Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 250

Vesturbyggð: Vatnsdalsvirkjun hafnað

Vatnsfjörður. Mynd: Úlfar Thoroddsen.

Meirihluti N-lista í bæjarstjórn Vesturbyggðar sneri við í gær á fundi bæjarstjórnar niðurstöðu skipulags- og umhverfisráðs frá því deginum áður. Samþykki meirihlutinn bókun þar sem segir að Vesturbyggð leggi „áherslu á að þær vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum sem hafa nú þegar verið samþykktar innan Rammaáætlunar, þ.e. Austurgil og Ófeigsfjörður séu settar í forgang. Einnig leggur Vesturbyggð ríka áherslu á að tvöföldun Vesturlínu verði hafin nú þegar, enda nauðsynlegt að lokið verði við þá framkvæmd til þess að tryggja flutning til og frá svæðinu. Þannig fái náttúran í Vatnsfirði áfram að njóta vafans, og að ekki verði gengið lengra en nauðsynlegt er. Lokið verði fyrst við þær framkvæmdir sem þegar hafa verið undirbúnar til að mæta þeim mikilvægu almannahagsmunum sem felast í aðgengi að orku á Vestfjörðum áður en ákvörðun er tekin um afnám eða breytingu á friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar.“

Fyrir Vesturbyggð lá erindi frá umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra þar sem óskað er umsagnar um erindi Orkubús Vestfjarða um afnám eða breytingu friðlýsingar og greinargerð um áhrif Vatnsdalsvirkjunar í Vatnsfirði.

ekki skynsamlegt að hafna þessari leið

Minnihluti D-lista greiddi ekki atkvæði með bókun meirihlutans heldur sat hjá og lagði fram eigin bókun þar sem segir að ekki sé skynsamlegt að hafna þessari leið og vill að ráðherra nýti heimild til þess að afnema friðlýsingu eða breyti henni.

„Í bókun meirihluta bæjarstjórnar kemur fram að leggja beri áherslu á að tillögur sem þegar hafa verið ákveðnar í svæðisbundnum aðgerðum og með tímasettum áföngum verði settar í forgang, áður en kannað er hvort að ástæða sé til að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar. Ýmsir kostir hafa verið lagðir fram sem taldir eru leysa vandann til skemmri og lengri tíma, en ekki hefur verið sýnt fram á að vilji sé til að fjármagna þá kosti eða með hvaða hætti þeir verði tryggðir þegar ljóst má vera að tími og fjármagn verður lykilþáttur í þeim öllum. Því þykir okkur ekki skynsamlegt að hafna þessari leið og teljum að bókun meirihlutans gangi ekki nógu langt til að bregðast við brýnum hagsmunum samfélagsins um styrkingu raforkukerfisins á Vestfjörðum og framtíðarhagsmunum sunnanverða Vestfjarða þegar kemur að orkuskiptum og frekari uppbyggingu atvinnulífs. Horfa þurfi til allra kosta í því samhengi og fá fram með opnu og skilgreindu ferli, viðhorf þeirra sem lögum samkvæmt fjalla um slíka kosti. Því viljum við leggja áherslu á að ráðherra nýti heimild skv. b-lið 1. mgr. 44. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, þar sem við teljum að mjög brýnir samfélagslegir hagsmunir krefjist þess að kosturinn verði skoðaður.“

Skarfur GK666 ex Sléttanes ÍS 710

Skarfur GK 666 lætur hér úr höfn í Grindavík. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2002

Báturinn hét upphaflega Sléttanes ÍS 710 og var 268 brl. að stærð. Smíðaður fyrir Fáfni h/f á Þingeyri í Boizenburg í A-Þýskalandi árið 1967.

Seldur Tálkna h/f á Tálknafirði 1974 og fékk nafnið Sölvi Bjarnason BA 65. Erlingur Pétursson í Vestmannaeyjum keypti bátinn árið 1977 og nefndi Eyjaver VE 7.

1979 er Eyjaver selt Drift h/f á Neskaupstað og fékk nafnið Fylkir NK 102. Það stoppaði stutt við fyrir austan en 1980 kaupir Fiskanes h/f í Grindavík og fær þá báturinn það nafn sem hann ber á myndinni, Skarfur GK 666.

Þegar myndin var tekin var báturinn í eigu Þorbjörns-Fiskaness hf. sem í dag heitir Þorbjörn hf.

