Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 248

Stofnvísitala botnfiska að haustlagi

Mynd úr haustralli 2023, tekin um borð í Breka. Ljósm. Kristín Valsdóttir

Hafrannsóknastofnun hefur tekið saman helstu niðurstöður stofnmælingar botnfiska að haustlagi en leiðangurinn fór fram dagana 28. september-24. október 2023.

Í ár tóku togararnir Breki VE-61 og Þórunn Sveinsdóttir VE-401 þátt í verkefninu ásamt rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni HF-200

Í skýrslunni er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum og þær bornar saman við fyrri ár. Verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti frá árinu 1996.

Stofnvísitala þorsks í ár sýnir svipaða þróun og í fyrra, þ.e. hækkun eftir töluverða lækkun árin 2018–2021. Yngstu árgangar þorsks (þ.e. árgangar 2021, 2022 og 2023) mældust undir meðalstærð í fjölda. Meðalþyngdir 1–4 ára þorsks mældust undir meðaltali áranna 1996–2023 en eldri árgangar reyndust við eða yfir meðaltali. 

Stofnvísitala ýsu er svipuð og í fyrra sem var með þeim hæstu síðan mælingar hófust. Flestir árgangar ýsu mældust yfir meðalstærð í fjölda en líkt og í þorski var meðalþyngd 1–4 ára ýsu undir meðaltali rannsóknatímabilsins.

Vísitala grálúðu er undir langtímameðaltali en vísbendingar eru um bætta nýliðun.

Vísitala gullkarfa er hærri en undanfarin ár en vísitala djúpkarfa hefur verið svipuð en lág í um tuttugu ár. Nýliðun þessara tveggja stofna hefur hins vegar verið léleg um árabil og eru engar vísbendingar um breytingu þar á.

Vísitala ufsa er undir langtímameðaltali.

Vísitala blálöngu hækkar umtalsvert í mælingunni í ár og vísitala gulllax mælist sú hæsta frá upphafi mælinga.

Vísitölur ýmissa tegunda sýna hækkun í ár og má þar nefna þykkvalúru, steinbít, hlýra, löngu, keilu og kolmunna.

Vísitala lúðu er sú hæsta sem mælst hefur frá 1996.

Vísitölur sandkola, skarkola og hrognkelsis eru með þeim lægstu sem mælst hafa í haustralli.

Vísitölur flestra brjóskfiska og annarra djúpfiskategunda hækkuðu eða stóðu í stað frá fyrra ári.

Mælingar á botnhita sjávar sýndi kólnun á minna en 400 m dýpi fyrir norðvestan og norðaustan en hlýnun fyrir sunnan og vestan.

Mælingar sýndu einnig hlýnun fyrir sunnan á meira en 400 m dýpi en botnhiti á þessu dýpi og öðrum svæðum stóð í stað eða sýndi merki kólnunar.

Enn vantar íbúðir fyrir Grindvíkinga

Leigutorg fyrir íbúa Grindavíkur var opnað um viku síðan en þar geta þau sem sérstaklega vilja styðja við Grindvíkinga boðið eignir sínar til útleigu.

Samkvæmt nýjustu tölum  eru skráðar eignir á leigutorginu eru 162 og þegar hafa 44 leigusamningar farið þar í gegn. Enn vantar þó fjölbreyttari eignir, bæði eftir gerð og staðsetningu, til að allir Grindvíkingar hafi öruggt skjól yfir jól og áramót.

Skortur er á fleiri stærðar- og verðflokkum til að koma til móts við fjölbreytt samfélag Grindavíkur en t.a.m. er talsverður skortur á eignum þar sem gæludýr eru velkomin. Þau sem vilja styðja við Grindvíkinga fram yfir áramót eru hvött til að skrá eignir sínar á leigutorgið.

Átta nýjar starfsstöðvar til eflingar íþróttastarfs

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ við undirritun samnings

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ undirrituðu í dag samning um átta nýjar starfsstöðvar til eflingar íþróttastarfs á landsvísu.

Samningurinn markar tímamót fyrir íþróttir á Íslandi en á grundvelli hans mun íþróttahreyfingin koma á fót átta svæðisskrifstofum með stuðningi stjórnvalda. Svæðisskrifstofurnar munu þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins og ná til tæplega 500 íþrótta- og ungmennafélaga um allt land og allra iðkenda á öllum aldri.

