Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 242

Staða greiningar á meintum eldislaxi

Árið 2023 hafa 416 meintir eldislaxar borist Hafrannsóknastofnun til greiningar á uppruna.

Samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknastofnunar hafa 298 af meintum eldislöxum verið greindir til uppruna. 110 laxar eru enn í greiningu. Átta laxar af norskum uppruna og með útlit eldislaxa hafa ekki enn verið greindir til upprunastaðar. 

Af samtals 306 greindum eldislöxum hafa 297 verið raktir til kvíaþyrpingar í Patreksfirði þar sem tilkynnt var um strok fyrr á þessu ári.

Einn eldislax, sem veiddist í Sunndalsá í Trostansfirði/Arnarfirði, var úr stroki ú kví í Arnarfirðir árið 2021. Laxinn var 82 cm og 6 kg og hafði verið tvö ár í sjó áður en hann gekk í ánna.

Fjórir af 146 löxum, sem síðast fóru í greiningu, voru villtir íslenskir laxar. Tveir laxanna voru án ytri eldiseinkenna og útlit hinna tveggja var ekki hægt að meta þar sem aðeins lífsýni bárust stofnuninni (laxarnir veiddust í Þorskafjarðará, Héraðsvötnum, Laxá á Refasveit og Kálfá).

Eldislaxar hafa nú verið greindir í 46 veiðivötnum (auk Patreksfjarðar) en í 59 ef meintir strokulaxar í greiningu eru meðtaldir (sjá töflu 1).

Unnið er að rakningu átta strokulaxa með erfðagreiningu fleiri viðmiðunarsýna frá þeim hængum sem notaðir hafa verið til undaneldis. Eldislaxarnir sem ekki hefur tekist að rekja til framleiðenda veiddust í Hvítá í Borgarfirði, Patreksfirði, Hvannadalsá, Hrútafjarðará, Miðfjarðará, Laxá á Refasveit, Geirlandsá og Kálfá.

Hafrannsóknastofnun þakkar þeim fjölmörgu aðilum sem komið hafa með fiska til greiningar. Stofnunin bendir á að veiðimenn geta enn skilað inn fiskum til greiningar og þannig aðstoðað við að fá sem skýrasta mynd af umfangi eldislaxa í ám og dreifingu þeirra. 

Meðfylgjandi mynd og tafla sýna dreifingu eldislaxa sem veiðst hafa og stöðu greiningar. Númer á myndinni vísa í töflu fyrir myndina þar sem finna má nánari upplýsingar um staðsetningu og fjölda fiska.

Mynd 1. Yfirlit yfir veiði staðfestra og meintra eldislaxa í ám sem borist hafa Hafrannsóknastofnun. Stærð hringja tákna hlutfallslegan fjölda fiska. Rauður eru eldislaxar sem búið er að greina og gulur meintir eldislaxar í greiningu. Númer á mynd vísa í töfluna fyrir neðan þar sem finna má nánari upplýsingar um staðsetningu og fjölda fiska.
Tafla 1. Yfirlitstaflan tengir saman númerin á myndinni við nánari upplýsingar um heiti áa/veiðivatna, fjölda fiska og stöðu greiningar þeirra fiska sem komið hefur verið með til Hafrannsóknastofnunar.
  Eldislaxar 
Nr. á myndStaðsetningRakningu
lokið
Rakningu
ólokið
Fiskar í
greiningu
 Vesturland   
1.Hvítá í Borgarf 1 
2.Álftá1  
3.Hítará1  
4.Haffjarðará2 8
5.Holtsá1  
6.Kársstaðaá  5
7.Svínafossá1 2
8.Laxá á Skógarströnd  1
9.Haukadalsá1 4
10.Laxá í Dölum9 3
11.Krossá1  
12.Búðardalsá8 2
13.Staðarhólsá og Hvolsá10  
 Vestfirðir (að Ströndum)   
14.Þorskafjarðará1  
15.Djúpadalsá  3
16.Fjarðahornsá  2
17.Móra3  
18.Kjálkafjarðará  2
19.Vatnsdalsá/Vatnsf.3  
20.Suðurfossá5  
21.Örlygshöfn4  
22.Mikladalsá  2
23.Ósá  4
24.Patreksfjörður51 
25.Botnsá  45
26.Fífustaðadalsá  5
27.Sunndalsá20  
28.Dynjandisá1 3
29.Norðdalsá1  
30.Mjólká2 2
31.Laugardalsá2  
32.Ísafjarðará21  
33.Langadalsá9  
34.Hvannadalsá21 
35.Selá í Ísafjarðardjúpi2  
 Strandir og Norðurland   
36.Kjósará í Reykjarf.1  
37.Selá í Steingr.  1
38.Staðará í Steingr.5  
39.Víðidalsá/Húsadalsá Steingr.1 10
40.Hrútafjarðará3811
41.Síká6  
42.Miðfjarðará251 
43.Tjarnará á Vatnsnesi3  
44.Hóp1  
45.Víðidalsá Hún3  
46.Vatnsdalsá Hún18  
47.Blanda54 1
48.Hallá  1
49.Héraðsvötn2  
50.Norðurá  1
51.Húseyjarkvísl6  
52.Laxá á Refasveit131 
53.Hjaltadalsá/Kolka2 1
54.Fljótaá1  
55.Eyjafjarðará1  
56.Fnjóská2  
 Suðurland   
57.Geirlandsá 1 
58.Eystri-Rangá  1
59.Kálfá 1 
 Samtals öll svæði2988110

