Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 249

Vesturbyggð: 102 tonn í byggðakvóta

Patreksfjarðarhöfn í byrjun desember sl. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt Vesturbyggð um byggðakvóta til byggðarlaga innan sveitarfélagsins á yfirstandandi fiskveiðiári. Samtals koma 102 þorskígildistonn til þriggja byggðarlaga sem er aukning frá síðasta fiskveiðiári þegar byggðakvótinn var 85 tonn.

Til Bíldudals eru nú 40 tonn sem er minnkun um 15 tonn. Fimmtán er úthlutað til Brjánslæjar sem er óbreytt frá fyrra ári og til Patreksfjarðar er úthlutað 47 tonnum en þau voru aðeins 15 tonn síðast.

Hafna- og atvinnumálaráð samþykkti að sérreglur varðandi úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa í Vesturbyggð verði óbreyttar frá síðasta fiskveiðiári á fiskveiðiárinu 2023/2024. Bæjarstjórn staðfesti þessa ákvörðun á fundi sínum á miðvikudaginn.

Skal byggðakvótanum skipt hlutfallslega, af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, innan sveitarfélagsins og fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins.

Tími ákvarðana er runninn upp

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Fyrr á þessu ári óskaði umhverfis-, – orku og loftlagsráðherra  umsagna ýmissa aðila vegna greinargerðar um áhrif Vatnsdalsvirkjunar í Vesturbyggð á friðlandið í Vatnsfirði.  Greinargerðin sem um ræðir var unnin af verkfræðistofunni VSÓ  fyrir Orkubú Vestfjarða vegna beiðni frá ráðuneytinu um frekari upplýsingar í tengslum við erindi Orkubús Vestfjarða dags. 22. febrúar 2023 til ráðuneytisins, um breytingu á friðlýsingarskilmálum friðlandsins í Vatnsfirði.


Um erindi Orkubúsins

Í erindi Orkubúsins  var farið þess á leit við ráðherra að hann hlutist til um það eins fljótt og verða má að breyta reglum um friðlandið í Vatnsfirði í auglýsingu nr. 96/1975 þannig að Umhverfisstofnun/Orkustofnun sé heimilt að veita leyfi til virkjunar vatnasvæðis friðlandsins til að reisa og reka raforkuver innan friðlandsins með vísan til ákvæða 44. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sbr. ákvæði 4. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

Ástæða erindis Orkubúsins er að slík heimild er grundvöllur þess að hægt sé að taka virkjunarkostinn inn í venjulegt skipulagsferli, þ.m.t. til umfjöllunar í rammaáætlun og í umhverfismat.

Umsagnir og rammaáætlun
Ráðuneytið óskaði eftir umsögnum ýmissa aðila um áðurnefnda greinargerð frá VSÓ Ráðgjöf.  Frestur til að skila inn umsögnum er nú liðinn. Orkubúið hefur fengið afrit af mörgum þeirra, en þær eru sumar mjög ítarlegar og  gætu því hugsanlega kallað á viðbrögð frá Orkubúinu.    Ítarlegustu upplýsingarnar um mögulega virkjun og áhrif hennar munu þó að mati okkar hjá Orkubúinu alltaf fást með því að fjallað verði um þennan virkjunarkost í rammaáætlun og síðar umhverfismati með tilheyrandi rannsóknum, eins og kemur reyndar vel fram í greinargerð VSÓ.

Virkjanir í forgang
Ein af þeim umsögnum sem borist hafa kemur frá bæjarstjórn Vesturbyggðar, en þar er lagt  til að aðrar virkjanir verði settar verði í forgang (Austurgilsvirkjun og Hvalárvirkjun).  Ekki verður  séð að ákvarðanir um framkvæmdir við byggingu þessara tveggja virkjana séu á hendi umhverfis- orku- og loftslagsráðherra heldur eigenda verkefnanna.  Þær staðreyndir lágu fyrir þegar ráðherra skipaði starfshóp um raforkumál á Vestfjörðum í júní 2021, sem skilaði niðurstöðum í apríl 2022 og þegar ráðherra skipaði starfshóp um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum þann 1. september 2022, sem skilaði sínum niðurstöðum í formi skýrslu í júní 2023.

