Síða 2371

Arna hækkar ekki verð á mjólk

Arna ehf mjólkurframleiðandi ætlar ekki að hækka verð á sínum vörum þrátt fyrir hækkanir á mjólkurmarkaði. Frá því var greint í gær að verðlagsnefnd búvara hafi tekið samhljóða ákvörðun um að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum hækki um 1,7% 1. janúar. Hækkunin þýðir að heildsöluverð á mjólk hækkar um tvær krónur og 75 aura.

Í svörum við fyrirspurnum blaðamanns sagði: „Arna hefur ekki hækkað verð síðan framleiðsla á laktósafríum mjólkurvörum hófst árið 2013 og stefna ekki á verðhækkun þrátt fyrir hækkun heildsöluverðs.“

Í júlí 2015 hækkaði Verðlagsnefnd mjólkurvörur en Arna hækkaði ekki verð til neytenda á sinni framleiðslu, Hálfdán Óskarsson sagði þá í samtali við bb: „Á sama tíma og við lýsum yfir efasemdum með þessa ákvörðun Verðlagsnefndar búvara höfum við hjá Örnu ákveðið að velta þessari hækkun ekki út í heildsöluverðið á okkar vörum. Okkar von er sú að hækkunin verði endurskoðuð og leiðrétt. Þangað til viljum við koma til móts við okkar neytendur og munum við því ekki hækka verð á okkar vörum.“

brynja@bb.is

Stefna Arnarlaxi, MAST og UST

Í frétt á mbl.is er greint frá því að Málsóknarfélagið Náttúruvernd 1 hafi birt Arnarlaxi hf., Matvælastofnun og Umhverfisstofnun stefnu þar sem krafist er ógildingar rekstrar- og starfsleyfa sem gefin voru út á þessu ári vegna sjókvíaeldis á norskættuðum laxi í Arnarfirði. Málsókn hefur verið í undirbúningi um hríð en fjallað var um hana í október.

Að Náttúruvernd 1 standa meðal annars eigendur veiðiréttinda í lax- og silungsveiðiám. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. janúar. Frekar um málsóknina má lesa hér.

Í dag kynnir Arctic Sea Farm hf, áður Dýrfiskur, tillögu sína að matsáætlun fyrir framleiðsluaukningu á laxi í Ísafjarðardjúpi. Fyrirtækið hefur leyfi fyrir 4.000 tonna eldi á silungi en sækir nú um breytingu á því leyfi yfir í lax og bætir um betur með aukningu upp í um það bil 8.000 tonna laxeldi samtals.

Leiða má að því líkum að lyktir máls hvað varðar Málsóknarfélagið Náttúruvernd 1 gagnvart Arnarlaxi, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun muni vera fordæmisgefandi og annað hvort festa atvinnugreinina í sessi eða hindra framgang hennar.

bb@bb.is

Jólablak hjá Vestra

Íþróttafélagið Vestri ætlar að hafa svokallað jólablak í kvöld, fimmtudag 29. desember. Ef nægur fjöldi fæst verður spilað á þremur völlum og dregið í lið eftir hvern leik. Verðlaun verða fyrri stigahæstu einstaklingana.

Á Facebook-viðburði segir að þetta sé tilvalið tækifæri til að hrista af sér jólaspikið og koma í blak.
Spilað verður frá lukkan 19-22 og eru allir 12 ára og eldri velkomnir.

brynja@bb.is

Súðavíkurhreppur með lægsta útsvarið

Öll sveitarfélög á Vestfjörðum nema Súðavíkurhreppur leggja á hámarskútsvar á komandi skattári. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er þeim heimilt að ákveða útsvar á bilinu 12,44% til 14,52%. Í 8 af 9 sveitarfélögum er 14,52% útsvar lagt á, en í Súðavíkuhreppi er 14,48% útsvar lagt á íbúa hreppsins. Þetta kemur fram á vef Fjármálaráðuneytisins.

