Síða 2370

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla

Nú er árið 2016 runnið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, það var árið sem tók ansi margar stórstjörnur þó reyndar megi deila um hvort það var árið eða eiturlyfin sem ábyrgð bera á fráfalli þeirra. Árið 2016 var um margt merkilegt og nægir þá að nefna landsmálin, óvenjumikill trúnaðarbrestur varð milli stjórnvalda og almennings sem leiddi til þess að forsætisráðherra sagði af sér eftir ein fjölmennustu mótmæli íslandssögunnar og boðað var til kosninga að hausti. Nýir stjórnmálaflokkar náðu góðum árangri í kosningunum en illa hefur gengið að raða saman stjórn. Ísland hefur verið í sviðsljósi fjölmiðla um allan heim fyrir það heimsmet að eiga flesta í Panamaskjölunum, sérstaklega opinberar persónur.

Þessa árs verður minnst sem árinu þar sem almenningur gerði sér grein fyrir valdi sínu og nýtti það, almenningi mislíkaði spilling stjórnvalda og setti forsætisráðherra af, almenningi mislíkaði líka lygar forsvarsmanna Brúneggja og enginn kaupir lengur Brúnegg.

Í útlöndum hefur stríðið í Sýrlandi sett sitt mark á árið og miskunnarlaus dráp á saklausu fólki, nánast í beinni útsendingu. Í henni Ameríku var kosinn forseti, sagan mun segja okkur hvort hann reynist sú ógn við heimsfriðinn sem margir telja nú. Og í Evrópu voru það Brussel, Nice og Berlín sem voru í skotlínu hryðjuverkamanna árið 2016.

Hjá okkur hér Bæjarins besta og bb.is hófst árið með látum með umfjöllun um ráðningu tónlistarskólastjóra í Vesturbyggð og talsverða athygli vakti sömuleiðis umræður um nekt í saunaklefum en það var Eiríki Erni Norðdal mikið áhugamál. Fréttir af Orkubúi Vestfjarða voru fyrirferðamiklar framan af ári enda miklar sviptingar í stjórn OV. Ríkisendurskoðun gerði alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð vegna ráðningar Orkubússtjóra og þóttu þau ekki til fyrirmyndar. Gullrillurnar komu, sáu og sigruðu á árinu og voru fréttaefni meira eða minna allt árið, enda miklar afrekskonur þar á ferð. Í maí hvolfdi bát út af Aðalvík og fórst þar einn maður. Í júlí brann útihús í Tannanesi í Önundarfirði til kaldra kola. Þegar líða tók á haustið fóru stjórnmálamenn að láta í sér heyra, nýir kynntir til sögunnar og aðrir að fara frá og allt fram yfir kosningar var bæði vefur og blað undirlagt af kosningamálum. Fiskeldi hefur verið reglubundnum hætti verið til umfjöllunar, í mars var sérstakt tölublað lagt undir kosti og galla fiskeldis en atvinnugreinin er svæðinu mikilvæg og um leið afar umdeild. Dýrafjarðargöng hafa sömuleiðis verið fréttaefni, ekki síst nú í desember þegar framkvæmdir við þau duttu út af fjárlögum, og síðan inn aftur. Sjómannaverkfall og afleiðingar þess hafa verið til umfjöllunar nú í árslok.

Á næstu dögum mun nýr vefur bb.is vera kynntur til sögunnar en sá gamli sem hefur þjónað okkur í hálfan annan áratug verður lagður til hinstu hvílu. Hann hefur staðið sig vel, verið öruggur og snar en seinfær fyrir nýjungar og svo sannarlega barn síns tíma. Það eru allar líkur á að nýr vefur valdi okkur og lesendum einhverjum vandræðum til byrja með en vonandi til bóta þegar til framtíðar er litið.

Við á bb.is og Bæjarins besta sendum okkar allra bestu nýjárskveðjur til ykkar allra með kærri þökk fyrir áhugann á liðnum árum.