Fyrirtækið var á sínum tíma sett saman úr þremur fjölskyldufyrirtækjum, Þorbirni og Fiskanesi í Grindavík og Valdimar í Vogunum og fékk hið sameinaða fyrirtæki þá nafnið Þorbjörn Fiskanes.

Sumarið 2003 var Skarfur seldur KG fiskverkun ehf. á Rifi og fékk nafnið Faxaborg SH 207. Seld úr landi árið 2008.

Eins og kemur fram í upphafi var báturinn 268 brl. að stærð en hann var endurmældur árið 174 og varð við það 217 brl. að stærð. Hann var yfirbyggður 1984 og seinna skipt um brú og skutlengdur og var 234 brl./335 BT að stærð.

Upphaflega var 660 hestaafla Lister aðalvél í bátnum en 1981 var sett í hann 900 hestafla Grenaa.

Af skipamyndir.is

Tilnefningar til íþróttamanns ársins 2023

Í Strandabyggð, Bolungarvík og Ísafjarðarbæ er nú leitað eftir tilnefningum til íþróttamanns ársins 2023.

Í Ísafjarðarbæ eru tilnefnd í kjörinu um íþróttamanns ársins 2023 þau:

Ásgeir Óli Kristjánsson, Golfklúbbi Ísafjarðar, tilnefndur af Golfklúbbi Ísafjarðar
Elmar Atli Garðarsson, knattspyrnudeild Vestra, tilnefndur af bæjarbúa
Dagur Benediktsson, Skíðafélagi Ísfirðinga, tilnefndur af Skíðafélagi Ísfirðinga
Gustav Kjeldsen, knattspyrnudeild Vestra, tilnefndur af knattspyrnudeild Vestra
Leifur Bremnes, Skotís, tilnefndur af Skotís
Sigrún Betanía Kristjánsdóttir, knattspyrnudeild Vestra, tilnefnd af knattspyrnudeild Vestra
Sigurður Gunnar Þorsteinsson, körfuknattleiksdeild Vestra, tilnefndur af körfuknattleiksdeild Vestra
Sólveig Pálsdóttir, Golfklúbbi Ísafjarðar, tilnefnd af Golfklúbbi Ísafjarðar
Svanfríður Guðný Þorleifsdóttir, blakdeild Vestra, tilnefnd af blakdeild Vestra

Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2023 verður útnefndur á veitingastaðnum Logni á Hótel Ísafirði þann 13. janúar 2024 kl. 14:00. Viðburðurinn er öllum opinn.

Fræðslumála- og æskulýðsráð Bolungarvíkuróskar eftir tilnefningum til íþróttamanns ársins 2023 í Bolungarvík. Tilnefningum skal skila inn á bæjarskrifstofu fyrir kl. 15:00 föstudaginn 29. desember 2023.

Hóf til heiðurs íþróttafólki og útnefning íþróttamanns ársins verður haldið í janúar 2024 í Félagsheimili Bolungarvíkur. Dagsetning auglýst nánar síðar.

Tómstunda-, íþrótta- og menninganefnd óskar eftir tilnefningum til Íþróttamanns Strandabyggðar 2023.

Útnefningunni er ætlað að vera viðurkenning fyrir unnin íþróttaafrek eða annað framlag til íþróttastarfs á liðnu ári og hvatning til enn frekari afreka í framtíðinni.

Íþróttamaður ársins í Strandabyggð þarf að hafa náð 16 ára aldri og vera búsettur með lögheimili í Strandabyggð á árinu.

Á sama hátt og Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd útnefnir íþróttamann ársins í Strandabyggð skal velja einn einstakling eldri en 12 ára sem hlýtur svokölluð Hvatningarverðlaun Strandabyggðar.

Aron Ottó syngur óperuaríur í Hömrum

Á hádegistónleikum á morgun 15. des. 2023, kl. 12, syngur Aron Ottó Jóhannsson óperuaríur eftir Mozart og Verdi við píanóleik móður sinnar Beu Joó.

Aron Ottó er 26 ára bassasöngvari. Hann sigraði í Vox Domini söngkeppni Félags ísl. söngkennara árið 2017 og árið 2018 fékk hann sérstök verðlaun í József Simándy International Söngkeppninni.

Hann hóf háskólanám við Tónlistardeild háskólans í Szeged árið 2018, sem nemandi István Andrejcsik og útskrifaðist sem árið 2021. Hann fékk síðan inngöngu í óperudeild Ferenc Liszt tónlistarakademíunni, undir leiðsögn Péter Fried.

