum væri hægt að lækka fasteignaskatt til íbúa. 

Núna liggja fyrir lokadrög að fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 og hefur greinilega farið fram góð vinna milli umræðna.  Tekjur hafa hækkað og kostnaður einnig en ekki í sama hlutfalli.  Fjárhagsáætlunin gerir nú ráð fyrir 186 milljóna króna afgangi af A-hluta.  Við þessar forsendur teljum við möguleika á lækkun fasteignaskatts niður í 0.52% og eru það vonbrigði að ekkert af auknum afgangi milli umræðna fari í að lækka álögur á íbúa.  Með lækkun fasteignaskatts niður í 0,52% hefði hagnaður af A-hluta verið um 167 milljónir og reksturinn því enn innan fjárhagslegra markmiða bæjarstjórnar næstu þrjú ár, en að sama skapi koma til móts við vaxandi álögur á bæjarbúa. 

Kjarasamningar eru lausir á árinu 2024 og er óljóst hvernig samningaviðræður munu ganga.  Framsókn leggur til við meirihluta Í-lista og bæjarstjóra að ganga fram með góðu fordæmi og leggja til að samningur bæjarstjóra verði ekki tengdur launavísitölu heldur fylgi samskonar hækkununum og starfsmenn sveitarfélaga fá skv kjarasamningum.   Væri það gott fyrsta innlegg Ísafjarðarbæjar inn í vinnu við kjarasamninga og myndi senda jákvæða strauma inn í kjarasamningaviðræður.  

Bæjarfulltrúar Framsóknar vilja þakka fyrir góða samvinnu og gott upplýsingaflæði við vinnu fjárhasáætlunar.  Athugasemdir frá Framsókn hafa verið teknar gildar sem hefur leitt til betri afkomu sveitarsjóðs.  Vinnan hefur verið gegnsæ og er vert að þakka fyrir það.  Framsókn telur margt jákvætt við áætlunina og telur bæjarstjórn á réttri leið með að ná markmiðum sínum í rekstri.  Framsókn stendur fyrir samvinnu, hófsemi og heiðarleika. Framsókn telur samvinnu bestu leiðina til að ná fram góðum árangri sveitarfélaginu og íbúum til heilla.  Það er ekki síst vegna góðs samstarf innan bæjarstjórnarinnar sem þessi árangur hafi náðst.  Bæjarfulltrúar Framsóknar sem sitja í minnihluta hafa viljað vera leiðandi í samvinnu og viljað skapa vinnufrið sveitarfélaginu og samfélaginu til heilla.  Má álykta að það séu að breytt pólitík minni og meirihluta í Ísafjarðarbæ.   Það eru vissulega vonbrigði að ekki sé vilji meirihluta að lækka fasteignaskatt frekar. Þrátt fyrir þá niðurstöðu telja bæjarfulltrúar Framsóknar nauðsynlegt að halda áfram þeirri vegferð sem við erum á og munum því vera samþykk þessari fjárhagsáætlun að öðru leyti.“ 

Leiksýning í Edinborgarhúsinu um helgina

Sýndar verður sex sýningar af fjölskyldusöngleiknum Annie í Edinborgarhúsinu. Voru tvær þær fyrstu í gær. Síðan verða fjórar sýningar um helgina.

Á laugardaginn verða tvær sýningar kl 13 og kl 16 og svo aftur á sunnudag á sama tíma.

Það er leiklistarhópur Halldóru sem stendur fyrir sýningunum.

Miðapantanir á doruleiklist.com/panta-mida.

Sýningin er styrkt af Ísafjarðarbæ og Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Veiðileysuháls: seinkun nýs vegar mótmælt

Fjórðungssamband Vestfirðinga gerir kröfu um það í bréfi til Alþingis að gerð nýs vegar um Veiðileysuháls verði ekki frestað. Umhverfismati sé nær lokið og kostnaðaráætlun liggi fyrir. Fjórðungssambandið segir að landfræðilegar aðstæður og tenging Árneshrepp við aðra hluta landsins séu um margt líkar samgöngum við Grímsey, Vestmannaeyjar og Mjóafjörð. „Til þessara staða eru tryggðir í dag flutningar árið um kring með þungavörur og almennan farþegaflutning.Slíkt tryggir búsetufrelsi íbúa þessara staða, eins ætti að vera með Árneshrepp.“

