Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 252

Vesturbyggð: skipulags- og umhverfisráð vill heimila skoðun virkjunar í Vatnsfirði

Horft fram Vatnsdalinn.

Meirihluti skipulags- og umhverfisráðs Vesturbyggðar samþykkti í gær bókun þar sem segir að mjög brýnir samfélagslegir hagsmunir krefjist þess að virkjunarkostur Orkubús Vestfjarða í Vatnsfirði verði skoðaður. Segir í bókuninni „Því viljum við leggja áherslu á að ráðherra nýti heimild skv. b-lið 1. mgr. 44. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.“

Fyrir ráðið var lagt erindi frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, dags. 12. október 2023. Í erindinu er óskað umsagnar Vesturbyggðar um erindi Orkubús Vestfjarða ohf. og greinargerð um áhrif Vatnsdalsvirkjunar á friðland í Vatnsfirði. Orkubúið vill fá heimild til þess að gera umhverfismat fyrir svonefndar Vatnsdalsvirkjun.

Í sumar lagði starfshópur umhverfisráðherra til að ráðherra verði við erindi frá Orkubúi Vestfjarða um afléttingu friðaskilmála á Vatnsfjarðarfriðilandi á afmörkuðu svæði innan friðlandsins svo unnt verði að láta framkvæmda umhverfismat fyrir 20 – 30 MW virkjun í Vatnsdal. Í starfshópnum áttu sæti Einar K. Guðfinnsson, Arna Lára Jónsdóttir og Jón Árnason.

Í bókun meirihluta ráðsins segir að ýmsir kostir hafi verið lagðir fram sem taldir eru leysa vandann til skemmri og lengri tíma, en „ekki hefur verið sýnt fram á að vilji sé til að fjármagna þá kosti eða með hvaða hætti þeir verði tryggðir þegar ljóst má vera að tími og fjármagn verður lykilþáttur í þeim öllum. Því þykir okkur ekki skynsamlegt að hafna þessari leið“.

Jóhann Pétur Ágússon, formaður ráðsins var andvígur og hann ásamt Rebekku Hilmarsdóttur, fyrrv. bæjarstjóra lagði til að tillögur sem þegar hafa verið ákveðnar í svæðisbundnum aðgerðum og með tímasettum áföngum verði settar í forgang, áður en kannað er hvort að ástæða sé til að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar. Lögðu þau áherslu á að tvöföldun Vesturlínu verði hafin nú þegar og að þær vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum sem hafa nú þegar verið samþykktar innan Rammaáætlunar, þ.e. Austurgil og Ófeigsfjörður séu settar í forgang. „Þannig fái náttúran í Vatnsfirði áfram að njóta vafans, og að ekki verði gengið lengra en nauðsynlegt er og lokið verði fyrst við þær framkvæmdir sem þegar hafa verið undirbúnar til að mæta þeim mikilvægu almannahagsmunum sem felast í aðgengi að orku á Vestfjörðum áður en ákvörðun er tekin um afnám eða breytingu á friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar.“ segir í bókuninni.

Bókun sem Jóhann Pétur lagði fram var felld með þremur atkvæðum gegn tveimur. Í framhaldinu var samþykkt bókun með þremur atkvæmum gegn tveimur um að heimila skoðun virkjunarinnar.

Meirihlutann skipuðu þau Barði Sæmundsson, Fríða Matthíasdóttir og Ólafur Byron Kristjánsson.

Meirihlutinn í bæjarstjórn er skipaður fjórum fulltrúum N lista, Nýrrar sýnar og minnihlutann skipa 3 fulltrúar Sjálfstæðisflokks og óháðra.

Meirihlutinn í skipulags- og umhverfisráðinu klofnaði í málinu og að niðurstöðunni standa tveir fulltrúar D lista og einn fulltrúi N lista.

Bæjarstjórnarfundur verður í dag og er fundargerð skipulags- og umhverfisráðs á dagskrá en aðeins til kynningar.

Bókun meirihlutans í heild:

„Í bókun formanns kemur fram að leggja beri áherslu á að tillögur sem þegar hafa verið ákveðnar í svæðisbundnum aðgerðum og með tímasettum áföngum verði settar í forgang, áður en kannað er hvort að ástæða sé til að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar.