Niðurstöður beggja starfshópa eru á þá leið að virkjunarkostur í Vatnsfirði verði tekinn til umfjöllunar í rammaáætlun eða öðru því regluverki sem Alþingi kann að ákveða varðandi mögulega virkjunarkosti.

Forgangur liggur þegar fyrir
Hvað umsögn Vesturbyggðar varðar er mikilvægt að hafa í huga að bæjarstjórnin leggur áherslu á að tillögur sem þegar hafa verið ákveðnar í svæðisbundnum aðgerðum stjórnvalda og með tímasettum áföngum verði settar í forgang áður en kannað er hvort ástæða sé til að breyta friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar. 

Gera má ráð fyrir að þar sé átt við framkvæmdir í svæðisbundna flutningskerfi Landsnets sem lúta að tvöföldun kerfisins til sunnanverðra Vestfjarða, frá Mjólká að Keldeyri og tvöföldun til norðanverðra Vestfjarða frá Mjólká í Breiðadal.  Með því að þær tillögur hafa þegar verið settar fram í Kerfisáætlun Landsnets er Landsnet einmitt að setja þær í forgang.  Forgangurinn liggur þannig þegar fyrir og því er ekki ástæða til að bíða með það frekar að kanna hvort ástæða sé til að breyta friðlýsingarskilmálum friðlandsins í Vatnsfirði.  Hvatning bæjarstjórnar til að flýta þessum framkvæmdum er auðvitað af hinu góða.

Tíminn verðmætur

Í umsögn sinni leggur bæjarstjórn til að lokið verði fyrst við þær framkvæmdir sem þegar hafa verið undirbúnar til að mæta þeim mikilvægu almannahagsmunum sem felast í aðgengi að orku á Vestfjörðum áður en ákvörðun er tekin um afnám eða breytingu á friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðar.

Það er skilningur Orkubús Vestfjarða á umsögninni (bókun bæjarstjórnar) að í raun sé verið að biðja um frestun á ákvörðun sem þurfi samt að lokum að taka, af eða á.  Það er vegna þess að áhrifin af þeim framkvæmdum sem þegar hafa verið undirbúnar liggja nú þegar fyrir í útreikningum sem Landsnet hefur látið framkvæma.  Það að bíða með ákvörðunina hefði þann eina tilgang að tefja aðgerðir til úrbóta í orkumálum á Vestfjörðum í stað þess að tíminn sé nýttur til að bæta ástandið.  Ákvörðun sem tekin er núna gefur í raun bara meira ráðrúm til að undirbúa þær framkvæmdir vel sem ráðast þarf í, hverjar sem þær kunna að verða.

Áhrif umræddra framkvæmda eru ekki fullnægjandi

Áhrif umræddra svæðisbundina framkvæmda á afhendingaröryggi raforku er að það eykst um 34% á sunnanverðum Vestfjörðum en einungis um 16% á norðanverðum Vestfjörðum.  Það telur Orkubú Vestfjarða ekki fullnægjandi og er það ástæða þess að lagt er til að virkjað verði í Vatnsdal.

Með virkjun í Vatnsdal auk ofangreindra framkvæmda eykst afhendingaröryggið um 90% sem þýðir að á móti hverjum 10 straumleysistilfellum í dag yrði bara um eitt straumleysistilfelli að ræða. 

Tvöföldun Vesturlínu

Bæjarstjórn Vesturbyggðar leggur ríka áherslu á að tvöföldun Vesturlínu verði hafin nú þegar til að tryggja flutning raforku til og frá svæðinu.    

