Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 241

SFS: vegið að rekstrargrundvelli fyrirtækja í sjókvíaeldi

Eldiskvíar.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fara með fyrirsvar fyrirtækja í sjókvíaeldi. Samtökin segja í yfirlýsingu sem birt var fyrir jólin um frumvarp Matvælaráðherra um lagareldi, sem er til kynningar í samráðsgátt, að þar séu lagðar til svo viðurhlutamiklar refsingar og viðurlög við tilteknum atriðum, að vegið er alvarlega að rekstrargrundvelli fyrirtækja í sjókvíaeldi á Íslandi. Vísar SFS með þessu m.a. til þess að í frumvarpinu er eldisfyrirtækjum refsað fyrir strok með því að minnka framleiðsluheimildir þeirra þannig að fyrir hvern strokinn frjóan lax skerðist þær skv. nánar tilgreindum reglum. Þykir SFS refsingarnar vera of harðar.
SFS tekur undir það markmið frumvarpsins að efla þurfi stjórnsýslu, eftirlit og umhverfi sjókvíaeldis á Íslandi, svo atvinnugreinin geti haldið áfram að vaxa, tryggt aukna verðmætasköpun og orðið ein af burðarstoðum íslensks atvinnulífs í sátt við náttúru og samfélag. Samtökin styðja því tillögur ráðherra þess efnis.

Samtökin gera alvarlegar athugasemdir við ýmis ákvæði frumvarpsins. Auk athugasemda við refsihlutann segja SFS að ráðherra gangi gegn skýrslu Boston Consulting Group sem unnin var fyrir matvælaráðherra á liðnu ári þar sem mælt var með hóflegri gjaldtöku í vaxandi atvinnugrein. Ráðherra leggur bæði til háa og íþyngjandi skatta og vegur að rekstrargrundvelli fyrirtækjanna segir í yfirlýsingunni.
SFS segir að lögð sé til grundvallarbreyting á gjaldaumhverfi sjókvíaeldis, en núverandi fyrirkomulag byggi á tilliti til vaxtar greinarinnar svo ekki yrði vegið að rekstrargrundvelli. „Með frumvarpinu ætlar ráðherra að auka þunga skatta og gjalda á fyrirtæki í sjókvíaeldi. Ganga þessi áform verulega lengra en gert er í þeim löndum sem við berum okkur saman við, þar sem stutt var við vöxt greinarinnar með skynsamlegu gjaldaumhverfi í árdaga uppbyggingar.“
Ráðherra gengur gegn hagsmunum fjölda fólks í þeim sveitarfélögum sem byggja lífsviðurværi sitt á ábyrgu og sjálfbæru sjókvíaeldi segja SFS. Einnig sé með tillögu um friðun svæða í frumvarpinu vegið að framtíðarmöguleikum sveitarfélaga til verðmætasköpunar með sjókvíaeldi á svæðinu en í frumvarpinu er lagt til að friða bæði Eyjafjörð og Öxarfjörð fyrir sjókvíaeldi.

Tálknafjörður: fjórir vanhæfir við umræðu og afgreiðslu á byggðakvótareglum

Tálknafjörður.

Sveitarstjórn Tálknafjarðar tók fyrir úthlutun byggðakvóta á fundi sínum í síðustu viku. Fjórir af fimm sveitarstjórnarfulltrúum, Lilja Magnúsdóttir, Guðlaugur Jónsson, Jenný Lára Magnadóttir og Jón Ingi Jónsson vöktu athygli á vanhæfi sínu til að fjalla um málið og viku af fundi við afgreiðslu þess.
Í þeirra stað komu þrír varamenn inn á fundinn undir þessum dagskrárlið.
Úthlutun byggðakvóta til Tálknafjarðar á fiskveiðiárinu 2023/2024 er 285 þorskígildistonn. Rætt var um sérreglur sem sveitarstjórnir geta sett um úthlutun byggðakvótans. Samþykkt var samhljóða að sótt verði um að óbreyttar sérreglur verði fyrir Tálknafjörð vegna byggðakvóta fiskveiðiárið 2023/2024 frá fyrra fiskveiðiári með þeirri viðbót að breyting
verði á 3. mgr. 6 gr. reglurgerðar á þann veg að þá daga sem fiskvinnsla sér sér ekki fært að taka á móti afla í vinnslu verði heimilt að bjóða afla upp á fiskmarkaði.
Á síðasta ári var helmingi byggðakvótans úthlutað jafnt á milli báta á Tálknafirði og hinum helmingi kvótans úthlutans samkvæmt veiðireynslu árið á undan. Þá var skylt að landa aflanum í Tálknafjarðarhöfn. Auk þess vildi sveitarstjórnin fella brott ákvæði um vinnsluskyldu aflans þar sem engin fiskvinnsla væri innan sveitarfélagsins. Því hafnaði Matvælaráðuneytið og setti skilyrði um að byggðakvótanum yrði landað til vinnslu.

