Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 254

Frv um lagareldi: breytt hlutverk Hafrannsóknarstofnunar

Í frumvarpi Matvælaráðherra um lagareldi sem hefur verið sett fram í samráðsgátt stjórnvalda er lögð áhersla á að verkefni Hafrannsóknastofnunar er lúta að sjókvíaeldi séu einungis í formi rannsókna og ráðgjafar í samræmi við lög nr. 112/2015 um Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna.
Í frumvarpinu segir að hlutverk Hafrannsóknastofnunar samkvæmt núgildandi lögum hafi verið gagnrýnt nokkuð þar sem hlutverk stofnunarinnar er í mörgum tilvikum talið svipa til stjórnsýsluhlutverks en mikilvægt er að ekki leiki vafi á stjórnsýslulegri stöðu stofnunarinnar.
Þessi gagnrýni kom til að mynda fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar sem benti á að úthlutun og skipting á hámarkslífmassa á milli fjarða sé ákvörðun um skiptingu verðmæta milli svæða og í sumum tilfellum fyrirtækja sem hljóti að teljast stjórnvaldsákvörðun. Það sama eigi einnig við um skiptingu eldissvæða.

Til að bregðast við gagnrýninni er í frumvarpi þessu lagt til að verkefni Hafrannsóknastofnunar er lúta t.a.m. að áhættumati erfðablöndunar og burðarþolsmati séu í formi ráðgjafar. Hin endanlega stjórnvaldsákvörðun muni eftir atvikum vera í höndum stjórnvalda eða ráðherra.

Ísafjarðarbær: leigir geymsluhúsnæði fyrir söfn

Ísafjarðarbær hefur tekið á leigu húsnæði að Sindragötu 11 Ísafirði fyrir héraðsskjalasafn, ljósmyndasafn og listasafn. Leigutími eru 10 ár og hefst um næstu áramót. Hið leigða húsnæði er áætlað 338 fermetrar í sérrými á 2. hæð. Eigandi er Sundatangi ehf.

Leigugjaldið skal vera 1350 kr. pr. m2 á mánuði, eða alls kr. 496.800, m.v. vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í mars 2023, sem er 569,4 stig og breytist það mánaðarlega í samræmi við breytingar á vísitölunni. Við mánaðarlega leigufjárhæð bætist virðisaukaskattur.

Auk leigugjaldsins greiðir leigutaki hlutdeild í hita og rafmagnskostnaði, fyrir hið leigða húsnæði, eftir atvikum samkvæmt mæli eða fermetrum. Leitgutaki greiðir fyrir þrif og ræstingu, snjómokstur og umhirðu lóðar við anddyri hússins, sé þess óskað. Einnig uppsetningu og rekstur öryggis og brunaviðvörunarkerfis og loftræsikerfis.

Leigusali skal annast allt viðhald utanhúss svo og á gleri, þaki, burðarvirki og lögnum í samræmi við ákvæði húsaleigulaga.

Samningurinn fer fyrir bæjarstjórn til staðfestingar.

Ísafjarðarbær: Guðna Geirs Jóhannessonar minnst

Guðni Geir Jóhannesson.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar mintist Guðna Geirs Jóhannessonar, fyrrv. bæjarfulltrúa á fundi bæjarstjórna síðasta fimmtudag., sem lést á Akranesi þann 24. nóvember síðastliðinn.

„Guðni var fæddur árið 1947 og var lengi umsvifamikill bæði á sviði atvinnulífs og sveitarstjórnarmála. Hann sat í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar frá 1998-2007 og var einnig formaður bæjarráðs og formaður hafnarstjórnar um árabil. Þá var Guðni formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga árin 2002-2006.

