Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 25

Vikuviðtalið: Jóhanna Ösp Einarsdóttir

Ég heiti Jóhanna Ösp Einarsdóttir. Ég er fædd og uppalin í Fremri Gufudal í Reykhólahreppi. Ég bý með Styrmi Sæmundssyni og börnunum okkar þremur; Ásborgu, Einari Val og Yrsu Dís í Kaplaskjóli í Fremri Gufudal. Þar sem við rekum sauðfjárbú ásamt foreldrum mínum og systur. 

Í gegnum tíðina hafa flest mín störf verið tengd félagsmálum. Ég starfaði í mörg ár í ungmenna og tómstundabúðunum að Laugum í Sælingsdal þar sem ég byrjaði 20 ára gömul. Það staf mótaði mig að stórum hluta í að fá brennandi áhuga á félags- og tómstundamálum. Síðan varð ég tómstundafulltrúi Reykhólahrepps og ég gengdi því starfi þangað til í haust. Núna er ég að taka mín fyrstu skref í kennslu í Reykhólaskóla, samhliða því að vera í kennaranámi í Háskólanum á Akureyri. Ég er oddviti Reykhólahrepps, er að ljúka kjörtímabili sem formaður stjórnar Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga og á tyllidögum þykist ég stundum vera bóndi.

Ég hef mikinn áhuga á margskonar útivist, aðallega í góðu veðri samt. Að vera á fjalli í góðu haustveðri að rölta á eftir óþekkri kind, með góðan smalahund (í láni frá manninum mínum) eru mjög gefandi aðstæður. Þau forréttindi að fara í reiðtúr á björtu sumarkvöldi á góðum hesti (nánar tiltekið rauðblesótt hryssa sem heitir Ameríka) gefa mér einhverja þá mestu hugarró sem hugsast getur. Ég hef einlægan áhuga á byggðaþróunarmálum, með sérstaka áherslu á dreifðar byggðir. Svo þegar ég hef verið mjög upptekin í langan tíma, sem gerist alveg, þá finnst mér mjög gott að planta mér fyrir framan sjónvarpið, hámhorfa á Netflix og knúsa börnin mín. 

Mér finnst mjög gaman að vera í kringum börn og ungmenni og hlusta á skoðanir þeirra, viðhorf og hugmyndir. 

Það má því segja að ég búið við þau forréttindi undanfarin 20 ár að hafa fengið að starfa við hluti sem ég hef brennandi áhuga á og hafa veitt mér mikla gleði og ánægju. Þannig að það er mjög gott að staldra við reglulega og vera þakklátur. 

Bestu kveðjur úr Gufsunni* 

Jóhanna Gufsari

*Gufsan er gamalt gælunafn á gamla Gufudalshrepp. Íbúar Gufdalshrepps voru kallaðir Gufsarar og ekki þótti öllum vænt um það viðurnefni. 

Maskína: Miðflokkurinn stærstur í Norðvesturkjördæmi

Bergþór Ólason yrði fyrsti þingmaður kjördæmisins samkvæmt könnun Maskínu að því gefnu að hann bjóði sig fram og verði áfram efsti maður Miðflokksins.

Í nýjustu könnun Maskínu, sem gerð var í september, er Miðflokkurinn með mest fylgi í Norðvesturkjördæmi og mælist flokkurinn með 25% fylgi. Flokkurinn fékk 7,4% atkvæða í síðustu Alþingiskosningum sem voru í september 2021. Hefur flokkurin liðlega þrefaldað fylgi sitt.

Samfylkingin er næststærst samkvæmt þessari könnun og mælist hún með 23,6% fylgi. Samfylkingin fékk 6,9% fylgi fyrir þremur árum og hefur hún líka liðlega þrefaldað fylgi sitt.

Framsóknarflokkurinn fengi 14,4% fylgi samkvæmt könnun Maskínu en fékk 25,8% í síðustu Alþingiskosningum. Sjálfstæðisflokkurinn er aðeins í fjórða sæti og mælist með 13,3% fylgi í könnun Maskínu. Það er um helmingur fylgisins í Alþingiskosningunum síðustu þegar flokkurinn fékk 22,5% atkvæða.

Aðrir flokkar fá mun minna fylgi í könnun Maskínu, Flokkur fólksins 6,8%, Viðreisn 5,7%, Sósíalistaflokkurinn 4,3%, Vinstri græn 3,6% og Píratar 3,3%.