Af 74 sveitarfélögum á Íslandi leggja 55 á hámarksútsvar. Eitt þeirra, Reykjanesbær, nýtir að auki sérstakt álag og verður útsvarshlutfall þess 15,05%. Þrjú sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar, Ásahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur og Skorradalshreppur.

brynja@bb.is

Stútur við stýri

Aðfaranótt 22. desember var ökumaður á Hólmavík kærður vegna gruns um að vera undir áhrifum fíkniefna. Annar ökumaður sem var á ferð um Hnífsdal í síðastliðna nótt var kærður fyrir að vera undir áhrifum áfengis. Þetta kemur fram í helstu verkefnum Lögreglunnar á Vestfjörðum í liðinni viku. Höfð voru afskipti af ökumanni fólksbifreiðar í vikunni vegna blárra pera í aðalljósum, en slíkt er bannað lögum samkvæmt og ökumanninum gert að skipta um perur strax. Tveir ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Báðir voru þeir í akstri á Djúpvegi. Þá var ökumaður á Patreksfirði í vikunni kærður fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar.

Meðal annarra verkefna lögreglunnar má nefna útkall að morgni 20. desember er lögregla og slökkvilið kallað að íbúð í fjölbýlishúsi á Patreksfirði vegna elds sem hafði brotist þar út. Slökkvilið var fljótt að slökkva eldinn, sem var í einu rými íbúðarinnar. Einn íbúi var fluttur á sjúkrahúsið á Patreksfirði til skoðunar vegna gruns um reykeitrun. Tjón var óverulegt og íbúinn fljótur að jafna sig. Tildrög þessa eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

annska@bb.is

Heimildarmynd um Fjallabræður

Fjallabræður syngja

Í kvöld verður sýnd heimildarmynd um Vestfirska kallakórinn Fjallabræður. Myndin verður sýnd í Háskólabíó klukkan 18:30. Fjallabræður fóru til London í haust og tóku upp nýjustu plötu sína í hinu fornfræga hljóðveri Abbey Road. Framleiðslufyrirtækið Republik var með í för og er heimildarmyndin, Þess vegna erum við hér í kvöld, um þessa frægðarför þessa einstaka hóps.

„Hugmyndin kviknaði þegar við hjá Republik heyrðum af því að til stæði að kórinn tæki upp í Abbey Road. Jón Þór, stóri bróðir Fjallabræðra, hefur unnið með okkur og komið inn í verkefni – hann sagði okkur frá hugmyndinni að fara í Abbey Road. Við bitum strax á agnið og hugmyndin of góð til að taka ekki þátt á einhvern hátt,“ segir Hannes Friðbjarnarson framleiðandi myndarinnar.

„ Við byrjuðum að fylgjast með þeim síðasta sumar, elta þá á æfingar og tónleika, taka viðtöl við meðlimi kórsins, mynda þá og fórum svo með þeim út í haust. Myndin er um Abbey Road ferðina sem slíka, inn í það blandast saga kórsins, hvaða týpur eru í kórnum og hvað það þýðir að vera Fjallabróðir,“ bætir Hannes við.

Myndin verður sem fyrr sagði sýnd í Háskólabíó í Reykjavík. Aðspurður hvort myndin verði sýnd á Vestfjörðum segir Hannes það vera stefnuna: „Okkur langar auðvitað mjög að sýna hana fyrir vestan. Bróðurparturinn af kórnum er frá Vestfjörðum og stefnan er að byrja að vinna í því strax eftir áramót að finna út úr sýningartíma og stað, væntanlega á Ísafirði.“

brynja@bb.is

Foráttuhvasst á fjallvegum

Djúp lægð gengur yfir landið í dag, með öflugum hitaskilum. Þeim fylgir ofsaveður á vestur og norðvesturlandi frá því um klukkan tíu til klukkan tvö í dag. Búist er við sunnanstormi eða -roki í dag með talsverðri rigningu og asahláku. Á Vestfjörðum verður í dag, þriðjudag, sunnan 20-28 metrar á sekúndu og talsverð rigning. Hiti 4 til 10 stig. Þegar líða tekur á daginn breytist áttin í suðvestan 15-23 metra á sekúndu og él undir kvöld þegar kólnar.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að foráttuhvasst verði á fjallvegum vestanlands, svo sem á Bröttubrekku, Holtavörðuheiði, Laxárdalsheiði, Steingrímsfjarðarheiði og á sunnanverðum Vestfjörðum.

