Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 246

Endurbætur á björgunarrými varðskipsins Þórs

Á vefsíðu Landhelgisgæslunnar er sagt frá því að undanfarið hafi verið unnið að endurbótum á björgunarrými varðskipsins Þórs.

Aðstaðan hefur verið aðlöguð að nútímanum og eftir breytingarnar er vinnuaðstaða til fyrirmyndar.

Áhöfn skipsins hefur annast endurbæturnar. Starfsfólki er umhugað um þau tæki og tól sem þar eru til umráða og á meðfylgjandi myndum má glögglega sjá að allt er gert til að þau verði ekki fyrir hnjaski.

Við endurbæturnar var þess sérstaklega gætt að þessi mikilvægi búnaður yrði eins aðgengilegur og kostur er og vel færi um hann.

Ljósmyndir: Sævar Már Magnússon

Droni-4Dróninn á sínum stað.

Droni-6Gísli Freyr Njálsson, háseti, mundar drónann.

Droni-1Aðstaða drónans er vel merkt.

Droni-5Þess er gætt að þessi mikilvægi búnaður verði ekki fyrir hnjaski.

Nýr slökkvi­bíll til sýnis á Bíldudal

Vesturbyggð hefur fest kaup á nýjum og mjög svo glæsilegum slökkvibíl.

Bíllinn verður staðsettur á Bíldudal í nýju slökkvistöðinni á Strandgötu.

Íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum gefst tæki­færi á að skoða þennan nýjan slökkvibíl miðviku­daginn 20. desember á milli kl. 16:30 og 18:00.

 

Jólamaturinn hækkar mikið á milli ára

Mynd Hagstofunnar sýnir verulega hækkun frá desember í fyrra til nóvember í ár.

Þetta er sama niðurstaða og í verðkönnun ASÍ sem framkvæmd var nú i desember.

Verð á jólamat hækkaði um 6-17% milli ára, samkvæmt verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ .

Verðum var safnað þann 13 desember árið 2023 og þau borin saman við verð í sambærilegri könnun sem framkvæmd var fyrir ári, 13. desember 2022. Vísitala matvöruverðs hækkaði um 11% á sama tímabili.

Minnst hækkaði verð í Heimkaupum, að meðaltali um 6%. Þar af hækkaði verð á brauði og kökum um aðeins 2% en verð á drykkjarvöru um 16%.

Í Nettó, Krónunni, Kjörbúðinni og Bónus hækkaði verð að meðaltali um 7-9%. Mest hækkaði verð í Iceland, að meðaltali 17%, Hagkaupum (15%) og Fjarðarkaupum (13%).

Drykkjarvörur í Iceland voru sá flokkur sem mest hækkaði í verði, eða um 48%. Mismargar vörur voru í samanburðinum í hverri verslun, flestar í Fjarðarkaup, 83 og fæstar í Kjörbúðinni, 38.

Að meðaltali hækkaði verð á drykkjarvörum mest eða á bilinu 10-48% milli ára. Verð á konfekti hækkaði að meðaltali næst mest; mest í Iceland, 29% og um 24% í Hagkaup en minnst í Heimkaupum, 9%.

Nánar má lesa um könnunina á heimasíðu ASÍ

Útsvar hækkar í 14,97%

Samkomulagið undirritað í Ráðherrabústaðnum í síðustu viku.

Sveitarfélög landsins afgreiða nú fyrir áramót hækkun útsvars úr hámarki 14,74% í 14,97% eða um 0,23%. Skattar hækka ekki á útsvarsgreiðendur þar sem ríkið lækkar tekjuskatt um sömu tölu 0,23%. Um er í raun að ræða tilfærslu á skatttekjum frá ríki til sveitarfélaga. Hækkunin nemur um sex milljörðum króna miðað við árið 2024. Þessu breyting kemur í kjölfar samkomulags frá í desember 2022 en þá fluttust 5,7 milljarðar króna frá ríki til sveitarfélaga. Heildarhækkun tekna sveitarfélaga er því tæplega 12 milljarðar króna og er tilkomin vegna þjónustu þeirra við fatlaða.

Í tilkynningu um breytinguna á vef stjórnarráðsins segir að frá því að yfirfærsla á þjónustu við fatlað fólk átti sér stað frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 hafi orðið mikil framþróun í málefnum fatlaðs fólks, ásamt því að gerðar hafa verið lagabreytingar um aukna þjónustu. Ríkið hefur komið til móts við sveitarfélögin með aukinni fjármögnun en sveitarfélögin hafa engu að síður staðið frammi fyrir útgjaldaaukningu í málaflokknum. Núverandi samkomulagi er ætlað að koma til móts við það.