Mest fylgi í Norðvesturkjördæmi

Norðvesturkjördæmi er það kjördæmi þar sem Miðflokknum vegnar best. Sama má segja um Framsóknarflokkinn. Báðir þessir flokkar fá mun meira fylgi í Norðvesturkjördæmi en flokkarnir fá á landsvísu. Miðflokkurinn er með 19% á landsvísu sem er 6% minna en í Norðvesturkjördæmi og Framsókn er með um 6% meira fylgi í kjördæminu en á landsvísu.

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking fá í Norðvesturjördæmi svipað fylgi og á landsvísu 13,4% og 25%. Sama má segja um Vinstri græn, þau mælast með 3,6% í kjördæminu en með 3,7% á landsvísu. Sóslíaslistaflokkurinn er með 4,3% í kjördæminu og 4,7% á landsvísu.

Hins vegar eru Flokkur fólksins og Píratar með minna fylgi í Norðvesturkjördæmi en á landsvísu. Píratar mælast með 8,5% fylgi en aðeins 3,3% í Norðvesturkjördæmi. Flokkur fólksins fengi 8,8% fylgi á landinu öllu en 6,8% í kjördæminu.

Ef kjördæmaþingsætunum sex yrði skipt samkvæmt könnuninni fengi Miðflokkurinn tvö þingsæti, svo og Samfylkingin, en Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn eitt þingsæti hvor. Jöfnunarsætið, sem verður sjöunda þingsæti kjördæmisins, er óvíst hvar lendir.

Könnun Maskínu um fylgi flokkanna í september á landsvísu. Tvær síðustu kannanir á undan eru einnig sýndar svo og úrslit síðustu Alþingiskosninga lengst til vinstri.

Jakob Valgeir ehf: hagnaður 645 m.kr.

Jakob Valgeir Flosason, framkvæmdastjóri Jakobs Valgeirs ehf.

Rekstrartekjur Jakobs Valgeirs ehf í Bolungavík voru á síðasta ári um 4,8 milljarðar króna. Hagnaður var af rekstrinum sem nam 645 m.kr.. Ekki verður greiddur arður af hagnaðinum.

Reksturinn var mjög svipaður og árinu áður. Laun og tengd gjöld voru um 1,4 milljarðar króna og ársverkin 100 eins og áður.

Bókfærðar eignir voru um áramótin 19,3 milljarðar króna. Þar af voru veiðiheimildir færðar á 10,5 milljarða króna. Félagið réði yfir 2.981 þorskígildum í aflamarkskerfinu og 1.355 þorskígildum í krókamarkskerfinu.

Eigið fé nam 36,5% af eignum eða um 7 milljörðum króna.

Félagið á 26,92% í Klofningi á Suðureyri og 38% í FMV.

Hluthafar eru þrír. F84 ehf á 75% hlutafjár, Flosason ehf á 15% og Guatemala ehf á 10%.

Í stjórn eru Björg Hildur Daðadóttir, formaður og Jakob Valgeir Flosason og Brynjólfur Flosason. Framkvæmdastjóri er Jakob Valgeir Flosason.

Reykhólar: hafnarframkvæmdir á lokastigi

Nýja þekjan á höfninni. Mynd: Hrafnkell Guðnason.

Í marsmánuði var tekið tilboði Geirnaglans ehf í nýja þekju og lagnir á höfninni á Reykhólum. Tvö tilboð bárust og var tilboð Geirnaglans ehf lægra eða 96,3 m.kr. en þó 18,4% yfir áætluðum verktakakostnaði.

Verkið hefur gengið vel og er á lokametrunum að því er greint er frá vef Reykhólahrepps. Þörungaverksmiðjan fékk að setja aukalagnir á sinn kostnað í skurðina, rafmagnskapal til að gera ráð fyrir rafvæðingu skips ásamt heitu og köldu vatni. Reykhólahreppur færði og bætti við nokkrum ljósastaurum á vegspottann milli verksmiðju og bryggju.

Skoða þarf hvað skal gera varðandi krana á höfninni þegar þessum framkvæmdum lýkur, kraninn sem stendur á höfninni er ónýtur og hefur verið innsiglaður af Vinnueftirlitinu.

