Meirihluti N-lista í bæjarstjórn Vesturbyggðar sneri við í gær á fundi bæjarstjórnar niðurstöðu skipulags- og umhverfisráðs frá því deginum áður. Samþykki meirihlutinn bókun þar sem segir að Vesturbyggð leggi „áherslu á að þær vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum sem hafa nú þegar verið samþykktar innan Rammaáætlunar, þ.e. Austurgil og Ófeigsfjörður séu settar í forgang. Einnig leggur Vesturbyggð ríka áherslu á að tvöföldun Vesturlínu verði hafin nú þegar, enda nauðsynlegt að lokið verði við þá framkvæmd til þess að tryggja flutning til og frá svæðinu. Þannig fái náttúran í Vatnsfirði áfram að njóta vafans, og að ekki verði gengið lengra en nauðsynlegt er. Lokið verði fyrst við þær framkvæmdir sem þegar hafa verið undirbúnar til að mæta þeim mikilvægu almannahagsmunum sem felast í aðgengi að orku á Vestfjörðum áður en ákvörðun er tekin um afnám eða breytingu á friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar.“
Fyrir Vesturbyggð lá erindi frá umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra þar sem óskað er umsagnar um erindi Orkubús Vestfjarða um afnám eða breytingu friðlýsingar og greinargerð um áhrif Vatnsdalsvirkjunar í Vatnsfirði.
ekki skynsamlegt að hafna þessari leið
Minnihluti D-lista greiddi ekki atkvæði með bókun meirihlutans heldur sat hjá og lagði fram eigin bókun þar sem segir að ekki sé skynsamlegt að hafna þessari leið og vill að ráðherra nýti heimild til þess að afnema friðlýsingu eða breyti henni.
„Í bókun meirihluta bæjarstjórnar kemur fram að leggja beri áherslu á að tillögur sem þegar hafa verið ákveðnar í svæðisbundnum aðgerðum og með tímasettum áföngum verði settar í forgang, áður en kannað er hvort að ástæða sé til að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar. Ýmsir kostir hafa verið lagðir fram sem taldir eru leysa vandann til skemmri og lengri tíma, en ekki hefur verið sýnt fram á að vilji sé til að fjármagna þá kosti eða með hvaða hætti þeir verði tryggðir þegar ljóst má vera að tími og fjármagn verður lykilþáttur í þeim öllum. Því þykir okkur ekki skynsamlegt að hafna þessari leið og teljum að bókun meirihlutans gangi ekki nógu langt til að bregðast við brýnum hagsmunum samfélagsins um styrkingu raforkukerfisins á Vestfjörðum og framtíðarhagsmunum sunnanverða Vestfjarða þegar kemur að orkuskiptum og frekari uppbyggingu atvinnulífs. Horfa þurfi til allra kosta í því samhengi og fá fram með opnu og skilgreindu ferli, viðhorf þeirra sem lögum samkvæmt fjalla um slíka kosti. Því viljum við leggja áherslu á að ráðherra nýti heimild skv. b-lið 1. mgr. 44. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, þar sem við teljum að mjög brýnir samfélagslegir hagsmunir krefjist þess að kosturinn verði skoðaður.“