Að undanförnu hefur hann sungið nokkur hlutverk á sýningum ungversku ríkisóperunnar, t.d. Ede Poldini sem András í Karnivalbrúðkaupinu, Araldo í óperunni Otello eftir Verdi og æðsta prestinn Baal í Nabucco. Auk þess lék hann Pinellino í Gianni Schicchi eftir Puccini í uppsetningu fyrir börn.

Frumvarp til laga um sjávarútveg – umsagnafrestur framlengdur – Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda mótmæla

Brákarey MB 4 í höfn á Drangsnesi. Mynd: Guðmundur Magnússon.

Frestur til að senda inn umsagnir eða ábendingar um viðkomandi drög að sjávarútvegsstefnu ásamt drögum að frumvarpi til laga um sjávarútveg hefur verið framlengdur til og með 10. janúar 2024.

Drög að sjávarútvegsstefnu innihalda framtíðarsýn íslensks sjávarútvegs til 2040. Stefnunni er ætlað að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku um sjávarútveg til að stuðla að hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag.

Með frumvarpi til laga um sjávarútveg er lagt til að sett verði ný heildarlög þar sem sameinaðir eru núgildandi lagabálkar á sviði fiskveiðistjórnunar, til að tryggja betri yfirsýn um þær reglur sem gilda um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar. Frumvarpið byggir að miklu leyti á núgildandi lögum en þó er í frumvarpinu að finna nýmæli úr tillögum starfshópa Auðlindarinnar okkar í skýrslunni Sjálfbær sjávarútvegur.

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda hafa mótmælt frumvarpinu, þá sérstaklega hugmyndum um rýmkun hámarksaflahlutdeildar félaga á markaði í 15%.  „Þá er staðreyndin áfram sú, nái frumvarpið fram að ganga, að 6-10 fyrirtækjasamstæður geti haldið á öllum veiðiheimildum þjóðarinnar og jafnvel haft óljós eignatengsl sín á milli“, eins og segir í ályktun stjórnarinnar.

Þá segja samtökin einnig að eðlilegt sé að strandveiðar hefjist að loknu hrygningarstoppi um miðjan apríl og standi til loka september. Jafnframt ber að tryggja öllum strandveiðisjómönnum jafnt aðgengi, með fyrirfram ákveðnum dagafjölda í stað heildar úthlutunar á strandveiðiflotann. Auk þess verði skylt að landa strandveiðiafla á markaði til að tryggja sjálfstæði strandveiðisjómanna sem best.

NASF: frv um lagareldi gengur of skammt til að vernda villta laxastofninn

Elfar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri NASF.

Verndarsjóður villtra laxastofna (North Atlantic Salmon Fund (NASF)) segir í fréttatilkynningu að frumvarp til laga um lagareldi, sem er í samráðsgátt stjórnvalda, gangi of skammt til að vernda villta laxastofninn.

Sjóðurinn er á því að banna eigi sjókvíaeldi vegna umhverfisáhrifa og fenginnar reynslu, en á meðan það er leyft þurfa að gilda um það ströng lög. Frumvarpið sem nú er kynnt er að sumu leyti framför frá síðustu lagasetningu, en þó er langt í land ef stjórnvöld ætla sér að vernda villtan lax og lífríki. Torvelt sé að sjá að mörg atriði innan frumvarpsins séu gagnleg fyrir villta laxastofninn og náttúruna.

Þá segir í fréttatilkynningunni:

„Strax mátti sjá á Alþingi að þingmenn vildu gefa alræmdum fyrirtækjum afslátt, enda virðast fæstir reikna með að fyrirtækin geti starfað innan ramma núverandi laga, hvað þá hertra laga. Þetta kemur fram í nefndaráliti frá þingmönnum meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar sem allir eru í ríkisstjórnarflokkunum. Þar virðist ekki vilji til þess að iðnaðurinn greiði gjald fyrir þann skaða sem hann veldur náttúrunni.“

Vill sjóðurinn að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu, m.a. að gera kröfu um að afföll seiði í eldi verði minni en þau 10-20% sem frv gerir ráð fyrir , lagst er gegn innra eftirliti fyrirtækjanna, að áhættumat erfðablöndunar frá Hafrannsóknarstofnun verði áfram bindandi og lagst er gegn því að að leyfi verði ótímabundin, veðsetjanleg og framseljanleg. „Þetta minnir óþarflega mikið á kvótakerfið og þættina „Verbúðin“.“

