Mánudagur 2. september 2024
Síða 25

Innsetningarræða Höllu Tómasdóttur forseta Íslands

Góðir Íslendingar.
Ég stend hér í dag með hjartað fullt af þakklæti fyrir það traust sem mér – og okkur hjónum – hefur verið sýnt og þann stuðning sem við höfum notið um allt land.
Ég er þakklát foreldrum mínum sem gáfu mér gott veganesti út í lífið og þakklát kjarkmiklu konunum sem sýndu mér ungri að aldri að með hugrekki og samtakamætti getum við hreyft við samfélaginu og leitt framfarir.
Ég er þakklát fyrir að hafa fæðst hér á landi – fyrir að fá að vera Íslendingur, sem í dag er öfundsvert hlutskipti, þótt það hafi ekki alltaf verið svo í gegnum aldirnar.
Ég þakka gengnum kynslóðum sem með einmuna seiglu ekki aðeins héldu landinu í byggð heldur sköpuðu einstakan menningararf sem við Íslendingar megum vera afar stolt af.
Ég þakka öllum sem lagt hafa grunninn að því sem við njótum í dag í einu mesta velferðarríki heims.  
Mér er ljós sú mikla ábyrgð sem ég tekst á hendur og mun leggja mig alla fram um að vinna landi og þjóð það gagn sem ég má. Ég veit að ég byggi á traustum grunni þeirra sem á undan fóru og minnist með virðingu Sveins Björnssonar, Ásgeirs Ásgeirssonar og Kristjáns Eldjárns. Þá er heiður að mega persónulega þakka Vigdísi Finnbogadóttur, Ólafi Ragnari Grímssyni og Guðna Th. Jóhannessyni fyrir þeirra forsetatíð og framlag í þágu þjóðarinnar.
Nú þegar ég vinn drengskaparheit að íslensku stjórnarskránni eru aðeins áttatíu ár liðin frá stofnun lýðveldisins. Áttatíu ár eru um það bil einn mannsaldur. Hvað hefur áunnist á þessum tíma? Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg?


Íslendingar eru þrefalt fleiri nú en þá, og allar aðstæður eru gjörbreyttar:
Menntun, efnahagur, heilbrigðisþjónusta, samgöngur, samsetning þjóðar, atvinnulífið, þjóðartekjur. Við, sem vorum ein fátækasta þjóð Norður Evrópu erum nú meðal ríkustu þjóða heims. Það hefur orðið umbylting á einungis áttatíu árum – og því er vert að spyrja á þessum tímamótum, hvert viljum við stefna, já og hvar viljum við vera stödd, bæði í náinni framtíð en jafnvel líka að áttatíu árum liðnum?
Það kom vel í ljós á ferðum okkar hjóna um landið í vor hversu annt Íslendingum er um landið sitt og tungumál og hversu stolt við erum af afrekum okkar og þjóðararfi.

Það var sérstaklega gleðilegt að sjá að nýsköpunarumhverfið hefur tekið stakkaskiptum víða um land. Sjálfbær þróun matvæla skilar fjölbreyttum og gómsætum vörum sem áður fengust bara innfluttar, fullnýting sjávarafurða gerir að verkum að áður verðlaus úrgangur er orðinn að dýrmætri vöru, framþróun í hugbúnaðargerð haslar sér völl án landamæra og í menningartengdri ferðaþjónustu virðast tækifærin óþrjótandi.  
Við eigum að halda áfram að byggja á styrkleikum okkar, virkja sköpunargáfuna og vanda til verka. Við eigum óhrædd að hvetja kappsfullt hæfileikafólk til dáða og ekki gera lítið úr dýrmætum skóla mistakanna. Sár reynsla getur og hefur styrkt okkur. 
Sköpunarkraftur Íslendinga er líklega hvað sterkastur í listum, og þar hefur stjarna bókmenntanna lengi skinið skærast. En nú bætist hver listgreinin við af annarri – tónlist, sjónrænar listir, myndlist, leiklist, sviðslistir og kvikmyndagerð blómstra og sýna hvaða árangurs má vænta ef hlúð er að vaxtarsprotum með menntun og öðrum stuðningi. Það er löngu ljóst að listgreinar auðga ekki aðeins andann, heldur gegna þær mikilvægu hlutverki þjóðhagslega.