Hækkun útsvarsins mun renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og verða hluti af framlögum sjóðsins sem veitt eru til sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks.

Útsvarshækkunin er á dagskrá bæjarstjónar Ísafjarðarbæjar á morgun.

Ísafjarðarbær: tvær nefndir sameinaðar

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. mynd: isafjordur.is

Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar á morgun verður til afgreiðslu tillaga um að sameina tvær nefndir, fræðslunefnd annars vegar og hins vegar íþrótta- og tómstundanefnd. Einnig liggur fyrir tillaga um það hverjir verða kosnir í hina sameinuðu nefnd.

Forseti bæjarstjórnar leggur til að þessi verði kosin:

Finney Rakel Árnadóttir, Í-listi, formaður,
Hrafnhildur Hrönn Óðinsdóttir, Í-listi, varaformaður,
Þórir Guðmundsson, Í-listi, aðalfulltrúi,
Eyþór Bjarnason, D-listi, aðalfulltrúi,
Elísabet Samúelsdóttir, B-listi, aðalfulltrúi,

Magnús Einar Magnússon, Í-listi, varafulltrúi,
Jónína Eyja Þórðardóttir, Í-listi, varafulltrúi,
Wojciech Wielgosz, Í-listi, varafulltrúi,
Þóra Marý Arnórsdóttir, D-listi, varafulltrúi,
Halldór Karl Valsson, B-listi, varafulltrúi.

starfshópur um leikskóla

Einnig er á dagskrá að kjósa í starfshóp um málefni leikskóla. Þar er tillaga forseta bæjarstjórnar þessi:

Finney Rakel Árnadóttir, fulltrúi úr fræðslunefnd,
Nanný Arna Guðmundsdóttir, fulltrúi úr fræðslunefnd,
Helga Björk Jóhannsdóttir, leikskólastjórnandi,
Hildur Sólmundsdóttir, leikskólakennari,
Sigríður Brynja Friðriksdóttir, fulltrúi ófaglærðra starfsmanna.

Ísafjarðarhöfn: 1.178 tonnum landað í nóvember

Páll Pálsson ÍS í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Sturla Páll Sturluson.

Alls var landað 1.178 tonnum í Ísafjarðarhöfn í síðasta mánuði.

Norska skipið Silver Bird landaði 706 tonnum af rækju til vinnslu í Kampa.

Tveir togarar lönduðu 473 tonnum af botnfiski og afurðum. Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS landaði 186 tonnum af fiskafurðum og ísfisktogarinn Páll Pálsson ÍS var með 287 tonn í fjórum veiðiferðum.

Byggðastofnun: meðaltekjur 2022 á Vestfjörðum 8 m.kr.

Meðalárstekjur á hvern tekjuþega á Vestfjörðum á síðasta ári voru liðlega 8 m.kr. eða nákvæmlega 8.099.000 kr. Langstærstur hlutinn eru atvinnutekjur eða um 73%, síðan lífeyristekjur 10%, fjármagstekjur voru 8% og aðstoð sveitarfélaga 8%.

Langhæstar voru tekjurnar á höfuðborgarsvæðinu 8,8 m.kr. á hvern tekjuþega. Lægstar voru tekjurnar á Norðurlandi vestra, aðeins 7,4 m.kr. Reyndar var það langt á milli höfuðborgarsvæðisins og annarra landssvæða að öll önnur svæði voru með lægri meðaltekjur en landsmeðaltali sem var 8,5 m.kr.

Þessar upplýsingar má finna á mælaborði Byggðastofnunar. Þar eru einnig upplýsingar um tekjur eftir sveitarfélögum. Á Vestfjörðum er Tálknafjörður með hæstu meðaltekjurnar 8.514 þús kr. Næst kemur Bolungavík með 8.345 þús kr. Ísafjarðarbær er í þriðja sæti með 8.213 þús kr. Vesturbyggð næst með 8.188 þús kr. Í fimmtasæti er Kaldrananeshreppur með 7.938 þús kr. meðaltekjur, þá Strandabyggð 7.511 þús kr., Súðavík 7.199 þús kr., Árneshreppur 6.733 þús kr. og lægstar voru meðaltekjurnar í fyrra í Reykhólahreppi 6.705 þús kr.

Á landinu öllu voru langhæstu meðaltekjurnar í Grindavík 14,9 m.kr. Það skýrist einkum af mjög háum fjármagnstekjum sem voru 7,2 m.kr. að meðaltali á hvern tekjuþega. Í næstu sætum voru Seltjarnarnes, garðabær og Snæfellsbær með um 11 m.kr.

