Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 251

Skemmtiferðaskip: tekjur innlendra þjónustuaðila áætlaðar 52 milljarðar króna í ár

Glæra frá fyrirlestri Jóhanns Viðars.

Eftir öflun upplýsinga frá helstu þjónustuaðilum skemmtiferðaskipanna innanlands um eigin tekjur þeirra á þessu ári af viðskiptum við skipin áætlar Ferðamálastofa að beinar tekjur stærstu innlendu þjónustuaðila af skipunum að hafa numið í kringum 52 milljörðum kr. án vsk. á árinu 2023.  

Þar til viðbótar koma opinberar tekjur, s.s. af virðisaukaskatti og vitagjöldum, og sala minni þjónustuaðila hringinn í kringum landið til skipanna og farþega þeirra, á kosti, afþreyingu, veitingum o.fl.

Þetta kom fram í erindi Jóhanns Viðars Ívarssonar, Ferðamálastofu á kynningarfundi sem haldinn var í síðustu viku.

Ferðamálastofa segir varfærið mat á tekjum íslenskra flugfélaga af því að fljúga skiptifarþegum skipanna til og frá landinu, að þær hafi numið um 4 milljörðum kr. Tekjur komuhafna skipanna hafi numið rúmlega 3 milljörðum kr., olíufélaganna af eldsneytissölu um 15 milljörðum kr. og að stærstu ferðaskrifstofurnar og umboðsfyrirtækin sem þjónusta skipin hafi haft um 11 milljarða.kr. án vsk. í tekjur í ár af þessum viðskiptum. 

Ferðamálstofa segir að þetta sé í fyrsta sinn sem reynt er að leggja mat á heildartekjur innlendra lykilaðila af komum skemmtiferðaskipa hingað til lands. Meginforsendur þess eru m.a. könnun sem Rannsóknamiðstöð ferðamála vann fyrir Faxaflóahafnir í sumar, að forgöngu Ferðamálastofu, um eyðslu farþega skipanna, og greining Ferðamálastofu á tekjum helstu hagsmunaaðila hér innanlands.

Greining á tekjum flugfélaga

Um helmingur farþega með erlendu skemmtiferðaskipunum koma fljúgandi til landsins og sigla með skipunum innanlandsog fara svo einnig með flugi. Eru þeir nefndir skiptifarþegar.

TVÍRÁKAMJÓRI

Á tvírákamjóra sést vel þroskuð miðlæg rák, yfir miðjum eyruggum skiptist hún og neðri hlutinn myndar kviðlæga rák. Á ungum fiskum er kviðlæga rákin oft ógreinileg. Hreistur nær yfir allan skrokk og á kviðnum allt til róta kvið- og eyrugga. Háls framan við bakugga er oftast hreistraður nema á ungum fiskum. Eyruggar eru grunnsýldir í aftari enda. Lengd frá trjónu að rauf er 39-44% af lengd fisksins að sporði. Skúflangar eru tveir. Tvírákamjóri getur náð a.m.k. 44 cm lengd.

Tvírákamjóri er grár til brúnn eða dökkrauðbrúnn á lit með 5-10 ljósum þverröndum sem ná út á bakugga og oft raufarugga. Auk þess hafa fundist á Íslandsmiðum dökkbrúnir fiskar ánþverranda og dökkbrúnir fiskar, ljósir á kvið.

Tvírákamjóri er kaldsjávarfiskur á leirbotni á 240-1000 m dýpi og við -1,1 til 2,5 °C hitastig.

Fæða er smákrabbadýr, burstaormar, slöngustjörnur og fleira.

Ekkert er vitað um hrygningu tvírákamjóra á Íslandsmiðum en í 25 cm hrygnu sem veiddist í Grænlandssundi voru 85 egg, 6 mm í þvermál og nær fullþroskuð egg, 5,5 mm í þvermál, hafa fundist í ágúst, væntanlega í Barentshafi. (Andriashev). Fjöldi eggja er 123-250.

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Friðarganga á Ísafirðir á Þorláksmessu

Friðarganga verður gengin á Ísafirði á Þorláksmessu.

Gangan er samstarfsverkefni friðarhreyfinga á Íslandi og er táknræn aðgerð sem er hugsuð til að senda skilaboð til ráðamanna með óskum um að þeir leggi sitt af mörkum til að stuðla að friðvænlegri heimi til framtíðar.
Ísfirðingar og nærsveitungar hafa tekið þátt í göngunni í yfir tuttugu ár.