Ísafjarðarbær: nýtt ákvæði um afturköllun lóðarúthlutunar

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gerði á síðasta fundi sínum breytingar á samþykkt Ísafjarðarbæjar um gatnagerðargjald, stofngjald vatnsveitu og stofngjald fráveitu auk þess að samþykkja breytingar á reglum um úthlutun lóða.
Bætt var við samþykktina ákvæði um afturköllun lóðarúthlutunar vegna vanskila eða dráttar á framkvæmdum.
Í ákvæðinu er mælt fyrir um heimild til þess að afturkalla byggingarleyfi að undangenginni viðvörun hafi ekki gatnagerðargjald verið greitt eða framkvæmdir hafnar innan 12 mánaða.
Sveitarstjórn skal með 30 daga fyrirvara senda lóðarhafa með sannanlegum hætti viðvörun um hina fyrirhuguðu afturköllun áður en byggingarleyfi og/eða lóðarúthlutun er afturkölluð.
Í minnisblaði bæjarritara segir að breytingarnar séu gerðar vegna ábendinga um að bæta þurfi nákvæmni í orðalagi varðandi afturköllun og innköllun lóðarúthlutana vegna vanskila eða dráttar á framkvæmdum. Skýrt þarf að vera að frestur bæjarstjórnar sé 30 dagar til handa lóðarhafa.

Landsbankinn: Patreksfjörður verður afgreiðsla

Landsbnakinn Patreksfirði.

Sigríður Ingibjörg Birgisdóttir, útibússtjóri Landsbanka Íslands á Patreksfirði flyst til innan bankans og tekur um áramótin við starfi í höfuðstöðvunum í Reykjavík. Sævar Ríkharðsson, útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði bætir við sig útibúinu á Patreksfirði, sem verður að afgreiðslu. Sævar staðfesti þetta í samtali við Bæjarins besta en sagði að áfram yrðu fimm starfsmenn á Patreksfirði og nýr starfsmaður kæmi sem yrði þjónustustjóri. Hann sagði að útibúin hefðu hingað til unnið saman að málum, einkum fyrirtækjamálum.

Trausti ÍS 300

Trausti ÍS 300. Ljósmynd Sigurður Jóhannesson.

Á þessum myndum Sigurðar Jóhannessonar er Trausti ÍS 300 en myndirnar voru teknar árið 1972.

Trausti ÍS 300 frá Suðureyri við Súgandafjörð var smíðaður í Stálvík árið 1971. Hann hafði smíðanúmer 16 hjá Stálvík og var smíðaður eftir teikningu Ágústs G. Sigurðssonar

Í Morgunblaðinu þann 20. júní 1971 sagði m.a svo frá í frétt frá fréttaritara blaðsins í Súgandafirði:

Sautjánda júni í kom hingað nýtt fiskiskip, sem smíðað var hjá Stálvík h.f. í Garðahreppi. Skipið er 123 lestir samkvæmt nýja málinu, smíðað úr stáli, sérstaklega teiknað til togveiða auk línu- og netaveiða. 

Var skipinu gefið nafnið Trausti eftir bátum Ólafs Gissurarsonar frá Ósi í Bolungarvík. Skipið mun stunda grálúðuveiðar með línu og fer í fyrsta túrinn á morgun. 

Eigandi m.b.Trausta ÍS 300 er Fiskiðjan Freyja h.f., skipstjóri Ólafur Ólafsson og fyrsti vélstjóri Jens Ásmundsson.

