Mánudagur 2. september 2024
Síða 24

Veiðileysukleif: fært öllum bílum, en spáin ekki góð

Veiðileysukleif.

Vegagerðin hefur unnið hörðum höndum að viðgerð á veginum í Veiðileysifirði og yfir hálsinn svo og í Reykjafirði. Gunnar Númi Hjartarson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík sagði í samtali við Bæjarins besta að viðgerðinni væri svo gott sem lokið og vegurinn væri fær öllum bílum.

Vegurinn er grófur þar sem skemmdir urðu, sem eru við Burstafell í Veiðileysufirði og svo við Kýrvíkurbrekkuna í Reykjafirði við Sætrakleif innan til við Kjörvogshlíð.

En vegurinn væri blautur í Veiðileysukleifinni og spáð væri úrkomu og vindi, svo útlitið gæti verið betra. Hins vegar er Vegagerðin á vaktinni og mun bregðast við ef þörf krefur sagði Gunnar Númi.

Veiðileysukleif.

Úr Veiðileysukleifinni. Skemmdirnar sjást betur.

Myndir: Gunnar Númi Hjartarson.

Act alone 20 ára

Act alone leiklistar- og listahátíðin verður haldin 20 árið í röð dagana 7. – 10. ágúst á Suðureyri. Já, hin einstaka hátíð Act alone er orðin tveggja áratuga gömul og hefur allt frá upphafi verið haldin á Vestfjörðum. Það verður því alveg einstök dagskrá í boði á afmælisárinu hvar boðið verður upp á yfir 20 einstaka viðburði. Að vanda verður ókeypis á alla viðburði Actsins og fjölbreytileikinn verður í aðalhlutverki. Leiksýningar, dans, tónleikar, myndlist, ritlist og alls konar list. Einstaklega vegleg dagskrá verður fyrir æskuna og verður m.a. boðið upp á trúðanámskeið og loftbelgjasmiðju. Act alone verður einnig alþjóðleg því boðið verður upp á leiksýningu á pólsku og franska trúðasýningu. Meðal listamanna ársins má nefna Mugison, Gugusar, Jón Víðis, Þórey Birgisdóttur, Rúnar Helga Vignisson, Salóme Katrínu og Sigrúnu Waage. Það er næsta víst að allir munu finna eitthvað við sitt hæfi á Act alone á Suðureyri hið einstaka afmælisár 2024. Það verður ekki bara ókeypis á hátíðina heldur verður einnig hægt að fara ókeypis á Actið með langferðabifreið Actsins sem gengur daglega millum Ísafjarðar og einleikjaþorpsins alla hátíðar dagana. Dagskrá Act alone í heild sinni má finna á heimasíðu hátíðarinnar www.actalone.net

Leikið hér og að handan

Í tilefni af 20 ára afmæli Act alone hefur hátíðin verið lengd um einn dag og stendur því hið einstaka stuð yfir í fjóra daga. Í tilefni tímamótana munu fjölmargir vestfirskir listamenn koma fram. Sómi Vestfjarða Mugison gefur tónin með sérstökum afmælistónleikum Actsins sem verða haldnir í Staðarkirkju. Af öðrum vestfirskum listamönnum má nefna Drífu Kristjónu Garðarsdóttur, Skúla mennska, Salóme Katrínu, Ólínu Þorvarðardóttur og Rúnar Helga Vignisson. Einnig mun vestfirski leikarinn Gunnar Jóhannesson flytja einleik sinn Félagsskapur með sjálfum mér. Af öðrum einleikjum má nefna Ef ég gleymi er fjallar um hinn miskunarlausa hvergi sjúkdóm, alsæmer. Frá Póllandi fáum við einleikinn Dramaternity eftir og með Magdalena Bochan-Jachimek og belgísk/franska leikkonan Fransoise Simon flytur trúðaeinleik sinn Headinig North. Einnig mun Simon vera með trúðanámskeið fyrir krakka.

