Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 24

Alþingi: fyrirspurn um öryggiskröfur í jarðgöngum og forgangsröðun

Sigurjón Þórðarson.

Sigurjón Þórðarson, varaþingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi hefur lagt fram á Alþingi fyrrspurn til  innviðaráðherra um öryggiskröfur í jarðgöngum.

Fyrirspurnin er í átta liðum og m.a. spurt um flóttaleiðir í súrefnisrými í Vestfjarðagöngum og um áhættumat og viðbragsáætlanir í göngunum. Þá spyr Sigurjón um það hvort eldsvoðinn í rútu í Tungudal verði til þess að forgangsröðun jarðganga verði endurskoðuð og hvort horft verði til breikkunar Vestfjarðaganga á báðum einbreiðum leggjum.

1.      Er kröfum reglugerðar um öryggiskröfur fyrir jarðgöng, nr. 895/2021, fylgt eftir og þær uppfylltar, t.d. að því er varðar öryggi vegfarenda í jarðgöngum, m.a. vegna eldsvoða? Hvernig hefur eftirliti skv. 8. gr. reglugerðarinnar verið háttað?
2.      Fer fram skráning á því hvort um er að ræða umferð þungaflutninga, farþegaflutninga eða olíuflutninga um Vestfjarðagöng?
3.      Hvaða reglur gilda um olíuflutninga í jarðgöngum?
4.      Er flóttaleið í súrefnisrými í Vestfjarðagöngum, sbr. Hvalfjarðargöng?
5.      Hafa áhættumat og viðbragðsáætlanir í Vestfjarðagöngum við eldsvoða þar tekið mið af súrefnisskorti, flóttaleiðum og möguleikum viðbragðsaðila til björgunaraðgerða í einbreiðum hluta ganganna?
6.      Eru klæðningar innan á gangaveggjum Vestfjarðaganga viðurkenndar í dag til notkunar hvað varðar bruna og eldsmat? Ef ekki, hvað vantar á svo að Vestfjarðagöng stæðust kröfur til sambærilegra ganga sem gerð eru í dag?
7.      Fengjust Vestfjarðagöng viðurkennd lögleg miðað við kröfur EES-staðla í dag?
8.      Verður forgangsröðun jarðganga endurskoðuð vegna eldsvoða í rútu utan við Vestfjarðagöng og horft til breikkunar samhliða á báðum einbreiðu leggjum Vestfjarðaganga?

Strandanefnd: ekkert liggur fyrir enn

Hólmavíkurhöfn í sumar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð segir að ríkisstjórnin hafi fjallað einu sinni um tillögur Strandanefndar en vilji taka aðra umræðu. Ekkert liggi því fyrir enn.

Ríkisstjórnin skipaði nefndina eftir erindi frá sveitarstjórnum á Ströndum í nóvember 2023 og skyldi nefndin leggja til aðgerðir á Ströndum sem lúti að fjárfestingum, verkefnum stofnana og búsetuskilyrði á Ströndum.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps lýsti yfir vonbrigðum með skýrsluna nefndarinnar og telur að ekki hafi verið unnið áfram með fjölda hugmynda sem komu fram í upphafi en einblínt var á verkefni sem þegar eru komin í farveg.

Í síðustu viku lagði alþingismaðurinn Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (B) fram fyrirspurn á Alþingi til forsætisráðherra og spyr: „Hyggst ráðherra bregðast við tillögum Strandanefndar sem var stofnuð í byrjun árs 2024 til þess að styrkja stöðu sveitarfélaganna Strandabyggðar, Árneshrepps og Kaldrananeshrepps?“

Tillögur Strandanefndar hafa ekki verið birtar.