Fyrir hönd bæjarstjórnar vil ég votta fjölskyldu og vinum Guðna dýpstu samúð og bið bæjarstjórn um að rísa úr sætum og votta minningu Guðna virðingu með andartaks þögn.“

Grýla og verðbólgudraugurinn 

Margir minna afkomenda eru búsettir í danaveldi – sumir hafa búið það í meira en tvo áratugi og aðrir yngri eru fæddir þar – að líkindum munu þeir í framtíðinni líta á Danmörk sem sitt föðurland og dönsku sem sitt móðurmál. Þeir þekkja samt íslenska siði – ekki síst jólasiði sem hafðir eru í heiðri á heimilum þeirra í bland við danska á þessum árstíma.

Smáfólkið hefur að sjálfsögðu fengið að heyra sögur af bröllóttu bræðrunum þrettán og Grýlu móður þeirra og tekið mis hátíðlega. Ein sem hefur ríka tjáningarþörf eins og hún á ætt til sagði skólasystkinum sínum sögur af íslenskum sveinum, Grýlu og jólakettinum með miklum tilþrifum – eftir það rigndi spurningum yfir mömmu hennar  sem er kennari við sama skóla. Önnur lítil hvatvís skellibjalla tók þessar sögur af skaðræðiskvendinu Grýlu til alvarlegra umhugsunar ein jólin þá fjögra ára. Eftri að hafa brætt þær með sér í nokkra daga tilkynnti hún mömmu sinni að hún vildi ekki eiga heima á Íslandi út af þessari Grýlu – hún sagðist vita að hún væri óþekk – en hún réði bara ekkert við það. Sú stutta tók rökrétta ákvörðun miðað við aðstæður – ómeðvituð um að Grýla er ekki til.

En hvað vitum við fullorðna fólkið um verðbólgudrauginn ?

Við flest okkar erum sjálfsagt meðvituð um að hann er ekki til fremur en Grýla – hann er einungis notaður í sama tilgangi – sem vöndur til að bæla niður hugsanlegan mótþróa.

En af hverju ætli þeir sem vilja nota hann sem hrelli eigi vona á mótþróa og þá frá hverjum helst ?

Við vitum öll að verðbólgan er raunveruleg því hún bítur og bítur fastast þá sem minnst hafa til ráðstöfunar – þá sem enga sök eiga á tilveru hennar. – það er þessum hópi saklausra sem þykir nauðsynlegt að halda niðri og þá helst þegar kjaraviðræður standa fyrir dyrum – annað hvort með þeim rökum að verðbólgan geti farið úr böndunum ef kröfum verði ekki stillt í hóf eða að nauðsynlegt sé að vinna á henni ef hún er þegar farin að gera usla.

Allar götur hafa yfirvöld og betri borgarar haft sínar aðferðir við að halda almúganum niðri og að innprenta honum nægjusemi af ótta við að missa spón úr aski sínum sem og völd – því fjárhagslegir yfirburðir veita völd þeim sem ekki eru kjörnir til þeirra.

Hér á öldum áður var þeim sem hírðust í hjáleigukotum stórbænda talið trú um að fátækt væri guði þóknanleg og ávísun á sæluvist í himnaríki og önnur bjargráð voru þeim ekki ætluð þegar hungur svarf að og sóttir herjuðu en faðirvorið.

Litlu verðu lítill fegin segir máltækið – þiggur þá með þökkum það litla sem sem að honum er rétt.

Annað máltæki segir að mikill vilji alltaf meira – seint muni því hægt að seðja hann.

Verðbólgan er ekki öllum vágestur – ekki þeim sem geta látið peningana vinna fyrir sig – kannski ekki heldur þeim sem hafa margfaldar tekjur verkamanna í mánaðarlaun né þeim sem hafa gert leigubrask að auka búgrein – svo einhverjir góðborgarar séu nefndir.

Það eru í raun margir hagnast á ógnum ýmiss konar – ógnum sem gjarnan umturna lífi almennings um lengri eða skemmri tíma.

Sem dæmi þá græða vopnaframleiðendur á stríðsrekstri, lyfjaframleiðendur á faraldri, atvinnurekendur á atvinnuleysi, kaupmenn á „hæfilegum“ skorti, verktakar á hamförum, einkavæðing á fjársveltu velferðarkerfi og arðrán á almennri fávisku og sinnuleysi.