Actið verður þó eigi bara í þessum heimi heldur verður einnig kikkað yfir í handanheima. Hin vestfirska Anna Birta Lionaraki stýrir handan stundinni en hún hefur haldið fjölda marga opna handan fundi í borginni og nú loksins verður skyggnast yfir um hér vestra. Við munum einnig skyggnast í komandi einleik því haldin verður opin æfing á erlendum einleik Ífígenía í Ásbrú (Iphigenia in Splott). Þetta er verðlaunaverk sem hefur farið sigurför um heiminn. Leikritið fjallar um Ífí, stelpuna sem þú tekur sveig framhjá þegar þú mætir henni hauslausri fyrir hádegi. En það sem þú veist ekki er að þú stendur í ævilangri þakkarskuld við hana. Og nú er komið að skuldadögum. Leikari er Þórey Birgisdóttir.

Eitthvað fyrir alla

Að vanda verður vegleg barnadagskrá á Act alone. Auk trúðanámskeiðs og loftbelgjasmiðju verður Jón Víðis með töfrasýningu og Mark Blashford sýnir brúðuleikinn Búkolla. Tónleikar verða með vestfirska tónlistarfólkinu Salóme Katrínu og Skúla er kallaður er hinn mennski. Vestfirsku skáldin Ólína Þorvarðardóttir, Eiríkur Örn Norðdahl og Rúnar Helgi Vignisson lesa og segja frá verkum sínum. Drífa Kristjóna Garðardóttir myndlistarkona frá Bíldudal verður með sýningu á verkum sínum sem sannlega eru einstök. Síðast en ekki síst má geta þess að hinn árlegi Vestfirski fornminjadagur verður á sínum stað á Act alone. Verður hann haldin á laugardagsmorgninum 10. ágúst í hinum hinum nýbyggða Landnámsskála Hallvarðs Súganda.

Einsog áður var getið þá er aðgangur að öllum viðburðum á Act alone ókeypis. Þannig hefur það verið allt frá upphafi en alls hefur verið boðið upp á 337 ókeypis viðburði á Actinu og í ár bætast 23 ókeypis viðburðir í þann góða viðburðapott. Það ætti engin að verða einmanna né að leiðast á Act alone. Svo nú er fátt annað í stöðunni en að skunda á Suðureyri á Act alone 7. – 10. ágúst því það kostar ekkert.

Heimsókn í Haukadal í Dýrafirði

Kómedíuleikhúsið í Haukadal.

Þriðjudaginn 6. ágúst stendur átakið Gefum íslenskunni sjens fyrir ferð í Haukadal.

Farið verður á söguslóðir Gísla sögu í Haukadal og gengin Gíslaganga ásamt fleiru. Elfar Logi Hannesson tekur á móti hópnum og fylgir honum um Haukadal. Og svo er sögustund eftir gönguna.

Þetta er auðvitað í góðu samstarfi við Kómedíuleikhúsið.

Lagt verður af stað frá Háskólasetri Vestfjarða klukkan 12:15.
Heimkoma um klukkan 17:00.

Það verður að tilkynna komu sína í gegnum islenska(at)uw.is.
Það verður að skrá sig!
Ef þú skráir þig á helginni verður þú að hringja í 8920799.

Auðvitað er einnig líka hægt að mæta á staðinn um klukkan 13:00.

Ísafjarðarbær:Færanleg umhverfisvæn sorpbrennslustöð í boði

Fyrir umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar hefur verið lögð fram til kynningar drög að viljayfirlýsingu Ísafjarðarbæjar og Sorporku ehf. um rekstur sorpbrennslustöðvar. Einnig lögð fram kynning á 1 megawatta sorpbrennslustöð frá Ferropower í Finnlandi sem Sorporka ehf hefur undirritað samkomulag við um að reisa slíka stöð á Íslandi.