Dagskráin í ár verður með hefðbundum hætti, safnast verður saman við Ísafjarðarkirkju kl. 17:50.

Gangan fer svo af stað kl.18:00 og gengur að Silfurtorgi þar sem verður stutt dagskrá.

Lítið af loðnu norðan lands

Árni Friðriksson við mælingar innan um “pönnukökuís” í Grænlandssundi. Ljósm. Birkir Bárðarson.

Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson héldu til loðnumælinga laugardaginn 9. desember.

Mælingar leiðangursins hafa leitt í ljós að áfram verður ráðgjöf um engar veiðar. 

Yfirferð Árna var með landgrunnsbrúninni út af Vestfjörðum og út í Grænlandssund eins og hafís leyfði en Bjarni fór með landgrunnsbrúninni út af Norðurlandi.

Þessar rannsóknir Hafrannsóknastofnunar voru að frumkvæði og kostaðar af útgerðum uppsjávarveiðiskipa. 

Rannsóknaskipin eru nú á leið til hafnar og verið er að vinna úr gögnum leiðangursins. Það er þó ljóst að það magn sem mældist í þessari yfirferð mun ekki breyta fyrri ráðgjöf um engar veiðar. Aðeins lítill hluti veiðistofnsins var kominn á yfirferðasvæðið miðað við mælingar fyrr í haust.

Framvindan var nokkuð greið enda náðu skipin saman og kláruðu yfirferðina seinni partinn í gær eins og sjá má á kortinu hér (skip.hafro.is). Útbreiðsla hafíss hindraði yfirferðina talsvert til norðurs.

Vestan til á rannsóknasvæðinu var mest af ungloðnu. Hún var þó aðeins blönduð kynþroska loðnu sem myndar veiðistofn á yfirstandandi vertíð.

Kynþroska loðna fannst utan við landgrunnsbrúnina út af Strandagrunni og við Kolbeinseyjarhrygg. Þar var um lítið magn að ræða.

Veiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson hafði, í forkönnun sinni fyrir Norðausturlandi viku fyrr, einnig orðið var við lítilsháttar magn loðnu rétt austan Kolbeinseyjarhryggjar en ekki séð neitt austan við það.

Mynd 1. Bergmálsgildi loðnu í desember 2023 samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar ásamt leiðangurslínum RS Árna Friðrikssonar (rauðar) og RS Bjarna Sæmundssonar (bláar).

Kranar á Egilsstöðum með lægsta tilboð í stálþil við Langeyri 

Kranar á Egilsstöðum áttu lægsta tilboð í stálþil á Langeyrar við Súðavík í Álftafirði.

Tilboð voru opnuð í gær. Verkið felst í því m.a. að steypa 23 akkerissteina., reka niður 85 tvöfaldar stálþilsplötur og að steypa 119 metra langan kantbita með pollum, kanttré , stígum og þybbum auk jarðvinnu. Áætlaður kostnaður var um 164 milljónir og verkinu á að vera lokið 1. nóvember á næsta ári.

Niðurstöður úr útboðinu voru þessar:

BjóðandiTilboð kr.HlutfallFrávik þús.kr.
Borgarverk ehf., Borgarnesi238.808.000145,581.031
HAGTAK HF., Hafnarfirði213.250.000129,955.473
Áætlaður verktakakostnaður164.102.600100,06.326
Kranar ehf., Egilsstöðum157.776.66696,10

Ísafjörður: samstöðufundur með Palestínu á Silfurtorgi

Á sunnudaginn var efnt til samstöðufundar með Palestínu á Silfurtorgi á Ísafirði. Ræðumenn voru Hanin Al-Saedi og Eiríkur Örn Norðdahl. „Góður fjöldi fólks var samankominn og var grimmdarverkum  Ísraelshers mótmælt og þess krafist að alþjóðsamfélagið virði líf og mannréttindi Palestínufólks.“ að sögn aðstandenda fundarins. 

Fundinum lauk með flugdrekagjörningi með sjö flugdrekum þar sem hver hafði sína merkingu og vísaði til fjölda þeirra sem hafa látist og slasast og skemmda á heimilum og stofnunum.

Myndir: Matthildur Helgadóttir Jónudóttir.

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða úthlutar 57 styrkjum að fjárhæð 56,7 m.kr.

Skrímslasetrið á Bíldudal.