Orkubú Vestfjarða tekur undir með bæjarstjórn að framkvæmdir við tvöföldun Vesturlínu hefjist sem fyrst, enda gæti fyrsti áfangi tvöföldunar línunnar einmitt verið frá tengipunkti Landsnets í Mjólká að Vatnsdalsvirkjun.  Sá hluti línunnar liggur um land í eigu Orkubús Vestfjarða og íslenska ríkisins og ætti leyfi landeigenda því að vera auðsótt mál.  Fyrirsjáanlegt er að aðrir áfangar línulagnarinnar tækju talsvert mikið lengri tíma enda er Vesturlína 160 km löng og fer um 79 jarðir í eigu 262 þinglýstra landeigenda skv. athugun sem Orkubú Vestfjarða lét vinna fyrir sig sl. sumar.  Lagning annarrar Vesturlínu er því óhjákvæmilega langhlaup. Rétt er að benda á að Landsnet hefur svarað því til í umfjöllun um Kerfisáætlun 2023 – 2032 að nýting orkukosta á Vestfjörðum sé mjög mikilvægur þáttur í að tryggja orkubúskap Vestfjarða til lengri tíma og mun ákjósanlegri en tvöföldun allrar Vesturlínu frá Hrútafirði.

Bæjarstjórn vill ekki íþyngjandi takmarkanir við framtíðarorkuöflun

Ekki verður hjá því komist að rifja upp bókun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 17. Febrúar 2021, en þar segir m.a. í bókun um fyrirhugaðan þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum:

„Við áframhaldandi undirbúning fyrir stofnun þjóðgarðsins leggur bæjarstjórn áherslu á að gætt verði að nauðsynlegri innviðauppbyggingu innan marka þjóðgarðsins. Þá verði ekki settar íþyngjandi takmarkanir við framtíðarorkuöflun innan marka þjóðgarðsins, viðhald og endurnýjun raflína og orkumannvirkja verði ekki takmörkuð sem og uppbygging samgöngumannvirkja, m.a. á Dynjandisheiði.“

Þessi bókun ásamt bókunum annarra vestfirskra sveitarfélaga í þessa veru auk yfirlýsinga samtaka þeirra, á undanförnum árum, hafa verið mikilvæg hvatning til Orkubús Vestfjarða í rannsóknum og undirbúningi mögulegrar virkjunar í Vatnsdal í góðri sátt við íbúa, með lágmarks umhverfisáhrif að leiðarljósi.

Elías Jónatansson,
orkubússtjóri

Hvernig má verjast netsvikum.

Lögreglan á Vestfjörðum vekur athygli notenda Internetsins á góðum ráðum til að verjast svikum.

En af og til eru gerðar tilraunir til að svíkja fé eða með öðrum hætti brjóta á notendum.

Veikasti hlekkurinn í vörnum gegn netsvikum erum við sjálf.

Fólk hefur til dæmis smellt á hlekk sem kom í tölvupósti eða SMSi eða var á samfélagsmiðli á borð við Facebook og Instagram og freistast til að skoða spennandi auglýsingu um „fjárfestingartækifæri“.

Í öðrum tilvikum hefur fólk talið sig vera að fjárfesta í bitcoin en slík svik byrja gjarnan á því að þolandinn smellir á hlekk á netinu eða á samfélagsmiðlum. Einnig eru dæmi um að fólk fái símtöl frá svikahröppum þar sem reynt er að gabba það til að fjárfesta eða millifæra.

Besta vörnin gegn netsvikum eru fræðsla og umræða. Því meira sem við tölum um fjársvik á netinu og aðferðirnar sem svikararnir beita, því betur vitum við hvað skal varast.

Ef það er of gott til að vera satt þá er það yfirleitt ekki satt. Þetta á sérstaklega við um boð um ýmiskonar fjárfestingar.
Notaðu öruggar greiðslusíður þegar þú verslar á netinu eða ert að greiða fyrir þjónustu.
Farðu mjög varlega þegar þú færð tölvupóst eða SMS sem inniheldur hlekki.
Ef þú áttir ekki von á skilaboðum frá viðkomandi aðila skaltu fara sérstaklega varlega. Ertu alveg viss um að skilaboðin séu ekki svikaboð.

Einnig eru upplýsingar á 112.is origgi a netinu

Vanmerkt síld og varasöm

Matvælastofnun varar neytendur við sem hafa ofnæmi fyrir eggjum og/eða sinnepi við neyslu á karrísíld frá Ósnesi en varan er vanmerkt með tilliti til ofnæmis- og óþolsvalda.

