Kílómetragjalds fyrir notkun rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla í flokki fólks- og sendibifreiða verður 6 kr. fyrir rafmagns- og vetnisbíla og 2 kr. fyrir tengiltvinnbílasamkvæmt nýsamþykktum lögum frá Alþingi.
Kílómetragjaldið verður áætlað og greitt með svipuðum hætti og gjöld fyrir þjónustu veitu- og orkufyrirtækja vegna sölu á heitu vatni og rafmagni. Kílómetragjaldið verður greitt mánaðarlega út frá áætlun um fjölda ekinna kílómetra á tímabilinu.
Gjaldtakan verður byggð á akstursáætlun á grundvelli upplýsinga sem eigendur eða umráðamenn bíla skrá inn á Ísland.is, í smáforriti eða á vefsvæði. Einnig verður þó í boði önnur skráningarleið fyrir þá sem ekki geta nýtt sér Ísland.is þar sem heimilt verður að skila upplýsingum og gögnum skriflega til ríkisskattstjóra auk þess sem hægt verður að skrá stöðu akstursmælis hjá faggiltri skoðunarstofu.
Á næstunni munu umráðamenn rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla geta með einföldum hætti skráð kílómetrastöðu bíla sinna á island.is þar sem jafnframt verður að finna greinargóðar upplýsingar um ferlið. Fyrsta skráning á kílómetrastöðu eftir upphaf gjaldtöku skal eiga sér stað fyrir 20. janúar 2024. Fyrsti gjalddagi greiðslna vegna gjaldtímabilsins janúar 2024 verður 1. febrúar 2024 og eindagi 14 dögum síðar.
Stjórn Lyftingasambands Íslands hefur valið lyftingafólk ársins 2023, ennfremur ungmenni ársins í flokki 18-20 ára, 16-17 ára og 15 ára og yngri.
Guðrún Helga Sigurðardóttir (f. 2006) hjá lyftingadeild Vestra er ungmenni ársins í flokknum konur 16-17 ára.
Hún náði bestum árangri kvenna í þessum aldursflokki þegar hún lyfti 137kg í +81kg flokki á Íslandsmeistaramóti unglinga sem gaf henni 144,4 Sinclair stig.
Guðrún Helga keppti einnig á Haustmóti LSÍ og á Norðurlandamóti unglinga þar sem hún varð önnur í +81kg flokki 17 ára og yngri á sínu fyrsta alþjóðlega móti.
Samtals námu útflutningsverðmæti á frystri grásleppu, söltuðum grásleppuhrognum og grásleppukavíar um 1,1 milljarði króna á fyrstu tíu mánuðum ársins og er það um 20% aukning frá síðasta ári.
Landsamband smábátaeigenda hefur tekið saman upplýsinga úr tölum Hagstofu Íslands og þar kemur fram að útflutningsverð á hvert kíló af frosinni grásleppu var á fyrstu tíu mánuðum þessa árs 94% hærra en á sama tímabili í fyrra auk þess sem magn hefur aukist um 45%.
Útflutningsverð grásleppukavíars hækkaði um 21% og útflutningsverð á tímabilinu mars til október var um 105 þúsund kr. fyrir hverja tunnu af grásleppuhrognum.
Alls stunduðu 166 bátar grásleppuveiðar á vertíðinni 2023 og nam afli þeirra 3.797 tonnum sem er um 12% minna en árið 2022.
Veiðileyfi hvers báts takmarkaðist við 45 daga og fjölgaði um 20 milli ára, en um er að ræða lengsta veiðitímabil frá upphafi og stóð frá 20, mars til 31. ágúst. Tímabilið var þó lengra á innanverðum Breiðafirði og hófust veiðar þar að venju 20. maí.
Þrátt fyrir fjölgun veiðidaga og lengingu tímabils tókst ekki að ná þeim 4.411 tonnum sem heimilt var að veiða. Ákvörðun um heildarafla er byggð á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en stofnvísitalan hefur farið lækkandi frá metárinu 2021.
Bylgjan og visir.is hafa leiðrétt frétt sína frá síðasta laugardag þar sem sagði að íslenski Atlantshafslaxinn væri í stórfelldri útrýmingarhættu og segir núna að stofninn sé nærri útrýmingarhættu. Bent var á þessa villu á bb.is í gær. Á þessu tvennu er reginmunur því það að vera nærri útrýmingarhættu þýðir að stofninn er ekki í útrýmingarhættu.
