Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 253

Alþingi: dregið úr hækkun fiskeldisgjaldsins

Eldiskvíar.

Meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt fram tllögu á Alþingi þar sem dregið er úr fyrirhugaðri hækkun fiskeldisgjaldsins. Gjaldið er núna 3,5% af 12 mánaða meðaltali á alþjóðlegu markaðsverði á atlantshafslaxi og fjármálaráðherra lagði fram frumvarp þar sem gjaldið yrði hækkað í 5% eða um 43% hækkun í krónutölu.

Meir hluti þingnefndrinnar, sem í eru fulltrúar stjórnarflokkanna, leggur til að hækkunin verði 0,8% í stað 1,5% og ef sú tillaga nær fram að ganga verður gjaldið 4,3% og hækkar um 23%.

Í áliti meirihlutans segir að fara þurfi hægar í sakirnar en lagt er til í frumvarpinu og bendir í því sambandi á að í fyrirliggjandi drögum laga um lagareldi sem birt voru í samráðsgátt er gert ráð fyrir meiri þrepaskiptingu í gjaldtöku en fjármálaráðherra leggur til. Jafnframt bendir meiri hlutinn á að talsverður munur er á áætlaðri framleiðslu samkvæmt tölum frá MAST annars vegar og fiskeldisfyrirtækjum hins vegar. Miðað við þær tekjuáætlanir sem birtast í fjármálaáætlun sé rétt að hækka gjaldið um 0,8 prósentustig en ekki 1,5 prósentustig eins og lagt er til í frumvarpinu.

Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga til sýslumanns

Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga verða færð til Sýslumannsins á Norðurlandi vestra segir í fréttatilkynningu frá Dómsmálaráðuneytinu. Það sýslumannsembætti þótti vænlegur valkostur fyrir móttöku verkefnisins vegna samlegðar við önnur sérverkefni þess, svo sem innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi sem er á ábyrgð embættisins. Dómsmálaráðuneytið og innviðaráðuneytið hafa unnið að þessum breytingum í sameiningu þar sem það fellur vel að byggðaáætlun og sameiginlegum markmiðum ráðuneytanna um að efla landsbyggðina.

Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur verið rekin af sambandi íslenskra sveitarfélaga og stjórnin skipuð fulltrúum þess en nú færast verkefnin til ríkisins og verða þau hjá sýslumannsembættum.

Þá segir í tilkynningunni að verkefnaflutningurinn sé til þess fallinn að fjölga sérhæfðum störfum á landsbyggðinni og styrki því starfsstöðvar sýslumanns á landsbyggðinni með fjölgun stöðugilda.

Þá fylgi ýmsir hagræðingarmöguleikar breytingunum vegna samlegðar við annan rekstur innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi, svo sem yfirstjórn og upplýsingatækni. Ljóst þykir að ýmis tækifæri séu fyrir hendi, sem felast í endurskoðun verkferla með tilliti til aukinnar nýtingar tækninnar við framkvæmd innheimtu, þar á meðal meðlaga og annarra framfærsluframlaga.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri er í fráfarandi stjórn Innheimtustöðvarinnar og hann segir að breytingin eigi ekki að hafa áhrif á starfsstöð Innheimtustofnunarinnar á Ísafirði.

„Fráfarandi stjórn hefur lagt áherslu á að starfsemin haldi áfram í óbreyttu horfi. Öllu starfsfólki á Ísafirði hefur verið boðin áframhaldandi starf hjá sýslumanni.“

Þrjár verslanir fá styrk á Vestfjörðum

Sjö dagvöruverslanir á fámennum markaðssvæðum fá á næsta ári stuðning samtals 15 milljónir króna. Verkefnastyrkirnir eru veittir á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036. 

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra staðfesti þessar tillögur valnefndar um verkefnastyrki.

