Síða 25

Vesturbyggð: deilt um iðnaðarhúsnæði á Krossholti

Þórður Sveinsson, 50% eigandi að iðnaðarhúsnæði á Krossholti á Barðaströnd fer fram á að Vesturbyggð nýti sér forkaupsrétt að 50% eignahlut í sama húsnæði og selji svo sér þann eignarhlut.

Forsaga málsins er sú að Þórður eignaðist 50% í iðnaðarhúsinu að Krossholti skv. eignarheimild og er þinglýstur réttur eigandi skv. veðbókarvottorði og fasteignaskrá frá og með 14. apríl árið 2000.
Þá hefur hann hegðað sér í öllu eins og hann eigi í raun allt húsið, hefur greitt af því hita, rafmagn og önnur tilfallandi gjöld s.s. fasteignagjöld eins og segir í erindi hans til Vesturbyggðar. Þórður hefu stundað atvinnurekstur í húsnæðinu.

Í fyrra kom í ljós að Jakob Pálsson, sem er skráður fyrir 50% eignarhlut að eigninni seldi hlut sinn félaginu Hafsbrún ehf. Þinglýsing á kaupunum hefur enn ekki gengið í gegn vegna athugasemda frá sýslumanni um að lóðarleigusamningi þurfi að þinglýsa samhliða og Vesturbyggð þyrfti um leið að hafna forkaupsrétti sínum skv. kvöð sem enn er gildandi.

Þá hefur nýr eigandi heft aðgengi að húsinu, lagt fiskikörum fyrir framan hurðir og sent Þórði reikninga inn á hans heimabanka fyrir meintri leigu, ásamt því að saka hann um að meina sér um að nýta sinn helming.

Beiðni um nýtingu forkaupsréttar hafði áður verið tekið fyrir hjá Vestubyggð og afgreidd á 977. fundi bæjarráðs sem haldinn var 6. febrúar 2024 þar sem nýtingu forkaupsréttar var hafnað.

Að höfðu samráði við lögræðing sveitarfélagsins staðfestir bæjarráð nú afgreiðslu fyrrum bæjarráðs Vesturbyggðar og hafnar nýtingu forkaupsréttarins.

Bæjarráð vísar afgreiðslunni áfram til staðfestingar bæjarstjórnar.

Bolungavík: opið hús í Vatnsveitunni í Hlíðardal

Nýi vatnstankurinn. Mynd: Bolungavíkurkaupstaður.

Laugardaginn 15. febrúar 14:00-16:00 verður opið hús í nýju vatnsveitunni í Hlíðardal.

Bolungarvíkurkaupstaður býður íbúa og gesti velkomna á opið hús á Vatnsveitunni í Hlíðardal, sem hefur verið í smíðum undanfarin ár.

Undirbúningur hófst árið 2022, en framkvæmdir hófust árið 2023 og er þeim nú formlega lokið. 

Vatnsveitan samanstendur af tveimur meginvatnshólfum sem rúma samtals 2.700 m³ af vatni. Vatnstankurinn tryggir nægan vatnsforða fyrir bæinn í sólarhring og hreinsikerfið hefur afkastagetu upp á 240 m³ á klukkustund. Til samanburðar er meðalsvatnsnotkun bæjarins á bilinu 80-120 m³ á klukkustund, en hver íbúi notar að meðaltali um 165 lítra af vatni á dag.

Nýja vatnsveitan mun tryggja bæjarbúum öruggt og hreint drykkjarvatn til framtíðar og er stórt skref í innviðauppbyggingu Bolungarvíkur segir í tilkynningu á vef bæjarins.

