Síða 2365

Tæplega 90GWst framleidd í vatnsaflsvirkjunum

Á myndinni má sjá orkuframleiðslu 2015 og 2016.

Framleiðsla vatnsaflvirkjana Orkubús Vestfjarða fyrir árið 2016 var tæpar 90 Gígawattstundir (GWst). Árið 2015 var framleiðslan tæpar 93 GWst. Fram kemur í frétt á vef Orkubúsins að lækkunin hafi ekki verið vegna lakari vatnsárs, heldur vegna framkvæmda við Mjólká. En á meðan vélaskiptum stóð framleiddi Mjólká I ekkert í tvo og hálfan mánuð, sem nemur framleiðslutapi um tæpar 3 GWst.

Þegar samanburður síðustu tveggja vatnsára er skoðaður sést að bæði árin teljast mjög góð, segir í frétt hjá Orkubúinu.

brynja@bb.is

Ný færðarkort hjá Vegagerðinni

Svona lítur nýtt færðarkort Vestfjarða út á vef Vegagerðarinnar

Á vef Vegagerðarinnar er nú að finna ný færðarkort og leysa þau af hólmi kort af grænu Íslandi sem hafa sinnt þessari upplýsingaveitu í 20 ár. Kortin með upplýsingum um færð og veður hafa í áranna rás verið eitt mikilvægasta verkfærið í upplýsingamiðlun Vegagerðarinnar og á dögum vályndra veðra hafa heimsóknir farið yfir 80.000. Margt hefur breyst í tölvunotkun landsmanna frá árinu 1996 en þá tengdust heimili til að mynda netinu í gegnum módem. Snjallsímar voru þá langt inni í framtíðinni sem og spjaldtölvur og því kominn tími til að færa kortin í frekari nútímabúning er segir í frétt um nýja síðu á Vegagerðarvefnum.

Á nýju kortunum eru reitir sem birta upplýsingar um hitastig, vindátt, vindhraða, vindhviður og umferð. Framsetning upplýsinga í þessum reitum er mikið breytt og hún nú orðin grafískari. Sé smellt á reit kemur upp vefsíða með frekari upplýsingum, t.d. daggarmarki, veghita og raka. Vefsíðan birtir einnig línurit yfir upplýsingar frá veðurstöð aftur í tímann. Einnig er hægt að smella beint á vefmyndavélar til að sjá myndir frá viðkomandi stað.

Á nýju færðarkortunum er landið teiknað í þremur grátónum sem mynda litabreytingu á kortunum þar sem hæð nær 200 og 400 metrum yfir sjávarmáli. Á nokkrum vegum hefur vegnúmerum verið bætt við kortin og einnig hefur örnefnum verið fjölgað nokkuð á kortunum. Þá hefur kortum verið fjölgað og eru nú birt kort fyrir miðhálendið og fyrir Reykjavík og nágrenni. Litir sem tákna færð eru nánast þeir sömu og áður. Tákn fyrir aðstæður hafa verið betrumbætt og táknið „Fært fjallabílum“ er nú með mynd af jeppa í stað 4×4 táknsins sem áður var.

Tæknileg högum á framsetningu línuritanna er nú gjörbreytt því í stað þess að birta tilbúnar myndir með línuritum eru nýju línuritin teiknuð í vafra notandans á grundvelli gagna um veður og umferð síðustu sólarhringa. Nýju línuritin hafa m.a. þann eiginleika að þau aðlaga sig að skjástærð notandans. Einnig birta þau benditexta með ítarupplýsingum þegar notandi fer með mús yfir línuritin eða snertir þau á snjalltæki.

annska@bb.is

Ráðið í nafngift Ísafjarðar og Ísafjarðardjúps

Ísafjarðardjúp.

Mest lesna fréttin á vef Bændablaðsins í dag er grein undir heitinu „Hvers vegna bærinn Ísafjörður heitir Ísafjörður“ eftir Einar Jónsson fiskifræðing. Tilefni greinarinnar sem er æði löng og ítarleg má rekja til ljósmyndar af pollinum á Ísafirði í Bændablaðinu í byrjun nóvembermánaðar þar sem vísað var til nafngiftar Ísafjarðar og Ísafjarðardjúps. Ræður Einar í það á sinn hátt hversvegna bærinn beri nafnið Ísafjörður, þegar hann er í Skutulsfirði og fjörðurinn Ísafjörður í raun mun innar við Ísafjarðardjúp, sem hann segir að hafi ekki heitið það heldur einfaldlega Ísafjörður. Segir Einar lausn ráðgátunnar tiltölulega einfalda og furðar sig á að fræðimenn hafi ekki fram til þessa ráðið þessa gátu með eftirfarandi hætti:

