Margir minna afkomenda eru búsettir í danaveldi – sumir hafa búið það í meira en tvo áratugi og aðrir yngri eru fæddir þar – að líkindum munu þeir í framtíðinni líta á Danmörk sem sitt föðurland og dönsku sem sitt móðurmál. Þeir þekkja samt íslenska siði – ekki síst jólasiði sem hafðir eru í heiðri á heimilum þeirra í bland við danska á þessum árstíma.
Smáfólkið hefur að sjálfsögðu fengið að heyra sögur af bröllóttu bræðrunum þrettán og Grýlu móður þeirra og tekið mis hátíðlega. Ein sem hefur ríka tjáningarþörf eins og hún á ætt til sagði skólasystkinum sínum sögur af íslenskum sveinum, Grýlu og jólakettinum með miklum tilþrifum – eftir það rigndi spurningum yfir mömmu hennar sem er kennari við sama skóla. Önnur lítil hvatvís skellibjalla tók þessar sögur af skaðræðiskvendinu Grýlu til alvarlegra umhugsunar ein jólin þá fjögra ára. Eftri að hafa brætt þær með sér í nokkra daga tilkynnti hún mömmu sinni að hún vildi ekki eiga heima á Íslandi út af þessari Grýlu – hún sagðist vita að hún væri óþekk – en hún réði bara ekkert við það. Sú stutta tók rökrétta ákvörðun miðað við aðstæður – ómeðvituð um að Grýla er ekki til.
En hvað vitum við fullorðna fólkið um verðbólgudrauginn ?
Við flest okkar erum sjálfsagt meðvituð um að hann er ekki til fremur en Grýla – hann er einungis notaður í sama tilgangi – sem vöndur til að bæla niður hugsanlegan mótþróa.
En af hverju ætli þeir sem vilja nota hann sem hrelli eigi vona á mótþróa og þá frá hverjum helst ?
Við vitum öll að verðbólgan er raunveruleg því hún bítur og bítur fastast þá sem minnst hafa til ráðstöfunar – þá sem enga sök eiga á tilveru hennar. – það er þessum hópi saklausra sem þykir nauðsynlegt að halda niðri og þá helst þegar kjaraviðræður standa fyrir dyrum – annað hvort með þeim rökum að verðbólgan geti farið úr böndunum ef kröfum verði ekki stillt í hóf eða að nauðsynlegt sé að vinna á henni ef hún er þegar farin að gera usla.
Allar götur hafa yfirvöld og betri borgarar haft sínar aðferðir við að halda almúganum niðri og að innprenta honum nægjusemi af ótta við að missa spón úr aski sínum sem og völd – því fjárhagslegir yfirburðir veita völd þeim sem ekki eru kjörnir til þeirra.
Hér á öldum áður var þeim sem hírðust í hjáleigukotum stórbænda talið trú um að fátækt væri guði þóknanleg og ávísun á sæluvist í himnaríki og önnur bjargráð voru þeim ekki ætluð þegar hungur svarf að og sóttir herjuðu en faðirvorið.
Litlu verðu lítill fegin segir máltækið – þiggur þá með þökkum það litla sem sem að honum er rétt.
Annað máltæki segir að mikill vilji alltaf meira – seint muni því hægt að seðja hann.
Verðbólgan er ekki öllum vágestur – ekki þeim sem geta látið peningana vinna fyrir sig – kannski ekki heldur þeim sem hafa margfaldar tekjur verkamanna í mánaðarlaun né þeim sem hafa gert leigubrask að auka búgrein – svo einhverjir góðborgarar séu nefndir.
Það eru í raun margir hagnast á ógnum ýmiss konar – ógnum sem gjarnan umturna lífi almennings um lengri eða skemmri tíma.
Sem dæmi þá græða vopnaframleiðendur á stríðsrekstri, lyfjaframleiðendur á faraldri, atvinnurekendur á atvinnuleysi, kaupmenn á „hæfilegum“ skorti, verktakar á hamförum, einkavæðing á fjársveltu velferðarkerfi og arðrán á almennri fávisku og sinnuleysi.