Á Vestfjörðum er nú hálka á flestum leiðum þessa stundina en þæfingsfærð á Steingrímsfjarðarheiði og krapi á Mikladal og Hálfdán. Flughálka er á nokkrum köflum svo sem á Kollafirði á Barðaströnd, Ísafjarðardjúpi, í Steingrímsfirði og á Innstrandavegi.

Fólk er hvatt til að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón. Í og við fjalllendi er hætt við vatnsaga og krapa- og aurflóðum úr giljum og rásum.

brynja@bb.is

Atvinnutekjur drógust saman um 8,2%

Atvinnutekjur á Vestfjörðum námu 20 milljörðum krónum á árinu 2015 og höfðu lækkað um ríflega 440 milljónir frá árinu 2008. Þetta gerir samdrátt upp á 2,2%. Í Ísafjarðarbæ drógust atvinnutekjur saman um 8,2%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Byggðastofnun um atvinnutekjur á Íslandi á tímabilinu 2008-2015. Í skýrslunni kemur fram að atvinnutekjur hækkuðu mest á Suðurnesjum en drógust saman á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi.

Í Ísafjarðarbæ fækkaði íbúum um 8,9% og atvinnutekjur drógust saman um 8,2%. Utan Ísafjarðarbæjar fækkaði fólki lítillega á tímabilinu en atvinnutekjur jukust um 5,9%.

Atvinnutekjur á landinu í heild jukust um 1,2% á milli áranna 2008 og 2015, úr 968 milljörðum króna. í 979,6 milljarða króna. Á saman tíma fjölgaði íbúum á landinu um rúmlega 5,4%. Atvinnutekjur á hvern íbúa eru því enn nokkuð lægri en þær voru árið 2008, fyrir hrun.

Á Vestfjörðum varð samdráttur í Ísafjarðarbæ en aukning í heildina utan hans.

brynja@bb.is

Ekki reyktir vindlar né drukkið vín

Stefania Guðnadóttir

Í ljósi veðurhamsins sem nú geysar um íslenskar mannabyggðir er rétt að benda á frásögn Stefaníu Guðnadóttir sem birtist í ritröðinni Hornstrandir Jökulfirðir 3. bók og er um ferðalag ungs fólks á skemmtun árið 1920. Þá hafði verið ákveðið að hittast á því heimili er stærsta hafði stofuna til að dansa en á Ströndum, sem annars staðar á landinu, voru húsakynni almennt ekki mjög stór. En þegar upp rann dagurinn stóri voru veður vond og afar snjóþungt. Þurftu dansþyrstir unglingarnir að vaða snjóinn upp í mið læri og tók það Stefaníu og hennar fylgdarfólk þrjá tíma að komast á áfangastað, þá þreytt, köld og blaut.

En þegar búið var að skipta yfir í sparifötin og hlýja sér á kaffi og með‘í hjá húsmóðurinni á bænum var dansað við undirleik tvöfaldrar harmonikku fram undir morgun, eða alveg þar til húsbóndinn á heimilinu hóf húslestur sem allir hlýddu á.

Í lok frásagnar Stefaníu óskar hún ungum stúlkum nútímans þess að eiga frá sínum skemmtunum í raflýstum og glæstum sölum jafn góðar minningar og hún hefur frá þessari litlu æskuskemmtun.

Lesa má frásögn Stefaníu á Þingeyrarvefnum.

bryndis@bb.is

Þúsund fyrirtæki gjaldþrota síðasta árið

Gjaldþrot fyrirtækja voru 1.010 síðustu tólf mánuði, frá desember 2015 til nóvemberloka í ár og hafði fjölgað um 63% miðað við mánuðina tólf þar á undan þegar gjaldþrot voru 618 að því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofunnar.

Gjaldþrotum fjölgaði hlutfallslega mest í fjármála- og vátryggingastarfsemi, þar sem þau nærri þrefölduðust úr 33 í 91.

Gjaldþrotum fjölgaði í öllum helstu atvinnugreinum en hvað hægast í flutningum og geymslu. 2.688 ný einkahlutafélög voru skráð síðustu 12 mánuði og hafði þeim fjölgað um 15% miðað við fyrra tímabil. Fjölgun nýskráninga var mest í leigustarfsemi og ýmissri sérhæfðri þjónustu úr 163 í 274.

Nýskráningum fækkaði í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum.

brynja@bb.is

Nýjustu fréttir