Síða 2371

Stefna Arnarlaxi, MAST og UST

Í frétt á mbl.is er greint frá því að Málsóknarfélagið Náttúruvernd 1 hafi birt Arnarlaxi hf., Matvælastofnun og Umhverfisstofnun stefnu þar sem krafist er ógildingar rekstrar- og starfsleyfa sem gefin voru út á þessu ári vegna sjókvíaeldis á norskættuðum laxi í Arnarfirði. Málsókn hefur verið í undirbúningi um hríð en fjallað var um hana í október.

Að Náttúruvernd 1 standa meðal annars eigendur veiðiréttinda í lax- og silungsveiðiám. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. janúar. Frekar um málsóknina má lesa hér.

Í dag kynnir Arctic Sea Farm hf, áður Dýrfiskur, tillögu sína að matsáætlun fyrir framleiðsluaukningu á laxi í Ísafjarðardjúpi. Fyrirtækið hefur leyfi fyrir 4.000 tonna eldi á silungi en sækir nú um breytingu á því leyfi yfir í lax og bætir um betur með aukningu upp í um það bil 8.000 tonna laxeldi samtals.

Leiða má að því líkum að lyktir máls hvað varðar Málsóknarfélagið Náttúruvernd 1 gagnvart Arnarlaxi, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun muni vera fordæmisgefandi og annað hvort festa atvinnugreinina í sessi eða hindra framgang hennar.

bb@bb.is

Jólablak hjá Vestra

Íþróttafélagið Vestri ætlar að hafa svokallað jólablak í kvöld, fimmtudag 29. desember. Ef nægur fjöldi fæst verður spilað á þremur völlum og dregið í lið eftir hvern leik. Verðlaun verða fyrri stigahæstu einstaklingana.

Á Facebook-viðburði segir að þetta sé tilvalið tækifæri til að hrista af sér jólaspikið og koma í blak.
Spilað verður frá lukkan 19-22 og eru allir 12 ára og eldri velkomnir.

brynja@bb.is

Súðavíkurhreppur með lægsta útsvarið

Öll sveitarfélög á Vestfjörðum nema Súðavíkurhreppur leggja á hámarskútsvar á komandi skattári. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er þeim heimilt að ákveða útsvar á bilinu 12,44% til 14,52%. Í 8 af 9 sveitarfélögum er 14,52% útsvar lagt á, en í Súðavíkuhreppi er 14,48% útsvar lagt á íbúa hreppsins. Þetta kemur fram á vef Fjármálaráðuneytisins.

Af 74 sveitarfélögum á Íslandi leggja 55 á hámarksútsvar. Eitt þeirra, Reykjanesbær, nýtir að auki sérstakt álag og verður útsvarshlutfall þess 15,05%. Þrjú sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar, Ásahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur og Skorradalshreppur.

brynja@bb.is

Stútur við stýri

Aðfaranótt 22. desember var ökumaður á Hólmavík kærður vegna gruns um að vera undir áhrifum fíkniefna. Annar ökumaður sem var á ferð um Hnífsdal í síðastliðna nótt var kærður fyrir að vera undir áhrifum áfengis. Þetta kemur fram í helstu verkefnum Lögreglunnar á Vestfjörðum í liðinni viku. Höfð voru afskipti af ökumanni fólksbifreiðar í vikunni vegna blárra pera í aðalljósum, en slíkt er bannað lögum samkvæmt og ökumanninum gert að skipta um perur strax. Tveir ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Báðir voru þeir í akstri á Djúpvegi. Þá var ökumaður á Patreksfirði í vikunni kærður fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar.