Verkinu á að vera lokið í lok nóvember næstkomandi og lýkur þar með endurbótum á höfninni í Karlsey sem munu kosta liðega 300 m.kr. þegar upp verður staðið. Ríkissjóður greiðir 90% kostnaðar og sveitarfélagið 10%.

Sumarið 2022 urðu verulegar skemmdir á höfninni þegar þáverandi bryggja hrundi í sjóinn. Var það eftir að framkvæmdir hófust við endurbæturnar.

Uppfært kl 09:18 4.10. Leiðrétt var að skemmdirnar á höfninni urðu eftir að framkvæmdir hófust en ekki öfugt. Það var þannig að það var verið að grafa skurð við hliðina á gömlu bryggjunni til að reka niður nýtt stálþil, en skurðurinn náði fyrir neðan gamla þilið og mölin einhvernvegin rann út í sjó í vondu veðri og eftir stóð þá bara steypan. 

Bíldudalur: urða sand við Járnhól

Frá kalkþörungaverksmiðjunni á Bíldudal.

Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar hefur fengið erindi frá Ísenska kalkþörungafélaginu þar sem óskað er eftir urðunarsvæði til að urða basaltsand sem fellur til við hreinsun á kalkþörungum úr Arnarfirði.

Basaltsandur er svartur sandur sem af og til kemur með kalkörungum við dælingu í Arnarfirði. Efnið síast frá við vinnslu þörunganna og verður því sem næst hreinn sandur.

Fyrirtækið þarf að geta urðað sandinn reglulega því annars safnast hann upp í stórum sekkjum. Óskað var þvó eftir svæði til þess að urða sandinn.

Skipulags- og framkvæmdaráð gerir ekki athugasemd við að samþykkt verði að urða u.þ.b. 350 rúmmetrar af basaltsandi á svæði við Járnhól sem ætlað er undir jarðveg og felur sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs að vinna málið áfram.

Innanlandsflutningar: 43 fluttu frá Vestfjörðum í ágúst en 33 fluttu vestur

Höfuðborgarsvæðið dregur flesta út af Vestfjörðum í ágúst sl.

Þjóðskrá hefur birt tölur um innanlandsflutninga í ágústmánuði. Í mánuðinum fluttu 120 manns lögheimili sitt frá Vestfjörðum. Þar af fluttu 77 til annars staðar á Vestfjörðum og því voru það 43 sem fluttu sig út af fjórðungnum.

Litlu færri eða 110 manns fluttu sig til Vestfjarða og að frátöldum þeim 77 sem fluttu frá öðrum stað á Vestfjörðum þá komu 33 til fjórðungsins annars staðar frá.

Brottflutningurinn frá Vestfjörðum er að langmestu leyti til höfuðborgarsvæðisins. Þangað fluttu 28 af þeim 43 sem fóru. Sjö fluttu til Norðurlands eystra og sex til Vesturlands.

Til Vestfjarða komu 15 frá höfuðborgarsvæðinu af þeim 33 sem fluttu vestur og 11 komu frá Suðurnesjum. Samtals komu 26 af suðvesturhorni landsins. Sex komu frá Suðurlandi.

Ísafjarðarbær: útsvar verði 14,97%

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að útsvar 2025 verði óbreytt 14,97%. Bæjartjórn tekur tillöguna til afgreiðslu á fundi sínum í dag.

Fjármálastjóri bæjarins segir í minnisblaði til bæjarráðs að miðað við forsendur sambands íslenskra sveitarfélaga um hækkun útsvarsstofns milli ára séu væntingar um að staðgreiðsluskyldar tekjur af útsvari hækki um 240 m.kr. á næsta ári og verði um 3.240 milljónir króna. Miðað er við að launavísitala verði 5,6% hærri á næsta ári.

Þá kemur fram í minnisblaðinu að niðurstöður endurskoðunar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélag er væntanlegt.

Samkvæmt því leggur starfshópur m.a. til að nýti sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu komi til skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sem nemi vannýttum útsvarstekjum, þ.e. mismuni á útsvari miðað við hámarksálagningu og útsvari miðað við álagningarhlutfall sveitarfélags.