1170. Trausti ÍS 300. Ljósmynd Sigurður Jóhannesson.

Trausti ÍS 300 var seldur til Keflavíkur árið 1973 þar sem hann fékk nafnið Valþór KE 125. Útgerð Trausta keypti stærri bát frá Noregi sem kom í nóvember 1973 og hét Sverdrupson ÍS 300.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Afturelding og Reykhólahreppur gera samstarfs- og styrktarsamning

Við undirritun samningsins, Sandra Rún Björnsdóttir UMFA, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri og Styrmir Sæmundsson formaður UMFA

Þann 19. desember skrifuðu fulltrúar Ungmennafélagsins Aftureldingar á Reykhólum* og Reykhólahrepps undir styrktar- og samstarfssamning til þriggja ára.

Markmið samningsins er að skilgreina og efla tengsl og samskipti á milli sveitarfélagsins og Ungmennafélagsins Aftureldingar. Samningnum er ætlað að styðja við æskulýðs- og íþróttastarf sem fram fer á vegum Umf. Aftureldingar, íbúum sveitarfélagsins til heilla.

Með samningnum viðurkennir Reykhólahreppur hið mikilvæga hlutverk sem Umf. Afturelding gegnir gagnvart íbúum sveitarfélagsins.

Samkvæmt samningnum fær Umf. Afturelding afnot af íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins auk árlegs framlags að upphæð kr. 1 millj. Á móti skuldbindur Umf. Afturelding sig til ýmissa verkefna þ.m.t. að halda úti æfingum fyrir börn að 18 ára aldri, allt árið um kring og starfrækja líkamsræktarstöð.

*) Ungmennafélag með sama heiti er eins og flestir vita í Mosfellsbæ, það kemur upp ef Afturelding er „gúggluð“, en ef reykhólar eru látnir fylgja koma smá upplýsingar.

Bjartur lífsstíll fær 30 milljónir

Á myndinni má sjá Helga Pétursson, formann Landssambands eldri borgara, Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Lárus L. Blönda, forseta ÍSÍ.

Félags- og vinnumarkaðsráðherra, og mennta- og barnamálaráðherra, hafa styrkt verkefnið Bjartur lífsstíll um 30 milljónir króna.

Bjartur lífsstíll er samstarfsverkefni Landsambands eldri borgara (LEB) og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Markmiðið er að auka lífsgæði eldra fólks um land allt í gegnum markvissa hreyfingu og auka líkur á að fólk geti búið lengur í heimahúsum. 

Fyrr á árinu fór fram ráðstefna um hreyfiúrræði fyrir 60+ undir merkjum Bjarts lífsstíls. Markmið hennar var að búa til vettvang fyrir þjálfara, skipuleggjendur og annað starfsfólk sem kemur að heilsueflingu fólks 60 ára og eldri. 

Á næsta ári verður meðal annars lögð áhersla á samstarf við verkefnastjórn Gott að eldast sem er aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum eldra fólks. Ein af aðgerðunum í áætluninni snýr einmitt að alhliða heilsueflingu eldra fólks. 

Staða greiningar á meintum eldislaxi

Árið 2023 hafa 416 meintir eldislaxar borist Hafrannsóknastofnun til greiningar á uppruna.

Samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknastofnunar hafa 298 af meintum eldislöxum verið greindir til uppruna. 110 laxar eru enn í greiningu. Átta laxar af norskum uppruna og með útlit eldislaxa hafa ekki enn verið greindir til upprunastaðar. 

Af samtals 306 greindum eldislöxum hafa 297 verið raktir til kvíaþyrpingar í Patreksfirði þar sem tilkynnt var um strok fyrr á þessu ári.

Einn eldislax, sem veiddist í Sunndalsá í Trostansfirði/Arnarfirði, var úr stroki ú kví í Arnarfirðir árið 2021. Laxinn var 82 cm og 6 kg og hafði verið tvö ár í sjó áður en hann gekk í ánna.

Fjórir af 146 löxum, sem síðast fóru í greiningu, voru villtir íslenskir laxar. Tveir laxanna voru án ytri eldiseinkenna og útlit hinna tveggja var ekki hægt að meta þar sem aðeins lífsýni bárust stofnuninni (laxarnir veiddust í Þorskafjarðará, Héraðsvötnum, Laxá á Refasveit og Kálfá).