Verslanirnar sem hljóta styrki að þessu sinni skipta á milli sín 15 milljónum króna í verkefni á næsta ári. Hæsta styrkinn, 3 milljónir fær Verzlunarfélag Árneshrepps, Kríuveitingar í Grímsey fá 2,5 milljónir, Verslunar og pöntunarþjónusta á Bakkafirði, Búðin á Borgarfirði eystra, Hríseyjarbúðin og Verslunarfélag Drangsness fá hver um sig tvær milljónir og Verslunin á Reykhólum hlýtur 1,5 milljón til undirbúnings verslunarrekstri þar. 

Markmið styrkjanna er að styðja við rekstur dagvöruverslana í minni byggðarlögum, fjarri stórum byggðakjörnum á fámennum markaðssvæðum til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu. Alls bárust ellefu gildar umsóknir. 

Að sögn Sigurðar Árnasonar formanns valnefndar og sérfræðings á Byggðastofnun hafa þessir styrkir verið veittir árlega í tengslum við byggðaáætlun 2018-2024. Rekstur dagvöruverslana segir Sigurður vera mikilvæga grunnþjónustu í hverju samfélagi. 

Auk Sigurðar sátu í valnefndinni þau Elín Gróa Karlsdóttir verkefnisstjóri hjá Ferðamálastofu og  Snorri Björn Sigurðsson fyrrverandi forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar. Með nefndinni vann einnig Sigríður K. Þorgrímsdóttir sérfræðingur hjá Byggðastofnun. 

Frá opnun verslunarinnar 2019. Mynd: Kristján Þ. Halldórsson, Byggðastofnun. 

23% byggðakvótans í Ísafjarðarbæ

Mynd: Fengin af facebooksíðu Flateyrarhafnar.

Alls hefur matvælaráðherra 4.829 þorskígildistonn til ráðstöfunar í byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári. Hefur þeim verið skipt milli byggðarlaga og koma 1.110 tonn í hlut byggðarlaga innan Ísafjarðarbæjar. Er hlutur sveitarfélagsins því 23% af byggðakvótanum.

Mest fellur í hlut Flateyrar en þangað fara 285 þorskígildistonn. Til Þingeyrar fara 275 tonn. Ísafjörður er í þriðja sæti með 195 tonn, þá Suðureyri með 192 tonn og Hnífsdalur 163 tonn. Samtals gera þetta 1.110 tonn.

Bæjarráðið fól bæjarstjóra að gera tillögur að sérreglum um úthlutun kvótans á báta og skip og leggja fyrir bæjarráðið. Á síðasta fiskveiðiári giltu þær sérreglur að úthlutun byggðakvóta hvers byggðarlags á báta var þannig að fyrst fengu frístundabátar 1 tonn, síðan var 40% byggðakvótans skipt jafnt milli annarra báta og afganginum skipt hlutfallslega milli bátanna miðað við allan landaðan afla. þá var skylt að landa aflanum innan sveitarfélagsins en ekki endilega skilyrt því að landa í viðkomandi byggðarlagi.

Bolungavík : 65 tonn

Úthlutaður byggðakvóti til Bolungavíkurkaupstaðar nemur 65 tonnum. Bæjarráð Bolungavíkur hefur ákveðið að setja ekki neinar sérreglur og gilda því almennar reglur ráðuneytisins um úthlutun kvótans á báta og skip í byggðarlaginu. Samkvæmt þeim er kvótanum skipt hlutfallslega milli skipa í byggðarlaginu miðað við landaðan botnfiskafla.

Hjólabókin 7. bók Austurland

Ísfirðingurinn Ómar Smári Kristinsson hjólaði um Austurland í sumar og tók saman efni í sína sjöundu Hjólabók.

Á Austurlandi er aldeilis hægt að hjóla. Þar er eitthvað fyrir alla sem kunna það.

Um það fjallar bókin í máli, myndum, kortum og táknum. 

Þetta var nýtt og spennandi svæði fyrir höfund bókarinnar. Landið er fjölbreytilegt og leiðirnar líka.

Það var gaman að vinna þessa bók segir Ómar Smári og markmiðið er að það verði líka gaman að nota hana. 

