Síða 2368

Eldur kom upp á Tálknafirði

Eldur kom upp í vélarrúmi 40 brúttótonna fiskibáts, Nonna Hebba BAm, sem þá var um tvær sjómílur frá Tálknafjarðarhöfn. Þrír voru í bátnum. Frá þessu er greint ávef Ríkisútvarpsins.

Björgunarsveitin og slökkviliðið á Tálknafirði voru ræst út, sem og og björgunarskipið Vörður á Patreksfirði. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út.

Áhöfn bátsins tilkynnti skömmu síðar að reykurinn virtist fara minnkandi eftir að þeim hefði tekist að loka rýminu sem eldurinn var í. Þá var þyrlan afturkölluð en björgunarskipið Vörður hélt áfram í átt að bátnum.

Tæpum hálftíma eftir að tilkynningin um eldinn barst, lagði Nonni Hebba að bryggju á Tálknafirði þar sem slökkvilið beið. Áhöfnin slapp ómeidd og þykir hafa sýnt snarræði og rétt viðbrögð.

brynja@bb.is

10 ár frá stofnun Matís

Matvælarannsóknir Íslands – Matís varð 10 ára þann 1. janúar. Árið 2007 tók Matís formlega til starfa er rannsóknastofa Umhverfisstofnunar, Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA), Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (RF) og líftæknifyrirtækið Prokaria, sameinuðust undir einum hatti. Þar var þá kominn sameiginlegur vettvangur til rannsókna á matvælum og í líftækni. Hjá hinu nýstofnaða fyrirtæki var áhersla lögð á að auka verðmætasköpun í íslenskri matvælaframleiðslu, matvælaöryggi og lýðheilsu.

Matís hefur vaxið fiskur um hrygg þau 10 ár sem fyrirtækið hefur starfað í þessari mynd og er í dag þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði. Matís veitir ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla, en fyrirtækið gegnir þó ekki eftirlitshlutverki líkt og fjallað var um í tengslum við Brúneggjamálið síðla á síðasta ári.

Fyrirtækið er með 6 starfsstöðvar á Íslandi þar á meðal á Ísafirði og Patreksfirði þar sem lögð er áhersla á þróun vinnsluferla í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu. Þar er almennri tækniráðgjöf fyrir viðskiptavini Matís sinnt, í formi hönnunar og tæknivinnu. Einnig er lögð áhersla rannsókna- og þróunarstarf, sem og á fiskeldi, einkum þorskeldi í sjó. Gunnar Þórðarson hjá Matís á Ísafirði hlaut í nóvemberlok Svifölduna ásamt og Alberti Högnasyni hjá 3X Technology. Svifaldan er veitt fyrir framúrstefnuhugmynd ársins og eru verðlaunin veitt á Sjávarútvegsráðstefnunni. Hugmynd þeirra var um ofurkælingu á botnfiski.

Á heimasíðu fyrirtækisins er nú að finna ársskýrslu síðasta árs, þar sem jafnframt er stiklað á stóru í starfssemi Matís í einskonar smásagnaformi og segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu að innihaldið sýni svo ekki verði um villst að stofnun Matís var rökrétt og mikið framfaraskref á sínum tíma. Skýrsluna má sjá hér.

annska@bb.is

460 milljarðar í fasteignakaup

Heildarviðskipti með fasteignir námu tæplega 460 milljörðum króna á árinu sem var að líða. Um 12.400 kaupsamningum var þinglýst á árinu. Meðalupphæð á hvern samning var um 37 milljónir króna.

Þar er bent á til samanburðar að árið 2015 hafi veltan verið rúmlega 370 milljarðar, kaupsamningar 11.298 og meðalupphæð hvers samnings um 33 milljónir króna. Heildarvelta fasteignaviðskipta hafi því aukist um rúmlega 24% frá árinu 2015 og kaupsamningum fjölgað um tæplega 10%.

Frá þessu er sagt í markaðsfréttum Þjóðskrár Íslands.

Heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2015 var 285 milljarðar króna og fjöldi kaupsamninga var 7.369. Meðalupphæð samninga árið 2015 var um 38,6 milljónir króna. Heildarvelta á höfuðborgarsvæðinu hefur því aukist um tæplega 23% og fjöldi kaupsamninga hefur aukist um tæplega 8%, að því er fram kemur í markaðsfréttunum.

brynja@bb.is

Leyfilegur afli síldar 102.984 tonn

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur gefið út reglugerðir um leyfilega heildarveiði á norsk-íslenskri síld og leyfilega upphafsveiði á kolmunna á árinu 2017.