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða úthlutaði í síðustu viku styrkjum vegna ársins 2024. Alls voru veittir 57 styrkir samtals að fjárhæð 44,8 m.kr. Auk þeirra eru 6 verkefni sem hafa þegar hlotið styrkvilyrði að fjárhæð 11,8 m.kr. , svo alls eru það 63 verkefni sem hljóta styrkvilyrði og koma til framkvæmda á árinu 2024. Samtals er fjárhæðin 56,7 m.kr. Úthlutað er í þremur flokkum; stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstofnana, styrkir til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna og styrkir til menningarverkefna.

Þetta er síðasta styrkveitingin úr Sóknaráætlun Vestfjarða en hún gildir út árið 2024. Stefnt er að því að hefja vinnu við gerð nýrrar sóknaráætlun með vorinu og mun hún væntanlega gilda í 5 ár segir í frétt á vefsíðu Vestfjarðastofu.

Stofn- og rekstrarstyrkir

Hæsta styrkinn fær Skrímslasetrið Bíldudal 2.750.000 kr.

Skrímslasetrið á Bíldudal hefur verið rekið allt frá árinu 2009. Uppbygging setursins er ekki lokið hvorki á sýningu né húsnæði segir í lýsingu á verkefninu. Þróun sýningarinnar og uppbygging húsnæðisins um leið hefur verið erfið en viðhald á svona gömlu húsnæði(1938) tekur í. Verkefni næstu ára er að ná að ljúka uppbyggingu bæði á húsnæði og sýningu.

Aðrir styrkir í þessum flokki eru:

Edinborgarhúsið Ísafirði fær 2.500.000 kr. styrk.

Strandagaldur Hólmavík 2.000.000 kr.

Sauðfjársetur á Ströndum Steingrímsfirði 1.500.000 kr.

Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða Dýrafirði 1.800.000 kr.

Báta- og hlunnindasýningin Reykhólum 1.500.000 kr.

Hversdagssafn // Hvers museum Ísafirði 1.200.000 kr.

ArtsIceland og Úthverfa Ísafirði 1.000.000 kr.

Bolungavíkurhöfn: 2.685 tonn af bolfiski í nóvember

Jóhanna Gísla GK í Bolungavíkurhöfn í október 2023. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls var landað 2.685 tonnum af bolfiski í Bolungavíkurhöfn í nóvembermánuði. Þar af voru 1.210 tonn af eldisfiski og annar bolfiskur var 1.475 tonn.

Aflahæstur var togarinn Sirrý ÍS sem kom með 529 tonn eftir 6 veiðiferðir. Dragnótabátar öfluðu ágætlega í mánuðinum. Ásdís ÍS var með 160 tonn og Þorlákur 80 tonn. Þrír dragnótabátar frá Snæfellsnesi lönduðu í Bolungavík. Saxhamar SH var með 58 tonn, Bárður SH með 100 tonn og Steinunn SH landaði 55 tonnum.

Þrír línubátar reru í mánuðinum. Fríða Dagmar ÍS landaði 239 tonnum eftir 23 róðra , Jónína Brynja ÍS var með 217 tonn í 22 róðrum og Indriði Kristins BA kom með 13 tonn eftir 8 róðra.

Þá var Sjöfn SH frá Stykkishólmi á ígulkerjaveiðum og landaði 26 tonnum.

Vesturbyggð: skipulags- og umhverfisráð vill heimila skoðun virkjunar í Vatnsfirði

Horft fram Vatnsdalinn.

Meirihluti skipulags- og umhverfisráðs Vesturbyggðar samþykkti í gær bókun þar sem segir að mjög brýnir samfélagslegir hagsmunir krefjist þess að virkjunarkostur Orkubús Vestfjarða í Vatnsfirði verði skoðaður. Segir í bókuninni „Því viljum við leggja áherslu á að ráðherra nýti heimild skv. b-lið 1. mgr. 44. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.“

Fyrir ráðið var lagt erindi frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, dags. 12. október 2023. Í erindinu er óskað umsagnar Vesturbyggðar um erindi Orkubús Vestfjarða ohf. og greinargerð um áhrif Vatnsdalsvirkjunar á friðland í Vatnsfirði. Orkubúið vill fá heimild til þess að gera umhverfismat fyrir svonefndar Vatnsdalsvirkjun.

Í sumar lagði starfshópur umhverfisráðherra til að ráðherra verði við erindi frá Orkubúi Vestfjarða um afléttingu friðaskilmála á Vatnsfjarðarfriðilandi á afmörkuðu svæði innan friðlandsins svo unnt verði að láta framkvæmda umhverfismat fyrir 20 – 30 MW virkjun í Vatnsdal. Í starfshópnum áttu sæti Einar K. Guðfinnsson, Arna Lára Jónsdóttir og Jón Árnason.

