Síða 2364

Gáfu Sæfara nýja báta

Einar Torfi, Valur Richter hjá Rörás og Torfi Einarsson við afhendingu kajakanna.

Siglingaklúbburinn Sæfari á Ísafirði var á dögunum færðir tveir nýir kajak bátar. Rörás, pípulagningafyrritæki, gaf bátana. „Þeir tóku sig til því við erum með aðstöðuna okkar beint fyrir framan gluggann hjá þeim og höfðu orð á því að þeir yrðu að gera eitthvað því það væri svo gaman að hafa starfið okkar hérna,“ segir Torfi Einarsson hjá Sæfara.
Bátarnir sem Sæfari fékk gefins eru svokallaðir „sit on top“ eða yfirsetnir kajakbátar, þetta eru breiðir og stöðugir kajakar sem eru mikið notaðir til veiða.

„Rörás ákvað sem sagt að gefa okkur þessa tvo splunkunýju báta á gamlársdag. Þetta er skemmtileg viðbót við þá báta sem við eigum. Þetta eru mjög stöðugir kajakar, sem venjulega eru notaðir mikið til skotveiða, sem við munum nú ekki gera, en krakkarnir geta farið og danglað með veiðistöng á námskeiðum sínum í sumar,“ segir Torfi.

„Maður þakkar auðvitað þessum fyrirtækjum fyrir, flest fyrirtæki hérna sýna okkur rosalegan velvilja og styrkja okkur,“ bætir Torfi við.

Nýju bátarnir skoðaðir.

Bæjarins besta 1. tbl. 34. árgangur 2017

Heimildarmynd um rafrettur

Myndin verður á dagskrá Ríkisútvarpsins í kvöld klukkan 20:05.

Fjallað var um svokallaðar rafrettur í Kastljósi í gærkvöldi. Þar var sagt frá heimildarmynd BBC með lækninum Michael Mosley, þar sem hann fjallar um rafrettur. Umdeilt þykir hvort og hvaða áhrif rafrettur hafi á heilsuna þó svo að einhverjir telji þær betri kost en sígarettur.

Á vef Ríkisútvarpsins kemur fram að í myndinni séu tekin sýni úr slímhúð og öndunarvegi Mosleys eftir að hann hafði reykt rafrettu í einn mánuð, hafandi aldrei reykt áður. Niðurstöðurnar úr sýnatökum hafi í raun verið sláandi því eftir þennan skamma tíma greindust bólgur í öndunarvegi hans og í slímhúð hans hafði svokölluðum átfrumum fjölgað í lungunum en þær framkalla hvata sem geta skaðað öndunarveginn ef áreitið verður of mikið í langan tíma.

Myndin verður á dagskrá Ríkisútvarpsins í kvöld klukkan 20:05.

brynja@bb.is

Met í notkun tauga- og geðlyfja

Íslendingar nota mikið af tauga- og geðlyfjum.

Mest er notað af tauga- og geðlyfjum hér á landi þegar notkunin á Norðurlöndunum er skoðuð. Þetta kemur fram í Læknablaðinu. Svíþjóð er í öðru sæti en þar er notkun slíkra lyfja þó um 30% minni en á Íslandi. Einnig kemur fram að talsvert beri á því að lyfjafíklar rápi milli lækna, sem ekki noti lyfjagagnagrunn, til að fá sömu lyfin.

„Ávanabindandi lyf eru hluti tauga- og geðlyfja en þetta eru lyf eins og ópíóíðar, svefn- og róandi lyf, róandi og kvíðastillandi lyf, örvandi lyf og sum flogaveikilyf. Heilsugæslan ber hitann og þungann af ávísunum þessara lyfja og margir sjúklinganna glíma við erfið veikindi, þar með talið við lyfjafíkn,“ segir í greininni.