GEFUM ÍSLENSKU SÉNS UM JÓLIN

Undanfarið hefir nokkuð borið á átakinu Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag. Reglulega hefir það staðið að uppákomum sem allar lúta sama markmiði, að auka vitund fólks, og þá ekki síst móðurmálshafa, fyrir því hvað máltileinkun (það að læra tungumál) felur í sér ásamt því að hvetja fólk til að leggja sitt lóð á vogarskálina við að hjálpa fólki að læra íslensku. Allir geta verið svokallaðir almannakennarar. Í hnotskurn er málið þau einföldu skilaboð að íslenska lærist ekki sé enska alltaf notuð og að fólk þurfi að fá tækifæri til að nota málið. Tækifæri sem móðurmálshafar geta vissulega veitt sé vilji og áhugi fyrir hendi.

Auðvitað er málið ekki alveg svona einfalt en við ætlum ekki að hafa mörg orðum um það hér heldur hvetjum við áhugasama að kynna sér málin. Best fer hugsanlega á því í gegnum FB-síðu átaksins en þar að auki má finna ýmislegt um átakið á www.bb.is. Þess má auk þess geta að áður en langt um líður fer heimasíða átaksins í loftið. Tekið hefir verið frá lénið www.gefumislenskusens.is.

Hæst ber þó í þessu öllu að átakinu hlotnaðist viðurkenning á dögunum. Gefum íslensku séns var sæmt Evrópumerkinu sem er verðlaun fyrir nýsköpun í tungumálakennslu.

Viðurkenningin er kærkomin og gefur átakinu byr undir báða vængi. Er því ljóst að átakið er komið til að vera og mun vonandi hafa áhrif á landsvísu þótt enn sem komið er sé átakið mestmegnis bundið við Vestfirði.

Í desembermánuði stendur svo ýmislegt til. Nú þegar hefir verið haldin hraðíslenska á Bryggjukaffi á Flateyri svo og Þriðja rýmið í Bókasafni Ísafjarðar. Næstkomandi mánudag ætlum við svo að standa fyrir Litlu jólum Gefum íslensku séns í Háskólasetri Vestfjarða. Leikar hefjast klukkan 17:00 og hvetjum við alla til að koma og þá sérstaklega þá sem eiga erlendan maka sem vill læra íslensku. Að sjálfsögðu með maka sinn sér við hlið. Málið snýst um að kynna íslenskar jólahefðir og er þá ekki úr vegi að gera það saman. Svo er það hraðíslenska eða JÓLAHRAÐÍSLENSKA sem á sér stað fimmtudaginn 21. desember á Dokkunni klukkan 18:30. Og til að fyrirbyggja misskilning snýst málið ekki um að tala hratt. Nei, þvert á móti snýst það um að tala hægt, skýrt og skiljanlega. Jólaglögg verður í boði en áhugasamir þurfa að skrá sig í gegnum islenska(hja)uw.is eða símleiðis í gegnum 8920799.

Eins og flestir hafa líkast til ekki farið varhluta af stendur nokkur styr um íslenskuna þessi dægrin. Mikið er rætt um að hún eigi undir högg að sækja. Það er vissulega rétt. En sé vilji til að snúa við blaðinu er það í okkar höndum. Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag vill hjálpa til í þeim efnum, að skapa tækifæri á báða bóga með bros á vör, ekki fingur á lofti. Og það er vissulega mikið sem móðurmálshafinn getur gert til að auka hvata og færni fólks. Íslenska lærist nefnilega EKKI einvörðungu, nema þá í undantekningartilfellum, í skóla. Hún lærist í samfélaginu, af fólkinu sem kann hana, af fólkinu sem heldur henni að þeim sem hana læra. Verða því ætíð hvati og tækifæri að vera til staðar. Hvernig væri að skapa slík tækifæri? Hvernig væri að gefa íslensku séns um jólin?

Fyrir hönd átaksins Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson verkefnastjóri átaksins

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða: 17 styrkir til atvinnuþróunar og nýsköpunar

Frá náttúrubarnahátíð á Sævangi í Tungusveit.

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða hefur veitt 17 styrki til atvinnuþróunar og nýsköpunar á næsta ári samtals að fjárhæð 16,7 m.kr.

Hæstu styrkirnar eru 2 m.kr. og fengu tvö verkefni þá upphæð, auk þess voru tveir 1,8 m.kr. styrkir.