Bryndís Sigurðardóttir
Ritstjóri

Bæjarins besta 33. árgangur 2016

48. tbl. 2016
47. tbl. 2016
46. tbl. 2016
45. tbl. 2016
44. tbl. 2016
43. tbl. 2016
42. tbl. 2016
41. tbl. 2016
40. tbl. 2016
39. tbl. 2016
38. tbl. 2016
37. tbl. 2016
36. tbl. 2016
35. tbl. 2016
34. tbl. 2016
33. tbl. 2016
32. tbl. 2016
31. tbl. 2016
30. tbl. 2016
29. tbl. 2016
28. tbl. 2016
27. tbl. 2016
26. tbl. 2016
25. tbl. 2016
24. tbl. 2016
23. tbl. 2016
22. tbl. 2016
21. tbl. 2016
20. tbl. 2016
19. tbl. 2016
18. tbl. 2016
17. tbl. 2016
16. tbl. 2016
15. tbl. 2016
14. tbl. 2016
13. tbl. 2016
12. tbl. 2016
11. tbl. 2016
10. tbl. 2016
9. tbl. 2016
8. tbl. 2016
7. tbl. 2016
6. tbl. 2016
5. tbl. 2016
4. tbl. 2016
3. tbl. 2016
2. tbl. 2016
1. tbl. 2016
Vestfirðir 2016

Sigrar Katrínar

Katrin Björk Guðjónsdóttir

Katrín Björk Guðjónsdóttir lætur ekki deigan síga ef marka má bloggið hennar og þar má lesa um framfarir hennar og sigra. Hún hefur dvalið hjá foreldrum sínum á Flateyri yfir hátíðarnar og augljósar framfarir hennar eru gleðilegar. Katrín er aðeins 23 ára gömul en er eins og hún segir á síðunni sinni „í bataferli eftir tvær heilablæðingar og einn blóðtappa“

Í nýjustu færslunni má lesa um hvílíkar framfarir hún hefur náð á árinu sem er að líða. Í byrjun árs var hún tiltölulega nýlega farin að halda höfði, hreyfa vinstri hendi og geta notað höndina til að stafa en þangað til hafði hún aðeins getað stafað með augunum. Katrín segist hafa verið ósátt og leið en jólastemming jólanna 2015 hafi þó glatt hana mikið. Að geta rúllað sér í hring í rúminu sínu var afrek þeirra jóla en núna getur hún sest upp, gengið með stuðningi bæði upp og niður stiga og tjáð sig með einstaka orðum og setningum.

Katrín er greinilega mikið jólabarn og nýtur jólaundirbúningsins og í byrjun desember voru verkefni næstu daga skráð skilmerkilega; tala meira, undirbúa heimferð, ganga meira, kaupa jólaskraut, skreyta, baka, kaupa jólagjafir og pakka jólagjöfum.

Hægt er fylgjast með ótrúlegu baráttuþreki Katrínar á bloggsíðu hennar hér.

bryndis@bb.is

Bílvelta í Súgandafirði

Mynd: Ævar Einarsson

Nú fyrir stundu valt bifreið út af veginum í Súgandafirði en mikil hálka er á veginum. Eftir því sem best er vitað urðu ekki alvarleg slys á fólki sem þó engu að síður var flutt til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

bryndis@bb.is

Vinnslustöðvun fyrirsjáanleg

Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir það hafa verið fyrirsjáanlegt að fiskvinnslur þyrftu að grípa til neyðarúrræða vegna afleiðinga af verkfalli sjómanna. „Þetta eru vondar fréttir þó að vissulega hafi þetta verið fyrirsjáanlegt í ljósi yfirstandandi sjómannaverkfalls,” segir Gísli. Í fyrradag tilkynnti Íslenskt sjávarfang að það ætlaði að taka um 35 starfsmenn af launaskrá og á sama degi tilkynnti Oddi á Patreksfirði að það ætlaði að taka tæplega 60 manns af launaskrá vegna viðvarandi hráefnisskorts.

Gísli segir það vera jákvætt að Íslenskt sjávarfang hafi ekki áður gripið til slíkra aðgerða: „Áður en fyrirtækið tók við vinnslunni gerðist það margoft að tilkynnt væri um vinnslustöðvun á Þingeyri, starfsmönnum og íbúum til mikils ama. Það er líka jákvætt að vinnslu hafi verið haldið út í nærri tvær vikur eftir að verkfall hófst.“

Hins vegar hefði verið hægt að fara aðra leið. „Fyrirtækið hefði hinsvegar getað farið mildari leið í þessari stöðu, haldið fólkinu á launaskrá og fengið 60% af launum endurgreidd frá Atvinnuleysistryggingasjóði, í stað þess að senda starfsmenn sína á atvinnuleysisbætur – sumir launþeganna eru jafnvel ekki búnir að vinna sér inn bótarétt og geta því lent í umtalsverðu tjóni,“ segir Gísli Halldór.