Hvert á land sem við hjónin komum voru íþróttavellir og víðast íþróttahús. Íþróttir gegna ómetanlegu hlutverki fyrir heilbrigði einstaklinga og samfélags. Heilbrigð sál í hraustum líkama, segir máltækið. Ekki bara það, því fátt sameinar okkar þjóð eins og þegar afreksfólkið okkar keppir á alþjóðlegum stórmótum. Er skemmst að minnast frábærrar frammistöðu íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu sem er nú á leið í lokakeppni Evrópumótsins á næsta ári. Og einmitt þessa dagana keppa glæsilegir fulltrúar lands og þjóðar á Ólympíuleikunum í París. Við sendum þeim heillakveðjur! Og við hjónin hlökkum til að fylgja íslenskum keppendum á Ólympíuleika fatlaðra í lok mánaðar.


Við höfum mörgu að fagna en þurfum jafnframt að mæta áskorunum. Það horfir ófriðlega í heiminum og harka færist í samskipti innan þjóða og milli þjóða. Mikilvæg mannréttindi, sem áunnist hafa með langri baráttu, eiga nú undir högg að sækja. Fólki hættir til að skipa sér í skotgrafir – í andstæðar fylkingar. Svo læst er það sumt í afstöðu sinni að það heyrir ekki hvert í öðru. Einn alvarlegasti fylgifiskur þess er að traustið, mikilvægasti grunnur mannlegs samfélags, fer þverrandi.

Um allan hinn vestræna heim hafa yfirvöld, fjármálastofnanir, fyrirtæki, fjölmiðlar og stjórnkerfi misst tiltrú almennings. Þótt flest sinni störfum sínum af heilindum, þá hafa þau, sem ekki reynast traustsins verð, valdið skaða.
Reynsla og rannsóknir sýna að minnkað traust veldur sinnuleysi meðal kjósenda. Fólki, og þá sérstaklega ungu fólki, finnst ekki taka því að kjósa, finnst að það breyti engu. Það finnur jafnvel ekki tilgang í því að taka þátt í samfélaginu. Sífellt fleiri heillast af málflutningi þeirra sem bjóða einfaldar og oft öfgakenndar lausnir.
Við megum ekki sýna andvaraleysi í þessum efnum og nú bætist það við að tæknin gerir kleift að falsa bæði hljóð og mynd – svo nær ómögulegt verður að greina sannar fréttir frá fölsuðum. Hverju og hverjum er þá óhætt að trúa?
Hvað verður um traustið?  Tækniþróunin verður ekki stöðvuð en grandaleysi á þessu sviði getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélög og þróun lýðræðis.  


Mér hefur orðið tíðrætt um andlega og samfélagslega heilsu. Ég get ómögulega aðskilið þetta tvennt, því andleg vanlíðan dregur mátt úr fólki og leggur þungan toll á samfélagið. Því miður fer einmanaleiki vaxandi hjá ungum sem eldri. Margir dvelja lengur í rafheimum en raunheimum. Kvíði, þunglyndi,
neysla og sjálfsskaði hafa aukist stórlega á skömmum tíma. Hvernig má það vera að ein hamingjusamasta þjóð í heimi skipi sér jafnframt í fremstu röð hvað þessa ískyggilegu þróun varðar? 