Ýmsir kostir hafa verið lagðir fram sem taldir eru leysa vandann til skemmri og lengri tíma, en ekki hefur verið sýnt fram á að vilji sé til að fjármagna þá kosti eða með hvaða hætti þeir verði tryggðir þegar ljóst má vera að tími og fjármagn verður lykilþáttur í þeim öllum. Því þykir okkur ekki skynsamlegt að hafna þessari leið og teljum að bókun formanns gangi ekki nógu langt til að bregðast við brýnum hagsmunum samfélagsins um styrkingu raforkukerfisins á Vestfjörðum og framtíðarhagsmunum sunnanverða Vestfjarða þegar kemur að orkuskiptum og frekari uppbyggingu atvinnulífs. Horfa þurfi til allra kosta í því samhengi og fá fram með opnu og skilgreindu ferli, viðhorf þeirra sem lögum samkvæmt fjalla um slíka kosti. Því viljum við leggja áherslu á að ráðherra nýti heimild skv. b-lið 1. mgr. 44. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, þar sem við teljum að mjög brýnir samfélagslegir hagsmunir krefjist þess að kosturinn verði skoðaður.“

Ísafjörður: Eyrarkláfur í umhverfismat

Eyrarkláfur ehf hefur hlotið 2 m. kr. styrk úr Uppbyggingasjóði Vestfjarða og segist Gissur Skarphéðinsson forvarsmaður fyrirtækisins vera þakklátur sjóðnum fyrir það. „Ennfremur hefur Vestfjarðastofa hefur sett verkefnið í áfangastaða áætlun sína sem ég er mjög þakklátur fyrir.“

Félagið er búið að setja verkefnið í umhverfismatsvinnu hjá félaginu Rorum ehf sem er öflugt félag í rannsóknum í umhverfis og byggingarmálum ásamt vistfræði og öðrum umhverfis tengdum málum og segir Gissur verkefnið vera í góðum höndum þar.

Mikið hafði verið um það talað og rætt manna á milli á Ísafirði að setja upp kláf sem myndi ferja fólk upp á topp Eyrafjalls sem er fyrir ofan bæinn. Var þessi hugmynd skoðuð árið 2006 en ekkert varð úr henni þá.

Kláfurinn sem núna er verið að skoða er stærri og öflugri en sá sem var skoðaður 2006. Hugmyndin með uppsetningu kláfsins er sú að heimamenn og ferðamenn geti notið þess að fara upp á topp Eyrarfjalls.

„Kláfurinn sem áætlað er að setja upp er af gerðinni 3S Gondola Lift. Kláfurinn verður með tveimur „vögnum“ á tveimur línum. Kláfurinn ferðast um á hjólum sem sitja á tveimur vírum og þriðji vírinn dregur vagninn eftir þeim. Þegar annar er í efstu stöðu þá er hinn í neðstu stöðu. Hvor vagn tekur allt að 45 manns í hverri ferð. Þessi gerð kláfs er hönnuð fyrir aðstæður þar sem meira er um vind og getur hann því tekið á sig meiri hliðarvind en aðrir hans tegundar. Hann notar minni orku og er gerður til að fara hátt upp. Hann getur farið á allt að 8,5 m/s hraða. Gert ert ráð fyrir því að kláfurinn sé um 6–7 mínútur upp á topp Eyrafjalls. Aðalstöðvarhúsið verður niðri en annað stöðvarhús verður á toppi Eyrafjalls. Eitt mastur kemur á milli neðri stöðvar og efri stöðvar til að lyfta kláfnum yfir Gleiðarhjalla. Einn starfsmaður verður ávallt í hvorum kláf og einnig verða starfsmenn staðsettir á báðum endastöðvum. Afkastageta hvors vagns getur verið þrjár til fimm ferðir upp á klst., samtals sex til 10 ferðir á klst. Miðað við 100% nýting á báðum vögnum er afkastageta kláfsins 270 til 450 manneskjur á klst. eða 2.700 til 5400 á dag.

Gissur Skarphéðinsson.