Hér má sjá 3D mynd af tankinum

Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Strandabyggð – Vandræðalegt svaraleysi sveitarstjórnarmanna

Á fundi 1371 í sveitarstjórn Strandabyggðar sem fram fór 10. desember 2024 var tekið fyrir erindi frá Jóni Jónssyni undir dagskrárlið 11. Fulltrúar A lista sveitarstjórnar (minnihlutans) gerðu skíra grein fyrir afstöðu sinni á fundinum, sjá nánar í fundargerð.  Fulltrúar T lista (meirihluta) völdu þá leiða að svara ekki erindi Jóns en samþykktu eftirfarandi tillögu:

„Varaoddviti leggur fram tillögu meirihluta um að erindi þessu í heild verði vísað til lögfræðings sveitarfélagsins sem og lögfræðingum Sambands íslenskra sveitarfélaga til skoðunar. Varaoddvita verði jafnframt falið að fylgja málinu eftir.“

Tveimur mánuðum síðar, á fundi 1373 sem fram fór þann 10.  febrúar 2025 er kynnt til sögunnar undir dagskrárlið 9, minnisblað frá Birni Jóhannessyni lögmanni varðandi erindi Jóns. Skoðar lögmaðurinn málið út frá eftirfarandi þáttum, tekið beint úr minnisblaðinu:

„Í fyrrnefndu erindi Jóns Jónssonar (hér eftir nefndur álitsbeiðandi) er óskað eftir því að ,,sveitarstjórn Strandabyggðar gefi álit sitt á því hvort framganga oddvita Strandabyggðar og starfsmanna sveitarfélagsins gagnvart mér brjóti í bága við gildandi siðareglur kjörinna fulltrúa í Strandabyggð og ákvæði í starfsmannstefnu Strandabyggðar“. Óskar álitsbeiðandi eftir því að ákveðin tilvik (fésbókarpistlar, bréf, tölvupóstur, viðtal og aðsend grein) verði tekin til skoðunar í því sambandi. “

Minnisblaðið undirritar Björn 10. janúar 2025, fjórum dögum fyrir janúarfund sveitarstjórnar. Það er hægt að sýna því ákveðinn skilning að ekki hafi náðst að gera grein fyrir minnisblaðinu á janúarfundinum en það er erfitt að sýna því skilning að sveitarstjórnarfulltrúar T lista hafi ekki nýtt tímann, heilan mánuð, til að undirbúa og birta afstöðu sína á nýliðnum fundi nú í febrúar.

Hvort einhver fyrirmæli hafi fylgt með þegar varaoddviti sendi erindi Jóns til lögmanns sveitarfélagsins og lögmanna Sambands íslenskra sveitarfélaga er erfitt að átta sig á enda kemur ekkert fram um það. Tillagan sem borin var fram á fundi 1371 og var samþykkt af fulltrúum T lista bar það eitt með sé að þessum lögmönnum væri falið að „skoða“ erindi Jóns. Það er kannski ekki að undra að lögmenn sambandsins séu ekki búnir að skila neinu, þeir eru væntanlega að „skoða“ málið eins og þeim var falið skv. tillögunni. Það voru engin frekari fyrirmæli eða tímamörk samþykkt eða sett.

Það sem er áhugavert við minnisblað Björns lögmanns er að þar er því alls ekki hafnað að brotið hafi verið í bága við siðareglur kjörinna fulltrúa og ákvæði í starfsmannastefnu Strandabyggðar. Hann leggur það hinsvegar í hendur sjálfra sveitarstjórnarfulltrúa T lista að meta það hvort þeir séu reiðubúnir til að til að gefa Jóni álit sitt líkt og hann fer fram á í erindi sínu og líkt og fulltrúar A listans hafa þegar gert.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni, hvort einhver svör eða viðbrögð berist frá lögmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það má vænta þess að varaoddviti framfylgi skyldu sinni og fylgi því eftir að svör berist eða geri grein fyrir því ef lögmenn sambandsins hafni því að „skoða“ erindið. Það verður jafnframt áhugavert að sjá hvort fulltrúar T lista finni hjá sér kjark til að svara erindi Jóns á einhverjum tímapunkti og þá á hvaða hátt.