Leyfilegur heildarafli á norsk-íslenskri síld verður 102.984 tonn. Talan miðast við hlut Íslands í samningi frá 2007 og ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknastofnunarinnar (ICES) ásamt 10% aukningu í samræmi við ákvörðun Noregs, sem hefur langstærstan hlut í stofninum, og jók fyrir skömmu einhliða hlut sinn úr 61% í 67% af heildaraflanum.

Upphafsveiði á kolmunna er 150.000 tonn en leyfilegur heildarafli verður endanlega ákveðinn þegar fyrir liggja ákvarðanir annarra ríkja um sinn heildarafla.

brynja@bb.is

Gjaldskrárhækkanir hjá OV

Gjaldskrár Orkubús Vestfjarða hækkuðu frá og með 1. janúar gjaldskrá fyrir dreifingu raforku um 7% en 4% fyrir sölu. Á sama tíma hækkuðu niðurgreiðslur vegna húshitunar sem að einhverju leiti dregur úr kostnaðaraukningu heimila. Á vef OV segir að áhrif hækkunarinnar á heildarorkukostnað heimila verða minnst hjá heimilum í þéttbýli sem nota fjarvarma til upphitunar, eða 2,1%, en hækkun hjá þeim sem nota rafmagn til upphitunar verður 4,5% í þéttbýli en 5% í dreifbýli. Helsta ástæða hækkunarinnar er sögð vera 13% hækkun á flutningi raforku hjá Landsneti sem er innifalin í hækkun Orkubúsins fyrir dreifingu, ásamt almennum kostnaðarhækkunum og hækkun launa.

Svo raforkukaupendur geti betur glöggvað sig á hækkununum tekur OV nokkur dæmi um breytingarnar: Fyrir dæmigert heimili í þéttbýli sem notar fjarvarmaveitu til upphitunar þá hækkar orkureikningur mánaðarins um 500 krónur eða um 6.000 krónur á ári. Hækkunin nemur 2,1%. Þá er miðað við að heimilið noti um 30.000 kWst í upphitun á ári og 5.000 kWst í almenna notkun. Fyrir sambærilegt heimili í þéttbýli sem notar raforku til upphitunar þá hækkar orkureikningur mánaðarins um 1.056 krónur eða 12.672 kr á ári. Hækkunin nemur 4,45%. Fyrir heimili í dreifbýli sem notar sömu orku á ári þá hækkar reikningurinn um 1.293 krónur á mánuði eða 15.510 krónur á ári. Hækkunin þar nemur því 5%. Dæmi um hækkun hjá atvinnufyrirtæki sem notar 350.000 kWst á ári og 72 kW afl er alls 5,6% fyrir dreifingu flutning og sölu.

Vestfirðingar hafa löngum verið í flokki þeirra landsmanna sem greiða mestan orkukostnað á landinu. Í desember var fjallað um niðurstöður útreikninga sem Byggðastofnun fékk Orkustofnun til að gera á orkukostnaði í nokkrum þéttbýlis- og dreifbýlisstöðum á landinu sem leiddi í ljós mestan mun á orkuveitusvæði RARIK og Orkubús Vestfjarða í dreifbýli og á Seltjarnarnesi, þar sem munur á mánaðarlegum greiðslum nam 287%.

annska@bb.is

Lokanir fjögur ár af sex

Vegurinn um Súðavíkurhlíð kann stundum að vera ferðalöngum á Vestfjörðum farartálmi. Um hátíðirnar jól og áramót er fólk oft meira á ferð en á öðrum tímum yfir vetrarmánuðina, er margir bæði koma til að verja hátíðunum með fjölskyldum sínum vestra, jafnframt því sem Vestfirðingar að sama skapi halda til annarra staða um landið. Á síðustu sex árum hefur svo borið við fjögur ár að veginum á milli Ísafjarðar og Súðavíkur, eða Súðavíkur og restarinnar af Vestfjörðum norðanverðum hefur verið lokað, en líkt og flestir vita liggur leiðin um Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð. Um nýliðin jól var veginum lokað í tvo daga, þó ekki heilu dagana heldur rúmar sex klukkustundir á jóladag og rúmar 8 klukkustundir annan dag jóla. Þá var varúðarstigi vegna snjóflóða lýst yfir frá klukkan 12 á hádegi á jóladag til 10:30 á annan í jólum.