Þorgeir Pálsson: 61 m.kr. í styrki á 20 árum

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri. Mynd: visir.is

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð segir að minnisblað KPMG verði lagt fram til kynningar á sveitarstjórnarfundi nk. þriðjudag. Hann segir að til viðbótar minnisblaðinu væri rétt að skoða fundargerð sveitarstjórnar frá ágúst 2021, „en þar er staðfest umfang styrkveitinga  til Jóns Jónssonar sl. 20 ár frá þeim tíma, og nema greiðslurnar rúmri 61 milljón. Það er sú tala sem ég og konan mín höfum bent á og kemur sú tala frá skrifstofustjóra og sveitarstjórn þess tíma, ekki frá okkur.  Stundum er rétt að hafa staðreyndirnar með.“

Metsumar í komum skemmtiferðaskipa – hugleiðing hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar

Hilmar Lyngmó hafnarstjóri.

Nú hefur síðasta skemmtiferðaskipið kvatt okkur að sinni og að baki er enn eitt metsumarið í skipakomum til Ísafjarðarbæjar.  Alls fengum við 186  slíkar heimsóknir í ár, þar af þrjár til Þingeyrar.  Raunar má segja að heimsóknirnar hafi verið 192 ef við teljum með þau skip sem komu í örstutt stopp vegna tollamála eða annarra smáerinda, en hleyptu ekki farþegum í land. Tíu sinnum þurftu skip að hætta við komu til okkar, oftast vegna þess að slæmt veður setti strik í reikninginn.  

Farþegafjöldinn sem skemmtiferðaskipin báru hingað til okkar var tæplega 235 þúsund manns og tekjur hafnarsjóðs af þessari starfsemi námu um það bil 756 milljónum króna. Tekjur samfélagsins í heild voru auðvitað mun hærri.

Mikill mannfjöldi, gott skipulag

Í upphafi sumars bar talsvert á áhyggjum af því að mannfjöldinn á götum Ísafjarðar gæti orðið yfirþyrmandi á fjölmennustu skipadögunum, enda stefndi í að farþegar yrðu yfir níu þúsund á stærsta deginum. Það má hins vegar segja að veðrið, sem fæstir höfðu ástæðu til að dásama í sumar, hafi gengið í lið með okkur því nokkur skip þurftu að breyta áætlunum sínum vegna brælu. Stóri níu þúsund manna dagurinn endaði af þeim sökum í um það bil fjögur þúsund gestum, sem telst vel viðráðanlegur fjöldi hér á svæðinu.

Við fengum þó einn dag með rúmlega átta þúsund gestum og einu sinni fór fjöldinn yfir sjö þúsund. Á slíkum dögum reynir verulega á skipulagið og innviðina og það var aðdáunarvert hversu vel tókst til. Fyrirtækin sem taka á móti gestunum á bryggjunni og sjá þeim fyrir afþreyingu stóðu sig með afbrigðum vel og eiga mikið hrós skilið fyrir gott skipulag og mikið framboð. Líklega hefur gestum svæðisins aldrei staðið jafn mikil og fjölbreytt afþreying til boða og einmitt nú í sumar.  Margir farþegar kusu líka að skoða sig um á eigin vegum og mátti sjá að t.d. gamli bærinn og göngustígarnir uppi í hlíð nutu mikilla vinsælda.  Verslanir, söfn og aðrir þjónustuaðilar voru líka alltaf á tánum og það var ánægjulegt að sjá að fleiri staðir en áður voru opnir á sunnudögum.

Fáir skipalausir dagar

Ef við skoðum annasömustu mánuði sumarsins þá voru ekki margir skipalausir dagar hér á Ísafirði þetta árið. Í júní voru þeir sjö talsins, í júlí voru þeir þrír og í ágúst voru þeir fimm. Auðvitað var farþegafjöldinn misjafnlega mikill frá degi til dags, allt frá hundrað manns upp í rúmlega átta þúsund. Og þótt þetta færi miklar tekjur inn í samfélagið þá dylst engum að skipakomum fylgir vitaskuld líka álag og áreiti fyrir marga bæjarbúa. Það er því full ástæða til að þakka íbúum Ísafjarðarbæjar fyrir alla þolinmæðina og vinsemdina. Við fengum reglulega að heyra það frá farþegum skipanna að íbúar hér væru einstaklega vingjarnlegir og góðir heim að sækja.

