Síða 2367

Verkfall hefur áhrif á markaði

Erlendir fiskkaupendur eru þegar farnir að leita annað eftir fiski eftir að íslenskur fiskur hætti að berast vegna sjómennaverkfallsins. Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins.

Í Frakklandi er mikilvægur markaður fyrir íslenskan fisk og segir Guðmundur Stefánsson hjá Novo Foods í Frakklandi að fyrirtæki séu farin að leita annað: „Já það er farið að hafa áhrif. Það er náttúrulega miklu minna framboð af fiski á markaðnum og þess vegna erfiðara um vik og fyrirtækin farin að leita annað.“

Áhrifa verkfalls sjómanna er farið að gæta víða, tekjur fiskvinnslufólks í landi hafa dregist saman, sumar fiskvinnslur hafa gripið til þess að taka fólk af launaskrá, ekki verður veitt undanþága vegna loðnuleitar á fimm skipum og verkbann á vélstjóra er yfirvofandi.

Guðmundur segir, í samtali við Ríkisútvarpið, hættu vera á framtíðarskaða fyrir Íslendinga: „Það er veruleg hætta á því, allavega í einhvern tíma og sérstaklega ef þetta dregst á langinn. Ef viðskiptavinir okkar og þeir sem eru vanir að fá íslenska fiskinn leita annað þá er ekki þar með sagt að þeir komi strax til baka þegar við getum afhent aftur.“

brynja@bb.is

Lestrarátak Ævars vísindamanns snýr aftur

Hafið er á ný lestrarátak Ævars vísindamanns, en því var hleypt af stokkunum fyrsta dag þessa nýja árs. Átakið hefur verið haldið tvisvar sinnum áður með þeim árangri að yfir 114 þúsund bækur voru lesnar. Því þótti Ævari Þór, leikara og rithöfundi, ærin ástæða til að halda áfram. Átakið stendur til 1. mars 2017 og er fyrir alla krakka í 1.-7. bekk.

Lestrarátakið virkar þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem nemendur í 1. – 7. bekk lesa fylla þau út miða sem þau sækja í gegnum www.visindamadur.is. Foreldri eða kennari kvitta á hvern miða og svo verður miðinn settur í lestrarkassa sem er staðsettur á skólasafninu í hverjum skóla. Því fleiri bækur sem börnin lesa því fleiri miða eiga þau í pottinum. Þá er það nýlunda í ár að hljóðbækur, eða ef einhver les fyrir barnið, teljast með sem lesin bók. Það skiptir engu máli hvort bókin sem er lesin sé löng eða stutt, teiknimyndasaga, Myndasögusyrpa eða skáldsaga – bara svo lengi sem börnin lesa. Sömuleiðis skiptir tungumálið sem bókin er á ekki máli. Bækurnar mega vera á íslensku, dönsku, frönsku, pólsku, japönsku, ensku o.s.frv. – bara svo lengi sem börnin lesa.

Í lok átaksins verða dregin út nöfn fimm barna og fá þau í verðlaun að verða persónur í stórhættulegri ævintýrabók eftir Ævar, sem ber heitið Bernskubrek Ævars vísindamanns 3: Gestir utan úr geimnum og kemur út með vorinu hjá Forlaginu – svo það er til mikils að vinna. Í frétta tilkynningu segir að þetta sé lestrarátak gert af bókaormi, til að búa til nýja bókaorma – dýrategund sem má alls ekki deyja út.

Lestrarátakið er unnið í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, RÚV, Málefli, Póstinn, Brandenburg auglýsingastofu, IBBY á Íslandi, 123skoli.is, Forlagið, Heimili og skóla og Barnavinafélagið Sumargjöf.

annska@bb.is

Kosning um orð ársins

Orð ársins eru gjarnan nýyrði og því ekki í orðabók.

Landsmönnum gefst nú kostur á að velja orð ársins 2016. Kosningin stendur á vef Ríkisútvarpsins til 4. janúar.
Orðin hafa einkennt þjóðfélagsumræðuna á árinu eða verið áberandi með öðrum hætti. Þau falla að rithætti, beygingu og framburði málsins. Áhugaverð orðmyndun getur líka komið orði á lista. Ekki er verið að leita að fegursta orðinu og það getur haft jafnt neikvæða sem jákvæða merkingu og verið viðkunnanlegt eða óviðkunnanlegt.