Um er að ræða heimildarákvæði sem Vinnumálastofnun gaf tilkynningu um 19. desember að fyrirtæki gætu nýtt sér. Heimildin gefur fyrirtækjunum leyfi til að taka fólk af launaskrá og fólk sækir þá um atvinnuleysisbætur í framhaldi af því. Í kjarasamningi starfsfólksins segir að þegar vinnslustöðvun vegna hráefnisskorts hafi staðið lengur en 5 vikur samfellt, sé starfsmanni heimilt að slíta ráðningarsamningi við fyrirtækið og tilkynna með viku fyrirvara að hann ætli að leita að vinnu annars staðar.

„Með þeirri leið sem nú er farin er starfsfólkið tekið af launaskrá en þarf samt að vera tilbúið til að mæta í vinnu fyrirvaralaust ef vinnsla hefst skyndilega – það er svona eins og bara launþeginn sé bundinn af ráðningarsamningnum. Maður spyr sig einnig hvort ekki hefði verið hægt að upplýsa starfsmenn um þessa aðgerð með meiri fyrirvara – verkfallið hófst 14. desember og einhver fyrirsjáanleiki hlýtur að hafa verið um hvenær vinnsla myndi stöðvast,“ segir Gísli Halldór.

brynja@bb.is

Helga Salóme þjónustustjóri Motus

Helga Salóme hefur verið ráðin til Motus.

Helga Salóme Ingimarsdóttir hefur verið ráðin í starf þjónustustjóra Motus á Vesfjörðum með aðsetur á Ísafirði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Motus sendi frá sér.

Jón Marinó, sem verið hefur þjónustustjóri Motus á Vestfjörðum, hefur flust búferlum á höfuðborgarsvæðið og látið af störfum hjá félaginu.

Helga Salóme, sem er uppalin í Bolungarvík, hefur víðtæka reynslu af þjónustustörfum frá Íslandsbanka þar sem hún hefur starfað síðustu 12 árin á Ísafirði, Akureyri og í Reykjavík. Helga mun hefja starfsþjálfun í höfuðstöðvum Motus í Reykjavík fljótlega á nýju ári en flytja á Ísafjörð í byrjun sumars.

Á starfsstöð Motus að Hafnarstræði 19 á Ísafirði starfa fjórir starfsmenn, en þar er í boði fagþjónusta bæði fyrir kröfueigendur og greiðendur auk þess sem Pacta lögmenn veita þar alla almenna lögfræðiþjónustu og ráðgjöf.

brynja@bb.is

34 börn komin í heiminn á HVEST

Á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði hafa fæðst 34 börn ár árinu sem senn líður í aldanna skaut. Það er aðeins færra en síðustu tvö ár er 40 börn komu í heiminn á fæðingardeildinni á síðasta ári og 39 árið á undan, árið 2013 fór talan reyndar nærri því sem nú er, er 37 börn fæddust þar. Von er á einu barni á næstu dögum svo líklegt er að talan endi í 35 fyrir árið 2016, en þó ekki fullkomlega á vísan að róa með slíkt.

Fæðingartölurnar gefa ekki fullkomna mynd af því hversu margir nýir Vestfirðingar bætast í hópinn á svæðinu á ári hverju, þar sem sumar konur fæða annarsstaðar á landinu, sér í lagi ef um áhættumeðgöngu að ræða en þá á fæðingin sér stað í Reykjavík og segir Erla Rún Sigurjónsdóttir ljósmóðir við HVEST að árlega séu um 20% barnshafandi kvenna á svæðinu sem fæði annarsstaðar.

annska@bb.is

Ríkisstjórnin setji fjármagn í heilbrigðisstofnanir

Flugbrautir á Reykjavíkurflugvelli.

Sjúkraflugvél Mýflugs, sem flytja átti sjúkling frá Höfn í Hornafirði til Reykjavíkur á sjöunda tímanum í gærkvöldi, var flogið til Akureyrar vegna veðurs. Frá þessu var greint í fréttum Ríkisútvarpins. Suðvestanstormur var á suðvesturhorni landsins og allt innanlandsflug lá niðri. Þorkell Ásgeir Jóhannsson, flugstjóri hjá Mýflugi, segir að aðstæður á Reykjavíkurflugvelli hafi verið alveg á mörkum þess sem sjúkraflugvélin þolir, ef aðeins var horft til meðalvindhraða.