Koma megi í veg fyrir lyfjaráp með að nota lyfagagnagrunn þar sem sjúkraskrárkerfi eru samkeyrð, en enn beri á því að læknar noti ekki kerfið eða séu ekki komnir með aðgang að slíkum upplýsingum: „Þegar þetta ástand lagast mun álag á heilsugæsluna minnka og gagnsæi batna. Það er því mjög mikilvægt að allir læknar noti grunninn og fletti þar upp lyfjasögu sjúklings við minnsta grun um lyfjafíkn eða annars konar misferli með ávanabindandi lyf.“

brynja@bb.is

Búið að aflýsa flugi

Búið er að aflýsa öllu flugi hjá Flugfélagi Íslands á landinu í dag. Flug til Nuuk í kvöld klukkan 19.45 er eina flugið sem enn á áætlun. Ofsaveður er víða um land, einkum á vestur og norðvesturlandi. Sterk suðlæg átt, er á landinu öllu, allt að 23 metrar á sekúndu og vindinum fylgir talsverð eða mikil rigning, einkum sunnan og vestanlands fram eftir degi. Þegar líður á daginn verður suðvestan hvassviðri eða stormur og éljagangur. Samkvæmt Veðurstofu Íslands eiga veðurskilin að ganga hratt yfir landið í kvöld og lægja í nótt. Næsti stormur er væntanlegur á sunnudagskvöld.

Samkvæmt Vegagerðinni eru hálka eða snjóþekja á fjallvegum á Vestfjörðum, óveður og hálka eða hálkublettir á láglendi. Éljagangur er víða. Á Vesturlandi eru sömuleiðis hálkublettir og éljagangur. Óveður er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku.

brynja@bb.is

15 samningum þinglýst

15 samningum vegna fasteignaviðskipta var þinglýst á Vestfjörðum í Desember 2016. Þar af voru 5 samningar um eignir í fjölbýli, 3 samningar um eignir í sérbýli og 7 samningar um annars konar eignir. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár Íslands. Heildarveltan var 603 milljónir króna og meðalupphæð á samning 40,2 milljónir króna. Af þessum 15 voru 6 samningar um eignir á Ísafirði. Þar af voru 3 samningar um eignir í fjölbýli, 1 samningur um eign í sérbýli og 2 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 496 milljónir króna og meðalupphæð á samning 82,7 milljónir króna.

Til samanburðar var 31 samningi þinglýst á Austurlandi, 110 á Suðurlandi og 104 á Norðurlandi.

brynja@bb.is

Engar bætur vegna snjóflóða

Viðar Kristinsson ræðir við Höllu Ólafsdóttur. Skjáskot úr Kastljósi

Í Kastljósi RÚV í fyrrakvöld var viðtal við Viðar Kristinsson á Ísafirði sem fyrir tæpum tveimur árum lenti í snjóflóði í Eyrarfjalli ofan bæjarins. Viðar var á fjallaskíðum með Hauki Sigurðssyni frænda sínum er þeir settu af stað snjóflóð ofarlega í brekkunni innan við Grænagarð, snjóflóðið hreif Viðar með sér og endaði hann ofan á flóðinu um 350 metrum neðar í brekkunni. Hann var illa brotinn á hægri handlegg, hryggjarliðir féllu saman og það þurfti að sauma yfir þrjátíu spor í höfuðið á honum. Haukur slapp naumlega og gat hann strax hringt eftir aðstoð og var fyrst hlúð að Viðari í brekkunni, en hann var svo fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem tók við langt og strangt bataferli.

Viðar var vel tryggður og hafði sérstaka frístundatryggingu sem hann hafði óskað eftir vegna þess að hann stundaði t.a.m. fjallaskíði og klifur, en þegar hann ætlaði að sækja bætur hjá tryggingafélagi sínu, Sjóvá, eftir slysið kom hann að lokuðum dyrunum. Í 69. grein tryggingaskilmála þeirra segir: „Félagið bætir ekki tjón sökum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða, vatnsflóða og annarra náttúruhamfara.“ Í svarbréfi Sjóvár var bent á að Viðlagatryggingar Íslands bætti munatjón í snjóflóðum. En Viðlagatryggingarnar höfnuðu kröfu Viðars einnig þar sem þar er aðeins bætt tjón sem verður við náttúruhamfarir. Þetta snjóflóð hafi hins vegar verið af mannavöldum.