Tillögur um stofnun starfsstöðvanna voru samþykktar á þingi ÍSÍ í vor og á þingi UMFÍ í haust. Auk þess að setja á laggirnar átta svæðisskrifstofur munu ÍSÍ og UMFÍ samkvæmt samningnum koma á Hvatasjóði, þar sem íþróttahéruð/félög/deildir geta sótt um stuðning við verkefni er miða t.d. að útbreiðslu íþrótta og aukinni þátttöku barna.

Mennta- og barnamálaráðuneytið mun veita 400 m.kr. til verkefnisins á næstu tveimur árum. Þar af setja ÍSÍ og UMFÍ 130 m.kr. af árlegu framlagi ráðuneytisins til svæðisskrifstofa og 70 m.kr. til Hvatasjóðs. Á hverri svæðisskrifstofu verða tvö stöðugildi, annað fjármagnað af ráðuneytinu og hitt af íþróttahreyfingunni.

Ísafjörður: seinkun skóladags í frekari skoðun

Grunnskólinn á Ísafirði.

Þar sem áhugi reyndist á því að seinka byrjun skóladags á unglingastigi í Grunnskóla Ísafjarðar verður send út önnur könnun til að fá afmarkaðri niðurstöður og hugmyndir að útfærslum. Út frá þeim niðurstöðum mun fræðslunefnd taka loka ákvörðun. Þetta kemur fram í svari Hafdísar Gunnarsdóttur, sviðsstjóra hjá Ísafjarðarbæ við fyrirspurn Bæjarins besta.

Í október gerði Ísafjarðarbær könnun um vilja til þess að seinkna byrjun skóladags í unglingastigi Grunnskóla Ísafjarðar. Foreldrar, nemendur og kennarar voru innt eftir afstöðu sinni til þess hvort svarandi væri hlynntur því að seinka til reynslu á næsta skólaári byrjun skóladags hjá unglingastiginu og í annarri spurningu voru gefnir tveir kostir um byrjun skóladags , annars vegar kl 8:40 og hins vegar kl 9:40.

Alls bárust 200 svör, 8 frá kennurum, 97 frá foreldrum og 95 frá nemendum.

Niðurstöður voru þær að 45,5% vildu byrja seinna en nú er og 42% vildu það ekki. 12,5% var alveg sama.

Yfrgnæfandi meirihluti svarenda vildu hefja skóladaginn kl 8:40 eða 87,5% og 12,5% vildu seinni tímann.

Sterk og snörp 

Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Það getur verið vandasamt á krefjandi tímum, óvissa bæði hér á landi sem og í alþjóðlegu samhengi.  Að mörgu þarf að huga, bregðast við ríkjandi þörfum en ekki síður að gera ráð fyrir hinu óvænt.  Það ríkir nokkur spenna í hagkerfinu og hefur það verið í nokkurri sveiflu sem birtist í vaxandi verðbólgu. Sumir vilja kalla þá verðbólgu séríslenska líkt og Grýla en við höfum séð að bólgan sú hefur einnig verið vandamál í Evrópu og vestanhafs. Þó ætlar skömmin að vera þrálátari hér á landi og við því verður að bregðast. Við í  Framsókn höfum lagt á það ríka áherslu að skapa jafnvægi í efnahagsstjórn, til að sporna við frekari þenslu svo að vaxtarstig geti hjaðnað á nýju ári.   Þess vegnar tel ég mikilvægt að þessi fjárlög sem við samþykkjum nú fyrir jólin séu hlutlaus fjárlög og ekki þensluhvetjandi.  

Snörp viðbrögð stjórnvalda

Miklar náttúruhamfarir á undanförnum vikum vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga  er hvergi nær lokið. Þá ríkir óvissa  vegna stríðsástands í heiminum sem varðar íslenskt samfélag eins og aðrar þjóðir. Þrátt fyrir að nýafstaðinn COVID faraldur sem hafði gríðarleg áhrif á efnahagsumhverfið er staða ríkissjóðs sterk.  Við getum tekist á við verkefni, sem okkur óraði ekki fyrir í upphafi þessa árs, sem eru flókin en jafnframt áríðandi að leysa með hraði.  Við höfum vissulega ekki stjórn á öllu sem gerist, en höfum að sama skapi val um viðbrögð og aðgerðir, það er mikilvægt að muna þegar við búum í landi þar sem náttúran stjórnar oft för.