„Málið er það að sá mikli flói eða fjörður sem nú er nefndur Ísafjarðardjúp hét alls ekki svo í upphafi heldur aðeins Ísafjörður og það er ekki fyrr en í byrjun átjándu aldar að annars skilnings fer að verða vart, þ.e. að orðið Ísafjarðardjúp sé ekki bara nafn á svæði utan eða í mynni hins forna Ísafjarðar heldur nái lengra inn og í kortasögu Íslands má síðan rekja hvernig þetta nafnabrengl eða nafnabreyting færist æ innar í Ísafjörðinn uns Borgarey er náð og er þá varla annað en innsti halinn eftir með nafninu Ísafjörður en hann hafði aldrei annað nafn en náði í upphafi allt út að Rit og ysta hluta Stigahlíða.“

Í greininni dregur Einar fram allmörg dæmi sem styðja við kenningu hans, líkt og úr Landnámu þar sem segir frá Þuríði Sundafylli og skattlagningu hennar: „„Hún setti og Kvíarmið á Ísafjarðardjúpi og tók til á kollótta af hverjum bónda í Ísafirði.“ Hér í lýsingu Landnámu eru allir hlutir strax morgunljósir. Hún sló eign sinni á Kvíarmið sem voru á Ísafjarðardjúpi en þar mun átt við djúpið fyrir og í mynni Ísafjarðar enda Kvíarmið enn vel þekkt í dag rétt SV af Ritnum. Síðan tók hún toll af hverjum bónda (kollótta á) í Ísafirði. Þetta orðalag tekur af allan vafa um að Ísafjörður var þá allur hinn stóri flói sem við í dag köllum Djúpið.“

Fjölmörg önnur dæmi eru dregin upp, líkt og kortaupplýsingar og skrif Eggerts og Bjarna. Greinina má lesa í heild sinni hér.

annska@bb.is

Listeria í sveppum

Enoki sveppir

Greinst hefur listeria í innfluttum sveppum frá Innnes og hefur Matvælastofnun og Innnes innkallað sveppapakkningar sem bera lotunúmerið LotL22. Um er að ræða svo kallaða Enoki mushroom og eru þeim lýst sem hvítum og grönnum.

Neytendum sem keypt hafa vöruna er bent á að neyta hennar ekki og skila vörunni til fyrirtækisins eða í viðkomandi verslun.

Listeria monocytogenes getur orsakað sjúkdóm bæði hjá mönnum og dýrum og kallast þessi sjúkdómur listeriosis. Einkenni sjúkdómsins eru mild flensueinkenni, vöðvaverkir, hiti og stundum ógleði og niðurgangur. Alvarlegri einkenni eru heilahimnubólga í ungbörnum, blóðeitrun og getur sjúkdómurinn einnig valdið fósturláti. Í einstaka tilfellum getur bakterían valdið dauða, þá er yfirleitt um að ræða einstaklinga sem eru með skert ónæmiskerfi.

Í flestum heilbrigðum einstaklingum veldur neysla á listeríumenguðum matvælum ekki sjúkdómi. Áhættuhópar eru barnshafandi konur, ófædd og nýfædd börn og einstaklingar með skert ónæmiskerfi. Hópsýkingar af völdum listeríu eru mjög sjaldgæfar, oftast er um að ræða einstaklingssýkingar.

bryndis@bb.is

Fiskverð nánast tvöfaldast

Verð á þorski og ýsu hefur nánast tvöfaldast á fiskmörkuðum frá því að verkfall sjómanna hófst fyrir þremur vikum. Allir bátar nema einn sem landa í Bolungarvík eru á sjó í dag.

Samúel Samúelsson hjá Fiskmarkaði Suðurnesja í Bolungarvík segir verðhækkunina vera gríðarlega: „Það er mjög mikil verðhækkun á öllum tegundum, þorskur og ýsa og skarkoli hafa hækkað gríðarlega mikið. Fyrir verkfall vorum við að selja þorskkílóið á 250 krónur, en hefur verið að seljast frá 500-600 krónur kílóið núna síðustu daga. Ýsan hækkaði gríðarlega en hefur lækkað aðeins, ég var að selja stóra línuýsu á svona 370-390 krónur, sem venjulega væri á 250 krónur kílóið“

Samúel segir verkfallið ekki hafa haft áhrif á markaðinn nema til góðs þegar litið er til verðhækkana: „Þetta verkfall hefur lítil áhrif á okkur nema til góðs, verðin hafa hækkað og aðeins einn bátur sem ekki rær hjá okkur, það er Sirrýin. Við vorum mjög óheppin með veður milli hátíða en í dag og í gær voru allir á sjó.“

Hann segist þó vona að deilan leysist bráðlega: „Maður óskar náttúrulega engum þess að vera í verkfalli lengur og vonar að deilan leysist. En þetta kemur ágætlega út hjá okkur á meðan gefur á sjó höldum við áfram að vinna. Við erum að selja 30-40 tonn á dag.“

brynja@bb.is

Sykurát minnkað um 10 kíló

Sykurmassakökur.

Sykurát á Íslandi hefur minnkað um tíu kíló á mann á hálfri öld. Á sama tíma hefur ofþyngd aukist. Þetta kemur fram í umfjöllun Ríkisútvarpsins um sykurát Íslendinga.

Gosdrykkjaþamb og sælgætisát hafi aukist. Laufey Steingrímsdóttir, prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, segir sykurneyslu Íslendinga vera samfélagslegt mál. Þessi mikla neysla á gosdrykkjum skaði heilsufar Íslendinga og það þurfi öll þjóðin að kljást við.