Páll Skúlason heimspekingur ritaði eitt sinn: Getum við þá ekkert gert til að vera hamingjusöm? Öðru nær: við getum verið opin fyrir hamingjunni með því að einbeita okkur að því sem gefur lífinu gildi. Og við vitum hvað það er með því að veita því eftirtekt sem glæðir lífið birtu og hlýju.
Við getum og við verðum að bæta andlega og samfélagslega heilsu. Ég vonast til að leggja mitt af mörkum við að ráðast að rótum vandans í góðri samvinnu við stjórnvöld, fræðimenn, heilbrigðisstarfsfólk, félagasamtök, fjölmiðla og ekki síst kennara og foreldra. Á umbreytingatímum eru samtal og samstarf kynslóða og ólíkra hópa samfélagsins lykillinn að því að hér ríki jafnrétti milli kynslóða og samfélagsleg sátt. Það er því mikilvægt að unga fólkið fái sæti við borðið, fái alvöru aðkomu að því að móta sína framtíð og njóti þar reynslu og visku eldra fólks. 
Á svona tímum er nauðsynlegt að staldra við og íhuga hver við viljum vera, hvert við viljum stefna og hvernig við getum styrkt traust milli manna.
Hvert viljum við beina íslenska lýðveldinu næstu 80 árin? Við þurfum að átta okkur á því og stilla okkur af. Því hvert stefnir þjóðarskúta með illa stilltan áttavita og veikan samfélagssáttmála? 
Í mínum störfum hef ég farið fyrir nýrri nálgun að úrlausn áskorana og dregið af því lærdóm. Reynslan hefur kennt mér að farsælast er að kalla ólíka saman, spyrja spurninga og hlusta á fjölbreytt sjónarmið. Fá fólk til að greina og skilja vandann og sóknarfærin – og sníða lausnir sameiginlega. Þegar traust er lítið þurfa stjórnvöld, atvinnulífið og samfélagið allt að koma saman með nýjum hætti, vinna saman að framtíðarsýn á sameiginlegum grunni þjóðarinnar. Það er meira framboð en eftirspurn eftir þeim sem þykjast eiga öll svör, en þjóðin sjálf, ekki síst unga kynslóðin, sættir sig ekki lengur við að fá ekki að svara til um sína framtíð.
Höfum við hugrekki til að fara nýjar leiðir? Getum við, íslenskt samfélag, valið mýktina, talað saman, unnið saman þvert á kynslóðir og ólíkar skoðanir og stillt kompásinn þannig að við villumst síður af leið? Valið samstöðu fremur en sundrungu? Spurt stórra spurninga og leitað svara með þjóðinni? Sú nálgun sem
við veljum nú ræður miklu um hvernig íslenska lýðveldinu farnast næstu áttatíu ár. Hvaða veruleiki bíður barna okkar og barnabarna? 
Ekkert eitt okkar hefur svörin við þeim fjölbreyttu áskorunum sem við blasa. En ég mun sem forseti hvetja okkur til að spyrja spurninga og eiga uppbyggilegt samtal og samstarf svo móta megi hvert við viljum halda og hvaða grunnstef skuli varða þá vegferð. Þannig trúi ég að við finnum svörin, saman, og
getum tekist af íslenskri seiglu og í samheldni á við hverja þá áskorun sem breytt heimsmynd og staða samfélagsins kallar á.


Ég er sannfærð um að Ísland og Íslendingar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í heimi í vanda. Ég hef trú á styrkleikum okkar og veit að við getum áfram byggt á þeirri sérstöðu sem við höfum þegar skapað okkur á sviði jafnréttis og jarðvarma, í listum, íþróttum og í lýðræðislegri þróun samfélags sem setur mannréttindi á oddinn. Ég tel styrk okkar ekki síst felast í smæðinni og – í mýktinni. Smá, en kná og kjarkmikil þjóð sem hefur visku og metnað til að velja mýkri leiðir í hörðum heimi. Ég trúi því að við getum valið að vera friðsæl þjóð sem nýtur velsældar og réttir jafnframt hlýja hönd til þeirra sem á þurfa að halda. Þannig getum við verið öðrum góð fyrirmynd og ljós í því myrkri sem víða ríkir.   


Kæru landar, það val byrjar hjá hverjum og einum. Hver ætlum við að vera og hvað veljum við að gera á tímum þegar svo margir velja átök og árásir á þá sem ekki eru þeim sammála? Mætum við hvert öðru með opnum hug og hjarta, tilbúin til að hlusta og leggja okkur fram um að skilja ólík sjónarmið, ólíka lífsreynslu og sýn? Sannleikurinn er sá að það að velja að hlusta, að einsetja sér að reyna að skilja hvaðan aðrir koma, krefst kjarks og reynir meira á okkur til skemmri tíma en að loka og fara í vörn. Höfum við kjarkinn sem þarf til að velja mennsku og frið í eigin ranni og mynda þannig jarðveg fyrir samfélag þar sem flestum er fært að blómstra á sínum forsendum? Ég vil að við stefnum þangað. Virkjum getu okkar til að skapa slíkt samfélag, saman, fyrir og með næstu kynslóð. Ég veit að við getum það! 


Ísland er einstakt land og við erum skapandi þjóð sem leitar nú svara við mörgum áleitnum spurningum. Ég hlakka til að vinna með ykkur af metnaði að bjartri framtíð okkar lýðveldis og geri ljóð Hólmfríðar Sigurðardóttur, Leitum, að mínum lokaorðum:

Leitum úrræða
látum hendur og orð
fallast í faðma
leitum gleðinnar
í ljóðinu
finnum frelsið
í höndunum
leitum regnbogans
finnum ljósberann
leitum láns
finnum það leika um líf
lands vatns og ljóss.

Vegurinn lokaður í Veiðileysufirði

Veiðileysuháls í Árneshreppi. Mynd: Jón Halldórsson.

Vegurinn norður á Strandir er farinn í sundur í Veiðileysufirði og er því lokaður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni í morgun.

Viðgerðarflokkur er á leiðinni á staðinn og nánari upplýsingar koma inn síðar. Inn í Reykjafirði fór stór skriða yfir veginn og verið er að skoða það.