Í bókun meirihluta ráðsins segir að ýmsir kostir hafi verið lagðir fram sem taldir eru leysa vandann til skemmri og lengri tíma, en „ekki hefur verið sýnt fram á að vilji sé til að fjármagna þá kosti eða með hvaða hætti þeir verði tryggðir þegar ljóst má vera að tími og fjármagn verður lykilþáttur í þeim öllum. Því þykir okkur ekki skynsamlegt að hafna þessari leið“.

Jóhann Pétur Ágússon, formaður ráðsins var andvígur og hann ásamt Rebekku Hilmarsdóttur, fyrrv. bæjarstjóra lagði til að tillögur sem þegar hafa verið ákveðnar í svæðisbundnum aðgerðum og með tímasettum áföngum verði settar í forgang, áður en kannað er hvort að ástæða sé til að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar. Lögðu þau áherslu á að tvöföldun Vesturlínu verði hafin nú þegar og að þær vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum sem hafa nú þegar verið samþykktar innan Rammaáætlunar, þ.e. Austurgil og Ófeigsfjörður séu settar í forgang. „Þannig fái náttúran í Vatnsfirði áfram að njóta vafans, og að ekki verði gengið lengra en nauðsynlegt er og lokið verði fyrst við þær framkvæmdir sem þegar hafa verið undirbúnar til að mæta þeim mikilvægu almannahagsmunum sem felast í aðgengi að orku á Vestfjörðum áður en ákvörðun er tekin um afnám eða breytingu á friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar.“ segir í bókuninni.

Bókun sem Jóhann Pétur lagði fram var felld með þremur atkvæðum gegn tveimur. Í framhaldinu var samþykkt bókun með þremur atkvæmum gegn tveimur um að heimila skoðun virkjunarinnar.

Meirihlutann skipuðu þau Barði Sæmundsson, Fríða Matthíasdóttir og Ólafur Byron Kristjánsson.

Meirihlutinn í bæjarstjórn er skipaður fjórum fulltrúum N lista, Nýrrar sýnar og minnihlutann skipa 3 fulltrúar Sjálfstæðisflokks og óháðra.

Meirihlutinn í skipulags- og umhverfisráðinu klofnaði í málinu og að niðurstöðunni standa tveir fulltrúar D lista og einn fulltrúi N lista.

Bæjarstjórnarfundur verður í dag og er fundargerð skipulags- og umhverfisráðs á dagskrá en aðeins til kynningar.

Bókun meirihlutans í heild:

„Í bókun formanns kemur fram að leggja beri áherslu á að tillögur sem þegar hafa verið ákveðnar í svæðisbundnum aðgerðum og með tímasettum áföngum verði settar í forgang, áður en kannað er hvort að ástæða sé til að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar.

Ýmsir kostir hafa verið lagðir fram sem taldir eru leysa vandann til skemmri og lengri tíma, en ekki hefur verið sýnt fram á að vilji sé til að fjármagna þá kosti eða með hvaða hætti þeir verði tryggðir þegar ljóst má vera að tími og fjármagn verður lykilþáttur í þeim öllum. Því þykir okkur ekki skynsamlegt að hafna þessari leið og teljum að bókun formanns gangi ekki nógu langt til að bregðast við brýnum hagsmunum samfélagsins um styrkingu raforkukerfisins á Vestfjörðum og framtíðarhagsmunum sunnanverða Vestfjarða þegar kemur að orkuskiptum og frekari uppbyggingu atvinnulífs. Horfa þurfi til allra kosta í því samhengi og fá fram með opnu og skilgreindu ferli, viðhorf þeirra sem lögum samkvæmt fjalla um slíka kosti. Því viljum við leggja áherslu á að ráðherra nýti heimild skv. b-lið 1. mgr. 44. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, þar sem við teljum að mjög brýnir samfélagslegir hagsmunir krefjist þess að kosturinn verði skoðaður.“

Ísafjörður: Eyrarkláfur í umhverfismat

Eyrarkláfur ehf hefur hlotið 2 m. kr. styrk úr Uppbyggingasjóði Vestfjarða og segist Gissur Skarphéðinsson forvarsmaður fyrirtækisins vera þakklátur sjóðnum fyrir það. „Ennfremur hefur Vestfjarðastofa hefur sett verkefnið í áfangastaða áætlun sína sem ég er mjög þakklátur fyrir.“

Félagið er búið að setja verkefnið í umhverfismatsvinnu hjá félaginu Rorum ehf sem er öflugt félag í rannsóknum í umhverfis og byggingarmálum ásamt vistfræði og öðrum umhverfis tengdum málum og segir Gissur verkefnið vera í góðum höndum þar.

