Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 245

Ný stofnun – Rannsóknastofnun lífeyrismála

Ný rannsóknastofnun lífeyrismála tekur til starfa í ársbyrjun 2024 en samningur um þetta var undirritaður í gær.

Um er að ræða samstarfsvettvang starfandi fræðimanna á sviði lífeyrismála hjá Háskóla Íslands, Seðlabanka Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og öðrum stofnunum eftir atvikum.

Markmiðið er að efla rannsóknir og auka skilning á lífeyrismálum, efna til samstarfs við erlenda fræðimenn, afla upplýsinga og hugmynda um skipan lífeyrismála erlendis og benda á mögulegar lausnir og úrbætur til að bregðast við áskorunum sem lífeyrissjóðir á Íslandi standa frammi fyrir.

Undir samning um stofnunina skrifuðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Jón Ólafur Halldórsson, stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Meðal verkefna verður að halda úti upplýsingavef, skipuleggja vinnustofur fræðimanna til að bera saman bækur sínar og kynna rannsóknir sínar á sviði lífeyrismála, skipuleggja árlega ráðstefnu til að kynna rannsóknaniðurstöður og koma árlega að því að styðja við einn doktorsnema og einn starfsmann til að vinna að rannsóknum er nýst geti íslenska lífeyriskerfinu.

Rannsóknastofnun lífeyrismála verður hýst í Háskóla Íslands og HÍ ber jafnframt ábyrgð á á skuldbindingum hennar.

Héraðssamband Vestfirðinga og  Ísafjarðarbær undirrita samstarfssamning til 3 ára

Nýr samningur milli HSV og Ísafjarðarbæjar hefur verið undirritaður.

Stjórn HSV ásamt Ísafjarðarbæ hefur unnið að nýjum samning í góðri samvinnu og breytingar kynntar vel fyrir aðildarfélögum HSV. Á formannafundi þann 13. nóvember sl. voru drög að samningi samþykkt og fól fundurinn stjórn HSV að vinna málið áfram og ganga frá undirskrift á nýjum samningi.

Samningurinn felur í sér nokkrar breytingar:

Staða framkvæmdastjóra HSV mun færast til Ísafjarðarbæjar og rekstrarstyrkur Ísafjarðarbæjar til HSV minnkar sem samsvarar launagreiðslum og rekstri skrifstofu HSV.
Starfið verður auglýst skv. reglum Ísafjarðarbæjar og mun starfsmaðurinn sinna mörgum verkefnum sem HSV var með áður skv. samningi við Ísafjarðarbæ.

Íþróttaskóli HSV færist yfir til Ísafjarðarbæjar ásamt stöðu yfirþjálfara. Nýr starfsmaður á skóla- og tómstundasviði mun hafa umsjón með skólanum ásamt yfirþjálfara.

Ísafjarðarbær hefur lagt til íbúðarstyrk í formi afnota af fimm íbúðum Fasteigna Ísafjarðarbæjar. Þær eru nú aðeins úthlutaðar til 1. september 2024 þar sem Ísafjarðarbær hyggst selja íbúðirnar. Þetta ákvæði verður endurskoðað ef seinkun verður á sölu íbúðanna.

Við undirritun samnings greindi bæjarstjóri frá því að fullur vilji væri til að reyna allt hvað þau geta til að koma til móts við skerðingu íbúðastyrks.

Markmið með þessum breytingum er meðal annars að viðhalda öflugu íþróttastarfi í á svæðinu og að auka skilvirkni samskipta íþróttahreyfingar við Ísafjarðarbæ. Ísafjarðarbær og HSV munu áfram vera í góðu samstarfi og vinna að uppbyggingu íþrótta á svæðinu.

Borað á Gálmaströnd

Orkubúið er nú hefur að bora eftir heitu vatni á Gálmaströnd við Steingrímsfjörð.

Á síðasta ári veitti innviðaráðherra 17 m.kr. styrk til jarðhitarannsókna á Gálmaströnd vegna sértækra aðgerðar. Í henni felast styrkir til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.

Nú er búið að bora niður á 400 metra dýpi. Á um 380 metra dýpi fannst 25 gráðu heitt vatn og lofar framhaldið góðu um að heitara vatn finnist þegar neðar dregur. Verklok eru áætluð um mánaðamótin janúar-febrúar.