Eins og staðan er núna þá hafa fulltrúar A lista gert skíra grein fyrir afstöðu sinni. Björn, lögmaður sveitarafélagsins, hafnar því ekki að brotið hafi verið í bága við siðareglur kjörinna fulltrúa og ákvæði í starfsmannastefnu Strandabyggðar og fulltrúar T lista hafa ekki hafnað því heldur. Svaraleysi fulltrúa T lista er frekar vandræðalegt gagnvart oddvitanum en meðan þau taka ekki skýra afstöðu um annað þá má alveg draga þá ályktun að það sé álit sveitarstjórnar að brotið hafi verið gegn siðareglum kjörinna fulltrúa og ákvæðum starfsmannastefnu Strandabyggðar. Í þá tvo mánuði sem málið hefur legið fyrir hefur að minnsta kosti enginn hafnað því.

Með góðum kveðjum í hækkandi sól,

Andrea K. Jónsdóttir, athafnakona

Þjóðarhöll Færeyinga vígð á laugardaginn

Tölvuteikning af þjóðarhöll íþrótta í Færeyjum

Færeyjar opna Þjóðarhöll sína fyrir innanhússíþróttir, Við Tjarnir, á laugardaginn.

Verið er að ljúka við síðustu verkin innandyra og utan svo allt verði tilbúið fyrir vígsluathöfina á laugardaginn.

Fyrsti landsleikurinn í Þjóðarhöllinni fer fram 12. mars þegar Færeyingar mæta Hollendingum í undankeppni Evrópumóts karla í handknattleik. Fyrsta skóflustunga Þjóðarhallarinnar, sem er í Hoyvík á Þórshafnarsvæðinu, var tekin 22. desember 2022.


Höllin, sem er hin glæsilegasta og búin öllum fullkomnasta búnaði, á að rúma allt að 2.700 áhorfendur í sæti á handboltaleikjum og 4.600 áhorfendur á standandi viðburðum s.s. tónleikum. Einnig býður hún upp á mikla möguleika til sýningahalds og ráðstefna.

Mikill metnaður var lagður í framkvæmdina auk þess sem salir og stúkur hallarinnar bera færeysk heiti.

Þjóðarhöllin, Við Tjarnir, leysir af hólmi Høllina á Hálsi sem hefur verið helsta keppnishöll innanhússíþrótta í Færeyjum frá 1970. Høllin á Hálsi er barn síns tíma og uppfyllir ekki kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegrar keppni, m.a. í handknattleik né rúmar hún alla þá Færeyinga sem vilja mæta á kappleiki landsliðanna í handknattleik kvenna og karla sem hafa tekið stórstígum framförum á síðustu árum og gert sig gildandi í lokakeppni stórmóta.

Af vefsíðunni handbolti.is

Tveir opnir fundir í Strandabyggð í næstu viku

Hólmavík.

Miðvikudaginn 19. febrúar er opinn kynningarfundur í Félagsheimilinu þar sem fram fer kynning nýju Aðalskipulagi Strandabyggðar 2021-2033. 

Fulltrúar frá Landmótun verða á fundinum og kynna aðalskipulagið og einnig verða þar fulltrúar frá Fasteignaumsýslunni og kynna áform um byggingu hótels á Hólmavík.  Íbúar er hvattir til að fjölmenna og kynna sér þær áherslur sem nýtt aðalskipulag felur í sér og þá uppbyggingu sem er framundan á Hólmavík.  Fundurinn hefst kl 17.30.

Fimmtudaginn 20. febrúar er síðan lokaíbúafundur Sterkra Stranda sem einnig er haldinn í Félagsheimilinu. Þar verður sagt frá íbúakönnun sem staðið hefur yfir að undanförnu,  farið yfir stöðu einstakra verkefna og unnið í hópavinnu varðandi ávinning verkefnisins. 

Fundarstjóri verður Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðamála, hjá Vestfjarðastofu. Boðið verður upp á súpu, brauð og kaffi á fundinum. Fundurinn hefst kl 18.00.