Það er stór munur á því að staðhæfa að laxastofninn sé í stórfelldri útrýmingarhættu og að hann sé ekki í útrýmingarhættu.
Tilefni fréttarinnar var nýr válisti Alþjóðlegu Náttúruverndarsamtakanna, IUCN. Þar segir í almennu mati á stöðu Atlantshafslaxastofnsins að hann sé útbreiddur á norðanverðu Atlantshafi og ekki sé litið svo á að tilvist hans sé ógnað, hins vegar séu ýmislegt sem þrengi að honum og hafi valdið því að stofninn hafi minnkað síðustu 15 árin og þannig færst nær hættuástandi þótt það sé ekki komið að því.
Ísland: undirstofninn á norðanverðu landinu ekki í hættu
IUCN birtir á vefsíðu sinni einnig mat sitt á einstökum undirstofnum Atlantshafslaxins sem taldir eru vera 18. Á Íslandi eru gefnir upp tveir undirstofnar, annar á norðanverðu landinu og hinn sunnanlands. Hér að neðan er kort af fyrri stofninum. Það nær frá Borgarfirði, vestur og norður um land að norðausturhorni landsins. Athyglisvert er að þetta er það svæði sem áhrifa laxeldis í sjókvíum gætir einna mest með sleppningum og laxalús. Matið er unnið í febrúar 2022 og birt í þessum mánuði.
Mat samtakanna á ástandi þessa undirstofns Atlantshafslaxins er það sama og stofnsins í heild – near threatened eða nálægt því að vera í hættu sem þýðir að stofninn er ekki talinn í hættu.
Stofninn er talinn hafa minnkað um 25% á árabilinu 2006-2020 en búsvæði laxins í ánum er talið í góðu ásigkomulagi og ekki hnignandi. Upplýsingar um minnkandi stofn eru byggðar á tölum um stangveiði sem hefur verið mjög sveiflukennd á þessu árabili.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað Lúðvík Þorgeirsson í embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til næstu fimm ára, frá 1. mars 2024. Lögskipuð hæfnisnefnd sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana mat Lúðvík hæfastan umsækjenda til að gegna embættinu.
Lúðvík er viðskiptafræðingur með M.Sc gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og leggur stund á nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands með áherslu á mannauðsstjórnun. Síðastliðin fjögur ár hefur Lúðvík gegnt stöðu rekstrarstjóra hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Áður starfaði hann m.a. hjá Fjármálaeftirlitinu þar sem hann stýrði greiningasviði á einu af þremur kjarnasviðum embættisins. Hann var um tíma framkvæmdastjóri vátrygginga og staðgengill forstjóra hjá European Risk Insurance Company í Englandi. Um árabil var hann forstöðumaður vátrygginga og áhættumats hjá Actavis Group hf. og þar áður forstöðumaður fimmtán útbúa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um allt land.
Í mati hæfnisnefndar er lögð áhersla á fjölþætta og langvarandi reynslu Lúðvíks af rekstri og áætlanagerð. Enn fremur hafi hann langvarandi reynslu á sviði stjórnunar, stefnumótunar og mannauðsstjórnunar og hafi auk þess góða innsýn í stjórnsýslu. Það er mat nefndarinnar að Lúðvík sé góður leiðtogi og vel hæfur til að gegna embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Á Bíldudal var landað 2.538 tonnum af eldislaxi í síðasta mánuði.
Í Patreksfjarðarhöfn komu 676 tonn af bolfiskafla.
Línubáturinn Núpur BA var aflahæstur með 318 tonn í sjö róðrum. Aðrir línubátar voru með 44 tonna afla. Það voru Agnar BA og Sindri BA. Patrekur BA var á dragnótaveiðum og landaði 147 tonnum.
Loks var togarinn Vestri BA á botntrolli og aflaði 148 tonn.
Síðastliðið sumar tók Ingi Björn Guðnason staðarhaldari á Hrafnseyri við höfðinglegri bókagjöf frá fjölskyldu Hallgríms Sveinssonar og Guðrúnar Steinþórsdóttur, fyrrverandi staðarhöldurum og bændum á Hrafnseyri. Ingi Björn segir að þetta hafi ekki verið nein venjuleg bókagjöf því um var að ræða allt upplag bókarinnar Jón Sigurðsson forseti – ævisaga í hnotskurn sem Hallgrímur tók saman og gaf út undir merkjum Vestfirska forlagsins árið 1994, en bókin markaði jafnframt upphafið að útgáfu forlagsins sem Hallgrímur rak allt til æviloka.