Atburðir síðustu þrjú ár á Reykjanesskaga hafa minnt okkur á að Ísland er land elds og ísa, við þekkjum það sem hér búa. Náttúran ríkir og okkar er að læra að lifa við hana, njóta og nýta. Stórir viðburðir eins og snjóflóð, skriðuföll og eldgos eru tíðir og bjóða upp á allskonar áskoranir. Þeir atburðir sem hófust í nóvember hafa valdið því að heilt samfélag þurftu að flýja heimili sín og hefur enn ekki getað snúið aftur. Framhaldið er í óvissu náttúrunnar, þar sem ekki er ljóst hvort eða hvernig framhald verður á hreyfingu landsins.   Stjórnvöld vinna nú að ýmsum mótvægisaðgerðum, finna leiðir til aðstoða íbúa og fyrirtæki á svæðinu, vegna tekjuskerðingar, húsnæðis, skóla og ýmiskonar þjónustu en einnig aðstoðar við það fólk til að takast á við óvissuna og áföllin. Það er erfitt að setja sig í þau spor sem íbúar Grindavíkur eru í núna en mikilsvert að hafa hugfast að áfram er óvissa, það snertir okkur öll. Það er gott að finna þann samhug sem ríkir í samfélaginu, þegar kemur að slíkum náttúruhamförum stöndum við saman.

Eitt stórt heimili

Að reka ríkissjóð er eins og að reka stórt heimili, allir á heimilinu skipta máli og allar ákvarðanir koma við íbúa landsins. Kjarasamningar á vinnumarkaði verða lausir á næstu mánuðum. Ríkið er stærsti atvinnurekandi landsins og þar á eftir eru sveitarfélög, launakostnaður eru einn stærsti útgjaldaliður í þeim rekstri. Nú ríður á að allir taki höndum saman til að bæta lífskjör, ná niður verðbólgu til að skapa aukna hagsæld fyrir alla. Það skiptir máli að ná fram langtímakjarasamningum með hógværum hækkunum, Sveitarfélögin verða því að vera með hófstilltar hækkanir á gjaldsskrám hagsmunir allra er að ná niður vaxtastiginu því þar liggur ávinningurinn. Sveitarfélögin hafa lengi barist fyrir því að varanleg lausn verði fundinn á halla sveitarfélaga á málaflokki fatlaðs fólks. Því ber að fagna að með 5. ma kr. framlagi á þessu ári og 6. ma. framlagi á næsta ári með lækkun tekjuskatts á móti hækkun á útsvari. Áfram er mikilvægt að horfa til breytilegra þarfa,  halda áfram að efla uppbyggingu þjónustunnar  í samtalið allar aðila er málin varða. 

Treystum íslenska matvælaframleiðslu

Hér á Íslandi búum við enn þá við þá sérstöðu að matvælaframleiðsla í hefðbundnum búgreinum er rekin sem fjölskyldubú og því mikið undir. Nýliðar hafa staðið í miklum fjárfestingum í greininni síðustu ár til að bregðast við hagræðingu og nýjum reglugerðum. Við í Framsókn viljum ekki segja staðar numið við þessa aðgerð, heldur er mikilvægt að tryggja rekstrargrunn landbúnaðarins svo það sé raunverulegur kostur fyrir ungt fólk að koma inn í greinina og tryggja neytendum hér á landi heilnæma vöru. 

Það er afar ánægjulegt að í fjáraukalögum fyrir árið 2023 var samþykkt að 2.1 ma. króna framlag til þeirra sem starfa við landbúnað, að tillögu starfshóps  sem skipaður var til að bregðast við erfiðri stöðu bænda. Framsókn hefur lagt ríka áherslu á að mæti breyttu rekstrarumhverfi í landbúnaði og því  ánægjulegt að sjá að hér er verið að bregðast við þessari brýnu þörf.  Þá er vert að nefna hversu mikilvert það er að  finna vitundarvakningu í samfélaginu um að við þurfum að byggja undir íslenska matvælaframleiðslu. Vandi landbúnaðar varðar okkur öll og því þurfa stjórnvöld áfram að byggja undir greinina og hjálpa þannig til við að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. 