Þarna eru peningarnir sem eru mun líklegri til að valda verðbólgu heldur en þeir sem í svita síns andlits strita fyrir hinu daglega brauði – þeir sem eru í mesta lagi færir um í óári að skera niður um nokkrar hitaeiningar af naumum kosti.

Það er eiginlega hjákátlegt þegar þeir sem hugsa í milljónum, jafnvel í milljörðum eru farnir að kalla eftir fjárhagslegri ábyrgð á landsvísu hjá þeim þeim sem hugsa í krónum og aurum – því ábyrgðin getur engan veginn legið hjá þeim sem ekki ná að skrimta af launum sínum frá mánuði til mánaðar.

Það þarf enga fjármálasnillinga til að átta sig á að það er auðvitað þeir sem sýsla með peningana og völdin sem bera ábyrgðina á stöðu peningamála hverju sinni og það er með ólíkindum að ítrekað skuli þeir bera almenning ósljósum og illa rökstuddum sökum með verðbólgudrauginn að vopni um ástandi sem hann hefur enga fjárhagslega getu til að valda..

Hræðsluáróður er ekkert annað en illa dulbúin kúgun – ósköp saklaust þegar Grýla er annars vegar  – Grýla er hluti af bernskuminningu okkar allra – hluti af sögu sem við glæðum lífi um hver jól – öllu alvarlegra er þegar velferð og fjárhagslegt öryggi þúsunda heimila er undir sem og afkoma heillar þjóðar.

Blórabögglar eru ekki ný uppfinning – þeir hafa alltaf verið til – þeim helst til upplyftingar sem hafa óhreint mjöl í pokahorninu – þeir eru til því sumir sjá ekkert athugavert við að koma sínum sökum yfir á aðra.

Fyrr á öldum var fólk brennt á báli fyrir kukl þó ógernignur hafi verið að sanna slíkt svo ekki er ósennilegt að þá eins og stundum nú hafi sannleikanum verið hliðrað til í þágu einhverra málsmetandi.

Þeir sem hnupluðu sér til matar í sárri neyð gátu átt von á að missa fyrir vikið hendur og þungar refsingar aðrar lágu við minnstu yfirsjónum þegar almúginn átti í hlut – en svo gátu höfðingjar riðið um sveitir og barnað heimasætur og vinnukonur án eftirmála fyrir þá – þeir þóttu ærlegir ef þeir útveguðu þessum ógæfustúlkum faðerni og hnappheldu með einhverjum sem hæfði stétt þeirra og stöðu. Það voru samt ekki allir sem höfðu fyrir því og tóku þá jafnvel þátt í að dæma barnsmæður sínar til drekkingar í hylnum alræmda.

Réttlætið á Íslandi hefur alltaf farið í manngreinarálit – það er eins og það hafi frekar ætlað til að hreinsa þá velmegandi af óþægindum heldur en til að halda uppi lögum í hvívetna.

Kannski hafa hlutirnir minna breyst í aldanna rás heldur en okkur grunar – þeir sem sitja neðst í þjóðfélagsstiganum eru jafn réttlausir sem áður og höfðingjarnir enn samir við sig – kaupa sér aflausn í þessum heimi á meðan sumir hinir réttlausu eru sveltir svo þeir megi öðlast sæluvist í himnaríkir eftir að þeirra jarðvist lýkur.

Þó mörg sé mæðan í mannheimum og sumum gert hærra undir höfði en öðrum þá vona ég auðvitað að sem flestir geti átt góð og gleðileg jól og notið samveru með sinni nánustu.

Jólin eru hátíð ljóss og friðar og þau kærkomið tækifæri fyrir marga til að láta eitthvað gott af sér leiða – því vil ég minna á mæðrastyrksnefnd og biðja ykkur að hugsa til þeirra sem eiga um sárt að binda sökum fátæktar – skorturinn getur verið hvað sárastur á jólunum þegar gjafir og gómsæti þykja sjálfsögð tilbreyting.

                           Enginn getur hjálpað öllum, en allir geta hjálpað einhverjum.