Árið 2015 var orðið „fössari“ orð ársins. Orðið er nýyrði, og er afbökun á orðinu föstudagur. Í daglegri notkun merkir orðið föstudagskvöld eða byrjun helgarfrís.

brynja@bb.is

Helstu verkefni lögreglu í liðinni viku

Skemmtanahald í umdæmi Lögreglunnar á Vestfjörðum yfir jól og áramót fór vel fram, er fram kemur í helstu verkefnum hennar í síðustu viku. Komust lögreglumenn að því er þeir gerðu athugasemdir við ökumann sem notaði stefnuljós ekki með viðeigandi hætti að ökutækið reyndist ótryggt og voru númer þess tekin af og það tekið úr umferð. Í vikunni hafði lögreglan afskipti af ökumanni sem var að flytja farm á vörubílspalli og hafði ekki fest farminn nægjanlega vel. Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í Arnkötludal, annar ók á 112 km hraða en hinn á 105 km hraða, en hámarkshraði þar er 90 km.

Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í vikunni, þann 30. desember þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hálku og nýföllnum snjó á Súgandafjarðarvegi, skammt fyrir utan gangamunnann í botni fjarðarins og rann bíllinn út af veginum og valt. Ökumaður, sem var einsamall í bílnum, var í bílbelti og hlaut ekki alvarleg meiðsl. Hann var þó fluttur til skoðunar á sjúkrahúsið á Ísafirði.

Um miðjan dag gamlársdags óskaði lögreglan á Vestfjörðum eftir aðstoð björgunarsveita á Ísafirði og nágrenni við leit að manni sem hafði farið í göngutúr heiman frá sér fyrr sama dag og óttast var um. Maðurinn fannst látinn skömmu eftir að leit hófst.

annska@bb.is

Litlihjalli vakinn til lífs á ný

Fyrir rétt um ári síðan ákvað Jón Guðbjörn Guðjónsson, veðurathugunarmaður og ritstjóri í Litlu-Ávík í Árneshreppi á Ströndum að hætta með fréttavefinn Litlahjalla.is sem hann hafði starfrækt allt frá árinu 2003, fyrst í formi bloggsíðu en seinna sem fréttasíða Árneshrepps. Jón segir að sér hafi bókstaflega liðið illa síðasta ár yfir því að vera ekki lengur með vefinn:

„Mig kitlar allaf í fingurna að djöflast á lyklaborðinu og reyna að segja einhverjar fréttir frá Árneshreppi, þótt ég hafi gert það á RÚV og á MBL, að einhverju leyti á liðnu ári, eftir að ég hætti með Litlahjalla, en það eru þá bara yfirleitt stórfréttir eða sérstakar fréttir úr hreppnum. Mér finnst einhvern vegin ekki nóg að skrifa bara á Fésbókina okkar, sem er ágætur samkjaftamiðill og svona vinamiðill. Ég mun því reyna að halda áfram með fréttir frá og úr Árneshreppi og honum tengdum og sitthvað fleira sem fellur til.“

Jón segist viss um að eitthvað týnist til fréttnæmt úr sveitinni, í það minnsta sé alltaf hægt að gera veðrinu skil og segist hann þakklátur fyrir að þeir sem áður auglýstu hjá honum velji að gera það áfram. Ekki er hægt að halda síðunni úti undir gamla léninu þar sem það var keypt af erlendum aðila í millitíðinni. Síðan er hin sama en nú undir slóðinni http://litlihjalli.it.is/

annska@bb.is

Fleiri örnámskeið vegna Uppbyggingarsjóðsumsókna

Háskólasetur Vestfjarða er staðsett í Vestrahúsinu.

Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur bætt við tveimur örnámskeiðum í umsóknagerð til Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða, en á mánudag sögðum við frá örnámskeiðahrinu þeirra sem nú stendur yfir. Þeir sem áhugasamir eru um að sækja um í sjóðinn eru hvattir til að mæta, en umsóknarfrestur rennur út 9.janúar. Í hann er hægt er að sækja um verkefnastyrki til menningarmála, styrki til atvinnu- og nýsköpunarverkefna, og stofn- og rekstrarstyrki til menningarstofnana.

Það eru þeir Skúli Gautason, menningarfulltrúi Vestfjarða og Valgeir Ægir Ingólfsson, atvinnumálafulltrúi sem kenna á flestum námskeiðanna. Í kjölfarið bjóða þeir upp á viðtöl og ráðgjöf fyrir þá sem eftir því óska, á Ísafirði er það Magnea Garðarsdóttir hjá AtVest sem mun leiða þátttakendur í sannleikann um hvernig umsóknum skal best háttað. Til viðbótar við þá staði sem áður var sagt frá verða þeir á Bókasafninu á Reykhólum á morgun, miðvikudag klukkan 17 og í sal Þróunarseturs Vestfjarða í Vestrahúsinu á Ísafirði á fimmtudag, klukkan 14.

annska@bb.is

Fiskvinnslur í þrot dragist verkfall áfram

Jón Steinn Elíasson, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda segir stöðuna í fiskútflutningi mjög slæma. Hann segir verkfall sjómanna koma sér illa fyrir fiskvinnslur án útgerðar og minni fyrirtæki í sjávarútvegi um allt land „Síðasta ár var auðvitað mjög erfitt út af genginu. Svo kemur þetta verkfall ofan í það þannig að staðan er mjög erfið,“ segir Jón Steinn, í samtali við Vísir.

