Í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar fyrir 2024 , sem Dagný Finnbjörnsdóttir lagði fram segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokks telji að nú hefði verið tilefni til að lækka fasteignaskatt enn meira en gert er ráð fyrir eða í a.m.k. 0,52% eins og þeir lögðu til við fyrri umræðu. „Tekjur sveitarfélagsins eru að aukast verulega milli ára og því hefðu íbúar átt að njóta þess með meira móti, sérstaklega þar sem verið er að hækka sorpgjöld nokkuð hressilega.“
Fjárhagsáætlunin var samþykkt á bæjarstjórnarfundi á fimmtudaginn með öllum greiddum atkvæðum 9:0.
bjartir tíma framundan
Í bókun Í listans segir að það séu bjartir tímar í Ísafjarðarbæ og að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár endurspegli mikinn viðsnúning þar sem tekjur aukast, skuldir lækka og allar aðrar kennitölur rekstrar eru jákvæðar.
„Margar ástæður eru fyrir þessu; vaxtarkippur í atvinnulífinu, mikilvæg umbótaverkefni í rekstri Ísafjarðarbæjar og aðhaldssöm fjármálastjórn spila öll saman. Undir forystu Örnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra hefur starfsfólk Ísafjarðarbæjar tekið höndum saman um að velta hverjum steini við, setja þjónustu við íbúa í forgang en virða á sama tíma mikilvægi sjálfbærs rekstrar sveitarfélagsins. Á landsvísu eru ytri aðstæður krefjandi; vextir eru háir, verðbólga þrálát og kjarasamningar lausir á næstunni.
Í upphafi kjörtímabilsins settum við okkur metnaðarfull fjárhagsleg markmið sem vera skyldu leiðsögn út úr fjárhagslegum vandræðum sveitarfélagsins. Með þeirri fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram náum við öllum okkar meginmarkmiðum um rekstur, skuldir og efnahag. Ekki nóg með það, heldur náum við öllum stóru markmiðunum sem ætluð voru fyrir 2025, 26 og 27 um rekstrarniðurstöðu, veltufé, skuldahlutföll og fleira. Á sama tíma eru miklar framkvæmdir fyrirhugaðar, og má þar nefna hafnabætur, tvo nýja fótboltavelli og gagngerar endurbætur á safnahúsinu.
Fyrsta skref ábyrgra stjórnmálamanna er að fá reksturinn í sjálfbært horf, en þegar það er komið er hægt að láta bætta fjárhagsstöðu endurspeglast í lægri álögum. Á næsta ári tökum við fyrsta skrefið í þessu með því að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði úr 0,56% í 0,54% með vonum um að fleiri skref verði hægt að stíga á komandi árum. Þá eru gerðar breytingar á veitugjöldum og þau látin endurspegla betur raunkostnað.
Á næstu árum munum við sjá enn meiri tekjur af fiskeldi, enn þróttmeiri ferðaþjónustu, uppbyggingu í tengslum við Kerecis og breytta útreikninga jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem allt mun efla enn frekar samfélagið okkar og rekstur sveitarfélagsins.
Undir stjórn Í-lista hefur orðið alger viðsnúningur í rekstri Ísafjarðarbæjar. Íbúum fjölgar um 100 milli ára. Við lækkum skatthlutföll, bætum þjónustu, framkvæmum hrein reiðinnar býsn og borgum niður skuldir. Árið 2024 verður frábært ár og framtíðin er björt.“