Vissulega förum við þó ekki í gegnum heilt sumar með 235 þúsund gestum án hnökra.  Stundum var svo mannmargt á götum bæjarins að bílaumferð gekk hægar en venjulega. Stundum var örtröð í verslunum og á veitingastöðum, stundum varð klósettpappír eftir við göngustíga og ugglaust mætti telja fleira upp.  Við erum þó alltaf að bæta okkur og bregðast betur við. Það kom t.d. mjög vel út að breyta svæðinu við Silfurtorg í göngugötu á fjölmennustu skipadögunum. Almenningsklósettum í bænum var fjölgað frá fyrri sumrum og almennt er óhætt að segja að við höfum lært af reynslu undanfarinna ára og staðið okkur betur en áður, þótt auðvitað sé enn svigrúm fyrir framfarir.

Viðburðasjóðurinn

Ein nýlundan sem tekin var upp í sumar í tengslum við komur skemmtiferðaskipa er Sumarviðburðasjóður hafnarinnar, en þar gat listafólk sótt um styrki til að halda alls kyns viðburði og uppákomur. Alls var úthlutað fimm milljónum króna til tólf verkefna og er óhætt að segja að þetta hafi sett skemmtilegan svip á bæjarlífið í sumar og glatt bæði heimafólk og gesti. Stefnt er að því að endurtaka leikinn næsta sumar.

Áframhaldandi uppbygging

Framkvæmdum við uppbyggingu aðstöðunnar á hafnarsvæðinu á Ísafirði er hvergi nærri lokið, en væntanlega mun taka 2-3 ár í viðbót að klára þau verkefni sem þegar er búið að skipuleggja. Vonandi tekst að klára dýpkunina við Sundabakka að fullu fyrir næsta sumar og þá munum við líka taka í gagnið  nýtt rútustæði á höfninni, sem klárað var að malbika nú fyrir skemmstu. Út fá því verða gerðar nýjar gönguleiðir frá hafnarsvæðinu sem munu færa stóran hluta gangandi umferðar fjær vinnusvæði flutningabíla, lyftara og annarra vinnuvéla.   

Nýtt landamærahús fyrir hafnarsvæðið er nú í hönnun og vonandi hefjast framkvæmdir við það strax á næsta ári. Þá eru einnig uppi áform um að smíða ný salernishús sem myndu leysa af hólmi þau gámahús sem notuð hafa verið í sumar.

Enn á eftir að bæta úr aðstöðunni við „tenderbryggjuna“ svokölluðu, en þar koma í land þeir farþegar sem ferjaðir eru með léttabátum úr skipum sem leggjast við akkeri. Gæsla á því svæði var aukin í sumar frá því sem áður hefur verið og allt skipulag var betra, en þó þarf að gera betur. Í bígerð er að smíða göngustíg úr timbri við hliðina á veginum, sem myndi auka öryggi á svæðinu umtalsvert.

Horfurnar góðar en margt getur breyst

Komum skemmtiferðaskipa til Ísafjarðarbæjar hefur fjölgað ævintýralega síðustu árin. Ef við lítum bara aftur til ársins 2011 þá komu 35 skip hingað það sumar. Árið 2018 voru þau orðin 64 og síðasta sumarið áður en öllu var skellt í lás vegna Covid-19 voru þau orðin 131 talsins. Eftir að aftur losnaði um þær ferðahömlur sem faraldurinn olli hefur þróunin svo bara verið enn hraðari. Nú bendir hins vegar ýmislegt til þess að vöxturinn sé um það bil að ná hámarki og að skipakomum muni ekki fjölga verulega frá því sem nú er, heldur haldast í svipuðu horfi næstu árin. Margt getur þó spilað þar inní, t.d. staðan í heimspólitíkinni og má í því samhengi nefna að stríðið í Úkraínu hefur haft mikil áhrif á ferðir skemmtiferðaskipa um ákveðin hafsvæði.