Halla Signý Kristjánsóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknar

Gjögur: hrun vitans hefur ekki áhrif á flug

Vitinn fallinn saman. Mynd: Jón G. Guðjónsson.

Gjögurviti féll á föstudaginn samkvæmt því sem Jón G. Guðjónsson í Ávík upplýsti á fréttavefnum Litli Hjalli. Vitinn var reistur 1921 og var því liðlega aldargamall og var um 24 metra hár.

Hörður Guðmundsson flugmaður segir að vitinn hafi verið fyrir sjófarendur og að annar viti, radioviti sé fyrir flugið. Það verði því engin áhrif á flug þótt vitinn hafi fallið saman.

Jón G. Guðjónsson telur að ryð hafi orðið vitanum að falli og yfirmenn hjá Vegagerðinni hafi verið látnir vita af ástandinu en ekki brugðist við.

Gjögurviti 2014. Mynd: Jón Jónsson.

Fasteignafélagið 101 Tálknafjörður

Undirritaður er stjórnarformaður í Fasteignafélaginu 101 Tálknafjörður sem er að fullu í eigu Tálknafjarðarhrepps. Vaninn hefur sá að kjörnir fulltrúar sitji í fimm manna stjórn félagsins og sveitarstjóri hefur verið framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Einungis fjórir gáfu kost á sér eftir síðustu kostningar og voru þeir skipaðir í stjórn og ég þar á meðal.  Aðalfundur félagsins var haldinn þann 27. júní síðastliðinn.  Ársreikningur ársins 2022 var lagður fram til samþykktar. Ég rak augun í það að á tveimur eignum félagsins sem voru seldar, önnur árið 2021 og hin snemma árs 2022, var fært viðhald samtals tæpar 2,8 milljónir króna, Þetta kom fram í rekstraryfirliti sem ég bað um sérstaklega fyrir fundinn. Mér fannst þetta undarlegt og spurði framkvæmdastjóra um þetta og svarið var á þá leið að komið hefðu upp gallar í báðum íbúðum og því hefði söluverðið verið lækkað. Mér fannst þetta skrítin færsla í bókhaldi því auðvitað hefði átt að færa þetta á lækkun söluverðs en mér datt ekki annað í hug en fyrri stjórn hefði tekið þetta mál fyrir og samþykkt þessa lækkun söluverðs og samþykkti ég því ársreikninginn. Þessar sölur voru báðar samþykktar af fyrri stjórn og var söluverð hvorrar íbúðar 40 milljónir króna.

Í haust kemst ég svo að því fyrir tilviljun að fyrrverandi stjórnarformaður félagsins kannaðist hvorki við lækkun söluverðs þessara íbúða né hafði heyrt um neina galla á íbúðunum. Sömu sögu sögðu þeir stjórnarmenn sem ég ræddi við. 

Ég óskaði eftir skýringum framkvæmdastjóra og þegar þau loks bárust, kom það í ljós að hann hafði upp á sitt einsdæmi lækkað söluverð beggja íbúða um þessar tæplega 2,8 milljónir sem síðan var fært sem viðhald í bókhaldi félagsins og menn geta spurt sig hvers vegna þetta hafi verið fært á þennan hátt því að ekkert viðhald átti sér stað.

Ég tel augljóst að með þessum gjörningi hafi Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri brotið samþykktir félagsins enda hafði hann einungis heimild stjórnar til að ganga frá sölu þessara eigna á umsömdu verði.  Stjórn félagsins átti auðvitað að samþykkja þessa lækkun ef hún teldi það rétt. En það má benda á að meintir gallar voru metnir á u.þ.b 3,5% af söluverði eignanna sem er í raun allt of lágt hlutfall til þess að geta talist galli að því að ég best veit. Ég tel að Ólafur framkvæmdastjóri hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart félaginu með þessu og ég stefndi að því að taka það mál fyrir á aukafundi og bera fram tillögu um að Ólafur verði krafinn um að bæta það tjón sem hann olli félaginu og þar með öllum íbúum sveitarfélagsins með þessum gjörningi sínum.