Frá því var greint í síðustu viku að Oddi á Patreksfirði og Íslenskt sjávarfang á Þingeyri hefðu tekið saman tæplega 100 manns af launaskrá hjá sér vegna vinnslustöðvunar.

„Það er skelfilegt að láta tvær heilar vikur falla dauðar niður. Það segir manni það að þeir ætla ekkert að semja heldur bíða bara eftir að ríkisstjórnin setji á þetta lög. Ég get ekki lesið annað út úr þessu. Ég ætla bara að vona að menn grípi ekki til slíkra aðgerða nema að á samninga verði reynt fyrir alvöru áður,“ segir Jón Steinn við blaðamann Vísis.

Næst verður fundað í deilu sjómanna og útgerðarmanna 5. janúar, en verkfall sjómanna hefur staðið síðan 14. desember síðast liðinn.

brynja@bb.is

Leita eftir stuðningsfjölskyldum

Félagsþjónustan við Djúp, sem er félagsþjónusta Bolungarvíkur og Súðavíkur, óskar eftir að ráða stuðningsfjölskylda sem fyrst. Stuðningsfjölskylda þýðir að barn sé tekið til móttöku eða dvalar á heimili stuðningsfjölskyldu með það að markmiði að draga úr álagi á heimili barna, styðja foreldra barnsins í forsjárhlutverki, veita börnum tilbreytingu og stuðning auk þess að gefa þeim kost á auknum félagslegum tengslum.

Um er að ræða eina helgi í mánuði þar sem börnin dvelja á heimili stuðningsfjölskyldunnar. Á Vísindavefnum er grein sem útskýrir hvað það er að vera stuðningsfjölskylda.

brynja@bb.is

Segir hækkanir OV þynna út orkujöfnun

Pétur G. Markan.

Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir gjaldskrárhækkanir Orkubús Vestfjarða sem tóku gildi 1. janúar síðast liðinn vinna gegn niðurgreiðslu ríkisins vegna húshitunarkostnaðar.
„Auðvitað er það sárt þegar að niðurgreiðsla vegna húshitunarkostnaðar hækkar þurfi OV að hækka sína gjaldskrá á móti, sem er auðvitað ekkert annað en bein aðgerð til að taka hluta af ívilnun sem á að skila sér til íbúa svæðisins til sín. Á götumálinu myndi þetta heita að taka vont „cut“ af greiðslu ríkisins til íbúa svæðisns.“

Gjaldskrá fyrir dreifingu raforku hækkuðu um 7% og fyrir sölu um 4%. Í tilkynningu frá Orkubúinu segir að áhrif hækkunarinnar á heildarorkukostnað heimila verði minnst hjá heimilum í þéttbýli sem nota fjarvarma til upphitunar, eða 2,1%, en hækkun hjá þeim sem nota rafmagn til upphitunar verður 4,5% í þéttbýli en 5% í dreifbýli.

Pétur segir Orkubúið mismuna fólki með gjaldskránni: „Þessi hækkun minnir líka á að íbúar Súðavíkur, sem svo sannanlega búa í þéttbýli, borga dreifbýlisgjald fyrir sína húshitun, sem hækkar um 5% á meðan aðrir íbúar í þéttbýli þurfa að taka á sig 4,5% hækkun. Hvers vegna OV sér ástæðu til að mismuna fólki svona er sjálfsagt verkefni fyrir fleiri fagmenn en bara viðskipta – og verkfræðinga til að útskýra.“

Hann segist vona að Orkubú Vestfjarða taki þessi mál til endurskoðunar á árinu: „Þetta er algjörlega óskiljanlegt og skömm af fyrir OV. Ég er viss um að OV eigi eftir að endurskoða þessa afstöðu þegar líður á árið 2017. Nýtt ár er tækifæri til að vinda ofan af allskonar vitleysu. Hef fulla trú á stjórnendum OV til að gera það.“

brynja@bb.is

Hæg breytileg átt og greiðfært

Það spáir hægri breytilegri átt á Vestfjörðum í dag og skýjað með köflum. Frost 0 til 5 stig. Sunnan 8-13 metrar á sekúndu og dálítil slydda á morgun. Hiti 0 til 4 stig. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er greiðfært nánast alla leið frá Ísafirði til Reykjavíkur, en hálkublettir á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum.

brynja@bb.is

Nýjustu fréttir