Afstaða nefndarinnar var að ekki væri tímabært að skrifa undir viljayfirlýsingu að svo stöddu og telur nefndin þörf á frekari greiningu og gagnaöflun.

Sorporka ehf hefur kynnt þessar brennslustöðvar fyrir sveitarfélögum. Í frétt um málið í Eyjafréttum í október 2023 segir að gert sé ráð fyrir, að Sorporka ehf fjármagni, byggi, eigi og reki stöðvarnar. Forsenda þess er sú, að sveitarfélagið geri 25 ára samning við Sorporku um að afhenda það sorp, sem annars færi til urðunar. Er þá gert ráð fyrir, að sveitarfélagið greiði svokallað hliðgjald.

Meðal eigenda að Sorporku ehf eru Stefán Guðsteinsson, skipatæknifræðingur og Júlíus Sólnes, prófessor emerítus og fyrrum umhverfisráðherra.

Þeir kynntu fyrir Vestmannaeyjabæ 1 MW sorporkustöð fyrir brennslu á 1000 –3000 tonnum af afgangssorpi, sem annars færi til urðunar.

Þeir segja að stöðvarnar uppfylli ströngustu kröfur Evrópusambandsins um mengunarvarnir og framleiði sem nemur 8000 MWstundum/ári af sjóðandi heitu vatni. Einnig er hægt að bæta raforkuframleiðslueiningu við stöðina, þannig að hún framleiði 750 MWstundir á ári af rafmagni til dreifingar inn á dreifikerfi rafmagns. Ef sorpmagn kallar á stærri stöð, er auðvelt að bæta annarri einingu við.

Glæra frá Sorporku ehf.

Sorpstöð Rangárvallasýslu hefur undirritað viljayfirlýsingu við Sorporku ehf og hefur áhuga á að skoða málið áfram.

Samband íslenskra sveitarfélaga fékk Svönu Helenu Björnsdóttur, verkfræðing og stjórnarmann Sorpu, og Valgeir Pál Björnsson, verkefnastjóri hjá Sorpu til að taka saman minnisblað um örbrennslur.

Minnisblaðið, sem er dagsett 15. febrúar 2024, byggir á ferð nokkurra fulltrúa sveitarfélaga, Sorporku ehf. og Sorpu bs. til fyrirtækisins Ferroplan Oy í Finnlandi þar sem slíkri örbrennslustöð hefur verið komið upp. Beinn kostnaður við brennslustöð sem þessa er áætlaður um 640-820 m.kr. sem myndi kalla á hliðgjöld upp á 59 – 72 kr./kg. án óvissu, vaxtakostnaðar og arðsemiskröfu. 

Í minnisblaði þeirra segir að það sem einkenni stöðina er að allt er gámabyggt og allt gert til að vera færanlegt. Stöðin tekur við smærra efni, forhreinsuðu og forunnu en efnið þarf að vera þurrt til að geta brunnið. Ekki liggja fyrir gögn um að stöðin uppfylli kröfur um orkunýtingu svo að brennsla úrgangsins geti talist til endurnýtingar í stað förgunar. Óljóst er hversu mikið af brennanlegum úrgangi geti raunverulega hentað í örbrennslu sem þessa, sem dæmi virðist sláturúrgangur ekki henta inn í slíka vinnslu. 

Halla Eyjólfsdóttir

Vestfirska skáldkonan Halla Eyjólfsdóttir hét fullu nafni Hallfríður Guðrún Eyjólfsdóttir og fæddist hún að Múla við Gilsfjörð 11. ágúst 1866.

Halla ólst upp í stórum hópi systkina við þröngan efnahag. Tvítug réði hún sig að Laugabóli við Ísafjörð í Ísafjarðardjúpi og fáeinum árum síðar giftist hún syni hjónanna þar, Þórði Jónssyni frá Laugabóli.