Árin 2015 og 2014 var ástandið nokkuð gott og ekki kom til lokana þau ár. Árið 2013 var hins vegar ástandið slæmt er vegurinn var lokaður að mestu leiti frá Þorláksmessu fram til 28.desember. Árið 2012 var einnig slæmt er vegurinn var að mestu lokaður frá 27.desember fram á nýársdag. Mest var þá vegurinn opinn þann 28.desember í rúma 7 tíma. Árið 2011 kom svo til lokana bæði á aðfangadag og jóladag.

annska@bb.is

Bjóða upp örnámskeið í umsóknagerð

Fjórðungssamband Vestfirðinga býður upp á örnámskeið í gerð umsókna til uppbyggingarsjóðs Vestfjarða víðsvegar um fjórðunginn næstu daga. Það eru þeir Skúli Gautason, menningarfulltrúi Vestfjarða og Valgeir Ægir Ingólfsson, atvinnumálafulltrúi sem þar munu leiða þátttakendur í gegnum ferlið við gerð umsókna. Í kjölfarið bjóða þeir upp á viðtöl og ráðgjöf fyrir þá sem eftir því óska.

Fyrsta námskeiðið verður haldið í Birkimel á Barðaströnd á morgun, 3.janúar klukkan 14, þá verður farið í Þekkingarsetrið Skor á Patreksfirði þar sem námskeið hefst klukkan 17 og annað kvöld klukkan 20:30 verður það á Skrímslasetrinu á Bíldudal. Þann 4. janúar verður örnámskeiðið haldið fyrir Tálknfirðinga í Hópinu klukkan 12.

 

annska@bb.is

Engin undanþága frá verkfalli sjómanna

Sjómannasamband Íslands hefur hafnað ósk Hafrannsóknastofnunar um undanþágu frá sjómannaverkfalli til að fara í loðnuleit á fimm skipum. Útlit er fyrir að aðeins tvö rannsóknarskip stofnunarinnar og grænlenskt skip fari til leitar.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag að HB Grandi hafi ákveðið að sækja ekki um undanþágu vegna leitarinnar. Tvö aflaskip áttu að gera forkönnun áður en tvö rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunar, grænlenska skipið Polar Amaroq og tvö önnur íslensk skip færu í sjálfa leitina. Stofnunin sótti um undanþágu en því var hafnað í morgun.

„Það var fjallað um málið í samninganefnd Sjómannasambandsins núna fyrir hátíðar og síðast í morgun. Það var niðurstaðan að veita ekki þessa undanþágu, frá verkfallinu,“ segir Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands.

brynja@bb.is

Skoða opnun flugbrautar á ný

Flugbrautir á Reykjavíkurflugvelli.

Unnið er að því að skoða hvort hægt sé að opna flugbraut á Keflavíkurflugvelli sem hefur hliðstæða stefnu og svokölluð neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Innanríkisráðuneytinu í kjölfar fjölmiðlaumfjallana um lokun neyðarbrautar og mögulega notkun hennar til sjúkraflugs.

Í tilkynningunni segir að flugbraut 06-24 á Reykjavíkurflugvelli hafi verið lokað í kjölfar dóms Hæstaréttar um að brautinni skyldi lokað en dómurinn féll vegna málshöfðunar Reykjavíkurborgar á hendur ríkinu þar sem lokunar var krafist.
„Flugbraut með hliðstæða stefnu á Keflavíkurflugvelli, 07-25, hefur verið lokuð undanfarin ár en nú er til skoðunar hvort unnt verður að opna hana á ný. Vilji innanríkisráðherra til þess að opna þá flugbraut í stað hinnar lokuðu brautar á Reykjavíkurflugvelli er skýr,“ segir í tilkynningunni.

Að ósk ráðuneytisins setti Isavia ohf. fram í haust áætlun um kostnað við að opna flugbaut 07-25 á Keflavíkurflugvelli og setti fram þrjá kosti. Í ráðuneytinu er nú farið yfir þessa möguleika og metið hvort og hvaða leið unnt er að fara með tilliti til kostnaðar og mögulegra fjárveitinga til verkefnisins.

brynja@bb.is

Júlíus með yfir 4 þúsund tonn

Júlís Geirmundsson ÍS, frystitogari Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal veiddi 4.634 tonn á árinu 2016. Þetta kemur fram á vef Aflafrétta. Júlís landaði 13 sinnum á árinu og var mesti aflinn í einni löndun 415 tonn. Um er að ræða 672 tonnum minni afla en árið 2015 og eru flestir frystitogarar með minni afla árið 2016 en 2015. Auk þessa landaði Júlíus 1445 tonn af markíl á fiskveiðiárinu 2016.

brynja@bb.is

Nýjustu fréttir