Sigurður Líndal Þórisson verkefnastjóri Sterkra Stranda er afar ánægður með þetta mikla framframaskref og segir að þátttaka svæðisins í brothættum byggðum hafi mikið að segja:

„Án Sterkra Stranda má fullyrða að ekkert hefði orðið af þessu verkefni, en þetta verkefni hefur alla burði til að verða eitt stærsta framfaraskref í innviðauppbyggingu á Ströndum í mörg ár.“

Verkalýðsfélagið Skjöldur á Flateyri 90 ára

Í dag – 21. desember 2023 – eru 90 ár liðin frá stofnun Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri. Félagið var stofnað á 50 manna fundi í -gamla barnaskólanum- þann 21. desember 1933. Verkalýðsfélagið Skjöldur hélt glæsilega upp á 50 ára afmæli félagsins þann 8. október 1983.

Í framhaldi þess var gefið út veglegt afmælisrit með 50 ára sögu félagsins. Hjörtur Hjálmarsson og Björn Ingi Bjarnason höfðu veg og vanda af þeirri útgáfu. Í afmælisritinu var m.a. stjórnarmannatal félagsins þessi 50 ár með myndum. Þegar Skjöldur varð 70 ára var tekið saman stjórnarmannatal til 2002 og birt í Ársriti Önfirðingafélagsins í Reykjavík allt stjórnarmannatalið 1933 – 2002. Verkalýðsfélagið Skjöldur varð félagsaðili að Verkalýðsfélagi Vestfirðingar árið 2002.

Formenn Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri 1933 – 2002 :

Friðrik Hafberg 1933 – 1934, 1939 -1958

Jón Magnússon 1935

Halldór Vigfússon 1936 – 1938

Hermann Björn Kristjánsson 1959

Einar J. Hafberg 1960 – 1963

Kristján Vigfús Jóhannesson 1963 – 1967, 1968 – 1970

Benedikt Vagn Gunnarsson 1967 – 1968

Guðvarður Kjartansson 1970 -1971

HendrikTausen 1971 – 1980

Björn E. Hafberg 1980 – 1981

Björn Ingi Bjarnason 1981 – 1984

Gunnar Valdimarsson 1985 – 1987

Jón Guðjónsson 1987 -1989

Sigurður Þorsteinsson 1989 – 1995

Guðmundur Jón Sigurðsson 1996 – 1997

Ágústa Guðmundsdóttir 1997 – 2002

Noregur: enginn eldislax í Altaánni á þessu ári

Norski vefurinn kyst.no greindi frá því á þriðjudaginn að enginn eldislax hafi fundist í ár í laxveiðiánni Alta í Finnmörku, sem Norðmenn segja bestu laxveiðiá í heimi. Á síðasta ári veiddust þar nærri 3.000 laxar.

Síðasta áratuginn hafa veiðiréttareigendur og eldisfyrirtæki unnið að því í samvinnu við norsku náttúrurannsóknarstofnunina; NINA, að vinna gegn því að eldisfiskur sleppi upp í Alta ána og aðra á Repparfjordelva. Árangur hefur verið góður. Aðeins tveir eldislaxar hafa fundist í Alta ánni á síðustu sex árum eru niðurstöður úr hreistursýnum af 3.200 fiskum. Enginn eldislax í ár í Alta og aðeins 0,2% í Repparfjordaelva.

Blöndun milli eldislax og villts lax hefur verið í mörgum norskum ám, enda voru eldiskvíar, einkum í upphafi laxeldisins, oft nálægt árósum. Ástandið hefur batnað að þessu leyti á síðustu árum og segir í fréttinni að í Alta ánni hafi dregið verulega úr blönduninni.

Sameining sveitarfélaga: kosning verði 4. maí 2024

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur samþykkt að sveitarstjórnarkosningar verði í nýju sameinuðu sveitarfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðar þann 4. maí 2024. Er það að tillögu undirbúningsstjórnar um sameiningu sveitarfélaganna.

Tillagan þarf samþykki beggja sveitarstjórna í Vesturbyggð og Tálknafirði.

Undirbúningsstjórn hefur hafið störf en ekki liggur fyrir að svo stöddu hvenær sameiningin verður, né hve margir verða í nýju sveitarstjórninni.