Þau eignuðust 14 börn en misstu þrjú þeirra úr barnaveiki 1904. Þórður var formaður á eigin skipi og sótti sjóinn af kappi. Það kom því í hlut Höllu að hafa umsjón með öllum störfum á bænum, jafnt utan- sem innandyra. Skáldskapurinn átti þó ætíð hug hennar allan þrátt fyrir að hún gæti aðeins sinnt honum í hjáverkum.

Halla andaðist árið 1937 og lifði það að sjá fyrstu ljóðbók sína koma út, Ljóðmæli, en seinni ljóðabók hennar, Kvæði, kom út þremur árum eftir andlát hennar. 2008 var síðan gefin út bókin Svanurinn inn syngur. Ljóð og líf skáldkonunnar Höllu Eyjólfsdóttur í ritstjórn Guðfinnu M. Hreiðarsdóttur.

Sigvaldi Kaldalóns tónskáld var heimilisvinur fjölskyldunnar á Laugabóli og samdi hann lög við ljóð Höllu. Ljóð Höllu urðu landsþekkt með sönglögum Sigvalda.

Af vefsíðunni skald.is

Frá Hesteyri

Síldarþrær. Handvagnar, hjólbörur og menn á plönum milli þrónna. Tvær bryggjur, önnur með járnbrautarteinum. Við bryggju ÍS 449, „Haf…“ og GK 3. T.h. húshorn og niður af því þriðja bryggjan.

Í bakgrunni fjall, fjörður og á honum flutningaskip og tveir togarar í hnapp.

ÍS 449 er Hafstein eign hf. Græðis á Flateyri. GK 3 er Ver frá Hafnarfirði. S.k. efri bryggjur eru niður undan síldarþrónum og verksmiðjuhúsinu, sem er t.h. á mynd. Lengst t.h. sér á kolabryggju (undan verksmiðjuhúsinu).

Karlmaður á jakkafötum á planinu fremst á mynd er Haukur Thors, forstjóri og einn eigenda Kveldúlfs, en hann annaðist rekstur síldarverksmiðjunnar á Hesteyri.

Af sarpur.is

Vinnslu skylda afnumin á Sauðárkrók og Hofsósi

Fiskistofa vekur athygli á því að búið er að afnema vinnsluskyldu í Skagafirði, nánar tiltekið Sauðárkrók og Hofsósi.

Matvælaráðherra hefur með auglýsingu tilkynnt um breytingu á sérreglum í sveitafélaginu Skagafirði um úthlutun byggðakvóta, þannig að nú er löndunarskylda innan sveitaféalgsins en vinnsluskyldan er felld niður.

Í þessu felst að afli sem landað er innan sveitafélagsins á tímabilinu 1. september 2023 til 18. ágúst 2024 og boðinn er upp á fiskmarkaði telst hafa verið landað til vinnslu í skilningi reglugerðar um úthlutun byggðakvóta.

Blautt á vestanverðu landinu í júlí

Júlí var tiltölulega hlýr á norðanverðu landinu en það var svalara sunnanlands. Að tiltölu var hlýjast á Norðausturlandi en kaldast á Suðvesturlandi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,7 stig á Staðarhól í Aðaldal. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,6 stig á Þingvöllum.

Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í júlí miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 12,7 stig á Akureyri, en lægstur 5,7 stig á Gagnheiði. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 7,8 stig í Seley.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 27,5 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 14. Mest frost í mánuðinum mældist -2,0 stig á Gagnheiði þ. 6. Mest frost í byggð mældist -1,6 stig í Svartárkoti þ. 8.

Það var óvenju blautt á vestanverðu landinu í júlí. Á nokkrum úrkomustöðvum á Vesturlandi er júlíúrkoman sú mesta sem mælst hefur, t.d. á Ásgarði, Lambavatni og Hjarðarfelli.