Vikuviðtalið: Björn Davíðsson

Ég fluttist vestur eftir rafiðnanám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og fyrst aftur heim á Þingeyri þar sem ég starfaði til sjós á bæði Framnesi I og Sléttanesi, sem háseti en einnig sem kokkur. Ákvað þó eftir tvö ár á sjónum að fara í land og nota menntunina eitthvað. En ber þá síðan alltaf mikla virðingu fyrir sjómönnum sem vinna bæði erfiða og á köflum hættulega vinnu við að búa til peninga fyrir okkur hin að velta á milli okkar. Ég fór þá á Ísafjörð að vinna hjá Ingólfsbræðrum í Pólnum við að smíða, gera við og stilla vogir fyrir frystihúsin. Í einu frystihúsinu vann núverandi kona mín sem ég hafði þá grunaða um að þrífa vogina sína það rækilega að iðulega þurfti að kalla mig til að lagfæra vogina eftir þrifin. Viðurkenni þó að það tók mig smátíma að átta mig á þessu og vogin hætti þá að bila en við höfum nú verið gift í 33 ár og eigum tvö uppkomin börn.

Eftir að Pólstækni var stofnað og tók við vogasmíðinni af Pólnum starfaði ég þar í nokkur ár en tók síðan við sem setjari í H-prenti, sem gaf út Bæjarins besta, þegar það starf losnaði. Þar var ég þar til slettist upp á vinskapinn við eigendurna en þó svo ekki meir en svo að ég starfaði tvívegis þar í afleysingum eftir að ég hætti þar. Þá var ég búinn að kynnast Jóni Arnari Gestssyni frá Suðureyri sem þá var sölumaður fyrir bókhaldsforrit meðfram fiskvinnu á Suðureyri. Eftir að hafa slegist í hóp slægingargengis á Suðureyri haustið 1994 með Jóni ákváðum við að stofna tölvufyrirtæki og fékk það nafnið Snerpa eftir þáverandi tómstundagamni mínu sem var gagnabanki sem var hægt að tengjast yfir símalínur og var einskonar forveri Internetsins. Þetta þýðir líka að Snerpa fagnar 30 ára afmæli í haust og hef ég starfað hjá fyrirtækinu alla þess tíð. Jón Arnar fékk hinsvegar nóg af tölvuvinnunni og snéri sér að hótelrekstri skömmu eftir aldamótin og seldi mér sinn hlut en ég seldi síðan hluta af honum áfram. Framan af var reksturinn bölvað basl og sífelld blankheit. En einhvern veginn þá gekk þetta nú og á þessum tíma var bæði blússandi bóla og svo líka sprungin dotcom-bóla og gilti það um mestallan heiminn. Snerpa rataði þó í gegnum þann ólgusjó, mestmegnis vegna þess að afar varlega var farið í skuldasöfnun. Ég minnist þess þó að þeir sem síst skyldi reyndust okkur Jóni Arnari verri en enginn og get þar nefnt framan af Lífeyrissjóð Vestfirðinga og Byggðastofnun. Byggðastofnun átti þó eftir að bæta sig og komu inn í fjármögnun á félaginu þegar vöxturinn fór að taka við sér og töpuðu engu en græddu á endanum á fjárfestingunni.

Ég hef alltaf verið ákaflega heppinn með starfsfólk og á því mikið að þakka. Þau sem nú vinna í Snerpu eru öll miklir reynsluboltar og hafa mörg hver verið lengi hér enda flest orðnir hluthafar í félaginu. Eins og ég nefndi áður fórum við ávallt gætilega í lánsfjármögnun og sluppum því prýðilega í gegn um hrunið 2008. Þá var innviðauppbygging í hálfgerðu rugli, búið að selja Símann og engin merki um neina uppbyggingu í fjarskiptamálum úti á landi. Upp úr því ákváðum við hjá Snerpu að taka þann kúrs að bíða ekki eftir öðrum en fara sjálf í þessa uppbyggingu með lagningu ljósleiðara. Það má segja að það hafi gengið vel þótt enn sé eitthvað í land með að dekka okkar aðalstarfssvæði sem eru Vestfirðir. En þó erum við búin að leggja yfir 300 km af ljósleiðara síðan fyrir tíu árum þegar þessi ákvörðun var tekin og höfum hlotið viðurkenningar á borð við fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri.

Aðaláhugamálið mitt er vinnan. Það er frábært að vinna við það sem maður hefur áhuga á og hefur gaman af. Ég gæti mín þó á því að eiga einnig frítíma og á frekar von á að bæta í hann þegar við förum að fara að sjá fyrir endann á ljósleiðaravæðingunni.