                                                                                                                Abbé Pierre 

Jólakveðja

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Mótmæli gegn laxeldi á Austurvelli: laxarnir voru frá Hafrannsóknarstofnun

Frá mótmælunum á Austurvelli. Mynd: visir.is

Á Austurvelli í Reykjavík fóru fram mótmæli þann 7. október sl gegn sjókvíaeldi og var komið með dauða laxa, sem taldir eru eldislaxar og þeir notaðir til þess að leggja áherslu á kröfu mótmælenda. Á myndum af löxunum mátti sjá að þeir höfðu verið skornir líkt og fiskar sem sýni voru tekin úr hjá Hafrannsóknarstofnun og þau send til greiningar á uppruna.

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknarstofnun staðfestir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að fiskarnir hefðu verið fengnir hjá Hafnrannsóknarstofnun.

Hann segir að Landssamband veiðifélaga, einn aðstandenda mótmælafundarins, hafi beðið um að fá afhenta meinta eldisfiska úr Blöndu og Hrútafjarðará, sem hefðu komið til stofnunarinnar til rannsókna. „Við vorum ekki tilbúin til þess að og gáfum afsvar við þeirri beiðni. Þá fengum við kröfu frá LV sem vitnaði til 26. greinar laga nr, 61/2006 um lax- og silungsveiði. Sjá gult hér að neðan. Vegna þessa töldum að við  að við gætum ekki staðið gegn þeirri kröfu samanber þá lagagrein.“

Í umræddir málsgrein 26. greinar laganna segir: „Handhafa veiðiskírteinis er ekki heimilt að hagnýta sér í eigin þágu þann fisk sem veiddur er í vísindaskyni. Veiðiréttarhafa er heimilt að hagnýta sér aflann, en ber að öðru leyti ekki endurgjald vegna slíkrar veiði.“

  

Eldisfiskur: aflagjaldið gefur hafnarsjóði drjúgar tekjur

Þjónustuskipið Novatrans við Brjótinn í Bolungavík í byrjun mánaðarins. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Í október var landað 1.528 tonnum af eldisfiski í Boungavíkurhöfn til slátrunar í Drimlu, laxasláturhúsinu nýja í eigu Arctic Fish. Samkvæmt upplýsingum frá Bolungavíkurkaupstað nam aflagjaldið 8,6 m.kr.

Að meðaltali var því greitt 5,63 kr/kg af eldisfiski.

Frá því að slátrun hófst í Bolungavík í júní og til og með október hefur hafnarsjóður fengið 12,2 m.kr. í aflagjald af eldisfiski.

Vesturbyggð fékk í sama mánuði 18,6 m.kr. í aflagjald fyrir 2.608 tonn af eldisfiski. Á árinu til októberloka eru útgefnir reikningar Vesturbyggðar vegna aflagjalds af eldisfiski orðnir 128 m.kr.

Ágreiningur er um hluta af útgefnum reikningum hafnarinnar vegna gjaldskrárhækkunar á árinu 2019. Eldisfyrirtækin samþykkja ekki hækkunina og vilja greiða samkvæmt eldri gjaldskrá. Vesturbyggð tapaði máli í héraðsdómi Vestfjarða sem það höfðaði gegn Arnarlaxi til greiðslu á mismuninum.

Ekki liggur fyrir hver ágreiningsupphæðin er af aflagjöldunum í október. Ágreiningurinn snýst um hækkun á aflagjaldi úr 0,6% í 0,7% af verði eldisfisksins og einnig um að Vesturbyggð tók upp aðra viðmiðun og hærri á verðmæti fisksins sem aflagjaldið reiknast af. Munurinn gæti verið um 20% og að teknu tilliti til þess verður meðalverðið 5,94 kr/kg af eldisfiski í október.

Samkvæmt þessum tölum er meðalverðið í Vesturbyggð 5,5% hærra í október en í Bolungavík.

Framsókn: leiðandi í samvinnu

Kristján Þór Kristjánsson, bæjarfulltrúi B lista.