Hann lýsir þrettán hjólreiðaleiðum, auðveldum og erfiðum, sem eiga það sameiginlegt að þær liggja í hring og að hægt er að loka hringnum á einum degi.

Hverri leiðarlýsingu fylgja tillögur að fleiri ferðum. Auka kaflar eru um hagnýt efni. Helstu upplýsingar um hverja leið eru útlistaðar í máli, á kortum og með hæðarprófílum. Allar leiðirnar eru teiknaðar með litaskala sem útskýrir hve brattinn er mikill.

Rúmlega 200 ljósmyndir gefa innsýn í landshlutann, hvernig þar er umhorfs og hvers konar vegir og stígar bíða lesenda.

Syndum lokið með rúmlega 20 hringjum í kringum landið

Landsátakinu Syndum lauk 30. nóvember síðastliðinn en átakið hófst með setningu í Kópavogslaug þann 1. nóvember. 

Um er að ræða sameiginlegt átak Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Sundsambands Íslands (ÍSS) sem vilja með þessu hætti hvetja landsmenn til meiri hreyfingar í gegnum sundið.  Sund höfðar til allra landsmanna, óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi og er þar að auki heilsubætandi og styrkir hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans.

Til þess að taka þátt í átakinu skráðu þátttakendur sig inn á www.syndum.is og skráðu metrana sem þeir syntu. 

Í ár tóku grunnskólar og sundfélög þátt í fyrsta skipti og hafði þátttaka þeirra mikil áhrif á niðurstöðuna, það er að segja á synta metra. Samtals lögðu landsmenn um 26.850 km að baki sem samsvarar rúmlega 20 hringjum í kringum Ísland. Til samanburðar voru syntir 13.515 km á síðsta ári eða rúmlega 10 hringir í kringum Ísland. 

Þeir grunnskólar sem tóku þátt í átakinu voru; Hraunvallaskóli, Skarðshlíðarskóli, Kerhólsskóli, Hamraskóli, Flúðaskóli, Engjaskóli/Foldaskóli, Þjórsárskóli, Grunnskólinn á Ísafirði, Stekkjaskóli, Sunnulækjarskóli og Djúpavogsskóli. Sundfélögin sem tóku þátt voru: Sundráð ÍRB, Sunddeild Aftureldingar, Sunddeild Ármanns, Sunddeild KR, Sundfélagið Ægir, Sundfélag Hafnarfjarðar og Sundfélagið Öspin.

Almenn ánægja var meðal þátttakenda með átakið og margir nýttu sér það sem hvatningu til að synda oftar eða lengra.

Vesturbyggð fær um 4 milljónir í sérstakt strandveiðigjald

Patreksfjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í sumar innheimti Fiskistofa sérstakt gjald af strandveiðum sem greiða á hverri höfn í hlutfalli við landaðan afla sem fengin var á strandveiðum.

Hlutur hafna innan Vesturbyggðar er eftirfarandi:

Bíldudalshöfn: 661.079- Kr
Brjánslækjarhöfn: 82.880.- Kr
Patrekshöfn: 3.270.497.- Kr

Samkvæmt lögum um Fiskistofu skal við útgáfu leyfis til strandveiða, auk greiðslu fyrir leyfi skv. 1. mgr., greiða 50.000 kr. í strandveiðigjald. Fiskistofa innheimtir gjaldið. Tekjum af strandveiðigjaldi skal ráðstafa til þeirra hafna þar sem afla, sem fenginn er við strandveiðar, hefur verið landað. Eftir lok veiðitímabils skal Fiskistofa á grundvelli aflaupplýsingakerfis Fiskistofu greiða hverri höfn í hlutfalli við hlut viðkomandi hafnar í heildarafla sem fenginn er við strandveiðar á því tímabili, reiknað í þorskígildum.