Meðal annarra verkefna lögreglunnar má nefna útkall að morgni 20. desember er lögregla og slökkvilið kallað að íbúð í fjölbýlishúsi á Patreksfirði vegna elds sem hafði brotist þar út. Slökkvilið var fljótt að slökkva eldinn, sem var í einu rými íbúðarinnar. Einn íbúi var fluttur á sjúkrahúsið á Patreksfirði til skoðunar vegna gruns um reykeitrun. Tjón var óverulegt og íbúinn fljótur að jafna sig. Tildrög þessa eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

annska@bb.is

Heimildarmynd um Fjallabræður

Fjallabræður syngja

Í kvöld verður sýnd heimildarmynd um Vestfirska kallakórinn Fjallabræður. Myndin verður sýnd í Háskólabíó klukkan 18:30. Fjallabræður fóru til London í haust og tóku upp nýjustu plötu sína í hinu fornfræga hljóðveri Abbey Road. Framleiðslufyrirtækið Republik var með í för og er heimildarmyndin, Þess vegna erum við hér í kvöld, um þessa frægðarför þessa einstaka hóps.

„Hugmyndin kviknaði þegar við hjá Republik heyrðum af því að til stæði að kórinn tæki upp í Abbey Road. Jón Þór, stóri bróðir Fjallabræðra, hefur unnið með okkur og komið inn í verkefni – hann sagði okkur frá hugmyndinni að fara í Abbey Road. Við bitum strax á agnið og hugmyndin of góð til að taka ekki þátt á einhvern hátt,“ segir Hannes Friðbjarnarson framleiðandi myndarinnar.

„ Við byrjuðum að fylgjast með þeim síðasta sumar, elta þá á æfingar og tónleika, taka viðtöl við meðlimi kórsins, mynda þá og fórum svo með þeim út í haust. Myndin er um Abbey Road ferðina sem slíka, inn í það blandast saga kórsins, hvaða týpur eru í kórnum og hvað það þýðir að vera Fjallabróðir,“ bætir Hannes við.

Myndin verður sem fyrr sagði sýnd í Háskólabíó í Reykjavík. Aðspurður hvort myndin verði sýnd á Vestfjörðum segir Hannes það vera stefnuna: „Okkur langar auðvitað mjög að sýna hana fyrir vestan. Bróðurparturinn af kórnum er frá Vestfjörðum og stefnan er að byrja að vinna í því strax eftir áramót að finna út úr sýningartíma og stað, væntanlega á Ísafirði.“

brynja@bb.is

Foráttuhvasst á fjallvegum

Djúp lægð gengur yfir landið í dag, með öflugum hitaskilum. Þeim fylgir ofsaveður á vestur og norðvesturlandi frá því um klukkan tíu til klukkan tvö í dag. Búist er við sunnanstormi eða -roki í dag með talsverðri rigningu og asahláku. Á Vestfjörðum verður í dag, þriðjudag, sunnan 20-28 metrar á sekúndu og talsverð rigning. Hiti 4 til 10 stig. Þegar líða tekur á daginn breytist áttin í suðvestan 15-23 metra á sekúndu og él undir kvöld þegar kólnar.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að foráttuhvasst verði á fjallvegum vestanlands, svo sem á Bröttubrekku, Holtavörðuheiði, Laxárdalsheiði, Steingrímsfjarðarheiði og á sunnanverðum Vestfjörðum.

Á Vestfjörðum er nú hálka á flestum leiðum þessa stundina en þæfingsfærð á Steingrímsfjarðarheiði og krapi á Mikladal og Hálfdán. Flughálka er á nokkrum köflum svo sem á Kollafirði á Barðaströnd, Ísafjarðardjúpi, í Steingrímsfirði og á Innstrandavegi.

Fólk er hvatt til að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón. Í og við fjalllendi er hætt við vatnsaga og krapa- og aurflóðum úr giljum og rásum.

brynja@bb.is

Atvinnutekjur drógust saman um 8,2%

Atvinnutekjur á Vestfjörðum námu 20 milljörðum krónum á árinu 2015 og höfðu lækkað um ríflega 440 milljónir frá árinu 2008. Þetta gerir samdrátt upp á 2,2%. Í Ísafjarðarbæ drógust atvinnutekjur saman um 8,2%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Byggðastofnun um atvinnutekjur á Íslandi á tímabilinu 2008-2015. Í skýrslunni kemur fram að atvinnutekjur hækkuðu mest á Suðurnesjum en drógust saman á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi.