Skömmu eftir aldamót hafði ég einnig gaman af bæjarpólitík og náði þeim áföngum að sitja fundi bæði í bæjarstjórn og bæjarráði sem varabæjarfulltrúi fyrir Samfylkinguna. Í þeim störfum jókst áhugi minn á atvinnumálum almennt og fékk ég meðal annars fram að Ísafjarðarbær og fleiri, t.d. Byggðastofnun og áðurnefndur lífeyrissjóður lögðu fjárfestingar sínar í sameiginlegt fjárfestingarfélag sem heitir Hvetjandi og er nú virkur þátttakandi í fjölda nýsköpunarfyrirtækja á Vestfjörðum sem þolinmóður fjárfestir. Ég var á tímabili formaður Atvinnumálanefndar Ísafjarðarbæjar og endaði svo ferilinn í pólitík sem formaður yfirkjörstjórnar Ísafjarðarbæjar í nokkur ár. Þar vann ég mér helst til frægðar að birtast á sjónvarpsskjám landsmanna í litríkri Hawaiískyrtu. Ég ákvað að hætta í kjörstjórn eftir talningarklúðrið í Borgarnesi án þess þó að hafa átt þar hlut að máli en geng enn í Hawaiískyrtu a.m.k. einu sinni í viku, helst á föstudögum.

Ég viðurkenni fúslega að ég hef mikla skömm á þeim sem hafa mikið við það að athuga að Vestfirðingar ákváðu að gera ,,eitthvað annað” þegar kvótinn var seldur burt. Vestfirðingar tóku þá upp fiskeldi og hefur það verið gríðarleg lyftistöng fyrir atvinnulífið og smærri byggðakjarnar eins og minn gamli heimabær Þingeyri hafa risið upp úr öskustónni við það. Sérstaklega fer í taugarnar á mér þrýstihópur sem felur sig undir nafninu ,,Icelandic Wildlife Fund” og þykist vera dýraverndarsinnar þegar raunin er að þeir vilja fá að græða á og stunda sitt sport sem er laxveiði og telja um leið að laxveiðinni standi ógn af sjókvíaeldi. Hafa þeir t.d. gert mikið úr því að útlendingar hafi fjárfest í fiskeldi og jafnvel keypt íslensku frumkvöðlana út úr greininni. Þeir sjá þó ekki bjálkann í eigin auga þegar breskur milljarðamæringur er allt í einu orðinn stærsti landeigandi á Íslandi í því skyni að eignast laxveiðiár. Þannig að ef ég hef áhugamál fyrir utan vinnuna þá er það helst að kýta við þessa menn sem eru á góðu kaupi sem m.a. stafar frá þessum erlenda landeiganda, við áróðurinn því þeim gengur því miður vel að dreifa falsfréttum um laxeldi.

Reykhólahreppur: vantar fé til viðhalds vega og girða þá

Í erindi sveitarstjórnar Reykhólahrepps til Vegagerðarinnar segir að í sveitarfélaginu séu víða vegir sem þurfa meiri þjónustu en verið hefur og er lýst yfir áhyggjum af því að markmiðum um greiðar samgöngur og umferðaröryggi vegfarenda sé ekki náð.

Sérstaklega er það vegarkaflinn frá Bjarkalundi að Gilsfjarðarbrú sem velur áhyggjum og óskar sveitarstjórnin eftir fundi með Vegagerðinni til að ræða lausnir sem geta aukið umferðaröryggi.

Vegrið við Laxá

Sveitarstjórn telur að ákveðinn farartálmi hafi verið búinn til við það að lengja vegrið við Laxá. Yfir vetrartímann verður brúin mjög snjóþung og skapar hættu í umferðinni þegar fólk ætlar sér að komast í gegnum skaflinn. Sveitarstjórn óskar eftir því við Vegagerðina að fundnar verði aðrar leiðir til að brúin verði ekki farartálmi til framtíðar.

Girðingar meðfram vegum

Sveitarstjórn hvetur bændur og vegagerðina til að fara í samstillt átak um að girða af veginn frá Þorskafirði að Gilsfjarðarbrú. Mörg óhöpp verða á ári hverju vegna þess að ekið er á sauðfé. Bændur sem búa við Vestfjarðaveg 60 eru í hættu við að sinna störfum sínum, hvort sem það eru gangandi vegfarendur eða bændur á vinnutækjum segir í erindi sveitarstjórnar. Stór hluti vegarins er girtur af nú þegar en mikilvægt sé að klára verkið til að tryggja öryggi vegfarenda og bænda sem stunda búrekstur við Vestfjarðaveg 60.