Strandabyggð: útsvar 14,75%

Hólmavík

Sveitarstjórn Strandabyggðar hélt aukafund 20. desember sl.og samþykkti að hækka útsvarsálagningu úr 14,52% í 14,75% vegna samkomulags ríkisins og sveitarfélaga um fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk. móti þessari útsvarshækkun, lækkar tekjuskattsálagning um samsvarandi prósent og mun ákvörðunin því ekki leiða til þess að heildarálögur á skattgreiðendur hækki segir í samþykkt sveitarstjórnar.
Annars staðar á Vestfjörðum var útvarsálagning hækkuð í 14,97%.

Hljómsveitin ÆFING 55 ára

Það bar til rétt fyrir jól árið 1968 að boð kom frá stjórn Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri um almennan félagsfund, fimmtudaginn þann 27. desember 1968, í Samkomuhúsinu.
Hin nýstofnaða Hljómsveit Æfing (sem í upphafi hét Víkingar) hafði verið vikum og mánuðum saman við æfingar í Samkomuhúsinu. Gerðu þér hlé á æfingum þessa stund meðan fundurinn í Skildi fór fram.
Í lok fundarins gerðist það að félagsmálafrömuðurinn Hendrik Ole Tausen, sem var að hasla sér völl í félagsmálum í þorpinu, bauð hljómsveitinni að stíga á svið og taka lagið sem og þeir þáðu með þökkum og kvíðagleði. Fluttu þeir svo lagið –Simon says- við undrun og ánægju viðstaddra.
Þar voru m.a. Lilja Guðmundsdóttir -skó-, Kristján V. Jóhannesson, Hermann Björn Kristjánsson, Jóhannes Ívar Guðmundsson, Siguður Helgason, Kolbeinn Guðmundsson, Bjarni Alexandersson, Hendrik Tausen og fleiri og var mikið klappað.
Yngstur á þessum fundi var 15 ára skólastrákur úr Héraðsskólanum að Núpi í jólafríi heima á Flateyri. Það var Björn Ingi Bjarnason hvar æskuheimilið (Júlluhús) var næsta hús við Samkomuhúsið og hann hafði fylgst manna best með æfingum um sumarið og fram að skóla. Hefur hann lýst breytingunni sem varð á meðlimum í hljómsveitinni þessa haustmánuði við breytingarnar á rólegum stúdentum í Frakklandi í róttæka hugsjónamenn sem urðu þarna fyrr um árið 1968 og frægt er í sögunni. – Hljómsveit var orðin til á Flateyri.“
45 árum síðar (árið 2013) er Æfing búin að gefa út geisladisk með 12 lögum þar sem mannlíf- menning þessa tíma í firðinum og víðar vestra hefur verið sett í glæsilega umgjörð tóna og texta. Þessi diskur Hljómsveitarinnar Æfingar er meistaraverk.
Í hljómsveitinni Æfingu í upphafi vor:
Árni Benediktsson, Kristján J. Jóhannesson, Sigmar Ólafsson, Eiríkur Mikkaelsson og Gunnlaugur Mikkaelsson. Ingólfur R. Björnsson, sem gert hafði garðin frægan með hljómsveitinni Geislum á Akureyri, kom síðann til liðs við ÆFINGU.
Hljómsveitin Æfing starfaði á tveimur tímaskeiðum þ.e. tímabilið á Flateyri frá 1968 og fram yfir 1980 og lék þá á dansleikjum um alla Vestfirði og reyndar víðar um land. Meðlimir Æfingar á þessu tímabili voru allmargir en Árni Benediktsson og Kristján J. Jóhannesson voru með alla tíð.
Seinna tímabilið er frá 1990 og þá eingöngu á samkomum sem Önfirðingafélagið í Reykjavík hafði skipulag á eða kom að með einum eða öðrum hætti.
Í hljómsveitinni Æfingu á þessu tímabili hafa verið:
Árni Benediktsson, Kristján J. Jóhannesson (látinn), Siggi Björns, Jón Ingiberg Guðmundsson, Ásbjörn Björgvinsson, Halldór Gunnar Pálsson og Önundur Hafsteinn Pálsson.