Ísafjarðarbær: 83,4% hækkun fasteignamats á fjórum árum

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Heildarfasteignamat í Ísafjarðarbæ árið 2025 er 86.3 milljarðar króna, en var kr. 76.6 milljarðar króna árið 2024. Hækkunin milli ára er 12,7%. Fasteignamatið hefur hækkað frá árinu 2021 frá 12%-20% milli ára. Frá árinu 2021 hefur fasteignamat hækkað um 83,4%.

Fram kemur í minnisblaði fjármálastjóra að í fyrstu drögum að áætlun álagningar 2025 er gert ráð fyrir lækkun fasteignaskatts íbúðarhúnæðis um 0,02%, vatnsgjöld hækki um 4,6%, holræsagjöld eru óbreytt og sorpgjöld hækka um 10%.

Miðað við þessar forsendur hækka tekjur af fasteigangjöldum (utan sorpgjalda) um 9,5% sem skilar auknum tekjum upp á 64,5 m.kr. á árinu 2025 og yrðu þær þá 909 m.kr.

Fasteignaskatturinn einn og sér verðu 619 m.kr. og hækkar um 54 m.kr. eða um 84% af heildarhækkuninni af fasteignagjöldunum.

Bæjarráðið frestaði á mánudaginn töku ákvörðunar í málinu og fól bæjarstjóra að leggja fram frekari gögn.

Ísafjarðarbær: aðgerðaráætlun menningarstefnu vísað til fjárhagsáætlunar fyrir 2025

Menningarmálanefnd leggur til að unnið verði að áframhaldandi endurbótum á Safnahúsinu. (kjallari og loftræsting 30 m, gluggar 15m, unglingar og forstofa 2 m)

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar féllst ekki á tillögu menningarmálanefndar sem lagði til að bæjarstjórn samþykkti aðgerðaáætlun menningarmála fyrir árið 2025, og nefndin lagði auk þess sérstaka áherslu á að setja þurfi á fót stöðugildi menningarfulltrúa eigi aðgerðaáætlun að ganga eftir.

Bæjarstjónin samþykkti þess í stað að vísa tillögum í aðgerðaráætluninni til fjárhagsáætlunargerðar fyrir næsta ár. Hver afdrif tillagnanna verða kemur ekki í ljós fyrr en þá.

Meðal tillagnanna er að unnið verði að endurbótum á Safnahúsinu, auka við opnun í Safnahúsi á stórum skipadögum, að menningarstofnanir hafi fjármagn í viðburði og sýningar, bætt aðgangi á Byggðasafni með stígum og ljósum og setja upp rafdrifnar hurðir og rampa í Jónshúsi Neðstakaupstaðar.

7,3 milljarðar kr. í ný hlutdeildarlán

Opnað hefur verið að nýju fyrir umsóknir um hlutdeildarlán hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa til boða fyrir fyrstu kaupendur og þau   sem ekki hafa átt íbúð sl. fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Lánunum er því ætlað að auðvelda fólki að brúa bilið við fasteignakaup og komast inn á húsnæðismarkaðinn.

Á þessu ári eru 7,3 milljarðar króna til úthlutunar, en það sem af er ári hefur HMS úthlutað 3,3 milljörðum króna til 265 íbúða. Á næstu vikum verður opnað fyrir þriðju úthlutun stofnframlaga 2024.

Hlutdeildarlán eru veitt fyrir allt að 20% kaupverðs og þarf lántaki   að reiða fram a.m.k. 5% í formi eigin fjár. Lánin eru ólík öðrum lánum að því leyti að ekki eru um að ræða mánaðarlegar greiðslur eða vexti heldur er lán greitt til baka eftir 10-25 ár eða við sölu íbúðar. 

Hjon með tvö börn mega hafa 16,8 m.kr. árstekjur

Þá hefur Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra undirritað reglugerð um hækkun á tekjumörkum vegna hlutdeildarlána.