Karlseyjarvegur 606

Slitlag á veginum, sem er frá þorpinu að höfninni, er illa farið og burðarlag ekkert. Áætlað var að fara í endurbætur á veginum sumarið 2024 en vegna ástands á slitlagi á öðrum vegum í sveitarfélaginu verða framkvæmdir ekki á árinu. Sveitarfélagið hefur í góðri samvinnu við Vegagerðina staðið að miklum endurbótum á höfninni og mikilvægt er að góður vegur sé til staðar til að þjónusta höfnina og tryggja öryggi starfsfólks sem þar vinnur og annarra þjónustuaðila.

Vetrarþjónusta

Sveitarstjórn ítrekar fyrra erindi sitt er varðar vetrarþjónustu. Segir hún að mikilvægt sé að vetrarþjónusta sinni þörfum samfélagsins, sérstaklega í tengslum við skólaakstur og atvinnu fólks. Vetrarþjónusta þurfi að taka mið af því að vegir séu færir áður en að skólaakstur hefst og sé ekki lokið fyrr en skólaakstri er lokið. Þannig hafi því miður ekki verið háttað undanfarna vetur og ítrekað hafa börn mætt of seint í skólann á meðan beðið er eftir mokstri.

Fyrirhugað er að fundur sveitarstjórnar með Vegagerðinni verði síðar í sumar.

Önundarfjörður: áform um bláskelsrækt

Fyrirtækið Northlight Seafood ehf.  hefur sótt um leyfi til tilraunaræktar á bláskel í Önundarfirði. Í umsókn til Matvælastofnunar segir að fyrirhuguð sé ræktun með flekum og skipulegri vöktun. Fyrsta stig verði að kanna sjávarstrauma , þörungamagn sjávar, finna ræktunarsvæðin og meta hvað hvert svæði beri marga þörungafleka.

Ætlunin er að kanna getu svæðanna til framleiðslu á bláskel til manneldis og sem burðarefni í fóður fyrir fiskeldi.

Gerð verði prufuræktun með uppsetningu ákveðins magns af flekum og vaxtarhraða lirfa/skelfisks á umræddum svæðum.

Engin fóðurgjöf er fyrirhuguð.

Tilraunaleyfi gildir að hámarki til þriggja ára í senn en heimilt er að endurnýja það samkvæmt umsókn leyfishafa um eitt ár í senn þannig að það gildi að hámarki í sex ár.

Í erindi Matvælastofnunar er óskað eftir umsögn Ísafjarðarbæjar varðandi það hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu ræktunarsvæði eða fyrirhugaðar tegundir, stofnar eða starfsaðferðir gefi tilefni til hættu á neikvæðum vistfræði- eða erfðafræðiáhrifum sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi.

Skipulags- og mannvirkjanefnd bókaði að nefndin gerði ekki athugasemd vegna umræddrar umsóknar.

STJÓRNMÁLAFUNDUR Í HAFNARSTRÆTI VORIÐ 1930

Á fundi bygginganefndar Ísafjarðarkaupstaðar 4. febrúar 1930 var samþykkt erindi frá Kaupfélagi Ísfirðinga um byggingalóð á horni Hafnarstrætis og Austurvegar.

Framkvæmdir hófust um vorið og var byrjað á að flytja salt- og fiskþurrkunarhús sem stóð á lóðinni. Það hafði verið í eigu verslunarinnar í Hæstakaupstað en hafnarsjóður keypti húsið og lét flytja það fram á uppfyllingu hjá kolaporti J. S. Edwalds, þ.e. á bak við húsið að Hafnarstræti 5.

Þessi skemmtilega mynd (ljósmyndari er óþekktur) er tekin daginn sem húsið var flutt í lok maí 1930. Á sama tíma fór fram stjórnmálafundur í Hafnarstræti vegna komandi Alþingiskosninga. Í blaðinu Vesturlandi birtist frétt um þennan atburð 2. júní s.á. þar sem segir:

Fundur á Ísafirði. Fundur sá, sem efstu menn landskjörslistanna héldu hér á Ísafirði, var ekki svo fjölsóttur, sem ætla mátti. Bar margt til þess, en þó fyrst það, að á virkum degi var, og veður hagstætt til sjósóknar og fiskþurkunar. Í öðru lagi húsnæðisleysi, og var fyrst í ráði að halda fundinn í húsi templara, sem rúmar fáa eina af þeim, er slíka fundi vilja sækja. En frá því var horfið, og fundurinn haldinn úti. Töluðu ræðumenn af veggsvölum húsanna nr. 2 og 4 í Hafnarstræti, en áheyrendur höfðu skjól og gott næði þar framundan, því gatan var lokuð litlu ofar af húsi, sem verið var að flytja yfir götuna. 