Heiðursverðlaun Ásusjóðs

©Kristinn Ingvarsson

Jón Atli Benediktsson, rektor og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, og Guðmundur Fertram Sigurjónsson, frumkvöðull og stofnandi heilbrigðistæknifyrirtækisins Kerecis, hlutu í gær heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright.

Verðlaun úr sjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright eru veitt íslenskum vísindamanni sem náð hefur framúrskarandi árangri á sínu sérsviði í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi.

Til að leggja áherslu á tengsl vísinda og nýsköpunar og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag eru nú í fyrsta sinn veitt verðlaun til frumkvöðuls sem hefur náð framúrskarandi árangri í nýsköpun.

Ása Guðmundsdóttir Wright stofnaði Verðlaunasjóð Ásu Guðmundsdóttur Wright árið 1968 í tengslum við hálfrar aldar afmæli Vísindafélags Íslendinga. Sjóðurinn hefur frá upphafi veitt heiðursverðlaun til 56 einstaklinga sem unnið hafa veigamikil vísindalegt afrek á Íslandi eða fyrir Íslands hönd.

Miklar bikblæðingar á Vesturlandi

Hættustig vegna bikblæðinga er í gildi á Bröttubrekku , í gengum Dalina , yfir Svínadal og út Hvolsdal en einnig á veginum yfir Vatnaleið á Snæfellsnesi, undir Hafursfelli og að Heydalsafleggjara. Sama gildir um þjóðveg 1, frá Borgarnesi yfir Holtavörðuheiði í Hrútafjörð.

Eins og sjá má á kortinu er mikið af varúðarmerkjum

Starfsfólk Vegagerðarinnar og verktakar vinna nú að því að gera við holur og aðrar skemmdir sem hafa myndast á vegum víða um land eftir umhleypingasamt veður. 

Vegfarendur eru beðnir að aka varlega á þessum leiðum en hraði er víða tekinn niður í 70 km/klst. Í aðstæðum sem þessum getur bik og möl festst á dekk. Þeir sem verða fyrir tjóni er bent á að senda inn tjónaskýrslu á mínum síðum á vef Vegagerðarinnar.

Tjónaskylda Vegagerðarinnar er metin í hverju tilviki.

Vörður II: ríflega 32 tíma aðgerð til bjargar

Frá aðgerðunum. Mynd: Landsbjörg.

Snemma í morgun kom Vörður II, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Patreksfirði, til hafnar með Jóhönnu Gísla í togi og skilaði Jóhönnu að bryggju rétt fyrir klukkan 6 í morgun.

Þá voru liðnir um 32 klukkustundir síðan Jóhanna Gísla fékk pokann í skrúfuna um 70 sjómílur norðvestur af  Látrabjargi og varð fyrir vikið óstjórnhæf.

Strax þá kvöldið 12 febrúar hófst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar handa við að skipuleggja björgun Jóhönnu og drátt á skipinu til lands. Varðskipinu Þór, sem þá var statt austan við land, var stefnt í átt að Jóhönnu, ásamt því að áhöfnum björgunarskipa Landsbjargar á Rifi og Patreksfirði var gert viðvart.

Skipstjóri Guðmundar í Nesi, sem var á veiðum ekki langt frá Jóhönnu, ákvað að draga veiðarfæri sín og halda til aðstoðar. Þetta var skömmu fyrir miðnætti, aðfararnótt 13. Febrúar. Klukkan 4 um þá nótt var áhöfn Guðmundar í Nesi búin að koma taug á milli skipanna og skipin komin á hæga siglingu í litlum sjó en strekkings vindi, áleiðis til lands. Hraði skipanna í þessum drætti var frekar lítill eða um tvær og hálf til þrjár og hálf sjómíla á klukkustund.

Það var svo rúmlega eitt í nótt, aðfaranótt 14. Febrúar, sem áhöfn Varðar II var ræst út og haldið til móts við skipin, sem þá voru að nálgast mynni Patreksfjarðar.