Mikið vatnsveður gerði á Vesturlandi dagana 13. og 14. júlí, þá sérstaklega á Snæfellsnesi og Barðaströnd. Því fylgdu miklir vatnavextir og einhverjar skriður féllu á þessum svæðum. Úrkoman mældist langmest í Grundarfirði þessa daga. Sólarhringsúrkoman að morgni þess 14. mældist 227 mm sem er mesta úrkoma mæld hefur verið á einum sólarhring í Grundarfirði og jafnframt mesta sólarhringsúrkoma sem mæld hefur verið í júlímánuði á landsvísu. 

Einnig var mjög úrkomusamt á Tröllaskaga og í Skagafirði dagana 21. og 22. júlí. Mest mældist úrkoman á Siglufirði og Ólafsfirði. Nokkrar aurskriður féllu í kjölfarið á þessu svæði.  

Mánuðurinn var mjög úrkomusamur í Reykjavík. Úrkoman mældist 89,7 mm sem er 80% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Úrkoman í Reykjavík hefur ekki mælst meiri í júlí síðan 1984 (júlí 2014 var þó álíka blautur og nú). Á Akureyri mældist úrkoman 24,4 mm sem er um 70% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 56,7 mm og 61,5 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 13 sem er 3 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 8 daga sem eru 1 fleiri en í meðalári.

Það var þungbúið í Reykjavík í júlí. Sólskinsstundir mældust 110,9 sem er 72,3 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 175,0 sem er 22,5 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Sameinumst á Ströndum: bæjarhátíð á Hólmavík

Hátíðin Sameinumst á Ströndum verður haldin á Hólmavík um aðra helgi, dagana 9. – 11.ágúst.

Veggleg dagskrá hefur verið útbúin af heimafólki og hefst hún á föstudagskvöldinu kl 19:30 með hlaupi frá Hermannslundi, sem að sjáfsögðu er kenndur við Hermann Jónasson, fyrrv. forsætisráðherra og þingmann Strandamanna.

Gestum verður svo boðið í kjötsúpu á ýmsum stöðum á Hólmavík og seinna um kvöldið verður pöbbkviss í Bragganum.

Á laugardeginum verður líka mikið um að vera eins og sjá má : Loppumarkaður, sápurennibraut , golfmót, vinnustofa og fjölskylduskemmtun á Galdratúninu.

Síðan taka við galdramannaleikur, harmonikuskemmtun, tónleikar Mugison og brekkusöngur og útiskemmtun í Kirkjuhvammi.

Dagskránni lýkur svo á sunnideginum:

Innsetningarræða Höllu Tómasdóttur forseta Íslands

Góðir Íslendingar.
Ég stend hér í dag með hjartað fullt af þakklæti fyrir það traust sem mér – og okkur hjónum – hefur verið sýnt og þann stuðning sem við höfum notið um allt land.
Ég er þakklát foreldrum mínum sem gáfu mér gott veganesti út í lífið og þakklát kjarkmiklu konunum sem sýndu mér ungri að aldri að með hugrekki og samtakamætti getum við hreyft við samfélaginu og leitt framfarir.
Ég er þakklát fyrir að hafa fæðst hér á landi – fyrir að fá að vera Íslendingur, sem í dag er öfundsvert hlutskipti, þótt það hafi ekki alltaf verið svo í gegnum aldirnar.
Ég þakka gengnum kynslóðum sem með einmuna seiglu ekki aðeins héldu landinu í byggð heldur sköpuðu einstakan menningararf sem við Íslendingar megum vera afar stolt af.
Ég þakka öllum sem lagt hafa grunninn að því sem við njótum í dag í einu mesta velferðarríki heims.  
Mér er ljós sú mikla ábyrgð sem ég tekst á hendur og mun leggja mig alla fram um að vinna landi og þjóð það gagn sem ég má. Ég veit að ég byggi á traustum grunni þeirra sem á undan fóru og minnist með virðingu Sveins Björnssonar, Ásgeirs Ásgeirssonar og Kristjáns Eldjárns. Þá er heiður að mega persónulega þakka Vigdísi Finnbogadóttur, Ólafi Ragnari Grímssyni og Guðna Th. Jóhannessyni fyrir þeirra forsetatíð og framlag í þágu þjóðarinnar.
Nú þegar ég vinn drengskaparheit að íslensku stjórnarskránni eru aðeins áttatíu ár liðin frá stofnun lýðveldisins. Áttatíu ár eru um það bil einn mannsaldur. Hvað hefur áunnist á þessum tíma? Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg?