Ísafjarðarbær: mótmælum gegn aparólu hafnað

Ærslabelgurinn á Eyrartúni er skammt frá aparólunni.

Fyrir réttu ári samþykkti skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar mál vegna fyrirhugaðs leikvallar á Eyrartúni á Ísafirði þar sem m.a. var ráðgert að koma fyrir aparólu nálægt lóðarmörkum Túngötu 12. Var samþykkt að kynna uppdrætti leikvallarins fyrir íbúum bæjarins á heimasíðu þess og óskað eftir ábendingum frá almenningi. Í framhaldinu voru pöntuð leiktæki og framkvæmdin boðin út.
Í september gerði íbúi á Túngötu 12 athugasemdir við samþykkt útboð á þeim grundvelli að fyrirhuguð staðsetning aparólu væri í ósamræmi við gildandi deiliskipulag. Nefndin hins vegar taldi að framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélagsins og væri ekki framkvæmdaleyfisskyld.
Kærandi segir að fyrir liggi að leikvöllurinn á Eyrartúni muni hafa veruleg grenndaráhrif á íbúa Túngötu 12, sérstaklega hvað varði hljóðvist og innsýn. Með hliðsjón af því og þar sem um sé að ræða mikla breytingu á ásýnd svæðisins sé framkvæmdin leyfisskyld. Horfa verði á svæðið í heild sinni en nú sé þegar kominn ærslabelgur á Eyrartún.
Framkvæmdin var þá kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þess krafist að ákvörðun nefndarinnar verði felld úr gildi. Í málinu var jafnframt gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarnefndin kvað upp sinn úrskurð 22. desember sl. og taldi að ákvörðun nefndarinnar væri ekki kæranleg til nefndarinnar þar sem ekki væri um stjórnvaldsákvörðun að ræða tekna á grundvelli skipulagslaga og vísaði kærunni frá.

Ísafjarðarbær: ágreiningur um leigu á geymsluhúsnæði

Húsaleigusamningnur um Sindragötu 11 á Ísafirði, fyrir héraðsskjalasafn, ljósmyndasafn og listasafn, til 10 ára var samþykktur í bæjarstjórn í síðustu viku með fimm atkvæðum Í lista gegn tveimur atkvæðum D lista. Bæjarfulltrúar B lista sátu hjá.
Jóhann Birkir Helgason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins benti á að samningsfjárhæðin væri 6,3 m.kr. á ári eða samtals 63 milljónir króna sem væri langt yfir viðmiðunarupphæð þeirri sem kveðið er á um í lögum um opinber innkaup og því beri að viðhafa útboð. Miðað er við útboð ef samningsfjárhæðin er 15,5 m.k. eða hærri. Ísafjarðarbær hafði fyrir fundinn gert leigusamning við Sundatanga ehf um leigu á 338 fermetrar í sérrými á 2. hæð að Sindragötu 11. Jóhann vísaði einnig til 11. gr. innkaupareglna Ísafjarðarbæjar sem mæla fyrir um að nota verðfyrirspurn, verðkönnun eða almennt útboð ef ekki er unnt að kaupa á grundvelli rammasamnings. Ísafjarðarbær væri að brjóta eigin reglur. Almennt skuli viðhafa útboð og undarlegt að það skuli ekki hafa verið gert. Sagðist hann ekki geta stutt leigusamninginn.
Fram kom í máli bæjarstjóra Örnu Láru Jónsdóttur að bærinn hafi þegar tekið húsnæðið í notkun. Arna Lára sagði að í 4. gr. innkaupareglnanna væri undanþága frá útboðsskyldunni og þar væri heimilað að taka á leigu húsnæði án útboðs.
Kristján Þór Kristjánsson, bæjarfulltrui Framsóknarflokksins sagði að líklega væri ekki um annað húsnæði að ræða í þessu tilviki en hins vegar væri prinsippið gilt og útboð hefði leitt í ljós hvert framboðið væri á húsnæði og mögulegt verð.

Ágæt færð á vegum

Vegir á Vestfjörðum eru greiðfærir nema norður í Árneshrepp að sögn Vegagerðarinnar. Guðmundur Björgvinsson, verkefnastjóri segir að vegir hafi verið hreinsaðir í gær og lítið hafi snjóað. Úrkoma var mest 14. og 21 des. Aðra daga fremur lítil úrkoma en hvassviðrið aðfararnótt aðfangadags olli því að talsvert skóf og snjóflóð sem fallið hafa afleiðing þess, fremur kaldur og þurr snjór safnaðist í fleka í giljum sem hljóp fram.
Hann segir góðar horfur vera fyrir morgundaginn fram eftir degi. En spáð er vaxandi norðaustanátt seint á morgun og þá gæti færð á Dynjandisheiði spillst, einkum á gamla veginum yfir heiðina norðanverða.
Þjónusta Vegagerðarinnar er til kl. 19 á Steingrímsfjarðarheiði en til kl. 17:30 á Dynjandisheiði. Þjónustu er þó hætt fyrr á Dynjandisheiðinni ef fer að skafa en þá spillist færðin fljótt á gamla hluta vegarins.

Jólahugvekja: Hitt guðspjallið

I.
Tveir af guðspjallamönnunum, þeir Matteus og Lúkas segja frá fæðingu Jesú og þeim atburðum, sem þá urðu. Lúkas segir frá ferðalagi Maríu og Jósefs til Betlehem og að frelsarinn hafi verið lagður í jötu nýfæddur. Hann segir einnig frá fjárhirðunum á völlunum við Betlehem, sem hlustuðu á engil segja þeim frá því að frelsarinn væri fæddur. Síðan sungu englarnir Guði lof og dýrð. Þessi frásaga er vel þekkt og hún er alltaf lesin upp í kirkjum landsins á jólum.
Matteus segir söguna allt öðru vísi. Þar eru það þrír menn, líklega stjörnuskoðunarmenn frá Meópótamíu, sem eru á ferðalagi af því að þeir sáu nýja stjörnu á himninum. Þessir vitringar álíta stjörnuna boða stórtíðindi og dettur þeim helst í hug að það muni vera fæðing nýs konungs. Og líkt og fréttamenn nútímans þá storma þeir inn í höllina í Jerúsalem og spyrja hvort þar hafi nokkuð fæðst nýr konungsson, Messías Hebreanna.
Þetta atriði sýnir okkur að þessir vitringar voru kjánar. Já, bjálfalegt var það að fara í höllina til Heródesar gamla og spyrja þennan grimmdarsegg hvort það hefði ekki nýlega fæðst barn, sem hugsanalega væri Messías, hinn fyrirheitni konungur og frelsari. Og brosandi glaðir og spenntir sögðu vitringarnir Heródesi að þessi nýfæddi konungur yrði konungur konunganna, sem myndi skyggja á allt og alla. Já, það hefði meira að segja birst ný stjarna á næturhimninum! Og þetta söguðu þeir við hinn grimmlinda konung í Jerúsalem, sem í vænisýki sinni hafði látið drepa konu sína, syni og fjölda þegna sinna.
Heródes gamli var ekki Ísraelsmaður eða Gyðingur. Hann var fæddur handan árinnar Jórdan, þar sem nú er ríkið Jórdanía. Hann var útlendur harðstjóri, sem drottnaði yfir Ísrael. Og nú komu til hans þrír stjörnuskoðunarmenn, sem sögðu honum að hinn nýi konungur Gyðinganna væri fæddur. Heródes vissi alveg hvert hann átti að senda þessa stjörnuspekinga að leita að nýfæddum konungi. Ætt Davíðs konungs var frá Betlehem og þar hlaut barnið að vera fætt. Og Heródes sagði spekingunum þremur að fara til Betlehem og leita þar að barninu. Þegar þremenningarnir voru farnir þá skipaði Heródes hermönnum sínum að elta vitringana þrjá og drepa barnið, sem þeir leituðu að.
II.
Frásögn Matteusar er ekki beint jólaleg. Þetta er ekki saga, sem nokkur prestur vill lesa upp í kirkjunni á aðfangadagskvöld þegar hátíð jólanna, hátíð ljóss og friðar er hringd inn. Frásaga Matteusar er eins og handrit að hasar- og spennumynd, sem Hollývúdd myndi framleiða. Lesendur Matteusar eru eins og hengdir upp á þráð þegar þeir lesa fyrstu tvo kaflana í guðspjalli hans. Lesendinn spyr sig hvernig þetti endi allt saman. Matteusarguðspjall er hitt guðspjallið, sem við lesum ekki upp í kirkjunni fyrr en á þrettándanum, – ef það er þá messað þann dag!
Samt er þetta guðspjall með engu minni jólaboðskap en frásaga Lúkasar. Því boðskapur Matteusar er sá að manneskjan sé ekki ein hér í heimi, ekki ofurseld grimmd herkonunga eins og Heródesar. Nei, guðspjall Matteusar minnir okkur á þann sannleik að yfir veröldinni vaki góður Guð, sem hjálpar mönnunum og verndar þá. Þess vegna vitjar Guð vitringanna í draumi og segir þeim að varast Heródes og láta hann og hans menn ekki vita af barninu. Og engill Drottins birtist Jósef í draumi og segir honum að flýja með Maríu og barnið til Egyptalands því Heródes ætli að vinna því mein.
III.
Já, fjölskylda Jesú var flóttafólk, þau flúðu til Egyptalands, voru á vergangi í nokkur ár áður en þau áræddu að snúa aftur heim til Ísraels.
Á Íslandi er flóttafólk. Sumt er langt að komið og hefur leitað hér skjóls undan stríði, ofsóknum eða atvinnuleysi og eymd. Aðrir eru landar okkar. Já, á þessum jólum eru Íslendingar á flótta í eigin landi. Grindvíkingar hafa orðið að flýja heimili sín vegna náttúruhamfara. Jólin þeirra í ár verða allt öðru vísi en jólin í fyrra eða hitteðfyrra. En samt verða það heilög jól. Og þetta er leyndardómur jólanna; það er alveg sama hvar þú ert staddur, hvort þú ert heima hjá þér, vinnandi á stofnum eða á ferðalagi úti í heimi þá kemur yfir þig jólaandinn þegar hátíðin gengur í garð og þú brosir framan í ástvini þín og segir gleðileg jól. Það er engin önnur hátíð, sem hefur viðlíka stemmingu og áhrif og jólin. Jólin snerta við okkur á sérstakan hátt. Þau búa í huga okkar og hjarta.
Og svo er það flóttafólkið, sem enginn vill vita af. Það er fólkið, sem hefur ákveðið að flýja sjálft sig með því að sökkva sér ofan í algleymi vímuefna, fólkið, sem ráfar um stræti stórborganna og á hvergi höfðu sínu að halla eða getur hvergi fest rætur. Í Reykjavík bjóða Hjálpræðisherinn og Samhjálp slíku utangarðsfólki upp á jólamat. Annars staðar á landinu er það útrétt hönd nágrannans, sem hjálpar.
Jólin eru hátíð kærleikans. Þau segja frá kærleika Guðs til okkar manna. Þau eru tækifæri til halda upp á og innsigla kærleika okkar til fjölskyldu okkar og vina með gjöfum og veislumat. Og jólin kveikja í hjarta okkar kærleika til allra manna og þess vegna viljum við rétta þeim hjálparhönd, sem eru á vergangi í lífinu.
Engin hátíð er eins stórkostleg eins og jólin.
Guð gefi þér og þínum gleðileg jól.

Magnús Erlingsson,
prestur á Ísafirði.

Gleðilega hátíð

Skemmtiferðaskip í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Ágúst Atlason.

Fréttavefurinn Bæjarins besta sendir lesendum sínum, auglýsendum og öllum velunnurum besta jóla- og nýárskveðjur með góðum óskum um gott og farsælt komandi ár.

Árið hefur verið Vestfirðingum í meginatriðum farsælt til lands og sjávar rétt eins og árið á undan. Mikilvæg framfaramál hafa mjakast áfram í rétta átt og íbúum fjölgaði, einkum þar sem áhrifa uppbyggingar í atvinnulífinu gætir mest. Nú er lokið vegagerð í Þorskafirði um inn umdeilda Teigskóg, búið að opna brúna yfir Þorskafjörð og sér fyrir endann á vegagerð um Gufudalssveit. Vetrarsamgöngur milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða hafa tekið stakkaskiptum í vetur með þjónustu á Dynjandisheiðinni og nýjum vegarköflum á heiðinni. Innan þriggja ára verður báðum þessum miklu vegaframkvæmdum lokið.

Laxeldi í sjókvíum heldur áfram að eflast í vestfirskum fjörðum og framleiðslan vex hröðum skrefum. Arnarlax og Arctic Fish eru komin í hóp stærstu fyrirtækja landsins og eru metin á hátt á annað hundrað milljarða króna í norsku kauphöllinni. Háafell í Hnífsdal hefur hafið framleiðslu í Ísafjarðardjúpi. Beðið er útgáfu nýrra leyfa í Djúpinu. Nýtt laxasláturhús var opnað í Bolungavík. Fjárfesting í því er um 5 milljarðar króna. Framundan eru frekari fjárfestingar á sunnanverðum Vestfjörðum í nýju sláturhúsi og seiðaeldisstöð, framkvæmdir sem eru um einn tugur milljarða króna. Áform stjórnvalda um nýja löggjöf um fiskeldi þurfa að styðja við uppbygginguna en varast ber að láta undan þrýstingi andstæðinga atvinnugreinarinnar sem vilja stöðva starfsemina.
Enn er lítil hreyfing á virkjunaráformum á Vestfjörðum og orkuskortur hamlar atvinnuuppbyggingu og orkuöryggi í fjórðungnum. Bundnar eru vonir við að árið skili okkur fram á við. Hafinn er undirbúningur að nýrri kalkþörungaverksmiðju í Súðavík með landfyllingu á Langeyri og útsýnispallur á Bolafjall ásamt stórhuga uppbyggingu Sundahafnar á Ísafirði hefur styrkt ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Erlendu skemmtiferðaskipin hafa skilað miklu til samfélagsins og Vestfirðingar munu nýta þau til þess að halda áfram að byggja upp sína ferðaþjónustu.

Helgihaldi víða aflýst vegna veðurs

Helgihaldi í dag hefur verið aflýst vegna veðurs og ófærðar í Bolungavík, Hnífsdal, Súgandafirði, Önundarfirði og Dýrafirði.

Á Ísafirði verður það skv. fyrri tilkynningu.

Jólamessur í Ísafjarðarprestakalli

Bolungarvík:

Aðfangadagur 24. desember: Aftansöngur í Hólskirkju kl. 18:00.

Jóladagur 25. desember: Jólamessa í Hólskirkju kl. 14:00. Helgistund á Bergi kl. 15.15.

Gamlársdagur 31. desember. Aftansöngur í Hólskirkju kl. 17:00.

Hnífsdalur:

Aðgangadagur 24. desember: Aftansöngur kl. 18:00 í Hnífsdalskapellu.

Ísafjörður:

Aðgangadagur 24. desember: Miðnæturmessa kl. 23:30 í Ísafjarðarkirkju.

Jóladagur 25. desember: Jólamessa kl. 14:00 í Ísafjarðarkirkju. Helgistund á Eyri kl. 15:30.

Gamlársdagur 31. desember. Aftansöngur í Ísafjarðarkirkju kl. 17:00.

Súðavík:

Annar jóladagur 26. desember: Jólamessa kl. 14:00 í Súðavíkurkirkju.

Súgandafjörður:

Aðfangadagur 24. Desember: Messa á jólanótt kl. 23:00 í Suðureyrarkirkju.

Gamlársdagur 31. Desember. Aftansöngur kl. 18:00 í Staðarkirkju. Blysför á undan frá Suðureyri.

Önundarfjörður:

Aðgangadagur 24. desember: Aftansöngur kl. 18:00 í Flateyrarkirkju.

Jóladagur 25. desember: Jólamessa kl. 13:00 í Holtskirkju.

Dýrafjörður:

Aðgangadagur 24. desember: Aftansöngur kl. 22:30 í Þingeyrarkirkju.

Jóladagur 25. desember: Jólamessa kl. 15:00 á Tjörn.

Nýjustu fréttir