Nú ber svo við að Lilja Magnúsdóttir oddviti flytur tillögu á síðasta fundi sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps þann 12. desember, sem er á þá leið að tilnefna nýja stjórn fyrir félagið þar sem að mér er bolað út. Þessi tillaga var samþykkt með þremur atkvæðum gegn einu og einn fulltrúi sat hjá. Virðist tilgangur hennar vera að þagga niður þetta mál og gera Ólaf ekki ábyrgan gjörða sinna. Þessir þrír fulltrúar virðast því verja þessa ótrúlegu stjórnsýslu Ólafs en ekki hagsmuni íbúa sem þeir eru þó kjörnir til þess að gera.

Auk þess má benda á misræmi sem er í bókhaldi félagsins en færðar leigutekjur á húsnæði það sem sveitarstjóri leigir af félaginu eru mun hærri en leigusamningur hans segir til um sem að kom í ljós nýlega.

Á þessum sama fundi sveitastjórnar voru samþykktar miklar hækkanir á nánast öllum gjaldskrám sem íbúar þurfa að greiða enda stendur sveitarfélagið afar illa sem er kannski ekki að furða á meðan svona vinnubrögð eru viðhöfð.

Jón Ingi Jónsson

Atlantshafslaxinn: Skáldskapur á Bylgjunni og visir.is

Fréttin á visir.is á laugardaginn.

Á laugardaginn var flutt stórfrétt í hádegisfréttum Bylgjunnar og síðan á vefnum visir.is þar sem fullyrt var að íslenski Atlantshafslaxinn væri í stórfelldri útrýmingarhættu.

Fyrir þessu var borin nýr válisti frá alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum, IUCN (International Union for Conservation of Nature). þessi samtök hafa starfað um langt skeið og að því standa fjölmargir aðilar, svo sem ríki og félagasamtök og þau njóta fjárhagslegs stuðnings margar stórfyrirtækja. Í frétt á vef samtakanna í síðustu viku er að finna nánari fréttir af þessu.

Í stuttu máli er Atlantshafslaxinn ekki flokkaður í stórfelldri útrýmingarhættu, né flokkaður í útrýmingarhættu yfirhöfuð og ekkert er að finna um sérstakt mat á íslenska laxinum. Atlantshafslaxinn er ekki heldur flokkaður í viðkvæmri stöðu. Heldur er hann flokkaður sem nálægt því að vera ógnað. Það er stofninum er ekki í ógnað heldur nálægt því. Fréttin er algerlega úr lausu lofti gripin og styðst ekki við upplýsingar frá þessum samtökum.

Sjö flokkar og laxinn í næst besta flokknum

Unnið er eftir ákveðnu flokkunarkerfi til að meta ástand tegunda og eru tegundir , sem á annað borð eru til upplýsingar um og hafa verið metnar, flokkaðar í einn af sjö flokkum. Atlantshafslaxinn var settur í besta flokkinn, sem heitir least concern, sem mætti kannski þýða sem varla áhyggjuefni. Í nýja matinu færist Atlantshafslaxinn í næsta flokk fyrir ofan, near threatened, nærri því ógnað. Það er breyting heldur til þess verra en engu að síður betri staða en í fimm öðrum flokkum, sem eru: viðkvæm staða, í hættu, í verulegri hættu, útdauð í náttúrunni og alútdauð.

Á myndinni að neðan má sjá flokkunarkerfið og hvar Atlantshafslaxinn er settur. Ekki er að finna í þessum gögnum neitt sérstakt mat á íslensku laxastofnunum heldur nær matið til alls Norður Atlantshafsins.

Flokkurinn stórfelld útrýmingarhætta, sem notað er í frétt Bylgjunnar og visir.is heitir critically endangered og eins og sjá má er fjarri því að laxinn flokkist þar.

Flokkunarkerfið er betur sýnt myndrænt á þessari mynd:

Tveir efstu flokkarnir sýna tegundir sem hefur verið útrýmt og svo koma þrír flokkar sem sýna tegundir í hættu. Atlantshafslaxinn er ekki í settur í neinn þeirra heldur er áfram í öðrum af tveimur neðstu flokkunum og er utan hættu á útrýmingu.

minnkandi stofn

Það sem veldur því að Atlantshafslaxinn færist til um flokk, en þó utan hættu flokka, er að stofninn hefur dregist saman um 23% frá 2006 til 2020 samkvæmt nýjustu gögnum. Á flokkunarkerfinu er það að skilja að verði samdráttur 30% eða meiri á 10 ára tímabili eða yfir þrjár kynslóðir laxa færist stofninn yfir í flokkinn viðkvæmur, sem er einn af hættuflokkunum. Þetta virðist vera skýringin á því að laxinn er ekki lengur í neðsta flokknum least concern. En breytingin er ekki það mikil að laxinn sé talinn í hættu.