Niðurstaða Hörpu Grímsdóttur, fagstjóra ofanflóðavaktar á Veðurstofunni var sú að flóðið teldist ekki til náttúruhamfara í eiginlegri merkingu þess orðs, þar sem það var af mannavöldum og segja má að mál Viðars hafi lent á milli báts og bryggju. Hann ætlar þó að halda málinu áfram með lögfræðingi sínum til að fá úr þessu skorið, þar sem hann telur frístundatrygginguna ná yfir slys af þessu tagi. Þar sem í tryggingaskilmálanna segir meðal annars: „Með orðinu slys er hér átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama vátryggðs og gerist án vilja hans.“
Í umfjöllun Kastljóss var meðal annars bent á að fólk hér á landi væri í síauknu mæli farið að stunda útivist allan ársins hring og þar á meðal fjallaskíðamennsku sem tæplega teldist lengur til jaðarsports og þyrfti það því að vera þess vel meðvitað hvað tryggingar ná yfir og hvað ekki – líkt og snjóflóð.

Umfjöllun Kastljóssins í heild sinni, þar sem meðal annars er að finna viðtal fréttaritara RÚV á Vestfjörðum Höllu Ólafsdóttur við Viðar.

annska@bb.is

Langvarandi undirfjármögnun heilsugæslna

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna, segir heilsugæslur á ‚Islandi hafa liðið fyrir langvarandi undirfjármögnun og stjórnunarvanda. Hann segir megin rekstrarmarkmið stærstu heilbrigðisstofnana sem reka heilsugæslu hafi verið að skila stofnunum réttum megin við fjárheimildir. Þá hafi árið 2008 komið átakanlegur niðurskurðu sem þjónustan hafi liðið fyrir.

Í grein sem Þórarinn skrifar í Læknablaðinu segir hann að heilsugæsla á landsbygðinni vera rekna með afleysingum í verktöku. „Heilsugæsla á landsbyggðinni stendur veikt og er læknisþjónustan víða rekin með aðstoð afleysara í verktöku. Slíkt er ekki boðlegt. Fórnarkostnaðurinn við að skila hallalausum rekstri hefur verið heilsugæsla í sárum sem ekki nær að sinna hlutverki sínu og starfsánægja í lágmarki,“ segir Þórarinn.

Um 100 milljón króna rekstrarhalli er á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á þessu ári. Og fram kom í fréttum í desember að mikil þörf sé á tækjaendurnýjun.

brynja@bb.is

Bolungarvíkurkaupstaður eykur þjónustu við tjaldgesti

Gert er ráð fyrir að endurnýja þjónustuhús við tjaldsvæðið í Bolungarvík á árinu. Markmiðið með húsbyggingunni er að auka þjónustu við tjaldsvæðagesti og verður húsið á opinn hátt tengt við sundlaugarbygginguna. Tjaldsvæðið í Bolungarvík er miðsvæðis í bænum með sundlaugina á aðra hönd og Hólsá á hina. Hið nýja þjónustuhús verður að stærstum hluta borðsalur fyrir gesti tjaldsvæðis, þar verður einnig eldunaraðstaða, þvottaaðstaða og salerni. Bæjarstjóri Bolungarvíkur Jón
Páll Hreinsson segir vonir bundnar við að byggingin verði tilbúin í vor og geti því þjónað gestum frá upphafi sumars.

Samhliða uppbyggingunni á tjaldsvæðinu verður farið í sérstaka markaðsherferð með það að markmiði að kynna hina nýju aðstöðu ásamt annarri þjónustu sem Bolungarvík hefur upp á að bjóða fyrir gesti sína. Í frétt á vef Bolungarvíkurkaupstaðar segir að allar spár gangi út á mikla aukningu ferðamanna til Vestfjarða næsta sumar og þessar framkvæmdir liður í því að bæta þjónustu við þá og auka aðgengi þeirra að Bolungarvík og auka þannig komur þeirra á þessu og næstu árum.

annska@bb.is

Allt innanlandsflug liggur niðri

Allt innanlandsflug liggur niðri vegna veðurs en sunnan stormur ríkir nú á landinu. Hjá Flugfélagi Íslands er búið að aflýsa flugi til Kulusuk, næstu upplýsingar vegna flugs til Egilstaða og Akureyrar er að vænta klukkan 11:15 og vegna flugs til Ísafjarðar klukkan 14:15. Vindur snýr sér er líður á daginn til vesturs og kólnar þá ört. Hjá flugfélaginu Erni á að athuga með flug klukkan 11:15.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir