Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fara með fyrirsvar fyrirtækja í sjókvíaeldi. Samtökin segja í yfirlýsingu sem birt var fyrir jólin um frumvarp Matvælaráðherra um lagareldi, sem er til kynningar í samráðsgátt, að þar séu lagðar til svo viðurhlutamiklar refsingar og viðurlög við tilteknum atriðum, að vegið er alvarlega að rekstrargrundvelli fyrirtækja í sjókvíaeldi á Íslandi. Vísar SFS með þessu m.a. til þess að í frumvarpinu er eldisfyrirtækjum refsað fyrir strok með því að minnka framleiðsluheimildir þeirra þannig að fyrir hvern strokinn frjóan lax skerðist þær skv. nánar tilgreindum reglum. Þykir SFS refsingarnar vera of harðar.
SFS tekur undir það markmið frumvarpsins að efla þurfi stjórnsýslu, eftirlit og umhverfi sjókvíaeldis á Íslandi, svo atvinnugreinin geti haldið áfram að vaxa, tryggt aukna verðmætasköpun og orðið ein af burðarstoðum íslensks atvinnulífs í sátt við náttúru og samfélag. Samtökin styðja því tillögur ráðherra þess efnis.
Samtökin gera alvarlegar athugasemdir við ýmis ákvæði frumvarpsins. Auk athugasemda við refsihlutann segja SFS að ráðherra gangi gegn skýrslu Boston Consulting Group sem unnin var fyrir matvælaráðherra á liðnu ári þar sem mælt var með hóflegri gjaldtöku í vaxandi atvinnugrein. Ráðherra leggur bæði til háa og íþyngjandi skatta og vegur að rekstrargrundvelli fyrirtækjanna segir í yfirlýsingunni.
SFS segir að lögð sé til grundvallarbreyting á gjaldaumhverfi sjókvíaeldis, en núverandi fyrirkomulag byggi á tilliti til vaxtar greinarinnar svo ekki yrði vegið að rekstrargrundvelli. „Með frumvarpinu ætlar ráðherra að auka þunga skatta og gjalda á fyrirtæki í sjókvíaeldi. Ganga þessi áform verulega lengra en gert er í þeim löndum sem við berum okkur saman við, þar sem stutt var við vöxt greinarinnar með skynsamlegu gjaldaumhverfi í árdaga uppbyggingar.“
Ráðherra gengur gegn hagsmunum fjölda fólks í þeim sveitarfélögum sem byggja lífsviðurværi sitt á ábyrgu og sjálfbæru sjókvíaeldi segja SFS. Einnig sé með tillögu um friðun svæða í frumvarpinu vegið að framtíðarmöguleikum sveitarfélaga til verðmætasköpunar með sjókvíaeldi á svæðinu en í frumvarpinu er lagt til að friða bæði Eyjafjörð og Öxarfjörð fyrir sjókvíaeldi.