Brennur, stærri en 100 m3 og flugeldasýningar skráningarskyldar

Þann 8. desember sl. tók gildi breyting á reglugerð nr. 830/2022 um skráningarskyldan atvinnurekstur samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Með breytingunni var brennum, stærri en 100 m3, bætt í listann yfir skráningarskyldan atvinnurekstur. Meðal starfsemi sem er skráningarskyld eru flugeldasýningar. Því fellur fyrri auglýsingarskylda niður.

Skráningin tekur gildi þegar:

  • Skráning hefur farið fram
  • Skráningargjald hefur verið greitt
  • Rekstraraðili hefur fengið senda staðfestingu frá heilbrigðisnefnd

Frekari leiðbeiningar um hvaða reglur gilda um skráningarskyldan atvinnurekstur veita heilbrigðiseftirlitin en þau hafa eftirlit með starfseminni, þ. á m. að starfsemin sé rétt skráð.

Einnig þarf að sækja um leyfi fyrir brennum hjá sýslumanni og fyrir flugeldasýningum hjá lögreglustjóra

Frv um lagareldi: breytt hlutverk Hafrannsóknarstofnunar

Í frumvarpi Matvælaráðherra um lagareldi sem hefur verið sett fram í samráðsgátt stjórnvalda er lögð áhersla á að verkefni Hafrannsóknastofnunar er lúta að sjókvíaeldi séu einungis í formi rannsókna og ráðgjafar í samræmi við lög nr. 112/2015 um Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna.
Í frumvarpinu segir að hlutverk Hafrannsóknastofnunar samkvæmt núgildandi lögum hafi verið gagnrýnt nokkuð þar sem hlutverk stofnunarinnar er í mörgum tilvikum talið svipa til stjórnsýsluhlutverks en mikilvægt er að ekki leiki vafi á stjórnsýslulegri stöðu stofnunarinnar.
Þessi gagnrýni kom til að mynda fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar sem benti á að úthlutun og skipting á hámarkslífmassa á milli fjarða sé ákvörðun um skiptingu verðmæta milli svæða og í sumum tilfellum fyrirtækja sem hljóti að teljast stjórnvaldsákvörðun. Það sama eigi einnig við um skiptingu eldissvæða.

Til að bregðast við gagnrýninni er í frumvarpi þessu lagt til að verkefni Hafrannsóknastofnunar er lúta t.a.m. að áhættumati erfðablöndunar og burðarþolsmati séu í formi ráðgjafar. Hin endanlega stjórnvaldsákvörðun muni eftir atvikum vera í höndum stjórnvalda eða ráðherra.

Ísafjarðarbær: leigir geymsluhúsnæði fyrir söfn

Ísafjarðarbær hefur tekið á leigu húsnæði að Sindragötu 11 Ísafirði fyrir héraðsskjalasafn, ljósmyndasafn og listasafn. Leigutími eru 10 ár og hefst um næstu áramót. Hið leigða húsnæði er áætlað 338 fermetrar í sérrými á 2. hæð. Eigandi er Sundatangi ehf.

Leigugjaldið skal vera 1350 kr. pr. m2 á mánuði, eða alls kr. 496.800, m.v. vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í mars 2023, sem er 569,4 stig og breytist það mánaðarlega í samræmi við breytingar á vísitölunni. Við mánaðarlega leigufjárhæð bætist virðisaukaskattur.

Auk leigugjaldsins greiðir leigutaki hlutdeild í hita og rafmagnskostnaði, fyrir hið leigða húsnæði, eftir atvikum samkvæmt mæli eða fermetrum. Leitgutaki greiðir fyrir þrif og ræstingu, snjómokstur og umhirðu lóðar við anddyri hússins, sé þess óskað. Einnig uppsetningu og rekstur öryggis og brunaviðvörunarkerfis og loftræsikerfis.

Leigusali skal annast allt viðhald utanhúss svo og á gleri, þaki, burðarvirki og lögnum í samræmi við ákvæði húsaleigulaga.

Samningurinn fer fyrir bæjarstjórn til staðfestingar.

Nýjustu fréttir