Þarna eru peningarnir sem eru mun líklegri til að valda verðbólgu heldur en þeir sem í svita síns andlits strita fyrir hinu daglega brauði – þeir sem eru í mesta lagi færir um í óári að skera niður um nokkrar hitaeiningar af naumum kosti.
Það er eiginlega hjákátlegt þegar þeir sem hugsa í milljónum, jafnvel í milljörðum eru farnir að kalla eftir fjárhagslegri ábyrgð á landsvísu hjá þeim þeim sem hugsa í krónum og aurum – því ábyrgðin getur engan veginn legið hjá þeim sem ekki ná að skrimta af launum sínum frá mánuði til mánaðar.
Það þarf enga fjármálasnillinga til að átta sig á að það er auðvitað þeir sem sýsla með peningana og völdin sem bera ábyrgðina á stöðu peningamála hverju sinni og það er með ólíkindum að ítrekað skuli þeir bera almenning ósljósum og illa rökstuddum sökum með verðbólgudrauginn að vopni um ástandi sem hann hefur enga fjárhagslega getu til að valda..
Hræðsluáróður er ekkert annað en illa dulbúin kúgun – ósköp saklaust þegar Grýla er annars vegar – Grýla er hluti af bernskuminningu okkar allra – hluti af sögu sem við glæðum lífi um hver jól – öllu alvarlegra er þegar velferð og fjárhagslegt öryggi þúsunda heimila er undir sem og afkoma heillar þjóðar.
Blórabögglar eru ekki ný uppfinning – þeir hafa alltaf verið til – þeim helst til upplyftingar sem hafa óhreint mjöl í pokahorninu – þeir eru til því sumir sjá ekkert athugavert við að koma sínum sökum yfir á aðra.
Fyrr á öldum var fólk brennt á báli fyrir kukl þó ógernignur hafi verið að sanna slíkt svo ekki er ósennilegt að þá eins og stundum nú hafi sannleikanum verið hliðrað til í þágu einhverra málsmetandi.
Þeir sem hnupluðu sér til matar í sárri neyð gátu átt von á að missa fyrir vikið hendur og þungar refsingar aðrar lágu við minnstu yfirsjónum þegar almúginn átti í hlut – en svo gátu höfðingjar riðið um sveitir og barnað heimasætur og vinnukonur án eftirmála fyrir þá – þeir þóttu ærlegir ef þeir útveguðu þessum ógæfustúlkum faðerni og hnappheldu með einhverjum sem hæfði stétt þeirra og stöðu. Það voru samt ekki allir sem höfðu fyrir því og tóku þá jafnvel þátt í að dæma barnsmæður sínar til drekkingar í hylnum alræmda.
Réttlætið á Íslandi hefur alltaf farið í manngreinarálit – það er eins og það hafi frekar ætlað til að hreinsa þá velmegandi af óþægindum heldur en til að halda uppi lögum í hvívetna.
Kannski hafa hlutirnir minna breyst í aldanna rás heldur en okkur grunar – þeir sem sitja neðst í þjóðfélagsstiganum eru jafn réttlausir sem áður og höfðingjarnir enn samir við sig – kaupa sér aflausn í þessum heimi á meðan sumir hinir réttlausu eru sveltir svo þeir megi öðlast sæluvist í himnaríkir eftir að þeirra jarðvist lýkur.
Þó mörg sé mæðan í mannheimum og sumum gert hærra undir höfði en öðrum þá vona ég auðvitað að sem flestir geti átt góð og gleðileg jól og notið samveru með sinni nánustu.
Jólin eru hátíð ljóss og friðar og þau kærkomið tækifæri fyrir marga til að láta eitthvað gott af sér leiða – því vil ég minna á mæðrastyrksnefnd og biðja ykkur að hugsa til þeirra sem eiga um sárt að binda sökum fátæktar – skorturinn getur verið hvað sárastur á jólunum þegar gjafir og gómsæti þykja sjálfsögð tilbreyting.
Enginn getur hjálpað öllum, en allir geta hjálpað einhverjum.
Abbé Pierre
Jólakveðja
Vilhelmína H. Guðmundsdóttir