Fyrirtækið hefur í samráði við Matvælastofnun innkallað vöruna frá viðskiptavinum sínum.

Innköllunin á við alla framleiðslulotur af karrísíld;

  • Vöruheiti: Karrísíld 
  • Þyngd: 2,25 kg
  • Best fyrir framleiðsludagur: Allir framleiðsludagar
  • Framleiðandinn: Ósnes ehf., Djúpavogur
  • Dreifing: Fiskás á Hellu, Garri ehf. og stóreldhús.

Kaupendur vörunnar sem eru með ofnæmi- og/eða óþol geta haft samband við söluaðila eða fyrirtækið Ósnes ehf. til að fá endurgreiðslu.

Tíðarfar í nóvember 2023

Myndin er tekin á svölum Veðurstofu Íslands 5. desember 2023. Ljósmynd: Pála Hallgrímsdóttir/Veðurstofa Íslands.

Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar var nóvember þurr um land allt og tíðarfar gott.

Það var hlýtt á sunnanverðu landinu en kaldara norðanlands. Austlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum en það var tiltölulega hægviðrasamt.

Meðalhiti í Reykjavík í nóvember var 3,3 stig. Það er 1,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -0,1 stig, 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 2,3 stig og 3,6 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöðmeðalhiti °Cvik 1991-2020 °Cröðafvik 2013-2022 °C
Reykjavík3,31,1211530,4
Stykkishólmur2,30,537178-0,2
Bolungarvík2,00,735126-0,2
Grímsey2,60,724 til 251500,0
Akureyri-0,1-0,769143-1,3
Egilsstaðir0,5-0,12769-0,7
Dalatangi3,80,722860,1
Teigarhorn3,50,924 til 251510,3
Höfn í Hornaf.3,60,4
Stórhöfði4,81,316 til 171460,7
Hveravellir-3,10,51759-0,2
Árnes1,91,121 til 221440,7

Meðalhiti og vik (°C) í nóvember 2023

Það var tiltölulega hlýtt á sunanverðu landinu í nóvember en kaldara norðanlands. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,2 stig á Skarðsheiði en neikvætt hitavik var mest á Sauðárkróksflugvelli, -2,0 stig.

Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í nóvember miðað við síðustu tíu ár (2013 til 2022).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 5,8 stig. Lægstur var meðalhitinn við Sátu norðan Hofsjökuls, -4,2 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal -3,0 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 13,9 stig á Seyðisfirði þ. 21. Mest frost í mánuðinum mældist -17,0 stig í Möðrudal þ. 12.

Nóvember var mjög þurr og úrkoma var vel undir meðallagi um allt land.

Úrkoma í Reykjavík mældist 44,7 mm sem er um 50% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 25,5 mm sem er um 40% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman í nóvember 24,5 mm og 40,7 mm á Höfn í Hornfirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 7, sex færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 7 daga sem er þremur færri en í meðalári.

Í Reykjavík var jörð var alhvít einn morgun í nóvember, fjórum færri en að meðaltali áranna 1991 til 2020. Á Akureyri varð aldrei alhvítt í nóvember, sem er óvenjulegt, en tveir dagar mánaðarins voru skráðir flekkóttir. Að meðaltali eru 12 alhvítir dagar á Akureyri í nóvember.

Ísingaveður gerði á Austurlandi að kvöldi þ. 6. og aðfaranótt þ. 7. sem olli þónokkrum rafmagnstruflunum í landshlutanum.

Það var sólríkt bæði í Reykavík og á Akureyri í nóvember. Sólskinsstundirnar mældust 69,7 sem er 30 stundum fleiri en að meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 27,6, sem er 12,4 stundum fleiri en að meðallagi áranna 1991 til 2020. Sólskinsstundirnar hafa sjaldan mælst fleiri á Akureyri í nóvembermánuði.

Vindur á landsvísu var 0,7 m/s undir meðallagi. Austlægar áttir voru ríkjandi nánast allan mánuðinn. Hvassast var þ. 5. (norðaustanátt) og dagana 21. til 22. (suðvestanátt).

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1007,4 hPa sem er 6,4 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1036,9 hPa í Bolungarvík þ. 30. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist einnig í Bolungarvík, 969,3 hPa þ. 21.