Eyrarkláfur ehf Ísafirði fékk 2 m.kr. styrk til gerðar umhverfismats vegna áforma um kláf upp á Eyrarfjall. Hitt verkefnið sem fékk 2 m.kr. styrk er til 425 ehf á Flateyri. Fyrirtækið ætlar að breyta iðnaðarhúsnæði sínu á Flateyri í matvælavinnslu og hefja þar rekstur, framleiðslu og sölu á hinum ýmsu sveppaafurðum undir vörumerkinu Villt að vestan. Verða þróaðar sósublöndur með vestfirskum skógarsveppum fyrir verslanir Haga.

Sauðfjársetur á Ströndum fékk 1.8 m.kr. styrk vegna náttúrubarnaskóla og náttúrubarnahátíðar. Verkefnið snýst um uppbyggingu menntatengdrar ferðaþjónustu sem byggir á náttúrutúlkun og þjóðfræði. Á árinu 2024 verður áhersla lögð á viðamikla og vandaða Náttúrubarnahátíð, einnig að færa verkefnið í átt til sjálfbærni með markaðssetningu fyrir ólíka hópa, ferðafólk og heimamenn.

Úr sveitinni ehf Kollafirði í Strandasýslu fékk einnig 1,8 m.kr. styrk. Verkefnið nefnist strandfóður og í lýsingu Uppbyggingarsjóðs segir að ætlunin sé að „upphefja hlunnindi sjávarjarða á nýjan leik með nýrri hugsun og aðferðafræði hringrásarhagkerfsins. Með því að samtengja landbúnaðarframleiðslu þannig að hringrás næringarferla frá landi til sjávar verði opnuð, eru tækifæri til aukinnar sjálfbærni og rekstrarhagkvæmni með minnkun notkunar á aðkeyptum aðföngum til landbúnaðar.“

Skútusiglingar ehf Ísafirði fengu 1,2 m.kr. styrk til siglinga um Ísafjarðardjúp. Um er að ræða samstarf Borea Adventures og Ögurtravel sem byggir á siglingum um Djúpið með viðkomu í Ögri.

Gylfi Ólafsson Ísafirði fékk 1.1 m.kr. styrk til að þróa áfram viðskiptahugmynd um upplifunarsýningu á Ísafirði og meta kostnað. Aðalmarkhópurinn er skemmtiskipafarþegar og á sýningin að geta tekið stóra hópa farþega.

Cristina Isabelle Cotofana Hólmavík hlaut 1 m.kr. styrk til að vinna úr sveppum.

Úthlutað var smærri styrkjum til 9 aðila eftirfarandi:

Skíðafélag Strandamanna Hólmavík 900.000 kr. vegna vetrarviðburða.

Samfélagsmiðstöðin á Þingeyri ses. Þingeyri 800.000 kr. vegna Startup Westfjords 24.

Galdur Brugghús ehf Hólmavík 700.000 kr. vegna markaðssóknar Galdurs Brugghús.

Travel West ehf Patreksfirði fékk einnig 700.000 kr. styrk til að setja upp rafmagnshjólaferðir um Vestfirði.

Leiry Seron Ísafirði 500.000 kr. til að gera app sem nenfist ridesharing.

Hjartarót ehf Ísafirði 500.000 kr. til að skoða fýsileika þess að rækta lífræna hágæða burnirót með sjálfbærum hætti á norðanverðum Vestfjörðum og gera viðskiptaáætlun fyrir verkefnið.

Fjólubláa húfan ehf Ísafirði 500.000 kr. til þess að gefa út sófaborðsbók á ensku þar sem sérkenni Vestfjarða verða dregin fram.

Guðfinna Lára Hávarðardóttir Kollafirði fékk 500.000 kr. styrk til þess að hanna fjárhúss sem hentar fyrir fjölbreytt framleiðslukerfi og innleiðir tæknilausnir eftir fremsta megni.

Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir Ísafirði 500.000 kr. styrk til þess að vinna að sköpun, hönnun og smíð á frumgerðum af minjagripum sem hægt er að stinga í vasann.

Menntaskólinn á Ísafirði 200.000 kr. styrk til til kynningar og viðburðahalds.

Forsætisráðuneytið skipar Strandanefnd

Frá Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Forsætirráðuneytið hefur ákveðið að skipa sérstaka nefnd um byggðaþróun í Strandasýslu. Tildrögin eru þau að oddvitar sveitarfélaganna á Ströndum leituðu til ráðuneytisins og Vestfjarðarstofu um að skipa nefnd um málefni Stranda. Verkefni nefndarinnar felst í tillögugerð um hvernig megi efla byggðaþróun m.a. með tilliti til fjárfestinga, atvinnuframboðs- og tækifæra á svæðinu. Nefndin verður skipuð fulltrúum sveitarfélaganna á Ströndum, Byggðastofnunar, Fjórðungssambands Vestfirðinga og sérfræðingum frá forsætisráðuneyti og innviðaráðuneyti.