Kristján Þór Kristjánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Ísafjarðarbæ segir að Framsókn telji samvinnu bestu leiðina til að ná fram góðum árangri sveitarfélaginu og íbúum til heilla.  Það er ekki síst vegna góðs samstarfs innan bæjarstjórnarinnar sem þessi árangur hafi náðst.  Hann segir að athugasemdir frá Framsókn hafa verið teknar gildar sem hafi leitt til betri afkomu sveitarsjóðs. „Bæjarfulltrúar Framsóknar sem sitja í minnihluta hafa viljað vera leiðandi í samvinnu og viljað skapa vinnufrið sveitarfélaginu og samfélaginu til heilla.  Má álykta að það sé breytt pólitík minni og meirihluta í Ísafjarðarbæ.“

Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins lögðu til við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár að sveitarfélagið gengi fram með góðu fordæmi og að samningur bæjarstjóra verði ekki tengdur launavísitölu heldur fylgi samskonar hækkununum og starfsmenn sveitarfélaga fá skv kjarasamningum.  

Væri það gott fyrsta innlegg Ísafjarðarbæjar inn í vinnu við kjarasamninga og myndi senda jákvæða strauma inn í kjarasamningaviðræður.  

Kaldrananeshreppur: sameing við Strandabyggð gæti verið neikvæð

Drangsnes. Mynd: Sturla Páll Sturluson.

Í sumar sendi Kaldrananeshreppur álit sitt á stöðu sveitarfélagsins til Innviðaráðuneytisins. Þar kemur fram að þeir kostir um sameiningu sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög væru helst sameining við Strandabyggð og Árneshrepp.

Sameining við Strandabyggð hefði áskoranir í för með sér þar sem Kaldrananeshreppur er betur staddur fjárhagslega en Strandabyggð. Vilji hreppurinn fremur nýta þessa fjármuni til þess að byggja upp sveitarfélagið en að greiða niður skuldir nágrannasveitarfélags þar sem gæti haft neikvæð áhrif.

Sameining myndi hafa mikil áhrif á stjórnskipulagið þar sem í Kaldrananeshreppi er óhlutbundin kosning en listakosning í Strandabyggð. Þá væri hætta á að Kaldrananeshreppur lenti í minnihluta í nýrri sveitarstjórn.

Sameiningarkosningar fóru fram í október 2005 um sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Strandasýslu. Broddaneshreppur samþykkti sameiningu við Hólmavíkog úr varð Strandabyggð, en Kaldrananeshreppur og Árneshreppur samþykktu ekki.

Innviðaráð

Ráðuneytið segir i umsögn sinni um álit Kaldrananeshrepp að ýmis tækifæri felist í sameiningu sveitarfélaga, m.a. aukinn slagkraftur í veitingu þjónustu. Þá veiti Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fjárhagslegan stuðning við undirbúning sameiningar sveitarfélaga.

Þó sé fjárhagur Kaldrananeshrepps á flesta hefðbundna mælikvarða í lagi, rekstrarniðurstaða jákvæð, skuldahlutfall lágt og veltufé frá rekstri viðunandi. En fámennið geri það að verkum að sveitarfélagið er viðkvæmt fyrir áföllum eða skyndilegri aukningu þjónustuþarfar íbúa.

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar: sjálfstæðismenn vilja lækka fasteignaskatt meira

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. mynd: isafjordur.is

Í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar fyrir 2024 , sem Dagný Finnbjörnsdóttir lagði fram segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokks telji að nú hefði verið tilefni til að lækka fasteignaskatt enn meira en gert er ráð fyrir eða í a.m.k. 0,52% eins og þeir lögðu til við fyrri umræðu. „Tekjur sveitarfélagsins eru að aukast verulega milli ára og því hefðu íbúar átt að njóta þess með meira móti, sérstaklega þar sem verið er að hækka sorpgjöld nokkuð hressilega.“

Fjárhagsáætlunin var samþykkt á bæjarstjórnarfundi á fimmtudaginn með öllum greiddum atkvæðum 9:0.