Styrkjum úthlutað úr Hafsjó af hugmyndum

Hafsjór af hugmyndum úthlutaði á dögunum styrkjum til háskólanema vegna lokaverkefnagerðar. Þetta er í fjórða sinn sem styrkur er veittur og bárust margar spennandi umsóknir.

Fjögur verkefni hlutu styrk að þessu sinni og koma nemarnir frá Háskólasetri Vestfjarða og Háskóla Íslands.

Orla Mallon, nemi við Háskólasetur Vestfjarða, fékk 700.000 króna styrk til að setja upp lítið fiskeldi og gróðurhús þar sem nemar og almenningur getur fylgst með og lært hvernig lífskeðjan virkar.

Alexis Jane Bradley við sama skóla hlaut einnig 700.000 kr. styrk vegna rannsóknar á dreifingu og hugsanlegri nýtingu grjótkrabba sem er tegund sem er að færa sig upp á skaftið í kringum landið.

Fia Finn fékk 600.000 vegna rannsóknar á búsvæðum þorskseiða og verndunar þeirra.

Svavar Konráðsson við Háskóla Íslands hlaut 500.000 kr. vegna þróunar á nýjum sætum sem miða að því að taka högg af sjófarendum á smærri bátum eins og strandveiðibátum.

Að baki Hafsjós af hugmyndum stendur Sjávarútvegsklasi Vestfjarða sem að auki styrknum leggur nemunum til aðstöðu, hráefni og þekkingu hjá fyrirtækjunum. Beinu fjármagni er svo ætlað að framkvæma ítarlegri rannsóknir sem stuðla að nýsköpun og eflingu sjávarútvegs á Vestfjörðum.

Tálknafjörður: stjórnarformaður fasteignafélagsins settur út úr stjórninni

Frá Tálknafirði.

Á fundi sveitarstjórnar Tálknafjarðar á þriðjudaginn var samþykkt tillaga Lilju Magnúsdóttur, oddvita að stjórn Fasteignafélagsins 101 Tálknafjörður ehf verði skipuð þremur fulltrúum í stað fjögurra, þ.e. Lilju Magnúsdóttur, Jenný Láru Magnadóttur og Jóhanni Erni Hreiðarssyni. Núverandi stjórnarformanni Jóni Inga Jónssyni er þar með vikið úr stjórninni. Öll eru þau sveitarstjórnarfulltrúar. Fasteignafélagið er að öllu leyti í eigu Tálknafjarðarhrepps og sér um byggingu, rekstur, eignarhald og útleigu á íbúðarhúsnæði í eigu sveitarfélagsins.

Skipað var í stjórnina að aflokum sveitarstjórnarkosningu 13. september 2022 og þá kosnir fjórir fulltrúar.

Málið var tekið á dagskrá að ósk oddvita Lilju Magnúsdóttur og þrír fulltrúar samþykkti nýja stjórnarkjörið, Jenný Lára, Lilja og Guðlaugur Jónsson. Jóhann Örn sat hjá og Jón Ingi greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Fasteignafélagið leigir eina íbúð félagsins, Túngötu 42, til Ólafs Þórs Ólafssonar, sveitarstjóra og upplýsti Bæjarins besta í síðustu viku að fjárhæð húsaleigunnar væri 68.804 kr. á mánuði verðbætt miðað við byggingarvísitölu sem væri 84.260 kr./mánuði miðað við nýjustu vísitölu.

Í rekstraryfirliti Fasteignafélagsins sundurliðað eftir íbúðum kemur fram að leigutekjur af Túngötu 42 á síðasta ári voru 1.679.434 kr. Það eru verulega umfram tekjur af leigusamningi félagsins við sveitarstjóra, sem hafa verið um 940 þúsund kr. Óskað hefur verið eftir upplýsingum um það hver hafi greitt mismuninn um 740 þúsund krónur.

Í samþykktum Fasteignafélagsins er kveðið á um leigufjárhæð skuli ákvörðuð þannig að hún standi undir afborgun lána og greiðslu kostnaðar við viðhald og rekstur viðkomandi húsnæðis og öðrum rekstrarkostnaði félagsins.