Íslendingar eru þrefalt fleiri nú en þá, og allar aðstæður eru gjörbreyttar:
Menntun, efnahagur, heilbrigðisþjónusta, samgöngur, samsetning þjóðar, atvinnulífið, þjóðartekjur. Við, sem vorum ein fátækasta þjóð Norður Evrópu erum nú meðal ríkustu þjóða heims. Það hefur orðið umbylting á einungis áttatíu árum – og því er vert að spyrja á þessum tímamótum, hvert viljum við stefna, já og hvar viljum við vera stödd, bæði í náinni framtíð en jafnvel líka að áttatíu árum liðnum?
Það kom vel í ljós á ferðum okkar hjóna um landið í vor hversu annt Íslendingum er um landið sitt og tungumál og hversu stolt við erum af afrekum okkar og þjóðararfi.

Það var sérstaklega gleðilegt að sjá að nýsköpunarumhverfið hefur tekið stakkaskiptum víða um land. Sjálfbær þróun matvæla skilar fjölbreyttum og gómsætum vörum sem áður fengust bara innfluttar, fullnýting sjávarafurða gerir að verkum að áður verðlaus úrgangur er orðinn að dýrmætri vöru, framþróun í hugbúnaðargerð haslar sér völl án landamæra og í menningartengdri ferðaþjónustu virðast tækifærin óþrjótandi.  
Við eigum að halda áfram að byggja á styrkleikum okkar, virkja sköpunargáfuna og vanda til verka. Við eigum óhrædd að hvetja kappsfullt hæfileikafólk til dáða og ekki gera lítið úr dýrmætum skóla mistakanna. Sár reynsla getur og hefur styrkt okkur. 
Sköpunarkraftur Íslendinga er líklega hvað sterkastur í listum, og þar hefur stjarna bókmenntanna lengi skinið skærast. En nú bætist hver listgreinin við af annarri – tónlist, sjónrænar listir, myndlist, leiklist, sviðslistir og kvikmyndagerð blómstra og sýna hvaða árangurs má vænta ef hlúð er að vaxtarsprotum með menntun og öðrum stuðningi. Það er löngu ljóst að listgreinar auðga ekki aðeins andann, heldur gegna þær mikilvægu hlutverki þjóðhagslega.


Hvert á land sem við hjónin komum voru íþróttavellir og víðast íþróttahús. Íþróttir gegna ómetanlegu hlutverki fyrir heilbrigði einstaklinga og samfélags. Heilbrigð sál í hraustum líkama, segir máltækið. Ekki bara það, því fátt sameinar okkar þjóð eins og þegar afreksfólkið okkar keppir á alþjóðlegum stórmótum. Er skemmst að minnast frábærrar frammistöðu íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu sem er nú á leið í lokakeppni Evrópumótsins á næsta ári. Og einmitt þessa dagana keppa glæsilegir fulltrúar lands og þjóðar á Ólympíuleikunum í París. Við sendum þeim heillakveðjur! Og við hjónin hlökkum til að fylgja íslenskum keppendum á Ólympíuleika fatlaðra í lok mánaðar.


Við höfum mörgu að fagna en þurfum jafnframt að mæta áskorunum. Það horfir ófriðlega í heiminum og harka færist í samskipti innan þjóða og milli þjóða. Mikilvæg mannréttindi, sem áunnist hafa með langri baráttu, eiga nú undir högg að sækja. Fólki hættir til að skipa sér í skotgrafir – í andstæðar fylkingar. Svo læst er það sumt í afstöðu sinni að það heyrir ekki hvert í öðru. Einn alvarlegasti fylgifiskur þess er að traustið, mikilvægasti grunnur mannlegs samfélags, fer þverrandi.