bjartir tíma framundan

Í bókun Í listans segir að það séu bjartir tímar í Ísafjarðarbæ og að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár endurspegli mikinn viðsnúning þar sem tekjur aukast, skuldir lækka og allar aðrar kennitölur rekstrar eru jákvæðar.
„Margar ástæður eru fyrir þessu; vaxtarkippur í atvinnulífinu, mikilvæg umbótaverkefni í rekstri Ísafjarðarbæjar og aðhaldssöm fjármálastjórn spila öll saman. Undir forystu Örnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra hefur starfsfólk Ísafjarðarbæjar tekið höndum saman um að velta hverjum steini við, setja þjónustu við íbúa í forgang en virða á sama tíma mikilvægi sjálfbærs rekstrar sveitarfélagsins. Á landsvísu eru ytri aðstæður krefjandi; vextir eru háir, verðbólga þrálát og kjarasamningar lausir á næstunni.
Í upphafi kjörtímabilsins settum við okkur metnaðarfull fjárhagsleg markmið sem vera skyldu leiðsögn út úr fjárhagslegum vandræðum sveitarfélagsins. Með þeirri fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram náum við öllum okkar meginmarkmiðum um rekstur, skuldir og efnahag. Ekki nóg með það, heldur náum við öllum stóru markmiðunum sem ætluð voru fyrir 2025, 26 og 27 um rekstrarniðurstöðu, veltufé, skuldahlutföll og fleira. Á sama tíma eru miklar framkvæmdir fyrirhugaðar, og má þar nefna hafnabætur, tvo nýja fótboltavelli og gagngerar endurbætur á safnahúsinu.
Fyrsta skref ábyrgra stjórnmálamanna er að fá reksturinn í sjálfbært horf, en þegar það er komið er hægt að láta bætta fjárhagsstöðu endurspeglast í lægri álögum. Á næsta ári tökum við fyrsta skrefið í þessu með því að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði úr 0,56% í 0,54% með vonum um að fleiri skref verði hægt að stíga á komandi árum. Þá eru gerðar breytingar á veitugjöldum og þau látin endurspegla betur raunkostnað.
Á næstu árum munum við sjá enn meiri tekjur af fiskeldi, enn þróttmeiri ferðaþjónustu, uppbyggingu í tengslum við Kerecis og breytta útreikninga jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem allt mun efla enn frekar samfélagið okkar og rekstur sveitarfélagsins.
Undir stjórn Í-lista hefur orðið alger viðsnúningur í rekstri Ísafjarðarbæjar. Íbúum fjölgar um 100 milli ára. Við lækkum skatthlutföll, bætum þjónustu, framkvæmum hrein reiðinnar býsn og borgum niður skuldir. Árið 2024 verður frábært ár og framtíðin er björt.“

Fasteignir Ísafjarðar: selja sex íbúðir

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Á árinu 2024 er ráðgert að selja sex íbúðir, við Stórholt og Fjarðarstræti á Ísafirði og Dalbraut í Hnífsdal. Söluverð er áætla 124.430.000 kr. Bókfært verð íbúðanna er 22.671.000 kr. og söluhagnaður því 101.759.000 kr. Lán sem hvíla á íbúðunum eru að fjárhæð tæpar 53 m.kr.

Jafnframt á sér stað samtal við óhagnaðardrifin leigufélög um mögulega yfirtöku á hluta eignasafnsins.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri segir að sveitarfélagið hafi átt í samtali við Bríeti sem er óhagnaðardrifið leigufélag í eigu HMS, og Brák íbúðafélag sem eru í eigu 31 sveitarfélags á landsbyggðinni, en það er einnig rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja.

„Við vonumst til að fá niðurstöður í þessar viðræður í upphafi næsta árs, og þá kemur í ljós hversu margar íbúðir þetta verða. Markmið okkar með sölu íbúða er að létta á rekstri Fastís og geta þar með tekið þátt í fleiri húsnæðisverkefnum.“

Nýjustu fréttir