Í bókinni er ævi og störf Jóns Sigurðssonar rakin í hnitmiðuðum og aðgengilegum köflum, auk þess sem ýmsum áhugaverðum aukaupplýsingum er komið fyrir í stuttum spássíutextum. Þá prýða bókina fjöldinn allur af ljósmyndum frá ýmsum tímum. Bókin hentar því ýmsum aldurshópum og verður fyrst um sinn nýtt sem gjöf til skólahópa sem koma á Hrafnseyri til að fræðast um sögu staðarins og Jón Sigurðsson.
Fyrsti skólahópurinn sem þáði bókina af gjöf var hópur nemenda á miðstigi grunnskólanna á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri sem tóku þátt í verkefninu Krakkaveldið á Hrafnseyri en verkefnið var hluti af barnamenningarhátíðinni Púkanum sem fram fór um alla Vestfirði í september síðastliðnum.
Fjölskyldu Hallgríms og Guðrúnar var þakkað kærlega fyrir þessa höfðinglegu gjöf og Ingi Björn segist hlakka til að færa hana áfram til ungra gesta staðarins á komandi árum.
Tálknafjarðarhreppur greiddi á síðasta ári um 740 þúsund krónur til Fasteignafélagsins 101 Tálknafjörður ehf vegna Túngötu 42, íbúðar sem leigð er núverandi sveitarstjóra Ólafi Þór Ólafssyni. Jón Ingi Jónsson, stjórnarformaður fasteignafélagsins segist hafa fengið þetta staðfest hjá endurskoðendum sveitarfélagsins, KPMG.
Samkvæmt húsaleigusamningi er húsaleigan 68.804 kr. á mánuði verðbætt miðað við byggingarvísitölu sem er 84.260 kr./mánuði miðað við nýjustu vísitölu. Í samþykktum fasteiganfélagsins segir að leigufjárhæð skuli ákvörðuð þannig að hún standi undir afborgun lána og greiðslu kostnaðar við viðhald og rekstur viðkomandi húsnæðis og öðrum rekstrarkostnaði félagsins.
Leigufjárhæðin hrekkur ekki til og því hefur sveitarfélagið greitt ofangreinda fjárhæð. Í rekstraryfirliti fasteignafélagsins sundurliðað eftir íbúðum kemur fram að leigutekjur af Túngötu 42 á síðasta ári voru 1.679.434 kr. Tekjur af leigusamningi vegna íbúðarinnar hafa verið um 940 þúsund kr.
Úti er kafald. Lítil stúlka situr við gluggann og horfir á snjóflyksurnar svífa niður á jörðina. Hún situr við sama glugga og hún stóð við í haust, reið og útgrátin. Það var þegar pabbi hennar var að fara burt. Hann var að fara til fjarlægra landa vegna sinnar vinnu og kæmi ekki heim fyrr en undir jól. Hún var skapbráð – og brá á loft blómavasa sem stóð í gluggakistunni og ætlaði að láta hann vaða út um rúðuna og helst lenda á pabbanum sem gekk frekar niðurlútur niður stéttina fyrir framan gluggann. Honum fannst ekki gaman að yfirgefa fjölskylduna sína um langa hríð – og síst af öllu prinsessuna sína útgrátna. Hún var nú ekki beinlínis prinsessuleg þá stundina – eeeeeeen hætti við að kasta blómavasanum.
Stúlkan hugsar sitt. Eftir langt haust er nú komið fram í desember. Tíminn hefur liðið hægt en mjakast þó. Það er svosem búið að vera ýmislegt að gera. Krakkarnir í götunni eru duglegir að vera úti að leika sér. Eftir að fór að snjóa og ekki var lengur hægt að vera í boltaleikjum tóku við skíðaferðir, sleðaferðir og að renna sér á skautum. Í gær hafði hún t.d. farið upp í Hvamm á skíði. Það er ekki langt að fara. Rétt upp í hlíðina fyrir ofan húsin í götunni hennar. Þar var hópur af krökkum. Bæði yngri og eldri. Það er svo skrýtið að í hennar hluta götunnar er bara einn jafnaldri hennar – það er hann Kiddi. Hann er ósköp sætur strákur og á útlenda mömmu. Stundum stríða krakkarnir honum á því hvernig hún talar. Það er ekki fallegt – en þau meina voða lítið með því – og þess vegna gætu þau bara látið það alveg vera. Kannski leiðist Kidda að heyra þetta. Mamma hans er bæði falleg og góð kona. Löngu seinna hugsar litla stúlkan hversu erfitt það hljóti að hafa verið að flytja frá útlöndum alla leið vestur á firði. Sennilega var mamma hans Kidda bara algjör hetja.