Þorkell sagði í samtali við Ríkisútvarpið að við ríkjandi veðuraðstæður hefði ekki verið neinum vandkvæðum bundið að lenda á suðvestur-brautinni í Reykjavík, sem lokað var í sumar.

Ísfirðingurinn Guðrún Kristín Bjarnadóttir, móðir Birkis Snæs, sem hefur verið veikur undanfarið ár og þarf reglulega að komast undir læknishendur tekur sterkt til orða: „Þetta gerir mig ótrúlega reiða! Ég vona innilega að ég verði aldrei í þeim sporum að komast ekki suður þegar við þurfum. Birkir Snær verður ótrúlega fljótt alvarlega veikur og þarf að komast til lækna sem þekkja hann vel.“

„Ríkisstjórnin verður að fara girða sig í brók og henda almennilegu fjármagni í þær heilbrigðisstofnanir utá landi til þess að þær séu betur búnar til að takast á við alvarleg tilfelli,“ bætir Guðrún Kristín við í stöðuuppfærslu á Facebook.

„Stofnanirnar okkar eru svo sveltar að fjármagni að það er hrikalegt að verða vitni að þvi. Sjúkrahúsið okkar hér fyrir vestan hefur frà því að Birkir greindist gert allt sem þau geta fyrir okkur. Það eru hinsvegar ýmsir hlutir sem hann þarf sem ekki eru til hér. Það er ekki vegna viljaleysis starfsfólks heldur fjárskorts,“ segir Guðrún Kristín.

brynja@bb.is

Mokaði af bílnum mínum

Það er lífleg kosningin um Vestfirðing ársins 2016 og margir sem koma til greina. Rökstuðningur fyrir valinu er afar fjölbreyttur og það eru ungir og gamlir, konur og karlar, einstaklingar og félagasamtök sem komin eru á blað. Hér eru nokkur áhugaverð rök:

„tekur slaginn gegn markaðsráðandi öflum“

„hörkudugleg, ákveðin og traust“

„fyrir staðfestu og sterkan vilja til að ástunda vönduð vinnubrögð“

„hann mokaði af bílnum mínum í morgun“

„markmið þeirra virðist vera að efla samfélagið á Vestfjörðum“

„sveitarstjórnarmaður til margra ára “

„hann er sjálfur með stórt barnshjarta“

„einstaklega gott eintak af Vestfirðingi“

„ótrúlega sterk ung stúlka sem hefur sýnt framúrskarandi árangur í öllu því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur“

„fyrir heiðarleika í starfi stjórnar“

„kom upp um spillingu“

„fyrir þvílíka baráttu við lífið í erfiðum veikindum“

„hann stóð í lappirnar“

„ótrúlegur maður, fékk mig og fleiri til að vilja að lifa á ný“

„með seiglu og fallegum rökstuðningi tók honum að fá fólk til að staldra við og skoða málið“

„óeigingjörn störf í þá menningar og lista“

Það verður hægt að kjósa Vestfirðing ársins 2016 hér til miðnættis þann 31. desember.

bryndis@bb.is

Arnarlaxi ekki borist kæra

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir að fyrirtækinu hafi ekki borist stefna frá Málsóknarfélaginu Náttúruvernd 1. Sagt var frá því í fréttum í gær að Málsóknarfélagið hafi birt Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Arnarlaxi hf. stefnu þar sem krafist var ógildingar rekstrar- og starfsleyfa vegna sjókvíaeldis á norskættuðum laxi í Arnarfirði. Víkingur segir í samtali við Ríkisútvarpið að fyrirtækinu hafi ekki borist nein stefna en vill ekki tjá sig um málið að öðru leyti.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Náttúruverndar 1, sagði í samtali við fréttastofu að hann viti ekki betur en að stefnan hafi verið birt á heimili stjórnarformanns Arnarlax í Kópavogi, líklegast á þriðjudag. Þá segir Jón Steinar hafa hringt í forsvarsmenn Arnarlax hér fyrir vestan fyrir jól og sagt þeim að stefnan og öll meðfylgjandi gögn væru á skrifstofu sinni í Reykjavík. Þeir hafi sagst ætla að sækja gögnin þangað, en ekki gert.

brynja@bb.is

Nýjustu fréttir