Það er ekki bara heimspólitíkin sem hefur áhrif á komur skemmtiferðaskipanna því innanlandspólitíkin getur auðvitað gert það líka.  Þetta á til dæmis við um þau skip sem hafa boðið upp á hringsiglingar um Ísland, en all mörg af hinum smærri skipum eru með fasta viðveru við Íslandsstrendur mestallt sumarið, sigla hring eftir hring og heimsækja fjölmargar hafnir landsins. Þau skip sem hafa þennan háttinn á hafa notið ákveðins tollfrelsis, en nú stendur til að afnema það um næstu áramót.  Hætt er við því að útgerðarfélög þessara skipa muni endurskoða stöðu sína ef af þessu verður, en ljóst er að það yrði umtalsvert högg ef slíkar hringsiglingar legðust af. Nú í sumar voru 53 skipakomur til Ísafjarðar í tengslum við hringsiglingar, farþegafjöldinn var tæplega 16 þúsund manns og tekjur hafnarinnar af þessum skipum námu um 75 milljónum króna. Þetta yrði líka umtalsverður tekjumissir fyrir mörg þjónustufyrirtæki í sveitarfélaginu, en langflestir farþeganna í þessum skipum fara í skipulagðar skoðunarferðir og kannanir benda til þess að meðaleyðsla hvers farþega á þessari tegund skipa sé talsvert meiri en farþega stærri skipanna.

Mikill áhugi á Ísafirði

Nú í haust hafa Hafnir Ísafjarðarbæjar átt fundi með útgerðarfélögum margra skemmtiferðaskipa og það er ljóst að áhugi þeirra á Íslandi og Ísafirði er enn mikill.  Mörg þessara fyrirtækja hafa fylgst náið með framkvæmdunum við höfnina okkar og fagna því að nú skuli vera hægt að bjóða farþegunum upp á betri aðstöðu en áður við komuna til bæjarins.  Annars virðast farþegar undantekningalítið vera ánægðir með heimsóknir sínar til Ísafjarðar og á meðan svo er munu skipafélögin halda áfram að bjóða upp á Ísafjarðarbæ sem einn af sínum viðkomustöðum.

Að lokum er rétt að ítreka þakkir til íbúa Ísafjarðarbæjar fyrir þolinmæði og jafnaðargeð á annasömum skipadögum. Ég vona að haustið og veturinn verði okkur öllum farsælt og að með hækkandi sól getum við svo mætt nýju sumri og nýjum skipagestum með brosi á vör.

Hilmar Kristjánsson Lyngmo
Hafnarstjóri í Ísafjarðarbæ

Jón Jónsson: staðfestir að ásakanir voru ósannar

Jón Jónsson.

„Ég er afar ánægður með hvað niðurstaðan í skýrslunni er í raun afgerandi. Með þessari úttekt KPMG er staðfest að ásakanir oddvitahjónanna, Þorgeirs Pálssonar og Hrafnhildar Skúladóttur, um sjálftöku mína á fjármunum úr sveitarsjóði eru beinlínis ósannar. Ásakanir úr þessari átt hljóta auðvitað að vekja athygli, þau eru lykilstarfsfólk Strandabyggðar, sveitarstjóri og íþrótta- og Tómstundafulltrúi. Það er gott að fá þetta á hreint. Eins kemur skýrt fram að ég hef ekki gerst brotlegur við sveitarstjórnarlög, samþykktir og siðareglur, í störfum mínum í sveitarstjórn, eins og ítrekað hefur verið dylgjað um.“

Þetta segir Jón Jónsson á Kirkjubóli í Tungusveit og fyrrverandi sveitarstjórnarmaður í Strandabyggð sem var ásakaður um að hafa misnotað aðstöðu sína til þess að fá fé úr sveitarsjóði.

Sveitarstjórnin fékk KPMG til þess að gera úttekt á málinu og er niðurstaðan sú að „Ekki er annað að sjá en greiðslur til Jóns Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirætkja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetur, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e á árunum 2010-2014 og 2019-2022 hafi verið í samræmi við samninga og samþykktir sveitarstjórnar.

Einnig er ekki annað að sjá en Jón hafi gætt þess sem fulltrúi í sveitarstjórn að víkja sæti þegar framangreindir samningar voru til umfjöllunar.“

„Ég hef satt best að segja verið dálítið dapur yfir því hvað rógburðurinn hefur átt greiða leið að fólki, hvað slúðursögurnar hafa farið á mikið flug í samfélaginu. Ég vona að breytingar verði á þessu í framtíðinni, að Strandafólk verði kannski ekki alveg jafn opið fyrir svona lygaþvælu.“  

Jón segir að sveitarstjórnin taki skýrsluna til umfjöllunar á fundi sínum á þriðjudaginn í næstu viku og segir það verða fróðlegt að sjá viðbrögðin.

Nýjustu fréttir