Af vefsíðu Ljósmyndasafns Ísafjarðar

Vel gekk að telja hvali

Leitarlínur Árna Friðrikssonar

Hvalatalning á Árna Friðrikssyni HF200, sem hófst í byrjun júlí, gekk samkvæmt áætlunum.

Þessi hluti hvalatalningana, NASS24, sem skipulagðar eru af NAMMCO (North Atlantic Marine Mammal Commission), er samhliða 15. makrílleiðangri stofnunarinnar.

Talningarnar á Árna fara fram allt í kringum landið og hófust í Grænlandssundi um 100km vestur af Látrabjargi þar sem komið var á fyrstu leitarlínuna. Síðan fikraði leiðangurinn sig austur með Norðurlandi og suður með Austurlandi.

Veður geta verið rysjótt á Grænlandssundi  um hásumar og eins má eiga von á hafís á þeim slóðum eins og raunin var í upphafi leiðangurs. Þoka hafði áhrif á skyggni og hafís lá yfir hluta af áætluðu leitarsvæði. Á fyrsta legg norður, um 250km NV af Straumnesi var hafís og sáust þar hnúfubakar, búrhvalir og langreyðar.

Kvikmyndin Draumar, Konur & Brauð sýnd í Súðavík

Vestfirðingum er boðið á bíósýningu í bókasafninu í Súðavík sunnudaginn 4.ágúst n.k. kl: 20:00.

Mæðgurnar; Guðrún Fjóla Kristjánsdóttir og Sigríður Hafliðadóttir í Kaffi Litlabæ eru fulltrúar Vestfjarða í myndinni.

Myndin er draumkennd heimildamynd í anda töfraraunsæis, þar sem 6 konur, sem reka 5 kaffihús hringinn í kringum landið segja frá lífi sínu, draumum og því af hverning reksturinn hófst.

Söguþráður þar sem tvær ólíkar konur frá Reykjavík, sem fara hringinn og heimsækja kaffihúsin bindur saman litlu heimildamyndirnar um kaffihúsakonurnar.

Tónlist, húmor, þjósögur og minni landsins leika sitt hlutverk þar sem áhorfandinn er tekinn með í æfintýraríkt ferðalag stutta kvöldstund.

Myndin er 93 mínútur að lengd og aðstendendur myndarinnar verða á staðnum

Flókalundur: deiliskipulag orlofsbyggðar samþykkt

Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar hefur samþykkt deiliskipulag fyrir orlofsbyggðina í Flókalundi og vísað málinu áfram til heimastjórnar fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps til afgreiðslu.

Vinnan hófst í apríl 2021 með samþykkt bæjarstjórnar Vesturbyggðar.

Innan skipulagssvæðissins eru alls fimmtán hús, þrettán þeirra eru orlofshús, eitt þjónustuhús fyrir sundlaug og loks þjónustuhús fyrir starfsemi orlofsbyggðarinnar.

Heildarstærð skipulagssvæðisins er 4.4 ha. Skipulagssvæðið er á þegar röskuðu landi. Skipulagssvæðið er í eigu ríkisins. Skipulagssvæðið er hluti af landsvæði sem skilgreint er sem friðland.

Markmið stjórnar orlofsbyggðarinnar með deiliskipulagsgerðinni er að deiliskipuleggja núverandi byggð og gera tillögu um fjölgun um tvö orlofshús á svæðinu, ásamt því að gera ráð fyrir möguleika á stækkun núverandi þjónustu- og sundlaugarhúsa ásamt heimild fyrir byggingu fleirri þjónustuhúsa.

Tillagan var auglýst með athugasemdafresti til 22. apríl 2024. Engar athugasemdir bárust frá almenningi á auglýsingatíma en umsagnir bárust frá Minjastofnun, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða og Slökkviliði Vesturbyggðar. 

Í umsögnum Vegagerðarinnar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og slökkviliðs Vesturbyggðar eru engar athugasemdir gerðar.

Umhverfisstofnun sendi ýtarlega umsögn og lagði áherslu á að mannvirkjagerð og jarðrask og hvers konar breytingar á landi eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar og að samráð við stofnunina væri nauðsynlegt um deiliskipulagið áður en það færi í auglýsingu. Bent er á að birkið á svæðinu getur fallið undir b. lið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Umhverfisstofnun bendir á að Skógræktin hefur það hlutverk að skilgreina og kortleggja náttúrulega birkiskóga sem falla undir 61. gr. náttúruverndarlaga.