Slysaslepping í Kvígindisdal: lögreglurannsókn hætt

Lögreglan á Vestfjörðum hefur hætt rannsókn á slysasleppingum úr kví í Kvígindisdal í Patreksfirði sem varð í ágúst sl. Ástæðan er sú að ekki er talinn grundvöllur til að halda henni áfram, þar sem talið var að gögn málsins bæru ekki með sér að umbúnaður við kvína hafi verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis sakbornings og sakir séu miklar, í skilningi 22. gr. sömu laga, eins og áskilið er.

Rannsókn hófst með kæru Matvælastofnunar dags. 13. september 2023. Var framkvæmdastjóra rekstrarleyfishafans gefinn réttarstaða sakbornings. Með bréfi lögreglustjóra 19. desember var rannsókn hætt.

Mast hafnaði kröfu um stöðvun laxeldis Arctic Fish í Tálknafirði og Patreksfirði

Frá laxeldi í Patreksfirði.
Frá laxeldi í Patreksfirði.

Samtökin Laxinn lifi kröfðust þess formlega með bréfi dags 27. okt. til Matvælastofnunar að stofnunin myndi stöðva tafarlaust rekstur fiskeldis Arctic Fish í Tálknafirði og Patreksfirði þar sem rekstrarleyfið hefði runnið úr gildi 27. ágúst 2023. Vísað var til ákvæða laga um fiskeldi þar sem segir  ef fiskeldisstöð er rekin án þess að rekstrarleyfi  sé í gildi skuli Matvælastofnun stöðva starfsemina.

Matvælastofnun hafnaði kröfunni þann 20. nóvember og sagði ekki rétt eins og mál standa að málefnaleg sjónarmið væru fyrir því að stöðva starfsemina og fyrirskipa slátrun á eldisfiski sem væri í kvíunum. Benti Mast á að fyrirtækið hefði tímanlega sótt um framlengingu á rekstrarleyfinu en upp hefðu komið nýjar kröfur um áhættumat siglinga og ekki hefði af hálfu stjórnvalda legið fyrir hver ætti að vinna það og það tafið afgreiðslu umsóknarinnar. Fyrirtækið hefði ekki haft neitt um þá töf að segja heldur þvert á móti hafi það haft réttmætar væntingar um að umsóknin yrði afgreidd áður en leyfið rann úr gildi.

Úrskurðarnefndin vísaði málinu frá

Náttúruverndarsamtökin Laxinn lifi kærði synjun Matvælastofnunar til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál sem vísaði málinu frá síðasta föstudag. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að samtökin ættu ekki kæruaðild að málinu.Umhverfisverndarsamtök ættu aðild að  ákvörðunum um að veita leyfi til framkvæmda sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana og gætu kært þær en í þessu tilviki væri ákvörðunin sú að hafna því að stöðva rekstur eldisfyrirtækisins skv. umræddu leyfi og kæruaðildin næði ekki til þess.

Krafa um milljarða króna tjón

Krafa samtakanna Laxinn lifi um stöðvun á rekstri skv. umræddu leyfi var jafnfram krafa um að slátra öllum fiski sem væri í kvíunum eins og berlega kemur fram í synjun Matvælastofnunar. Það er kæranda ljóst og einnig hitt að fyrirtækið yrði fyrir stórfelldu tjóni ef orðið yrði við kröfum samtakanna. Krafan er líklega einmitt sett fram í því skyni að koma fjárhagslegu höggi á fyrirtækið og koma því á kné og stöðva þannig sjókvíaeldið.

Hægt er að leggja gróft mat á mögulegt tjón. Í þessum kvíum sem leyfið nær til eru um hálf milljón fiska, kannski eitthvað meira. Eftir því sem næst verður komist var meðalþyngdin um 2 kg.

Fyrir fisk sem ekki er stærri en þetta fæst ekki hátt verð og líklega ekki mikið meira en nemur sláturkostnaði. Það þýðir að allur kostnaður sem búið er að stofna til fellur á fyrirtækið, það gæti verið um 1,5 milljarður króna.