Ísafjörður: mikil eftirspurn eftir nýjum íbúðum á Eyrinni

Vestfirskir verktakar ehf og Skeið ehf hafa kynnt fyrir bæjaryfirvöldum áform um byggingu á 9 íbúðum í þriggja hæða húsi á lóðinni Sindragötu 4a. Stærð íbúðanna verður frá 90 – 100 fermetrar og tvö svefnherbergi í hverri. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við bygginguna snemma næsta vor og er áætlaður byggingatími 15 mánuðir.

Í byggingarlýsingu segir:

Gengið er inn í húsið í anddyri og þaðan inn á stigagang þar sem einnig er lyfta. Á hverri hæð verða þrjár íbúðir, aðgengilegar frá miðlægum stigagangi eða lyftu. Sameiginlegar svalir verða yfir anddyri, klæddar óbrennanlegu efni. Í kjallara verða geymslur fyrir hverja íbúð, tæknirými/inntaksklefi ásamt sorpgeymslu, aðgengileg utanfrá. Tæknirými hefur einnig sérinngang að utan. Í kjallara verða 5 bílastæði, þar af eitt með hjólastólaaðgengi. Loftræstikerfi er í öllu húsinu.

Óska eftir fleiri lóðum fyrir fjölbýlishús

„Skemmst er frá því að segja að við höfum fundið fyrir miklum áhuga vegna verkefnisins og ljóst er að eftirspurnin er mikil og íbúðirnar verða auðseljanlegar. Í ljósi þessarar miklu eftirspurnar er það eindregin ósk okkar að bæjaryfirvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að hægt verði að afhenda fleiri fjölbýlishúsalóðir sem fyrst till þess að hægt verði að byggja fleiri fjölbýlishús á eyrinni á Ísafirði.“

Hafbraut tekur til starfa í Menntaskólanum á Ísafirði

Í undirbúningi er stofnun námsbrautar við Menntaskólann á Ísafirði sem hefur hlotið nafnið hafbraut.

Í janúar á þessu ári undirritaði Menntaskólinn á Ísafirði samstarfssamning við fiskeldisfyrirtækin Arctic Fish, Arnarlax og Háafell, auk Vestfjarðastofu, um nám sem kenndi grunnþætti starfa sem tengjast fiskeldi.

Búið er að skoða ýmsar útfærslur sem gætu hentað þessari námsbraut sem vonast er til að geti tekið til starfa næsta haust.

Áætlað er að lögð verði áhersla á að nemendur hljóti undirbúning fyrir sérhæfð störf í fiskeldi og haftengdum greinum, jafnframt því sem þeir fái þjálfun í fjölbreyttum störfum í fiskeldisfyrirtækjum og sjávarútvegi.

Brautinni lýkur með framhaldsskólaprófi á 2. þrepi en er einnig ætlað að verða góður grunnur fyrir áframhaldandi nám á stúdentsbraut og hentar vel fyrir þá sem stefna að starfi eða frekara námi í fiskeldi eða tengdum atvinnugreinum.

Rafbílar borga kílómetragjald frá næstu áramótum

 Kílómetragjalds fyrir notkun rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla í flokki fólks- og sendibifreiða verður 6 kr. fyrir rafmagns- og vetnisbíla og 2 kr. fyrir tengiltvinnbílasamkvæmt nýsamþykktum lögum frá Alþingi.

Kílómetragjaldið verður áætlað og greitt með svipuðum hætti og gjöld fyrir þjónustu veitu- og orkufyrirtækja vegna sölu á heitu vatni og rafmagni. Kílómetragjaldið verður greitt mánaðarlega út frá áætlun um fjölda ekinna kílómetra á tímabilinu.

Gjaldtakan verður byggð á akstursáætlun á grundvelli upplýsinga sem eigendur eða umráðamenn bíla skrá inn á Ísland.is, í smáforriti eða á vefsvæði. Einnig verður þó í boði önnur skráningarleið fyrir þá sem ekki geta nýtt sér Ísland.is þar sem heimilt verður að skila upplýsingum og gögnum skriflega til ríkisskattstjóra auk þess sem hægt verður að skrá stöðu akstursmælis hjá faggiltri skoðunarstofu.

Á næstunni munu umráðamenn rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla geta með einföldum hætti skráð kílómetrastöðu bíla sinna á island.is þar sem jafnframt verður að finna greinargóðar upplýsingar um ferlið. Fyrsta skráning á kílómetrastöðu eftir upphaf gjaldtöku skal eiga sér stað fyrir 20. janúar 2024. Fyrsti gjalddagi greiðslna vegna gjaldtímabilsins janúar 2024 verður 1. febrúar 2024 og eindagi 14 dögum síðar.

Nýjustu fréttir