Markmiðið með kláfnum er að veita upplifun sem er ekki algeng á Vestfjörðum: Að einstaklingar fái nýja sýn á þetta svæði með því að eiga kost á því að fara upp á Eyrarfjall á auðveldan hátt. Það verður markmið hjá starfseminni að bjóða viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu með miklu öryggi. Sem dæmi um það fara kláfarnir inn í hús er upp er komið. Mikið öryggi verður í báðum vögnunum og verða sem dæmi fjögur hjartastuðtæki til taks; eitt í hvorum kláf og eitt á hvorri stöð, uppi og niðri. Félagið um kláfinn mun einnig setja sér siðareglur sem eiga að stuðla að heiðarleika og sanngirni, sem talið er að muni hjálpa fyrirtækinu að ná sínum markmiðum. Markaðslegt markmið kláfsins er að vera leiðandi aðili á sínu sviði fyrir viðskiptavini hans. Með því að setja upp þessa starfsemi er verið að auka verðmæti þess að fleiri skip og ferðamenn sækja Ísafjörð heim. Félagið mun sýna samfélagslega ábyrgð sem felst meðal annars í því að bjóða eldri borgurum reglulega fríar ferðir upp. Eins mun starfsemi kláfsins styðja vel við björgunarsveitir á svæðinu og stuðla að því að til verði búnaður í þeirra umsjá sem hægt yrði að grípa til ef til óhapps kæmi. Vonast er til að sá búnaður verði aldrei notaður nema til æfinga. Kláfurinn mun fylgja ströngum umhverfisreglum, því ekki viljum við að rusl dreifist um á toppi fjallsins. Fólk verður hvatt til þess að kaupa ferðir á netinu og með því að gera það sparast pappír, því rafrænir miðar koma í stað pappírsmiða.

Stefnt er að því á vormánuðum að halda íbúafund á Ísafirði með glærukynningu til að halda öllum sem best upplýstum með framvindu verkefnisins, þar sem tekið verður við ábendingum og hvað megi betur fara.“

Skrímsli í sjó og vötnum á Íslandi

Skrímsli í sjó og vötnum á Íslandi er fróðleg og skemmtileg bók sem fjallar um þær margvíslegu tegundir skrímsla sem lifa á Íslandi og í hafinu utan landsteinanna. allt frá hafmönnum, skeljaskrímslum og lyngbökum til nykra og sjálfs Lagarfljótsormsins.

Byggt er á gögnum úr Íslandssögunni og fjölda viðtala sem höfundurinn Þorvaldur Friðriksson hefur tekið við sjónarvotta.

Bókin er stútfull af myndum og merkilegum frásögnum.

Skrímsli hafa verið þekkt frá upphafi byggðar á Íslandi. Greint er frá þeim í Landnámabók og Skálholtsbiskupar rituðu um skrímsli.

Á okkar dögum hafa náðst myndir og myndskeið af skrímslum. Engu að síður hefur fólk sem orðið hefur þeirra vart jafnan hikað við að segja frá upplifun sinni af ótta við háð og útskúfun.

Tesla söluhæsta bílategundin 2023

Nýskráningar fólksbíla eru orðnar 16.383 þegar rúmar tvær vikur eru eftir af þessu ári. Nýskráningar voru 15.545 á sama tíma.  Þetta kemur fram í tölum frá Bílgreinasambandinu.

Nýskráningar eru flestar í rafmagnsbílum það sem af er árinu, alls 7.786 sem er um 47,5% af heildinni. Aukningin nemur um 16% á milli ára. Hybridbílar koma í öðru sæti, alls 2.864 bílar sem er sama hlutfall og var á sama tíma í fyrra. Dísilbílar eru í þriðja sæti, alls 2.204 bílar sem er um 13,5% hlutfall.

Nýskráningum í tengiltvinnbílum hafa dregist nokkuð saman á milli ára. Þær eru það sem af er árinu alls 1.712 en voru á sama tíma tíma á síðasta ári 3.574

Tesla er söluhæsta bílategundin en alls eru nýskráningar í þessu merki orðnar 3.133 það sem af er árinu.

Toyota kemur í öðru sæti með með 2.660 bíla og Kia með 1.890 bíla i þriðja sætinu. Þess má geta í desembermánuði einum til þessa eru nýskráningar í Tesla 133, Toyoyta 36 og 13 í Kia.

Húnvetningar vilja fá sinn ísbjörn heim

Byggðarráð Húnabyggðar ætlar að fara þess á leit við Náttúrufræðistofnun Íslands að sveitarfélagið fái til baka uppstoppað bjarnardýr sem fellt var 17. júní árið 2008 og var um árabil til sýnis í stjórnsýsluhúsinu á Blönduósi.

Húnahornið greinir frá því að á fundi byggðarráðs hafi verið bókað að í Húnabyggð sé í mikilli uppbyggingu í ferðamálum og að óskin um að fá bjarnardýrið til baka sé mikilvægur þáttur í því að efla og setja styrkar stoðir undir ferðamannaiðnaðinn í sveitarfélaginu.