Vörður II tók við drætti Jóhönnu rétt upp úr 2 í nótt og hélt þá Guðmundur í Nesi aftur til veiða.

Vörður kom svo eins og fyrr segir með Jóhönnu til hafnar á Patreksfirði snemma í morgun, rétt um einum og hálfum sólarhring síðar.

Skemmtiferðaskip: um 100 ferðir afbókaðar

Tvö skemmtiferðaskip í Ísafjarðarhöfn sumarið 2023. Innviðagjaldið vinnur gegn jákvæðum áhrifum af skipakomunum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fram kemur í erindi til hafnarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá framkvæmdastjóra samtaka skemmtiferðaskipa að um 100 komur skemmtiferðaskipa til landsins hafa verið afbókaðar vegna innviðagjaldsins sem lögfest var fyrir áramótin. Segir að gjaldtakan hafi verið óvænt og valdi því að Ísland verði frekar litið á sem óstöðugt land og dragi úr umsvifum á landsbyggðinni. CLIA eru samtök skemmtifeðaskipa, Cruise Lines International Association.

Í erindi CLIA kemur fram að skemmtiferðaskip séu ekki í samkeppni við innlenda ferðaþjónustu. Þvert á móti þá skipti skemmtiferðaskipin við innlend ferðaþjónustufyrirtæki og efli starfsemi þeirra. Fjölmargir ferðamenn á skemmtiferðaskipum svo og áhafnarmeðlimir komi fljúgandi til landsins og gisti nokkrar nætur á hótelum í Reykjavík sem þannig njóti góðs af skemmtiferðaskipunum.

Á fundi hafnastjórnar í gær var bókað að hafnarstjórn „mótmælir gjaldtökunni harðlega og krefst þess að gjaldtaka í núverandi mynd verði tekin til endurskoðunar. Haft verði samráð við hagsmunaaðila í því ferli.

Komur skemmtiferðaskipa skipta miklu máli fyrir ferðaþjónustu á Íslandi, ekki síst í dreifðum byggðum, og fyrirsjáanleiki þarf að vera í greininni.“

 Flumbrugangur fortíðar vandamál framtíðar

Það voru mistök að færa skóla frá ríki til sveitarfélaga – stór mistök !

Þessi tilfærsla bauð upp á mismunun sem öllum mátti vera ljóst í upphafi – en mismunun í þessum málaflokki er lögbrot.

Þetta gerist á sama tíma og mörg sveitarfélög eru að missa sína helstu tekjulind – það er að segja þegar kvötakerfið er smá saman að kippa burðarstoðunum undan atvinnulífinu á landsbyggðinni – og akkúrat þá skikkar ríkið landsbyggðarbörnin í fræðslu-uppeldi hjá þeim sem ekki höfðu fjárhagslega burði til að veita það.

Því hefur oft verið haldið fram að sjávarútvegsstefna þjóðarinnar sé sú fullkomnasta í víðri veröld – því hefði mátt ætla að þetta fullkomna sköpunarverk hafi átt að tryggja þjóðarbúinu auknar tekjur – það má því furðu sæta að ákveðið hafi verið að létta lögbundnum fræðsluskyldum af herðum ríkisins og varpa þeim yfir á aðrar öllu minni að burðum – sem áttu auk þess í vök að verjast vegna minnkandi tekna.

Hafa þeir sem fyrir þessu stóðu einhvern tíman verið spurðir um hvað hafi vakað fyrir þeim með þessum gjörningi og þá hvort hann hafi skilað þeim árangri sem vænst var í upphafi vegferðar ?

Var grunnskólakerfið kannski talið vera hluti af hinu svokallaða ríkisbákni sem lengi hefur verið þyrnir í augum íhaldsins – og þá lausnin að færa það til og brjóta það niður.