Um allan hinn vestræna heim hafa yfirvöld, fjármálastofnanir, fyrirtæki, fjölmiðlar og stjórnkerfi misst tiltrú almennings. Þótt flest sinni störfum sínum af heilindum, þá hafa þau, sem ekki reynast traustsins verð, valdið skaða.
Reynsla og rannsóknir sýna að minnkað traust veldur sinnuleysi meðal kjósenda. Fólki, og þá sérstaklega ungu fólki, finnst ekki taka því að kjósa, finnst að það breyti engu. Það finnur jafnvel ekki tilgang í því að taka þátt í samfélaginu. Sífellt fleiri heillast af málflutningi þeirra sem bjóða einfaldar og oft öfgakenndar lausnir.
Við megum ekki sýna andvaraleysi í þessum efnum og nú bætist það við að tæknin gerir kleift að falsa bæði hljóð og mynd – svo nær ómögulegt verður að greina sannar fréttir frá fölsuðum. Hverju og hverjum er þá óhætt að trúa?
Hvað verður um traustið?  Tækniþróunin verður ekki stöðvuð en grandaleysi á þessu sviði getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélög og þróun lýðræðis.  


Mér hefur orðið tíðrætt um andlega og samfélagslega heilsu. Ég get ómögulega aðskilið þetta tvennt, því andleg vanlíðan dregur mátt úr fólki og leggur þungan toll á samfélagið. Því miður fer einmanaleiki vaxandi hjá ungum sem eldri. Margir dvelja lengur í rafheimum en raunheimum. Kvíði, þunglyndi,
neysla og sjálfsskaði hafa aukist stórlega á skömmum tíma. Hvernig má það vera að ein hamingjusamasta þjóð í heimi skipi sér jafnframt í fremstu röð hvað þessa ískyggilegu þróun varðar? 


Páll Skúlason heimspekingur ritaði eitt sinn: Getum við þá ekkert gert til að vera hamingjusöm? Öðru nær: við getum verið opin fyrir hamingjunni með því að einbeita okkur að því sem gefur lífinu gildi. Og við vitum hvað það er með því að veita því eftirtekt sem glæðir lífið birtu og hlýju.
Við getum og við verðum að bæta andlega og samfélagslega heilsu. Ég vonast til að leggja mitt af mörkum við að ráðast að rótum vandans í góðri samvinnu við stjórnvöld, fræðimenn, heilbrigðisstarfsfólk, félagasamtök, fjölmiðla og ekki síst kennara og foreldra. Á umbreytingatímum eru samtal og samstarf kynslóða og ólíkra hópa samfélagsins lykillinn að því að hér ríki jafnrétti milli kynslóða og samfélagsleg sátt. Það er því mikilvægt að unga fólkið fái sæti við borðið, fái alvöru aðkomu að því að móta sína framtíð og njóti þar reynslu og visku eldra fólks. 
Á svona tímum er nauðsynlegt að staldra við og íhuga hver við viljum vera, hvert við viljum stefna og hvernig við getum styrkt traust milli manna.
Hvert viljum við beina íslenska lýðveldinu næstu 80 árin? Við þurfum að átta okkur á því og stilla okkur af. Því hvert stefnir þjóðarskúta með illa stilltan áttavita og veikan samfélagssáttmála? 
Í mínum störfum hef ég farið fyrir nýrri nálgun að úrlausn áskorana og dregið af því lærdóm. Reynslan hefur kennt mér að farsælast er að kalla ólíka saman, spyrja spurninga og hlusta á fjölbreytt sjónarmið. Fá fólk til að greina og skilja vandann og sóknarfærin – og sníða lausnir sameiginlega. Þegar traust er lítið þurfa stjórnvöld, atvinnulífið og samfélagið allt að koma saman með nýjum hætti, vinna saman að framtíðarsýn á sameiginlegum grunni þjóðarinnar. Það er meira framboð en eftirspurn eftir þeim sem þykjast eiga öll svör, en þjóðin sjálf, ekki síst unga kynslóðin, sættir sig ekki lengur við að fá ekki að svara til um sína framtíð.
Höfum við hugrekki til að fara nýjar leiðir? Getum við, íslenskt samfélag, valið mýktina, talað saman, unnið saman þvert á kynslóðir og ólíkar skoðanir og stillt kompásinn þannig að við villumst síður af leið? Valið samstöðu fremur en sundrungu? Spurt stórra spurninga og leitað svara með þjóðinni? Sú nálgun sem
við veljum nú ræður miklu um hvernig íslenska lýðveldinu farnast næstu áttatíu ár. Hvaða veruleiki bíður barna okkar og barnabarna? 
Ekkert eitt okkar hefur svörin við þeim fjölbreyttu áskorunum sem við blasa. En ég mun sem forseti hvetja okkur til að spyrja spurninga og eiga uppbyggilegt samtal og samstarf svo móta megi hvert við viljum halda og hvaða grunnstef skuli varða þá vegferð. Þannig trúi ég að við finnum svörin, saman, og
getum tekist af íslenskri seiglu og í samheldni á við hverja þá áskorun sem breytt heimsmynd og staða samfélagsins kallar á.