  • Hámarkstekjur einstaklings geta numið allt að 9.465.000 kr. miðað við sl. 12 mánuði.
  • Hámarkstekjur hjóna eða sambýlisfólks eru kr. 13.221.000 kr. miðað við sl. 12 mánuði.
  • Viðbót við þessi tekjumörk vegna hvers barns eða ungmennis sem er undir 20 ára aldri og er á framfæri umsækjanda eða býr á heimilinu er 1.805.000 kr.

Þá er heimilt að veita allt að 30% hlutdeildarlán til einstaklinga með lægri tekjur en 6.283.000 kr. á ári eða til hjóna eða sambúðarfólks með samanlagt lægri tekjur en 8.789.000 kr. á ári miðað við síðastliðna 12 mánuði. Við þær tekjur bætast 1.953.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem er á framfæri umsækjanda eða býr á heimilinu.

Ísafjarðarbær: tendrun jólaljósa ákveðin

T.Í. hefur komið að tendrum jólaljósanna með margvíslegum hætti og má hér sjá Lúðrasveitina leika fyrir gesti 2016.

Menningarmálanefnd hefur samþykkt að jólaljós á jólatrjám í Ísafjarðarbæ verði:

23. nóvember, laugardagur: Suðureyri
24. nóvember, sunnudagur: Þingeyri
30. nóvember, laugardagur: Ísafjörður
1. desember, sunnudagur: Flateyri

Samráð verður haft við hverfisráð á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri um fyrirkomulag tendrana. Á Ísafirði hefur fjáröflunarnefnd 10. bekkjar Grunnskólans á Ísafirði komið af fullum krafti inn í torgsölu á Silfurtorgi síðustu tvö ár og mun sá háttur vera á áfram.

Ísafjörður: skútueigendur óska eftir nýrri flotbryggju í Sundahöfn

Skútur í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hafnastjórn Ísafjarðarhafna hefur borist erindi frá 29 skútueigendur þar sem óskað er eftir að sett verði ný flotbryggja í Sundahöfn fyrir næsta sumar í stað þeirrar sem var fjarlægð fyrir nokkrum árum. Þá þurfi að
endurnýja stauraflotbryggjuna í Sundahöfn og huga að framtíðarskipulagi skútuaðstöðu við Olíumúlann.

Í erindinu segir að í Ísafjarðarhöfn séu fjórar flotbryggjur sem hægt er að liggja við, þar af tvær mjög litlar. Sjaldnast eru laus viðlegurými á þessum bryggjum yfir sumarið og fá á veturnar. Stærsta bryggjan, staurabryggjan í Sundahöfn, sé í lélegu ástandi og þarfnist endurnýjunnar.

Í Sundahöfn var áður flotbryggja með básum í eigu einkaaðila. Sú bryggja eyðilagðist fyrir nokkrum árum og er ekki útlit fyrir að hún verði endurnýjuð af eigendum bryggjunnar. Skútuflotbryggjan við Olíumúlann er fullnýtt allt árið og í sumar hafa auk þess yfirleitt verið sjö skútur í legufærum á Pollinum auk margra aðkomuskúta sem hafa ýmist verið við hafnarkant, í legufærum eða akkeri.

Ástandið sé þannig að það er erfitt að fá viðlegupláss í höfninni. Skútueigendur hafa flúið út í legufæri með tilheyrandi óhagræði fyrir þá og óþarfi er að fjölyrða um það tjón sem varð í áhlaupinu 5. september.

Hafnastjóri Hilmar Lyngmo tekur undir það að vöntun er á viðlegurými fyrir báta í höfnum á Ísafirði, Suðureyri og Þingeyri.

Hafnarstjórn fól hafnarstjóra að vinna tillögur að endurbótum á aðstöðu fyrir smábáta og skútur á bátahöfn við gamla olíumúlann og leggja fram á næsta fundi stjórnar.

Strandabyggð: fyrrv. sveitarstjóri segir ummæli núverandi sveitarstjóra villandi, röng og særandi

Frá Hólmavík.