Í Ísafjarðarbæ fækkaði íbúum um 8,9% og atvinnutekjur drógust saman um 8,2%. Utan Ísafjarðarbæjar fækkaði fólki lítillega á tímabilinu en atvinnutekjur jukust um 5,9%.

Atvinnutekjur á landinu í heild jukust um 1,2% á milli áranna 2008 og 2015, úr 968 milljörðum króna. í 979,6 milljarða króna. Á saman tíma fjölgaði íbúum á landinu um rúmlega 5,4%. Atvinnutekjur á hvern íbúa eru því enn nokkuð lægri en þær voru árið 2008, fyrir hrun.

Á Vestfjörðum varð samdráttur í Ísafjarðarbæ en aukning í heildina utan hans.

brynja@bb.is

Ekki reyktir vindlar né drukkið vín

Stefania Guðnadóttir

Í ljósi veðurhamsins sem nú geysar um íslenskar mannabyggðir er rétt að benda á frásögn Stefaníu Guðnadóttir sem birtist í ritröðinni Hornstrandir Jökulfirðir 3. bók og er um ferðalag ungs fólks á skemmtun árið 1920. Þá hafði verið ákveðið að hittast á því heimili er stærsta hafði stofuna til að dansa en á Ströndum, sem annars staðar á landinu, voru húsakynni almennt ekki mjög stór. En þegar upp rann dagurinn stóri voru veður vond og afar snjóþungt. Þurftu dansþyrstir unglingarnir að vaða snjóinn upp í mið læri og tók það Stefaníu og hennar fylgdarfólk þrjá tíma að komast á áfangastað, þá þreytt, köld og blaut.

En þegar búið var að skipta yfir í sparifötin og hlýja sér á kaffi og með‘í hjá húsmóðurinni á bænum var dansað við undirleik tvöfaldrar harmonikku fram undir morgun, eða alveg þar til húsbóndinn á heimilinu hóf húslestur sem allir hlýddu á.

Í lok frásagnar Stefaníu óskar hún ungum stúlkum nútímans þess að eiga frá sínum skemmtunum í raflýstum og glæstum sölum jafn góðar minningar og hún hefur frá þessari litlu æskuskemmtun.

Lesa má frásögn Stefaníu á Þingeyrarvefnum.

bryndis@bb.is

Þúsund fyrirtæki gjaldþrota síðasta árið

Gjaldþrot fyrirtækja voru 1.010 síðustu tólf mánuði, frá desember 2015 til nóvemberloka í ár og hafði fjölgað um 63% miðað við mánuðina tólf þar á undan þegar gjaldþrot voru 618 að því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofunnar.

Gjaldþrotum fjölgaði hlutfallslega mest í fjármála- og vátryggingastarfsemi, þar sem þau nærri þrefölduðust úr 33 í 91.

Gjaldþrotum fjölgaði í öllum helstu atvinnugreinum en hvað hægast í flutningum og geymslu. 2.688 ný einkahlutafélög voru skráð síðustu 12 mánuði og hafði þeim fjölgað um 15% miðað við fyrra tímabil. Fjölgun nýskráninga var mest í leigustarfsemi og ýmissri sérhæfðri þjónustu úr 163 í 274.

Nýskráningum fækkaði í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum.

brynja@bb.is

Jólakarfa Vestra á aðfangadag

Hin árlega jólakarfa Vestra verður á sínum stað að venju á aðfangadag. Löng hefð er fyrir því að körfuboltakappar mæti á aðfangadagsmorgun á Torfnes og hiti þannig upp fyrir jólahátíðina. Yngri iðkendur (frá 1. bekk og upp úr) mæta klukkan 10 og skemmta sér til 11.00. Þá mæta rosknari og reynslumeiri leikmenn sem sprikla til klukkan 12. Allir eru velkomnir að koma og spila með.

brynja@bb.is

Nýjustu fréttir