Sveitarstjórn Strandabyggðar ákvað á fundi sínum á þriðjudaginn að skipa sveitarstjórnarmennina  Þorgeir Pálsson og Hlíf Hrólfsdóttir í nefndina.

Bolungavík: tekjur næsta árs losa 2 milljarða króna

Lundahverfið nýja í Bolungavík.

Það sem einkennir fjárhagsáætlun næsta árs fyrir Bolungavíkurkaupstað að sögn Jóns Páls Hreinssonar, bæjarstjóra er að tekjur eru að aukast þrátt fyrir lækkun fasteignaskatts og hóflegrar hækkunar á gjaldskrám fyrir þjónustu. Almennt hækkuðu gjaldskrár um 5%. Tekjur aukast um 290 m.kr á milli áætlana, þar af aukast útsvarstekjur um rúmlega 100m.kr. Annað árið í röð eru miklar framkvæmdir á áætlun. Verða þær nærri 400 milljónir króna og þar af fjármagnaðar 300 m.kr. úr bæjarsjóði.

Áætlunin gerir ráð fyrir 13 m.kr. afgangi af A og B hluta rekstrar, en 16 m.kr. afgangi af A hluta. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 240 m.kr. á árinu, eða 11,9% af heildartekjum.

Útgjaldamegin þá hækka laun og launatengd gjöld um 157m.kr. á milli áætlana 2023 og 2024. Hefur launakostnaður sveitarfélagsins aukist um 20% frá árinu 2022, en á sama tíma er áætlað að launavísitala hækki um 18% á sama tímabili. Gert er ráð fyrir að stöðugildum fjölgi á árinu úr 82 í 85.

Bæjarstjórn Bolungavíkur samþykkti fjárhagsáætlunina á fundi sínum á þriðjudaginn.

skuldir lækka í 86%

Jón Páll segir að fjárhagsleg staða sveitarfélagsins sé sterk. Sveitarfélagið standi vel gagnvert þeim kennitölum sem sveitarfélög og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga miða alla jafna við.
Skuldahlutfall sveitarfélagsins lækkar verulega á milli ára samkvæmt áætluninni og er áætlað að verði um 86% af ráðstöfunartekjum í lok árs 2024.

Stærsti tekjuliðurinn er útsvar og fasteignaskattur sem er áætlaður 982 m.kr. á næsta ári. Framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er áætlað verða 406 m.kr. heildartekjur verða 2.025 m.kr.

Hafnarsjóður verður rekinn með verulegum afgangi samkvæmt áætluninni. Tekjur verða 149 m.kr. og afgangur eftir rekstur og fjármagnskostnað eru áætlaðar 41 m.kr. eða 28% af tekjum. Sömuleiðis er vatnsveitan rekin með afgangi. Tekjur eru áætlaðar 63 m.kr. og gert er ráð fyrir að 20 m.kr. standi eftir eftir rekstur og fjármagnskostnað. Sömu sögu er að segja af rekstri fráveitu. Tekjur eru áætlaðar 28m.kr. og eftirstöðvar 15 m.kr.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri

Litlr framkvæmdir verða við höfnina á næsta ári eða aðeins 7 m.kr. í viðhaldsverkefni en hins vegar eru stór verkefni í gangi við nýja vatnsveitu og eru settar 146 m.kr. í það verkefni á næsta ári. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum og taka nýja vatnsveitu í notkun á árinu. Frá Fiskeldissjóði hafa fengist styrkir að fjárhæð 45 m.kr. til þeirra framkvæmda. Sótt verður um frekari styrk úr sjóðnum en vegna óvissu um Fiskeldissjóð er ekki gert ráð fyrir því í fjárhagsáætluninni. Jón Páll segir að óvissan um Fiskeldissjóð sé óþægileg og geti leitt til ómarkvissari og óhagkvæmari framkvæmda.

Miklar framkvæmdir verða við götur og gangstéttir á næsta ári. Í Lundahverfi verður framkvæmt við götur og lagnir fyrir 100 m.kr., byrjað verður á miklu viðhaldi á Völusteinsstræti og settr eru 40 m.kr. í það , 50 m.kr. eru áætlaðar í annað malbik og 9 m.kr. í gangstéttir.

Nýjustu fréttir