Það er gaman að vera á skíðum í Hvamminum. Maður nær kannski ekki miklum hraða. Skíðin eru úr tré og með leðurbindingum. Þau hafa þann kost að það er bæði hægt að ganga á þeim og renna sér. Það kemur sér vel þegar þarf að ganga að heiman og upp í Hvamm – og síðan upp brekkuna, aftur og aftur eftir að hafa rennt sér hverja ferðina á fætur annarri. Að lokum er hægt að renna sér alveg heim á tröppur. Þá er maður gjarnan orðinn svangur. Mamma er heima og hún hitar kakó og smyr brauð með eplum. Æ það er nú ósköp gott að koma inn í hlýjuna. Svo bíður skemmtileg bók! Lífið er nú ágætt…
Það snjóar enn. Mannhæðar háir skaflar hafa myndast í garðinum fyrir framan húsið. Gatan er alveg ófær bílum. Ekki það að margir íbúarnir eigi bíl. Á veturnar fara flestir sinna ferða fótgangandi. Bæði börn og fullorðnir. Á sumrin taka margir fram hjól. Bæði börn og fullorðnir. En hvað er þetta? Það er eins og eitthvað hreyfist við garðshliðið…það fer ekki á milli mála … þarna er einhver. Ætli pabbi sé kominn?
Það er ekki hægt að komast inn um aðalinnganginn vegna snjóa. Tvær þústir mjaka sér eftir snjósköflunum í átt að bakinnganginum. Þetta er frekar líkt stórum snjóboltum en fólki. Litla stúlkan þýtur fram á gang um leið og bakdyrnar opnast. Hverjir eru þetta eiginlega? Mamma er komin með kóst og hún burstar snjóinn af gestunum. Þau eru af manni gengin. Búin að berjast í snjónum neðan af bryggju. Þarna reynist vera frændfólk úr næsta þorpi. Þau eru veðurteppt og komast ekki til síns heima. Mamma fer strax að hita kaffi og týna til eitthvað að borða. Frændfólkið er vafið inn í teppi og sest inn í stofu. Þetta eru ung hjón sem voru í jólainnkaupum. Ýmislegt sem þarf að huga að á því heimili – fimm börn þegar fædd – og tvö eiga eftir að bætast við síðar. Strax er farið að athuga hvort síminn er í lagi. Fyrst er hringt í miðstöð – þá er beðið um númerið – og jú það er samband. Þeim léttir við að koma skilaboðum heim um að þau tefjist. Þau þurfa að bíða af sér veðrið.
Litla stúlkan hefur gaman af þessari heimsókn. Þetta er gott og skemmtilegt fólk sem segir líflega frá því hvernig veðrið bara skall á. Þau fengu að geyma pinklana sína í verslun í bænum og tóku svo að ganga áleiðis heim til litlu stúlkunnar. Það hafði víst tekið tímana tvo – en þau komust á leiðarenda og allt var í fínasta lagi.
Á meðan litla stúlkan hlustaði á skrafið í gestunum, mömmu sinni og eldri bróður hugsaði hún um pabba. Hvar ætli hann sé núna. Mikið hefði nú verið gott að hann væri kominn heim þegar veðrið er orðið svona vont.