Minjastofnun fer ekki fram á fornleifaskráningu á deiliskipulagsreitnum en leggur ríka áherslu á að ef fornminjar finnist þá sé óheimilt að halda framkvæmdum áfram nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar
Íslands.

Gönguhátíð í Súðavík um verslunarmannahelgina

Horft yfir Álftafjörð af Kofranum.

Gönguhátíðin í Súðavík verður haldin í tíunda skiptið um verslunarmannahelgina. Hún hefst í dag og stendur fram á mánudag.

Fimmtudagur 1.ágúst – hittingur á Melrakkasetrinu hefst kl.20:00, hægt er að panta mat á setrinu í síma 456-4922.

 Föstudagur 2. ágúst

Skötufjarðarheiði

Gengið er upp úr Skötufirði upp Grafargilið og yfir Skötufjarðarheiði og niður í Heydal í Mjóafirði. Þar er hægt að kaupa kaffi og meðlæti, fara í sund eða pott og njóta lífsins.

Fararstjórar: Anna Lind Ragnarsdóttir, Ólafur Elíasson og Sigurður Kjartansson

Brottför: kl 9:00 frá búðinni í Súðavík.

Vegalengd er um 14 km, áætlaður göngutími  6 tímar, hækkun um 550m, 2 skór

Brenna fyrir neðan Súðavíkurskóla kl. 20:30

Laugardagur 3.ágúst

Fjallið Bessi í Álftafirði – fyrir ofan Meiri Hattadal.

Fararstjórar: Anna Lind Ragnarsdóttir, Ólafur Elíasson og Sigurður Kjartansson

Brottför: kl 9:00 frá búðinni í Súðavík

Vegalengd 12,5 km, 640 m hækkun, áætlaður göngutími  5 -6 klukkustundir, 2  skór.

Opið grill í Raggagarði – allir mæta með grillkjöt og meðlæti og eigin drykki frá kl 18:00 – 20:00

Sveitarball/diskó í Samkomuhúsinu í Súðavík 20:30 – 24:00 ? Allir mæta með eigin drykki

Sunnudagur 4.ágúst

Kofri

Hið fallega fjall Kofri fyrir ofan Súðavík city.

 Fararstjórar: Anna Lind Ragnarsdóttir, Ólafur Elíasson og Sigurður Kjartansson

Brottför: vegna Kofra: kl 11:00 frá búðinni í Súðavík.

Áætlaður göngutími  3 -5 klukkustundir, 2 -3 skór.

Mánudagur 5.ágúst

Æðey

Fararstjórar: Anna Lind Ragnarsdóttir, Ólafur Elíasson og Sigurður Kjartansson

Brottför: kl 9:00 frá búðinni í Súðavík, sameinast í bíla og þaðan farið niður á bryggju og siglt út í Æðey, gengið um eyjuna með Jónasi Kristjáni sem þekkir eyjuna mjög vel. Endilega að taka með sér nesti út í eyjuna.

Áætlaður göngutími 1 – 2 klukkutímar, 1 skór.

Morgunmatur verður alla daga í Kaupfélaginu (verslun) – er innifalinn ef keyptur er pakki með öllum ferðunum. Upplýsingar um göngurnar og farastjórn er á Facebook síðu gönguhátíðar.

Verð í göngur á Gönguhátíðinni eru eftirfarandi:

Ef keyptur er aðgangur í allar göngurnar er verðið kr. 20.000.-  og er þá innifalið morgunmatur í búðinni alla göngudagana, brenna og ball í Samkomuhúsinu Súðavík.

 Hægt er að kaupa stakar göngur á 5000.-kr hverja ferð.

Þátttakendur mæta í göngur á eigin ábyrgð og er bent á að hafa ferða- og slysatryggingar í lagi. Almennir fyrirvarar gilda um göngur út frá veðri og aðstæðum. 

Ef fella þarf niður göngur vegna veðurs eða aðstæðna verður stefnt á að hafa aðrar göngur í staðinn ef hægt er.

Fararstjórar: Anna Lind Ragnarsdóttir s.893-4985, Ólafur Elíasson s.821-1152 og Sigurður Kjartansson s.897-4542.

 Einnig veita upplýsingar: Bragi Þór Thoroddsen s. 868-9272

Hægt er að greiða fyrir göngurnar inn á reikning Göngufélags Súðavíkur. Senda kvittun á: annalind@sudavikurskoli.is

Reiknisnúmer: 0154-05-420900, kt:440304-4190.

Nýjustu fréttir