Síðan er nefnt að útbreiðslusvæðið hafi minnkað og að laxinn finnist í færri ám við Norður Atlantshafið en var fyrir einni öld. Raktar eru ýmsar ástæður fyrir þessu. Fyrst eru nefndar loftslagsbreytingar, stíflur og hindranir í ám fyrir laxinn og mengun einkum frá landbúnaði sem allar valdi meiri afföllum á seiðastigi. Þá sé Kyrrahafslaxinn vaxandi ógn. Loks eru nefndar tvær kunnuglegar ástæður, blöndun við eldislax og laxalús. Um blöndunina segir að hún geti dregið úr hæfni stofnsins til að aðlagast loftlagsbreytingum. Laxalúsin sé áhyggjuefni vegna aukinnar affalla á villtum laxi.

ósannindi

Niðurstaðan er því sú að staða Atlantshafslaxins er áfram utan við hættu eða viðkvæmrar stöðu en að stofninn hafi minnkað. Sjókvíaeldi er ein af tilgreindum skýringum en alls ekki í forgrunni sem áhrifavaldur.

Ekkert hefur fundist á vef UICN sem styður fréttina á Bylgjunni og á visir.is. Fréttamaðurinn og fréttastofan hafa verið beðnar um upplýsingar til staðfestingar á fréttinni en engin svör hafa borist.

Það liggur fyrir ótvírætt að Atlantshafslaxinn er ekki í „stórfelldri útrýmingarhættu“. Það eru ósannindi. Íslenski laxastofninn er ekki metinn sérstaklega heldur er metinn sem hluti af Atlantshafslaxinum. Hann er því ekki heldur „í stórfelldri útrýmingarhættu.“

-k

úr fréttinni á visir.is

Önundarfjörður: ÍS47 ehf fær leyfi til laxeldis

Aldan ÍS47 við bryggju á Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Matvælastofnun hefur fallist á breytingu á rekstrarleyfi sem ÍS47 ehf hefur haft til eldis á regnbogasilungi og þorski í Önundarfirði fyrir 1.000 tonna hámarkslífmassa á eldi. Leyfið var gefið út 8. janúar 2021. Fyrirtækið fær nú leyfi til að ala frjóan lax en leyfi fyrir þorski fellur niður. Hámarkslífmassi og staðsetningar eldissvæða verða óbreytt, en eldisskilyrði breytast í samræmi við tilkomu frjós lax í rekstrarleyfið.

Gildistími rekstrarleyfanna helst óbreyttur og er til 8. janúar 2036.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Matvælastofnun á mast@mast.is.

Frestur til að skila inn athugasemdum er til 12. janúar 2024.

Ísafjörður: nærri helmingur vill seinka byrjun skóladags

Í október gerði Ísafjarðarbær könnun um vilja til þess að seinkna byrjun skóladags í unglingastigi Grunnskóla Ísafjarðar. Foreldrar, nemendur og kennarar voru innt eftir afstöðu sinni til þess hvort svarandi væri hlynntur því að seinka til reynslu á næsta skólaári byrjun skóladags hjá unglingastiginu og í annarri spurningu voru gefnir tveir kostir um byrjun skóladags , annars vegar kl 8:40 og hins vegar kl 9:40.

Alls bárust 200 svör, 8 frá kennurum, 97 frá foreldrum og 95 frá nemendum.

Niðurstöður voru þær að 45,5% vildu byrja seinna en nú er og 42% vildu það ekki. 12,5% var alveg sama.

Yfrgnæfandi meirihluti svarenda vildu hefja skóladaginn kl 8:40 eða 87,5% og 12,5% vildu seinni tímann.

Niðurstöðurnar voru lagðar fram til kynningar á fundi fræðslunefndar í fyrradag.

Nýjustu fréttir