Mennt er máttur segir máltækið. Menntun er undirstaða velferðar – illa upplýst og illa menntuð þjóð er veik þjóð sem á endanum festist í vitahring vanmáttar til allra verka. Vandamálin óleyst eru látin ganga á milli eins og heit kartafla sem enginn vill snerta – svo eru kannski gerðar einhverjar breytingar sem engum gagnast bara svo hægt sé að segja að eitthvað hafi verið gert og vandræðagangurinn heldur áfram því mistök fást ekki viðurkennd – dýrmætur tími og orka fara svo í að dylja mistök á mistök ofan og þá er ótalin kostnaðurinn við að hafa fólk í vinnu sem gerir lítið annað en að finna „flóttaleiðir“ fyrir vanhæfa yfirmenn út úr ógöngum.

Það er nefnilega svo þegar vandamálin eru látin ganga á milli  eins og fágætir erfðagripir þá er oftast verið að hlífa „merkilegu“ fólki sem á þar sök – það telur sig hins vegar laust allra mála þegar búið er að varpa vandamálunum í margfeldi yfir á aðra. Svona er ábyrgðarleysið í sinni tærustu mynd – vaðandi um alla stjórnsýslu almenningi til trafala og tjóns.

Þjóðinni er því oft gert að fóstra vandamál jafnvel í áratugi sem sprottinn eru upp úr mistökum þeirra sem telja sig ekki þurfa að axla ábyrgð á eigin gjörðum.

Hvítflibba-yfirsjónir svo pent sé til orða tekið eru best varðveittu opinberu leyndarmálin á Íslandi – þau eru jafn djúpt grafin í kerfinu og morðið á Kennedy í því bandaríska og fást ekki afhjúpuð fyrr en áratugum eftir að allir eru gengnir sem að komu –  svo ekki komi rispur á „frontin“ hjá þeim „fínu“ – það má svo í fjarlægri framtíð kenna tíðaranda um.

Það eru flestir sammála um að kennarar séu vanmetnir til launa. Þessi mikilvæga stétt sem hefur á liðnum árum verið að fá í fangið hvert áskorunarverkefnið á fætur öðru sem hefur þurft að fella inn í skólastarfið jöfnum höndum samhliða hefðbundinni kennslu er sannarlega verðug mannsæmandi launa. – Baráttukveðjur til þeirra !

Verkefnum er vísað inn í skólanna án þess að því er virðist að búið sé að útfæra þau á nokkurn hátt né aðlaga að skólastarfinu svo þau valdi ekki röskun þar á. 

Þarna hafa einhverjir verið að ýta vandamálum út af sínum skrifborðum yfir til skólanna í stað þess í samráði við kennarana að finna einhverja millilendingu fyrir verkefnin þar sem þau væru undirbúin og aðlöguð að skólastarfinu.

Margir líta svo á að skólarnir séu uppeldisstofnanir – sem þeir eru ekki – það er hlutverk foreldra að sjá um uppeldið. Það má hins vegar telja nokkuð víst að nemendur beri með sér vandamálin heima fyrir í skólann – svo sem fjárhagsáhyggjur og þá þjóðfélagsástandið hverju sinni að birtast í líðan og hegðun nemenda – því ekki ósennilegt þegar illa árar að kennarar þurfi að eyða miklu tíma í að takast á við hegðunarvandamál af ýmsum toga.

Það hafa margar misráðnar ákvarðanir verið teknar á Alþingi íslendinga í gegnum tíðina – mistök sem ekki hafa fengist leiðrétt – þau hafa bara verið fléttuð inn í tilveru almennings sem sjálfsögðum – í sumum tilfellum sem sér íslenskum hefðum – eins og til dæmis verðtrygging lána og veðsetningaréttur á aflaheimildum.

Það er freistandi að ætla að mistökin sum hafi verið með vilja gerð – mistök sem hafa átt að þjóna ákveðnum sjónarmiðum en ekki endilega fjöldanum – og þá litið svo á að eðlilegt væri að fórna einhverju í þágu þeirra guðsútvöldu í heimi forréttindana og klípa kannski smá hér og þar af velferðarþjónustunni – eftir þörfum.