Eldislaxar hafa nú verið greindir í 46 veiðivötnum (auk Patreksfjarðar) en í 59 ef meintir strokulaxar í greiningu eru meðtaldir (sjá töflu 1).

Unnið er að rakningu átta strokulaxa með erfðagreiningu fleiri viðmiðunarsýna frá þeim hængum sem notaðir hafa verið til undaneldis. Eldislaxarnir sem ekki hefur tekist að rekja til framleiðenda veiddust í Hvítá í Borgarfirði, Patreksfirði, Hvannadalsá, Hrútafjarðará, Miðfjarðará, Laxá á Refasveit, Geirlandsá og Kálfá.

Hafrannsóknastofnun þakkar þeim fjölmörgu aðilum sem komið hafa með fiska til greiningar. Stofnunin bendir á að veiðimenn geta enn skilað inn fiskum til greiningar og þannig aðstoðað við að fá sem skýrasta mynd af umfangi eldislaxa í ám og dreifingu þeirra. 

Meðfylgjandi mynd og tafla sýna dreifingu eldislaxa sem veiðst hafa og stöðu greiningar. Númer á myndinni vísa í töflu fyrir myndina þar sem finna má nánari upplýsingar um staðsetningu og fjölda fiska.

Mynd 1. Yfirlit yfir veiði staðfestra og meintra eldislaxa í ám sem borist hafa Hafrannsóknastofnun. Stærð hringja tákna hlutfallslegan fjölda fiska. Rauður eru eldislaxar sem búið er að greina og gulur meintir eldislaxar í greiningu. Númer á mynd vísa í töfluna fyrir neðan þar sem finna má nánari upplýsingar um staðsetningu og fjölda fiska.
Tafla 1. Yfirlitstaflan tengir saman númerin á myndinni við nánari upplýsingar um heiti áa/veiðivatna, fjölda fiska og stöðu greiningar þeirra fiska sem komið hefur verið með til Hafrannsóknastofnunar.
  Eldislaxar 
Nr. á myndStaðsetningRakningu
lokið
Rakningu
ólokið
Fiskar í
greiningu
 Vesturland   
1.Hvítá í Borgarf 1 
2.Álftá1  
3.Hítará1  
4.Haffjarðará2 8
5.Holtsá1  
6.Kársstaðaá  5
7.Svínafossá1 2
8.Laxá á Skógarströnd  1
9.Haukadalsá1 4
10.Laxá í Dölum9 3
11.Krossá1  
12.Búðardalsá8 2
13.Staðarhólsá og Hvolsá10  
 Vestfirðir (að Ströndum)   
14.Þorskafjarðará1  
15.Djúpadalsá  3
16.Fjarðahornsá  2
17.Móra3  
18.Kjálkafjarðará  2
19.Vatnsdalsá/Vatnsf.3  
20.Suðurfossá5  
21.Örlygshöfn4  
22.Mikladalsá  2
23.Ósá  4
24.Patreksfjörður51 
25.Botnsá  45
26.Fífustaðadalsá  5
27.Sunndalsá20  
28.Dynjandisá1 3
29.Norðdalsá1  
30.Mjólká2 2
31.Laugardalsá2  
32.Ísafjarðará21  
33.Langadalsá9  
34.Hvannadalsá21 
35.Selá í Ísafjarðardjúpi2  
 Strandir og Norðurland   
36.Kjósará í Reykjarf.1  
37.Selá í Steingr.  1
38.Staðará í Steingr.5  
39.Víðidalsá/Húsadalsá Steingr.1 10
40.Hrútafjarðará3811
41.Síká6  
42.Miðfjarðará251 
43.Tjarnará á Vatnsnesi3  
44.Hóp1  
45.Víðidalsá Hún3  
46.Vatnsdalsá Hún18  
47.Blanda54 1
48.Hallá  1
49.Héraðsvötn2  
50.Norðurá  1
51.Húseyjarkvísl6  
52.Laxá á Refasveit131 
53.Hjaltadalsá/Kolka2 1
54.Fljótaá1  
55.Eyjafjarðará1  
56.Fnjóská2  
 Suðurland   
57.Geirlandsá 1 
58.Eystri-Rangá  1
59.Kálfá 1 
 Samtals öll svæði2988110