Ísbirnan sem um ræðir var felld 17. júní árið 2008 við Hraun á Skaga og var uppstoppuð á Akureyri en hún er eign Náttúrufræðistofnunar Íslands. Birnan er nokkuð stór þó hún sé lítið dýr miðað við önnur dýr úr Austur-Grænlandsstofninum. Hæð hennar er um 1,30 metrar og lengdin um 1,75 metrar. Ísbirnan gekk á land 16. júní og hélt sig í æðarvarpinu á Hrauni. Var gerð tilraun til þess að ná henni lifandi enn það tókst ekki og var dýrið því fellt. Birnan er talin hafa verið 12-13 ára og að hún hafi komið upp þremur lifandi húnum.

Koma hennar til Íslands vakið heimsathygli og var mikið fjallað um hana í innlendum og erlendum fjölmiðlum á sínum tíma. Það var heimasætan á Hrauni II, Karen Helga Steinsdóttir sem fyrst sá ísbjörninn þegar heimilishundurinn æddi út í æðarvarpið og hún elti hana til að skamma hana fyrir það.

Skömmu eftir að birnan var stoppuð upp var henni fundinn staður í Hafíssetrinu á Blönduósi og fékk þá nafnið Snædís Karen, að hluta til í höfuðið á stúlkunni sem sá hana fyrst eftir að hún kom á land. Efnt var til samkeppni um nafnið á birnunni og það var Ívar Snorri Halldórsson sem fékk verðlaunin fyrir besta nafnið. Nokkru seinna var Snædís Karen flutt í stjórnsýsluhúsið á Hnjúkabyggð 33 á Blönduósi.

Viltu vera skip­stjóri ?

Bolungarvíkurhöfn.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða er með nám­skeiðið sem ætlað þeim sem vilja auka atvinnu­rétt­indi sín til að starfa sem skip­stjóri á smá­skipum upp í allt að 15m lengd í strand­sigl­ingum (með að hámarki 12 farþegum og tak­mörkun á farsviði), enda hafi þeir áður öðlast 12m skip­stjórn­ar­skír­teini eða lokið viðurkenndu smá­skipa­skip­stjórn­ar­námi sem í boði var fyrir 1. sept­ember 2020.

Til viðbótar þessu námskeiði þarf að ljúka siglingatíma (þjálfun um borð í skipi) og viðurkenndu öryggisfræðslunámi til þess að fá útgefið skírteini.

Námskeiðið er haldið í samstarfi við Tækniskólann (Skipstjórnarskólann). Námskeiðið er að mestu í fjarnámi en gert er ráð fyrir þremur staðlotum á Ísafirði sem nemendur þurfa að taka þátt í. Einnig þurfa nemendur að fara í verklega þjálfun í siglingahermi.  

Náminu er skipt í nokkra námsþætti sem allir mynda eina heild til þessara réttinda,  m.a. sigl­ing­a­reglur, stöðugleika, sigl­inga­hermi, fjar­skipti (ROC skír­teini) og viðhald vél­búnaðar.

Allt kennsluefni, æfingar og lesefni er á kennsluvefnum Innu en nemendur hafa að auki aðgang að samtali við kennara samkvæmt skipulagi. Nemendur hafa aðgang að náms- og starfsráðgjafa hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða sem þeir eru hvattir til að nýta sér.

Vestfirðir: íbúafjölgun helmingur landsfjölgunar

Bolungavíkurhöfn í maí 2023. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Íbúum með lögheimili á Vestfjörðum fjölgaði síðustu 12 mánuði um 1,5% sem er helmingur fjölgunarinnar á landsvísu sem varð 3%.

Þann 1. desember sl. voru landsmenn orðnir 398.636 og hafði fjölgað um 11.565 síðan 1. desember 2022. Á Vestfjörðum varð einnig íbúafjölgun. Um síðustu mánaðamót voru 7.477 íbúar í fjórðungnum og fjölgaði um 107 á síðustu 12 mánuðum.

Fjölgun varð í þremur fjölmennustu sveitarfélögunum. Í Bolungavík um 2,9%, Ísafjarðarbæ 1,6% og Vesturbyggð 1,8%. Samtals fjölgaði um 118 manns í þessum þremur sveitarfélögum.