Þá kom fram í Kastljósi í gærkvöldi að Sigríður Hrafnkelsdóttir, formaður Félags lýðheilsufræðinga, telur nauðsynlegt að taka upp sykurskatt. Á Íslandi sé gosdrykkja 149 lítrar per íbúa en 45,5 lítrar per íbúa þar sem gosdrykkja er minnst, í Finnlandi.

brynja@bb.is

Krefjast þess að neyðarbrautin opni

Bæjarráð Hornafjarðar krefst þess að norðaustur/suðvestur-flugbrautin á Reykjavíkurflugvelli verði opin í neyðartilfellum á meðan aðrar lausnir í sjúkraflutningum séu ekki tiltækar. Bærinn sé afskekktur og langt sé í næstu aðstoð þegar þörf sé á liðsauka. Frá þessu var sagt hjá Ríkisútvarpinu.

Þar kom fram að sjúkraflugvél frá Mýflugi gat ekki flutt hjartveikan sjúkling frá Höfn í Hornafirði til Reykjavíkur vegna veðurs heldur þurfti að fara með hann til Akureyrar. Flugmaður hjá Mýflugi sagði í færslu á Facebook að þeir hefðu við þessar aðstæður getað nýtt sér norðaustur/suðvestur-flugbrautina en henni var lokað um mitt síðasta ár.

Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, segir ferlegt ef ekki sé hægt að lenda sjúkraflugvél í Reykjavík: „Við höfum ekki rætt neyðarbrautina sérstaklega eftir þessar fréttir að austan. Það er auðvitað alveg ferlegt ef ekki er hægt að lenda sjúkraflugvél í Reykjavík af mannavöldum, þar sem öflugasta sjúkrahús er landsins er staðsett. Það var samt gott að ástand sjúklings var þeim þeim hætt að hægt var að sinna honum á sjúkrahúsinu á Akueyri, því annars hefði getað farið verr.“

brynja@bb.is

Rafmagnstruflanir á Bíldudal

Unnið við rafmagnslínu.

Rafmagnstruflanir verða aftur á Bíldudal eftir hádegi í dag, miðvikudag. Þetta kemur fram á vef Orkubús Vestfjarða.

Bilun kom upp í spennistöð þegar tengja átti í gær og því verður verkið klárað í dag samkvæmt Orkubúinu. Áætlað er að rjúfa nokkur hús frá í útplássinu og verður það á milli kl. 13:00 og 15:00. Haft verður samband við notendur vegna þessa.

Einnig voru rafmagnstruflanir á Bíldudal í gær vegna tengivinnu.

brynja@bb.is

Fæðingartíðni lækkað samfellt frá 2009

Fæðingartíðni á Íslandi hefur minnkað samfellt frá árinu 2009, að einu ári undanskildu. Á sama tímabili hefur átt sér stað samfelld fólksfjölgun. Frá þessu var greint á vef Morgunblaðsins.

3.877 börn fæddust á Íslandi árið 2016. Til samanburðar voru fæðingar 4.098 talsins árið 2015.
Á flestum sjúkrahúsum var tilkynnt fækkun eða stöðnun fæðinga, samkvæmt bráðabirgðatölum, þar á meðal Landspítalinn. Sjúkrahúsin á Akureyri og Akranesi sáu fjölgun milli ára og var hún töluverð á Akranesi. Á nokkrum sjúkrahúsum er enn beðið eftir að fyrsta barn nýs árs líti dagsins ljós. Á Ísafirði er enn beðið eftir fyrsta barni ársins.

brynja@bb.is

Mugison tilnefndur til Króksins

Frá útgáfutónleikum Mugisons í Edinborg. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Ísfirski tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, er tilnefndur til Króksins tónlistarverðlauna Rásar 2. Veitt er sérstök viðurkenning til þess tónlistarmanns eða hljómsveitar sem skarað hefur fram úr í lifandi tónlist á árinu.

Í umfjöllun um Mugison segir „Mugison gaf út plötu á árinu eftir nokkuð hlé, hélt tónleika um allt land og endaði í Hörpu í Reykjavík með tvenna tónleika sem hlustendur Rásar 2 gátu notið síðastliðinn nýársdag. Með í för var hljómsveit þéttskipuð góðu tónlistarfólki sem náði að skila flóknum og stórum útsetningum plötunnar á aðdáunarverðan hátt. Mugison sjálfur sýndi svo enn og sannaði að hann er ekki bara fyrirtaks lagasmiður heldur einn af okkar bestu söngvurum.“

Verðlaunin kallast Krókurinn, og er nafnið vísun í Pétur Kristjánsson heitinn sem var þekktur fyrir magnaða sviðsframkomu. Þetta verður í þriðja sinn sem Krókurinn er veittur en áður hafa Dimma og Agent Fresco hlotið hann. Einnig eru tilnefnd Emmsjé Gauti, Of Monsters and Men og Soffía Björg.

brynja@bb.is

Nýjustu fréttir