Mustela vison er latneskt heiti þessarar dýrategundar af marðarætt. Minkurinn er oftast dökkbrúnn með hvítar skellur á neðanverðum kjálkanum og hálsi og milli fram- og afturfóta. Karldýrið er oftast u.þ.b. 1,2 kg og læðurnar helmingi léttari. Dýrin eru upprunalega komin frá Norður-Ameríku um Evrópu á fyrstu árum 20. aldar. Þeir voru aldir vegna skinnanna, en margir sluppu og lifa villtu lífi víða í álfunni norðanverðri. Hingað voru hinir fyrst fluttir 1931 og fyrstu greni þeirra í náttúrunni fundust 1937 við Elliðaárnar og þá voru fyrstu lögin um minkahald sett.
Árið 1943 kom fram tillaga um að banna það með lögum. Það var ekki fyrr en 1949, að sveitarfélögum var heimilað að banna minkahald í lögunum um eyðingu minka og refa. Þessum lögum var breytt 1955 og 1957. Villiminkur var kominn austur undir Skeiðarársand 1958 og hann dreifðist norður um Vesturland, Norðurland og Austurland. Skeiðarársandur virðist hafa verið náttúruleg hindrun og Öræfingar hafi aðallega fengið mink að austan eftir að samgöngur bötnuðu. Minkurinn dreifðist seinna og hægar um útkjálka, s.s. Vestfirði og norðanlands.
Minkurinn verður kynþroska á fyrsta ári og tímgast strax. Fengitíminn er í mars og byrjun apríl og meðgöngutíminn 6-11 vikur, að meðaltali 7 vikur. Læðurnar makast með 7-10 daga millibili og öll fóstrin fara að þroskast samtímis, þótt feðurnir geti verið margir. Got fer oftast fram í fyrri hluta maí og fjöldi hvolpa er 4-10. Þeir eru blindir, hár- og tannlausir og nærast á mjólk fyrstu 5 vikurnar. Sjónin kemur eftir mánuð og tennur litlu fyrr. Karldýrin koma ekki nálægt uppeldinu.
Minkurinn helgar sér óðul eins og margar aðrar rándýrategundir og merkir með þvagi og skít. Grenin hafa marga útganga, stundum beint út í vatn, því að dýrin synda og kafa vel. Karldýrin eru aðallega á ferðinni á nóttunni en læðurnar eru á ferðinni allan sólarhringinn eftir got.
Fæðan er fjölbreytt, bæði úr sjó og af landi, s.s. marhnútur, sprettfiskur, keilubróðir, hrognkelsi, hornsíli, ufsaseiði, sandsíli, karfi, loðna, síld, skötuselur, tindaskata, keila og krabbadýr. Fuglar, egg, mýs og hunangsflugur eru meðal þess, sem minkurinn étur af landdýrum. Á veturna eru ferskvatnsfiskar einkum á matseðlinum.
Í heildina tekið virðist minkurinn ekki vera eins mikill vágestur og haldið var fram. Hann virðist ekki ógna neinum einstökum stofnum þeirra dýra, sem hann lifir á, eins og haldið var fram fyrrum.
Af vefnum nat.is