Andrea K. Jónsdóttir fyrrverandi sveitarstjóri í Strandabyggð gerir athugasemd við ummæli Þorgeirs Pálssonar í garð Jóns Jónssonar og segir þau vera röng, villandi og særandi.

Þorgeir Pálsson sagði á bb.is í gær að upplýst hefði verið á fund sveitarstjórnar 10. ágúst 2021 að styrkveitingar til Jóns Jónssonar síðustu 20 ára hafi numið 61 m.kr.

Andrea segir að fjárhæðin 61 m.kr. séu styrkveitingar á 20 ára tímabili annars vegar til Galdrasafnsins 53,5 mkr. sem að langmestu leyti sé styrktar- og þjónustusamningur vegna reksturs Galdrasafnsins á Upplýsingamiðstöðvar ferðamála fyrir Strandabyggð og hins vegar 7,7 m.kr. til Sauðfjárseturs á Ströndum. Ekki sé um styrkveitingar til Jóns Jónssonar eins og Þorgeir Pálsson haldi fram á bb.is.

Á framangreindum fundi sveitarstjórnar í ágúst 2021 var birt svar Strandabyggðar fyrir fyrirspurnum Þorgeirs Pálssonar. Þar spurði Þorgeir m.a. um heildarupphæð styrkveitinga (beinna og óbeinna) sveitarfélagsins Strandabyggðar til Galdrasýningar á Ströndum (Galdrasafnsins) kt. 540300-2080 sl. 20 ár og um heildarupphæð styrkveitinga (beinna og óbeinna) til Sauðfjárseturs á Ströndum, kt 580209-1570 sl. 20 ár.

Vikuviðtalið: Jóhanna Ösp Einarsdóttir

Ég heiti Jóhanna Ösp Einarsdóttir. Ég er fædd og uppalin í Fremri Gufudal í Reykhólahreppi. Ég bý með Styrmi Sæmundssyni og börnunum okkar þremur; Ásborgu, Einari Val og Yrsu Dís í Kaplaskjóli í Fremri Gufudal. Þar sem við rekum sauðfjárbú ásamt foreldrum mínum og systur. 

Í gegnum tíðina hafa flest mín störf verið tengd félagsmálum. Ég starfaði í mörg ár í ungmenna og tómstundabúðunum að Laugum í Sælingsdal þar sem ég byrjaði 20 ára gömul. Það staf mótaði mig að stórum hluta í að fá brennandi áhuga á félags- og tómstundamálum. Síðan varð ég tómstundafulltrúi Reykhólahrepps og ég gengdi því starfi þangað til í haust. Núna er ég að taka mín fyrstu skref í kennslu í Reykhólaskóla, samhliða því að vera í kennaranámi í Háskólanum á Akureyri. Ég er oddviti Reykhólahrepps, er að ljúka kjörtímabili sem formaður stjórnar Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga og á tyllidögum þykist ég stundum vera bóndi.

Ég hef mikinn áhuga á margskonar útivist, aðallega í góðu veðri samt. Að vera á fjalli í góðu haustveðri að rölta á eftir óþekkri kind, með góðan smalahund (í láni frá manninum mínum) eru mjög gefandi aðstæður. Þau forréttindi að fara í reiðtúr á björtu sumarkvöldi á góðum hesti (nánar tiltekið rauðblesótt hryssa sem heitir Ameríka) gefa mér einhverja þá mestu hugarró sem hugsast getur. Ég hef einlægan áhuga á byggðaþróunarmálum, með sérstaka áherslu á dreifðar byggðir. Svo þegar ég hef verið mjög upptekin í langan tíma, sem gerist alveg, þá finnst mér mjög gott að planta mér fyrir framan sjónvarpið, hámhorfa á Netflix og knúsa börnin mín. 

Mér finnst mjög gaman að vera í kringum börn og ungmenni og hlusta á skoðanir þeirra, viðhorf og hugmyndir. 