Strandabyggð: útsvar 14,75%

Hólmavík

Sveitarstjórn Strandabyggðar hélt aukafund 20. desember sl.og samþykkti að hækka útsvarsálagningu úr 14,52% í 14,75% vegna samkomulags ríkisins og sveitarfélaga um fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk. móti þessari útsvarshækkun, lækkar tekjuskattsálagning um samsvarandi prósent og mun ákvörðunin því ekki leiða til þess að heildarálögur á skattgreiðendur hækki segir í samþykkt sveitarstjórnar.
Annars staðar á Vestfjörðum var útvarsálagning hækkuð í 14,97%.

Hljómsveitin ÆFING 55 ára

Það bar til rétt fyrir jól árið 1968 að boð kom frá stjórn Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri um almennan félagsfund, fimmtudaginn þann 27. desember 1968, í Samkomuhúsinu.
Hin nýstofnaða Hljómsveit Æfing (sem í upphafi hét Víkingar) hafði verið vikum og mánuðum saman við æfingar í Samkomuhúsinu. Gerðu þér hlé á æfingum þessa stund meðan fundurinn í Skildi fór fram.
Í lok fundarins gerðist það að félagsmálafrömuðurinn Hendrik Ole Tausen, sem var að hasla sér völl í félagsmálum í þorpinu, bauð hljómsveitinni að stíga á svið og taka lagið sem og þeir þáðu með þökkum og kvíðagleði. Fluttu þeir svo lagið –Simon says- við undrun og ánægju viðstaddra.
Þar voru m.a. Lilja Guðmundsdóttir -skó-, Kristján V. Jóhannesson, Hermann Björn Kristjánsson, Jóhannes Ívar Guðmundsson, Siguður Helgason, Kolbeinn Guðmundsson, Bjarni Alexandersson, Hendrik Tausen og fleiri og var mikið klappað.
Yngstur á þessum fundi var 15 ára skólastrákur úr Héraðsskólanum að Núpi í jólafríi heima á Flateyri. Það var Björn Ingi Bjarnason hvar æskuheimilið (Júlluhús) var næsta hús við Samkomuhúsið og hann hafði fylgst manna best með æfingum um sumarið og fram að skóla. Hefur hann lýst breytingunni sem varð á meðlimum í hljómsveitinni þessa haustmánuði við breytingarnar á rólegum stúdentum í Frakklandi í róttæka hugsjónamenn sem urðu þarna fyrr um árið 1968 og frægt er í sögunni. – Hljómsveit var orðin til á Flateyri.“
45 árum síðar (árið 2013) er Æfing búin að gefa út geisladisk með 12 lögum þar sem mannlíf- menning þessa tíma í firðinum og víðar vestra hefur verið sett í glæsilega umgjörð tóna og texta. Þessi diskur Hljómsveitarinnar Æfingar er meistaraverk.
Í hljómsveitinni Æfingu í upphafi vor:
Árni Benediktsson, Kristján J. Jóhannesson, Sigmar Ólafsson, Eiríkur Mikkaelsson og Gunnlaugur Mikkaelsson. Ingólfur R. Björnsson, sem gert hafði garðin frægan með hljómsveitinni Geislum á Akureyri, kom síðann til liðs við ÆFINGU.
Hljómsveitin Æfing starfaði á tveimur tímaskeiðum þ.e. tímabilið á Flateyri frá 1968 og fram yfir 1980 og lék þá á dansleikjum um alla Vestfirði og reyndar víðar um land. Meðlimir Æfingar á þessu tímabili voru allmargir en Árni Benediktsson og Kristján J. Jóhannesson voru með alla tíð.
Seinna tímabilið er frá 1990 og þá eingöngu á samkomum sem Önfirðingafélagið í Reykjavík hafði skipulag á eða kom að með einum eða öðrum hætti.
Í hljómsveitinni Æfingu á þessu tímabili hafa verið:
Árni Benediktsson, Kristján J. Jóhannesson (látinn), Siggi Björns, Jón Ingiberg Guðmundsson, Ásbjörn Björgvinsson, Halldór Gunnar Pálsson og Önundur Hafsteinn Pálsson.

Nýjustu fréttir