Mikið hafði verið um það talað og rætt manna á milli á Ísafirði að setja upp kláf sem myndi ferja fólk upp á topp Eyrafjalls sem er fyrir ofan bæinn. Var þessi hugmynd skoðuð árið 2006 en ekkert varð úr henni þá.

Kláfurinn sem núna er verið að skoða er stærri og öflugri en sá sem var skoðaður 2006. Hugmyndin með uppsetningu kláfsins er sú að heimamenn og ferðamenn geti notið þess að fara upp á topp Eyrarfjalls.

„Kláfurinn sem áætlað er að setja upp er af gerðinni 3S Gondola Lift. Kláfurinn verður með tveimur „vögnum“ á tveimur línum. Kláfurinn ferðast um á hjólum sem sitja á tveimur vírum og þriðji vírinn dregur vagninn eftir þeim. Þegar annar er í efstu stöðu þá er hinn í neðstu stöðu. Hvor vagn tekur allt að 45 manns í hverri ferð. Þessi gerð kláfs er hönnuð fyrir aðstæður þar sem meira er um vind og getur hann því tekið á sig meiri hliðarvind en aðrir hans tegundar. Hann notar minni orku og er gerður til að fara hátt upp. Hann getur farið á allt að 8,5 m/s hraða. Gert ert ráð fyrir því að kláfurinn sé um 6–7 mínútur upp á topp Eyrafjalls. Aðalstöðvarhúsið verður niðri en annað stöðvarhús verður á toppi Eyrafjalls. Eitt mastur kemur á milli neðri stöðvar og efri stöðvar til að lyfta kláfnum yfir Gleiðarhjalla. Einn starfsmaður verður ávallt í hvorum kláf og einnig verða starfsmenn staðsettir á báðum endastöðvum. Afkastageta hvors vagns getur verið þrjár til fimm ferðir upp á klst., samtals sex til 10 ferðir á klst. Miðað við 100% nýting á báðum vögnum er afkastageta kláfsins 270 til 450 manneskjur á klst. eða 2.700 til 5400 á dag.

Gissur Skarphéðinsson.

Markmiðið með kláfnum er að veita upplifun sem er ekki algeng á Vestfjörðum: Að einstaklingar fái nýja sýn á þetta svæði með því að eiga kost á því að fara upp á Eyrarfjall á auðveldan hátt. Það verður markmið hjá starfseminni að bjóða viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu með miklu öryggi. Sem dæmi um það fara kláfarnir inn í hús er upp er komið. Mikið öryggi verður í báðum vögnunum og verða sem dæmi fjögur hjartastuðtæki til taks; eitt í hvorum kláf og eitt á hvorri stöð, uppi og niðri. Félagið um kláfinn mun einnig setja sér siðareglur sem eiga að stuðla að heiðarleika og sanngirni, sem talið er að muni hjálpa fyrirtækinu að ná sínum markmiðum. Markaðslegt markmið kláfsins er að vera leiðandi aðili á sínu sviði fyrir viðskiptavini hans. Með því að setja upp þessa starfsemi er verið að auka verðmæti þess að fleiri skip og ferðamenn sækja Ísafjörð heim. Félagið mun sýna samfélagslega ábyrgð sem felst meðal annars í því að bjóða eldri borgurum reglulega fríar ferðir upp. Eins mun starfsemi kláfsins styðja vel við björgunarsveitir á svæðinu og stuðla að því að til verði búnaður í þeirra umsjá sem hægt yrði að grípa til ef til óhapps kæmi. Vonast er til að sá búnaður verði aldrei notaður nema til æfinga. Kláfurinn mun fylgja ströngum umhverfisreglum, því ekki viljum við að rusl dreifist um á toppi fjallsins. Fólk verður hvatt til þess að kaupa ferðir á netinu og með því að gera það sparast pappír, því rafrænir miðar koma í stað pappírsmiða.

Stefnt er að því á vormánuðum að halda íbúafund á Ísafirði með glærukynningu til að halda öllum sem best upplýstum með framvindu verkefnisins, þar sem tekið verður við ábendingum og hvað megi betur fara.“

Nýjustu fréttir