Upp er runnin Þorláksmessa. Veðrið er enn vont. Ekkert bólar á pabba. Mamma er búin að sauma, baka og þrífa allt hátt og lágt. En það er samt ekki alveg eins og það séu að koma jól – það skyggir á tilhlökkunina að ekkert er vitað um pabba. Litla fjölskyldan í húsinu sem kúrir undir fjallshlíðinni situr og hlustar á bátabylgjuna. Þar er stundum hægt að fá fréttir. Þetta er dálítið skrýtið. Alltaf sagt „skipti“ á milli þegar verið er að tala saman. Stundum – sérsaklega þegar kona í landi og karl á sjó eru að tala saman – er engu líkara en þau séu að tala útlensku. Litla stúlkan kann ekki mikið fyrir sér í svoleiðis tungumáli. Henni finnst þetta barasta undarlegt. Hvað er fullorðna fólkið eiginlega að bulla. Af því að hún er fróðleiksfús – stóri bróðir segir reyndar að hún sé forvitin – þá spyr hún mömmu. „Æ esskan mín þau eru bara að tala um leyndarmál sem þau vilja ekki að allir viti um“. Alltaf batnar það: hvað getur fullorðið fólk eiginlega verið að eiga sem leyndarmál? Krakkar eiga oft leyndarmál – og eru meira að segja stundum í leynifélagi. Litla stúlkan er í leynifélagi sem heitir „Harpan“. Þær eru tvær saman og skrá niður ýmislegt sem þeim finnst grunsamlegt í götunni sinni. Þeim finnst gaman að leika spæjara…einu sinni sáu þær t.d. mann fara inn í hús í götunni og það var ekki maðurinn sem átti heima þar…
Á sama tíma og litla stúlkan situr við útvarpstækið í hlýrri stofunni berjast nokkrir ungir menn fyrir því að halda skipi sínu á réttum kili. Þeir eru að ferja nýtt skip frá Noregi og voru staðráðnir í því að ná heim fyrir jól. Einn er búinn að vera lengi í burtu og hefur ekki séð fjölskylduna í nokkra mánuði. Aðrir eru búnir að vera í burtu í styttri tíma. Yfir þá ganga brotsjóir. Nú reynir á nýja skipið. Það brakar og brestur í öllu þótt þetta sé stálskip. Þeir vinna saman sem einn maður. Pabbi litlu stúlkunnar heldur vélinni gangandi. Mikilvægt er að missa ljósavélina ekki út – þá færi í verra. Allt í einu heyrist mikill hvellur. Enn einn brotsjórinn gengur yfir skipið. Það brotna rúður í stýrishúsinu. Sem betur fer fyllist ekki allt af sjó. Þeir eru staddir út af norðaustur horni landsins. Hvað er til ráða? Ákveðið er að reyna að ná landi – ekkert vit í því að reyna að halda förinni áfram.
Nyrst úti við Ballarhaf kúrir lítið þorp í skjóli góðrar hafnar. Pabbi hefur stundum sagt litlu stúlkunni að sjómenn séu ekkert sérstaklega hrifnir af að landa þarna – en nú skiptir mestu að ná landi. Þeim tekst það og skipið kemst í var við fallegan klett sem ver höfnina. Þótt karlarnir séu ekki ánægðir með að komast ekki heim fyrir jól þá gleðjast þeir yfir því að vera komnir í var fyrir aftakaveðri. Strax og þeir leggja að bryggju er komið heimafólk til að taka á móti spottanum. Það er Þorláksmessukvöld og ró og friður er yfir fannhvítu þorpinu. Nei – hver kemur þarna? Svei mér ef það er ekki bara kominn jólasveinn um borð. Hann kemur færandi hendi með heimabakkelsi og annað góðgæti. Alltaf skal það vera þannig að það er til fólk sem vill rétta hjálparhönd. Karlarnir fara að hvíla sig eftir erfiðan dag – einn er þó á vakt. Sá sem byrjar vaktina er pabbi litlu stúlkunnar. Hann hugsar heim. Veit að það er búið að koma skilaboðum áleiðis um að allt sé í lagi – en hugurinn er hjá fjölskyldunni.