Í hinum sex sveitarfélögum sem eru á Vestfjörðum fjölgaði lítilsháttar í þremur Reykhólahreppi, Strandabyggð og Árneshreppi samtals um 10 manns og fækkaði í þremur Súðavík, Kaldrananeshreppi og Tálknafjarðarhreppi, samtals um 16 manns.

Edinborg: jólasveinninn kemur á jólahátíð pólska félagsins

Næsta laugardag verður pólska félagið á Vestfjörðum með jólahátíð í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Þar mun jólasveinninn koma í heimsókn. Hátíðin hefst kl 16.

Pólska félagið var endurvakið fyrir skömmu eftir nokkurra ára hlé og er þetta fyrsti viðburðurinn sem félagið stendur fyrir. Markmiðið er að styrkja tengslin við aðra landsmenn og kynna menningu Pólverja fyrir öðrum.

Hægt er að fylgjast með á facebook síðu félagsins:

https://www.facebook.com/profile.php?id=100070905255720

Alþingi: dregið úr hækkun fiskeldisgjaldsins

Eldiskvíar.

Meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt fram tllögu á Alþingi þar sem dregið er úr fyrirhugaðri hækkun fiskeldisgjaldsins. Gjaldið er núna 3,5% af 12 mánaða meðaltali á alþjóðlegu markaðsverði á atlantshafslaxi og fjármálaráðherra lagði fram frumvarp þar sem gjaldið yrði hækkað í 5% eða um 43% hækkun í krónutölu.

Meir hluti þingnefndrinnar, sem í eru fulltrúar stjórnarflokkanna, leggur til að hækkunin verði 0,8% í stað 1,5% og ef sú tillaga nær fram að ganga verður gjaldið 4,3% og hækkar um 23%.

Í áliti meirihlutans segir að fara þurfi hægar í sakirnar en lagt er til í frumvarpinu og bendir í því sambandi á að í fyrirliggjandi drögum laga um lagareldi sem birt voru í samráðsgátt er gert ráð fyrir meiri þrepaskiptingu í gjaldtöku en fjármálaráðherra leggur til. Jafnframt bendir meiri hlutinn á að talsverður munur er á áætlaðri framleiðslu samkvæmt tölum frá MAST annars vegar og fiskeldisfyrirtækjum hins vegar. Miðað við þær tekjuáætlanir sem birtast í fjármálaáætlun sé rétt að hækka gjaldið um 0,8 prósentustig en ekki 1,5 prósentustig eins og lagt er til í frumvarpinu.

Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga til sýslumanns

Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga verða færð til Sýslumannsins á Norðurlandi vestra segir í fréttatilkynningu frá Dómsmálaráðuneytinu. Það sýslumannsembætti þótti vænlegur valkostur fyrir móttöku verkefnisins vegna samlegðar við önnur sérverkefni þess, svo sem innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi sem er á ábyrgð embættisins. Dómsmálaráðuneytið og innviðaráðuneytið hafa unnið að þessum breytingum í sameiningu þar sem það fellur vel að byggðaáætlun og sameiginlegum markmiðum ráðuneytanna um að efla landsbyggðina.

Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur verið rekin af sambandi íslenskra sveitarfélaga og stjórnin skipuð fulltrúum þess en nú færast verkefnin til ríkisins og verða þau hjá sýslumannsembættum.

Þá segir í tilkynningunni að verkefnaflutningurinn sé til þess fallinn að fjölga sérhæfðum störfum á landsbyggðinni og styrki því starfsstöðvar sýslumanns á landsbyggðinni með fjölgun stöðugilda.

Þá fylgi ýmsir hagræðingarmöguleikar breytingunum vegna samlegðar við annan rekstur innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi, svo sem yfirstjórn og upplýsingatækni. Ljóst þykir að ýmis tækifæri séu fyrir hendi, sem felast í endurskoðun verkferla með tilliti til aukinnar nýtingar tækninnar við framkvæmd innheimtu, þar á meðal meðlaga og annarra framfærsluframlaga.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri er í fráfarandi stjórn Innheimtustöðvarinnar og hann segir að breytingin eigi ekki að hafa áhrif á starfsstöð Innheimtustofnunarinnar á Ísafirði.

„Fráfarandi stjórn hefur lagt áherslu á að starfsemin haldi áfram í óbreyttu horfi. Öllu starfsfólki á Ísafirði hefur verið boðin áframhaldandi starf hjá sýslumanni.“

Nýjustu fréttir