Ég er sannfærð um að Ísland og Íslendingar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í heimi í vanda. Ég hef trú á styrkleikum okkar og veit að við getum áfram byggt á þeirri sérstöðu sem við höfum þegar skapað okkur á sviði jafnréttis og jarðvarma, í listum, íþróttum og í lýðræðislegri þróun samfélags sem setur mannréttindi á oddinn. Ég tel styrk okkar ekki síst felast í smæðinni og – í mýktinni. Smá, en kná og kjarkmikil þjóð sem hefur visku og metnað til að velja mýkri leiðir í hörðum heimi. Ég trúi því að við getum valið að vera friðsæl þjóð sem nýtur velsældar og réttir jafnframt hlýja hönd til þeirra sem á þurfa að halda. Þannig getum við verið öðrum góð fyrirmynd og ljós í því myrkri sem víða ríkir.   


Kæru landar, það val byrjar hjá hverjum og einum. Hver ætlum við að vera og hvað veljum við að gera á tímum þegar svo margir velja átök og árásir á þá sem ekki eru þeim sammála? Mætum við hvert öðru með opnum hug og hjarta, tilbúin til að hlusta og leggja okkur fram um að skilja ólík sjónarmið, ólíka lífsreynslu og sýn? Sannleikurinn er sá að það að velja að hlusta, að einsetja sér að reyna að skilja hvaðan aðrir koma, krefst kjarks og reynir meira á okkur til skemmri tíma en að loka og fara í vörn. Höfum við kjarkinn sem þarf til að velja mennsku og frið í eigin ranni og mynda þannig jarðveg fyrir samfélag þar sem flestum er fært að blómstra á sínum forsendum? Ég vil að við stefnum þangað. Virkjum getu okkar til að skapa slíkt samfélag, saman, fyrir og með næstu kynslóð. Ég veit að við getum það! 


Ísland er einstakt land og við erum skapandi þjóð sem leitar nú svara við mörgum áleitnum spurningum. Ég hlakka til að vinna með ykkur af metnaði að bjartri framtíð okkar lýðveldis og geri ljóð Hólmfríðar Sigurðardóttur, Leitum, að mínum lokaorðum:

Leitum úrræða
látum hendur og orð
fallast í faðma
leitum gleðinnar
í ljóðinu
finnum frelsið
í höndunum
leitum regnbogans
finnum ljósberann
leitum láns
finnum það leika um líf
lands vatns og ljóss.

Nýjustu fréttir