Á hinu horni landsins vakna spenntir krakkar á aðfangadagsmorgni. Þau settu skóinn út í glugga í gær eftir að fréttist af pabba á öruggum stað. Litla stúlkan er snögg að kíkja í skóinn sinn. Hún fær bæði súkkulaðimola og lítið lamb. Lambið er mjúkt viðkomu og hún strýkur því um leið og hún stingur upp í sig súkkulaðimolanum. Brátt vakna aðrir í fjölskyldunni líka og við tekur undirbúningur fyrir hátíðlegasta kvöld ársins. Litla stúlkan vill endilega fara út að leika sér aðeins til þess að láta tímann líða hraðar. Veðrið hefur batnað. Það er fannhvítt yfir öllu og jólaljósin speglast bæði í snjónum og hafinu. Bátar sem eru við bryggju hafa verið skreyttir með ljósum. Dagurinn silast áfram en loks er kominn tími til að baða sig og fara í sparifötin. Litla stúlkan fer í fallegan ljósbláan blúndukjól sem mamma saumaði – hvíta sportsokka við og lakkskó. Henni finnst hún voða fín. Æ síðan hefur hún verið spennt fyrir lakkskóm…Stóri bróðir fer í jakkaföt og setur upp bindi. Mamma er líka voða fín í fallegum kjól. Á meðan hún stússast í matnum fer hún í slopp yfir. Seinna kemur í ljós að svona sloppar hljóta mikla athygli – og eru kallaðir „Hagkaupssloppar“ – þeir þykja víst ekki sérstaklega fínir og menn hneykslast á því að merkilegar frúr skuli ganga í þvílíku klæði. Þegar þögnin heyrist í útvarpinu og síðan hljómfagrar kirkjuklukkurnar er sest að borðum. Maturinn er góður eins og alltaf hjá mömmu. Það er lambahryggur með brúnuðum kartöflum og „smössuðum“ baunum. Nammi, namm og í eftirmat mega allir velja sér það sem þeim finnst best. Litla stúlkan velur heimagerðan ís, stóri bróðir velur „fromasíu“ með perum og mamma velur „triffle“. Litli bróðir er svo lítill að hann má bara fá smá smakk af ís. Það vantar sárlega einn við borðið. Eftir matinn setjast þau við litla jólatréð og taka upp jólapakka. Litla stúlkan er ánægð með það sem hún fær. Tvær bækur og ný skólataska. Hún hlakkar strax til að komast í rúmið og byrja að lesa…Í þetta skipti sleppir fjölskyldan því að fara til ömmu og afa á aðfangadagskvöld. Mamma getur ekki farið labbandi með þau öll. Litla stúlkan saknar þess og ekki síður að koma við hjá frænku og frænda á „uppeftirleiðinni“ og fá heimsins bestu lagköku sem frændi hennar hefur bakað. Henni dettur stundum í hug seinna að það hafi sennilega ekki allir vanist því eins og hún að karlmenn gengju í ýmis heimilisstörf – margir karlmenn í hennar fjölskyldu voru sennilega fæddir jafnréttissinnar og þótti ekki tiltökumál að ganga í hvaða störf sem var.
Eins og venjulega vaknar litla stúlkan snemma þótt það sé jóladagur. Ekki er pabbi kominn ennþá. Hver á þá eiginlega að færa henni í rúmið? Pabbi er vanur að gera það á jóladagsmorgunn. Það heyrist eitthvað þrusk úr eldhúsinu. Auðvitað ætlar mamma að hlaupa í skarðið fyrir pabba eins og hún hefur svo oft þurft að gera. Hún birtist í gættinni með rjúkandi heitt súkkulaði með rjóma og fullan disk af lagkökum og smákökum. Þetta er eini morguninn á árinu sem byrjar með kökuáti! Henni finnst þetta gott…og fer að lesa.
Svona líður tíminn. Fólk kemur í heimsókn, án þess að um formlegt jólaboð sé að ræða. Það spjallar saman og spyr frétta – svo er líka spilað.
Loksins á annan dag jóla siglir fánum prýtt stálskip inn fallegan fjörðinn. Pabbi er að koma heim!
Það verða fagnaðarfundir. Pabbi kemur með ýmislegt fallegt í farteskinu. Nýja úlpu handa litlu stúlkunni með ekta fínu skinni – fullt af útlensku nammi sem hún má alveg borða eins mikið af og hún getur í sig látið … og margt, margt fleira. Nú eru jólin loksins komin.
Seinna þegar hún heyrir auglýsingar um að jólin byrji í IKEA þá verður henni stundum hugsað til þessara jóla – sem byrjuðu … þegar pabbi var kominn heim.
Dróttkvæðin voru einkum flutt við hirðir konunga og annarra höfðingja til forna. Orðið drótt merkir hirð og af því orði er nafn þessarar kveðskapargreinar fengið.
Dróttkvæðin koma fram á tíundu öld og bragarhátturinn, dróttkvæður háttur, varð snemma tilkomumikill og bundinn innrími og strangri stuðlasetningu.
Trúlega hefur þessi hljómmikli og flókni háttur þótt hæfa við konungshirðir. Íslendingar létu óvenju mikið að sér kveða sem skáld á þessum vettvangi og þágu laun fyrir kvæði sín.
Ekkert safnrit með úrvali úr þessum kveðskap hefur verið til um býsna langt skeið þar sem almennum lesendum er greið leið að þeim fjársjóði máls og orðkynngi sem við vissulega eigum fólginn í þessum 12000 ljóðlínum sem kvæðin spanna.
Hér er þess freistað með allrækilegum skýringum og fræðslu um tilefni hverrar vísu að færa þetta efni nær almenningi.