Skemmtiferðaskip: 6 milljarða króna útgjöld farþega skemmtiferðaskipa á landsbyggðinni

Útgjöld farþega skemmtiferðaskipa eru áætluð 19,5 milljarðar króna í ár, þar af hafi þau verið 6 milljarðar króna á landsbyggðinni. Þetta kemur fram í könnun sem rannsóknarmiðstöð ferðamála gerði fyrir Ferðamálastofu í sumar. Könnunin var unnin fyrir Faxaflóahafnir. Könnunin í Reykjavík var framkvæmd á tímabilinu 11. júní til 9. september 2023.

Útgjaldahluti könnunar tók til þess sem farþegar greiða beint í heimsókn sinni. Það er þó ljóst að slík könnun sýnir einungis brot af efnahagslegum áhrifum af komum skemmtiferðaskipa til landsins segir Ferðamálastofa um könnunina.

Alls fengust 857 svör en 277 báðust undan að svara sem gefur svarhlutfall upp á 68%.

Ferðamálastofa áætlar að tekjur innlendra aðila hafi verið um 52 milljarðar króna. Því til viðbótar eru svo skattar og aðrar tekjur opinberra aðila. Þar af séu eigin útgjöld farþeganna 19,5 milljarðar króna.

6 milljarðar á landsbyggðinni

Skipting útgjaldanna er þannig að 2/3 eru í Reykjavík en um þriðjungur eða 6 milljarðar króna á landsbyggðinni. Eins og sjá má er gisting stærsti útgjaldaliðurinn á höfuðborgarsvæðinu 3,4 milljarðar króna, sem skýrist af því að svonefndir skiptifarþegar sem koma og fara fljúgandi en sigla um landið með skemmtiferðaskipunum eru að meðaltali 2,15 gistnætur á landinu og 1,8 milljarður króna er ráðstafað í veitingar.

Stærsti liðurinn í eigin útgjöldum farþeganna er kaup á afþreyingu 5,4 milljarðar króna í Reykjavík og 4,4 milljarðar króna á landsbyggðinni. Munurinn á Reykjavík og landsbyggðinni virðist þvi liggja að mestu í kostnaði við gistingu og kaup á veitingum.

útgjöld á mann þrefalt hærri hjá skiptifarþegum

Þetta sést betur þegar skoðað er niðurbrot á útgjöldunum pr farþega. Fyrir skipafarþegar eru útgjöldin 27.912 kr/mann en fyrir skiptifarþegana eru útgjöldin hartnær þrefalt hærri eða 78.462 kr/mann.

Munurinn liggur einkum í kostnaði við gistingu sem er 30.958 kr fyrir hvern skiptifarþega en enginn hjá skipafarþegunum og svo útgjöld vegna veitinga sem er 11.754 kr./mann hjá skiptifarþegunum en aðeins 1.887 kr./mann hjá skipafarþegunum.

Útgjöld vegna afþreyingar er hærri hjá skipafarþegunum en hjá skiptifarþegunum en ívið lægri til kaupa á minjagripum og verslun.

Af þessu má ætla að landsbyggðin hafi að mörgu leyti staðið sig vel í því að selja sína afþreyingu í samanburði við Reykjavík en eigi nokkur sóknarfæri samt.

Tálknafjörður: 21% halli af rekstri sveitarfélagsins á þessu ári

Tálknafjörður. Ein heimastjórnin er fyrir Tálknafjörð.

Samkvæmt útkomuspá fyrir Tálknafjarðarhrepp verður hallinn á þessu ári rúmar 97 m.kr. Tekjur eru áætlaðar verða 454 m.kr. Hallinn er því 21% af tekjum. Í fyrra varð hallinn 99 m.kr. og tekjurnar urðu þá 458 m.kr. sem gerir nærri 22% hallarekstur.

Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár var afgreidd á fundi sveitarstjórnar á þriðjudaginn. Tekjurnar eru áætlaðar 542 m.kr. og áframhaldandi halli en hann verður 48 m.kr. eða um 9% af tekjum.