Í samgönguáætlun í samgönguáætlun 2020-2034 sem samþykkt var á Alþingi í júní 2020 var gert ráð fyrir 300 m.kr. á 1. tÍmabili 2020-2024 og 450 m.kr. 2025-2029 við uppbyggingu nýs 12 km Strandavegar um Veiðileysuháls. Vegagerðin segir í umsögn sinni að með uppbyggingu 12 km vegar um Veiðileysuhóls verði mögulegt að halda Strandavegi opnum að Djúpuvík allt árið um kring, sé ferðaveður. Áætlaður kostnaður við byggingu 7 m breiðs vegar með bundnu slitlagi um Veiðileysuhóls er um 3.400 – 3.700 m.kr.

Í tillögu Innviðaráðherra að þingsályktun um samgönguáætlun 2024-2038 sem lögð var fram á Alþingi í október 2023 er verkefninu seinkað.

Verkefnisstjórin Áfram Árneshreppur segir í erindi sínu til Alþingis að „Sú fimm ára frestun sem boðuð er í drögum að nýrri samgönguáætlun er algjört reiðarslag fyrir samfélagið í Árneshreppi, sérstaklega þar sem áform og væntingar heimamanna hafa byggst á áformum um vegabætur í núgildandi vegaáætlun og enn fremur að allir íbúar eru fullkomlega meðvitaðir um að allri undirbúningsvinnu er lokið og ekkert skortir nema ákvörðunina um að setja verkefnið af stað.“

Leggur verkefnisstjórnin til að haldið verði við núgildandi samgönguáætlun og farið verði í útboð á lagningu heilsársvegar yfir Veiðileysuháls strax núna um áramótin.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: framlög lækka til Vestfjarða

Horft eftir Hafnarstræti. Stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við Ísafjarðarbæ mun aukast. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sveitarfélaga á Vestfjörðum munu lækka um 80 m.kr. á ári samkvæmt tillögum að nýju úthlutunarkerfi Jöfnunarsjóðs sem lagt er til að verði tekið upp. Liggur frumvarp Innviðaráðherra fyrir Alþingi þar að lútandi.

Millistór fjölkjarna sveitarfélag munu fá aukið fé úr sjóðnum. Gagnast það Ísafjarðarbæ og munu framlög til þess hækka úr 833 m.kr. á ári í 1.004 m.kr. eða um 171 m.kr. sem er 20,6% hækkun. Bolungavíkurkaupstaður mun einnig fá hærri framlög og verða þau 248 m.kr. í stað 216 m.kr.sem er 14,9% hækkun. Hins vegar munu sjö sveitarfélög á Vestfjörðum fá lægri framlög en nú er og lækka framlögum um 283 m.kr. samtals hjá þeim á hverju ári.

Þetta kemur fram í yfirliti um breytinguna sem birt er í skýrslu starfshóps frá mars 2023 um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Er frumvarpið byggt á tillögum sem þar eru.

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur hafa ákveðið að sameinaast á næsta ári og breytir það myndinni hvað þau varðar. Í stað þess að framlögin myndu lækka um 21 m.kr. á ári munu þau hækka um 32 m.kr. samkvæmt því sem fram kemur í stöðugreiningu sveitarfélaganna sem lögð var fram fyrir sameiningarkosningarnar í haust. Þá fá sveitarfélögin samtals 761 m.kr. í framlög vegna sameiningarinnar.

Árneshreppur missir allt framlag Jöfnunarsjóðsins

Fimm sveitarfélög munu verða fyrir verulegri skerðingu á framlagi úr Jöfnunarsjóðnum. Árneshreppur mun missa allt núverandi framlag og fá ekkert. Kaldrananeshreppur missir nærri 80% af framlögunum og lækkar úr 25 m.kr. í 5 mkr. Súðavíkurhreppur fær 66 m.kr. minna eftir breytinguna og Reykhólahreppur lækkar um 92 m.kr. Í báðum tilvikum dregur Jöfnunarsjóðurinn úr framlögum sínum um meira en 50%. Loks lækka framlögin til Strandabyggðar um 37% eða um 73 m.kr.

Í heildina verða framlögun til jöfnunar á Vestfjörðum lægri eftir breytingu en þau eru nú. Eldri framlög nema 1,952 m.kr. en ný framlög verða 1.872 m.kr.

Nýjustu fréttir