Þessi fiskur verður verðmikill við það að ná sláturstærð ca 5,5 kg og ætla má að þessu hálfa milljón fiska myndu seljast á um 3 milljarða króna í fyllingu tímans. Krafan um að stöðva starfsemina er krafa um að hætta fóðrun og drepa fiskinn og hafa þessar tekjur af fyrirtækinu.

Söfnuðu fé til málaferla

Fyrir fjórum árum sendu þessi samtök Laxinn lifi út bréf til til ýmissa aðila svo sem veiðifélaga. Erindið var að fara fram á fjárframlög til þess að standa straum af kostnaði við málaferli bæði á stjórnsýslustigi og fyrir dómstólum, sem samtökin hafa staðið fyrir,  til þess að fá eldisleyfi ógilt. Sérstaklega var nefnt um árangur af starfi samtakanna að ógilt hafi verið leyfi Háafells í Ísafjarðardjúpi  og að leyfi í Tálknafirði og Patreksfirði hafi sömuleiðis verið ógilt árið 2019 sem hafi leitt til afskipta Alþingis með því að veita bráðabirgðaleyfi.

Andstæðingar sjókvíaeldis á Vestfjörðum neyta allra bragða til þess að stöðva uppbygginguna á Vestfjörðum sem fylgir nýtingu náttúrulegar auðlindar í fjörðunum. Það leynir sér ekki.

-k

Ísafjarðarbær: efla þarf farsímakerfi og tetrakerfi á þjóðvegunum

Frá Hestfirði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ályktaði á mánudaginn um ástand farsíma- og tetrakerfanna á þjóðvegum

Vestfjarða í framhaldi af áskorun sameinuðu almannavarnanefndar Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps.

Almannavarnanefndin segir í sinni ályktun að hún skori á stjórnvöld að skilgreina farsímakerfi og tetrakerfi sem mikilvægt öryggiskerfi fyrir almannavarnir á landinu. Á þjóðvegum og helstu stofnbrautum Vestfjarða sé kerfið alls ekki nógu þétt sem skapi hættu við slys og óhöpp og komi í veg fyrir að almannavarnir á svæðinu geti starfað með fullnægjandi hætti.

Bæjarráð tók undir bókun sameinaðrar almannavarnarnefndar um að efla þurfi enn frekar farsímakerfi og tetrakerfi á þjóðvegum á Vestfjörðum. Síðan segir: „Þó samanlögð reiknuð útbreiðslusvæði símafyrirtækjanna bendi til að sambandið sé stöðugt sýna vegamælingar á raunútbreiðslu farsímasambands marga skugga á aðalsamgönguæðum, svo sem í Seyðisfirði, Hestfirði, Skötufirði, Ísafirði, Staðardal í Steingrímsfirði, Vattarfirði, Kjálkafirði, Dynjandisheiði og Patreksfirði. Þetta hefur hamlandi áhrif á störf viðbragðsaðila, minnkar öryggi og skapar hættu við slys og óhöpp. Þá eru ótalin óþægindi af því að vera ótengdur í æ nettengdari heimi.“

Bókin Íslensk knattspyrna 2023 komin út

Íslensk knattspyrna 2023 eftir Víði Sigurðsson er komin.  Bókin hefur verið gefin út frá árinu 1981 og er þetta því 43. bókin í þessum bókaflokki.

Sögur útgáfa gefa út bókina sem er 288 blaðsíður í stóru broti og skreytt með um 400 myndum af leikmönnum og liðum. Í bókinni er sagt ítarlega frá Íslandsmótunum 2023 í öllum deildum karla og kvenna, þar sem hverri umferð fyrir sig í efri deildum eru gerð góð skil.

Sagt er frá keppni í yngri og eldri flokkum, bikarkeppninni, Evrópuleikjunum og vetrarmótunum. Þá er ítarlega fjallað um alla landsleiki ársins og einnig sérstaklega um íslenska knattspyrnufólkið sem leikur erlendis.

Í bókinni er ítarleg tölfræði um leikmenn og lið, sjá má liðsskipan allra liða í öllum deildum í meistaraflokkum karla og kvenna, leikjafjölda leikmanna í efri deildum, leikjahæstu karla og konur, marka- og leikjahæstu karla og konur í deildakeppni hér og erlendis ásamt mörgu fleiru.

Nýjustu fréttir