Öll höfum við eflaust í angist fylgst með fjöldamorðunum á Gasa – þar má sjá yfirgang í sinni hryllilegustu mynd – yfirgang sem blessaður er af einni valdamestu þjóð í heimi – þjóð sem fengið hefur afdrep í bakgarði íslendinga með sín stríðstól – þar sem hún getur í næði undirbúið útrás til landvinninga á sama tíma og hún skipuleggur útivistarparadís fyrir lúxusfólk á blóðakrinum á Gasa. – Slík óhæfa verður vart endurtekin ef framtíðin ætlar að læra eitthvað af mistökum fortíðar. Þessi smekkleysa undirstrikar óumdeilanlega hversu mannslífin eru lítils metin þegar peningar og völd eru annars vegar. Það má aldrei verða sjálfsagður hlutur að fórna mannslífum í hagræðingar og ábataskyni – virðingar og siðleysið er það sama hvort sem um eitt er að ræða eða milljón. 

Með hátíðlegum helgisvip sem helst má sjá á trúarlíkneskjum sverja frambjóðendur í aðdraganda kosninga að uppræta ósiði og mistök andstæðinga sinna – en svo verður eitthvað minna um efndir þegar á hólminn er komið – þá eiga opinber kosningaloforð það til að umbreytast í einhvers konar öfugmælavísur – kannski vegna þess að þau hafa ekki þótt eiga samleið með þeim loforðum sem gefin hafa verið í bakherbergjum – þar sem gæla má við persónulega ávinninga.

Hrossakaup eru alkunn í íslenskri pólutík – svona gerast kaupin á eyrinni er sagt og glott – rétt eins og um smá daður hafi verið að ræða en ekki framtíð og velferð þjóðar.

Við sem þjóð erum ekki í góðum málum þegar kjörnir fulltrúar eru farnir að versla með velferð  – hvort sem um einhverja hópa er að ræða eða heildina. Skemmdu eplin smita út frá sér þegar samherjarnir fara að verja þau og þá um leið að selja sig undir ákveðin skilyrði sem setja þeim mörk til framfara í þágu þjóðar – kaupin á eyrinni eru þá komin með völdin og komin í aðstöðu til að framfylgja því er um var samið í prívat samtali.

Það þjónar enginn tveimur herrum svo vel sé – það ættu þeir að hafa í huga sem heitið hafa að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar við störf sín á Alþingi.

Það er ekki eftirsóknarvert að lifa í blekkingarheimi þar sem samviskunni hefur verið úthýst. þar sem blekkingum er beitt þar er fátt í lagi – þær gefa þeim sem lifa í veruleikafirrtri „ævintýraveröld“ forskot í lífsgæðakapphlaupinu á meðan hinir bíða við „ráslínuna“ eftir grænu ljósi frá duttlungasveitinni í seðlabankanum – sem lætur stjórnast af – guð má vita hverju !

Það er ástæða fyrir því að svo mörg íslensk ungmenni eru föst í foreldrahúsum langt fram á fullorðinsár – í vonleysi rænd þeirri eftirvæntingu sem fylgir framtíðarplönum æskunnar.

Við þurfum ríkisstjórn sem lætur ekki stjórnast af hræðsluáróðri, kúgunartilburðum og frekju auðvaldsins – fasistaríki eru ekki nein fyrirmyndarríki – en það kallast þau ríki þar sem stjórnvöld ganga fyrst og fremst erinda peningavaldsins á kostnað heildarhagsmuna.

Það hafa margir lengi reynt að vara við uppgangi peningaaflanna í heiminum – afla sem nú eru komin með bífurnar upp á borð í Hvíta húsinu – þessu öfl eru með sterkt tengslanet út um heim allan og við getum verið alveg viss um að Ísland er fyrir löngu komið inn á þeirra kort svo ríkt sem það er af auðlindum – svo kannski hefur aldrei verið meiri þörf en nú fyrir ábyrga og trausta stjórn.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Lífsreyndur eldri borgari. 

Nýjustu fréttir