Heildarskuldir og skuldbindingar eru taldar verða 687 m.kr. um næstu áramót og þær hækki á næsta ári og verði 764 m.kr. í lok ársins.

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri segir í greinargerð, sem fylgir með fjárhagsáætluninni, að lykiltölur í rekstri Tálknafjarðarhrepps síðustu ár hafi verið með þeim hætti að ekki hefði verið komist hjá því að ráðast í erfiðar aðhaldsaðgerðir og enn frekari hækkun gjaldskráa en nú er gert. „Greiningar í aðdraganda sameiningarkosninga sýndu að nýtt sveitarfélag hefur alla burði til að verða með heilbrigðan rekstur og trausta fjárhagsstöðu og því óþarft að ráðast í sársaukafullar sparnaðaraðgerðir í þessari síðustu fjárhagsáætlun í sögu Tálknafjarðarhrepps.“

framkvæmdir 60 m.kr.

Fyrirhuguð fjárfesting upp á kr. 60 milljónir á árinu 2024 skiptist á þrjá liði:
a) Móatún, endurnýjun götu sem og lagna bæði í vatnsveitu og fráveitu: Kr. 50.000.000.
b) Bætt aðstaða slökkviliðs með því að tilfærslu starfsstöðva í húsi sveitarfélagsins að Strandgötu 48:
kr. 5.000.000.
c) Ýmis smærri verkefni Kr. 5.000.000.

Vegna sameiningar sveitarfélagsins við Vesturbyggð, sem hefur verið samþykkt, var fjárhagsáætlunin lögð fyrir sveitarstjórn Vesturbyggðar, sem samþykkti hana á þriðjudaginn.

Bolungavík: Baldur Smári hættir í bæjarstjórn

Baldur Smári Einarsson.

Baldur Smári Einarsson, bæjarfulltrúi D lista í Bolungavík hefur óskað eftir lausn frá störfum og samþykkti bæjarstjórnin erindi hans á þriðjudaginn með öllum greiddum atkvæðum. Baldur Smári sat sinn fyrsta bæjarstjórnarfund fyrir 20 árum sem varamaður. Þremur árum síðar var hann kjörinn bæjarfulltrúi og hefur því setið í bæjarstjórn samfleytt í rúmlega 17 ár.

Ástæða breytinganna er sú að um áramótin tekur Baldur Smári við starfi fjármálastjóra hjá Arctic Fish segir hann að vegna þess geti hann ekki lengur sinnt störfum í bæjarstjórn af þeim krafti sem hann telur vera nauðsynlegt.

Á þessum tímamótum segir Baldur Smári Einarsson: „Á þessu tímabili er efst í huga mér tilkoma Bolungarvíkurganga sem færði samfélagið okkar í öruggt vegasamband við nágrannabyggðirnar. Þegar íbúatölur er skoðaðar má einnig sjá að það hefur verið stöðug fólksfjölgun í Bolungarvík frá því að göngin voru tekin í notkun. Atvinnulífið í bænum hefur einnig verið í mikilli sókn undanfarin ár, en í mínum huga er sterkt atvinnulíf grundvöllur þess að byggðarlög geti vaxið og dafnað. Einnig er rétt að minna á að íbúabyggðin í Bolungarvík hefur á þessum tíma verið varin fyrir náttúruvá með byggingu snjóflóðavarnargaða í hlíðum Traðarhyrnu. Slíkar framkvæmdir tryggja öryggi byggðar í bæjarfélaginu.“

Um horfurnar framundan er Baldur Smári bjart´synn:

„Í dag er staða Bolungarvíkur sterk, atvinnulífið er öflugt og það ríkir bjartsýni meðal íbúanna. Á sama tíma og nýr og öflugur atvinnuvegur hefur starfsemi í sveitarfélaginu er búið að klára skipulag á nýju hverfi við Hreggnasa þar sem mun byggjast upp vel staðsett íbúabyggð. Framtíð Bolungarvíkur er sannarlega björt, það er uppgangur í atvinnulífinu, tækifærin liggja víða og íbúarnir hafa væntingar um vöxt í samfélaginu.“

Nýjustu fréttir