Það má því segja að ég búið við þau forréttindi undanfarin 20 ár að hafa fengið að starfa við hluti sem ég hef brennandi áhuga á og hafa veitt mér mikla gleði og ánægju. Þannig að það er mjög gott að staldra við reglulega og vera þakklátur. 

Bestu kveðjur úr Gufsunni* 

Jóhanna Gufsari

*Gufsan er gamalt gælunafn á gamla Gufudalshrepp. Íbúar Gufdalshrepps voru kallaðir Gufsarar og ekki þótti öllum vænt um það viðurnefni. 

Maskína: Miðflokkurinn stærstur í Norðvesturkjördæmi

Bergþór Ólason yrði fyrsti þingmaður kjördæmisins samkvæmt könnun Maskínu að því gefnu að hann bjóði sig fram og verði áfram efsti maður Miðflokksins.

Í nýjustu könnun Maskínu, sem gerð var í september, er Miðflokkurinn með mest fylgi í Norðvesturkjördæmi og mælist flokkurinn með 25% fylgi. Flokkurinn fékk 7,4% atkvæða í síðustu Alþingiskosningum sem voru í september 2021. Hefur flokkurin liðlega þrefaldað fylgi sitt.

Samfylkingin er næststærst samkvæmt þessari könnun og mælist hún með 23,6% fylgi. Samfylkingin fékk 6,9% fylgi fyrir þremur árum og hefur hún líka liðlega þrefaldað fylgi sitt.

Framsóknarflokkurinn fengi 14,4% fylgi samkvæmt könnun Maskínu en fékk 25,8% í síðustu Alþingiskosningum. Sjálfstæðisflokkurinn er aðeins í fjórða sæti og mælist með 13,3% fylgi í könnun Maskínu. Það er um helmingur fylgisins í Alþingiskosningunum síðustu þegar flokkurinn fékk 22,5% atkvæða.

Aðrir flokkar fá mun minna fylgi í könnun Maskínu, Flokkur fólksins 6,8%, Viðreisn 5,7%, Sósíalistaflokkurinn 4,3%, Vinstri græn 3,6% og Píratar 3,3%.

Mest fylgi í Norðvesturkjördæmi

Norðvesturkjördæmi er það kjördæmi þar sem Miðflokknum vegnar best. Sama má segja um Framsóknarflokkinn. Báðir þessir flokkar fá mun meira fylgi í Norðvesturkjördæmi en flokkarnir fá á landsvísu. Miðflokkurinn er með 19% á landsvísu sem er 6% minna en í Norðvesturkjördæmi og Framsókn er með um 6% meira fylgi í kjördæminu en á landsvísu.

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking fá í Norðvesturjördæmi svipað fylgi og á landsvísu 13,4% og 25%. Sama má segja um Vinstri græn, þau mælast með 3,6% í kjördæminu en með 3,7% á landsvísu. Sóslíaslistaflokkurinn er með 4,3% í kjördæminu og 4,7% á landsvísu.

Hins vegar eru Flokkur fólksins og Píratar með minna fylgi í Norðvesturkjördæmi en á landsvísu. Píratar mælast með 8,5% fylgi en aðeins 3,3% í Norðvesturkjördæmi. Flokkur fólksins fengi 8,8% fylgi á landinu öllu en 6,8% í kjördæminu.

Ef kjördæmaþingsætunum sex yrði skipt samkvæmt könnuninni fengi Miðflokkurinn tvö þingsæti, svo og Samfylkingin, en Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn eitt þingsæti hvor. Jöfnunarsætið, sem verður sjöunda þingsæti kjördæmisins, er óvíst hvar lendir.

Könnun Maskínu um fylgi flokkanna í september á landsvísu. Tvær síðustu kannanir á undan eru einnig sýndar svo og úrslit síðustu Alþingiskosninga lengst til vinstri.

Nýjustu fréttir